9.11.2009 | 21:16
Varnaðarorð um Landsspítalann í tíma töluð
Því miður setti ég það ekki á mig hvað konan hét sem kom í Silfur Egils í gær og varaði eindregið við því gönuhlaupi að ætla að byggja nýjan Landspítala á gömlu Hringbrautinni. Mér hefur lengi verið það ljóst að það er yfirgengileg vitleysa að byggja spítalann út frá gamla spítalanum.
Rökin eru margskonar en nefnum þau helstu:
Umferð til og frá spítalanum kollvarpar endanlega því gatnakerfi sem fyrir er. Það verður að grafa bílagöng undir Öskjuhlíð, önnur undir Þingholtin. Það leysir þó ekki vandann, allar leiðir til austurs teppast á morgnana og aftur eftir vinnudag.
Að ætla að endurbyggja gömlu húsin, hið formfasta hús Guðjóns Samúelssonar og alla kofana sem hefur verið raðað þar í kring hver öðrum ljótari, er eitt af því sem er eins mikið óráð og nokkuð getur verið óráð.
Ný bygging á "frjálsum" stað í útkanti borgarinnar er tvímælalaust það sem er skynsamlegast.
Hvers vegna ekki í nánd við Vífilstaði?
Í nýjum spítala skipulögðum frá grunni þar sem ekkert gamalt og úr sér gengið er að þvælast fyrir gæti einnig orðið til þess að öll vinna innanhúss yrði skipulagðari, það er ekki nokkur vafi á að hluti af vanda spítalans er nú léleg afköst vegna slæms og óhentugs húsnæðis en það er fleira að.
Skipulag verka innan spítalans eru sumstaðar mjög slæmt þar sem gamlir kóngar og drottningar ráða ríkjum, tví- og þríverknaður er þar því miður allt of algengur.
En þetta er mein sem ekki má tala um!
9.11.2009 | 20:53
Umburðarlyndi, trúartákn og tóbaksreykingar
Ég held því fram að ég sé nokkuð umburðarlyndur en veit vel að ýmsir sem mig þekkja eru ekki sammála þessu eigin áliti. Ég er það sem kallað er trúlaus, ekki heppilegt orð, en minn skilningur á því að þeir sem trúlausir eru trúa ekki á neina guði. En auðvitað er enginn trúlaus, ég vil trúa á mína samvisku og það góða sem við getum sýnt öðrum og ekki síst sjálfum sér, það eykur vissulega eigin vellíðan. Því miður er þjóðkirkjan sífellt að smeygja sér inn í skólana, hún ætti að sjá sóma sinn í að koma þar hvergi nærri. Ef hún fær leyfi til þess á Ásatrú, Íslam, Búddatrú og auðvitað öll trúarbrögð að sitja þar við sama borð. En hver yrði afleiðingin?
Skelfilega fyrir ung börn, áhrifagjörn eins og öll ung börn eru.
En hvað um trúartáknin?
Mér er nákvæmlega sama þó sá sem ég ræði við er með kross í festi um hálsinn, eða hvort ung stúlka er með fallega slæðu um höfuðið. Þannig voru allar íslenskar kaupakonur til sveita langt fram eftir síðustu öld, þá var ekki í tísku a sólbrenna sér til skaða.
Ég við þess vegna ekki amast við trúartáknum, það á að vera ákvörðun hvers og eins hvort hann/hún ber þau eða ekki.
Ég var að halda því fram að ég væri umburðarlyndur. Ég hætti alfarið að reykja 1969, það var einhver besta ákvörðun sem ég hef tekið. Ég tók meira að segja uppáhaldspípuna mína og splundraði henni í skrúfstykki. Tóbaksreykur fer líka mjög mikið í taugarnar á mér, ég vil vera alfarið laus við hann. Samt sem áður tel ég að með lögum og reglugerðum sé gengið allt og langt á réttindi reykingamanna. Þeir eru að nota vöru sem er leyfð, já meira að segja seld í einkaleyfi útgefnu af ríkinu.
Ég flaug heim frá Danmörku sl. sumar, flaug frá Billund en þangað hafði ég aldrei komið áður. Þar sá ég einstaklega vel út fært afdrep fyrir reykingamenn þar sem þeir gátu setið milli tveggja glerveggja, verið í sambandi við lífið í flugstöðinni og reykt sitt tóbak án þess að nokkur yrði var við það, sterkt útsog bar burt bæði reyk og lykt.
Verum umburðarlind gagnvart trúuðum, leyfum þeim að bera sín trúartákn, gerum reykingamönnum kleyft að soga sitt eitur, það er ekki brot á lögum, aðeins að þeir láti aðra ekki gjalda sinna afglapa.
9.11.2009 | 12:20
Hægrikrati enn á ferð
Það er óralangt síðan síðasti Geirfuglinn hvarf af jörðu hér. Það er styttra síðan til var sérstök pólitísk tegund sem nefndust "hægrikratar". Þeir voru með flokksskírteini í gamla Alþýðuflokknum en völdu sér bólstað þétt upp við landamærin sem lágu að Sjálfstæðisflokknum. Lítið mátti út af bregða svo þeir færu ekki út um bakdyramegin þegar mikið lá við og skiluðu stundum atkvæðum sínum í kassa Sjálfstæðisflokksins. Sérstaklega stunduðu þeir þetta í Borgarstjórnarkosningum í Reykjavík, héldu þar Sjálfstæðsiflokknum við völd árum saman.
Satt best að segja hélt maður að þessi tegund pólitíkusa væri útdauð eða þannig. Sumir fóru yfir svo sem Gísli bæjarstjóri á Akranesi. Að vísu var hann keyptur yfir með þægindi ágætu sem hann settist þegar í og var hvorki meira ná minna en bæjarstjórastóllinn á Akranesi. Og þar virðist Gísli una hag sínum vel og vonandi verður hann þar áfram, enginn býst við honum yfir landamærin aftur.
Það er til einn Geirfugl hérlendis, reyndar uppstoppaður í Náttúrugripasafninu. En það er líka til einn ósvikinn "hægrikrati" ekki uppstoppaður og sprelllifandi.
Það er Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður á Morgunblaðinu og bókmenntaspekingur í Kiljunni.
Kolbrún segist vera búin að fá nóg af upphlaupsliði Vinstri grænna sem séu aftur og aftur tilbúnir til að taka stjórnarflokana í gíslingu. Vissulega er talsvert til í þessu hjá Kolbrúnu en hún sér ljósið og er greinilega búin að setja upp gömlu hægrikrata gleraugun. Hennar framtíðarsýn er að Samfylkingin slíti stjórnarsamstarfinu við Vinstri græn en myndi á stundinni aðra ríkisstjórn.
Hún vill fá aftur Þingvallamynstrið, að Samfylkingin myndi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Ja, þvílík framtíðarsýn!!!
Á Samfylkingin að ganga til samstarfs aftur við Sjálfstæðisflokkinn sem ber höfuð ábyrgð á hruninu mikla í október 2008? Á virkilega að horfa fram hjá því að Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn í herðar niður í mörgum málu?. Á að gleyma því að enn ríkir andi Davíðs Oddssonar yfir flokknum? Á að horfa framhjá því að þeir í flokknum sem eru jákvæðir gagnvart samningum við Evrópusambandið er haldið niðri hvað sem það kostar? Á að horfa fram hjá því að útgerðarauðvaldinu var færður allur fiskveiðikvóti Íslands til eignar, til að braska með, til að veðsetja hvarvetna þar sem einhverja peninga var að fá?
Ef Samfylkingin vill fremja pólitískt harakiri þá fer hún í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. En það verður ekki, ég held að Kolbrún sé síðasti hægrikratageirfuglinn.
9.11.2009 | 11:06
Mikilvæg ábending frá Guðmundi Ólafssyni hagfræðingi
Viðtalið við Guðmund Ólafsson hagfræðing og háskólakennara í Silfri Egils var með því athyglisverðasta sem þar hefur komið fram lengi. Þar benti Guðmundur skilmerkilega á að það hafa spekingar og hagfæðingar verið iðnir við að mála skrattann á vegginn um erlendar skuldir þjóðarbúsins. Ekki vildi hann nefna nein nöfn "málaranna" en Egill spurði hvort hann ætti við Gunnar Tómasson hagfræðing í NY og Lilju Mósesdóttur þingmann VG. Málið snýst einfaldlega um það að meirihluti erlendra skulda eru skuldir einkaaðila, ekki ríkisins og geta því aldrei fallið á ríkið eða almenning. Einn fjórði skuldanna er skuld eins félags sem raunar er víst eignarhaldsfélag. Ef lántakandi getur ekki borgað skuldina þá er það skaði hinna erlendu lánardrottna sem voru svo skyni skroppnir að lána íslenskum eignarhaldsfélögum peninga.
Þó Guðmundur vildi hvorki nefna nein nöfn um hverjir séu iðnir við að mála myndir af skrattanum þá þykist ég muna að þeir tveir fyrrnefndu hagfræðingar hafi rætt um það opinskátt að framundan væri greiðsluþrot Ríkissjóðs. Því miður eru enn að koma upp mál þar sem stjórnvöld gefa almenningi upplýsingar ekki nógu ítarlega og þeim fylgt eftir af krafti.
Lilja Mósesdóttir er einn af þessum nýju þingmönnum sem telja það vera farsælast til að gera sig gildandi að spila einleik. Lilja hefur lýst því yfir að hún muni ekki styðja lausn ICESAVE málsins sem hangir stöðugt yfir. Ekki veit hún hvort hún muni sitja hjá aða greiða atkvæði á móti. Hefur Lilja Mósesdóttir gert sér grein fyrir hvað tekur við ef Alþingi fellir ICESAVE samninginn? Það var hátt hrópað á Austurvelli síðasta vetur að leiðin út úr ógöngunum eftir fallið væri að setja alla þáverandi þingmenn af og fá nýja einstaklinga inn á þing. Lilja Mósesdóttir er einn af "nýliðunum" og hefur ekki unnið af ábyrgð og oft sett fram sjónarmið eins og Þór Saari sem ber ekki gott vitni um að þau nýti sér é réttan hátt þá menntun sem þau hlutu. Þá er ekki hægt annað en nefna Sigmund Davíð og Vigdísi Hauksdóttur sem nýja upphlaupskandídata og æði ábyrgðarlausa. Höskuldur Þórhallsson fylgir þeim dyggilega eftir þó hann sé ekki nýliði á þingi. Vigdís birti greinarstúf í Morgunblaðinu nýlega þar sem hún kenndi núverandi Ríkisstjórn um ICESAVE skrímslið. Að óreyndu hefði ég ekki trúað Vigdísi til slíks lýðskrums en lengi skal konuna reyna. Hún virðist geta án nokkurrar rumskunnar í eigin samvisku breitt yfir hlut þeirra Halldórs Ásgrímssonar og Valgerðar Sverrisdóttur í einkavæðingu bankanna sem er grundvöllurinn, ásamt fleiri mistökum þá, að hruninu mikla og þar með tilurð ICESAVE skrímslisins.
Valgerður, þú áttir bara að halda þig við blómin og gleymum ekki þorskhausunum hertu, í þessu tvennu ertu vissulega fær.
8.11.2009 | 12:25
Maður er nefnur Jochen Flasberth
Þessi mjög svo sérkennilegur maður var á dögunum skipaður Präsident des Umweltbundesamtes í Þýskalandi af Angelu Merkel kanslara. Hann mun þar með vera forseti stofnunar sem er æðsta ráð í Þýskalandi í umhverfismálum, ætli þetta sé ekki einhverskonar Umhverfisstofnun Þýskalands. Angela valdi hann vegna þess að hann er ákafur umhverfissinni enda tók hann þegar til starfa af miklum þrótti. Hans fyrsta stefnumörkun var að Þýskaland skyldi vera laust við koltvísýring CO2 árið 2050, þetta var engin hálfvelgja hjá Jochen, landið og íbúar þess skyldu vera lausir við þetta "eiturgas" 100% á þessum fjórum áratugum.
Einn ágætur prófessor að nafni Thüne kærði Jochen Flasberth til lögreglu fyrir að stefna að þjóðarmorði. Í landi þar sem búið væri að útrýma CO2 algjörlega þrífst ekkert líf, enginn hvorki menn né skepnur geta lifað við þessa vöntun og enginn gróður þrífst heldur.
Forsetinn fyrir Umhverfisstofnun Þýskalands hefur nú dregið aðeins í land. CO2 skal ekki útrýmt algjörlega en stefna skal að því að minnka það um 80%, ekki 100%, fyrir árið 2050.
Ef það tækist yrði lífið erfitt í Þýskalandi, en sem betur fer getur enginn mannlegur máttur afrekað það.
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.8.): 4
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 114282
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar