23.7.2010 | 17:24
Hælbíturinn Grétar Mar ræðst á Ingibjörgu Sólrúnu
Aldrei hef ég haft mikið álit á Grétari Mar fyrrum alþingismanni, skipstjóra og fyrrum formanni Farmanna- og fiskimannasambandsins ef ég man rétt. En í dag gengur bókstaflega fram af mér hvernig hann reynir að stinga Ingibjörgu Sólrúnu í bakið a ósvífinn og rætinn hátt. Það hefur oft komið í ljós að Grétar Mar er karlremba sem þolir ekki sterkar og ákveðnar konu. Satt best að segja hélt ég að Ingibjörg Sólrún fengi að vera í frið eftir að hún hætti þingmennsku og dró sig í hlé, m. a. vegna veikinda.
En í Fréttablaðinu í dag upplýsir nefndur Grétar Mar að hann hafi sent Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna bréf þar sem hann mótmælir því að Ingibjörg Sólrún verði valin til að stýra rannsókn á meintum mannréttindabrotum Ísraela í morðæði þeirra og eyðileggingu á Gasa. Hann tilgreinir í þessu óþokka bréfi sínu til Mannréttindanefndarinnar að Ingibjörg Sólrún hafi ekki brugðist við mannréttindabrotum í íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu meðan hún var formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra!
Stundum verður manni orða vant, í hvaða ástandi var Grétar Mar þegar hann skrifaði bréfið til Mannréttindanefndarinnar?
Fiskveiðistjórnunarkerfinu, þar sem hið frjálsa framsal varð að veruleika með kaupum, sölu og leigu og öllu braskinu var komið á áður en Ingibjörg Sólrún hóf þátttöku í stjórnmálum. Hvernig átti henni einni að vera megnugt að endurheimta þessa sameign þjóðarinnar sem misvitrir stjórnmálamenn "gáfu" örfáum mönnum eða fjölskyldum? Er það ekki staðreynd að Samfylkingin var fyrst og jafnan eini stjórnmálflokkurinn sem tók upp baráttuna fyrir því að þjóðin endurheimti þessa auðlind, fiskinn í sjónum, úr höndum sægreifanna í LÍÚ? Var það ekki Samfylkingin sem fyrst kom fram með hugmyndina um fyrningarleiðina, var ekki Jóhann Ársælsson þingmaður Samfylkingarinnar?
Og hvar varst þú Grétar Mar þegar öll þessi ósköp gengu yfir, LÍÚ klíkunni gefinn kvótinn, varst þú út undir vegg að pissa?
Grétar Mar, ég gef þér það ráð að þú látir renna af þér, sendir annað bréf til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og biðjir auðmjúklegast um að fyrra bréfinu sé þegar stungið í ruslakörfuna.
Svo ættirðu auðvitað að biðjast afsökunar á röfli þínu en það verður tæplega; þú ert ekki bógur til þess!!!
23.7.2010 | 11:57
Ef fara á í hernað gegn lúpínunni með eiturefnum þá nálgast það að vera glæpsamleg gjörð
Undanfarin ár hef ég fylgst með gróðrinum í kringum mín tiltölulegu nýju heimkynni, Þorlákshöfn. Það er vissulega melgresið magnaðasta vopnið til að hefta sandfokið og græða sandana. En lúpínan hefur einnig skilað okkur mun betra landi en áður var. Tvennu hef ég tekið eftir í sumar sem mér finnst athyglisvert. Innan um lúpínuna virðist kjarrgróður dafna mjög vel, bæði kjarrgróður sem sáir sér og einnig nokkuð af gróðursettum trjám. Ég fæ ekki annað séð en að með tíð og tíma muni kjarrið jafnvel taka völdin og þá muni lúpínan hörfa. Annað athyglisvert sá ég nýlega. Í gömlu grjótnámunni niður við strönd hefur lúpínan náð nokkurri fótfestu. En í sumar hefur önnur tegund, sem fjölmörgum er illa við, njólinn, tekið sér bólfestu í lúpínubreiðunum.
Flestir vita að njólinn sækir í áburðarríkan jarðveg, heima við bæi, í nánd við mykjuhauga til dæmis. Njólinn hefur fundið að þar sem lúpínan vex er jarðvegurinn áburðarmikill og dafnar þar vel. Þarna vinna tvær jurtategundir að því að bæta jarðvegin á stuttum tíma, þarna fer brátt að verða kjörlendi til að gróðursetja ýmsar trjátegundir.
Það er yfirgengileg heimska að fara með hernað á lúpínuna. Að yfirlýstir náttúruverndarsinnar skuli jafnvel vera að bræða með sér að nota í þeim hernaði eiturefni þá nálgast það að vera glæpsamlegt.
23.7.2010 | 09:21
Hverjar eru kröfur slökkviliðsmanna?
Ég er vissulega einn af þeim sem hef verið gáttaður á því að slökkviliðsmenn hafi verið án samnings í heilt ár og hef talið að þarna væri á ferðinni einhver óbilgirni samninganefndar sveitarfélaga, við slökkviliðsmenn hefði átt að vera búið að semja fyrir löngu.
En nú er ég farinn að efast um að þarna valdi einungis óbilgirni samninganefndarinnar og sveitarfélaganna.
Ástæðan er sú að samninganefnd slökkviliðsmanna, eða talsmaður þeirra, hefur alltaf farið undan á flæmingi þegar spurt hefur verið þeirrar sjálfsögðu spurningar:
Hverjar eru kröfur slökkviliðsmana?
Það hefur lítið heyrst frá samninganefnd sveitarfélaganna fyrr en í gærkvöldi. Þá kom formaður nefndarinnar í viðtal í Sjónvarpsfréttum og fullyrti að kröfur slökkviliðsmann væri upp á tugi prósenta launahækkun. Talsmaður slökkviliðsmanna var spurður um þessar fullyrðingar formannsins. Þar fullyrti hann að þetta væri fjarri sanni en þá fékk hann að sjálfsögðu þá spurningu sem hann hefur margoft fengið:
Hverjar eru kröfur slökkviliðsmanna?
Hvert var svar hans? Aðeins óljóst tafs um að þær væru innan skynsamlegra marka en enn á ný standa allir frammi fyrir því að hafa ekki hugmynd um hverjar kröfurnar eru.
Slökkviliðsmenn hafa notið mikils trausts og velvilja en nú er svo komið að við sem greiðum þeim laun eigum heimtingu á því að vita:
Hverjar eru kröfur slökkviliðsmanna?
Óneitanlega fer sá grunur að vakna að þetta ástand sem skapast hefur, samningsleysi í eitt ár og áskollið verkfall, sé ef til vill vegna kröfugerðar slökkviliðsmanna sem engin leið sé til að ganga að.
Slökkviliðsmenn, það hlýtur að vera krafa okkar allra að þið leggið spilin á borðið:
Hverjar eru kröfur slökkviliðsmanna?
Björk Guðmundsdóttir hefur stofnað til átaks til að berja í gegn að kaup Kanadamannsins á Magma Energi á Suðurnesjum verið ógilt og þá líklega á þann hátt að Ríkið yfirtaki kaupin, eða er ekki svo?. Ekki veit ég hvaðan okkar févana ríkissjóður á að fá peninga til að snara út fyrir Magma Energi eða er einhver ástæða til að ógilda þessi kaup? Ég held að Björk og hennar meðreiðarsinnar ættu í fyrsta lagi að lesa það sem dr. Jón Ágúst Þorsteinsson forstjóri Marorku segir í Fréttablaðinu í gær og það sem Magnús Orri Schram alþingismaður segir í Fréttablaðinu í dag. Báðir benda á dökkar hliðar þess að rifta samningum við Magma Energi þar sem það hefði hrikalegar afleiðingar og mundu svipta okkur trausti á erlendum vettvangi, trausti sem við þurfum svo sárlega á að halda nú.
Ég held að það sé engin stórhætta á ferðum þó Kanadamaðurinn hafi eignast Magma Energi, tel jafnvel að það tryggi góðan rekstur fyrirtækisins og örugga afbendinu orku á ekki verri kjörum en hingað til fyrir Suðurnesjamenn. Þarna er um að ræða lítinn hluta af orkuframleiðslu þjóðarinnar og sú bábilja virðist hafa komist inn í mörg höfuð að þarna séum við að fórna auðlind en því fer víðs fjarri. Þarna fær fyrirtæki einkarétt á að framleiða orku í 65 ár og það er nákvæmlega það sama og Landvirkjun fær rétt til: að nýta okkar sameiginlegu orkuauðlindir í fallvötnunum, Orkuveita Reykjavíkur fær sama rétt á Hengilsvæðinu.
Gægist ekki þarna fram þessi gamla óvild og ótti við útlendinga?
Björk hefur ekkert sagt um hrikalegasta ránið á auðlindum okkar þjóðar, það virðist ekki hafa haldið vöku fyrir henni að fiskimiðin og fiskurinn í sjónum er ekki lengur í eigu þjóðarinnar heldur í eigu klíku sem nefnist Landsamband íslenskra útvegsmanna. Aldrei hefur annað eins skemmdarverk verið unnið á eigum þjóðarinnar eins og þegar örfáum mönnum, eða fjölskyldum, var afhent þessi auðlind endurgjaldslaust.
Björk, ertu efins um að ég fari með rétt mál?
Er það ekki rétt að allur fiskur úr sjó er veiddur af þeim sem eiga hann, þeir eru búnir að bókfæra þessi réttindi sem sína eign, þeir selja hann hver öðrum, leigja hver öðrum og kaupa hverjir af öðrum.
Og hvað koma útlendingar að þessu? Eru þetta ekki allt Íslendingar, það er nú eitthvað annað ef okkar eigin þjóðbræður hirða af okkur auðlindirnar. En það er ekki svo vel. Íslenskur sjávarútvegur er skuldum hlaðinn vegna þess að þegar einhver hættir í greininni selur hann öðrum sem eiga skip og gera út "réttinn" fyrir fúlgur fjár og festa það fé i allt öðrum greinum eða eyða þessum peningum í lúxuslíf í með öðrum landeyðum á sólarströndum.
Já, en hvað með útlendinga, er þetta ekki alt í lagi meðan aðeins Íslendingar hirða af þjóðinni auðlindir hafsins? En svo er aldeilis ekki. Flestir útgerðarmenn eru búnir að veðsetja þessa sameign þjóðarinnar upp í topp, ekki aðeins hérlendis heldur einnig í útlendum bönkum og lánastofnunum. Hvað gerist ef illa fer í rekstrinum, fara þá ekki auðlindir hafsins beint til útlendinga, til útlendra banka?
Björk, þú ætlar að bjarga okkur frá Kanadamanninum sem kom með vel þegna fjármuni inn í íslenskt efnahagslíf og ætlar að framleiða orku á Suðurnesjum í 65 ár landi þjóðinni til hagsældar. Hann eignast enga íslenska auðlind með því, ekki tekur hann hana með sér að nýtingartíma liðnum. Þú hugsar ekkert um það hvað skaða það mundi hafa í för með sér að rifta samningunum um Magma Energi. Og þú hefur líklega aldrei leitt hugann að því botnlausa sukki sem átt hefur sér stað með auðlindir hafsins.
Hvað var að gerast í Sjávarútvegsráðuneytinu í gær?
Þar mætti öll útgerðarmafía , allt forystulið Landsambands íslenskra útvegsmanna og vel það.
Hver var ástæðan?
Að Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra gaf veiðar á úthafsrækju frjálsar. Það var verið að taka spón úr aski þeirrar klíku sem í dag telja sig eiga allan fisk í íslenskri landhelgi og utan eins og sjá má. Þetta gæti kostað það að einhverjir utan klíkunnar færu að veiða úthafsrækju.
Og það verður að koma í veg fyrir það með öllum ráðum, þetta minnir svolítið á vissa athafnamann sem áttu ákveðin hverfi í stórborgum Bandaríkjanna og Ítalíu, einkarétt þar að eigin áliti til "athafna".
Björg, ég hef alltaf haldið upp á þig allar götur frá því þú varst að sniglast með mömmu þinni barn að aldri hjá Leikfélagi Kópavogs forðum daga. En umfram allt; hugsaðu og kynntu þér mál áður en þú talar og grípur til aðgerða.
7.7.2010 | 13:20
Stakk Morgunblaðið hluta af skoðanakönnun um ESB undir stól?
Sveinn Andri Sveinsson lögfræðingur og Sjálfstæðismaður er borinn fyrir þeirri sögu að Morgunblaðið hafi ekki birt allt sem fram kom í skoðanakönnun um afstöðu almennings til inngöngu í ESB. Þar er fullyrt að ein spurningin hafi verið á þessa leið:
Ert þú fylgjandi því að við göngum í Evrópusambandið ef við fáum full yfirráð yfir fiskimiðum okkar?
Sagt er að 71% spyrjenda hafi sagt já við þessari spurningu.
En þetta hefur hvergi komið fram, ekki í Morgunblaðinu sem stóð fyrir þessari könnun.
Er það virkilega satt að Morgunblaðið hafi ákveðið að leyna svarinu við þessari spurningu af því hún féll ekki að því sem Morgunblaðið vildi fá fram?
2.7.2010 | 17:39
Nú er nóg komið af einkarekstri sem hið opinbera fjármagnar
Það hefur lengi verið deilt um einkarekstur og opinberan rekstur. Frægasta einkavæðing undanfarinna ára var þegar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson afhentu gjörsamlega óhæfu og spilltu liði þrjá banka sem voru áður í eigu ríkisins. Eftirleikinn þekka allir sem vilja þekkja en nú er að koma í ljós að stór hluti þjóðarinnar vill stinga höfðinu í sandinn og svæfa minnið. Annars gæti ekki Sjálfstæðisflokkurinn verið stærsti stjórnmálaflokkurinn á Íslandi eins og skoðanakannanir gefa til kynna. Svo vel gengir að dáleiða fólk að fjölmargir eru farnir að trúa því að það séu núverandi stjórnarflokkar, Samfylking og Vinstri grænir, sem eigi sökina á hruninu haustið 2008.
Hlutskipti þessara tveggja flokka er að greiða úr flækjunni og reisa landið upp eftir hrunið. Kannski er ekki einkennilegt að þeir flokkar sem hafa tekið þetta risavaxna verkefni að sér og þar með að gera fjölmargar óvinsælar ráðstafanir sem koma hart niður á landsmönnum, fái heldur slaklega útkomu í skoðanakönnunum. Það sem þar vekur ekki síður athygli er að Framsóknarflokkurinn heldur ekki kjörfylgi sínu frá síðustu alþingiskosningum.
En aftur að upphafinu, einkarekin fyrirtæki á kostnað þess opinbera.
Fyrst skal telja Guðmund og Byrgið hans. Þar var farið æði fjálslega með opinbert fé og þá kom það óhugnanlega í ljós; eftirlit hins opinbera með því fé sem Guðmundi í Byrginu var afhent var lítið sem ekki neitt. Anað dæmið er Guðmundur og Götusmiðjan. Þar á eftir að kafa til botns til að fá sannleikann upp á yfirborði. Nýjasta dæmið er Menntaskólinn Hraðbraut sem fær stóran fjárhæðir úr ríkissjóði. Ólafur Johnsen, sá er rekur skólann, hefur tekið til sín stóran hluta af opinbera framlaginu og kallar það "arðgreiðslur". Þarna eiga auðvitað að gilda sömu lög og í fyrirtækjarekstri; þar sem skólinn þarf opinberan styrk er óheimilt að greiða út arð eins og í fyrirtæki sem rekið er með tapi.
Hvað leyfi höfðu forráðmenn Sólheima í Grímsnesi til að taka stórar fjárhæðir af opinberum ríkisstyrk til að byggja kirkju (kristna að sjálfsögðu) á staðnum? Ef það er eitthvað sem ekki skortir í uppsveitum Árnessýslu þá eru það kristnar kirkjur. Það er krans af þeim í kringum Sólheima, nefnum nokkrar, Borg, Skálholt, Torfastaðir, Mosfell og Úthlíð.
Nú er verður óráðsíunni að linna og það strax.
2.7.2010 | 09:28
Stríðið gegn lúpínunni verður að stöðva
Líklega í fyrsta skipti get ég tekið undir það sem Halldór Jónsson verkfræðingur í Kópavogi segir á bloggi sínu og setti inn hjá honum þessa athugasemd:
Halldór, það er æði sjaldan að ég er sammála þér en nú er ég það svo sannarlega. Ég veit ekki undir hvað á að flokka eyðileggingu harðgerðustu og duglegustu landgræðslujurt Íslands sem ásamt melgresinu hefur grætt upp land með undraverðum árangri, þarna er á ferðinni heimska ásamt fordómum. Þessi vitleysa er líklega runnin undan rifjum Hjörleifs Guttormssonar en það skiptir ekki höfuðmáli hvaðan vitleysan kemur; það verður að stöðva þess bévítis heimsku sem er álíka vitlaus og hvalveiðibannið sem harðjaxlinn Kristján Loftsson hefur nú brotið á bak aftur.
En þessi áróður gegn lúpínunni er því miður búinn að ná tökum á ótrúlega mörgum landsmönnum og þó nokkur sveitarfélög, í svipinn man ég eftir Ísafirði, eru farin í stríð gegn þessari duglegu landgræðslujurt. Ekki veit ég hvers vegna þessir tveir embættismen, Sveinn og Jón, láta draga sig inn í þessa vitleysu. Ég hef spurnir af því að skógræktarmen hafi fordæmt þessa heimsku og vonandi getum við sett traust okkar á Jón Loftsson skógræktarstjóra, þessa vitleysu, stríðið gegn lúpínunni, verður að stöðva.
Tek undir með þér Halldór að sem flestir ættu að kíkja inn til Ágústar H. Bjarnasonar, í hans kolli virðist skynsemin jafnan ráða ríkjum, farið inn á www.agbjarn.blog.is.
Mér er spurn; getur ráðherra setið áfram í sínu embætti eftir að á hann hefur verið lýst vantrausti af flokksstjórn síns stjórnmálaflokks?
Ég mun ná þeim háa aldri að verða 76 ára á þessu ári. Það er sárt að verða vitni að því að sá maður sem Samfylkingin, minn flokkur, hefur sýnt það traust að gegna starfi félagsmálaráðherra í Ríkisstjórn Íslands skuli ítrekað ráðast á kjör okkar eldri borgara, þú veist það full vel Árni Páll að þetta eru ekki staðlausir stafir. Þessi ríkistjórn hefur að vísu verið nokkuð samstillt í því að taka réttindi og möguleika af eldri borgurum til að sjá sér farborða. Ég fagnaði því mjög þegar afnumið var það niðurlægjandi ákvæði, sem minnti á framfærsluskyldu fyrri ára, að tekjur maka hefðu áhrif á lífeyri hins í hjónabandi og vissulega bjó ég nokkur ár við það óréttlæti og ekki kenni ég Árna Páli um það, hann hefur nóg að bera samt. Ég fagnaði því eindregið þegar frítekjumark lífeyrisþega var hækkað hressilega upp í 1.300.200 kr. á ári
Ég er einn af þeim sem starfaði lengst af ævi minnar sem sjálfstætt starfandi pípulagningameistari og því miður höfum við margir sem þannig er ástatt um sárlitlar tekjur úr lífeyrissjóðum. En þrátt fyrir aldur og veikindaáföll sá ég nokkurn möguleika á að reyna að afla mér tekna sem ráðgjafi í mínu fagi, margt er gott sem gamlir kveða. En núverandi Ríkisstjórn, sem ég hef stutt með ráðum og dáð, lét það verða eitt að sínum fyrstu verkum að lækka frítekjumarkið niður í 480.000 kr. á ári.
Hvernig í ósköpunum sá nokkur ráðherra eða fræðingur að það mundi auka tekjur Ríkissjóðs eða spara útgjöld hans? Ég vildi gjarnan sjá þann rökstuðning sé hann til á blaði, eða var þetta einungis geðþóttaákvörðun?
En nú ert þú Árni Páll orðinn eins og naut í glervörubúð þar sem þú virðist sjá það sem þitt aðalhlutverk að vega að smásálarlegum lífeyri eldri borgara þessa lands. Það vill oft fara svo að þeir sem hafa vel til hnífs og skeiðar hafa ekki minnsta skilning á kjörum þeirra sem lægst eru settir hvað tekjur varðar. Þitt síðasta verk var að berjast fyrir því að lífeyri okkar gamlingjanna væri frystur svo tryggt yrði að við fengjum engan ábata af því litla launaskriði sem mögulega verður hér á landi á komandi tímum.
Ég skoraði á Steinunni Valdísi flokkssystur okkar að segja af sér þingmennsku vegna fjármálbralls í prófkjörum. Steinunn Valdís mat sína stöðu rétt og sagði af sér. Ráherra sem hefur ekki traust síns flokks og flokksfélaga á að segja af sér.
Það átt þú að gera Árni Páll!
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar