24.11.2010 | 18:40
Lokaorð vegna Stjórnlagaþings
Aðeins tveir dagar til kjördags þegar við öll fáum það einstaka tækifæri til að kjósa beint 25 fulltrúa sem fá það hlutverk að rita nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Öruggt að við þessi eldri fáum ekki slíkt tækifæri aftur, jafnvel ekki sú kynslóð sem hefur kosningarétt í dag.
Fyrir það fyrsta þá bendi ég þeim sem vilja enn kynna sér svolítinn boðskap og hvatningu frá okkur frambjóðendum að fara á:
kjostu.org
Þar eru góðar leiðbeiningar fyrir þá sem enn eru ekki alfarið búnir að átta sig á því hvernig á að kjósa og hvatning frá okkur frambjóðendum til ykkar kjósenda til að koma á kjörstað og taka þátt í þessu einstaka tækifæri.
Til ykkar ágætu meðframbjóðendur
Hvatningarhópur frambjóðenda er okkar sameiginlega átak til að upplýsa kjósendur og hvetja þá til að kjósa, það er okkar hagur sem erum í framboði og landsmanna allra.
En við vissum alltaf það þyrfti að kosta einhverju til og því var búist við að hver og einn frambjóðandi legði fram nokkra upphæð, segjum 5.000 kr. inn á þessa bankaslóð;
526 - 14 - 402711 - kt. 440902-2270
Ef framlög verða umfram kostnað rennur mismunurinn til góðgerðarmála.
Að svo mæltu þakka ég fyrir skemmtilega kosningabaráttu ,
Sigurður Grétar Guðmundsson 4976
23.11.2010 | 14:55
Hvað með málskotsréttinn?
En ég er enn svilítið óákveðinn í hvort við ætlum að hafa Foreta eða ekki, en ef hann verður einn af hornsteinum stjórnskipunar landsins þá tel ég að hann eigi að hafa málskotsrétt.
En það eiga fleiri að hafa, bæði einhver hluti alþingismanna og einnig almenningur þá einhver ákveðim prósenta atkvæðisbærra manna.
En þjóðaratkvæðagreiðslur, um hvaða mál þær eiga að fjalla og hvernig er hægt að krefjast þeirra. Mér finnst að skilyrðin eigi að vera þröng, það gengur ekki að lítill minnihlutahópur geti krafist þjoðaratkvæðis um lítilsverð mál
Svolítið um framkvæmd þjóðaratkvaðagreiðslna. Þær þurfa alls ekki að vera svo dýrar í framkvæmd eins og Alþingiskosningar. Þó ég sé ekki einn af þessum mörgu tölvusnillingum þá sýnist mér að þjóðaratkvæðagreiðslur geti verið rafrænar. Þá geti hver og einn kosið í sínum heimabanka. ég veit að það eru ekki allir með heimabanka, margt eldra fólk er það ekki. Þá er tvennt til í spilunum; fara til nágrannans og kjósa þar eða að einhver miðstöð verði fyir þann fámenna hóp sem ekki á möguleika heima hjá sér eða hjá nágrannanum. Það yrði ekki hægt að kjósa nema einu sinni á hveri kennitölu og hugbúnaðurinn, sem tekur á móti atkvæðunum, hefur úrslitin klár þegar kjörtími er útrunninn.
Ég set þetta hér inn, ekki til að þetta fari í Stjórnarskrá, heldur til að vekja athygl á möuleikum tölvunnar.
Ég heyrði það frá einum frambjóðanda að honum hugnaðist ekki að í núverandi Stjórnarskrá eru þó nokkur ákvæði sem leyfa að um Stjórnarskrárbundin ákvæði megi fjalla á Alþingi til breytinga án þess að það teljist breyting á Stjórnarskrá. Ég tel að slíkt sé í meira lagi vafasamt, Stjórnarskrá verði ekki breytt nema þar sé ótvírætt um Stjórnarskrárbreytingu að ræða og þá verði málsmeðferðin í samræmi við það.
23.11.2010 | 14:16
Kjördæmaskipun og fjöldi þingmanna
Ég geri mér ljóst að eflaust er ég búinn að fjalla áður um það sem ég skrifa hér, þetta eru upprifjanir og áherslur
Kjördæmaskipun
Ég held að það sé óhætt að fullyrða að meiri hluti frambjóðenda til Stjórnlagaþings vill vinna að því að gera Ísland að einu kjördæmi, þar er einblínt á einn þátt eingöngu; jöfnun atkvæða.
Ég er efins um að gera Ísland að einu kjördæmi þó það tryggi jafnt vægi atkvæða, lengra verður tæplega komist í því. En ég óttast önnur áhrif, sérstaklega hættuna á auknu flokksræði. Eftir að Ísland hefur verið gert að einu kjördæmi verða allir framboðslistar matreiddir í Reykjavík á flokksskrifstofunum. Ég óttast að þar með verði áhrif hinna dreifðari og afskekktari byggða borinn fyrir borð. Möguleiki væri að jafnframt framboði lista verði einstaklingum heimilt að bjóða sig fram með ákveðnum fjölda meðmælanda. Einhver slík réttarbót yrði að fylgja verði Ísland gert að einu kjördæmi.
Fjöldi þingmanna
Annað sem er oft slegið fram af frambjóðendum til Stjórnlagaþings er að fækka skuli þingmönnum, líklega eru flestir þar að horfa til sparnaðar.
Ég held að flestir sem slíku varpa fram þekki lítið til starfa Alþingis. Það er dapurlegt ef það er almennt álit að þingfundir, sem hægt er að horfa á í Sjónvarpinu, sýni í hnotskurn það mikla starf sem fram fer á Alþingi. Aðalstarfið fer fram í þeim mörgu nefndum sem kosnar eru á Alþingi, nefndir sem hafa mismunandi verkefni, sumar fjalla um iðnað og atvinnumál aðrar um menntamál og ekki má gleyma þeirri sem ekki hefur mesta ábyrgð, fjárlaganefnd.Til að manna allar nefndir þingsins þarf ákveðinn fjölda, það væri miður ef hver þingmaður getur ekki einbeitt sér að einum málflokki í nefnd. Þess vegna er það mikill misskilningur að fjöldi á löggjafarsamkundu eins lands sé eitthvert hlutfall af fjölda borgaranna, það er ekki nema eðlilegt að fjöldi á löggjafarsamkundu fámenns lands sé hlutfallslega meiri en meðal stærri þjóða. Eitt atriði í viðbót; með sama fjölda þingmanna og nú er eru meiri líkur á að þar sitji þverskurður þjóðarinnar. Það mætti gjarnan setja hámarkstíma á hve lengi hver og einn má sitja á Alþingi. Þannig minnka líkurnar á að til verði stétt atvinnustjórnmálamanna sem aldir eru upp í flokkunum, rétt klára lögfræðiprófið og koma blautir á bak við eyrun til setu á Alþingi án þess að hafa komið nálægt atvinnuvegum eða brauðstriti þjóðarinnar.
Ef það tekst að gera þau skörpu skil sem nauðsynleg eru milli Alþingis og Ríkisstjórnar þá verða störf Alþingis mun skilvirkari, þá mun Alþingi hafa mun meira frumkvæði að lagasetningum. Það hefur lengi verið dapurlegt að fylgjast með því að Alþingi er á stundum óstarfhæft vegna þess að það bíður eftir frumkvæði Ríkisstjórnar, hún hefur nær alfari hrifsað til sín allt frumkvæði að lagasetningu eða hvað verður oft um þingmannafrumvörp, hve oft daga þau uppi?
23.11.2010 | 11:06
Við verðum að skapa skörp skil á milli Alþingis (löggjafarvaldsins) og Ríkistjórnar (framkvæmdavaldsins)
Nú þegar nær dregur kosningum til Stjórnlagaþings er ekki úr vegi að vekja athygli í stuttum pistlum á hver eru þau meginmál sem ég vil leggja áherslu á:
Viljum við halda í þingræði sem ríkjandi stjórnarform? Þá er ekki úr vegi að rifja upp örstutt hvað er átt við með þingræði.
Við kjóum fulltrúa á Alþingi, alþingismenn. Oftast skipa þeir sér í stjórnmálaflokka og eftir kosningar hefjast samningar milli flokka til að mynda Ríkisstjórn. Sú reglu hefur verið nær alsráðandi að einungis alþingismenn verða ráðherrar en þeir sitja samt sem áður áfram sem þingmenn.
Þetta er þingræði en þá kemur spurningin: Er þetta það eina sem kemur til greina sem stjórnskipun Íslands, erum við að skaða lýðræðið með því að hrófla við þessu?
Nei þetta er ekkert "heilagt" fyrirkomulag og það þarf síður en svo að skaða lýðræðið þó við þingræðinu sé hróflað.
Þetta er mín skoðun í stuttu máli:
Ráðherrar eiga ekki að sitja á Alþingi. Það á ekki að vera lögmál að það verði umfram allt þingmenn sem verða ráðherrar. Þingmenn sem þó verða ráðherrar segi af sér þingmennsku. Ráðherrar sitja ekki á Alþingi en hafa rétt til að koma á þingfundi til að mæla fyrir lagafrumvörpum en hafa ekki atkvæðisrétt. Einstakar þingnefndir hafa rétt til að kalla ráðherra á nefndarfundi til að nokkurs konar yfirheyrslu. Þarna er skilið á milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds.
Með þessu er endir bundinn á innihaldslaust þras á milli ráðherra og þingmanna svo sem með fyrirspurnum einkum frá þingmönnum í stjórnarandstöðu. Þegar ráðherrar fá fyrirspurnir á borð við "hvernig var brugðist við heillaóskum Hilary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna sl. 17. júní" eða "hvernig eru minkaveiðar skipulagar nú" þá hljóta allir að sjá að það verður að binda enda á þetta rugl sem framar öðru hefur stórskemmt orðstír Alþingis.
Er hægt að auka áhrif kjósenda á hvað Ríkisstjórn þjóðin fær efir kosningar? Er hægt að búa við þetta kerfi að einhver ríkisstjórn taki við völdum eftir kosningarog þá sambræðsla flokka sem eru búnir að bræða sín stefnumál, sem fólkið kaus, í einhvern allt annan bræðing en fram var settur fyrir kosningar?
Fram hafa komið hugmyndir, fyrst settar fram af Vilmundi Gylfasyni, um að forsætisráðherra yrði kosinn beinni kosningu og hann veldi síðan og skipaði ráðherra. Auðvitað yrði hver og einn sem býður sig fram til forsætisráðherra að setja fram skýra stefnu fyrir framkvæmdavaldið og það yrðu að vera fleiri umferðir kosninga þar til forsætisráðherra yrði kjörinn af meirihluta kjósenda.
Ætti slík ríkisstjórn að vera bundin af því að fá meirihluta stuðning á Alþingi?
Þetta kann allt að virka sem útópía á marga. Ég held samt að þarna sé verið að reifa eitt mikilvægasta mál sem Stjórnlagaþing mun fjalla um:
Aðskilnaður Alþingis (löggjafans) og Ríkisstjórnar (framkvæmdavaldsins) er algjör nauðsyn. Sú stjórnskipan sem nú er við lýði hefur gengið sér til húðar og haft í för með sér ýmiskonar subbuskap, jafnvel spillingu.
Þegar þessi mál hafa verið til lykta leidd er tímabært að ræða stöðu Forsetaembættisins.
Ætlum við að hala í það embætti og hvert á þá að vera hlutverk þess?
19.11.2010 | 11:59
Það verður að endurheimta eignarétt þjóðarinnar á auðlindum hafsins, ætlum við að gefast upp fyrir afturhaldsaflinu LÍÚ?
Mér er minnisstæð heimsókn til góðs vinar í Vestmannaeyjum. Hann ók mér um alla Heimaey, upp á nýja hraunið og að lokum umhverfis höfnina. Þar lágu reisuleg fiskiskip við festar. Hann benti mér á nýlegan togara af minni gerðinni og sagði "Þarna er arðsamasta skip flotans hér í Eyjum, það hefur þó ekki farið úr höfn síðustu árin". Ég varð eitt spurningamerki og skildi ekki neitt. "Einfalt mál, eigandinn nennti ekki að standa í þessu útgerðarströggli, fór í land og leigði kvótann. Hann lifir nú góðu lífi á þessum ágætu tekjum".
Ef eitthvað sýnir í hnotskurn það skelfilega sukk og spillingu sem íslenskur sjávarútvegur er sokkinn í þá er þessi litla saga efst í mínum huga.
Sú var tíðin að allir gátu róið til fiskjar og fiskað eins og hver vildi. Einkennilegt finnst mér samt að það var á þeim árum sem útlendingar, einkum Bretar, gátu fiskað eins og þeir vildu á íslenskum miðum. En með órofa samstöðu (slíkri sem okkur sárvantar nú í þjóðmálum í heild) var ekki látið staðar numið fyrr en við höfðum fengið lögsögu yfir 200 mílna belti umhverfis landið frá grunnlínupunktum. Þvílík breyting frá því að lögsaga okkar var einungis 3 mílur frá strandlengju.
En svo einkennilega bregður við að eftir að við leiðum vísindi inn í fiskveiðarnar og rekum alla útlendinga frá okkar fiskmiðum þá dregst afli saman. Þá er kvótakerfið innleitt, ekki hægt að komast hjá því segja menn. En eins og alltaf verður þegar gæði eru takmörkuð þá heldur spillingin innreið sína. Útgerðarmann sóttu fast á að fá kvótann eignfærðan og misvitrir stjórnmálamenn létu undan þrýstingnum enda áttu sumir þeirra beinna hagsmuna að gæta í sjávarútvegi. Fyrir tuttugu árum var kvótinn í rauninni gefinn útgerðarmönnum, hann gerður að braskvöru, keyptur, seldur og leigður.
Kvótinn er orðinn eign útgerðarmanna á ólöglegan hátt eins og dómar hafa staðfest. Þar með eru útgerðarmenn komnir með dýrmæta eign sem ekki aðeins má kaupa, selja eða leigja. Þess eign má ekki síður veðsetja og fá peninga í kassann, þá drukku útgerðarmenn eiturbikarinn í botn.
Ég átti í nokkrum skoðanaskiptum við útgerðarmann hér í Þorlákshöfn ekki fyrir löngu og hann viðurkenndi tvennt alveg óvænt. Í fyrsta lagi að íslenskur sjávarútvegur væri búinn að veðsetja sig upp í rjáfur, ekki aðeins í íslenskum lánastofnunum heldur einn í útlendum bönkum og í öðru lagi að skuldsetningin kæmi fyrst og fremst af þeim skelfilegu peningaútlátum greinarinnar til að kaupa þá, sem hættu útgerð, út úr greininni. Þannig hafa þeir sem hætt hafa mergsogið greinina, horfið á braut með mikið fjármagn sem þeir hafa ýmist braskað með í öðrum greinum eða notað til að lifa hinu ljúfa lífi í heimsborgum eða flatmaga á sólarströndum.
Það hefur aldrei staðið til að rústa íslenskri útgerð með því að vinda ofan af þessu skelfilega kerfi. Það er undarlegt að útgerðarmann sjálfir sjái ekki að það er verið að rétta þeim hjálparhönd til að draga þá upp ur því kviksyndi sem þeir eru sokknir í. Sú samningaleið sem þeir eru að þvinga fram er ekkert annað en framlenging á sukkinu og spillingunni, þessu verður að linna.
Ég fer inn á Stjórnlagaþing með opinn huga tilbúinn til að hlusta á allar góðar hugmyndir og tillögur sem þar koma fram. En ef ekki verður tekið á auðlind hafsins og hún færð aftur í þjóðareign þá sé ég ekki að til mikil sé barist.
Þarna verður að skera upp, þarna verður að grípa til róttækra aðgerða.
Þessu
19.11.2010 | 10:07
Eiga allar auðlindir, sem tilheyra Íslandi, að vera þjóðareign?
Nei, það get ég ekki.
Og hvers vegna spyrja eflaust margir undrandi?
Vegna þess að auðlindir á landi og í landi er mjög flókið mál, miklu flóknara mál en þeir sem drifnir eru áfram af tilfinningum einum átta sig á.
Það eru margvíslegar auðlindir á og í landi sem eru í einkaeign og ekki tel ég að við því eigi að hrófla.
Förum austur í Skaftafellssýslur. Þar hafa margir bændur virkjað bæjarlækinn og svo er reyndar víðar. Á Snæfellsnesi hafa verið byggðar einkarafstöðvar, vatnsaflsstöðvar, sem framleiða mun meira rafmagn en eigandinn hefur þörf fyrir. Þar er umframrafmagnið einfaldlega selt inn á landsdreifikerfið, viljum við þjóðnýta litlu virkjanirnar í bæjarlækjunum eða þessar litlu en þó stærri vatnsaflsvirkjanir?
Ekki er ég tilbúinn að vinna að því.
Ein mikil l auðlind eru fallvötn Íslands með eru í raun gjöful fiskimið. Þar hefur verið staðið vel að þróun mála og þess vandlega gætt að ekki sé gengið á stofnana og ekki nóg með það; mikil ræktun á sér stað víðast hvar þar sem þörf er á.
Vil ég þjóðnýta allar veiðiár landsins til að færa þær í þjóðareign?
Mitt svar er afgerandi nei.
Öll orkuver landsins, bæði þau sem framleiða raforku eða heitt vatn, eru í opinberri eigu, ýmist ríkisins (Landsvirkjun) eða í eigu sveitarfélaga (Orkuveita Reykjavíkur).
En áður en þessir opinberu fyrirtæki hafa getað virkjað, hvort sem það eru vatnsföll, jarðgufa eða heitt vatn sótt með borun, hafa þau orðið að semja við landeigendur og sveitarfélög til að fá vinnsluleyfin.
Þetta rek ég hér til að sýna fram á að það gagnar lítið að hrópa á strætum og gatnamótum að allar auðlindir í og á landi skuli vera þjóðareign. Þeir sem það gera hafa engan veginn krufið málið til mergjar því ef strangasta krafa þeirra sem ákafastir eru næði fram að ganga yrði að fara út í stórfellda þjóðnýtingu.
Vill nokkur í alvöru standa að því?
Ég er eindregið fylgjandi því að öll stærstu orkuver okkar séu í opinberri eigu svo sem er í dag, ég mæli sterkt á móti því að þau verði einkavædd þó ekkert mæli á móti því að þar geti einkaaðilar komið að fjármögnun, eins og ég mæli gegn algjörri þjóðnýtingu auðlinda hversu smár sem þær eru.
Ég ætla að lokum að biðja alla að ræða þessi mál af yfirvegum, án upphrópana byggðum á tilfinningum eingöngu, sem er ágætt að hafa með í bland. En rökhyggja og skynsemi þarf þar einnig að koma að.
Þá vil ég ekki síður biðja alla að gera greinarmun á auðlindum og nýtingu auðlinda. Þessu hefur því miður verið ruglað saman endalaust í opinberri umræðu, þar skulum við gera skil á málum, auðlind er eitt, nýting hennar annað.
Hér hef ég eingöngu rætt um auðlindir í og á landi.
Ég ætla að ræða um auðlindir hafsins í annarri grein.
17.11.2010 | 13:37
Fulltrúalýðræði, með rétti til að skjóta málum í þjóðaratkvæði, er sá rammi sem ég sé sem ríkjandi stjórnarform á landi hér
En lýðræðið með sínu fulltrúaveldi hefur reynst skásta stjórnarformið sem mannkynið hefur notað þrátt fyrir alla sína galla.
En hérlendis hefur því miður margt í grundvallareglum lýðveldisins verið fótum troðið á þessari og síðustu öld. Tveir valdamenn höfðu ekkert vald til að skipa Íslandi í flokk þjóða sem ýmist réðust á glæpsamlegan hátt inn Írak eða studdu innrásina, en gerðu það samt. Komin er út ævisaga hins merka stjórnmálamanns Gunnars Thoroddsen sem lýsir vel þeirri spillingu sem ríkti nær alla síðustu öld og ekki batnaði ástandið eftir að við komum fram á þessa öldina.
Ég er mjög hlynntur því að við sköpum öryggisventla fyrir að Stjórnarskrá sé haldin og stjórnsýslan og framkvæmdavaldið taki sér ekki meiri völd en það á að hafa samkvæmt okkar leikreglum.
Það munum við gera með ströngu eftirliti og ekki síður málskotsrétti til almenning, með réttinum að skjóta málum í þjóðaratkvæði.
En þar þurfum viða að vanda okkur, þjóðaratkvæði á að vera réttur sem umgangast á með virðingu. Það verða að vera ákveðnar, allt af því strangar reglur um hverjir hafa rétt til að skjóta málum í þjóðaratkvæði eða krefjast þjóðaratkvæðis.
Þá kemur tæknin til sögunnar. Með nútímatölvutækni þarf þjóðaratkvæðagreiðsla ekki að vera svo kostnaðarsöm. Við getum einfaldlega virkjað okkar heimabanka til þess að hver og einn geti kosið heima hjá sér, það er lítið mál að sjá til þess að aðeins sé kosið einu sinni á hverja kennitölu. Enn er einhver þjóðfélagshópur sem ekki hefur tileinkað sér möguleika tölvunar. Þeim verður að gera kleyft að fá aðstoð við atkvæðagreiðslur á þennan hátt.
Og um leið og atkvæðagreiðslu lýkur liggja úrslitin fyrir.
17.11.2010 | 13:01
Látum ekki umræðuna um aðskilnað ríkis og kirkju yfirgnæfa önnur og mikilvægari mál í aðdraganda kosninga til Stjórnlagaþings
Þetta mundi í sjálfu sér engu breyta um þjóðkirkjuna, samningar milli ríkis og kirkju mundu gilda áfram.
En eftir að ný Stjórnarskrá hefur verið samþykkt og hefur tekið gildi er það þjóðarinnar að ákveða stöðu evangelísku lútersku kirkjunnar hér á landi, það verði einfaldlega ákveðin í þjóðaratkvæðagreiðslu.
17.11.2010 | 11:23
Hvernig á að stöðva heimskulegar ákvarðanir frankvæmdavaldsins sem hafa í för með sér stórskaða og fjárjagslegt tap?
Það er ekki ólíklegt að nú segi einhver: Nefndu dæmi máli þínu til stuðnings.
Dæmið er Landeyjahöfn, vonlausustu framkvæmd síðari tíma. Það sem fær mig til að vekja máls á öllum þeim fjármunum sem þar munu sökkva í sandinn er glapræði Ögmundar Jónassonar og dómgreindarleysi að láta þá misvitru verkfræðinga sem hönnuðu þetta vonlausa mannvirki til að fleygja nú 180 milljónum til viðbótar í sandinn, í tóma vitleysu. Þar á að búa til varnargarð úr sandi til að færa árósa Markarfljót 2 km til austur!!!. Þetta er fyrsta vers. Í öðru lagi á að gera samning við dýpkunarfyrirtæki um stöðugan sandmokstur í vetur. Þetta er annað vers. Í þriðja lagi á að smíða sandplóg sem lóðsbáturinn í Vestmanna eyjum á að nota til að drag sand út úr höfninni. Þetta er þriðja vers, allt er þegar þrennt er.
Allt verður þetta unnið fyrir gíg. Það er ekki framburður Markarfljóts sem orsakar sandfyllingu Landeyjahafnar, það er hinn gífurlegi sandburður sem er á stöðugri hreyfingu út af og við ströndina. Skammt fyrir vestan Landeyjahöfn strandaði togarinn Surprise fyrir 40 - 50 árum. Skipið sat þar fast í sandinum og náðist aldrei af strandstað. Í dag sést hvorki tangur né tetur eftir af togaranum, sjórinn er búinn að grafa hann fyrir löngu í sandinn.
Sjórinn mun mjög líklega grafa undan hafnargörðum Landeyjahafnar og færa þá að lokum endanlega í kaf.
Það eina sem nú á að gera af viti er að hafna allri frekari peningasóun í þetta fyrirtæki, ákveða að ekki verði reynt að nota höfnina í vetur og Herjólfur fari sína gömlu leið til Þorlákshafnar. Vistmannaeyingum er ekki bjóðandi upp á þessa hringavitleysu að vita aldrei hvort siglt verður til lands í dag eða ekki.
Það eina rétta hefði verið að kaupa nýjan Herjólf, hraðskreiðari ferju sem hefði siglt á milli Þorlákshafnar og Eyja á innan við 2 klst.
Það er mikil þörf á því að inn í stjórnsýsluna verði settur öryggisventill sem getur komið í veg fyrir að anað sé út í vonlausar framkvæmdir og gífurlegt fjárhagstap.
Ekki ólíklegt að í nýja Stjórnarskrá verði að koma ákvæði um slíka málsmeðferð.
16.11.2010 | 12:06
Það getur ekki verið hagkvæmt að reka allan þennan fjölda af lífeyrirsjóðum hér á landi
Ragnar Ingólfsson stjórnarmaður í VR var gestur í Silfri Egils sl. sunnudag. Þar gagnrýndi hann hinn mikla rekstrarkostnað lífeyrissjóðanna. Ég hef löngum undrast hvaða þörf er fyir allan þennan fjölda. Sumir lífeyrisþegar lífeyrissjóðanna hafa fengið þunga skelli í töpuðum lífeyri vegna rýrnunar hjá nokkrum minni lífeyrissjóðunum, ýmist af röngum fjárfestinga stjórnendanna, en það hefur einnig komið fyrir að þeir sem þá áttu að annast þá hafa látið greipar sópa í sjóðunum og sumir jafnvel síðan hlaupist af landi brott.
En stjórnendur lífeyrissjóðanna eru í algjörri afneitun. Hrafn Magnússon framkvæmdastjóri Sambands lífeyrissjóða, Helgi Magnússon formaður Samtaka iðnaðarins og Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins ljúka upp einum rómi um að hjá lífeyrisjóðunum sé allt í blóma, hagkvæmni mikil og lágur rekstrarkostnaður. Ég held að það verði ekki hjá því komist að gerð verði úttekt á sjóðunum, þessir forystumenn falla í sama afturhaldpyttinn og LÍÚ, Þjóðkirkjan og Bændasamtökin, það má engu breyta, allt er eins og það á að vera.
En er það svo? Íslenskur hagfræðingur í framhaldsnámi í útlöndum sagði framtíðarhorfur lífeyrissjóðanna mjög dökkar og ekki langt í að þeir getir ekki staðið við skuldbindingar sínar.
Ætla forystumenn lífeyrissjóðanna að hundsa með ölu þessa gagnrýni? Hvað mælir gegn því að á Íslandi starfi einn hagkvæmur lífeyrissjóður og þannig verði sparaðar hundruðir milljarða í rekstrarkostnað?
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar