Landkrabbi svarar útgerðarmanni

Útgerðarmenn þessa lands hafa stimplað sig inn sem eitthvert rammasta afturhald sem uppi hefur verið á landi hér og er þá mikið sagt. Ármann Einarsson útgerðarmaður hér í Þorlákshöfn eys úr skálum reiði sinnar í Bæjarlífi. 2. tbl. þessa árs. Eins og sönnum útgerðarmanni sæmir telur hann núverandi Ríkisstjórn orsök alls hins illa. Þessi sanntrúaði Sjálfstæðismaður lokar augunum fyrir því að það var hans flokkur sem leiddi landstjórnina í 18 ár, það var sá flokkur sem gaf völdum fjárglæframönnum ríkisbankana sem keyrðu sig í þrot á haustdögum árið 2008, og það voru forystumenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sem innleiddu allt svínaríið og braskið með frjálsu framsali fiskveiðikvótans. Ármann telur sér sæma að kalla fjármálaráðherra “vitleysing”. Það er öruggt að ekki minnkar Steingrímur við þá nafngift og eins öruggt að ekki verður Ármann hærri í loftinu.

 

 

Fyrningarleiðin, leiðrétting á stuldi aldarinnar

Ég ætla að leyfa mér að segja nokkur orð um fyrningarleiðina, að þjóðin innkalli sína eign, fiskveiðikvótann, úr klóm útgerðarmanna á 20 árum. Ekki eitt orð af viti hefur komið frá útgerðarmönnum um þetta mál. Stöðugar upphrópanir um að þetta setji alla útgerð og fiskvinnslu á hausinn, aldrei nein rök. Kvótakerfið var upphaflega sett til að við veiddum þann takmarkaða afla, sem við töldum óhætt að veiða, á sem hagkvæmastan hátt. Um það er hægt að hafa mörg orð en segjum að það hafi verið rétt og nauðsynlegt. Óumdeilt var þá að það var þjóðin sem átti fiskinn í sjónum, hlutur minn og hlutur Ármanns voru nákvæmlega jafnstórir.

Útgerðarmönnum var úthlutaður kvóti samkvæmt veiðireynslu, fyrir þessi réttindi þurftu útgerðarmenn ekkert að borga, þeir fengu þessi réttindi á silfurfati.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Sú ólukkuríkisstjórn, sem hafði Davíð Oddssson og Halldór Ásgrímsson sem foringja, lét undan gífurlegum þrýstingi útgerðarmanna og veitti þeim “eignarhald” á því sem þjóðin átti öll. Ef útgerðarmenn sjá kjarna málsins ættu þeir að skilja að þar var þeim réttur baneitraður bikar, en þeir voru svo grunnhyggnir að þeir héldu að þeir væru að detta í lukkupottinn með því að fá í sínar hendur annarra eign til að braska með, til að eiga, til að leigja, til að kaupa, til að selja.

En nú eru blikur á lofti, núverandi ríkisstjórn ætlar á tuttugu árum að afhenda réttum eigendun, þjóðinni, kvótann. En hvað heyrist þá úr hinum rammafturhaldsama kór útgerðarmanna sem ekki má heyra minnst á nokkrar breytingar; ríkisstjórnin er að gera öll útgerðarfyrirtæki á Íslandi gjaldþrota með því að fyrna kvótann á 20 árum.

Ég spyr sem landkrabbi; hvernig getur þessi litla breyting á afturkölluðum kvóta haft svo geigvænleg áhrif? Ekki hefur þetta minnstu áhrif á lausafjárstöðu fyrirtækjanna þetta hefur engin fjárútlát í för með sér. Mér finnst jafnvel koma til greina að vel rekin útgerðarfyrirtæki fái að nýta áfram þennan kvóta, fái hann til afnota frá réttum eigendum, mér finnst jafnvel koma til greina að þeir þurfi ekki að greiða afgjald fyrstu fimm árin.

 

 

Hvað er þá að gerast?

Ætli við ættum ekki að líta á efnahagsreikning útgerðarfyrirtækjanna? Það skyldi þó ekki vera að það sé búið að bókfæra þessa almannaeign sem einkaeign fyrirtækisins. Það væri ekki úr vegi að líta í veðbækur. Það skyldi þó ekki vera að það sé búið að veðsetja þessa almannaeign upp í topp. Ekki aðeins hér á landi heldur einnig hjá útlendum lánastofnunum, stofnunum sem samkvæmt íslenskum lögum mega ekki eignast fiskveiðikvóta í íslenskri landhelgi en taka hann samt sem góð og gild veð.

Er ég þarna farinn að nálgast tárakirtlana sem svo óspart eru knúðir hjá langflestum útgerðarmönnum?

Ég sagði hér að framan að með því að þiggja það lögbrot, sem þeir Davíð og Halldór réttu fram, hafi útgerðarmenn bergt á beiskum eiturbikar. Með því að samfélagið hefði áfram átt kvótann og úthlutað honum til vel rekinna fyrirtækja stæði íslenskur sjávarútvegur mun  betur en raunin er í dag. Þá hefði ekki orðið til hið gerspillta brask með kvóta til fiskveiða. Fyrir skömmu heyrði ég frá skilvirkum mönnum í útgerð að 90% af kvóta útgerðarfyrirtækja væri keyptur og hefði jafnvel skipt um hendur margoft. Má ég spyrja; hvar voru þeir peningar teknir sem fóru í kvótakaup? Voru þeir ekki teknir úr íslenskum sjávarútvegi? Ef laust fé var ekki til í fyrirtækjum voru þá ekki slegin lán og oft á tíðum kvótinnn settur sem trygging víðs vegar um heim? Hvað varð um allt þetta fé sem flæddi út úr íslenskum sjávarútvegi?

Því er fljótsvarað. Það fór til ýmissa spekúlanta sem þarna sáu sé leik á borði; hætta þessu amstri og fá fúlgur fjár fyrir gæði sem þeir áttu ekkert í. Hvað skyldu margir slíkir, sem búnir eru að mergsjúga íslenskan sjavarútveg á liðnum árum, sitja í glæsihöllum í London eða sleikja sólina í Karabíska hafinu? Hvernig fór með það gamla góða fyrirtæki Alla ríka á Eskifirði, Eskju. Eru ekki afæturnar einmitt að drekka út andviðri þess eða sólunda því í spilavítum? Samherji á Akureyri var stofnaður af þremur hörkuduglegum fjölskyldum. En svo vildi einn máttarstólpinn fara að lifa hinu ljúfa lífi, hætta í slorinu. Það virtist ekkert mál fyrir Samherja að snara út verðgildi eins þriðja af fyrirtækinu. Það hefði líklega kveðið við annan tón ef þetta hefði verið 5% af kvótanum sem þó hefði ekki kostað fyrirtækið krónu að láta af hendi og fá jafnvel að nýta áfram.

En þá hefði líklega komið ramakveinið, helvítis vinstrimennirnir eru að gera

okkur gjaldþrota!

 

Arðsamasta skipið í Vestmannaeyjum

Fyrir nokkrum árum heimsótti ég vin minn ágætan í Vestmannaeyjum. Hann ók mér vítt og breytt um þessar fögru eyjar og auðvitað fórun við meðfram höfninni. Hann benti mér á skip eitt í höfninni, líklega togari af minni gerðinni og sagði:

“Þetta er arðsamasta skipið í okkar flota, en hefur þó ekki verið leyst frá bryggju í nokkur ár”.

Þessi gáta var of flókin fyrir mig en lausnin var einföld. Eigandinn hætti að gera út skipið og lifði nú kónga- og letilífi á leigunni af kvótanum!

Því segi ég enn og aftur. Þið útgerðarmenn hafið aldrei sopið af eitraðri bikar en þegar þið supuð á framsalseitrinu úr hendi ykkar ástsælu ráðherra forðum daga.Þið væruð mun betur settir nú ef þið hefðuð hafnað honum og aldrei komist í þá botnlausu spillingu sem kvótaframsalið hefur leitt af sér. Hundruðir milljarða króna hefðu ekki streymt út úr íslenskum sjávarútvegi, væru þar sem orkugjafi fyrirtækjana. Ykkur mundi einnig líða mun betur í dag, ég er ekki í nokkrum vafa um að þið hafið samvisku flestir.

Takið þátt í því að rekja ofan af þessu kvótasvínaríi, hættið að grenja eins og óstýrilátir krakkar og takið hraustlega á til að endureisa réttlætið, það er ykkur sjálfum fyrir bestu.

Að lokum; ef þú skyldir svara mér Ármann, sem ég býst tæplega við að þú leggir út í, þá ætlast ég til að þú talir af rökum og réttsýni, gefir tárakirtlunum frí.

 


Ragnhildur Steinunn, hversvegna auglýsa þennan viðbjóð?

Í Kastljósi nýlega fann Ragnhildur Steinunn enn einn sérkennilegan viðmælanda, unga stúlku sem hafði látið tattóvera sig mjög hressilega og ætlaði að halda því áfram, hafði fest ýmislegt glingur í húð sína,  látum það gott heita, þetta er hennar mál.

En það var ekki þetta sem vakti óskipta hrifningu Ragnhildar Steinunnar heldur að stúlkan hafði gengið svo langt að láta skera í sundur á sér tunguna endilanga og sýndi mikla fimi í að reka sitt hvorn helminginn út um munnvikin. Það er aldeilis munur að gata rekið tunguna framan í tvo í einu.

Enn og aftur tek ég það fram að þetta er stúlkunnar einkamál, hún um það hvernig hún skrumskælir líkama sinn. 

Tvennt veldur mér mikillar furðu.

Eru langskólagengnir læknar, háskólaborgarar sem eiga að vera þroskaðir og menntaðir í breiðum skilningi, að nota þekkingu sína og færni til að framkvæma slíka afskræmingu?

Hitt er spurning til Ragnhildar Steinunnar; finnst henni þetta vera til svo mikillar fyrirmyndar að þetta eigi erindi í Kastljós í Sjónvarpi allra landsmanna? Er þetta fyrirmynd sem hún vill kynna fyrir saklausum táningum sem þurfa á flestu öðru að halda, miklu fremur uppbyggilegum fréttum og fyrirmyndum?


Ekki bíða eftir köldu húsi eða ökklavatni á gólfum

 

Svo er sagt í gömlum sögnum að margir máttu þola það, einkum á efri árum, að þeir færu ekki einir um götur, þeir hefðu eignast”fylgjur” sem nánast fylgdu viðkomandi hvert fótmál og létu jafnvel finna til sín þegar til hvílu var gengið. Þessar fylgjur gátu verið æði mismunandi, illgjarnar sumar en aðrar góðar og hjálpsamar. Nú er ég svo gamall sem á grönum má sjá svo aldurs vegna ætti ég jafnvel að hafa eignast fylgju, en samkvæmt skynsemistrú nútímans byggðist trú á fylgjur á einfeldni og trúgirni, aðalega undirmálsfólks.

En ég verð þó að játa á mig að fylgju nokkra hef ég eignast og skal ég segja frá því á síðum Morgunblaðsins enda kviknaði hún þar, kveikjan að henni fæddist 1992. Fyrir einhverja tilviljun örlaganna hóf ég þá að skrifa pistla sem nefndust “Lagnafréttir”. Þetta  áttu ekki að verða margir pistlar en oft taka mál aðra stefnu en ætlað er. Þessi skrif stóðu vikulega næstum í 16 ár og urðu pistlarnir nær 700 að tölu. En það bærðist fleira að baki pistlanna en á yfirborði sást. Þeir virtust nokkuð mikið lesnir og þar með varð ég ósjálfrátt ráðgjafi fjölmargra húseigenda og húsbyggjenda.

Og ég fer ekkert leynt með það að líklega hafa 75% sem til mín leituðu verið konur. Þetta sýndi mér og sannaði að konur láta sig meiru varða hvernig heimilið þróast og eru opnari og skilningsríkari á það hvað þarf að lagfæra innan stokks og utan. En allt tekur enda og ég hætti þessum skrifum að mig minnir haustið 2008 og segi gjarnan að það féll fleira þá haustmánuði en fjármálakerfi þjóðfélagsins.

En þá gerist það óvænta. Þó skrifum sé lokið hef ég nokkra samfylgd áfram, það gerist enn að ég fæ póst á netinu, einstaka upphringingu og einstaka bréf þeirra eldri sem ekki eiga tölvu. Nú er það síður en svo að ég sé að kvarta undan því að til mín sé leitað enn, finnst það meira að segja hlýlegt og nokkur sönnun þess að “margt sé gott sem gamlir kveða”.

Nýlega frétti ég af skemmtilegu framtaki. Dagana 5. og 6. mars nk. verður sýning og upplýsingastefna í Smáralind, kjölfesta þessa framtaks er Múrbúðin. Sýning þessi ber nafnið “Viðhald 2010” og er ætlað að veita sem mestri og bestri þekkingu til allra þeirra fjölmörgu sem þurfa á leiðbeiningum og ráðleggingum að halda um viðhald heimila og húseigna. Nú er lag, 100% endurgreiðsla á virðisaukaskatti af vinnulið út þetta ár, aldrei fleiri góðir iðnaðarmenn á lausum kili sem klæjar í lófana eftir að fá verkefni og síðast en ekki síst; fjölmörg hús eru að grotna niður.

Þetta varð til þess að ég fékk hugmynd. Ef ég bý yfir einhverri reynslu og þekkingu sem komið getur að gagni þá ákvað ég að mæta á staðinn og rabba við gott fólk á sama hátt og þegar mínir gömlu og góðu góðu lesendur höfðu samband við mig, ég vona að ýmislegt af þeim ráðum hafi komið að gagni.

Ég ætla að vera til taks á sýningunni “Viðhald 2010” í Smáralind 5.- 6. mars, kannski er ég undir áhrifum gamallar góðrar “fylgju”.

 


Veit fólk ekki í hvaða landi það býr?

Enn og aftur fáum við fréttir af fólki sem æðir upp um fjöll og firnindi þó spáð sé bandvitlausu veðri og það á þeim árstíma sem búast má við hverju sem er veðurfarslega, ekki aðeins á hálendinu heldur einnig í byggð. Nýlegar hörmungarfréttir eru enn ofarlega í huga og ég minnist fólks sem björgunarsveitir náðu heilu á húfi til byggða á árum áður, fólk sem komið var til jökla með smá börn. Og undantekningarlaust var þessum angurgöpum tekið sem hetjum af fjölmiðlum, sérdeilis þó sjónvarpstöðvum.

Í gærkvöldi kom frétt um að fjölmargir væru strandaglópar í Borgarnesi, ófært með öllu undir Hafnarfjalli og engin leið að komast áfram til norðurs eða vesturs. Það sem  þó ótrúlegast var að þarna voru yfir 100 nemendur úr Víðstaðskóla í Hafnarfirði sem voru á leið til Akureyrar.

Ég spyr: Hvað er ámilli eyrnanna á forráðmönnum Víðistaðaskóla að samþykkja að hundrað nemendur skólans og rúmlega það fái að leggja í slíka ferð þó komið hafi fjölmargar veðurspár og viðvaranir um að fólk skyldi halda sig heima og ekki leggja í nein ferðalög. Þessum viðvörunum var sératklaga beint til íbúa á Vesturlandi, Suð-Vesturlandi og Suðurlandi.

Eru forráðmenn Víðistaðaskóla bæði sjón- og heyrnarlausir?


Ríkisútvarpið er í tilvistarkreppu, þessi ómetanlega menningarstofnun fyrri ára

Þegar ég fæddist var Ríkisútvapið 4 ár. Síðan höfum við, ég og Ríkisútvarpið,  átt samfellda samleið og það hefur verið mér óemetanlegt. Ég ólst upp á menningarheimili sem hafði tónlist í hávegum, faðir minn átti orgel sem hann var að mestu hættur að spila á en elsti bróðir minn, Þorgeir, hafði tekið við, hann lærði hjá Kjartani frá, að ég held,  Stóra-Núpi, lærði að lesa og spila eftir nótum. Það var oft tekið lagið þegar góða gesti bar að garði.

En á seinni árum hefur mér orðið æ ljósara hve gífurleg menningarstofnun Ríkisútvarpið var á fyrstu ártugum sinnar tilvistar, ég vil segja ótvírætt fyrstu þrjá ártugina. Foreldrar mínir keyptu útvarpstæki um leið og RÚV tók til starfa. Minnisvert tæki sem samanstóð af hátalara, lampatæki, sýrurafhlöðu og stóru þurrbatteríi, allt þetta varð að vera til svo hljóð heyrist, úti var loftnet sem strengt var í staur mikinn nokkuð frá húsinu. Þurrbatteríið var keypt hjá verslun Friðriks í Þykkvabæ, en sýrugeymarnir voru 2, annar alltaf í hleðslu á Urriðafossi yfir í Árnessýslu.

Það var þessi menningarstofnun sem leiddi mig og mína kynslóð inn í undraheim tómlistarinnar, þar var ekki aðeins leikið á eitt orgel, þar hljómuðu öll hljóðfæri í stórum hljómsveitum. Ég fékk að kynnast Motsart og öllum stóru meisturunum, Stefán Íslandi söng perlurnar með þeim afleiðingum að í bernsku ákvað ég að verða óperusöngvari, af því varð þó ekki af skiljanlegum ástæðum. Útvarpssögurnar voru ógleymanlegar og svo komu laugardagsleikritin, Lárus Pálsson og allir hinir stórkostlegu leikararnir urðu heimilisvinir. Svo barnatímar Þorsteins Ö á sunnudögum, það þurfti mikið að ganga á til að draga mann frá tækinu þá. Bjarni Björnsson lék jólasveininn um hver jól og ég minnist þeirrar sorgar þegar sagt var frá því að hann væri dáínn. Auðvitað átti maður sem barn ekki að vita annað en þarna færi ekta jólasveinn en stundum gerði maður þeim eldri það til geðs að vera eitthvað heimskari og einfaldari en raunin var.

En ekki sleppa sér aðveg í "nostalgíunni". 

Allar stofnanir þurfa að fylgjast með í straumi tímans, aðlaga sig að breyttum veruleika. Og þar hefur RÚV brugðst eða ölu heldur stjórnmálmennirnir sem ráðskast hafa með þessa merku stofnun. Fyrir líklega u. þ. b. 25 árum var útvarps- og sjónvarpsrekstur gefinn frjáls. Því miður voru ekki allir þeir sem réðu örlögum RÚV með það á hreinu hvað þeir vildu. Í stað þess að halda fast í hið upprunaleg menningargildi RÚV var ákveðið að elta "frjálsu" stöðvarnar, vera sem mest eins og þær og vinna í harðri samkeppni. Þess vegna var RÁS2 sofnuð og löngu áður var búið að stofna Sjónvarpið, sjónvarpsstöð sem varð í harðri samkeppni við "frjálsu" stöðvarnar og skrapar auglýsingamarkaðinn sem ákafast. Efni sjónvarpsins er keimlíkt hinum "frjálsu", ameríst drasl áberandi. Þó má segja Sjónvarpinu það til hróss að hjá þeim slæðist með efni frá Evrópulöndum, stundum sæmiegt, stundum skelfilega lélegt (þýskar og franskar myndir margar slæmar).

En nú er RÚV að verða nánast óþolandi vegna yfirgengilegra íþróttafrétta. Vetrarleikarnir taka sinn toll en í gær tók steininn úr þegar boðað var að framundan væri heil syrpa af umfjöllun um löndin sem taka þátt í Heimsmeistarakeppni í knattspyrnu á sumri komandi. Meira að segja á besta útsendingartíma. Þá er ótalið að 10 - 20% af hvejum fréttatíma kl 19:00 fer í íþróttafréttir. Mér finnst sjálfsagt að flytja fréttir af öllu því kraftmikla unga íþróttafólki hérlendis sem er í öllum mögulegum íþróttgreinum.

En mér er spurn: Hefur það verið kannað hve stór hluti sjáenda og hlustenda RÚV er áfjáður í að sjá amerískan körfubolta, amerískan "fótbolta" og síðan fréttir frá nánast hverju golfmóti vestanhafs? Þurfum við að eltast við alla knattspyrnuleiki í Evrópu?

Og þá kemur  spurning: Hve mikill kostnaður fylgir því að stofna sérstaka íþróttarás. Þar geta hinir "forföllnu" horft og séð meðan við hin veljum okkur annað, þar gætu verið fréttir frá yfirstandandi Vetrarólympíuleikum. Hve margir sitja fram eftir nótti til að sjá hægvirka og langdregna keppni skíðaíþrótta, hefur það verið kannað?

En að kjarna málsins. Hvaða breytingar vil ég, sem þessar línur rita, sjá á Ríkisútvarpinu?

1. Leggja niður eða selja RÁS2. Allt sem þar kemur fram er lítill vandi að finna á öðrum stöðvum.

2. Efla RÁS1. Þó ekki þannig að lengja dagskrána. Hana mætti gera fjölbreytari og að hluta léttari, þó verðum við að vera nokkuð íhaldsöm þarna, gömlu gildin eiga að halda sér.

3. Efla landhlutastöðvarnar, efla og auka heimaunnið efni þeirra, hleypa þeim markvisst inn í RÁS1 svo hlustendur fylgist betur með hvað er að garast hjá samborgurum sem víðast.

4. Taka RÚV alfarið af auglýsingamarkaði,  landshlutastöðvum ættu þó að eiga möguleika á tilkynningum og auglýsingum sem tæplaga komast til viðkomandi frá "frjálsu" stöðvunum. Þetta gæfi öðrum stöðvum auknar tekjun og þær greiði RÚV ákveðinn hluta af þeim tekjum. Þarna er vandfundið meðalhófið en það er hægt að finna.

5. Nefskattur til RÚV afnuminn, stofnunin færi alfarið á fjárlög.

6. Sjónvarpinu yrði sett ný stefnuskrá og raunar RÚV í held. Sjónvarpið hafi ákveðnar skyldur til að efla innlenda dagskrárgerð og ekki síst styðja íslenska kvikmyndagerð. Sjónvarpið hafi skyldur til að kynna menningu sem víðast að t. d. með því að kynna hvað er að gerast í kvikmyndagerð í fjarlægum löndur. Þá á Sjónvarpið að efla margskonar kynnigar á mannlífi, náttúru og þróun í heiminum, reka öfluga og heiðarlega fréttastofu, flytja fréttaskýringar í hæsta gæðaflokki 

PS: Aldrei talsetja kvikmyndir fyrir  fullorðna. Það er hluti af því að kynnast örum menningarheimum að hlusta á framandi tungutak. Textun á að nægja 

 

 


Sigmundur Davíð hafði sitt fram og eyðilagði síðustu von okkar að losna úr ICESAVE martröðinni

Það náðist 100% samstaða allra íslenskra stjórnmálaflokka í ICESAVE málinu eins og Hollendingar og Bretar sögðu forsendu þess að unnt væri að leiða þetta mál til lykta. En sú samstaða er ekki um lausn ICESAVE heldur þvert á móti; lokatilboðinu að utan var hafnað og þarf ekki að fara í grafgötur um hver þar réði ferð. Að sjálfsögðu var það formaður Framsóknarflokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, einhver hættulegasti maðkur sem komist hefur til áhrifa í landsmálum hérlendis. Ekki þarf að efast um að þar hefur Sigmundur Davíð átt góðan bandamann í Birgittu Jónsdóttur frá þeim rústum sem eftir eru af Borgarahreyfingunni sem öllu ætlaði að bjarga. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hefur aldrei sýnt neina reisn í þessu máli, kom fram fyrir sjónvarsvélar og lýsti yfir fylgisspekt og hollustu við Sigmund Davíð. Þannig tókst stjórnarandstöðunni að svínbeygja þau Steingrím og Jóhönnu; þau áttu engra kosta völ en að fylgja þeim sem ósveigjanlegastur var, Sigmundi Davíð. Það gera þau tilneydd, ef þau hefðu ekki gert það hefði engin samstaða verið milli stjórnmálaafla á Íslandi eins og var grundvallarkrafa Hollendinga og Breta. Svo vissum við reyndar ekki upp á hverju ólíkindatólið á Bessastöðum tæki.

Það þarf enginn að velkjast í vafa um að þetta tilboð að utan var lokatilboð. Í báðum löndunum er pólitísk upplausn, Hollenska stjórnin fallin, þar er nánast stjórnlaust land, kosningar framundan í Bretlandi og þar af leiðandi verður ekkert við okkur talað á næstu mánuðum. Nú hlakkar í Sigmundi Davíð sem lýsti því glottandi í sjónvarpi að líklega yrði ekkert rætt  frekar um lausn málsins fyrr en í fyrsta lagi næsta haust.

Á meðan blæðir Íslandi, allt situr fast í okkar mikilvægustu málum; að koma atvinnulífinu á skrið, að fá það fjármagn sem okkur hefur verið lofað, að ráðast i virkjanir, orku verðum við að fá, að laða að útlenda fjárfesta sem munu sneiða hjá Íslandi meðan ICESAVE ófreskjan hangir yfir okkur.

Ég endurtek þá eindregnu skoðun mína: Það voru hrapaleg mistök að taka ekki því tilboði sem okkur barst frá Hollendingum og Bretum. Það hljóta allir að sjá að hér var um lokatilboð að ræða, þessar tvær þjóðir hafa enga burði né áhuga á að ræða við okkur um þessi mál frekar, allt bendir til langvarandi málaferla sem getur stórskaðað enn frekar íslenska hagsmuni.

Það verður okkur dýrkeypt að hafa lent í klóm gersamlega samviskulauss manns, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Framsóknarlokksins. Ég sé ekki nema eina lausn framundan til að frelsa land og þjóð frá þessum manni, að vísu daufa von: Að enn finnist svo heiðarleg og atkvæðamikil öfl innan Framsóknarflokksins að þau losi land og þjóð ( og flokks sinn) við þennan samvikulausa karakter Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Það er augljóst að hann á trygga samherja, "ungstirnin" Vigdísi og Eygló alþingiskonur og fram til þessa Höskuld Þórhallsson en það er athyglisvert að frá honum hefur ekkert heyrst að undanförnu.

En ég kalla eftir tveimur einstaklingum, þingmönnum Framsónarflokksins: Hvar eru þau Guðmundur Steingrímsson og Siv Freiðleifsdóttir? Ætla þau að láta Sigmund Davíð,  ekki aðeins eyðileggja Framsóknarflokkinn, heldur einnig rústa þá björgun sem stendur yfir í þjóðfélaginu?

Ég óska Össuri utanríkisráðherra góðrar ferðar á fund utanríkisráðherra Bandaríkjanna Hilary Clinton. En ég get alveg sagt honum það strax að þá ferð getur hann alvega sparað sér. Hilary Clinton hefur ekki nokkurn áhuga á þessari litlu eyju í Norðu-Atlantshafi  sem heitir Ísland. Hún mun ekki hafa nokkurn áhuga á hvernig okkur farnast  hérlendis. Hún hefur fangið fullt af hrikalegum vandamálum; klúðrinu í Afganistan og manndrápunum þar, ruglukollana í Íran, gjöreyðilagt þjóðlíf í Írak og opinberar morðingjasveitir í Ísrael.

Svo skulum við ekki gleyma áhrifunum frá Hádegismóum. Þar situr gamall bitur maður sem hugsar um það eitt að ná sér niðri á gömlum andstæðingum og jafnvel fyrri samherjum. Það væri betur ef menn gerðu sér grein fyrir hvar maðkarnir leynast í moðinu.


Það stendur hvergi í lögum að þú megir mála húsið þitt, svo láttu það vera, annars geturðu haft verra af!

Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrrum umhverfisráðherra sló öll met í Sjónvarpsfréttum nýlega þegar hún var spurð að því hvort úrskurður Svandísar Svavarsdóttir, núverandi umhverfisráðherra, um að staðfesta ekki skipulag þeirra sveitarfélaga þar sem fyrirhugaðar virkjanir munu rísa í neðri Þjórsá, stæðust lög, hvort einhver lög kveði á um að sveitarfélög megi ekki afla fjár til að greiða fyrir skipulag síns sveitarfélags nema beint frá hefðbundnum tekjustofnum.

Þórunn viðurkenndi að það væri ekkert sem bannaði sveitarfélögum að afla fjár til að greiða fyrir skipulagsvinnu  hvar sem væri, en það væri heldur hvergi til lög um það að það væri leyft!

Þess vegna stæðist úrskurður Svandísar!!!

Þvílík hundalógik.


Gúlag í Austri og Vestri, nær aldrei minnst á Gúlag Bandaríkjanna í Nið- og Suðurameríku

Skandinavíukratar eru það vitlausasta sem gengur á tveimur fótum, svei mér þá. 

Þetta segir maður að nafni Jón Ásgeir Bjarnason hér á blogginu og segist tala af reynslu vegna þess að hann hefur leitað í skjól hjá þessum sömu krötum og þarf að þakka fyrir sig.

É held að það hljóti að vera til eitt eintak sem er enn vitlausara en Skandinavíukratar og það ert þú Jón Ásgeir.

Það segir hins vegar ekki að þú getir ekki skilað góðu verki. Skandinavíukratar hafa byggt upp réttlátustu og búsældarlegustu ríki á hnettinum. Þetta tókst þeim á sama tíma og kommúnistum í Austri og kapítalistum í Vestri mistókst hrapalega að byggja upp réttlát ríki. Kommúnistar byggðu upp hið skelfilega Gúlag, þrælabúðir þar sem saklaust fólk þrælaði þar til það féll niður hálfdautt eða dautt. Bandaríkjamenn gerðu það sama í Mið-Ameríku og fjölmörgum löndum Suður-Ameríku, þessi lönd voru í raun þrælabúðir Bandaríkjanna.

Þessar þrælabúðir í Austri og Vestri voru mikilvægir hlekkir í   hagkerfum Sovétríkjanna og Bandaríkjanna.

Heimspressan hefur sem betur fer haldið rækilega á lofti skelfingum Gúlagsins í Austri en mér kæmi ekki á óvart þó ég verðu úthrópaður fyrir róg um okkar "besta" vin, Bandaríkin, með því að benda á að framferði þeirra, aðallega í Mið-Ameríku, sem var engu betra en framferði Stalín og og hans meðreiðarsveina Síberíu.

Jón Ásgeir, þú þarft ekki að taka það sem illa mælt að þú sért jafnvel "vitlausari" en Skandínavískir kratar. Þeir hafa byggt upp þjóðfélög sem eru fjölmörgum öðrum löndum fyrirmynd. Þó að þú sért eitthvað örlítið vitlausari en Skandínavískir kratar geturðu jafnvel verið góðum gáfum gæddur og hæfur til góðra verka.

Vísindin efla alla dáð var sagt áður fyrrr með stolti, en er það algilt enn?

Það líður vart nokkur fréttatími í sjónvarpi eða útvarpi að ekki komi fréttabútur sem ætíð hefst á þessari tuggu:

"Vísindamenn segja, bla, bla, bla................

Eftir 12 ár og margar hörmungar og dauðsföll var loksins flett ofan af lækni einum sem fékk birta eftir sig grein  í hinu þekkra vísindatímariti Lanchet þar sem hann sagðist hafa sannað að bólusetning barna gegn rauðum hundum, mislingum  og fleiri sjúkdómum gæti valdið einhverfu. Fjölmargir foreldrar trúðu þessu og harðneituðu að láta bólusetja börn sín. Mörg börn hafa dáið sem annars væru á lífi ef þessi froðusnakkur hefði ekki getað smeygt sér í gegnum vísindaheiminn og fengið sínar vísindagreinar "ritrýndar" sem kallað er. Það þýðir að einhver, sem einnig vill láta bera á sér eða er kunningi eða jafnvel ættingi þess sem "vísindaafrekið"fremur skrifar mjög lofsamlega um afrekið og þar með smellur allt saman, allt tekið gott og gilt oft með hörmulegum afleiðingum.

Hvers vegna er þetta svo?

Á umliðnum ártugum hefur starfsemi Háskóla sífellt orði meira og meira á rannsóknarsviði, háskólakennarar hafa rannsóknarskyldu. Frá þessum rannsóknum hefur komið margt nytsamt og merkilegt, á því er ekki nokkur vafi. En Háskólar hafa meir og meir á undanförnum áratugum látið mikið fé af hendi rakna til rannsókna.

En þá koma lýsnar, samviskulausir menn sem svífast einskis og verð sér úti um fúlgur fjár til að rannsaka alt milli himins og jarðar, fyrir nokkrum árum sannaði einn "vísindamaður" að móðurmjólk væri ungbörnum holl!

Þetta vissu allar konur austur í Þykkvabæ fyrir þúsund árum!!!

Og ef maður hefur fengið styrk þá verður að sanna einhvern skollann. Og ekki stendur á fjölmiðlamönnum að ausa spekinni yfir almenning án nokkurrar gagnrýni.

Hrikalegasta dæmið á síðustu árum er hve rækilega heilum her af loddurum hefur tekist að heilaþvo nánast alla pólitíkusa Vesturlanda og almenning með. Þeir hafa komið því svo rækilega inn í flestra höfuð að okkur stafi hætta af hlýnun í heiminum, sem er nú engin, og að sú hlýnun sé af manna völdum.

Ef farið er í gegnum sögu mannkyns óralangt aftur í tímann er hvergi finnanlegt tímabil þar sem okkur stafaði ógn af of miklum hita á jörðinni.  Öðru máli gegnir um kuldann, hann hefur verið öllu dýra- og plöntulífi þungbær svo árþúsundum skiptir. "Litla ísöld" náði heljartökum á okkar litla landi frá 1400 til 1800. Það eru ekki nema 10.000 ár síðasta mikla ísöld hélt Evrópu og þar með Íslandi, í klakabrynju.

Yfir Íslandi var einn samfelldur jökull, svo var einnig um alla N.Evrópu allt suður til Frakklands. Við ættum að óttast kuldann miklu meir en hitann, svo kann að vera að ekki sé svo langt í enn eina "litla ísöld".

 


Megi skömm Bæjarstjórnar Kópavogs verða uppi meðan land byggist

Ráðandi öfl í bæjarmálum Kópavogs skortir ekki samherjana til vondra verka. Þeir fundu heldur en ekki matarholu sem gæti stórbætt fjárhag þessa stærsta sveitarfélags utan höfuðborgarinnar, Kópavogs, sem að sjálfsögðu þarf á því að halda eftir mörg ár óstjórnlegrar útþenslubólu sem að fór eftir línu flokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarfloks.

Það sem á að bjarga fjárhag þessa fjölmenna sveitarfélags er að svipta eldri borgara ókeypis aðgangi að sundstöðum Kópavogs!!!

En þetta vaki svo sem ekki svo mikla furðu hjá mér, þessi sveitastjórnarmeirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks virðist höfuðlaus her eftir að Gunnar Birgisson varð að fara í óumbeði frí til að sinna uppeldisma uppeldismálum heima fyrir. Þannig fer oft þegar undirsátar eiga að fara að stjórna þar sem einræðisherra hefur ríkt en verður svo skyndilega óvígur

En meirihlutinn höfuðlausi var ekki einn í ráðum um að ræna þessari litlu sporslu frá þeim öldruðu. Þeir sem hafa hreykt sér af umhyggju fyrir þeim minnimáttar, fulltrúar félagshyggjuflokkanna þau Guðríður frá Samfylkingunni og Ólafur frá Vinstri grænum voru hjartanlega sammála meirihlutanum, engin ástæða að vera að púkka undir þetta gamla drasl, þeir gætu annaðhvort borgað eins og aðrir eða þá bara setið heima og farið í sitt eigið baðker.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þeir sem velta sér upp úr því að vera réttsýnni og umhyggjusamari en aðrir gleyma því æði oft þegar kemur að málefnum aldraðra. Aftur og aftur kemur þetta berlega í ljós þegar aldraðir eiga í hlut

Má ég koma með annað dæmi: Mig minnir að það hafi verið í tíð Þtngvallstjórnarinnar þar sem núverandi forsætisráðherra var félagsmálaráðherra, sá sami ráðherra kom með þau gleðilegu fyrirmæli að frítekjumark aldraðra hækkað ríflega, færu upp 1.300.200 kr. Þetta þýddi að aldraður lífeyrisþegi, sá sem hafði náð 67 ára aldri, mátti hafa árlegar tekjur upp að þessu marki án þess að lífeyrir skertist. Persónulega fannst mér að þarna væri ég að ganga í endurnýjun lífdaganna. Ég er svo drýldinn að halda því fram að ég búi yfir talsverðri þekkingu í mínu fagi, pípulögnum, og hef leyft mér a titla mig orkurágjafa. Þarna kemur til löng ævi þar sem sífellt hefur safnast í þekkingarsarpinn, en ekki síður að nú er svo komið að þekking á eldri hitakerfum af sérstakri gerð er að mestu glötuð, helst að hún væri finnanleg í gömlum kolli eins og mínum.

En Adam var ekki lengi í Pardís!

Ekki man ég hvort flokkssystkini mitt það var sem sá að þannig ætti alls ekki að mylja undir gamlingja sem ættu að sitja heima og bíða þess að hrökkva upp af. Eitt er víst að annaðhvort var það Ásta Ragnheiður eða Árni Páll sem að sjálfsögðu settu undir lekann og lækkuðu frítekjumarkið niður í 480.000 kr. á ári.

Nú er ég ekki í nokkrum vafa um að þetta gera hæstvirtir ráðamenn í þeim göfuga tilgangi að auka tekjur hins opinbera, sveitarfélags og ríkis. Kópavogur áætlar að afnám bruðlsins til gamlingjanna gefi 7 millj. í aðra hönd, ekki veit ég hvað Árni Páll reiknar sér í tekjur af lækkun frítekjumarksins, en eflaust á það að skila umtalsverðum tekjum. 

En sem aldaður borgari í þessu landi langar mið að segja þetta við ykkur Árni Páll, Guðríður og Ólafur. Þessar gjörði lýsa í fyrsta lagi heimsku og í öðru lagi botnlausu skilningsleysi á því hvað er að vera aldraður. Þið munuð ekki uppskera mikinn fjarhagslegan ábata af þessum gjörðum ykkar. Það er næsta fullvíst að margir aldraðir í Kópavogi, sem þurfa að velta fyrir sér hveri krónu verða að spara neita sér um þá heilsulind sem sundið er. Ég er viss um það Árni Pall að þessi gjörð að lækka frítekjumarkið skilar litlu sem engu. Þér væri nær að hugsa til þess að frítekjumarki eins og það var hefði skila þó nokkrum tekjum í ríkissjóð. Láttu þér ekki detta  í hug að fjöldi ellilífeyrisþega muni halda áfram að afla sér tekna og sjá það hverfa með lækkandi lífeyri. Gæti það verið að aldraður maður héldi betri heilsu ef hann fengi lengur að vera frjáls maður á vinnumarkaði að einhverju leyti? Gæti það jafnvel sparað heilbrigðiskerfinu umtalsverð útgjöldum?

Ég veit að margir eru svo grunnhyggnir að segja sem svo; við lögum þetta aftur þegar efnahagurinn batnar eftir svo sem 5 - 10 ár!

Ég hef náð þeim háa aldri að vera orðinn 75 ár.

En hvar verð ég eftir 5 - 10 ár?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband