Það verður að endurheimta eignarétt þjóðarinnar á auðlindum hafsins, ætlum við að gefast upp fyrir afturhaldsaflinu LÍÚ?

Mér er minnisstæð heimsókn til góðs vinar í Vestmannaeyjum. Hann ók mér um alla Heimaey, upp á nýja hraunið og að lokum umhverfis höfnina. Þar lágu reisuleg fiskiskip við festar. Hann benti mér á nýlegan togara af minni gerðinni og sagði "Þarna er arðsamasta skip flotans hér í Eyjum, það hefur þó ekki farið úr höfn síðustu árin". Ég varð eitt spurningamerki og skildi ekki neitt. "Einfalt mál, eigandinn nennti ekki að standa í þessu útgerðarströggli, fór í land og leigði kvótann. Hann lifir nú góðu lífi á þessum ágætu tekjum".

Ef eitthvað sýnir í hnotskurn það skelfilega sukk og spillingu sem íslenskur sjávarútvegur er sokkinn í þá er þessi litla saga efst í mínum huga.

Sú var tíðin að allir gátu róið til fiskjar og fiskað eins og hver vildi. Einkennilegt finnst mér samt að það var á þeim árum sem útlendingar, einkum Bretar, gátu fiskað eins og þeir vildu á íslenskum miðum. En með órofa samstöðu (slíkri sem okkur sárvantar nú í þjóðmálum í heild) var ekki látið staðar numið fyrr en við höfðum fengið lögsögu yfir 200 mílna belti umhverfis landið frá grunnlínupunktum. Þvílík breyting frá því að lögsaga okkar var einungis 3 mílur frá strandlengju.

En svo einkennilega bregður við að eftir að við leiðum vísindi inn í fiskveiðarnar og rekum alla útlendinga frá okkar fiskmiðum þá dregst afli saman. Þá er kvótakerfið innleitt, ekki hægt að komast hjá því segja menn. En eins og alltaf verður þegar gæði eru takmörkuð þá heldur spillingin innreið sína. Útgerðarmann sóttu fast á að fá kvótann eignfærðan og misvitrir stjórnmálamenn létu undan þrýstingnum enda áttu sumir þeirra beinna hagsmuna að gæta í sjávarútvegi. Fyrir tuttugu árum var kvótinn í rauninni gefinn útgerðarmönnum, hann gerður að braskvöru, keyptur, seldur og leigður.

Kvótinn er orðinn eign útgerðarmanna á ólöglegan hátt eins og dómar hafa staðfest. Þar með eru útgerðarmenn komnir með dýrmæta eign sem ekki aðeins má kaupa, selja eða leigja. Þess eign má ekki síður veðsetja og fá peninga í kassann, þá drukku útgerðarmenn eiturbikarinn í botn.

Ég átti í nokkrum skoðanaskiptum við útgerðarmann hér í Þorlákshöfn ekki fyrir löngu og hann viðurkenndi tvennt alveg óvænt. Í fyrsta lagi að íslenskur sjávarútvegur væri búinn að veðsetja sig upp í rjáfur, ekki aðeins í íslenskum lánastofnunum heldur einn í útlendum bönkum og í öðru lagi að skuldsetningin kæmi fyrst og fremst af þeim skelfilegu peningaútlátum greinarinnar til að kaupa þá, sem hættu útgerð, út úr greininni. Þannig hafa þeir sem hætt hafa mergsogið greinina, horfið á braut með mikið fjármagn sem þeir hafa ýmist braskað með í öðrum greinum eða notað til að lifa hinu ljúfa lífi í heimsborgum eða flatmaga á sólarströndum.

Það hefur aldrei staðið til að rústa íslenskri útgerð með því að vinda ofan af þessu skelfilega kerfi. Það er undarlegt að útgerðarmann sjálfir sjái ekki að það er verið að rétta þeim hjálparhönd til að draga þá upp ur því kviksyndi sem þeir eru sokknir í. Sú samningaleið sem þeir eru að þvinga fram er ekkert annað en framlenging á sukkinu og spillingunni, þessu verður að linna.

Ég fer inn á Stjórnlagaþing með opinn huga tilbúinn til að hlusta á allar góðar hugmyndir og tillögur sem þar koma fram. En ef ekki verður tekið á auðlind hafsins og hún færð aftur í þjóðareign þá sé ég ekki að til mikil sé barist.

Þarna verður að skera upp, þarna verður að grípa til róttækra aðgerða.

Þessu 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Þarna ertu ekki sjálfum þér samkvæmur Sigurður, hvað viltu gera með mjólkurkvótann? er kannski engin spilling eða sukk þar? Ég er sammála þér um að fiskveiðiheimildir  eigi að vera í þjóðareign, en á meðan útgerðarmenn þurfa að kaupa kvóta, verður þeim að vera heimilt að veðsetja hann.  Það eru ekki margir sem ætla að byrja í útgerð og eiga fyrir kvóta eftir að hafa keypt skip.  Ef kvóti gengur ekki kaupum og sölu, er afar hætt við að útdeiling hans verði með svipuðu sniði og leyfi til bifreiðakaupa voru í byrjun 6. áratugarins, verði veitt samkvæmt flokksskírteini, ættartengslum eða fótboltafélagi. Þetta er dæmigert tilfinninga mál eða jafnvel eins og sagt er á góðri Íslensku "populismi", við verðum að vera sjálfum okkur samkvæm, auðlindir í þjóareign, einhverjir fá að nýta þær og greiði af þeim afgjald til þjóðarinnar(eiganda auðlindanna) í hlutfalli við ábata.  Mér þætti t.d. sanngjarnt að sá útgerðarmaður sem færir fiskinn til vinnslu hér á landi þurfi ekki að borga jafn hátt veiðigjald og sá sem flytur hann út án þess að til verði störf hér á landi við úrvinnslu aflans.

Kjartan Sigurgeirsson, 19.11.2010 kl. 12:36

2 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Stend með þér nafni en mundu að máttur LÍÚ er mikill.

Sigurður I B Guðmundsson, 19.11.2010 kl. 17:20

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég hef engar áhyggjur af raunverulegum útgerðum þótt aflaheimildir verði innkallaðar og leigðar. Þær útgerðir sem hafa verið vel reknar og skilað arði inn í fyrirtækin myndu án vafa halda sínum hlut. En með þessu yrði jafnframt auðvelt að sía út þau útgerðarfyrirtæki sem hefðu hagnast á því að leigja frá sér á okurverði þessa dýrmætu sameign þjóðarinnar.

Eins og pistlishöfundur benti á þá er kominn tími til að kippa þeim út úr kvótanum sem ekki hafa sjálfir veitt en aðeins tekið sér ábata af úthlutuninni einni. Um þetta eru mýmörg dæmi að sögn.

Hitt er svo rétt að í fámennisamfélagi okkar verður alltaf einhver einkavinaspilling hjá opinberum stofnunum. Þar mætti þó áreiðanlega margt laga með skilvirku eftirliti hjá embættismannakerfinu.

Árni Gunnarsson, 19.11.2010 kl. 17:21

4 identicon

Eigi bætir maður böl með að bemda á eitthvað annað.  Mjólkurkvótann þarf svo sannrlega að endurskoða en varðandi fiskveiðistjórnunina er kvótaframsalið mein sem verður að taka á.  Fyrirliggjandi kvótahafar ættu að geta haldið sínum kvóta og veitt hann sjálfir uns þeir hafa greitt lán sín niður með öflun sjávarfangs.  Nýjar aflaheimildir á að bjóða gegn auðlindagjaldi sem og svæðisbinda byggðunum til heilla.   Einnig á að stórauka strandveiðar.   Þetta verður eitt stóru málanna á komandi stjórnlagaþingi.

lydurarnason (IP-tala skráð) 20.11.2010 kl. 01:08

5 identicon

Thad á ekki ad gefa neitt eftir í thessu mikilvaegasta máli thjódarinnar.  THESSI EIGN THJÓDARINNAR ER ÓMETANLEGA VERDMAET.  MIKLU VERDMAETARI EN OLÍA EDA GULL.   OLÍA OG GULL ER BARA TIL Í VISSU MAGNI Á HVERJUM STAD.  EN SJÁVARAUDLINDIN ER ENDURNÝJANLEG.  THAD ER KJÁNALEGT, HEIMSKULEGT OG BARNALEGT AD PLOKKA ÚT EINSTAKLINGA OG AFHENDA THEIM THESSI VERDMAETI. 

ALLA STJÓRNMÁLAMENN SEM STADID HAFA AD THESSU KVÓTAKERFISKLÚDRI Á AD SAEKJA TIL SAKA.  THEIR ERU GLAEPAMENN.  THEIR ERU THJÓFAHYSKI. 

Sammála (IP-tala skráð) 20.11.2010 kl. 08:32

6 Smámynd: Kristinn Sigurjónsson

Þeir hafa líka farið um landið og talaði eins og fyrningaleiðin væri það sama og fjarlægin fisksins úr sjónum.    Fiskurinn verður áfram í sjónum og þessi byggðalög hafa því í reynd betri möguleika á að nálgast kvótann, þegar allir hafa jafna stöðu til að nálgast hann til ríkisins.   Fyrningaleiðin hefur oft verið miðuð við 20 ár, það þýðir að aðeins 5% fyrnist á hverju ári.   Hagsmunaðilar (bankar) tala aftur á móti eins og og hann hverfi og þá veðin líka um leið og farið verður að fyrna.   Þeir bera líka fyrir sér eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar, en þessir aðilar bera enga ábyrgð á þessari "eign" sinni.  Þeir hvorki fæða hana, heldur étur hún rækjur alveg frítt öðrum til tjóns og svo hefur hún drepist og úldnað einnig örðum til tjóns (síld í Breiðafirði) og "eigendurnir" hafa ekkert þurft að gera.  Já þetta er góð eign enda svo miklir hagsmunir í húfi að tjalda verður öllu til svo þeir missi hana ekki og til þess er bæði moggin og viðskiptablaðið (fiskifréttir) óspart notaðir.

 Nei kvótann á að fyrna á næstu 5 árum, enda eru þeir núna búnir að mjólka hann á fullu í 2-3 ár án þess að þurfa greiða nokkurn skapaðan hlut.

Kristinn Sigurjónsson, 20.11.2010 kl. 09:51

7 identicon

Góður pistill hjá nafna mínum. En er það fyrirhafnarinnar virði að taka kvótann frá LÍÚ til að gefa hann ESB?

Ps. Ég veit allt um nokkurra ára aðlögunartíma - og ofveiði og steindauð fiskimið á flestöllum nálægum ESB-hafsvæðum. Ég hef nefnilega átt lengi heima í Danmörku og hlustað grannt á hljóðið í dönskum sjómönnum. Og veit auk þess, hvað sá þjóðlegi jóla- og áramótamatur nýveiddur þorskur er orðinn torfenginn og rándýr. Brezkur og þýzkur sjávarútvegur er einnig hruninn. Lög ESB eru ekki umsemjanleg, aðeins árafjöldinn til að innleiða þau að fullu.

Sigurður (IP-tala skráð) 21.11.2010 kl. 23:04

8 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Nafni, við munum aldrei gefa ESB kvótann, það máttu bóka, slíkt yrði aldrei samþykkt á Íslandi. Ég er algjörlega fylgjandi umsókninni um inngöngu í ESB því því geta fylgt að mínu áliti svo margt jákvætt fyrir Ísland og ég vil ljúka umsóknarferlinu. Hins vegar hef ég margsagt að ég get ekki hér og nú ákveðið hvort ég muni greiða atkvæði með eða móti inngöngu, það fer allt eftir því hvað í samningnum stendur.

Danskir og breskir sjómenn hafa árum saman heimtað meir kvóta, fá að veiða meira. Ástand fiskimiða þar er í sjálfu sér ekki ESB að kenna nema þá að hafa látið undan heimtufrekju til veiða.

Lög ESB eru ekki uppsegjanleg, en hvaða þjóð sem er í ESB getur gengið út úr því hvenær sem er, það gerðu bæði Færeyingar og Grænlendingar.

Svo virðist að þeir sem þegar séu harðir gegn inngöngu í ESB séu logandi hræddir  samningsferlið milli Íslands og ESB. Ég er ekki í nokkrum vafa að ástæðan er sú að þeir óttast ekkert meira en að við náum fram okkar öllum veigamestu samningaatriðum og að þar komi samningur sem fái meirihluta fyki þjóðarinnar.

Sigurður Grétar Guðmundsson, 22.11.2010 kl. 08:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 113881

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband