Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Heita vatnið hækkar umtalsvert frá Orkuveitu Reykjavíkur, nú er lag að fara í endurbætur á hitakerfum

Fyrst skulum við gera okkur ljóst að þeir sem kaupa heitt vatn frá Orkuveitu Reykjavíkur (þar áður Hitaveitu Reykjavíkur) hafa í mörg ár keypt ódýrustu orku til húshitunar sem fáanleg er  sem fáanleg er hvarvetna á byggðu bóli. Heita vatnið hefur meira að segja ekkert hækkað síðustu ár og satt að segja hefur það ekki verið skynsamleg stefna hjá OR að láta ekki verðið á heita vatninu fylgja verðlagi.

En þetta lága orkuverð hefur haft einn leiðan fylgikvilla. Vegna hins lága verðs hafa húseigendur haft litinn áhuga á að endurnýja sín hitakerfi og stýritæki þeirra, allt í lagi þó vatnið renni til muna of heitt út í skólplagnir, allt í lagi þó hitinn í íbúðinni fari upp úr öllu valdi, þá bara að opna alla glugga og svalhurðir upp á gátt. En húseigendur skynja oft ekki að þetta viðhaldsleysi gerir hitakerfin léleg, hiti í húsum ójafn, hitaþægindin engan veginn eins og þau ættu að vera ef viðhald t. d. stýritækja hitakerfa væri í lagi. Svo er gott að muna þetta: Það er ekki verið að kaupa heitt vatn, það er verið að kaupa varma, um að gera að kreista sem flestar hitagráður úr vatninu.

Nú er lag

Endurnýjun stýritækja hitakerfa fylgir auðvitað talsverður kostnaður aðallega vegna þess að það útheimtir talsverða vinnu fagmanna, fagmanna sem vita hvað þeir eru að gera og vita að þeir eiga ekki að fara frá verkinu fyrr en hitakerfið hefur verið stillt (því það þarf ekki síður að gera þó sett séu upp ný stýritæki)  og húseigandi fengið í hendur stuttar leiðbeiningar um hvernig hann á að nýta sér kosti nýrra stýritækja.

Eyðirðu of miklu af heitu vatni?

Það geta flestir húseigendur gert sér grein fyrir með því að fá frá OR upplýsingar um eigin eyðslu, svokallaða "álestrarsögu" hvers kerfis. Það eru til einfalt og gott dæmi um að hver og einn á að geta lesið út úr þeim gögnum hve mikið hann eyðir af heitu vatni, hvort það er eðlileg eyðsla eða bruðl sem kostar ennþá meira hér eftir en hingað til. Þetta er hægt að sjá á nýtingartölunni.

Hana er hægt að finna með einföldu dæmi sem byggist á hlutfallinu milli stærðar hússins í rúmmetrum  og hvað margir rúmmetrar af heitu vatni hafa verið keyptir á 1 ári. Segjum að hús sé 500 rúmmetrar að stærð og hafi keypt 500 rúmmetra af heitu vatni frá OR á ári. Þá er nýtingartalan 1. Slík hitakerfi og hús eru finnanleg en þau eru líklega ekki mörg, lengra verður tæpleg komist í nýtingu á keyptu heitu vatni. Annað dæmi: húsið er jafnstórt eða 500 rúmmetrar  en kaupir og notar 1000 rúmmetra af heitu vatni á ári. Þá er nýtingartalan 2 og þá geturðu verið viss um að það er eitthvað að í hitakerfi hússins, þú eyðir of miklu af heitu vatni.

En hvað er eðlileg notkun á heitu vatni í 500 rúmmetra húsi. Ekki ástæða til að hrökkva við þó notaðir séu 650 rúmmetrar af heitu vatni, þá er nýtingartalan 1,3. En því hærri sem nýtingartalan verður er ennþá meiri ástæða til að fara að huga að lagfæringum sem í mörgum tilfellum þurfa ekki að vera svo kostnaðarsamar.

En það er þörf á sérfræðiþekkingu, það ættu allir að muna.


Ég svaraði Þórhalli Heimissyni presti, sem ég ber virðingu fyrir, en því ekki að birta það beint á mínu bloggi?

Þú kemur mér á óvart Þórhallur með hvað þú ert afdráttarlaus í þínu máli eins og fyrirsögnin að þínum pistli ber vott um, að þessu finnst mér vera fengur að prestur fer ekki í felur. Svo þú vitir hvar ég stend þá sagði ég mig úr Þjóðkirkjunni fyrir nokkrum árum. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að öll trúarbrögð eru hjóm og hismi og voru fundin upp til að sefja lýðinn og ég er ekki hissa á að fólk í gegnum skelfingar fyrri alda þyrftu á einhverju að halda til að geta lifað af daglegar hörmungar.

Ég  var viðstaddur nafngjöf og skírn yndislegs drengs í dag, móðirin er stjúpdóttir míns elsta sonar. Presturinn fór með trúarjátninguna sem ég hef oft heyrt, en samt brá mér. Í henni lýsa menn yfir trú á guð, hans son Jesú og heilagan anda. Lengi hélt ég að kristin trú væri eingyðistrú, guðinn væri aðeins einn en þarna kemur fram að í kristinni trú eru þeir þeir þrír. Og ekki nóg með að kristnir menn eigi að trúa á þrjá guði heldur heyrði ég í fyrsta skipti, eða tók eftir, i að við eigum að trúa á þann fjórða.

Og hver skyldi það vera?

Jú, kristnir men eiga að trúa á heilaga kristna kirkju auk þessara þriggja guða.

Sem sagt, við eigum að lýsa því yfir að stofnun sú er hin látni brotlegi biskup, Ólafur Skúlason, var biskup yfir sé guðs ígildi og þar með fjórði guð kristinna manna.

Þórhallur, mér finnst margt af því sem þú ert að gera lofsvert, það gætirðu gert hvort sem þú ert prestur kristins safnaðar eða ekki.

En nú ætla ég að leggja fyrir þig samviskuspurningu sem ég á enga heimtingu á að þú svarir, kannski eru aðrir ábyrgari fyrir svarinu.

Við höfum í þjóðfélaginu gífurlega sterkt afl sem heitir Frímúrarareglan. Er það ekki nánast víst að allir þeir sem studdu Óaf Skúlason og reyndu að hylma yfir hans lífernu, meira að segja áður en hann var kjörinn biskup, sé samsvarin klíka í Frímúrarareglunni? Er Hjálmar Jónson dómkirkjuprestur í reglunni, er Pálmi Matthíasson í reglunni, er Vigfús Þór í reglunni og síðast er ekki síst; er núverandi biskup Karl Sigurbjörnsson í reglunni?

Mér finnst ekki úr vegi að þeir sem ég hef nefnt að framan svari undanbragðalaust.


Nátttröllið glottir

Það er langt síðan ég fór að líta á Lútersku þjóðkirkjuna sem Nátttröll í íslensku þjóðfélagi. Ég sagði mig úr henni af því að ég er algjörlega andvígur því að hér séu þjóðnýtt trúarbrögð sem ALLIR eru skráðir inn í við fæðingu  og einnig að ég er algjör guðleysingi, trúi ekki á þessa þrjá guði kristinnar trúar, Guð, Jésú og heilagan anda. Ég tel sjálfsagt að hver og einn fái að velja sín trúarbrögð eða trúleysi og ég held að það sé ekki hjá því komist að ríkið styrki trúfélög að einhverju leyti. En þá veður það að vera á algjörum jafnréttisgrundvelli. Þess vegna er þessi gamli arfur, Nátttröllið Þjóðkirkjan með öllu óþolandi, þetta er arfur frá fyrri öldum þegar Kristnar kirkjur, fyrst kaþólska kirkjan og eftir "siðaskiptin" lúterska kirkjan höfðu ótrúleg völd hérlendis og víðar og sópuðu til sín löndum og lausum aurum með glæpsamlegri starfsemi, því verður ekki neitað með rökum.

Nú stöndum við frammi fyrir því að biskup lúterskra hérlendis, sem er látinn, er uppvís að því að hafa verið barnaníðingur og ofbeldismaður gagnvart konum. Sú skelfilega vitneskja að þegar hann var hafinn á æðsta stall Þjóðkirkjunnar vissu margir innan stofnunarinnar, Nátttröllsins, hvað mann þessi einstaklingur hafði geyma; samt var hann kjörinn biskup.

Einn af þeim sem brá skildi fyrir hinn brotlega prest sem var kjörinn biskup var arftaki hans, Karl Sigurbjörnsson, sem nú ber titilinn "Biskup Íslands" minna má það ekki vera. Ef þetta Nátttröll, Íslenska þjóðkirkjan væri ekki á sérstöku framfæri ríkisins og þjóðarinnar allrar, stæði sjálf undir framfærslu sinni, mundi ég ekki skipta mér af því hvaða misheppnaðir einstaklingar stýrðu Nátttröllinu. En ég fæ ekki séð hvernig Karl Sigurbjörnsson, sem er í rauninni ríkistarfsmaður, ætlar að sitja áfram í þessu embætti með þessum mikilúðlega titli.

Hann er rúinn trausti og ætti að segja af sér á stundinni.

Eitt af því sem væntanlegt Stjórnlagaþing þarf að taka á er að skafa burt allt sem  stendur í núverandi Stjórnarskrá um Íslenska þjóðkirkju, það er eitt af mörgum málum sem hreinsa þarf út.

Burt með þjóðnýtt trúarbrögð á Íslandi, burt með trúarstofnun sem allir Íslendingar eru sjálfkrafa skráðir inn í við fæðingu og eiga þaðan tæpast útgönguleið.

Ef menn segja að útgönguleiðirnar séu greiðar ættu þeir fyrst að minnast frelsishetjunnar Helga Hóseassonar!


Hverjar eru kröfur slökkviliðsmanna?

Ég er vissulega einn af þeim sem hef verið gáttaður á því að slökkviliðsmenn hafi verið án samnings í heilt ár og hef talið að þarna væri á ferðinni einhver óbilgirni samninganefndar sveitarfélaga, við slökkviliðsmenn hefði átt að vera búið að semja fyrir löngu.

En nú er ég farinn að efast um að þarna valdi einungis óbilgirni samninganefndarinnar og sveitarfélaganna.

Ástæðan er sú að samninganefnd slökkviliðsmanna, eða talsmaður þeirra, hefur alltaf farið undan á flæmingi þegar spurt hefur verið þeirrar sjálfsögðu spurningar:

Hverjar eru kröfur slökkviliðsmana?

Það hefur lítið heyrst frá  samninganefnd sveitarfélaganna fyrr en í gærkvöldi. Þá kom formaður nefndarinnar í viðtal í Sjónvarpsfréttum og fullyrti að kröfur slökkviliðsmann væri upp á tugi prósenta launahækkun. Talsmaður slökkviliðsmanna var spurður um þessar fullyrðingar formannsins.   Þar fullyrti hann að þetta væri fjarri sanni en þá fékk hann að sjálfsögðu þá spurningu sem hann hefur margoft fengið:

Hverjar eru kröfur slökkviliðsmanna?

Hvert var svar hans? Aðeins óljóst tafs um að þær væru innan  skynsamlegra marka en enn á ný standa allir frammi fyrir því að hafa ekki hugmynd um hverjar kröfurnar eru.

Slökkviliðsmenn hafa notið mikils trausts og velvilja en nú er svo komið að við sem greiðum þeim laun eigum heimtingu á því að vita:

Hverjar eru kröfur slökkviliðsmanna?

Óneitanlega fer sá grunur að vakna að þetta ástand sem skapast hefur, samningsleysi í eitt ár og áskollið verkfall, sé ef til vill vegna kröfugerðar slökkviliðsmanna sem engin leið sé til að ganga að.

Slökkviliðsmenn, það hlýtur að vera krafa okkar allra að þið leggið spilin á borðið:

Hverjar eru kröfur slökkviliðsmanna?

 


Stríðið gegn lúpínunni verður að stöðva

Líklega í fyrsta skipti get ég tekið undir það sem Halldór Jónsson verkfræðingur í Kópavogi segir á bloggi sínu og setti inn hjá honum þessa athugasemd:

Halldór, það er æði sjaldan að ég er sammála þér en nú er ég það svo sannarlega. Ég veit ekki undir hvað á að flokka eyðileggingu harðgerðustu og duglegustu landgræðslujurt Íslands sem ásamt melgresinu hefur grætt upp land með undraverðum árangri, þarna er á ferðinni heimska ásamt fordómum. Þessi vitleysa er líklega runnin undan rifjum Hjörleifs Guttormssonar en það skiptir ekki höfuðmáli hvaðan vitleysan kemur; það verður að stöðva þess bévítis heimsku sem er álíka vitlaus og hvalveiðibannið sem harðjaxlinn Kristján Loftsson hefur nú brotið á bak aftur.

En þessi áróður gegn lúpínunni er því miður búinn að ná tökum á ótrúlega mörgum landsmönnum og þó nokkur sveitarfélög, í svipinn man ég eftir Ísafirði, eru farin í stríð gegn þessari duglegu landgræðslujurt. Ekki veit ég hvers vegna þessir tveir embættismen, Sveinn og Jón, láta draga sig inn í þessa vitleysu. Ég hef spurnir af því að skógræktarmen hafi fordæmt þessa heimsku og vonandi getum við sett traust okkar á Jón Loftsson skógræktarstjóra, þessa vitleysu, stríðið gegn lúpínunni, verður að stöðva.

Tek undir með þér Halldór að sem flestir ættu að kíkja inn til Ágústar H. Bjarnasonar, í hans kolli virðist skynsemin jafnan ráða ríkjum, farið inn á www.agbjarn.blog.is


Ég lýsi vantrausti á flokksbróður minn Árna Pál Árnason félgagsmálaráðherra

Mér er spurn; getur ráðherra setið áfram í sínu embætti eftir að á hann hefur verið lýst vantrausti af flokksstjórn síns stjórnmálaflokks?

Ég mun ná þeim háa aldri að verða 76 ára á þessu ári. Það er sárt að verða vitni að því að sá maður sem Samfylkingin, minn flokkur, hefur sýnt það traust að gegna starfi félagsmálaráðherra í Ríkisstjórn Íslands skuli ítrekað ráðast á kjör okkar eldri borgara, þú veist það full vel Árni Páll að þetta eru ekki staðlausir stafir. Þessi ríkistjórn hefur að vísu verið nokkuð samstillt í því að taka réttindi og möguleika af eldri borgurum til að sjá sér farborða. Ég fagnaði því mjög þegar afnumið var það niðurlægjandi  ákvæði, sem minnti á framfærsluskyldu fyrri ára, að tekjur maka hefðu áhrif á lífeyri hins í hjónabandi og vissulega bjó ég nokkur ár við það óréttlæti og ekki kenni ég Árna Páli um það, hann hefur nóg að bera samt. Ég fagnaði því eindregið þegar frítekjumark lífeyrisþega var hækkað hressilega upp í 1.300.200 kr. á ári

Ég er einn af þeim sem starfaði lengst af ævi minnar sem sjálfstætt starfandi pípulagningameistari og því miður höfum við margir sem þannig er ástatt um sárlitlar tekjur úr lífeyrissjóðum. En þrátt fyrir aldur og veikindaáföll sá ég nokkurn möguleika á að reyna að afla mér tekna sem ráðgjafi í mínu fagi, margt er gott sem gamlir kveða. En núverandi Ríkisstjórn, sem ég hef stutt með ráðum og dáð, lét það verða eitt að sínum fyrstu verkum að lækka frítekjumarkið niður í 480.000 kr. á ári.

Hvernig í ósköpunum sá nokkur ráðherra eða fræðingur að það mundi auka tekjur Ríkissjóðs eða spara útgjöld hans? Ég vildi gjarnan sjá þann rökstuðning sé hann til á blaði, eða var þetta einungis geðþóttaákvörðun?

En nú ert þú Árni Páll orðinn eins og naut í glervörubúð þar sem þú virðist sjá það sem þitt aðalhlutverk að vega að smásálarlegum lífeyri eldri borgara þessa lands. Það vill oft fara svo að þeir sem hafa vel til hnífs og skeiðar hafa ekki minnsta skilning á kjörum þeirra sem lægst eru settir hvað tekjur varðar. Þitt síðasta verk var að berjast fyrir því að lífeyri okkar gamlingjanna væri frystur svo tryggt yrði að við fengjum engan ábata af því litla launaskriði sem mögulega verður hér á landi á komandi tímum. 

Ég skoraði á Steinunni Valdísi flokkssystur okkar að segja af sér þingmennsku vegna fjármálbralls í prófkjörum. Steinunn Valdís mat sína stöðu rétt og sagði af sér. Ráherra sem hefur ekki traust síns flokks og flokksfélaga á að segja af sér.

Það átt þú að gera Árni Páll!


Má ekki bjóða þér drullu úr dós?

Ekki veit ég hver fyrstur fann upp það þjóðráð að setja upp heitan pott, var það ekki Snorri Sturluson eða Guðrún Ósvífurdóttir? Heitir pottar urðu til í Kanada, Noregi og líklega í Sviss. Fyrstu heitu pottarnir í þessum löndum fylgdu vetraríþróttum og snjó. Sá galli fylgdi að þetta var dýr lúxus, vatnið varða að hita upp með rafmagni eða viði og þess vegna kom ekki til greina að kasta vatninu eftir hverja pottferð. En þá var hætta á hverskyns sýkingum og lausnin varð sú að setja í hvern pott  dælu sem dældi vatninu í gegnum hreinsibúnað eins og gert er í sundlaugum. Þetta var ekki nóg frekar en í sundlaugunum, það þurfti klór í vatnið ásamt ýmsu öðru gumsi svo það er ekki fjarri sem einn góður maður sagði "það kostar mikla peninga að  eiga og reka pott, það þarf að kaupa mikið af drullu í dósum". Þess vegna urðu heitir pottar í fyrrnefndum löndum og grannríkjum aldrei almenningseign, það voru aðeins þeir efnameiri sem eignuðust lúxusinn og þá helst þeir sem áttu fjallahús og stunduðu vetraríþróttir.

drulla_i_dosum_991993.jpgEn svo uppgötvuðu menn að til var land sem hvorki þurfti að borga fyrir rafmagn eða drullu í dósum eða dýran hreinsibúnað. Það var landið þar sem heitt vatn spratt upp úr jörðinni, nær allir hituðu hús sín með heitu jarðvatni, sendu síðan vatnið undir bílastæðið til að halda því snjó- og hálkulausu.

Þetta land er í miðju Norður-Atlantshafi og heitir ÍSLAND.

Í þessu landi varð heiti potturinn almenningseign,  stofnkostnaður lágur og reksturinn einnig, kostaði kannski 50 - 60  krónur hver áfylling, Síðan var vatnið látið renna sína leið og fyllt á aftur við næstu pottferð, enginn hreinsibúnaður, engin drulla úr dósum.

 Þetta er ófögnuðurinn sem fylgir rafhituðum pottum.

Tveir íslenskir framleiðendur bjuggu til heita potta, svokallaðar skeljar og eru þær mjög víða við íslensk hús. En þessir tveir framleiðendur voru ákaflega lélegir sölumenn og markaðsfræði var þeim lokuð bók, nokkuð sem hefur verið mjög algengt fyrirbæri hér á landi um langan aldur.

Og það var ekki að sökum að spyrja; innflytjendur og seljendur lagnaefnis í hita og neysluvatnskerfi gripu gæsina. Þeir byrjuðu allir að flytja inn rafhitaða heita potta sem nær engin þörf var fyrir hér á landi nema í undantekningartilfellum, aðeins á þeim fáu stöðum sem ekki er kostur á jarðhitavatni. Hver um annan þveran fylltu þeir verslanir sínar af innfluttum rafhituðum pottum sem voru rándýrir, en þetta var að vísu á þeim tímum sem Ísland sigldi inn í þá hátimbruðu höll að verða mesta fjármálveldi heimsins. Og lagnasalar græddu morð fjár á trúgirni og snobbi landans.

Nú var ekki nógu fínt að sitja í skeljum frá Trefjum eða X-Norm sem í var aðeins hreint íslenskt vatn úr iðrum jarðar. Nú vildu allir vera ekki vera minna en "upper middle class" og ekki missa af unaði klórvatnsins.

Já, það er dapurlegt hvernig íslenskir lagnasalar og fleiri lukkuriddarar hafa leikið þessa þjóð. Sannfært hana um að hún verði að sitja í vatni sem er blandað drullu úr dósum og ég spyr að lokum:

Ætlar landinn að halda áfram að láta óprúttnar lagnaverslanir og lukkuriddara hafa sig að fífli?


Umsátur um heimili fólks er siðleysi

Ég gagnrýndi Guðlaug Þór og Steinunnu Valdísi í fyrradag fyrir siðleysi og krafðist afsagnar þeirra frá Alþingi og að fleiri ættu að fljóta með.

En í gær gerði gemsinn mér viðvart að ég væri að fé SMS skilaboð. Mér brá þegar ég sá skilaboðin. Þau voru áskorun um að koma að heimili Guðlaugs Þórs kl. 20:00 í gærkvöldi til að gera honum og fjölskyldu hans lífið leitt. Á þeim stað yrði síðan ákveðið hverjir aðrir yrðu heimsóttir sömu erinda.

Ekki veit ég hvaða aumingjar standa fyrir slíkri röskun á friðhelgi umdeildra einstaklinga. En eitt er víst; ef þessir einstaklingar sem að er sótt teljast hafa brotið siðferðislögmál þá eru þeir sem að þeim sækja  engu betri, ég hef andstyggð á þessum ræfilshætti að safnast saman og njóta nafnleyndar, enginn var skrifaður sem sendandi SMS skilaboðanna. Mér finnst full ástæða til að lögreglan komi í veg fyrir svona þjösnaskap. Það væri ekki úr vegi að minnsta kosti að mæta og taka myndir af þessum "hetjum".

Þessar "hetjur" eru, ekki síður en umdeildir einstaklingar sem að er sótt, siðleysingjar.


Hvað ætlast þingemnn fyrir með því að fara að krukka í stjórnskipunina handahófskennt?

Tvö þingmannafrumvörp hafa litið dagsins ljós á hinu há Alþingi um stjórnskipan landsins. Annað leggur til að þeir þingmenn, sem taka við ráðherraembættum, láti af þingmennsku og varamenn taki sæti þeirra. Hinsvegar virðast þeir þingmen sem verða ráðherrar að sitja á þingi áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Hinsvegar er frumvarp um að gera landið að einu kjördæmi til að tryggja að vægi allra atkvæðisbærra einstaklinga hafi nákvæmlega sama vægi hvort sem þeir búa í Reykjavík, Rauðasandi eða Raufarhöfn

Hvað gengur þeim þingmönnum til sem með þessu vilja fara að krukka í stjórnskipunina?

Það er eins og hin sterka krafa um stjórnlagaþing og endurskoðun stjórnarskrár og þar með stjórnskipun landsins sé týnd og tröllum gefin, að minnsta kosti virðist þessi krafa vera týnd hjá þeim alþingismönnum sem að þessu "krukki" standa. Það er engin lausn að þeir alþingismenn,  sem verða ráðherrar, láti af þingmennsku og varmenn þeirra setjist á þig. Lítill flokkur fær ekki lítinn liðstyrk ef hann á aðild að ríkisstjórn, hann gæti jafnvel tvöfaldað þá sem sitja  fyrir flokkinn á Alþingi þó atkvæðisbærum hafi ekki fjölgað. Þetta þarf að skoða miklu betur og ég er í grundvallaratriðum sammála því að aðskilja löggjafarþingið og framkvæmdarvaldið betur en gert hefur verið. Ég álít að þeir sem eru ráðherrar eigi ekki að vera þingmenn og ekki nóg með það; þeir eiga alls ekki að sitja á þingi en þingnefndir eiga að kalla þá fyrir þegar ástæða þykir til.

Að gera landið að einu kjördæmi án nokkurra annarra rástafana er neyðarúrræði sem þó  líklega þarf að grípa til, en ekkert mun efla flokksræðið meira en sú gjörð. Hinsvegar má fara blandaða leið og jafnvel skoða að á landinu verði nokkur einmenningskjördæmi jafnframt til að flokksræðið verði ekki algjört. 

Báðum þessum tillögum á að kippa til baka, þær eru engan veginn tímabærar. Slíkar breytingar eru hluti að miklu stærra máli, stjórnskipaninni í heild og endurskoðun stjórnarskrárinnar. Af hverju hefur það mál algjörlega lognast út af, við eigum að krefjast stjórnlagaþings nú á þessu ári svo að unnt sá að vinna að alefli að stjórnlagaumbótum. Þær eiga að vera komnar til framkvæmda í næstu þingkosningum ef þær verða á eðlilegum tíma. 


Megi skömm Bæjarstjórnar Kópavogs verða uppi meðan land byggist

Ráðandi öfl í bæjarmálum Kópavogs skortir ekki samherjana til vondra verka. Þeir fundu heldur en ekki matarholu sem gæti stórbætt fjárhag þessa stærsta sveitarfélags utan höfuðborgarinnar, Kópavogs, sem að sjálfsögðu þarf á því að halda eftir mörg ár óstjórnlegrar útþenslubólu sem að fór eftir línu flokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarfloks.

Það sem á að bjarga fjárhag þessa fjölmenna sveitarfélags er að svipta eldri borgara ókeypis aðgangi að sundstöðum Kópavogs!!!

En þetta vaki svo sem ekki svo mikla furðu hjá mér, þessi sveitastjórnarmeirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks virðist höfuðlaus her eftir að Gunnar Birgisson varð að fara í óumbeði frí til að sinna uppeldisma uppeldismálum heima fyrir. Þannig fer oft þegar undirsátar eiga að fara að stjórna þar sem einræðisherra hefur ríkt en verður svo skyndilega óvígur

En meirihlutinn höfuðlausi var ekki einn í ráðum um að ræna þessari litlu sporslu frá þeim öldruðu. Þeir sem hafa hreykt sér af umhyggju fyrir þeim minnimáttar, fulltrúar félagshyggjuflokkanna þau Guðríður frá Samfylkingunni og Ólafur frá Vinstri grænum voru hjartanlega sammála meirihlutanum, engin ástæða að vera að púkka undir þetta gamla drasl, þeir gætu annaðhvort borgað eins og aðrir eða þá bara setið heima og farið í sitt eigið baðker.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þeir sem velta sér upp úr því að vera réttsýnni og umhyggjusamari en aðrir gleyma því æði oft þegar kemur að málefnum aldraðra. Aftur og aftur kemur þetta berlega í ljós þegar aldraðir eiga í hlut

Má ég koma með annað dæmi: Mig minnir að það hafi verið í tíð Þtngvallstjórnarinnar þar sem núverandi forsætisráðherra var félagsmálaráðherra, sá sami ráðherra kom með þau gleðilegu fyrirmæli að frítekjumark aldraðra hækkað ríflega, færu upp 1.300.200 kr. Þetta þýddi að aldraður lífeyrisþegi, sá sem hafði náð 67 ára aldri, mátti hafa árlegar tekjur upp að þessu marki án þess að lífeyrir skertist. Persónulega fannst mér að þarna væri ég að ganga í endurnýjun lífdaganna. Ég er svo drýldinn að halda því fram að ég búi yfir talsverðri þekkingu í mínu fagi, pípulögnum, og hef leyft mér a titla mig orkurágjafa. Þarna kemur til löng ævi þar sem sífellt hefur safnast í þekkingarsarpinn, en ekki síður að nú er svo komið að þekking á eldri hitakerfum af sérstakri gerð er að mestu glötuð, helst að hún væri finnanleg í gömlum kolli eins og mínum.

En Adam var ekki lengi í Pardís!

Ekki man ég hvort flokkssystkini mitt það var sem sá að þannig ætti alls ekki að mylja undir gamlingja sem ættu að sitja heima og bíða þess að hrökkva upp af. Eitt er víst að annaðhvort var það Ásta Ragnheiður eða Árni Páll sem að sjálfsögðu settu undir lekann og lækkuðu frítekjumarkið niður í 480.000 kr. á ári.

Nú er ég ekki í nokkrum vafa um að þetta gera hæstvirtir ráðamenn í þeim göfuga tilgangi að auka tekjur hins opinbera, sveitarfélags og ríkis. Kópavogur áætlar að afnám bruðlsins til gamlingjanna gefi 7 millj. í aðra hönd, ekki veit ég hvað Árni Páll reiknar sér í tekjur af lækkun frítekjumarksins, en eflaust á það að skila umtalsverðum tekjum. 

En sem aldaður borgari í þessu landi langar mið að segja þetta við ykkur Árni Páll, Guðríður og Ólafur. Þessar gjörði lýsa í fyrsta lagi heimsku og í öðru lagi botnlausu skilningsleysi á því hvað er að vera aldraður. Þið munuð ekki uppskera mikinn fjarhagslegan ábata af þessum gjörðum ykkar. Það er næsta fullvíst að margir aldraðir í Kópavogi, sem þurfa að velta fyrir sér hveri krónu verða að spara neita sér um þá heilsulind sem sundið er. Ég er viss um það Árni Pall að þessi gjörð að lækka frítekjumarkið skilar litlu sem engu. Þér væri nær að hugsa til þess að frítekjumarki eins og það var hefði skila þó nokkrum tekjum í ríkissjóð. Láttu þér ekki detta  í hug að fjöldi ellilífeyrisþega muni halda áfram að afla sér tekna og sjá það hverfa með lækkandi lífeyri. Gæti það verið að aldraður maður héldi betri heilsu ef hann fengi lengur að vera frjáls maður á vinnumarkaði að einhverju leyti? Gæti það jafnvel sparað heilbrigðiskerfinu umtalsverð útgjöldum?

Ég veit að margir eru svo grunnhyggnir að segja sem svo; við lögum þetta aftur þegar efnahagurinn batnar eftir svo sem 5 - 10 ár!

Ég hef náð þeim háa aldri að vera orðinn 75 ár.

En hvar verð ég eftir 5 - 10 ár?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 113886

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband