Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Ólafur Ragnar mun ekki sitja fimmta kjörtímabilið sem forseti í mínu umboði

Það er dapurlegt að Ólafur Ragnar lærði ekkert af hruninu 2008, hann hefur ekki beðið sína heittelskuðu þjóð afsökunar á að hafa flengst með útrásarvíkingum og rússneskum mafíósum um heiminn þveran og endilangan til að færa fram fagnaðarerindið um Ísland sem framtíðarinnar fjármálmiðstöð þar sem London, New York eða Frankfurt mega sín lítils.

Það var dapurlegt að fylgjast með málflutningi Ólags Ragnars á blaðamannfundinum á Bessastöðum þar sem hann tilkynnti að hann mundi vísa samþykktu Icesave frumvarpi til "hins löggjafans", þjóðarinnar. Það var dapurlegt að fylgjast með því að maðurinn sem ég hef stutt til að takast þetta embætti á herðar sér stóð keikur fyrir framan hóp blaðamana, vitandi það að hann var á öllum sjónvarpsskjám landsins, skrumskæla stjórnskipulag Íslanda. Það sem var alvarlegast að hann sem einstaklingur, þó forseti sé, lítilsvirti okkar æðstu valdstofnun, Alþingi, hann lítilsvirti þá samþykkt sem 70% þingmanna stóðu að, hann einn gat tekið ákvörðun sem því miður er réttlætt í Stjórnaskrá lýðveldisins, sýnir enn og aftur að Stjórnarskráin verður að endurskoða.

Ekki er nokkur vafi á að allt þetta brambolt Ólafs Ragnars er fyrsti vísirinn að því að hann ætli að bjóða sig fram til að sitja fimmta kjörtímabilið sem forseti Íslands. Þarna fiskar hann i gruggugu vatni, þar sér hann nýjan meirihluta sér að baki, en það munu líka mjög margir af hans fyrri stuðningsmönnum segja; hingað og ekki lengra.

En Ólafur Ragnar hefur kastað teningnum. Ekki öfunda ég hann af hans nýja baklandi. Þeir sem leiða munu undirbúninginn að kjöri hans til forseta næsta ár eru komnir fram í sviðsljósið. Þar eru Jón Valur, Loftur Altice, Hallur Hallsson, Páll Vilhjálmsson, Frosti Sigurjónsson og úr hópi stjórnmálamanna koma eflaust Sigmundur Davíð og Þór Saari.

Hver veit nema eitt ólíkindatól styðji annað ólíkindatól. Er ekki líklegt að höfuðfjandinn úr fjölmiðlamálinu, Davíð Oddsson, skeiði fram í baráttuna fyrir sínum forna fjandmanni og taki með sér Hannes Hólmstein og Baldur Hermannsson?

Þokkaleg hjörð eða hitt þá heldur! 


Það er mjög margt jákvætt að gerast i okkar þjóðfélagi

Það er óvenjulega margt jákvætt í fjölmiðlum á þessum degi. Ég leyfi mér að fullyrða að almenningur er orðinn hundleiður á svartagallsrausi og svívirðingum um þá sem vinna baki brotnu við að endurreisa okkar þjóðfélag eftir þá sem steyptu okkur í Hrunið mikla haustið 2008.

Ég ætla ekki að hafa um það fleiri orð frá eigin brjósti en læt fylgja með hluta af frétt Seðlabankans þegar tilkynnt var að stýrivextir væru lækkaðir um 0,25 prósentustig niður í 4,25 %. Fyrir tveimur árum, þegar Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við, voru stýrivextir Seðlabankans 18%, er þetta ekki dágóður árangur?

Úr yfirlýsingu peningastefnunefndar 2. febrúar 2011:

"Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti
bankans um 0,25 prósentur. Vextir á viðskiptareikningum
innlánsstofnana lækka í 3,25%, hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum
lækka í 4,0%, vextir á lánum gegn veði til sjö daga lækka í 4,25% og
daglánavextir lækka í 5,25%.

Áfram dró úr verðbólgu í desember og janúar. Tólf mánaða verðbólga var
1,8% í janúar eða 1,6% að áhrifum hærri neysluskatta frátöldum. Hún er
því nokkuð undir 2½% verðbólgumarkmiði bankans. Tilfallandi
verðlækkanir bættust við árstíðarbundna lækkun vísitölu neysluverðs í
janúar. Sem fyrr stuðla hagstæð gengisþróun undanfarið ár, lækkandi
verðbólgu­væntingar og slaki í þjóðarbúskapnum að lítilli og stöðugri
verðbólgu.

Samkvæmt spánni sem birt er í Peningamálum í dag, verður
efnahagsbatinn heldur meiri í ár en Seðlabankinn spáði í nóvember.
Spáð er 2,8% hagvexti í ár og liðlega 3% vexti á árunum 2012 og 2013.
Verðbólga hefur verið heldur minni en fólst í nóvemberspánni, aðallega
vegna einskiptisáhrifa breytinga á opinberum gjöldum, og er því spáð
að hún verði eitthvað undir verðbólgumarkmiðinu nánast til loka
spátímans."


Skiptir engu hvað Mervyn King seðlabankastjóri Bretlands sagði við Davíð, hann hafði ekkert umboð til að gefa neinn afslátt af því að við bærum áby ábyrgð á Icesave skuldinni

Meiri undrun vekur að Davíð Oddsson seðlabankastjóri Íslands skuli leyfa sér að hljóðrita samtal við stéttarbróður sinn en það er skylda í öllum samskiptum rafrænt, á netinu og einnig í síma, að láta viðmælandann vita að viðtalið sé tekið upp eða hljóðritað. Ekki vekur það minni furðu það sem kom í fréttum RÚV í morgun að ein af nefndum Alþingis sé búin að fá þetta samtal í útskrift. Strax eru Alþingismenn farnir að ræða innihald samtalsins en segja svo í öðru orðinu að auðvitað séu þeir bundnir þagnarskyldu!

Hvað skyldi sú þagnarskylda halda lengi?

Var samtalið birt með samþykki Mervyn King eða blásum við á allar samskiptareglur og lágmarks kurteisi?


Ætlar Jóhanna að láta uppvöðslusaman kyrjukór draga sig inn í ruglið?

Mér brá ónotalega þegar Jóhanna forsætisráðherra bauð Björku og kyrjukór hennar l inn að fundarborði í Stjórnarráðinu, sem í sjálfu sér var allt í lagi, mér brá  vegna viðbragða hennar. Sjálfsagt að taka á móti fólki sem kemur fram af kurteisi jafnvel þó það sem það leggur fram sé tóm vitleysa.

Því miður lýsti Jóhanna því yfir að  hún vildi gjarnan standa með kyrjukórnum og taka hlut Magma-Energy í HS-Orki eignarnámi, þetta væri í samræmi við stefnu Ríkistjórnarinnar!

Hvernig dettur Jóhönnu önnur eins vitleysa í hug og hversvegna kalla ég það vitleysu að láta sér til hugar koma að fara út í eignarnám?

Vegna þess að Magma-Energy á ekki nokkurn einasta part í íslenskri auðlind. Magma-Energy á ráðandi hlut í orkuvinnslufyrirtæki og hver hættan við það? Ég sé hana ekki, ég hef áður bent á hvort að sé ekki ráðlegra að fá útlendinga til að hætta fjármagni hérlendis og að þeir fái af því nokkurn arð, en að taka lán endalaust hjá útlendum lánastofnunum til að reisa orkuver og borga fyrir það vænar fúlgur úr landi sem vexti.

Hvaða skilaboð er Ríkisstjórnin að senda umheiminum ef hún ræðst að eina útlendingnum sem hefur viljað hætta sinu fé hérlendis eftir Hrun? Er ekki þessi sama Ríkisstjórn sí og æ að boða  að það þurfi að laða að útlenda fjárfesta til að koma með áhættufé inn í landið?

Hvar ætlar Jóhanna að grípa upp 15 milljarða til að staðgreiða eignarnámið? Er hægt að réttlæta hækkandi skatta ef það á að henda gífurlegum fjárhæðum í svona vitleysu eins og þetta hugsanlega eignarnám?

Er rugluliðið í Vinstri grænum farið að smita frá sér inn í Samfylkinguna og getur það verið að forsætisráðherrann og formaður Samfylkingarinnar sé  þar veikastur fyrir?

Ég vona að þeir sem hugsa rökrétt innan Samfylkingarinnar komi vitinu fyrir Jóhönnu svo hún láti ekki framar svona rökleysur frá sér fara.


Fjörutíu og fimm þúsund Íslendingar skrifa upp á einhverja kröfu sem þeir sjálfir botna ekkert í

Það hefur verið líf og fjör í Norræna húsinu undanfarið. Þar hafa helstu "menningarvitar" þjóðarinnar staðið og þanið raddböndin í einhverri fáránlegustu baráttu fyrir einhverju sem enginn botnar í og örugglega ekki sá mikli fjöldi sem hefur látið glepjast til að gera eins og Björk, Ómar R, Megas, Bubbi og allt hitt liðið.

Og hver skyldi sú krafa vera sem hjarðmennskuhópur fjörutíu og fimmþúsund Íslendinga skrifar upp á í algjörri blindni?

Að fram fari þjóðaratkvæðisgreiðsla um að auðlindir Íslands (er þar átt við auðlindir á landi, auðlindir í landi?) skuli vera þjóðareign.

Hvernig á að orða það sem fyrir þjóðina verður lagt í hugsanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu? Ég hef ekki heyrt að það hafi verið formað sem á atkvæðaseðlinum skal standa.

Ég skrifaði pistil um þetta mál 19. sept sl. og sagði þar meðal annars:

Öll orkuver landsins (sem þá höfðu verið reist), bæði þau sem framleiða raforku eða heitt vatn, eru í opinberri eigu, ýmist ríkisins (Landsvirkjun td.) eða í eigu sveitarfélaga (Orkuveita Reykjavíkur td.).
En áður en þessir opinberu fyrirtæki hafa getað virkjað, hvort sem það eru vatnsföll, jarðgufa eða heitt vatn sótt með borun, hafa þau orðið að semja við landeigendur og sveitarfélög til að fá vinnsluleyfin.
Þetta rek ég hér til að sýna fram á að það gagnar lítið að hrópa á strætum og gatnamótum að allar auðlindir í og á landi skuli vera þjóðareign. Þeir sem það gera hafa engan veginn krufið málið til mergjar því ef strangasta krafa þeirra sem ákafastir eru næði fram að ganga yrði að fara út í stórfellda þjóðnýtingu.
Vill nokkur í alvöru standa að því?

Ég ætla að bæta því við að ef farið yrði í slíkar aðgerðir yrði það stórfelldasta þjóðnýting á vesturhveli jarðar frá því breski Verkamannaflokkurinn þjóðnýtti lungann af stóriðnaði Bretlands eftir lok seinni heimsstyrjaldir.

Og hver er orsökin að öllu bramboltinu í Norræna húsinu?

Sú að Kanadamaður einn hefur eignast stóran hlut í HS-Orku á Suðurnesjum  verði gerður afturreka. Hann hefur ekki eignast nokkurn skapaðan hlut í íslenskri auðlind, hann fær nýtingarrétt til ákveðins árafjölda á nákvæmlega sama hátt og Landsvirkjun fær afnotarétt af stórfljótum landsins.

Og svo kemur krafan um að Ríkisvaldið taki hlut Kanadamannsins eignarnámi og verði þar með að punga út líklega sem svarar 15 milljörðum króna í útlendum gjaldmiðli á stundinni.

Já, nógir eru andskotans peningarnir virðast "menningarvitarnir" álíta.

Og en spyr ég: Er ekki minni áhætta fyrir okkur Íslendinga að Kanadamaður komi með jafnvirði 15 milljarða í áhættufjármagn og fái fyrir það arð að sjálfsögðu, heldur en að taka lán hjá alþjóðlegum fjármálastofnunum, er það kannski ókeypis? Nei, hingað til hefur það ekki verið, slíkar stofnanir vilja fá sinn arð sem vaxta.

Skuldum við ekkert fyrir í útlendum fjármálastofnunum vegna þeirra orkuvera sem við höfum reist?

Varlega áætlað má búast við að stærstu orkufyrirtækin skuldi í útlöndum milli 500 og 1000 milljarða króna virði í útlendum gjaldeyri og það kostar svo sannarleg sitt. Að íslensk fyrirtæki eigi orkuverin tryggir ekki aldeilis að útlendingar fái ekki sinn arð af þeim.

Þeir fá hann í vaxtagreiðslum.

En sá lánlausi lýður sem kyrjaði í Norræna húsinu vældi ekkert um stærsta þjófnað Íslenskrar sögu, þjófnað sem gerður var löglegur en er með öllu siðlaus.

Það er ránið á fiskinum í sjónum en kyrjurunum virðist nákvæmlega sama um þjófnað ef þýfið aðeins lendir í vösum vafsamra Íslendinga. 


Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn sem er heill og óklofinn

"Ekki batnar Birni enn banakringluverkurinn" var sagt forðum og þetta flaug um hug minn eftir að hafa hlustað á viðtöl RÚV við þá Steingrím J. Sigfússon og Ásmund Einar Daðason eftir langan og strangan fund þingflokks Vinstri grænna í gærkvöldi. Sjaldan hef ég heyrt í mönnum sem héldu langar tölur en sögðu ekki neitt en þó svo mikið. Það mátti svo sannarlega skilja að hvorugur gat gefið ákveðin svör við spurningum fréttamanns. Ástandið í þingflokki Vinstri grænna er að þar  greinilega varanlegur klofningur. Þremenningarnir, Lilja, Atli og Ásmundur Einar, ætla að að halda sínu striki, þau er ekki hægt lengur að telja til stuðningsmanna Ríkisstjórnarinnar á þingi sem þar með er einungis með eins atkvæðis meirihluta og það skyldi maður ætla að gengi ekki lengi.

En ekki er allt sem sýnist. Klofningur Vinstri grænna er staðreynd og þess vegna mætti ætla að stjórnarandstaðan á þingi gripi tækifærið feginshendi og flytti vantraust á Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. En það er líklega það sem stjórnarandstaðan vill allra síst hætta sér út í. 

Og hvers vegna?

Vegna þess að stjórnarandstöðuflokkarnir eru allir meira og minna klofnir. Sjálfstæðisflokkurinn lýtur enn forystu Davíðs Oddssonar. Á yfirborðinu er flokkurinn á móti umsókn Íslands að ESB og þeir sem blindastir eru á Davíð Oddsson (Unnur Brá Konráðsdóttir t.d.) eru með tillögu um að stöðva aðildarumsóknina að ESB. Allir vita að fjölmargir Sjálfstæðismenn styðja aðildarumsóknina eindregið og rétt er að árétta að umsóknin og umsóknarferlið þýðir engan veginn að búið sé að ákveða inngöngu. Fyrst verður við að sjá hvað okkur býðst, síðan mun þjóðin ákveða í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort af inngöngu verður eða ekki. Það er einnig langt frá því að allir Sjálfstæðismenn fylgi gallharðri stefnu Davíðs og Morgunblaðsins í kvótamálinu, fjölmargir í þeirra röðum sjá að óbreytt ástand getur ekki gengið. Klofningurinn í Sjálfstæðisflokknum er svo djúpstæður að í bígerð er stofnun nýs hægri flokks sem einmitt ætlar að láta brjóta á ESB málinu, kvótamálinu og að afgreiða Icesave málið í eitt skipti fyrir öll.

Framsóknarflokkurinn er einnig klofinn í sömu málum. Þó ekki sé gamall og þreyttur flokksformaður sem ræður öllu á þeim bæ hefur komið í ljós að flokkurinn var æði seinheppinn með val á formanni. Sigmundur Davíð verður tæpast formaður til langframa, en hver tekur við?  Framsóknarflokkurinn burðast einnig með fyrri hneykslismál eins og Sjálfstæðisflokkurinn, þar vegur þungt allt hneykslið við einkavæðingu bankanna. Arfleifð þeirra Halldórs Ásgrímssonar og Finns Ingólfssonar er flokknum þung byrði. Finnur Ingólfsson og fleiri Framsóknarmenn hafa látið greipar sópa um þá fjármuni sem ýmis fyrirtæki Sambands ísl. samvinufélaga skildu eftir sig, ekki síst það sem átti að skila aftur til viðskiptamanna Samvinnutrygginga.

Og ekki má gleyma garminum honum Katli. Hreyfingin er þegar klofin og meira að segja margklofin. Þetta var "bjartasta vonin" í augum margra sem fordæmdu alla stjórnmálaflokka og vildu ferska vinda inn á Alþingi. Hvað ferska vinda hefur Hreyfingin haft í farteskinu? Þingmenn hennar hafa dottið í röfl- og hælbítsfarið nákvæmlega eins og Sigmundur Davíð. Það hefur verið nokkur samkeppni milli þingamanna Hreyfingarinnar hver gengur lengst í innantómu þrasinu en sigurvegarinn er ótvírætt Þór Saari.

Sem bloggari fylgist ég að sjálfsögðu gerla með hvað kemur í pistlum þeirra sem þar eru að skrifa. Hjá sumum er hatrið á Samfylkingunni sá þráður sem ætíð er kjarninn. Freistandi væri að nefna með nafni þá helstu en ég ætla að láta það vera að sinni en það kann að koma síðar. Hatrið á Samfylkingunni helgast fyrst og fremst af ótta. Þrátt fyrir að Samfylkingin hafi gert mistök, sem ég segi af fullri alvöru að séu ekki mikil, þá ber allt að sama brunni:

Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn í dag sem er samstilltur og ókofinn. Þetta er merkileg staðreynd því Samfylkingin hefur nú í tvö ár leitt Ríkistjórn Íslands á erfiðustu tímum sem nokkru sinni hafa mætt Íslensku þjóðinni síðan hún hlaut fullveldi. 

Það er kominn tími til að halda þessu til haga. Mér finnst Samfylkingin engan veginn hafa beitt sínum vopnum til að verjast rógberum og hælbítum. Það kann að vera vegna þess að Samfylkingin hefur forystu fyrir endurreisn lands og þjóðar og hefur þess vegna ekki verið að eltast við lágkúruna sem einkennir stjórnarandstöðuna á Alþingi og þá flokka sem hana skipa og eru allir meira og minna klofnir og ráðvilltir.


Ævisaga Gunnars Thoroddsen er merkileg heimild um pólitíkina á síðustu öld

Ég var svo heppinn að fá Ævisögu Gunnars Thoroddsen eftir Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing í jólagjöf. Bókin er engin smásmíði, 580 bls. með stuttum eftirmála. Ég er að verða búinn að lesa verkið, ríkisstjórnin sem Gunnar myndaði með Framsóknarflokki, Alþýðubandalagi og flokksbroti úr Sjálfstæðisflokknum er komin að fótum fram og pólitískur feril Gunnars á enda. Ekki get ég neitað því að stundum fannst mér, sérstaklega í upphafi, að Guðni dveldi of lengi við einstök mál,hann segir sögu Gunnars frá frumbernsku og  hvaða stofnar stóðu að honum. Hins vegar þegar fram í sótti fannst mér vanta frekar í textann heldur en að hann ætti að stytta. Það sem mér finnst vanta er að rekja betur hverjir sátu sem ráðherrar á hinni löngu ævi Gunnars. Guðni nefnir flestar ríkisstjórnir þessa langa tímabils en þar sem ég hef langa ævi að baki og hef alltaf haft mikinn áhuga á þjóðmálum þá held ég að ég sé nokkuð vel heima í pólitískri sögu Íslands allt frá því að það hlaut fullveldi 1. des. árið 1918. En stundum eru gloppur, sem dæmi get ég nefnt að undanarinn að stjórnarmyndum Gunnars í árbyrjun 1980. Hvaða ríkistjórn sat þá að völdum? Það er aðeins sagt örfáum árum að þá hafi minnihlutastjórn Alþýðuflokksins undir forsæti Benedikts Gröndal sagt af sér. Gjarnan hefði mátt hafa betri samfellu í því hvað gerðist áður en Gunnar myndaði sína stjórn, hvers vegna sat minnihlutastjórn að völdum næst á undan? Þetta segi ég því ég sé fyrir mér að þegar fram líða stundir verður Ævisaga Gunnars Thoroddsen eftir Guðna Th. Jóhannesson merkileg heimild um þennan sögulega tíma, megnið af 20. öldinni með fullveldi og  lýðveldisstofnun m.a. Síðar meir verður þessi saga ekki aðeins lesin sem ævisaga merks stjórnmálamanns heldur ekki síður sem heimild um stjórnarfarið og þá sem þar um véluðu, stjórnmálamenn 20. aldarinnar. Þess vegna sakna ég þess að ekki sé farið rækilegar í  pólitíska sögu aldarinnar og gerð grein fyrir þeim sem þar þrefuðu um stjórnarmyndanir á hverjum tíma og hverjir sátu í ráðherraembættum. Vissulega eru margir nefndir en það er ekki nógu ítarlegt.

En hver eru dýpstu áhrifin af lestri Ævisögu Gunnars Thoroddsen?

Auðvitað efst á blaði merkilegur ferill eins glæsilegasta stjórnmálamanns 20. aldarinnar á Íslandi sem þó alla tíð var barn síns tíma og varð að spila eftir leikreglum aldarinnar. En það segir ekki litla sögu um manninn Gunnar Thoroddsen hvað hann kom víða við og öll þau embætti sem honum hlotnuðust.  Ég held að þar hafi hann náð tindinum sem Borgarstjóri í Reykjavík. Stundum ætlaðist hann til of mikils svo sem þegar hann taldi sig eiga greiða leið í Forsetaembættið.

En það sem situr þó eftir er hversu gróflega íslensk stjórnmálastétt var spillt á 20. öldinni, hrossakaupin og hyglun fylgismann, vina, ættingja og flokksfélaga var með eindæmum. Það sem slær mig þá mest er að verða vitni að því að við nær allar stjórnarmyndanir, við myndanir Ríkistjórna Íslands var það ekki þjóðarhagur sem réði ferðinni. Pólitísku flokkarnir voru miklu framar þjóðarhag og þar með klíkuskapur og að halda sjálfum sér á floti. Vissulega má skynja að þarna var mannamunur en það gat enginn leyft sér að gleyma hag FLOKKSINS, HANN var efstur í hagsmunaflokkun. Þess vegna má segja að stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsen hafi ekki verið eftir mynstrinu en að sjálfsögðu var Gunnar, þá kominn á efri ár, knúinn af metnaðinum að ná æðstu metorðum. Næstum allar stjórnamyndanir voru karp og undirferli þar sem þjóðarhagur var langt frá því að vera  mönnum  efst í huga.

Höfum við eitthvað lært?

Tæplega ef tekið er mið af öllu því fádæma bulli sem sett er fram á blogginu þar sem æðsta markmiðið virðist vera að níða aðra, þar skeyta margir ekki um skömm né heiður

Satt best að segja hugsa ég alvarlega um það hvort verandi sé í þeim félagsskap.

 

 


Aðeins um tvennt að velja í ICESAVE málinu skelflega

Hverjir eru þessir tveir kostir?

1. Samþykkja fyrirliggjandi samning.

2. Samþykkja ekki fyrirliggjandi samning og vísa þar með málinu inn á dómstólaleiðina.

Margir lögfróðir menn halda því stíft fram að Íslendingum beri ekki að greiða nokkurn skapaðan hlut vegna ICESAVE. Ekki er ég nægilega lögfróður til að gata gert mér grein fyrir ábyrgð okkar á greiðslu eða ekki. En eitt er víst, það ólánsfyrirtæki gamli Landsbankinn fór með ryksugu um Holland og Bretland til að hafa sparifé út úr auðtrúa sálum. Nú eru allar líkur á að þær eignir sem til eru í þrotabúi gamla Landsbankans fari langleiðina til að greiða skuldina. Ekki getur nokkur maður efast um að þar er um réttláta kröfu að ræða, ICESAVE skuldin mun greiðast að mestu leyti með eignum gamla Landsbankans, þar er um forgangskröfu að ræða.

En eitthvað stendur út af og þar kemur til kasta Ríkissjóðs að standa skil á því, líklega nær 50 milljörðum króna sem að sjálfsögðu verður að greiðast í evrum og pundum. Þar í liggur nokkur gengisáhætta, tæplega mun gengi íslensku krónunnar styrkjast næstu árin, hættan á falli er meiri.

Hvað gæti gerst ef samningum um ICESAVE verður hafnað (annaðhvort af þingi eða þjóð)?

Það er möguleiki á að gjaldskylda íslenska ríkisins verði dæmd okkur í vil, Ríkissjóði beri ekki að greiða umfram það litla sem er í Tryggingarsjóði fjármálafyrirtækja.

En hættan leynist bak við hornið. Íslenska ríkið ábyrgðist sparifé í íslenskum bönkum en aðeins á Íslandi, ekki í útlöndum. Þar er ekki um þjóðernislega mismunun að ræða heldur landfræðilega. Útlendingar sem kunna að hafa átt sparifé í íslenskum bönkum á Íslandi njóta tryggingar, en Íslendingar  sem eiga sparifé í íslenskum bönkum í útlöndum njóta ekki tryggingar.

Það er mikil hætta á að þessi mismunun verði dæmd ólögleg og þá er ekki aðeins um lágmarkstryggingu á sparifé að ræða heldur 100% ábyrgð. En slíkur dómur skellur á íslenska ríkinu eru dökkir dagar framundan í íslenskum fjármálaheimi, mundum við standa undir slíkum dómi?

Það er ákaflega léttvægt að hrópa borgum ekki, borgum ekki. Hver og einn Íslendingur verður að skoða ICESAVE málið vandlega, allir verða að gera sér grein fyrir hvað það getur kostað að samþykkja fyrirliggjandi samning til lausnar deilunni, en ekki síður hver áhættan er að hafna honum.

Ég hef komist að niðurstöðu; ég tel að Alþingi eigi að samþykkja samninginn. Þar skora ég á stjórnarandstöðuna að vinna af heilindum og ábyrgð, það er full ástæða til að hafa grun um að hún (eða hluti hennar) ætli að nota þetta grafalvarlega mál í pólitískum hráskinnaleik.

Ef málið fer í þjóðaratkvæði mun ég greiða atkvæði með samþykkt þess samnings sem nú liggur fyrir til lausnar ICESAVE deilunni. Að láta það fara dómstólaleiðina er yfirþyrmandi áhætta, það gæti endað með ósköpum. 

 

 


Við verðum að skapa skörp skil á milli Alþingis (löggjafarvaldsins) og Ríkistjórnar (framkvæmdavaldsins)

Nú þegar nær dregur kosningum til Stjórnlagaþings er ekki úr vegi að vekja athygli í stuttum pistlum á hver eru þau meginmál sem ég vil leggja áherslu á:

Viljum við halda í þingræði sem ríkjandi stjórnarform? Þá er ekki úr vegi að rifja upp örstutt hvað er átt við með þingræði.

Við kjóum fulltrúa á Alþingi, alþingismenn. Oftast skipa þeir sér í stjórnmálaflokka og eftir kosningar hefjast samningar milli flokka til að mynda Ríkisstjórn. Sú reglu hefur verið nær alsráðandi að einungis alþingismenn verða ráðherrar en þeir sitja samt sem áður áfram sem þingmenn.

Þetta er þingræði en þá kemur spurningin: Er þetta það eina sem kemur til greina sem stjórnskipun Íslands, erum við að skaða lýðræðið með því að hrófla við þessu?

Nei þetta er ekkert "heilagt" fyrirkomulag og það þarf síður en svo að skaða lýðræðið þó við þingræðinu sé hróflað.

Þetta er mín skoðun í stuttu máli:

Ráðherrar eiga ekki að sitja á Alþingi. Það á ekki að vera lögmál að það verði umfram allt þingmenn sem verða ráðherrar. Þingmenn sem þó verða ráðherrar segi af sér þingmennsku. Ráðherrar sitja ekki á Alþingi en hafa rétt til að koma á þingfundi til að mæla fyrir lagafrumvörpum en hafa ekki atkvæðisrétt. Einstakar þingnefndir hafa rétt til að kalla ráðherra á nefndarfundi til að nokkurs konar yfirheyrslu. Þarna er skilið á milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds.

Með þessu er endir bundinn á innihaldslaust þras á milli ráðherra og þingmanna svo sem með fyrirspurnum einkum frá þingmönnum í stjórnarandstöðu. Þegar ráðherrar fá fyrirspurnir á borð við "hvernig var brugðist við heillaóskum Hilary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna sl. 17. júní" eða "hvernig eru minkaveiðar skipulagar nú" þá hljóta allir að sjá að það verður að binda enda á þetta rugl sem framar öðru hefur stórskemmt orðstír Alþingis.

Er hægt að auka áhrif  kjósenda á hvað Ríkisstjórn þjóðin fær efir kosningar? Er hægt að búa við þetta kerfi að einhver ríkisstjórn taki við völdum eftir kosningarog þá sambræðsla flokka sem eru búnir að bræða sín stefnumál, sem fólkið kaus, í einhvern allt annan bræðing en fram var settur fyrir kosningar?

Fram hafa komið hugmyndir, fyrst settar fram af Vilmundi Gylfasyni, um að forsætisráðherra yrði kosinn beinni kosningu og hann veldi síðan og skipaði ráðherra. Auðvitað yrði hver og einn sem býður sig fram til forsætisráðherra að setja fram skýra stefnu fyrir framkvæmdavaldið og það yrðu að vera fleiri umferðir kosninga þar til forsætisráðherra yrði kjörinn af meirihluta kjósenda.

Ætti slík ríkisstjórn að vera bundin af því að fá meirihluta stuðning á Alþingi?

Þetta kann allt að virka sem útópía á marga. Ég held samt að þarna sé verið að reifa eitt mikilvægasta mál sem Stjórnlagaþing mun fjalla um:

Aðskilnaður Alþingis (löggjafans) og Ríkisstjórnar (framkvæmdavaldsins) er algjör nauðsyn. Sú stjórnskipan sem nú er við lýði hefur gengið sér til húðar og haft í för með sér ýmiskonar subbuskap, jafnvel spillingu.

Þegar þessi mál hafa verið til lykta leidd er tímabært að ræða stöðu Forsetaembættisins.

Ætlum við að hala í það embætti og hvert á þá að vera hlutverk þess?


Eiga allar auðlindir, sem tilheyra Íslandi, að vera þjóðareign?

Fáir málaflokkar sem auðlindamálin eru af mörgum drifin áfram af tilfinningum frekar en skynsemi. Fyrir það fyrsta vil ég benda á að þegar rætt er um auðlindir á Íslandi er nær eingöngu rætt um auðlindir á landi og í landi.
Get ég ekki skilyrðislaust skrifað upp á að allar auðlindir á og í landi séu þjóðareign?

Nei, það get ég ekki.

Og hvers vegna spyrja eflaust margir undrandi?
Vegna þess að auðlindir á landi og í landi er mjög flókið mál, miklu flóknara mál en þeir sem drifnir eru áfram af tilfinningum einum átta sig á.
Það eru margvíslegar auðlindir á og í landi sem eru í einkaeign og ekki tel ég að við því eigi að hrófla.
Förum austur í Skaftafellssýslur. Þar hafa margir bændur virkjað bæjarlækinn og svo er reyndar víðar. Á Snæfellsnesi hafa verið byggðar einkarafstöðvar, vatnsaflsstöðvar, sem framleiða mun meira rafmagn en eigandinn hefur þörf fyrir. Þar er umframrafmagnið einfaldlega selt inn á landsdreifikerfið, viljum við þjóðnýta litlu virkjanirnar í bæjarlækjunum eða þessar litlu en þó stærri vatnsaflsvirkjanir?
Ekki er ég tilbúinn að vinna að því.
Ein mikil l auðlind eru fallvötn Íslands með eru í raun gjöful fiskimið. Þar hefur verið staðið vel að þróun mála og þess vandlega gætt að ekki sé gengið á stofnana og ekki nóg með það; mikil ræktun á sér stað víðast hvar þar sem þörf er á.
Vil ég þjóðnýta allar veiðiár landsins til að færa þær í þjóðareign?
Mitt svar er afgerandi nei.
Öll orkuver landsins, bæði þau sem framleiða raforku eða heitt vatn, eru í opinberri eigu, ýmist ríkisins (Landsvirkjun) eða í eigu sveitarfélaga (Orkuveita Reykjavíkur).
En áður en þessir opinberu fyrirtæki hafa getað virkjað, hvort sem það eru vatnsföll, jarðgufa eða heitt vatn sótt með borun, hafa þau orðið að semja við landeigendur og sveitarfélög til að fá vinnsluleyfin.
Þetta rek ég hér til að sýna fram á að það gagnar lítið að hrópa á strætum og gatnamótum að allar auðlindir í og á landi skuli vera þjóðareign. Þeir sem það gera hafa engan veginn krufið málið til mergjar því ef strangasta krafa þeirra sem ákafastir eru næði fram að ganga yrði að fara út í stórfellda þjóðnýtingu.
Vill nokkur í alvöru standa að því?
Ég er eindregið fylgjandi því að öll stærstu orkuver okkar séu í opinberri eigu svo sem er í dag, ég mæli sterkt á móti því að þau verði einkavædd þó ekkert mæli á móti því að þar geti einkaaðilar komið að fjármögnun, eins og ég mæli gegn algjörri þjóðnýtingu auðlinda hversu smár sem þær eru.
Ég ætla að lokum að biðja alla að ræða þessi mál af yfirvegum, án upphrópana byggðum á tilfinningum eingöngu, sem er ágætt að hafa með í bland. En rökhyggja og skynsemi þarf þar einnig að koma að.
Þá vil ég ekki síður biðja alla að gera greinarmun á auðlindum og nýtingu auðlinda. Þessu hefur því miður verið ruglað saman endalaust í opinberri umræðu, þar skulum við gera skil á málum, auðlind er eitt, nýting hennar annað.
Hér hef ég eingöngu rætt um auðlindir í og á landi.
Ég ætla að ræða um auðlindir hafsins í annarri grein.


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband