29.11.2009 | 22:49
"ClimateGate" skandallinn, svo virðist sem Fréttastofa Ríkisútvarpsins sé svo hlutdræg að hún stingi öllum fréttum af svindlinu undir stól
Ég ætlaði vart að trúa mínum skilningarvitum þegar ég horfði á "Fréttaskýringaþáttinn" í Sjónvarpinu í kvöld. Þar var fjallað um loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem verður sett í Kaupmannahöfn eftir viku eða svo. Þangað hefur tekist að smalað öllum helstu stjórnmálamönnum heimsins til að gera nýja Kyoto samþykkt um hvernig skuli berjast gegn einni gastegund, koltvísýringi CO2, og skattleggja alla heimsbyggðina eftir fremsta megni.
Ekki eitt einasta orð hefur komið frá Fréttastofu Ríkisútvarpsins um einhvern mesta vísindaskandal heimssögunnar sem var nýlega afhjúpaður. Falsanir sem eru svo umfangsmiklar að þessi gjörð gengur undir nafninu "ClimateGate" Þeir vísindamenn fjölmargir, sem standa á bak við kenninguna um að koltvísýringur CO2, ein mikilvægasta undirstaða alls lífs á jörðinni, ráði mestu um loftslag heimsins og sé stöðugt að orsaka hlýnun þess, hafa verið afhjúpaðir. Þeir hafa hagrætt og svindlað á gögnum til að sanna kenninguna um CO2 sem orsakavald.
Samt leyfir Fréttastofa Ríkisútvarsins sér að koma með Fréttaskýringaþátt sem að hluta er unnin úr áróðri Al Gore. Saklaust fólk er dregið fram og látið vitna um eyjar sem séu að sökkva, hvítabirnir sýndir og sagðir í útrýmingarhættu og svo var auðvitað viðtal við Árna Finnsson!!!
Fréttastofa Ríkisútvarpsins er sek um fáheyrða hlutdrægni.
Fram að þessu hefur aðeins DV og visir.is sagt frá "ClimateGate" hneykslinu en í dag rak einn fjölmiðill, Morgunblaðið, hressilega af sér slyðruorðið. Í sunnudagsblaðinu er mjög góð grein um þetta svindl og í gær var í blaðinu ágæt grein um svindlið eftir Friðrik Daníelsson verkfræðing.
27.11.2009 | 16:46
Það er "ástsælt" að fara "erlendis" og "versla" jólagjafir
Ég var að fá póst á netinu frá Olís þar sem ég er einn af lyklabörnunum. Þar er mér boðið að koma í Ellingsen á Granda á morgun og "versla jólagjafir" með 20% afslætti.
Nú er ég svo skrítin skepna að ég "versla" aldrei jólagjafir en það kemur fyrir að ég "kaupi" jólagjafir ef ég á einhverjar krónur í buddunni.
Það eru ekki ýkja mörg ár síðan rætt var um "að það væri vinsælt að fara til útlanda og kaupa jólagjafir".
Nú er ég ekki að reka áróður fyrir svoleiðis flakki. En ég mótmæli þeirri lágkúru sem er orðin svo áberandi hjá tveimur starfsstéttum; fjölmiðlamönnum og ekki síður textahöfundum á auglýsingastofum.
Það er með ólíkindum á hve skömmum tíma þessu fólki tekst að útrýma góðum og gildum orðum í íslensku máli og koma með í staðinn, oft á tíðum, algjör orðskrípi.
21.11.2009 | 13:27
Aukum veiðar á þorski
Það er engin spurning; við eigum að auka veiðar á þorski, við höfum ekki efni á því að láta þorskinn verða ellidauðann í sjónum í stórum stíl eða láta hann synda til okkar nágranna sem ekki fúlsa við slíkri gjafmildi.
Ég er dæmigerður landkrabbi en hver fylgist ekki með sjávarútvegi og fiskveiðum. Hef ætíð haft meira álit á ráðgjöf Jóns Kristjánssonar fiskifræðings og Kristins Péturssonar fiskverkanda á Bakkfirði en á ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar. Hafrannsóknarstofnun finnur ekki þorskseiðin en einn ágætur Grímseyingur sagðist í hádegisfréttum geta upplýst Hafró um hvar þau eru.
Jóhann Sigurjónsson, hættu að leita og hringdu norður til Grímseyjar, það er miklu ódýrari leið til að finna seiðin en skrapa alla firði.
Eftir yfirgengilegt stjórnleysi og vitleysu undanfarin sukkár virðist sem svo að komin sé upp ákveðin stirðleiki í kerfinu; nú þora menn vart að taka ákvarðanir, tæplega að ræða róttækar aðgerðir til að koma okkur úr vandanum sem fyrst.
Við eigum að taka djarfar ákvarðanir og fylgja þeim eftir:
Auka fiskveiðar og skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði, ekki aðeins séreignasparnað heldur allar inngreiðslur.
21.11.2009 | 11:58
Starfsmaður óskast á ferðaskrifstofu, maður sem hefur unnið á innanlandssviði (incoming).
Það er ekki hægt að ætlast til þess að fáfróðir Íslendingar skilji hvað það er að vinna á innanlandsviði, auðvitað verður að fylgja þýðing á stórveldamál, þetta þýðir sem sagt á alheimsmáli "incoming".
Þetta er úr auglýsingu sem birtist í fjölmiðli í morgun, laugard. 21. nóv. 2009.
20.11.2009 | 10:22
Algjörlega sammála Pétri Blöndal
Hversvegna er hugmynd Sjálfstæðismann um skattlagningu á inngreiðslur lífeyrissjóða ekki tekin til gagngerrar skoðunar?
Ég blogga um þetta mál hér að neðan en eftir að hafa hlustað á Pétur Blöndal alþingismann og fulltrúa lífeyrissjóðanna (hvers nafn ég greip ekki því miður) í gær í Kastljósi þá er ég enn sannfærðari um að þetta er leið sem við eigum að fara. Það er langt síðan ég hef heyrt frá "ábyrgum" manni jafn miklar rökleysur og komu fram hjá lífeyrisjóðafulltrúanum.
Lítum aðeins á rökleysur hans:
1. Hann hélt því fram að lífeyrissjóðirnir þyrftu, ef þetta yrði tekið upp, að losa og selja eignir. Hvers vegna, lífeyrissjóðirnir eru ekki að greiða neitt út, þeir fá hins vegar minna í kassann og geta ekki legið með skattpeninga ríkisins í áratugi og vaxtað þá vel eða illa eftir atvikum.
2. Hann sagði þetta verð ákaflega flókið mál. Þessi breyting er í mínum huga sambærileg og þegar við tókum upp staðgreiðslukerfi skatta, enginn vill hverfa frá því kerfi.
3. Hann sagði að við værum að taka frá börnum og barnabörnum, þau mundu fá sítt úr lífeyriskerfinu en hvað um samneysluna? Að sjálfsögðu fær hún sitt, á hverju ári koma inn skatttekjur til ríkisins á nákvæmlega sama hátt og frá staðgreiðslu skatta, skatttekjur sem skila sér betur en ef þær eru teknar af útgreiðslum.
4. Skatttekjur skila sér nær 100% við skattlagningu á inngreiðslum, en við eftirágreiðslu skatta glatar ríkið alltaf einhverju vegna þess að fjöldi lífeyrisþega fær aldrei greitt út að fullu það sem hann hefur greitt inn. Hvað gerist ef lífeyrisþegi fellur frá rétt áður en hann kemst á aldur til að taka lífeyri? Erfingjar fá eitthvað en hvað um þá sem enga nákomna ættingja eiga?
Ég átel núverandi Ríkisstjórn fyrir að hafa ekki tekið þetta mál föstum tökum og notað þetta mikla peningaflæði til að loka fjárlagagatinu frekar en að fara út í þessa skattheimtu sem alltaf verður sársaukafull þó reynt sé að gæta fyllsta réttlætis. Ég átel Sjálfstæðismenn fyrir að hafa ekki fylgt þessu máli eftir með hörku og ákveðni í stað þeirrar hálfvelgju sem þeir hafa sýnt.
Ég krefst þess að Ríkisstjórnin, og þá sérstaklega fjármálaráðherra, skýri fyrir mér og þjóðinni allri hvaða meinbugir séu á þessari leið. Einhverjir meinbugir kunna að vera á málinu, en ég sé þá ekki.
14.11.2009 | 14:55
Sóðalegasti sorakjaftur landsins orðinn framlenging á penna Davíðs Oddssonar
Morgunblaðinu var bjargað frá gjaldþroti og útrýmingu og flestir héldu að tækifærið yrði notað til að efla blaðið sem víðsýnan fréttamiðil þar sem allir gætu komið skoðunum sínum á framfæri, en svo varð aldeilis ekki. Það mátti sjá hvað klukkan sló þegar hinn afdankaði forsætisráðherra og seðlabankastjóri, Davíð Oddsson, var gerður að ritstjóra. Var furða þó sá grunur læddist að mörgum að þarna ætti "sá fyrrverandi" að fá tækifæri til að naga og stinga fyrrum andstæðinga, en ganga svo einnig vasklega fram í því að verja í líf og blóð mesta rán Íslandssögunnar, ránið á fiskinum í sjónum, gjöfinni til gæðinganna. Ekki síður að berjast hatrammlega gegn endanlegri könnun á því hvað biði okkar í Evrópusambandinu sem ekki er hægt að fá úr skorið nema með því að sækja um aðild og fara í alvöru aðildarumræður. Þetta mátti ekki gerast, koma kynni í ljós í þeim umræðum að hag okkar yrði tvímælalaust betur borgið innan ES en utan.
Það er staðreynd að fjölmargir mótmæltu strax og sögðu blaðinu upp. Ég var ekki einn af þeim, ég var pistlahöfundur Morgunblaðsins í 16 ár og fann ætíð gott viðmót þar meðan Styrmir Gunnarsson var ritstjóri. Ég vildi sjá hver þróunin yrði, Morgunblaðið og morgunkaffið hafa í mörg ár verið óaðskiljanleg, erfitt að skera á þau bönd. Kannski mundu hraklegustu spár ekki rætast.
En nú er svarið komi. Það mátti auðvitað vera sterk vísbending að hlutdrægasti fjölmiðlamaður landsins, Agnes Bragadóttir, fékk að að sitja áfram við sína Gróu á Leitis tölvu í ritstjórninni. En ég var enn með svolitla von; kannski mundi Eyjólfur hressast.
En endanlega svarið kom í morgun laugardaginn 14. nóv. árið 2009.
Á þeim degi birtist í Morgunblaðinu nýr pistlahöfundur, greinilegt að það var kominn nýr "Laugardagspistill" og höfundur hans er persóna sem nefnist Sverrir Stormsker. Ritstjóri sem velur sér til hjálpar sóðalegasta sorakjaft þessarar þjóðar hlýtur að hafa með því ákveðinn tilgang.
Sá tilgangur er augljós.
Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins er lagður í krossferðina; að lemja niður þá sem hann telur að verði að jafna um, fólk sem hann stundum fann fyrir minnimáttarkennd gagnvart. Já vissulega ótrúlegt að ætla að Davíð Oddsson viti hvað minnimáttarkennd er, en sú kennd leynist víða og birtingarmynd hennar er oft andstæðan.
En Davíð Oddsson leggur ekki í það að koma framundir eigin nafni þegar sorinn skal vera sem mestur; hann fær sér leiguþý og sá fyrsti í þeim hópi er Sverrir Stormsker, vart hægt að fá hæfari mann til verksins. Engum kemur á óvart að fyrsti einstaklingurinn sem sorakjafturinn skal níða niður er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Níðgrein Sverris Stormskers (SS) um Ingibjörgu Sólrúnu er algjört einsdæmi í nútímanum, slíkt níð hefði jafnvel þótt fulllangt gengið á hinum margumtöluðu Hriflutímum sem svo eru nefndir og var þó Jónas frá Hriflu ekkert verri í skrifum sínum þá en margir aðrir sem voru á þeim dögum í pólitíkinni.
Ég vil benda alþjóð á að þegar þessi soragrein er lesin ættu lesendur að gera sér grein fyrir því að Sverrir Stormsker (SS) er ekkert annað en leiguþý. Þessi soragrein er á ábyrgð ritstjórans Davíðs Oddssonar og ekki nokkur vafi að hún er skrifuð að hans undirlagi og með hans velþóknun. Ég tel fullvíst að Sverrir Stormsker (SS) hafi verið fenginn ganggert til að vinna þetta verk; alt bendir til að næstu laugardaga verði framhald á skítkastinu og fyrrum andstæðingar Davíðs Oddssonar rakkaðir niður af orðljótasta manni landsins, sá mun gelta þegar honum verður sigað.
Þessi grein skiptir sköpum fyrir mig. Ég mun á eftir senda Morgunblaðinu uppsögn á áskrift til áratuga. Ég vona að sem flestir fari að dæmi mínu og segi blaðinu upp. Það þarf að fá þá ráðningu sem það á skilið. Það endar líklega sem sorppollur sem gamall uppgjafapólitíkus notar til að ná sér niður á þá sem áttu í fullu tré við hann.
Það munu verða endalok Morgunblaðsins.
14.11.2009 | 11:55
Hversvegna ekki taka skattinn strax við inngreiðslur í lífeyrissjóði?
Einn bloggari fór mikinn í morgun uppfullur af hneykslun á því að það eigi að skattleggja lífeyrissjóðina.
Það hefur ekki nokkrum manni dottið í hug.
Hinsvegar eru allar greiðslur manna í lífeyrissjóði, bæði frá sjóðfélaganum og mótframlag atvinnurekandans, skattlögð. Í dag eru þær skattlagðar við útgreiðslu, allir sem fá greitt úr lífeyrissjóði verða að greiða skatt af þeim greiðslum. Þetta er ekki skattlagning á lífeyrissjóðina heldur á þær greiðslur sem sjóðfélaginn fær.
Þó ég sé Samfylkingarmaður og eindreginn stuðningsmaður núverandi Ríkisstjórnar á finnst mér að það þurfi að skýra það betur fyrir almenningi af hverju tillaga Sjálfstæðismanna um að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði í stað útgreiðslur er ófær leið, á endanum verður þetta skattlagt og er ekki nema eðlilegt.
Einhverstaðar var kippt í spottann og Sjálfstæðismenn voru ekki staðfastari en það að þeir fylgdu málinu ekki eftir. Ég sá einhversstaðar sagt að þetta gæfi Ríkissjóði 40 milljarða árlega, það væri ekki svo lítið upp í hið margumrædda fjárlagagat og mundi lina stórlega þá þungu skattbyrði sem verið er að leggja nú á þjóðina.
Fullyrðingar Steingríms fjármálaráðherra að með skattlagningu á inngreiðslur sé verið að taka frá framtíðinni og afkomendum okkar skil ég ekki, lífeyrisþeginn fær sitt, hann tapar engu og sem eldri borgari væri það sálrænt jákvæðara að fá þá litlu greiðslu sem ég fæ úr lífeyrissjóði að fullu, skatturinn afgreiddur fyrir löngu.
Hinsvegar verða vaxtatekjur lífeyrissjóðanna lægri og veltan minni við skattlagningu á inngreiðslur, þeir fá ekki tækifæri til að ráðskast með skattpeninga þjóðarinnar ártugum saman og eyða í yfirgengilegan rekstrarkostað og bruðl við stjórnun lífeyrissjóðanna.
En Steingrímur, mig vantar skýringar á orðum þínum og afstöðu.14.11.2009 | 11:21
"Marteinn" með því ömurlegasta sem sést hefur í Sjónvarpinu
Sat heima í gærkvöldi og horfði á sjónvarpið öðru hvoru. Hafði ekki séð fyrsta þáttinn af "Marteini" gamanþætti sem tekinn er skv. amerískum staðli, áhorfendur eru viðstaddir upptökur, í gamanþætti er þá treyst á að ekki þurfi að nota niðursoðin viðbrögð eða hlátur, það á að eftirláta hverjum og einum áhorfanda að ákveða viðbrögðin.
Það er skemmst frá því að segja að þarna var á ferðinni "gamanleikur" sem var bara alls ekkert gaman að horfa á. Ekki vantaði góða leikkrafta en eins og ég sagði í umfjöllun (og lofi) um "Hamarin", kvikmyndir og sjónvarpsleikrit standa og falla með góðu handriti. Í "Marteini" var reynt að raða saman aulabröndurum og fyrirmyndin var svo amerísk að útidyrnar eru í stofunni, nokkuð sem er óþekkt fyrirbrigði á Íslandi.
10.11.2009 | 12:21
Hversvegna var frítekjumark aldraðra lækkað?
Aldrei hefur nokkur Ríkisstjórn á Íslandi barist við viðlíka erfiðleika og sú ríkisstjórn sem nú situr. Ég er eindreginn stuðningsmaður stjórnarinnar og það verður að styðja hana með öllum ráðum út kjörtímabilið. Ef vel tekst til getur samstarf núverandi stjórnarflokka orðið lengra. Ég hef hér á undan í blogginu lagt út af þeirri bábilju að Samfylkingin eigi að hverfa að samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Framsóknarflokkurinn hefur gjörsamlega klúðrað því tækifæri sem hann fékk til að endurnýja sig.
En þó maður styðji stjórnina er ekki þar með sagt að hún eigi ekki að fá gagnrýni frá stuðningsmönnum sínum. Enn og aftur kemur það í ljós að þeir sem eru á miðjum aldri og yngri, jafnvel þó yfir miðjum aldri séu, hafi harla lítinn skilning á kjörum aldraðra. Þetta er að koma í ljós aftur og aftur. Ef gengið er á kjör þess sem er þrítugur á hann alla möguleika á að hann geti náð einhverri leiðréttingu, en hvað um þann aldraða?
Ég hélt upp á 75 ára afmæli mitt nýverið, fékk margar góðar gjafir og óskir. En ég fékk eina gjöf frá þeirri Ríkisstjórn sem ég styð sem setur mikið strik í mínar áætlanir sem geta engan veginn verið á sömu lund og þess þrítuga, hann á reikningslega séð ótal tækifæri í framtíðinni, það á ég tæplega. Ég er af þeirri kynslóð sem þekkir það að engir lífeyrissjóðir voru til. Ég er líka af þeirri kynslóð sjálfstætt starfandi einstaklinga sem ekki fóru að sinna lífeyrisgreiðslum fyrr en alltof seint, ekki fyrr en lögboð kom þar um. Hins vegar er ég þó nokkuð hress og tel mig búa yfir nokkuð mikilli þekkingu í mínu fagi, en ég titla mig nú sem vatnsvirkjameistara & orkuráðgjafa og það er það síðarnefnda sem ég hafði hugsað mér að stunda þó nokkuð meðan ég hef möguleika til.
Það sem gerði mig bjartsýnan á að svo gæti verið var sú ákvörðun fyrri ríkisstjórnar að hækka frítekjumarkið upp í 1.300.200 kr. á ári, það gaf mér ástæðu til að ég gæti gert gagn sjálfum mér og öðrum án þess að tapa nokkru í þeim tekjum sem ég hef frá TR og lífeyrissjóðum upp á næstum því 125.000 kr!!!
En Adam var ekki lengi í Pardís. Núverandi Ríkisstjórn lækkaði frítekjumarkið og það ekki um neitt smáræði.
Það er komið niður í 480.00 kr. á ári!
Þegar þessi staðreynd blasti við mér sá ég að það væri ekki mikið sem ég gæti unnið og miðlað af minni tækniþekkingu, sem þó er ekki lítil þörf fyrir, og ég ætla að fullyrða að sé þjóðhagslega hagkvæm. Ég mætti ekki hreyfa mig mikið svo þessar litli lífeyrir sem ég fæ færi ekki að skerðast. Ef ég væri nógu harður af mér gæti ég farið að fullu út á vinnumarkaðinn aftur og reynt að afla mér þeirra tekna að ég geti sleppt þessum lífeyriskrónum. En satt að segja er það æði mikil ákvörðum fyrir þann sem orðinn er 75 ára gamall og tæplega fær leið. Þá er ekki annað en að þiggja þennan lífeyri og reyna svo að sitja sem mest heima og afla ekki umframtekna.
Nú nokkur orð til þín minn gamli samborgari úr Kópavogi Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra.
Ég get engan vegið skilið það að þessi harkalega lækkun á frítekjumarki aldraðar skili nokkrum tekjum til Ríkissjóðs, það getur einmitt virkað öfugt. Ég hef að framan rakið nokkuð í hvaða gildru mér finnst ég vera fallinn. Það þýðir ekkert að segja við mann á mínum aldri að þetta verði lagað eftir nokkur ár, segjum 5 ár. Ég tel frekar ótrúlegt að ég sé svo mikið út á vinnumarkaði þá, verði bara að þrauka í þeirri fátækragildru sem ég sé framundan. Ég held að áhrifin af þessari mjög svo mistæku ákvörðun Ríkistjórnarinnar, að svipta aldraða þeirri lífsfyllingu að geta að nokkru aflað sér meiri tekna og vera aðeins út á meðal fólksins, gefi Ríkissjóði ekki nokkrar auknar tekjur.
Árni Páll, þú ert ungur og á þeim aldri skiljum við ekki eldra fólkið, það gerði ég ekki á þínum aldri. Ráðherrar eiga að fá ráðgjöf sem víðast að.
Gleymdu því ekki að "oft er gott sem gamlir kveða".
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Kenningin er ekki sannanleg, enda kenning.
Þakka þér Höski Búi fyrir þessa yfirlýsingu. Þarna er einmitt kjarni málsins; óljós kenning er að leiða okkur á hrikalegar villigötur, það er búið að trylla flesta stjórnmálamenn til að eyða milljörðum í baráttu til að halda niðri hnattrænum hita, (sem ekki er hægt og það er heldur ekki að hlýna á jörðinni) og skattleggja fram úr hófi atvinnulíf sem mun síðan leiða til lélegri lífskjara og meiri hörmunga fyrir hinar"gleymdu" þjóðir sem eru að eru án vatns, án heilbrigðisþjónustu og matar.
Þú segir að ég endurtaki alltaf það sama og því neita ég ekki, ég krefst svara, þetta er einmitt það sem þíð á Loftslag.is gerið; endurtakið alltaf það sama.
Þú segir að þið fjallið um loftslagsbreytingar ekki veðrið. Síðan segið þið að aukning á CO2 og hlýnun jarðar hafi veðurfarslegar afleiðingar.
Hvernig er hægt að komast svona í mótsögn við sjálfan sig?
Nú er rætt um að nautpeningur á Indlandi sé stórhættulegur vegna þess metans sem hann gefur frá sér, ég hef séð "sanntrúaða" predika að það eigi jafnvel allir að hætta að leggja sér kjöt til munns vegna þessa. En á hverju á þá mannfólkið að lifa? Á grænmeti segja sömu spekingar. Er það mögulegt að auka stórlega ræktun grænmetis og djöflast um leið gegn aukningu CO2 sem er undirstaða alls gróður í heiminum?
Að rækta grænmeti eru einmitt þau ráð sem Grænfriðungar gáfu Grænlendingum og Inúítum í Norður-Kanada, þá gætu þeir hætta að veita hvali, seli og annað sjávarfang. Ráð af sama toga og franska drottningin gaf almenningi; ef ekki er til brauð því borðar fólkið þá ekki kökur!
Þið segið að aukning CO2 komi als ekki úr hafinu, það verður seint sannað. Þið ættuð að vita það að hver manneskja gefur frá sér umtalsvert CO2 við öndun.
Hefur ekki mannfjöldi í heiminum tvöfaldast á síðustu öld eða réttara sagt seinni hluta seinustu aldar?
Ætlið þið svo að halda áfram að stinga höfðinu í sandinn varðandi hið stóra "ClimateGate" láta eins og það hneyksli hafi aldrei gerst, að "vísindamen" hafi hagrætt staðreyndum til að sanna kenningar sínar. Er Michael Mann enn einn af ykkar "páfum" í vísindum loftslagsins? Ertu að vísa til hans þegar þú segir "en mælingar á náttúrunni urðu til þess að menn gátu reynt á hana með almennilegum mæligögnum".
Ég veit að ykkur "sanntrúuðum " er ekki verra við neitt en rökræður, það kemur alltaf betur og betur í ljós.
Pistillinn að ofan var athugasemd við það sem kom fram á loftslag.is. Set það einnig hér fram á mínu bloggi. Til skýringar: Michael Mann prófessor við háskóla í Virginíu vestra er sannur að hrikalegum fölsunum um veðurfar frá árinu 1000 til nútímans. Hann reyndi að sýna fram á að hiti á miðöldum (víkingatímanum) sem sannarlega var að m.k. 2°C hærri en nú, hafi aldrei verið staðreynd. Hann reyndi einnig að sýna fram á að "Litla ísöld" á 17. og 18. öld hafi aldrei verið til, íslenskir annálar segja okkur nákvæmlega um veðurfar á þeim tíma. Eitt árið gengu 30 hvítabirnir á land á Íslandi, meira að segja 2 í Skaftafellssýslum.
Og engin Þórunn til að taka á móti þeim!
Hafís náði 15 sjómílur suður af landinu það árið!