Vonandi hafa Davíð og Halldór horft á Kastljós í kvöld

Einhver viðurstyggilegast glæpur síðari ára er Íraksstríðið. Síðan drullusokkurinn Bush Bandaríkjaforseti fór í það stríð með Breska drullusokknum Tony Blair er búið að murka lífið úr 600.000 óbreyttum borgurum í Írak. Það var ógurlega gaman hjá þeim sem sátu við hríðskotabyssurnar í þyrlunum og ekki stóð á því að einhverjar stjórnendur, sem voru víðs fjarri, gæfu leyfi til að skjóta menn sem voru á gangi á götu. Út yfir tók þó þegar hjálpsamur vegfarandi ætlar að hjálpa lífshættulega særðum manni og þá er byrjað að skjóta aftur, maðurinn drepinn og börn hans tvö hættulega særð í bílnum. Bandaríski herinn, herinn þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, var ekki að hafa fyrir því að koma tveimur ungum börnum,  sem þeir voru búnir að særa, undir læknishendur. Heimamenn gátu séð um það. Síðan hefur verið unnið að því hörðum höndum af innrásarliði Bush, Blair, Davíðs og Halldórs að breiða yfir glæpina.

Og umheimurinn horfði upp á þennan viðbjóðslega glæp, innrásina í Írak, flestir ypptu öxlum, margir lofuðu Bush og kompaný. 

Hvað er orðið um samvisku fólks?


Með mínum minnisstæðustu dögum

Ég glaðvaknaði en vissi ekki af hverju. Klukkan sýndi að hún var ekki orðin sjö að morgni. Ég var í góðu yfirlæti hjá þeim Agli og Böggu í Skarði í Þykkvabæ. Það var svo langt að sækja skóla frá Sandhólaferju til Þykkvabæjar að okkur systkinunum frá "Ferju" var komið fyrir á bæjum í Þykkvabænum, sóttum skóla 2 vikur í senn og vorum heima næstu 2 vikur. Mér leið ákaflega vel hjá þeim sæmdarhjónum Agli og Böggu í Skarði, einnig í skólanum hjá Guðmundi Vernharðssyni.

En þetta var 29. mars 1947 og einhverra hluta vegna var ég skyndilega glaðvakandi og fékk verkefni til að leysa, verkefni í eðlisfræði. Þar sem ég svaf í Skarði hékk mikill olíulampi úr lofti. En það var nokkuð að gerast sem mér kom spánskt fyrir sjónir; lampinn rólaði fram og til baka og ég fór í mikil heilabrot. Ef ég hefði rekið mig í lampann þegar ég fór í rúmið þá hefði hann átt að stöðvast fyrir löngu. Þá rak Magga vinnukona inn nefið og sagði "Sggi, varðstu var við nokkuð? Ég neitaði því upptekinn í erfiðu eðlisfræðiverefni; af hverju rólaði lampinn til og frá. Ég fór á fætur, heimilisfólk var komið á fætur og stóð úti í blíðviðrinu.

Á austurhimni var mikið sjónarspil. Þar reis kolsvartur mökkur langt upp í loftið, lóðréttur norðan til eins og hamraveggur, en samfelldur mökkur til suðurs. Ekki hugsaði ég út í það þá að þessi kolsvarti mökkur mundi breiða svo úr sér og ná til Evrópu, Bretlands og Frakklands.

En gosið í Heklu var staðreynd, þessi fjalladrottning hafði verið stillt og prúð í meira en 100 ár en nú fannst henni tími til kominn að ræskja sig og það með það sterkum jarðskjálfta að hann hreyfði hressilega við olíulampanum í Skarði, eðlisfræðiþrautin var leyst. Ég fór í skólann og Guðmundur kennari og skólastjóri staðfesti að Hekla væri að gjósa. Veður var gott, stillt og bjart. En það breyttist skyndilega. Um kl. 9:00 sást ekki á milli húsa í Þykkvabæ.

 


Vigdís Hauksdóttir, haltu þig við þorskhausana

Vigdís, það var ömurlegt að fylgjast með þér í Kastljósi í gærkvöldi þar sem þú þrefaðir við Ólínu Þorvarðardóttur og eins og venjulega ert þú föst í þessu gamla hörmulega hjólfari gamalla hefða í pólitík; að vera á móti öllu sem pólitískir andstæðingar, Ríkisstjórnin, gera. Ég vona að augu þín opnist og þú sjáir hvað hver sá sem er í stjórnmálum verður sterkari ef hann fer að ræða hvert mál með rökum en ekki gamaldags röfli og framíköllum.

Vigdís, haltu þig að því sem þú ert best í. Þar á meðal er sú gamla kúnst að rífa herta þorskhausa. Við erum bæði snjöll í því eins og þú veist.


Batnandi manni er best að lifa

Framsóknarmenn hafa sett fram nýja stefnu, ekki hef ég fengið plaggið til yfirlestrar en inntakið er "samvinna" og einhverntíma hefði það ekki þótt saga til næsta bæjar að það væri höfuðinntak í stefnu Framsóknarflokksins. Ég ætla nú ekki að vera svo sjálfhverfur að halda því fram að Sigmundur Davíð hafi lesið pistilinn minn hérna á blogginu sem bar þá þungu fyrirsögn "Sigmundur Davíð rassskelltur í skoðanakönnun" ef ég man rétt. Ég benti Sigmundi Davíð á það að hann hefði haft gullið tækifæri til að hefja sig og Framsóknarflokkinn upp úr skotgröfunum og starfa og tala af víðsýn,i en það hefur þessi maður aldeilis ekki gert, en sé svo að pistillinn minn hafi haft þessi áhrif á hann til betri manns þá er það vel

Ég við benda Sigmundi Davíð og öllum sem áhrif hafa í stjórnkerfinu á grein Magnúsar Orra Schram í Fréttablaðinu í dag. Málefni dagsins í dag er einmitt það sem hann bendir á; við verðum að komast að samkomulagi við Breta og Hollendinga um ICESAVE og það strax. Ætlum við að halda áfram að berja höfðinu við steininn og halda í einhveri óskhyggju að við komumst að betri kjörum en okkur stóðu til boða efir áramótin? Ætlum við að halda áfram að berja höfðinu við steininn og bíða í algjörri óvissu eftir kosningum í báðum löndunum sem eru okkar viðsemjendur?

Það sem við eigum að gera núna er að ná sambandi að nýju við Breta og Hollendinga á æðsta stjórnstigi (ráðherrastigi) og segja eignfaldlega "við göngum að ykkar tilboði sem þið settuð fram eftir áramótin og undirritum samkomulag um áframhaldið", þannig sleppum við eins vel og hægt er úr því sem komið er. Það hefur alltaf verið kristalstært að ICESAVE skuldina yrðum við að greiða á einhvern hátt.

Öll bið á lausn málsins er okkur miklu, miklu dýrari en að semja á grundvelli síðasta tilboðs Breta og Hollendinga. Ég tel það fullvíst þrátt fyrir stjórnmálaástandið í þessum löndum (starfsstjórn og kosningar framundan) að sitjandi stjórnir geta sem best gengið frá málinu eins og þær lögðu það upp eftir áramótin.

Ég hef ásakað Sigmund Davíð fyrir að hafa verið sá sem kom í veg fyrir samninga. Ég er ekki í nokkrum vafa að ég hef rétt fyrir mér. En nú hefur Sigmundur Davíð það gullna tækifæri að rísa upp fyrir argaþrasið, koma upp úr skotgröfunum og starfa af víðsýni út frá þjóðarheill, en ekki lágkúrulegum atkvæðaveiðum.

Hann ætti að sjá það manna best að þau veiðarfæri sem hann hefur notað hafa ekki fangað eina einustu bröndu.


Gefum Vilmundi og Vilhjálmi fleiri selbita

Mér finnst dapurlegt að Vilmundur Jósefsson, sem ég þekki að góðu einu sem fyrrum formann Samtaka iðnaðarins, skuli láta hafa sig í það skítverk að spenna sig fyrir sérhagsmunavagn Landsambands íslenskra útvegsmanna. Ekki þekki ég svokallað "skötuselsfrumvarp" niður í kjölinn enda skiptir það ekki öllu þegar rætt er um þetta einstaka upphlaup Samtaka atvinnulífsins út af frumvarpinu. Það er rétt að benda öllum almenningi á hvað það er sem gerir forystu SA svo froðufellandi. Það er fyrst og fremst það að þar hefur forysta atvinnurekenda gerst málpípa útgerðarauðvaldsins sem með kjafti og klóm ætlar að koma í veg fyrir að nokkrar endurbætur verði gerðar á kvótakerfinu. Ef menn vilja lesa frekar um mínar skoðanir á því máli bendi ég á pistilinn hér á blogginu "Landkrabbi svarar útgerðarmanni" sem var svar mitt við ruglingslegri grein eftir útgerðarmanninn Ármann Einarsson í Þorlákshöfn. Mér er sagt að nú sitji útgerðarmenn í Þorlákshöfn með sveittan skallann við að bræða saman svar við þessari grein minni, líklega birtist hún í næsta tbl. "Bæjarlífs", ekki ólíklegt að þar fari lítið fyrir rökum og raunsæi.

Og nú er iðnrekandinn Vilmundur Jósefsson orðinn dráttarklár útgerðarmanna. Andstaða útgerðarmanna við þetta lítilfjörlega skötuselsfrumvarp er ekki það að kvóti á skötusel sé aukinn heldur það ákvæði að ráðherra geti veitt auknar veiðiheimildir og þá kemur rúsínan í pylsuendanum:

Það á að taka gjald fyrir þær heimildir og allir sem skötusel geta veitt fá möguleika á að fá úthlutun. Það sem LÍÚ þolir ekki er að það skuli hróflað við forréttindum þeirra, það hefði ekki heyrst hósti né stuna frá þeim ef þessar auknu veiðiheimildir hefðu runnið til þeirra sem þegar hafa kvóta á skötusel og auðvitað; án nokkurs endurgjalds.

Ef þetta skötuselsmál opnar ekki augu landsmanna fyrir hvað snák við ölum við brjóstið þar sem LÍÚ er þá er ég illa svikinn.


Sigmundur Davíð rassskelltur í skoðanakönnun

Skoðanakönnun Fréttablaðsins um fylgi stjórnmálaflokka og Ríkisstjórnar er merkilegt um margt. Stjórnarflokkarnir, Samfylking og Vinstri grænir tapa fylgi frá síðustu skoðanakönnun og tæplega er hægt að búast við öðru eins og ástandið var um það leyti sem skoðanakönnunin var tekin. Ég er ekki í nokkrum vafa að þar eru þrjú mál helstu orsakavaldar.

1. ICESAVE. Almenningur er orðinn yfir sig þreyttur á þessu máli og það alvarlegasta er að mikill fjöldi fólks skilur hvorki upp né niður í því, það er engin furða. Minnið er stutt og fjölmargir eru búnir að gleyma því hvernig þetta mál varð til. Fjölmargir eru búnir að gleyma því að orsökin er einkavæðing (les gjöf) forystumanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks til helstu fjárglæframanna og gæðinga sinna flokka ásamt því hömlulausa frelsi sem þessum einkabönkum var gefið.

2. Sú skelfilega bóla sem þandist út í kjölfar hrunsins í skuldstöðu allra sem skulduðu á Íslandi og oftast hefur verið kallað "Skuldastaða heimilanna"er mikil orsök,  en rétt er að muna að þetta ástand hefur einnig hitt fyrir stóran hluta íslenskra fyrirtækja Þetta orsakast aðallega af tvennu; a) lánum sem miðast við erlenda mynt b) vísitölutrygging skulda. Risstjórninni hefur verið ásökuð fyrir að hafa ekki brugðist nógu hratt við þessum gífurlega vanda hins venjulega Íslendings og það má taka undir það. Hún gat brugðist miklu hraðar við og sýnt meiri stjórnun. Vissulega er búið að gera ráðstafanir til að bjarga mörgum, það þekki ég persónulega. En síðustu ráðstafanir sem Ríkisstjórnin hefur boðað eru mikil réttarbót fyrir hinn venjulega mann. Ég við enn og aftur undirstrika, eins og ég hef gert áður, að það verður aldrei hægt að bjarga öllum, sumir munu missa allt sem þeir eiga og hefði líklega misst allt þó ekkert hrun hefði orðið. En þeir eiga einnig sinn rétt til að lifa í framtíðinni við þolanleg kjör. Það á ekki að gefa skuldheimtumönnum og fjármálastofnunum rétt til að halda þessu fólki í fátækragildru ár eða áratugi fram í tímann. Með þeim ráðstöfunum sem Ríkisstjórnin er nú að gera á að vera girt fyrir það. Að standa uppi eignalaus er skelfilegt, það þekki ég einnig persónulega. En að vera hundeltur árum saman er ennþá verra, það þekki ég einnig. Ég bjó við það að banki og Skattheimta ríkisins voru með mig í sínum greipum í meira en ártug eftir að ég hafði misst allt. Ég vona að enginn þurfi að lifa slíku lífi og ég held að nú séu að renna upp mannúðlegri tímar.

3. Órólega deildin hjá Vinstri grænum hefur valdið miklum skaða. Ögmundur springur á limminu og er hylltur sem hetja að öfgafólki til hægri og vinstri. Ég þarf ekki að lýsa því nánar, hér áundan er sérstakur pistill um það efni. Sú hugmynd að dekstra Ögmund aftur í ráðherrastól hefur kannski ekki kostað Vinstri græna svo mikið í þessari skoðanakönnun. En ég er ekki í nokkrum vafa að margir góðir og gegnir jafnaðarmenn eru að refsa Samfylkingunni, þetta spil í kringum prímadonnuna Ögmund var of beiskur biti til að margt Samfylkingarfólk, og þar á meðal ég, geti kyngt honum.

Skoðum meira í þessari mjög svo merkilegu skoðanakönnun. Hún sýnir mikla sókn Sjálfstæðisflokksins og það ætti ekki að koma svo mjög á óvart. Þarna er Sjálfstæðisflokkurinn að fá fylgi sem byggist engan veginn á verðleikum Bjarna Benediktssonar eða annarra forystumanna flokksins. Þarna birtist að fjölmargir fylgjendur Samfylkingarinnar og reyndar "skynsama" hluta Vinstri grænna eru að refsa sínum flokkum, ekki síst fyrir samstöðuleysið sem orsakast af órólegu deildinni í VG og "kóngalátum" Ögmundar. Ég endurtek enn og aftur; þá var mér nóg boðið. 

En skoðum þá eitt. Ef þetta er rétt greining hvers vegna kemur þetta ekki fram í aukningu hjá Framsóknarflokknum?

Þetta er það athyglisverðasta við þessa skoðanakönnun. Þessi niðurstaða sýnir hve mjög nýbakaður formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð, er rúinn öllu trausti. Þetta sýnir að almenningur í þessu landi lætur ekki hvað gapuxa sem er vaða uppi með stóryrði og bakferli, lætur ekki bjóða sér endalaust lýðskrum eins og Sigmundur Davíð hefur haft í frammi frá þeim fyrsta degi sem hann hefur starfað sem formaður Framsóknarflokksins. Enginn ungur maður, sem komið hefur inn í íslenska pólitík frá hruninu, hefur fengið annað eins tækifæri til ná tökum á sínu hlutverki, koma fram sem víðsýnn framtíðarleiðtogi, leiðtogi sem hóf sig upp fyrir það skelfilega argaþras sem mörgum, og það með réttu, finnst íslensk stjórnmál veru sokkin í.

En Sigmundur Davíð hélt að með því að stunda pólitískan smásmugulegan skotgrafahernað gæti hann orðið stór kall í íslenskri pólitík og fékk fullkominn frið til að stunda þann leik. Hann hafði fullan og óskoraðan stuðning þeirra Höskuldar, Vigdísar og Eyglóar þingmanna til að verða hælbítur en ekki leiðtogi. En rödd Höskuldar virðist þögnuð, lítið heyrist í Vigdísi. En Eygló kom mér á óvart þegar hún kom fram í Kastljósi til að ræða  nýjustu ráðstafanir Ríkisstjórnarinnar í skuldamálum almennings, skyndilega var komin þingkona sem talaði af yfirvegun og málefnalega. Við skulum vona að þarna sé Eygló örlítið að opna augu fyrir því að moldvörpustefna Sigmundar Davíðs  er dauðadæmd.

Þessi skoðanakönnun er rasskelling fyrir Sigmund Davíð og Framsóknarflokkinn. Það koma Alþingiskosningar fyrr eða síðar. Eina von Framsóknarmanna er sú, ef þeir vilja ná einhverjum árangri þar, er að losa sig við þann mann sem ég hef leyft mér að nefna versta "maðk" sem komið hefur inn í íslenska pólitík á síðustu árum.

Sá maður heitir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Það var hann sem réði því að við tókum ekki tilboði Breta og Hollendinga eftir áramótin um mikla lækkun á vaxtabyrði á ICESAVE. Ég hef að framan skrifað pistil um þetta moldvörpustarf Sigmundar Davíðs. Ef við hefðum samið á þessum nótum værum við laus úr ICESAVE spennitreyjunni. Við komumst ekki hjá því að greiða þessa skuld, en núna hangir þetta mál ófrágengið yfir okkur.

Getu Sigmundur Davíð skýrt fyrir okkur hvað það mun kosta okkur?

Sjálfstæðismenn ættu að stíga varlega til jarðar. Sú háa súla sem þeir sjá bláa á síðum Fréttablaðsins er ekki vegna þess að þeir njóti svo mikils álits og traust. Fylgi í skoðanakönnun, sem byggist á tímabundinni óánægju með aðra flokka, tollir illa í húsi. 

 

 


Hvað ætlast þingemnn fyrir með því að fara að krukka í stjórnskipunina handahófskennt?

Tvö þingmannafrumvörp hafa litið dagsins ljós á hinu há Alþingi um stjórnskipan landsins. Annað leggur til að þeir þingmenn, sem taka við ráðherraembættum, láti af þingmennsku og varamenn taki sæti þeirra. Hinsvegar virðast þeir þingmen sem verða ráðherrar að sitja á þingi áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Hinsvegar er frumvarp um að gera landið að einu kjördæmi til að tryggja að vægi allra atkvæðisbærra einstaklinga hafi nákvæmlega sama vægi hvort sem þeir búa í Reykjavík, Rauðasandi eða Raufarhöfn

Hvað gengur þeim þingmönnum til sem með þessu vilja fara að krukka í stjórnskipunina?

Það er eins og hin sterka krafa um stjórnlagaþing og endurskoðun stjórnarskrár og þar með stjórnskipun landsins sé týnd og tröllum gefin, að minnsta kosti virðist þessi krafa vera týnd hjá þeim alþingismönnum sem að þessu "krukki" standa. Það er engin lausn að þeir alþingismenn,  sem verða ráðherrar, láti af þingmennsku og varmenn þeirra setjist á þig. Lítill flokkur fær ekki lítinn liðstyrk ef hann á aðild að ríkisstjórn, hann gæti jafnvel tvöfaldað þá sem sitja  fyrir flokkinn á Alþingi þó atkvæðisbærum hafi ekki fjölgað. Þetta þarf að skoða miklu betur og ég er í grundvallaratriðum sammála því að aðskilja löggjafarþingið og framkvæmdarvaldið betur en gert hefur verið. Ég álít að þeir sem eru ráðherrar eigi ekki að vera þingmenn og ekki nóg með það; þeir eiga alls ekki að sitja á þingi en þingnefndir eiga að kalla þá fyrir þegar ástæða þykir til.

Að gera landið að einu kjördæmi án nokkurra annarra rástafana er neyðarúrræði sem þó  líklega þarf að grípa til, en ekkert mun efla flokksræðið meira en sú gjörð. Hinsvegar má fara blandaða leið og jafnvel skoða að á landinu verði nokkur einmenningskjördæmi jafnframt til að flokksræðið verði ekki algjört. 

Báðum þessum tillögum á að kippa til baka, þær eru engan veginn tímabærar. Slíkar breytingar eru hluti að miklu stærra máli, stjórnskipaninni í heild og endurskoðun stjórnarskrárinnar. Af hverju hefur það mál algjörlega lognast út af, við eigum að krefjast stjórnlagaþings nú á þessu ári svo að unnt sá að vinna að alefli að stjórnlagaumbótum. Þær eiga að vera komnar til framkvæmda í næstu þingkosningum ef þær verða á eðlilegum tíma. 


Froðufellandi Sigmar gegn Árna Páli félagsmálaráðherra

Það var mjög eftirminnilegt viðtalið sem Sigmar í Kastljósi átti við Árna Pál félagsmálaráðherra um leiðréttingar á gengistryggðum bílalánum. Það hefur lengi verið gagnrýnt, og það með réttu að nokkru leyti, að meira sé gengið að og meiri ábyrgð sett á skuldara en lánveitendur, og það er talsvert til í því. Nú hefur Árni Páll skorið upp herör gegn þeim sem lánuðu villt og galið fé til bílakaupa og ég hef verið einn af þeim sem hefur fundist að það hafi verið krafan að öllum skuli bjargað hve óskynsamlega sem menn höguðu sér í lántökum fyrir hrunið og fjölmiðlar hafa tekið undir það að meiri ábyrgð ætti að leggja á lánveitendur. Það er einmitt það sem Árni Páll stefnir að með aðgerðum sínum að krefja lánveitendur um lækkun höfuðstóls bílalána jafnveð ganga svo langt að þessir einu og sönnu sem lánuðu til bílakaupa emja og veina og segjast sjá fram á gjaldþrot.

En í gærkvöldi gerðist nokkuð athyglisvert í Kastljósi. Það mátti segja að Sigmar fréttamaður missti algjörlega stjórn á sér og segja má að Árni Páll hafi tæpast fengið frið til að ljúka nokkurri setningu.  Sigmar varð þarna næstum því sér til skammar. Þeir lántakendur eru til vissulega sem höguðu sér eins og þeir ættu heiminn og slógu endalaust lán, margir hefðu farið á hausinn þó ekkert hrun hefði orðið. En ég held að fréttamann verði að halda sér ámottunni og koma fram af kurteisi en ekki froðufellandi bræði eins og Sigmar gerði í gærkvöldi.


Á nú að fara að skríða fyrir prímadonnunni Ögmundi?

Það eru þokkalegar fréttir sem berast með fjölmiðlum. Ríkisstjórnin og hennar eindregnu stuðningsmenn telja að það sé haldreipið að taka Ögmund aftur inn í stjórnina. Á ég að trúa því að flokkssystkini mín í Samfylkingunni séu svo skyni skroppin að þau láti sér detta það í hug að það styrki Ríkisstjórnina að gera Ögmund aftur að ráðherra?

Mitt álit á Ögmundi Jónassyni þingmanni Vinstri græna er að þar fer egóisti sem fyrst og fremst hugsar um sjálfan sig en reynir að dylja það með hástemmdum orðum um að hann sé svo mikill hugsjónamaður að hann gefi aldrei eftir sín prinsip. Ögmundur hélt hástemmdar ræður á þinginu og sagði að Ríkisstjórnin þyrfti að "skerpa" sína stefnu og tök á vandamálum. Ég held að það þurfi túlk til að koma kjarnanum í máli Ögmundar til skila. Þetta þýðir á mannamáli að Ríkisstjórnin verður að beygja sig í einu og öllu að vilja Ögmundar Jónassonar hvort sem hann verður innan eða utan Ríkisstjórnar. Eitt að því sem hefur gefið Ríkisstjórninni styrk og trúverðugleika er að hafa í sínum röðum tvo ópólitíska ráðherra þau Rögnu dómsmálaráðherra og Gylfa viðskiptaráðherra. Auðvitað er best að taka hvíslinu á götunni með varúð en eittvað hlýtur þetta einhversstaðar hafa komið til álita og umræðu að láta þau víkja. Það væri mikill missir fyrir Ríkisstjórnina að missa þau Rögnu og Gylfa, slæm skipti að fá Ögmund í staðinn, manninn sem hér eftir sem hingað til mun halda öllum í gíslingu svo hrapalega að stjórnin verður nánast óstarfhæf.

Ég held að þessi skrípalega þjóðaratkvæðagreiðsla sem fór fram sl. laugardag hafi ekkert að segja fyrir líf eða dauða Ríkisstjórnarinnar, þessi þjóðaratkvæðagreiðsla hefur engin áhrif hvorki hérlendis eða erlendis. Það sem skilur á milli lífs og dauða allra Ríkistjórna er að hún sé samhent og með samhentan meirihluta bak við sig.

Því miður hefur núverandi Ríkisstjórn hvorugt!

Innan Ríkistjórnarinnar á klofningsdeild Vinstri grænna öflugan fulltrúa, Svandísi Svavarsdóttur, og ekki treysti ég Jóni Bjarnasyni yfir þröskuldinn. Klofningsdeildin í Vinstri grænum er orðin óhæf til samstarfs. Það er mikill skaði því innan þess flokks er margt úrvalsfólk og fer þar Steingrímur J. Sigfússon fremstur meðal jafningja. En eggin í hreiðrinu þurfa öll að vera hrein og blómleg en því er ekki að heilsa innan Vinstri grænna, fúleggin eru of mörg.

Ég hef þá trú að við komumst ekki heil út úr þeirri kreppu sem við erum í núna nema undir forystu Samfylkingarinnar.

Verður ekki Samfylkingin að fara að finna sér stuðning hjá öðrum en Vinstri grænum, þeir eru óhæfir til samstarfs vegna fúleggjana, best að viðurkenna það strax og vinna samkvæmt því.


Vil ég að Ísland gangi í Evrópusambandið?

Ísland hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu og aðildarviðræður eru framundan. Ég er mjög jákvæður fyrir inngöngu í Evrópusambandið en er þó engan veginn búinn að gera upp við mig hvernig ég muni kjósa ef til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur um inngöngu. Það er gert mikið úr því að mikill meirihluti landsmanna sé andvígur inngöngu en satt að segja get ég ekki skilið hvernig hægt er að ákveða það fyrirfram hvað afstöðu menn hafa til inngöngu þegar það liggur engan veginn fyrir hvaða það muni færa okkur jákvætt eða neikvætt. Ég veit að þeir eru nokkuð margir sem eru sannfærðir um að Ísland eigi aldrei að ganga í Evrópusambandið. Það eru þeir sem eru eindregnir í gamla tímanum og sjá í inngöngunni að við séum að afsala okkur sjálfstæði landsins eða næstum því.

Mér fannst það mikið fagnaðaefni þegar Alþingi samþykkti að sækja um aðildina, undirstrika enn og aftur að það þýðir ekki það að við höfum samþykkt að ganga í Evrópusambandið. Mér finnst mikil ástæða til að undirstrika það en aðildarumsóknin og sá samningur sem út úr því kemur sýnir mér ljóslega hvaða afstöðu ég mun taka. það liggur ekki fyrir í dag.

 

Vanstilling

Eins og í flestum pólitískum málum þá gætir mikillar vanstillingar í umræðunni um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. Þar eru nú þegar tínd til öll rök sem finnanleg eru gegn aðild, ég ætla hér að nefna nokkur sem mér finnst allt að því fáránleg. Flestir vita að Grikkland er á barmi þjóðargjaldþrots. Sú furðulega rökleysa skýtur víða upp kollinum að ástandið í Grikklandi sé aðild landsins að ES að kenna! Langt þykir mér seilst þegar því er haldið fram að ef Grikkland væri utan ES væri ástandið þar í landi mun betra. Grikkland er land sem um langan aldur hefur lifað um efni fram og landlæg spilling hefur alltaf leikið fjárhag þess grátt. Eina skiptið sem þeir tóku sig nokkuð á var þegar þeir aðeins hreinsuðu flórinn til að verða tækir í Evrópusambandið. En síðan féll allt í gamla farið, eyðslu og spillingu. Þetta sýnir einnig að ríki innan sambandsins hafa sjálfstæði innan þess bæði til góðra og slæmra verka. Það hefur mikið verið bent á að atvinuleysi sé mikið innan ES og það er vissulega rétt. En á móti mætti spyrja; væri ástandið betra ef ekkert Evrópusamband væri til og hvert ríki berðist eitt fyrir tilveru sinni? Er atvinnuleysið minna utan ES hvað um stórveldið Bandaríki N-Ameríku?

Landhelgin og fiskurinn

Það eru miklar hrakspár í gangi um hvað verði um landhelgina sem við börðumst fyrir með kjafti og klóm. Hvað verður um fiskinn í íslenskri landhelgi, munum við sjá það eftir að við erum gengin í ES að fiskiflotar frá öðrum ES löndum komi inn í okkar fiskveiðilögsögu og hirði frá okkur aflann? 

Ég spyr; hvaðan ætti þeim að koma réttur til þess. Það er gjarnan bent á að þannig sé fiskveiðistefna Evrópusambandsins, ríki hafi sögulegan rétt til að fiska í fiskveiðilögsögu annarra ríkja. Þá spyr ég á móti; hvaða ríki eiga þann rétt í íslenskri fiskveiðilögsögu? Mér sýnist í fljótu bragði að þau séu ekki til nema þá með einni lítilli undantekningu og það væru Færeyjar sem hafa haft sérstak undanþágu til fiskveiða í íslenskri fiskveiðilögsögu. Hvað um hvalveiðar? Ég er engan veginn tilbúinn til að gangast undir það Pempíurök að hvalir séu heilög dýr sem ekki megi drepa undir nokkrum kringumstæðum.

Eitt vil ég spyrja mér fróðari menn; hvernig stendur á því að það gilda ekki sömu reglur um gæði í hafsbotni og yfir hafsbotni hjá Evrópusambandinu. Það dettur ekki nokkrum manni í hug að nágrannar Breta og Dana, svo dæmi sé tekið, geti vaðið inn á þeirra hafsvæði og borað eftir gasi eða olíu.

Hversvegna skyldi ekki það sama gilda um staðbundna fiskistofna sem synda í sjónum? Við verðum að semja um flökkustofna svo sem síld og makríl meira að segja við Evrópusambandið. Ég sé ekki að það muni breytast í framtíðinni, það er langt síðan við þurftum að beygja okkur fyrir því.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband