Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
6.2.2011 | 15:01
Lagnafréttir úr Borgarleikhúsinu
Hreint út sagt; Fjölskyldan eftir bandaríska Írann Tracy Letts er mögnuð leiksýning þar sem ekki er nokkur einasti veikur hlekkur, ekki meðal þrettán leikaranna né annarra sem haf skapað þessa þriggja og hálfs klukkustunda löngu sýningu. Og ekki skal gleyma þeim stóra hópi sem skapar grundvöllinn og umgjörðina, án þeirra yrði erfitt fyrir leikarana að skila sínu hlutverki.
Það er freistandi að setjast í stól gagnrýnandans, hver velt nema hann skríði fram áður en pistlinum er lokið. En það var fleira sem upp í minn huga kom en í þá gömlu góðu daga þegar lifað var í andrúmslofti leikhússins. Ekki síður þau sextán ár sem pistlahöfundur Morgunblaðsins og skrifaðir voru þeir lífseigu pistlar, Lagnafréttir. Það rifjaðist einnig upp að nokkrir pistlanna tengdust leikhúsum, eða öllu heldur vanköntum nokkurra leikhúsa. Þessi árátta tók sig upp kröftuglega í gærkvöldi (laugard. 5. febr. 2011). Við Helga sátum á 14. bekk ásamt Sváfni syni okkar og Erlu tengdadóttur. Eins og flestir vita, sem notið hafa leiksýninga í Stóra sal Borgarleikhússins, er salurinn "brattur" sem tryggir öllum góða sjónlínu á sviðið, ekki er það verra. En þess vegna sitja áhorfendur í mismunandi hæð í salnum og þá kom vandamálið.
Það er ótrúlegt að í þessu tiltölulega nýja húsi, sem að sjálfsögðu hefur verið byggt samkvæmt ströngustu kröfum þar sem nýtt hefur verið öll nýjasta tækni, skuli áhorfendur verið farnir að stynja undan hita og þungu lofti þegar leið á sýninguna.
Hvað hefur gerst?
Er Borgarleikhúsið eitt af þeim "fórnarlömbum" þar sem ekkert hefur verið til sparað, öll lagnakerfi sem best úr garði gerð, en síðan fer ýmislegt úrskeiðis? Hvað um viðhald og eftirlit, hvernig er því háttað. Við Íslendingar vorum ótrúlegir vitleysingar þegar við fórum fyrir alvöru að byggja hús úr varanlegu efni fyrir rúmri hálfri öld. Við fengum þá kolvitlausu flugu í höfuðið að þegar húsið væri fullbyggt væri ekki annað en að flytja inn, hvort sem það voru íbúðir eða atvinnuhúsnæði. Þá værum við komin í mannanna verk sem væru eilíf, ekkert þyrfti framar að gera. Ég er nú einmitt að vinna að því að koma endurbótum á geislahitunarkerfi á tveimur stöðum, þrjú stigahús á hvorum stað, þar sem allt er óbreytt síðastliðna hálfa öld, sýnir að vissulega hefur hönnum kerfanna verið með ágætum í upphafi.
En nú er ég komin út um víðan völl, aftur í Borgarleikhúsið. Ég er viss um að í Borgarleikhúsinu er loftræsikerfi sem bæði getur haldið góðu lofti í leikhússölum og hæfilegum hita. Það er líklegt að þetta sé ekki stórmál að kippa þessu í liðinn. Það er merkilegt að flestum er ljóst að það þurfi að smyrja bílinn með vissu millibili, láta skoða hann ekki eingöngu af skyldu heldur af tæknilegum þörfum, hemlabúnað þarf að endurnýja reglulega o. s. frv. En þegar kemur að tækni bygginganna þá virðist skilningurinn ærið takmarkaður.
Ég hef verið undir áhrifum þessarar mögnuðu leiksýningar, Fjölskyldunnar, þennan sunnudagsmorgun og óneitanlega blaðað í leikskránni sem ég hafði ekki gefið mér tíma til fyrr en nú. Með því að skoða hana og lesa ætti flestum að vera ljóst hve mikið stuðningslið fylgir hverri leiksýningu, hverju leikhúsi.
Skyndilega staldraði ég við eitt nafn, maður var titlaður umsjónarmaður hússins, maður að nafni Ögmundur Þór Jóhannesson. Það skyldi þó ekki vera sá sami og kom sem unglingur inn í Leikfélag Kópavogs og tók þátt söngleiknum "Bör Börsson" sem tveir Norðmenn gerðu eftir hinni vinsælu skálsögu Jóhan Falkberget og Helgi Hjörvar las sem vinsælustu útvarpssögu allra tíma. Guðrúm Þ. Stephensen leiksýrði þessari sýningu okkar með mikilli prýði árið 1974. Í Bör Börssyni fékk ég hlutverk skálksins Óla í Fitjakoti, ótrúlega skemmtilegur karakter. Þetta er líklega sá sami Ögmundur Þór sem tók við af mér nokkrum árum síðar sem formaður Leikfélags Kópavogs.
Nú við ég á engan hátt kenna Ögmundi um hitasvækjuna í Borgarleikhúsinu í gær, veit ekki einu sinni hvort þetta er í hans verkahring. En Ömmi, ef þú lest þessar línur þá er mera en tilbúinn til að líta til þín til ráðgjafar, eða réttara sagt benda þér á ráðgjafa því að hluta liggur þetta utan míns sérfræðisviðs.
Og þessi heimsókn skal ekki kosta þig meira en einn eða tvo kaffibolla.
En þá er ekki hægt að stilla sig um að minnast aðeins nánar á þessa ótrúlegu "fjölskyldu" sem var á fjölunum í gær. Þarna rumskuðu þó aðallega gamlar minningar. Það byrjaði þegar tjaldið lyftist og Pétur Einarsson opnaði verkið. Pétur fékk ég einu sinni til að leikstýra hjá Leikfélagi Kópavogs. leikriti eftir Jökul Jakobsson, leikriti sem mér finnst atvinnuleikhúsin hafi ekki virt viðlits nema einu sinni í upphafi í Þjóðleikhúsinu, þetta var "Sonur skóarans og dóttir bakarans" Þar fékk ég hlutverk sem er í minningunni eitt af fjórum uppáhaldshlutverkum mínum, útbrunna skarið Albjart þar sem Helga kona mín lék jafn glataða konu hans, Matthildi.
Sjaldan hef ég séð Margréti Helgu vinna eins afgerandi sigur og í "Fjölskyldunni" og hefur hún þó margan karakterinn skapað, ætíð með glæsibrag. Enn fór fortíðin að kræla á sér. Það var fyrir löngu sem ég fékk Margréti Helgu til að leikstýra barnaleikriti hjá Leikfélagi Kópavogs. Það var verk Herdísar Egilsdóttur "Gegn um holt og hæðir" og þá vil ég minnast einstaks samstarfsmanns sem nú er látinn. Gylfi Gíslason myndlistarmaður skapaði leikmyndina og saman lögðum við Gylfi okkar þekkingu til að búa til eðlilegan lítinn foss sem féll frama f sviðsbrúninni, líklega þætti það ekki mikið "flóð" miðað við hellirigninguna í Lé konungi á sviði Þjóðleikhússins.
En það voru fleiri sem sýndu magnaðan leik. Sigrún Edda er stórkostleg sem elsta systirin, dóttir móðurinnar Margrétar Helgu. Það var magnað að sjá skyldleik þeirra mæðgna aukist óhugnanlega eftir því sem á leið sýninguna. Sigrún Edda á ekki langt að sækja gáfuna, móðir hennar Guðrún Ásmundsdóttir sést nú sjaldan á sviði því miður. En enn eitt minnið skreið fram. Guðrún leikstýrði hjá okkur í Kópsvogi sóngleiksútgáfu af þeim gamla góða "Leynimel13". Enn fékk ég draumahlutverk; Madsen klæðskerameistara sem byrjaði sem mikill bindindismaður en að lokum sofnaði fullur í þvottabala.
Eina persónan í"fjölskyldunni" er ameríski "frumbygginn" eða Indíánastúlkan sem vinnur verkin, þvær, býr til matinn og vinnur raunar öll störf á heimilinu. Það tók mig nokkurn tíma að átta mig á því að þarna var á ferðinni Unnur Ösp dóttir Stefáns Baldurssonar fyrrum Þjóðleikhússtjóra, borinn og barnfæddur Kópavogsbúi. Ég held að Stefán sé einhver minnisstæðasti leikstjóri sem ég fékk tækifæri til að starfa með. "Glataðir snillingar" eftir færeyska skáldið Villiam Heinesen er ljóðrænt og trakísk verk en þar fékk ég fjórða uppáhaldskarlinn minn að kljást við, Ankersen sparisjóðsstjóra og leiðtoga sértrúarsafnaðarins Iðunnar. Mér finnst furðulegt að leikhúsin skuli ekki hafa sýnt þessu einstaka verki áhuga. "Glataðir snillingar" hafa aðeins einu sinni hafa verið settir á fjalir eftir þetta, en það var Nemendaleikhús Leiklistarskólans sem setti það upp undir leikstjórn Stefáns Baldurssonar. Þar kom fram leikari sem síðan hefur mikið látið að sér kveða á leiksviði og kvikmyndum en þar lék Ingvar Sigurðsson Ankersen sparisjóðsstjóra og safnaðarleiðtoga. Ég sá þá sýningu enda nokkuð tengdur Leiklistarskólanum. Næst þegar ég hitti Stefán Baldursson var mér heitt í hamsi og lét gagnrýnina ganga og spurði "hvernig gastu breytt þessu ljóðræna og trakíska verki í farsa, þetta var skemmdarverk". Stefán brást við með sínu rólyndi og sagðist vilja kynna okkur nafnana í ágætu samkvæmi sem við vorum í og kallaði Ingvar Sigurðsson á vettvang. Sagði að hann hefði farið fljótlega til útlanda eftir fumsýningu í Nemendaleikhúsinu og ekki getað fylgst með framvindu og þróun legsýningarinnar. Spurði Ingvar hvort verið gæti að nokkurt ærsl hefði læðst inn í hinn unga hóp leiklistarnemanna?. Ingvar maldaði í móinn en viðurkenndi að lokum "að ekki væri loku fyrir það skotið að einhver fiðringur hefði gripið hópinn og ýmsir leyft sér meira í átt til ærslanna en lagt hefði verið upp með".
En svona vill stundum fara, ætlunin er að fara nokkrum orðum um magnaða leiksýningu en enginn ræður för, það er farið um víðan völl áður en við er litið.
3.1.2011 | 23:03
Glæsilegir tónleikar Lúðrasveitar Þorlákshafnar í Versölum
Nýárshátíðin endaði vel í gær með tónleikum Lúðrasveitar Þorlákshafnar í samkomusalnum Versölum í Ráðhúsi Ölfuss. Sem fyrr var það Róbert Darling sem sveiflaði tónsprotanum, en í sveitinni voru að mér sýndist nokkuð yfir 30 einstaklingar á mjög svo misjöfnum aldri. Nokkrir rosknir karlar en einnig ungar stúlkur úr efsta bekk grunnskólans. Það var ekki síður ánægjulegt að salurinn var troðfullur, já svo sannarlega troðfullur í orðsins fyllstu merkingu. Það verður ekki annað sagt en að Þorlákshafnarbúar og íbúar víðar úr sveitarfélaginu Ölfusi hafi mætt, þarna sáust einnig kunn andlit frá Árborg og Hveragerði.
Í tveimur lögum mætti söngkona sem tók hressilega undir með hljómsveitinni. Félagar úr Leikfélaginu frömdu tvisvar skemmtilega gerninga sem kettir og trúðar. Ungur dansari var reiðubúinn til að taka sporin en því miður meiddist stúlkan sem er dansfélaginn kvöldið áður, vonandi ekki alvarlega. Þetta atriði hefði því fallið brott en þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Móðir þessa unga dansara hljóp í skarðið og í vals- og polkatakti svifu þau mæðginin um gólfið eftir öruggum takti Lúðrasveitar Þorlákshafnar.
Bestu þakkir til allra sem lögðu sitt af mörkum, ekki má gleyma Barböru í Bókasafninu sem leiddi þessa skemmtilegu tónleika með styrkri kynningu.
29.12.2010 | 20:46
Ævisaga Gunnars Thoroddsen er merkileg heimild um pólitíkina á síðustu öld
Ég var svo heppinn að fá Ævisögu Gunnars Thoroddsen eftir Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing í jólagjöf. Bókin er engin smásmíði, 580 bls. með stuttum eftirmála. Ég er að verða búinn að lesa verkið, ríkisstjórnin sem Gunnar myndaði með Framsóknarflokki, Alþýðubandalagi og flokksbroti úr Sjálfstæðisflokknum er komin að fótum fram og pólitískur feril Gunnars á enda. Ekki get ég neitað því að stundum fannst mér, sérstaklega í upphafi, að Guðni dveldi of lengi við einstök mál,hann segir sögu Gunnars frá frumbernsku og hvaða stofnar stóðu að honum. Hins vegar þegar fram í sótti fannst mér vanta frekar í textann heldur en að hann ætti að stytta. Það sem mér finnst vanta er að rekja betur hverjir sátu sem ráðherrar á hinni löngu ævi Gunnars. Guðni nefnir flestar ríkisstjórnir þessa langa tímabils en þar sem ég hef langa ævi að baki og hef alltaf haft mikinn áhuga á þjóðmálum þá held ég að ég sé nokkuð vel heima í pólitískri sögu Íslands allt frá því að það hlaut fullveldi 1. des. árið 1918. En stundum eru gloppur, sem dæmi get ég nefnt að undanarinn að stjórnarmyndum Gunnars í árbyrjun 1980. Hvaða ríkistjórn sat þá að völdum? Það er aðeins sagt örfáum árum að þá hafi minnihlutastjórn Alþýðuflokksins undir forsæti Benedikts Gröndal sagt af sér. Gjarnan hefði mátt hafa betri samfellu í því hvað gerðist áður en Gunnar myndaði sína stjórn, hvers vegna sat minnihlutastjórn að völdum næst á undan? Þetta segi ég því ég sé fyrir mér að þegar fram líða stundir verður Ævisaga Gunnars Thoroddsen eftir Guðna Th. Jóhannesson merkileg heimild um þennan sögulega tíma, megnið af 20. öldinni með fullveldi og lýðveldisstofnun m.a. Síðar meir verður þessi saga ekki aðeins lesin sem ævisaga merks stjórnmálamanns heldur ekki síður sem heimild um stjórnarfarið og þá sem þar um véluðu, stjórnmálamenn 20. aldarinnar. Þess vegna sakna ég þess að ekki sé farið rækilegar í pólitíska sögu aldarinnar og gerð grein fyrir þeim sem þar þrefuðu um stjórnarmyndanir á hverjum tíma og hverjir sátu í ráðherraembættum. Vissulega eru margir nefndir en það er ekki nógu ítarlegt.
En hver eru dýpstu áhrifin af lestri Ævisögu Gunnars Thoroddsen?
Auðvitað efst á blaði merkilegur ferill eins glæsilegasta stjórnmálamanns 20. aldarinnar á Íslandi sem þó alla tíð var barn síns tíma og varð að spila eftir leikreglum aldarinnar. En það segir ekki litla sögu um manninn Gunnar Thoroddsen hvað hann kom víða við og öll þau embætti sem honum hlotnuðust. Ég held að þar hafi hann náð tindinum sem Borgarstjóri í Reykjavík. Stundum ætlaðist hann til of mikils svo sem þegar hann taldi sig eiga greiða leið í Forsetaembættið.
En það sem situr þó eftir er hversu gróflega íslensk stjórnmálastétt var spillt á 20. öldinni, hrossakaupin og hyglun fylgismann, vina, ættingja og flokksfélaga var með eindæmum. Það sem slær mig þá mest er að verða vitni að því að við nær allar stjórnarmyndanir, við myndanir Ríkistjórna Íslands var það ekki þjóðarhagur sem réði ferðinni. Pólitísku flokkarnir voru miklu framar þjóðarhag og þar með klíkuskapur og að halda sjálfum sér á floti. Vissulega má skynja að þarna var mannamunur en það gat enginn leyft sér að gleyma hag FLOKKSINS, HANN var efstur í hagsmunaflokkun. Þess vegna má segja að stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsen hafi ekki verið eftir mynstrinu en að sjálfsögðu var Gunnar, þá kominn á efri ár, knúinn af metnaðinum að ná æðstu metorðum. Næstum allar stjórnamyndanir voru karp og undirferli þar sem þjóðarhagur var langt frá því að vera mönnum efst í huga.
Höfum við eitthvað lært?
Tæplega ef tekið er mið af öllu því fádæma bulli sem sett er fram á blogginu þar sem æðsta markmiðið virðist vera að níða aðra, þar skeyta margir ekki um skömm né heiður
Satt best að segja hugsa ég alvarlega um það hvort verandi sé í þeim félagsskap.
4.12.2010 | 15:21
Ráðstafir Ríkisstjórnar og fjármálfyrirtækja vegna skulda heimilanna fara fyrir brjóstið á öfgasinnuðum bloggurum og ákveðnum öflum í þjóðfélaginu
Það samkomulag sem gert var ætti að sýna öllum að það var ekki létt verk að ná saman þeim sem þar þurftu að koma að. Vissulega er búið að gera margt í bönkunum til að koma til móts við þá sem eru illa komnir vegna Hrunsins og afleiðingunum af falli krónunnar. En sá punktur sem settur var í gær var bráðnauðsynlegur vegna þess að það hefur verið mikil tregða hjá þeim sem illa eru staddir til að leita sér aðstoðar; þar kemur til hávær yfirboð ákveðinna afla í þjóðfélaginu sem Guðmundur Guðmundsson formaður Rafiðnaðarsambandsins lýsti vel í Kastljósinu þegar Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar hélt enn eina ruglingsræðu um hvernig ætti að bjarga öllum, því miður verður það aldrei hægt. En þeir sem barist hafa við skuldabaggann hafa látið glepjast af þessum fagurgala og þess vegna haldið að sér höndum í von um eitthvað miklu, miklu betra sem aldrei var nema tálsýn.
En það er fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum ýmissa einstaklinga svo sem bloggaranna sem alltaf eru "fúlir á móti". En ég nenni ekki að eltast við þá enda eru þar þó nokkur hópur sem ekki er hægt að eiga orðastað við.
En viðbrögð stjórnarandstöðunnar voru því athyglisverðari og þar vil ég fyrst nefna Bjarna Benediktsson og flokk hans, Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst ekki ólíklegt að Bjarna hafi brugðið illilega þegar hann sá að stjórnarandstaðan hafði í skoðanakönum 16% traust þjóðarinnar og þar í hlýtur hlutur stærsta stjórnarandstöðufokksins, Sjálfstæðisflokksins, að vega þungt. Oftast hefur stjórnarandstaðan talað einni röddu, verið á móti öllu og rakkað allt niður sem frá Ríkisstjórninni hefur komið. Það skyldi þó ekki vera að augu Bjarna hafi opnast og hann séð það skýrt að þessi ómálefnalega og einskisnýta þjösnabarátta stjórnarandstöðunnar gengur ekki lengur. Bjarni stökk frá borði stjórnarandstöðunnar í gær og virtist vera að sjá að málefnaleg umræða um mál, hvaðan sem þau koma, er það sem almenningur vill sjá og heyra. Bjarni hefur sem sagt skyndilega skilið að fólk er ekki fífl sem láta bjóða sér hvað sem er. Ekki ólíklegt að þetta verði örlítill plús eftirleiðis fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
En Sigmundur Davíð formaður Framsóknarflokksins er samur við sig, þó mátti sjá að öryggi hrópandans fúll á móti var ekki það sama óg áður Þegar hann kom fram í Kastljósi. Auðvitað þurfti hann að tæta gerðir Ríkistjórnarinnar í sig en gat þó ekki annað en verið örlítið jákvæður.
En svo komum við að ósköpunum sem kallast Hreyfingin og átti að vera hin mikla endurnýjun, komin fram eftir ákalli fólksins eins og þeir segja. Margrét Tryggvadóttir þingmaður Hreyfingarinnar leyfir sér í Fréttablaðinu í dag að segja að þær ráðstafanir sem kynntar voru í gær væru "Ölmusupólitík og aumingjavæðing". Er Margrét með þessu að segja að öll þau heimili sem fá hjálp, líklega 60.000 heimili og þeir sem þar búa, séu ölmusufólk og aumingjar, liggur það ekki í hennar orðum? Það er litlu við að bæta eftir þá hirtingu sem Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar fékk hjá Guðmundi Gunnarssyni í Kastljósi. Þór hefur aldrei svo ég hafi orðið var við annað gert en vera á móti öllu og rakkað allt niður sem fá Ríkisstjórninni kemur, hann er fyrir löngu búinn að gera sig að slíkum ómerkingi að á hann verður ekki hlustað meir. Það dapurlegast er samt að grasrótarhreyfing eins og Hagsmunasamtök heimilanna, sem hefur alla tíð predikað þá vitlausu leið flatan niðurskurð, hefur alla tíð njörvað sig við Hreyfinguna eins og þar fari deild í þeim ólukkuflokki.
Mér varð það á í síðasta pistli að fara rangt með föðurnafn Halldórs Ásgrímssonar, sagði hann Ingólfsson. En einhverjir kunna að hafa tekið þetta sem styttingu og samsetningu nafnanna Halldór Ásgrímsson og Finnur Ingólfsson. Það finnst mér hið besta mál, samhentari menn voru tæpast til þegar hinum feysknu stoðum Hrunsins var hróflað upp, þar unnu þeir sem ein persóna.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.11.2010 | 13:37
Fulltrúalýðræði, með rétti til að skjóta málum í þjóðaratkvæði, er sá rammi sem ég sé sem ríkjandi stjórnarform á landi hér
En lýðræðið með sínu fulltrúaveldi hefur reynst skásta stjórnarformið sem mannkynið hefur notað þrátt fyrir alla sína galla.
En hérlendis hefur því miður margt í grundvallareglum lýðveldisins verið fótum troðið á þessari og síðustu öld. Tveir valdamenn höfðu ekkert vald til að skipa Íslandi í flokk þjóða sem ýmist réðust á glæpsamlegan hátt inn Írak eða studdu innrásina, en gerðu það samt. Komin er út ævisaga hins merka stjórnmálamanns Gunnars Thoroddsen sem lýsir vel þeirri spillingu sem ríkti nær alla síðustu öld og ekki batnaði ástandið eftir að við komum fram á þessa öldina.
Ég er mjög hlynntur því að við sköpum öryggisventla fyrir að Stjórnarskrá sé haldin og stjórnsýslan og framkvæmdavaldið taki sér ekki meiri völd en það á að hafa samkvæmt okkar leikreglum.
Það munum við gera með ströngu eftirliti og ekki síður málskotsrétti til almenning, með réttinum að skjóta málum í þjóðaratkvæði.
En þar þurfum viða að vanda okkur, þjóðaratkvæði á að vera réttur sem umgangast á með virðingu. Það verða að vera ákveðnar, allt af því strangar reglur um hverjir hafa rétt til að skjóta málum í þjóðaratkvæði eða krefjast þjóðaratkvæðis.
Þá kemur tæknin til sögunnar. Með nútímatölvutækni þarf þjóðaratkvæðagreiðsla ekki að vera svo kostnaðarsöm. Við getum einfaldlega virkjað okkar heimabanka til þess að hver og einn geti kosið heima hjá sér, það er lítið mál að sjá til þess að aðeins sé kosið einu sinni á hverja kennitölu. Enn er einhver þjóðfélagshópur sem ekki hefur tileinkað sér möguleika tölvunar. Þeim verður að gera kleyft að fá aðstoð við atkvæðagreiðslur á þennan hátt.
Og um leið og atkvæðagreiðslu lýkur liggja úrslitin fyrir.
11.11.2010 | 11:27
Biskupsstofa kannar afstöðu frambjóðenda til Stjórnlagaþings til sambands Ríkis og Þjóðkirkju
Ég, eins og allir frambjóðendur Stjórnlagaþings, hef fengið póst frá Biskupsstofu með tilvitnun í núverandi Stjórnarskrá svohljóðandi:
Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.
Síðan koma tvær spurningar svohljóðandi:
1. Telur þú þörf á að breyta þessari grein? Ef svo er hvernig?
2. Hver er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?
Ég tel eðlilegt að sem flestir kanni skoðanir frambjóðenda til einstakra mála eins og Biskupsstofa gerir hér. Ég hef ekki svarað Biskupsstofa beint en vísað til þess sem ég hef skrifað um samband Ríkis og Þjóðkirkju hér fyrr á blogginu. Ef Biskupsstofa óskar frekar eftir beinum svörum mínum er sjálfsagt að að verða við því.
En ég get ekki látið hjá líða að koma inn á það sem mér finnst furðulegur misskilningur hjá kristnum einstaklingum, en tek fram að þar á ég ekki við þessa könnun Biskupsstofu, frekar einstaklinga sem ég hef heyrt í. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að Ríki og Þjóðkirkju eigi aða aðskilja algjörlega. En þá bregður svo við að sumir virðast taka þessa skoðun um aðskilnað Ríkis og Þjóðkirkju sem andúð og baráttu gegn kristinni trú. Í mínum huga er fyrirkomulag stofnana trúfélaga eitt, trúin annað. Það er enginn fjandskapur við núverandi Þjóðkirkju þó ég telji það réttlæti að Ríkið sé ekki að reka stofnanir ákveðinna trúarbragða. Ég hef einnig leitt að því rök að aðskilnaðurinn mundi frekar styrkja núverandi Þjóðkirkju en veikja hana.
Eru ekki einhverjir öflugustu söfnuðir kristninnar hérlendis Fríkirkjusöfnuðirnir í Reykjavík og Hafnarfirði?
9.11.2010 | 14:08
KJördæmaskipun landsins hefur alltaf verið vandræðabarn
Sá sem er í framboði til Stjórnlagaþings er að sjálfsögðu orðinn æði upptekinn að velta fyrir sé málefninu sem bíður; að setja Íslandi nýja Stjórnarskrá.
Eitt af því sem þar bíður að fást við er vægi atkvæða sem oft hefur verið æði misjafnt. Aldrei mun það þó hafa verið jafn slæmt og vægið ójafnara en á 4. ártug síðustu aldar. Svo langt gekk það að Framsóknarflokkurinn bar ægihjálm yfir aðra flokka og atkvæðafylgið ekki í neinu samræmi við þingmannafjölda flokksins. Margar tilraunir hafa verið gerðar til jöfnunar á vægi atkvæða með breytingum á kjördæmum en oftast riðlast það jafnvægi fljótlega vegna búferlaflutninga.
Það virðist vera nokkuð almenn skoðun landsmanna að eina ráðið til jöfnunar sé að gera Ísland að einu kjördæmi. Það er vissulega rétt að þá hefur náðst algjör jöfnuður.
En hefur Ísland eitt kjördæmi engar neikvæðar hliðar?
Ég hef alla tíð verið nokkuð gagnrýninn á landið sem eitt kjördæmi og óttast það neikvæða sem fylgir. Það sem ég óttast mest er að með því eflist flokksræðið og finnst víst mörgum að það sé nægilegt fyrir. Við þetta fyrirkomulag, landið eitt kjördæmi, býður hver flokkur fram aðeins einn lista hvort sem það eru gömlu flokkarnir, fjórflokkurinn margumtalaði, eða ef til vill mergð nýrra flokka sem bjóða fram; framboðslistar yrðu settir saman í höfuðstöðvum flokkanna í Reykjavík.
Yrði þetta ekki lyftistöng fyrir flokksræðið?
Þrátt fyrir Ísland eitt kjördæmi er ekki loku skotið fyrir það að til verði sérframboð og þá einkum á landbyggðinni. Þeir listar gilda að sjálfsögðu sem listar bornir fram á landinu í heild. En á þetta má minnast, Ísland eitt kjördæmi er ekki trygging fyrir að ekki verði landshluta togstreita.
En hvernig er hægt að tryggja að kjósandinn geti jafnvel kosið einstaklinga? Verða þeir þá að vara frambjóðendur á flokkslistum?
Er það gerlegt að einstaklingar geti einnig boðið sig fram til Alþingis í þessu stóra kjördæmi. Íslandi öllu?
9.11.2010 | 09:48
Dapurlegt hvernig komið er fyrir Morgunblaðinu
Ég átti góða samleið með Morgunblaðinu í 16 ár, árin sem ég skrifaði pistlana Lagnafréttir. Lengst að var Magnús Sigurðsson umsjónarmaður Fasteignablaðsins sem Lagnafréttir birtust í, við áttum alla tíð hið besta samstarf. Það kom fyrir að Styrmir Gunnarson legði mér lið en þetta var á þeim árum sem hann og Matthías Johannessen voru búnir að endurreisa Morgunblaðið og gera það að víðsýnum fjölmiðli þó ekki kæmist það alfarið hjá því að leggja Sjálfstæðisflokknum lið.
En nú er öldin önnur. Einhverntíma hefði það þótt saga til næsta bæjar að í Morgunblaðinu birtist annar ein leiðari og þar sást í gær. Hann var uppfullur af rætni, hæðni en ekki síst af minnimáttarkennd og öfund. Efni leiðarans var þjóðfundurinn um helgina sem eflaust gefur þeim 25 sem kjörnir verða á Stjórnlagaþingið góðar ábendingar.
Tryggvi Gíslason, sá gagnmerki skólamaður, hefur svarað þessum leiðara á yfirvegaðan hátt með festu og fengið stuðning minn og fleiri með athugasemdum við sinn pistil.
Að lokum vona ég að Morgunblaðið nái aftur þeirri reisn sem það bar undir stjórn Styrmis og Matthíasar, sökkvi ekki á kaf í að verða sorapyttur og útrás fyrir geðillsku þess sem finnur að hann er búinn að tapa fyrri tiltrú, grefur þar með sína eigin gröf.
11.10.2010 | 16:32
Hvað vakir fyir þingmönnum, sem fljótlega eftir að Stjórnlagaþing var ákveðið, fóru að koma fram með tillögur sem varða stjórnarskrána?
Mér finnst þetta nokkuð sláandi. Alþingi, sem hefur ekki getað endurskoðað Stjórnarskrána i heild frá lýðveldisstofnun er nú farið að vasast í breytingum á stjórnarskrártengdum málum. Það er vitað að aðgreining þriggja þátta stjórnkerfisins verður eitt mikilvægasta verkefni Stjórnlagaþings. Samt eru þingmenn að koma fram með tillögur um að þingmenn segi af sér þingmennsku ef þeir verða ráðherrar, landið verði gert að einu kjördæmi og núna síðast að setja einhverskonar reglur um persónukjör.
Ættu ekki Alþingismenn að sýna verðandi Stjórnlagaþingi þá virðingu og það traust að slík mál verði þar tekin föstum tökum og verði í þeirri heildarendurskoðun Stjórnarskrárinnar sem að er stefnt?
6.9.2010 | 11:02
Örn Bárður Jónsson prestur fer með rangt mál úr prdikunarstóli
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar