Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Ég fékk gula spjaldið

Ég hef lítið látið fyrir mér fara hér á blogginu þennan mánuð þó ég hafi lesið það sem þar kemur og satt best að segja hefur umræðan lítið batnað, mikið um innhaldlausar upphrópanir sem fyrr

En ég byrjaði þetta merkilega ár á nokkuð óvæntan hátt, sjónin úr fókus, hægri hendi lömuð og málfarið brenglað. Helgi, okkar ágæti Heilsugæslulæknir hér í Þorlákshöfn reif sig upp og kom til mín samstundis, tveir vaskir sjúkraflutningamenn frá Selfossi fluttu mig á góðum hraða á Borgarspítalann.

Ég minnist sérstaklega á þetta til að þakka öllum þeim ágætu starfsmönnum í heilbrigðisgeiranum sem liðsinntu mér, við eigum sannarleg hæft fólk í heilbrigðisþjónustunni.

En ég hef verð að dunda við það eftir að heim var komið að vinna að eigin endurhæfingu, lyklaborðið er farið að hlýða mér, lesa upphátt Helgu konu mína hvort sem henni líkar betur eða verr,  lauk þar með við tvær frábærar ævisögur um Snorra Sturluson og Vigdísi Finnbogadóttur okkar fyrrum forseta. Ég held að til þess að fá sem bestan skilning á Snorra sé nauðsynlegt að hafa lesið Sturlungu og það oftar en einu sinni. Satt best að segja læddist að mér kaldur hrollur við lestur ævisögu Sturlu. Höfðingjar þá, flestir, voru ekki að hugsa um þjóðarhag heldur að ota sínum tota og vinna þannig að eigin tortímingu og má þar nefna feðgana Sturlu og föður hans Sighvat Sturluson, bróður Snorra, Þorvald Vatnsfirðing, Gissur Þorvaldsson og ekki var sonur Snorra, Órækja, barnanna bestur. Líklega hefur hann verið mesti ruddinn í þessum hópi. Snorri kom honum til valda á Vestfjörðum og þar máttu menn þola ótrúleg og miskunnarlaus rán og yfirgang Órækju. Í öllum þessum djöfulgangi miðjum sat Snorri og samdi sínar einstæðu bókmenntir, maður friðarins og var fyrir vikið sakaður um að vera bleyða.

Og hver urðu örlög hans?

Tengdasonur hans fyrrverandi, Gissur Þorvaldsson, lét læðast að honum að óvörum og myrða.

Eru einhverjar hliðstæður í nútímanum? Hvernig hafa útrásarvíkingarnir hagað sér, þeir hafa aldeilis ekki verið að hugsa um þjóðarhag eða þá ýmsir pótintátar í pólitíkinni. Hafa sumir hverjir pólitíkusanna ekki hugsað meira um það að kom höggi á núverandi ríkisstjórn sem er að moka flórinn eftir óráðsíu fyrri ára?

Það rifjaðist margt upp fyrir mér við lestur ævisögu Vigdísar og sérstakleg hvað margt var illvígt í kosningabaráttu hennar þegar hún fór fyrst í framboð 1980. Ég var þá formaður kosninganefndar Vigdísar í Kópavogi. Þá kynntist ég því hvað konur geta verið konum verstar. Ég vil eftir þennan langa tíma ekki nefna nein nöfn. En merkar konur sem sumar höfðu markað talsverð spor í  söguna, jafnvel konur sem höfðu verið frumkvöðlar í kvennabaráttu, höfnuðu því alfarið að styðja kjör Vigdísar sem forseta.

En Vigdís vann, það var ógleymanleg stund.

En þessi pistill minn átti að vera stutt æfing á lyklaborðinu en það vill oft fara svo að maður fer út um víðanvöll áður en varir. En lyklaborðið hlýðir mér bara bærilega svo það verður ekki látið friði hér eftir. 


Hraðinn er ekki eina orsökin, ekki síður yfirgengilegt fúsk

Það voru ekki fagrar myndir sem birtust nýlega í Sjónvarpsfréttum af rakaskemmdum  í nýjum eða nýlegum húsum. Ástæðan var sögð of mikill hraði í byggingu húsanna en ég vil ekki nefna það sem einu ástæðuna. Ef heiðarlegir iðnaðarmenn eru að störfum þá fara þeir aldrei hraðar í sínum störfum en svo að verkið sé eins vel af hendi leyst og mögulegt er. Það er engin sem getur gert alla hluti 100% en  iðnaðarmenn eiga ætíð að reyna að komast eins nálægt því marki og mögulegt er.

Hver er þá orsökin?

Ég nefni orsökina  FÚSK, tökuorð, en hefur náð vistfestu í íslensku. Því miður er það svo að á undanförnum "stórveldisárum"  hefur margt farið úrskeiðis í störfum okkar, ekki aðeins í fjármálaheiminum, heldur einnig í mörgum þáttum atvinnulífsins og þar er byggingariðnaðurinn ekki undanskilinn. Þessir hroðalegu gallar á nýjum húsum, þar sem raki með tilheyrandi sveppagróðri er sýnilegur víða, er ekkert annað en fúsk, kæruleysi og einnig það að hafa kastað fyrir róða margvíslegri þekkingu sem var jafnvel vel þekkt hérlendis áður en byggingaöldin hófst eftir lok síðari heimsstyrjaldar. Við erum að stæra okkur af því að tækninni hafi fleygt fram, ný byggingarefni komið á markað og hvorutveggja er þetta gott og blessað. En það er líklegt að það komi okkur að litlu gagni að eignast nýjan forláta bíl ef við kunnum ekki að aka honum og höfum jafnvel ekki réttindi til þess. Nú ætla ég ekki að bera alfarið blak af ísl. iðnaðarmönnum, stundum hafa þeim verið mislagðar hendur. Reyndar sagði ég einhvertíma í einhverjum minna gömlu pistla, Lagnafrétta í Fasteignablaði Morgunblaðsins, að jafnvel  stundum væru hættulegustu fúskararnir með bæði sveinsbréf og meistarabréf. En það eru aðrir hlutir sem hafa verið orsakavaldur að þeim miklu göllum sem hafa verið að koma fram undanfarin ár í nýjum byggingum.

Mistökin með byggingarstjórana

Árið 1998 var samin og löggilt ný Byggingarreglugerð hérlendis, reglugerð sem gildir fyrir landið í heild. Þar var eitt nýmæli sem átti að vera mikið framfaraskref. Áður höfðu meistarar í hveri iðngrein borið ábyrgð á störfum sinna mann og því að þeirra þáttur í byggingunni væri sómasamlega unninn. Hins vegar hafði sú þróun orðið að í stórbyggingum höfðu þau stóru byggingarfyrirtæki sem voru heildarverktakar sett upp embætti Byggingarstjóra, eðlileg og sjálfsögð þróun, hæfur maður fenginn til að samræma störf allra iðnþátta svo ekki ræki sig hvað á annars horn. Þetta fyrirkomulag kom hvergi fram í Byggingarlögum eða afleiddri Byggingarreglugerð, þetta var eðlileg þróun, löggjafinn þurfti þar vergi að koma nálægt, þörfin kallaði á þetta án nokkurrar þvingunar. Þannig breyttist lítið í störfum eða ábyrgð einstakra iðnmeistara, þeir höfðu áfram samband við Byggingarfulltrúa sveitarfélagsins, lögðu inn teikningar og sáu um úttektir. En þá kom löggjafinn til sögunnar og þurfti endilega að grípa inn í, þróunin mátti ekki hafa sinn ganga án þess að hann væri með puttana í þessu sem öðru. Embætti Byggingarstjóra var fyrirskipað, ekki aðeins í stærri byggingum eða stærri verkum, heldur í öllum byggingum alveg niður í hundakofa.

Skorið á tengslin

Ekki nóg með það, skorið var á öll bein tengsl iðnmeistara og Byggingarfulltrúa, nú skyldi Byggingarstjórinn sjá um allt. Hann skilaði inn nöfnum iðnmeistaranna og hann fékk óskorað vald til að sjá um úttektir á verkum. Afleiðingin varð allt að því skelfileg aðallega í minni framkvæmdum, í minni byggingum. Á liðnum veltiárum hafa orðið til margskonar byggingarfyrirtæki sem hafa ætlað að græða í bólunni miklu, fengið lóðir og farið að byggja hús. Eigandinn varð sé út um tryggingu og fékk réttindi til að starfa sem Byggingarstjóri. Og þá hófst fúskið fyrir alvöru, Einhvernveginn tókst að útvega nöfn manna með meistararéttindi, þeir komu stundum ekkert nálægt byggingunum. Byggjandinn réði til sín einhverja menn, oft þótti gott að geta krækti í nokkra Pólverja sem hægt var að hýrudraga. Nú skal það skýrt tekið fram að fjölmargir Pólverjar hafa unnið hér í margvíslegum atvinnugreinum á undanförnum árum við góðan orstír. En starfsmennirnir voru oft, íslenskir sem útlenskir menn sem aldrei höfðu komið nálægt húsbyggingum fyrr. En hvað um úttektir og eftirlit hins opinbera? Byggingarstjórinn sá um að kalla til úttektar og samkvæmt Byggingarreglugerðinni frá 1998 þurfti hann ekkert að láta iðnmeistara vita, þeir höfðu ekki hugmynd um að risið var hús sem þeir báru vissulega talsverða ábyrgð á. Ekki er hægt að segja þessum iðnmeisturm neitt til afsökunar, þeir höfðu svo mikið að gera að þar kom tímaskorurinn og hraðinn vissulega til sögunnar. Annað sérkennilegra í ölli þessu kraðaki var aðstundum kom eitthvað upp á og þá kom í ljós að Byggingarstjórinn hafði aldrei komið á staðinn og vissi heldur ekki að þarna í mýrinni eða á melnum væri risið hús.

Afleiðingarnar eru fúsk

Það var kannski full mikið sagt í upphafi að hraðinn væri ekki hluti af orsökinni en hraði, þar sem menn hafa ekki tök á neinu, er ekkert annað en fúsk. Það er því sannarlega tími til kominn að taka Byggingarreglugerðina frá 1998 til gagngerðrar endurskoðunar. Taka aftur um gamla og góða siði og ábyrgð sem að mörgu leyti hafði reynst vel. Nú hefur heldur betur róast á byggingarmarkaði. Það á ekki að hika við að gera þá sem hlutina framkvæmdu ábyrga fyrir sínum gjörðum. Það væri jafnvel full ástæða til að Samtök iðnaðarins, innan þeirra vébanda eru atvinnurekendur, og Samiðn, þar eru iðnaðarsveinar, létu þetta til sín taka og gerður átak í því að saklausir kaupendur þyrftu ekki að hrekjast úr húsum sem þeir hafa keypt eða látið byggja. Og auðvitað eiga Byggingarfulltrúarnir að koma að þessum máli.

 


Fjallið tók jóðsótt og fæddist lítil mús

Menn flykktust á Austurvöll eftir hrunið mikla, börðu bumbur og pottlok undir stjórn Harðar Torfasonar, hentu drullu og eggjum í lögregluna, brutu rúður í Alþingishúsinu og Stjórnarráðinu, réðust inn á Hótel Borg og skemmdu útsendingarbúnað, komu í veg fyrir að "stjórnmálamenn" gætu komið máli sínu til almennings, þannig var málfrelsið á síðasta degi ársins 2008, ársins þegar bankaránin voru framin af þeim sem áttu alla möguleika til þess því þeir höfðu lyklana.

Niður með alla stjórnmálmenn, nýtt blóð, nýjar heilbrigðar persónur taki við!

Þetta var herhvötin, allt í einu var okkur sagt að það væri fullt af fólki í þjóðfélaginu sem hefði gáfur, hæfileika og framtíðarsýn, það þyrfti aðeins kosningar og henda öllu gamla settinu út, inn með nýjar mublur. Vissulega var það uppörvandi að fá að heyra það að meðal pottlokahjarðarinnar á Austurvelli leyndist afburðafólk sem gæti bjargað öllu, fólk sem hefði hugsjónir, fólk sem væri heiðarlegt og ekki síst þeim kostum búið að þekkja og virða lýðræðið, fólk sem gæti unnið af heilindum, fólk sem ætlaði að hlýða vilja "fólksins" í landinu, ef það fengi að taka við yrði allt gott, öll dýrin í skóginum yrðu vinir.

Svo komu kosningar

Nú áttu landsmenn tækifærið og hreinsa til í þeim hópi sem hafði komið  Íslandi á kaldan klaka og kjósa nýja fólkið frá Austurvelli. Þá gerðist nokkuð sérkennilegt:

Tugir þúsunda kusu aftur þá sem höfðu eyðilagt okkar ágæta þjóðfélag, þeir kusu Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn, þessa tvo flokka sem höfðu stjórnað allri spillingu á Íslandi svo lengi sem ég man eftir og er ég nú svo gamall sem á grönum má sjá (lítið á myndina). Þessir tveir flokkar tóku "nýfrjálshyggjunni" opnum örmum, þeir einkavæddu ekki fyrirtækin sem þjóðin átti, þeir "einkavinavæddu" þau flest svo sem bankana, Símann, Íslenska aðalverktaka og svo mætti lengi telja.

En það gerðist einnig í þessum merkilegu kosningum að nýja aflið frá Austurvelli bauð fram til Alþingis albúið til að reisa aftur þjóðarbúið. Að vísu sprungu sumir á limminu strax og gáfust upp eftir nokkra misheppnaða upplýsingafundi. Bjarni bóksali á Selfossi (þessi með rýtinginn í erminni) og sakleysislegur og ágætur klerkur í Hafnarfirði Þórhallur að nafni sögðust ekki nenna þessu, ágæt dómgreind.

En AFLIÐ komst á þing, Borgarahreyfingin. Þór, Birgitta, Margrét og Þráinn. Satt best að segja hélt ég að Þór og Margrét hefðu eitthvað til brunns að bera, jafnvel Birgitta einnig en ég hafði enga trú á Þráni, þessum ágæta kvikmyndaleikstjóra og rithöfundi með allan sinn húmor. En hvað nú? Eini maðurinn sem ég ber einhverja virðinu fyrir nú er Þráinn, hann er þó  þeirrar náttúru að vera heiðarlegur og vilja standa við sín orð. Um þau hin þrjú ætla ég ekki að eyða fleiri orðum. Og hvar er sá ágæti Hörður Torfason, sem ég held upp á bæði sem trúbador og ekki síður sem eindreginn kjarkmann í mannréttindamálum eins og hann hefur sýnt óumdeilanlega í baráttu samkynhneigðra á liðnum áru. Er hann týndur?

Ég hef enn trú á minni þjóð

Vegna þess að kjarni þessarar þjóðar skynjaði hvar veilan lá. Kjarni þessarar þjóðar bar gæfu til þess að veita tveimur vinstri flokkum ( þetta hugtak er að vísu að verða æði gamaldags en við höfum ekkert betra) Samfylkingunni og Vinstri grænum MEIRIHLUTA Á ALÞINGI. Ég mun ætíð á þeim árum sem ég á eftir verða stoltur af Alþingiskosningunum í apríl 2009. Ef eitthvað verður til þess að bjarga okkur út úr því skelfilega frjálshyggjusukki sem Sjálfstæðisflokkurinn með stuðningi Framsóknarflokksins kom okkur í þá er það þessi ótrúlegu úrslit: AÐ ÞESSIR TVEIR FLOKKAR SKYLDU FÁ MEIRIHLUTA ATKVÆÐISBÆRRA MANNA Í KOSNINGUNUM 2009! Þess vegna er Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra Íslands og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

Ég ætla að ljúka þessum pistli með þökkum til Steingríms J. Sigfússonar fyrir rökfastan og málefnalegan málflutning í Kastljósi í kvöld. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 113923

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband