Zapatero áminnti Benedikt páfa

Benedikt páfi var í heimsókn í því rammkaþólska landi Spáni. Páfi hafði margt að athuga við ýmislegt sem þarlend stjórnvöld hafa hrint í framkvæmd svo sem að auka réttindi samkynhneigðra, leyfa getnaðarvarnir og jafnvel fóstureyðingar. En eins og allir vita er þetta allt eitur í beinum kaþólskra ráðamanna með páfann í broddi fylkingar. Þegar þeir kvöddust Zapatero forsætisráðherra og Benedikt páfi gaf Zapatero páfanum áminningu, minnti hann á að Spánn væri veraldlegt ríki þar sem engin trúarstofnun væri beinlínis rekin af ríkinu og trúfrelsi væri ríkjandi á Spáni. Undanfarið hafa allmiklar deilur spunnist um það hvað áhrif Þjóðkirkjan á að hafa í skólum landsins. Svolítið kómísk deila því þar eru margir sem vilja umfram allt halda þeim áhrifum sem Þjóðkirkjan hefur en hafa áður látið vel í sér heyra með hneykslun á múslímum sem víða haf sótt fast á að gera stjórnsýslu ríkja og trúarreglur múslíma eitt og það sama.

En svo vil ég nota þetta tækifæri á að undirstrika að önnur mál eru mikilvægari á Stjórnlagaþingi að mínu áliti en aðskilnaður Ríkis og Þjóðkirkju.


Biskupsstofa kannar afstöðu frambjóðenda til Stjórnlagaþings til sambands Ríkis og Þjóðkirkju

Ég, eins og allir frambjóðendur Stjórnlagaþings, hef fengið póst frá Biskupsstofu með tilvitnun í núverandi Stjórnarskrá svohljóðandi:

„Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.
Síðan koma tvær spurningar svohljóðandi:

1. Telur þú þörf á að breyta þessari grein? Ef svo er hvernig?
2. Hver er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?

Ég tel eðlilegt að sem flestir kanni skoðanir frambjóðenda til einstakra mála eins og Biskupsstofa gerir hér. Ég hef ekki svarað Biskupsstofa beint en vísað til þess sem ég hef skrifað um samband Ríkis og Þjóðkirkju hér fyrr á blogginu. Ef Biskupsstofa óskar frekar eftir beinum svörum mínum er sjálfsagt að að verða við því.

En ég get ekki látið hjá líða að koma inn á það sem mér finnst furðulegur misskilningur hjá kristnum einstaklingum, en tek fram að þar á ég ekki við þessa könnun Biskupsstofu, frekar einstaklinga sem ég hef heyrt í.  Ég hef lýst þeirri skoðun minni að Ríki og Þjóðkirkju eigi aða aðskilja algjörlega. En þá bregður svo við að sumir virðast taka þessa skoðun um aðskilnað Ríkis og Þjóðkirkju sem andúð og baráttu gegn kristinni trú. Í mínum huga er fyrirkomulag stofnana trúfélaga eitt, trúin annað. Það er enginn fjandskapur við núverandi Þjóðkirkju þó ég telji það réttlæti að Ríkið sé ekki að reka stofnanir ákveðinna trúarbragða. Ég hef einnig leitt að því rök að aðskilnaðurinn mundi frekar styrkja núverandi Þjóðkirkju en veikja hana.  

Eru ekki einhverjir öflugustu söfnuðir kristninnar hérlendis Fríkirkjusöfnuðirnir í Reykjavík og Hafnarfirði?


Hvernig er innivistin á þínu heimili?

Íslendingar búa flestir í góðum húsum, með góðum hitakerfum og flestir á svæðum þar sem hitaorkan er frekar ódýr. Það má fullyrða það jafnvel eftir síðustu hækkanir Orkuveitu Reykjavíkur og svo virðist sem Hitaveitur víðar ætli að sigla í kjölfarið. Einhversstaðar sá ég að Hitaveita Árborgar ætli að hækka heita vatnið hressilega.

En þetta er nógu langur inngangur því það tók sig upp gömul árátta, sú að koma með svolítinn pistil um góðar hitavenjur sem Íslendingar á hitaveitusvæðum hafa ekki vanið sig á vegna þess hve heita vatnið hefur verið ódýrt.

Tvennt er nauðsynlegt að hafa í huga til að manni líði vel innandyra og það er ekki vanþörf á að fara nokkrum orðum um það þegar kuldaboli er farin að sýna klærnar. 

a) Það er jafn slæmt að búa við og of mikinn hita eins og of lítinn. Æskilegur  innihiti er 20 -21°C, það finnst líklega flestum of lágt, en er ekki betra að halda lægra hitastigi og fara þá bara í peysu? Algengt hitastig á hitaveitusvæðum er 23 - 25°C. Við slíkan stöðugan hita líður engum vel og eftir að heita vatnið hækkaði í verði er rétt að benda húseigendum á að hann lækkar hitareikninginn um 5% fyrir hverja hitagráðu (°C) honum tekst að lækka hitann stöðugt.

b) Rakastig innanhúss er nokkuð sem nánast enginn hirðir um eða gerir sér ekki grein fyrir að sé eitthvað sem er mikilægt. Núna þegar frost er farið að sýna sig má búast við að rakastigið falli innanhúss. Rakastigið á ekki að vera lægra en 40%, mætti vera 50%, en víða er það um 30% og þaðan af lægra.

Tvennt ætti að vera til á hverju heimili 1) hitamælir 2) rakamælir. Ef þessi mælar sýna þér að hitinn er 25°C og rakstigið 28% þá má ætla að þér líði ekki nógu vel. Ef hitinn er 21°C og rakastigið 40% þá er öruggt að þér líður mun betur.

En hvernig á að halda stöðugu hitastigi og æskilega miklum raka?

Hitastillar á hitakerfinu (ofnakerfi/gólfhiti) eiga að sjá um rétt hitastig en þá verða hitakerfin að sjálfsögðu að vera rétt stillt. Það er ekki nóg að stilla hita á hitastilli (termóstati), það þarf einnig að stilla rennslið um kerfið.

Sértu með ofnakerfi og villt auka rakan á einfaldan hátt þá er gamla húsráðið að setja ílát með vatni á heita ofnana, það er einnig hægt sérstaklega í opnum eldhúsum, að sjóða vatn í potti. En öruggast er auðvitað að kaupa rakatæki, þau geta haldið rakanum hæfilegum og jöfnum.


Leiðir út úr skuldavanda fasteignaeigenda sem hafa verið reiknaðar út

Sérfræðinganefndin, sem Ríkisstjórnin skipaði, hefur lokið störfum. Nú þegar eru ýmsir farnir að agnúast út í störf sérfræðinganefndarinnar, en væri ekki rétt að skoða fyrst hvað kom út úr hennar starfi.

Í skýrslunni kemur fram að engin ein leið dugi ein og sér til að fækka heimilum sem eru í greiðsluvanda vegna húsnæðislána. Leiðirnar eru miskostnaðarsamar og misáhrifaríkar til að hjálpa þeim heimilum sem eru í vanda stödd.



Staða heimilanna

·    Um fjórðungur heimila landsins er ekki með skuldir vegna húsnæðis.

·    Vanskil tekjuhæstu 20% lántakenda Íbúðalánasjóðs eru þrefalt minni í dag en árið 2004. Þetta bendir til þess að þeir sem helst bættu stöðu sína síðastliðin ár standi enn vel og ráði vel við greiðslubyrði lána sinna.

·    Tekjulægstu 20% lántakenda Íbúðalánasjóðs eru færri í vanskilum nú en árið 2004.

·    3.651 manns, eða um 5% lántakenda, eru í þeirri stöðu að þeir eiga ekki fyrir grunnneyslu. Sérfræðingahópurinn telur að þessum hópi verður ekki bjargað með skuldaaðgerðum. Þá reynir á að fjármálastofnanir, ríki og sveitarfélög bjóði upp á húsnæðisúrræði.

·    Þá standa eftir 7.097 heimili sem eru í greiðsluvanda, (sé miðað við neysluviðmið Umboðsmanns skuldara + 50%) eða 10.666 heimili (sé miðað við tvöfalt neysluviðmið UMS).

·    Rúmlega 80% þeirra heimila sem eru í greiðsluvanda keypti fasteign á árunum 2004-2008.

·    Gengisbundin húsnæðislán eru í kringum 117 milljarðar og nema 8,4% af heildar fasteignaskuldum heimila 1. október. Þessi lán munu lækka verði frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um gengislán að lögum.

Misdýrar og misáhrifaríkar leiðir

·    Hækkun vaxtabóta er sú leið sem skilar mestum árangri miðað við kostnað, sé markmiðið að fækka heimilum sem eru í vanda. Við aðgerðina komast 1.450 heimili úr vanda, eða 20,5% þeirra heimila sem eru í greiðsluvanda. Kostnaður við hvert þeirra heimila er um 1,3 milljón á ári.

·    Dýrustu leiðirnar eru flöt 15,5% niðurfelling skulda og niðurfærsla skulda miðað við upphaflega lánsfjárhæð, ef fækka á heimilum í vanda. Kostnaður við hvert þeirra heimila er um 12,4 milljónir, ef fara á aðra hvora þessara leiða.

·    Ljóst er að engin ein leið hjálpar öllum. Þær dýrari þýða mikið högg fyrir ríkissjóð og lífeyrissjóðina, sem þarf að fjármagna með hærri sköttum, niðurskurði eða skerðingu lífeyrisbóta. Þær ódýrari gagnast frekar þeim sem minnst hafa milli handanna en skila litlu til þeirra sem hafa séð lán sín hækka, en eru þó ekki í greiðsluvanda.



Athyglisverðar niðurstöður

·    Færri eru í vanskilum við Íbúðalánasjóð nú en voru árið 1997.

·    Heildarskuldbindingar heimila hjá Íbúðalánasjóði eru 579 milljarðar en heildarútlán banka og sparisjóða til fasteignakaupa einstaklinga nema hins vegar 630 milljörðum skv. skýrslu sérfræðingahópsins. Lán lífeyrissjóða beint til fasteignakaupa nema 183 milljörðum.

·    Sérfræðingahópurinn taldi mjög erfitt, ef ekki útilokað, að meta þrjár þeirra leiða sem honum var falið að athuga. Þetta eru svokölluð tveggja þrepa nálgun, „LÍN-leiðin“ og eignarnám og niðurfærsla skulda með gerðardómi. LÍN-leiðin er talin gagnast tiltölulega fáum og koma lítt til móts við þá sem lakast standa. Sú leið felst í að afborganir verði tekjutengdar.



Sem fyrr segir þá voru 11 mismunandi leiðir til að bregðast við vandanum skoðaðar sérstaklega af hópnum. Þessar leiðir eru;

Sértæk skuldaaðlögun
Flöt lækkun skulda um 15,5%
Niðurfærsla skulda m.v. upphaflega lánsfjárhæð
Lækkun skulda að 110% verðm.eigna
Lækkun skulda að 100% verðm.eigna
Stiglækkandi niðurfærsla skulda að 90% af verðm.eigna
Hækkun vaxtabóta
Lækkun vaxta í 3%
Tveggja þrepa nálgun (sölu-/kaupréttur)
LÍN leiðin
Eignarnám og niðurfærsla skulda með gerðardómi.
 


Athyglisvert viðtal Þórhalls við Björk í Návígi í gærkvöldi

Ég játa strax; viðtalið kom mér mjög á óvart, jákvætt á óvart. Björk sýndi og sannaði að hún er ekki í hópi glamrara, hún hefur greinilega kynnt sér mál auðlindanna og orkugeirans á Íslandi mjög vel.

Það er vissulega hægt að þrasa endalaust um kaup Magma Energy á hluta af HS-Orku á Suðurnesjum. En þær deilur sem þar hafa risið koma ekki síst af því að við höfum ekki markað okkur stefnu í auðlinda- og orkumálum, það er kjarni málsins. Ég held raunar að við ættum að hætta að þrefa um Magma málið og láta það ná fram að ganga, allt annað er rugl. En sé okkur það ekki að skapi eigum við umfram allt að marka stefnuna til framtíðar það vel að við í framtíðinni verðum að finna okkur annað til að þrasa um. En stefnumörkunin er lífsnauðsyn og þá ákalla ég Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra um að ganga hratt til verks, ég trúi henni og treysti til forystu.

Þrennt gladdi mig sérstaklega sem Björk sagði í gær:

Hún benti á það sem og ég hef bent á áður en fengið litla athygli; nýting jarðgufu til orkuframleiðslu er allt annað mál en nýting vatnsafls. Á mínu bloggi er þessi pistill:

Notkun á jarðgufu eingöngu til raforkuframleiðslu er hrikaleg rányrkja á auðlind

Mér til nokkurrar furðu hef ég lítil viðbrögð fengið. En Björg kom réttilega inn á að við gætur ekki borað að vild og sótt endalaust gufu, jarðhitasvæðin eru viðkvæm en nóg um það; þeir sem ekki hafa lesið þennan pistil minn geta blaðað aftur til 8. okt. og þar er hann.

Í annan stað nefndi hún fiskinn í sjónum sem mér finnst fá allt of litla athygli sem auðlind. Auðlindaumræðan hefur eingöngu snúist um auðlindir á og í  landi, þess vegna verður þessi mikli hvellur út af Magma Energy, allt virðist ætla af göflunum að ganga vegna eignarhalds einkaaðila, ekki á auðlindinni heldur á nýtingu hennar. En þeir sem hæst láta þar virðast eingöngu taka við sér ef útlendingar koma með eignaraðild, en láta sér í léttu rúmi liggja þó íslenskir ríkisborgarar sölsi undir sig auðlindir okkar með dyggum stuðningi stjórnmálaafla. Mér liggur við að bera þetta saman við það að við kipptum okkur ekki upp við það að menn færu um rænandi og ruplandi einungis ef þar færu Íslendingar en legðum allt kapp á að góma slíka kóna ef þeir væru útlendingar.

Í þriðja lagi vil ég nefna þá róttæku hugmynd sem Björk setti fram; að breyta stálgrindaskálunum tveimur, sem búið er að reisa fyrir álver, í ylræktarver. Þarna mætist það sem ég hef lagt áherslu á; að ef við öflum gufu til orkuframleiðslu getum við ekki nýtt hana af viti og framsýni nema láta hana fyrst framleiða rafmagn og þar á eftir heitt vatn eða áframhaldandi sem gufu líkt og gert er á Nesjavöllum, Svartsengi og gert verður í Hellisheiðarvirkjun.

Ég benti á Kröfluvirkjun; hversvegna ekki ylræktarver þar?

 

 


Eru engin takmörg fyrir því hvað djúpt er hægt að sökkva sér í skotgrafirnar á Alþingi?

Ekki man ég eftir kvöldi í langan tíma þar sem svo margar jákvæðar fréttir hafa komið í fjölmiðlum. Þar á ég ekki síst við þau tímamót sem urðu á Suðurnesjum að frumkvæði Ríkisstjórnarinnar, fundi hennar með forystumönnum allra sveitarfélaga á svæðinu. Þetta er vissulega gleðileg tíðindi, þarna taka höndum saman um að efla atvinnu á svæðinu og uppbyggingu Ríkisstjórn, sem talin er vinstri stjórn, og sveitarstjórnir á Suðurnesjum sem að ég held allar teljist til hægri í pólitík.

Ætla mætti að þessu væri tekið fagnandi í stjórnsýslunni, á Alþingi ekki síst.

En það var öðru nær. Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Jón Gunnarsson og Guðlaugur Þór Þórðarson ruku í pontu og rökkuðu allt niður sem fram kom í í þessi samkomulagi  og hæddust að öllu þó flokksbræður þeirra á Suðurnesjum gangi fagnandi til verks. 

Líklegt þykir mér að þarna hafi lágkúran á Alþingi komist neðst í leðjuna.

En hvaða samkomulag var gert á Suðurnesjum í dag, er ekki fróðlegt að líta á það?

Hér á eftir fer listi yfir þau verkefni sem ríkisstjórnin samþykki á fundi sínum í morgun að ráðast í nú þegar:

Forsætisráðherra

1. Samráðsvettvangur stjórnvalda og sveitarfélaga á Suðurnesjum

Að myndaður verði formlegur samráðsvettvangur stjórnvalda ríkisins og sveitarfélaga á svæðinu um atvinnu-, mennta- og velferðarmál.

Dómsmála- og mannréttindaráðherra:

1. Flutningur Landhelgisgæslu

Að skoðaðir verði vandlega kostir þess að flytja starfsemi Landhelgisgæslu Íslands á öryggisvæðið á Miðnesheiði á Suðurnesjum og að framkvæmd verði hagkvæmniathugun á þeim kosti.

Fjármálaráðherra:

1. Gagnaver

Að lagt verði fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt er geri samkeppnisstöðu gagnavera hér á landi samkeppnisfæra við gagnaver í löndum innan ESB.

2. Verklegum framkvæmdum á þróunarsvæði Keflavíkurflugvallar verði flýtt

Að til að auka nú þegar möguleika til frekari atvinnuuppbyggingu á þróunarsvæðinu og skapa um leið aukna atvinnu við verklegar framkvæmdir verði 250 m.kr. veitt aukalega til þróunarfélags Keflavíkurflugvallar þannig að félagið geti hraðað þeim verkefnum sem ákvörðun hefur verið tekin um að ráðast í.

3. Kynningar- og markaðsátak á fasteignum á varnarsvæðinu (Kadeco og Fjárfestingarsvið Íslandsstofu)

Að hrundið verði af stað kynningar- og markaðsátaki á fasteignum á varnarsvæðinu en Þróunarfélag Keflavíkur á fjölmargar eignir á gamla varnarsvæðinu sem er nauðsynlegt að komist í notkun.

4. Hersetusafn á Suðurnesjum

Að Þróunarfélagi Keflavíkur verði falið að setja á stofn Hersetusafn á gamla varnarsvæðinu í einu af fjölmörgum húsum félagsins. Safnið myndi kynna merkilega og umdeilda sögu bandarísks herliðs á Íslandi allt frá síðari heimstyrjöld.

Iðnaðarráðherra:

1. Starfshópur um atvinnumál á Suðurnesjum

Að unnið verði með starfshópi um atvinnumál á Suðurnesjum sem iðnaðarráðherra hefur skipað og ný verkefni verði lögð fyrir starfshópinn sem rýnir þau og metur. Jafnframt muni starfshópurinn vinna nýjar tillögur í samstarfi við heimamenn og leggja fyrir ráðherra og stofnanir.

2. Klasasamstarf fyrirtækja á sviði líforku

Að stutt verði við verkefni sem Nýsköpunarmiðstöð hefur verið falið að hefja undirbúning að um klasasamstarf á sviði líforku sem tengist jarðvarmaverum á Reykjanesi.

Félags- og tryggingamálaráðherra

1. Hámarkstímabil atvinnuleysisbóta lengt í 4 ár

Að hámarkstímabil greiðslu bóta úr atvinnuleysistryggingasjóði verði lengt tímabundið úr þremur árum í fjögur ár.

2. Formlegt samstarf sveitarfélaga í velferðarmálum – ráðning verkefnisstjóra.

Ríkisstjórnin leggi fram fjármagn til að ráðinn verði starfsmaður/verkefnisstjóri sem haldi utan formlegt samstarf sveitarfélaganna Reykjanesbæjar, Grindavíkur, Sandgerðis, Garðs og Voga á sviði velferðarmála sveitarfélaganna á svæðinu. Verkefnisstjórn skipuð lykilfólki frá sveitarfélögunum og fulltrúum Vinnumálastofnunar, Íbúðalánasjóðs og Umboðsmanns skuldara myndar samráðshóp sem vinnur með verkefnisstjóranum. Velferðarvaktin verði verkefnisstjórn og verkefnisstjóra til ráðgjafar og haldi utan um verkefnið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar/félags- og tryggingamálaráðherra. Verkefnið er hugsað sem fyrirmyndarverkefni sem önnur svæði gætu síðar ýtt úr vör.

3. Útibú umboðsmanns skuldara á Suðurnesjum.

Umboðsmaður skuldara fái aðstöðu á Suðurnesjum og taki þar á móti fólki sem þarf á þjónustu embættisins að halda. Til að byrja með þarf að setja tvo starfsmenn í verkið þar sem nauðungasölur eru hlutfallslega mjög margar á Suðurnesjum m.a. tífalt fleiri en á höfuðborgarsvæðinu.

Mennta- og menningarmálaráðherra


1. Þróun á nýju og fjölbreyttara námsframboði.

Rekstrargrundvöllur menntastofnana á Suðurnesjum verði tryggður og samstarf þeirra styrkt með sérstakri fjárveitingu sem svari til greiðslu launa tveggja sérfræðinga í fullu starfi í tvö ár sem fái það verkefni að þróa nýtt og fjölbreyttara námsframboð og styrkja ráðgjöf og hvatningu til þeirra sem minnsta menntun hafa eða eru án atvinnu.

2. Fiskitækniskóli Íslands.

Fisktækniskóla Íslands verði tryggt eitt stöðugildi.

Þetta er það sem þeir alþingismenn Sjálfstæðisflokksins þeir Jón Gunnarsson og Guðlaugur Þór Þórðarson töldu sig hafa stöðu til að rakka niður og hæðast að. Mér segir svo hugur um að ýmsir flokksfélagar þeirra á Alþingi kunni þeim litlar þakkir fyrir.


Ríkissjóður á hundruðir milljarða króna hjá Lífeyrissjóðum landsins, fé sem þeir geta braskað með að vild

Einn ágætur bloggari, líklega einn af þeim gleggri á tölur og peningagildi, velti upp mörgum hliðum þess að lina skuldabyrði almennings sem er ekki einfalt mál. M. a. kom framhjá honum að niðurfærsla fasteignalána gæti orðið Lífeyrissjóðum landsins þung byrði, svo þung að Ríkissjóður yrði jafnvel að hlaupa undir bagga og veita fé í Lífeyrissjóðina. Hann benti jafnframt á að Ríkissjóður ætti að fá teygjuband á þessi fjárframlög, greiða þau á allt að tíu árum.

En er ekki eitt að gleymast? Í allri skattheimtu er það regla að skatt skal greiða um leið og skattstofn verður til, þannig er það bæði um tekjuskatt og fjármagnsskatt og að ég held um alla aðra skatta. 

Nei, það er ein undantekning. Lífeyrisgreiðslur í Lífeyrissjóði eiga að bera skatt en sá skattur er ekki tekin af stofninum um leið og hann verður til. Sá sem fær greiðsluna til varðveislu og ávöxtunar fær einnig að halda skattgreiðslunum árum saman sér til ábata, líklega geta þessir skattpeningar verið í umferð Lífeyrisjóðanna í ártugi, eru fimmtán tugir ára ekki mögulegir?

Ef svo fer að Lífeyrissjóðirnir standa ekki undir þeim afföllum sem skuldaniðurfelling hefur í för með sér þá þarf Ríkissjóður ekki að leggja þeim til  fjármagn beint. Það gæti hins vegar verið í formi þess að Ríkissjóður gæfi eitthvað eftir af hinni miklu skattaskuld Lífeyrissjóðanna, sá sem á stórfé hjá öðrum aðilum getur tæpast þurft að leggja þeim til fé þó tímabundnir erfiðleikar steðji að.


KJördæmaskipun landsins hefur alltaf verið vandræðabarn

Sá sem er í framboði til Stjórnlagaþings er að sjálfsögðu orðinn æði upptekinn að velta fyrir sé málefninu sem bíður; að setja Íslandi nýja Stjórnarskrá.

Eitt af því sem þar bíður að fást við er vægi atkvæða sem oft hefur verið æði misjafnt. Aldrei mun það þó hafa verið jafn slæmt og vægið ójafnara en á 4. ártug síðustu aldar. Svo langt gekk það að Framsóknarflokkurinn bar ægihjálm yfir aðra flokka og atkvæðafylgið  ekki í neinu samræmi við þingmannafjölda flokksins. Margar tilraunir hafa verið gerðar til jöfnunar á vægi atkvæða með breytingum á kjördæmum en oftast riðlast það jafnvægi fljótlega vegna búferlaflutninga.

Það virðist vera nokkuð almenn skoðun landsmanna að eina ráðið til jöfnunar sé að gera Ísland að einu kjördæmi. Það er vissulega rétt að þá hefur náðst algjör jöfnuður.

En hefur Ísland eitt kjördæmi  engar neikvæðar hliðar?

Ég hef alla tíð verið nokkuð gagnrýninn á landið sem eitt kjördæmi og óttast það neikvæða sem fylgir. Það sem ég óttast mest er að með því eflist flokksræðið og finnst víst mörgum að það sé nægilegt fyrir. Við þetta fyrirkomulag, landið eitt kjördæmi, býður hver flokkur fram aðeins einn lista hvort sem það eru gömlu flokkarnir, fjórflokkurinn margumtalaði, eða ef til vill mergð nýrra flokka sem bjóða fram;  framboðslistar yrðu settir saman í höfuðstöðvum flokkanna í Reykjavík.

Yrði þetta ekki lyftistöng fyrir flokksræðið?

Þrátt fyrir Ísland eitt kjördæmi er ekki loku skotið fyrir það að til verði sérframboð og þá einkum á landbyggðinni. Þeir listar gilda að sjálfsögðu sem listar bornir fram á landinu í heild. En á þetta má minnast, Ísland eitt kjördæmi er ekki trygging fyrir að ekki verði landshluta togstreita.

En hvernig er hægt að tryggja að kjósandinn geti jafnvel kosið einstaklinga? Verða þeir þá að vara frambjóðendur á flokkslistum?

Er það gerlegt að einstaklingar geti einnig boðið sig fram til Alþingis í þessu stóra kjördæmi. Íslandi öllu?


Hafa tölur jákvæð eða neikvæð gildi?

Þar sem ég er frambjóðandi til Stjórnlagaþings, 1 af 523, þá hef ég fengið mitt númer sem væntanlegir kjósendur mínir skrá á kjörseðilinn í komandi kosningum.

Mitt númer er 4976

Einn ágætur vinur minn hér í Þorlákshöfn kom að máli við  mig ábúðarmikill í gær og spurði mig þeirrar sérstæðu spurningar hvort ég ætti mér einhverjar happatölur. Ég kvað nei við þó oftar en einu sinni hefði ég fengið ábendingar í einhverju spjalldálkum að ég ætti mér eina slíka, en látum það liggja milli hluta, ég hef ekki tekið mark á slíkum boðskap.

Spyrjandinn varð nú ábúðarmeiri og spurði af mikilli alvöru hvort ég forðaðist ákveðnar tölur eða hvort ég óttaðist að þær boðuðu ógæfu. Mér varð víst nokkur hlátur í hug og svaraði að því síður óttaðist ég neikvæð áhrif nokkurra talna, hvorki einfaldra né samsettra. Vini mínum var greinilega létt og skýrði fyrir mér hver væri grunnurinn að þessari könnum.

Hann hafði skyndilega gert sér grein fyrir því að ef lagðir væru saman tveir fyrstu stafirnir í kjörnúmeri mínu til Stjórnlagaþings kæmi út talan 13 og ekki nóg með það; ef lagðir eru saman tveir seinni tölustafirnir kemur einnig út talan 13.

Ég sagði sem var að aldrei hefði ég haft beyg af tölunni 13 á því yrði engin breyting nú.

Kannski verður talan 13 einmitt mín happatala í komandi kosningum?


Dapurlegt hvernig komið er fyrir Morgunblaðinu

Ég átti góða samleið með Morgunblaðinu í 16 ár, árin sem ég skrifaði pistlana Lagnafréttir. Lengst að var Magnús Sigurðsson umsjónarmaður Fasteignablaðsins sem Lagnafréttir birtust í, við áttum alla tíð hið besta samstarf. Það kom fyrir að Styrmir Gunnarson legði mér lið en þetta var á þeim árum sem hann og Matthías Johannessen voru búnir að endurreisa Morgunblaðið og gera það að víðsýnum fjölmiðli þó ekki kæmist það alfarið hjá því að leggja Sjálfstæðisflokknum lið.

En nú er öldin önnur. Einhverntíma hefði það þótt saga til næsta bæjar að í Morgunblaðinu birtist annar ein leiðari og þar sást í gær. Hann var uppfullur af rætni, hæðni en ekki síst af minnimáttarkennd og öfund. Efni leiðarans var þjóðfundurinn um helgina sem eflaust gefur þeim 25 sem kjörnir verða á Stjórnlagaþingið góðar ábendingar.

Tryggvi Gíslason, sá gagnmerki skólamaður,  hefur svarað þessum leiðara á yfirvegaðan hátt með festu og fengið stuðning minn og fleiri með athugasemdum við sinn pistil.

Að lokum vona ég að Morgunblaðið nái aftur þeirri reisn sem það bar undir stjórn Styrmis og Matthíasar, sökkvi  ekki á kaf í að verða sorapyttur og útrás fyrir geðillsku þess sem finnur að hann er búinn að tapa fyrri tiltrú, grefur þar með sína eigin gröf.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Nóv. 2010
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband