Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Varasamar skotgrafir

Eftirfarandi athugasemd gerði ég við skrif Eyþórs Arnalds foringja Sjálfstæðismanna í Árborg. Ég nota sömu fyrirsögn og hann og vona að hann og aðrir Sjálfstæðismenn fari nú að líta í eigin barm, gangast við sínum verkum og biðjast afsökunar. Ég get einnig bætt því við að fjölmargir Sjálfstæðismenn hafa verið miklu svæsnari,  óbilgjarnari og orðljótari en Eyþór.

Persónulegar árásir einkenna umræðu og skrif.

 Þetta segir þú Eyþór Arnalds að framan og engan hittir það jafn rækilega fyrir og sjálfan þig. Frá því flokkur þinn, Sjálfstæðisflokkurinn, hrökklaðist frá völdum eftir langt valdatímabil þar sem þessum sama flokki tókst að leggja grundvöllinn að hruninu mikla með einkavinavæðingu bankanna og nýfrjálshyggju þá hefur þú og fjölmargir flokksfélagar þínir meira farið eftir þessu mottói sem ég vitna í:

Persónulegar árásir einkenna umræðu og skrif. 

Í stað þess að sýna auðmýkt og biðja Íslenska þjóð afsökunar á framferði ykkar stundið þið einmitt að sem þú segir. Þið fiskið í gruggugu vatni í öllum málum, haldið að það sé leiðin til að komast aftur til valda.

Er almenningur svo skyni skroppinn að hann láti glepjast?

Þið Sjálfstæðismenn hafið sloppið ótrúlega vel. Þið er ráðist á núverandi Ríkisstjórn vegna ICESAVE en hverjir bjuggu þann óskapnað til? Það voru þeir sem Sjálfstæðisflokkurinn rétti Landsbankann á silfurfati (þar með talinn framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins) og þessir útvöldu óreiðumenn  áttu ekki einu sinni fyrir útborguninni, slógu lán í Búnaðarbankanum og  ætlast nú til að eftirstöðvarnar verði afskrifaðar!!!

Við skulum ekki gleyma því að það var núverandi ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrum Seðlabankastjóri sem kom þeim banka, sem átti að var bakhjarl íslensks fjármálalífs, á svo kaldan klaka að hann varð gjaldþrota. Ríkisstjórnin neyddist til að byggja Seðlabankann aftur upp með 300 milljarða kr. framlagi, það var og er skelfileg blóðtaka sem við öll súpum seiðið af.

Og þennan mann vörðuð þið með kjafti og klóm og gerið enn og nú hefur hann yfirtekið Morgunblaðið til að gera það að málpípu harðasta kjarnans úr Sjálfstæðisflokknum sem ábyrgð ber á hruninu.


Seinheppin sölumennska á landbúnaðarvörum

Seint skyldi ég flotinu neita og fátt fæ ég betra en vel matreitt íslenskt lambakjöt. Enda er ég sveitamaður í húð og hár, alinn upp við ljós frá steinolíulömpum, útikamar og eldun við kindaskán, Ég var ekki hér í loftinu þegar ég fékk embætti í sláturtíðinni þegar gamalám, sauðum og hrossum var slátrað á hlaðinu til að afla fjölskyldunni vetrarforða, reyndar ársforða. Mitt embætti var að hræra sem ákafast í blóðinu sem spýttist úr strjúpa kindanna og sauðanna eftir að þau höfðu verið skotin og skorin, þetta gerði ég með písk sem var gerður úr trénuðu ramfangi. Ef ekki var hrært í heitu blóðinu þá storknaði það og þá hefði enginn blóðmör verið gerður það haustið.

En fyrir þá sem ekki þegar hafa liðið út af undir þessari lýsingu ætlaði ég svolítið að agnúast út í markaðsfærslu landbúnaðarvara. Ástæðan er auglýsing frá Krónunni þar sem hún býður okkur heila lambskrokka af nýslátruðu á svona sæmilegu verði. 

En þá kemur að sjálfsögðu þessi eilífa forsjárhyggja. Annað lærið er sneitt niður og framparturinn einnig. Ef ég kaupi heilan lambaskrokk þá við ég fá bæði lærin heil, ég vil einnig fá frampartana tvo heila, ósagaða. Ég hef oft reynt að fá heila  bóga (framparta) en það virðist útilokað. Allir skulu sitja við sama borð, svona skaltu fá það kall minn, láttu okkur um að ákveða fyrir þig hvernið varan er tilreidd sem þú kaupir. Bógar eða frampartar eru nefnilega lystilega gott hráefni til að heilsteikja, en þeir er aldrei fáanlegir í verslunum.

Annað til að agnúast út í er þetta: oft er hægt að fá frosið súpukjöt í vænum pakkningum, ágætt til að elda góða kjötsúpu, muna samt eftir því að allt lambakjöt krefst nákvæmrar og vandaðrar afþýðingar. En þá kemur hugmyndaleysi sölustöðvanna. Það bregst varla að allar pakkningarnar eru næstum því jafn stórar og þungar. 

Hefur engum dottið í hug að einhver vilji 1 kg, annar 3 kg og sá þriðji jafnvel 5 kg?


Það hvarflar ekki að mér að Ólafur Ragnar muni synja því að staðfesta samþykkt Alþingis um Icesave

Það hefur verið lítil freisting að setjast við tölvuna til að blogga um hásumarið. Garðurinn býður upp á skemmtilega útiveru og vinabæjarmótið sem við 20 Ölfusingar sóttum í Skærbæk í Danmörku fyrstu vikuna í júlí var bráðskemmtilegt og vel skipulagt og stjórnað af Dönum.

En nú er Icesave máið að mestu komið í höfn, það er við hafnarkjaftinn, það á aðeins eftir að leggjast að bryggju og fá landfestar frá forseta vorum Ólafi Ragnari.

Menn hafa verið að gera því skóna, og sumir að krefjast þess, að Ólafur Ragnar synji því að samþykkja þessa afdrifaríku lagasetningu Alþingis. Margir líkja þessu við synjun forsetans á alræmdu frumvarpi Davíðs og Halldórs, hið svokallað fjölmiðjafrumvarp. Slík samlíking er algjörlega út í hött, raunar var fjölmiðlafrumvarpið ekki nema stormur í vatnsglasi miðar við stórviðri og brimskafla Icesave málsins. Ég veit að Ólafur Rafnar forseti er það raunsær maður að hann mun ekki setja þjóðlífið á annan endann með synjun.

En eitt er víst; þeir sem komu okkur Ísendingum í þetta skelfilega Icesave mál eru líklega einhverjir mestu óhappamenn sem finnast á landi hér og það má alveg fara allt aftur í landnám til samanburðar!

Það hefur verið bent á Gamla sáttmála til samanburðar en í raun var hann að sumu leyti ill nauðsyn, landið var að einangrast, loftslag breyttist til hins verra, lífkjör versnuðu, skipum fækkaði. En nóg um Gamla sáttmál.

En gerði ríkisstjórnin mikil mistök í Icesave málinu? Ekki er nokkur vafi á því í mínum huga að við bárum ábyrgð á Icesave reikningum Landsbankans sem óheillakrákan Sigurjón Árnason fyrrum bankastjóri LÍ segir að okkar ábyrgð hafi aldrei verið til. Sigurjón Árnason og hans samverkamenn ættu að skammast sín og láta sem minnst fyrir sér fara. En hvað um ríkistjórnina? Ég var yfir mig undrandi þegar Steingrímur fjármálráðherra skipaði gamlan flokksbróður sinn Svavar Gestsson sendiherra sem formann samninganefndarinnar, það var með eindæmum óheppilegt. Ég tel að samninganefndin um Icesave hafi ekki verið skipuð þeim hæfustu sem finnanlegir voru innanlands og það átti tvímælalaust að fá einnig hæfustu menn í útlöndum til að taka beinan þátt í samningaviðræðum.

En hvað um þátt Alþingis? Þar kemur furðuleg afstaða margra til Alþingis í ljós. Almenningur er orðinn svo vanur að ríkisstjórnin og framkvæmdavaldið í heild valti yfir Alþingi að fjölmargir halda að eitthvað sé bogið við það að Alþingi taki málið í sínar hendur og vinni það án þess að láta ríkisstjórnina segja sér fyrir verkum frá degi til dag.

Þar var Guðbjartur Hannesson form. fjárlaganefndar tvímælalaust fremstur með jafningja og vegur Alþingis hefur tvímælalaust vaxið af þessari glímu.

En svo reyndu sumir að fiska í gruggugu vatni og þar fór Sigmundur Davíð formaður Framsóknarflokksins fremstur. Ég hafði trú á þessum manni fyrst þegar hann kom inn í pólitíkina en sú trú er löngu gufuð upp. Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn undarlegur söfnuður sem virðist ekkert vita hvert á að stefna. Öðru vísi mér áður brá þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafði niðurnjörvaða stefnu og fylgdi henni gegn um þykkt og þunnt ekki síst til að hygla sínum mönnum og fyrirtækjum. Bjarni Benediksson virðist ekki ná neinum tökum á stjórn flokksins. Bláa höndin virðist enn stjórna bak við tjöldin. Það sáu það allir sem sjá vildu að það var óheppilegt að gera mann úr innstu elítu flokksins að formanni til að leiða endurreisnina eftir hina fráleitu arfleið Davíðs en Bláa höndin réði ferðinni. Það kom ekki til greina að sækja foringjann út á land, mann sem hafði víðtæka reynslu úr atvinnulífi og sveitarstjórn. En hann var ekki í elítunni eða af Ættunum, því fór sem fór. Ég hef ekki orku til að ræða um garminn hann Ketil, Borgaraflokkinn. 

Þvílíkir rugludallar hafa líklega aldrei sest á Alþingi Íslendinga og hafa þó margir undirmálsmenn náð að smeygja sér þar inn.


Getur Hrannar verið áfram aðstoðarmaður Jóhönnu forsætisráðherra?

Það er gott framtak hjá Ágústi H. Bjarnasyni að birta mjög umtalaða grein Evu Joly um framkomu útlendinga, ráðandi manna í æðstu stöðum, gagnvart Íslandi, meira að segja á norsku, ensku, frönsku og íslensku. Ég er þegar búinn að senda greinina á norsku til tveggja í Noregi, einnig tveggja í Svíþjóð og svo sendi ég syni mínum í Frakklandi hana auðvitað á frönsku. Mér finnst grein Evu hnitmiðuð og rökföst og hún rifjar upp stutta grein eftir Ólaf Hauksson fjölmiðlatengil um að ekki hafi verið staðið nógu vel að kynningarmálum erlendis á okkar sérstæðu aðstæðum eftir hrunið og reyndar skortir enn á það að nógu vel sé að því staðið innanlands.

En hvað um Hrannar?

Hrannar er aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Jóhanna valdi hann sjálf til þeirra verka að vera hennar nánasti samverkamaður.  Þess vegna bregður manni illilega þegar persóna í slíkri stöðu veður fram og gagnrýnir hvað er sagt um íslensk málefni eins og Eva Joly gerði í grein sinni. Hrannar mun hafa sagt á heimasíðu sinni að Eva ætti ekki að skipta sér af efnahagsmálum Íslands, það væru aðrir sem færu með þau mál. Er hægt að líta á það öðruvísi en þannig að það sem aðstoðarmaður forsætisráðherra lætur frá sér fara sé bergmál af skoðunum ráðherrans? Í öðru lagi; eiga aðstoðarmenn ráðherra yfirleitt að vera að leggja orð í belg í opinberri umræðu, þeir eru í mjög viðkvæmri og sérstæðri stöðu.

Getur Hrannar verið áfram aðstoðarmaður forsætisráðherra?

Auðvitað verður Jóhanna að ákveða það. En hún verður að gera sér það ljóst að ef engin breyting verður á högum  og störfum Hrannars er hún að taka afstöðu með hans skoðunum sem hann hefur sett fram á ákaflega óheppilegan hátt.

Að mínu áliti á Jóhanna að víkja Hrannari úr starfi.

.

 

 


Spellvirkjunum hossað á kostnað björgunarsveitarinnar

Sá Fréttablaðið í morgun, þökk sé nágranna mínum Ragnari. Í sjálfu sér væri mér nokkuð sama þó ég sæi ekki það blað en þegar það er komið inn um lúguna les maður það auðvitað.

Þar segir í frétt að stuðningur við Ríkisstjórnina sé kominn niður í 43%, að  fylgi við Sjálfstæðisflokkinn aukist, að fylgi  Vinstri Græna fari dvínandi en aðrir flokkar haldi sjó. Þetta er mjög merkileg frétt og sýnir og sannar að minni háttvirtra þjóðfélagsþegna nær ákaflega skammt.

Æði margir virðast ýmist vera búnir að gleyma því, eða einfaldlega hafa aldrei gert sér grein fyrir því, að það  var Sjálfstæðisflokkurinn sem ber höfuðábyrgð á hruninu mikla haustið 2008 enda búinn að vera í ríkisstjórn samfellt í 18 ár.

Vissulega naut Sjálfstæðisflokkurinn dyggilegs stuðnings Framsóknarflokksins við að teppaleggja brautina fyrir fjárglæframennina sem því miður hafa fengið það allt of virðulega heiti "útrásarvíkingar". Þeir tveir menn sem þeim óhappaverkum stýrðu voru Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Halldór var síðan gerður skaðlaus og sendur úr landi en Davíð Oddsson aldeilis ekki. Honum var lyft til æðstu valda í Seðlabanka Íslands til að gæta hagsmuna þjóðarinnar ásamt Heimdellingi nokkrum Jónasi Fr. sem stýrði Fjármálaeftirlitinu.

Og allir vita hvernig fór!

Ríkisstjórnin núverandi vinnum hörðum höndum við að bjarga landi og þjóð út úr ógöngum þeim sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur komu okkur við. Það er ekki auðvelt verk. Ég get hins vegar ekki séð neina tvo aðra einstaklinga til að leiða það verk en þau Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon. Auðvitað verða þau að grípa til margra óvinsælla ráðstafana. Við mig persónulega kemur það sér mjög illa að hámark tekjutengingar eldri borgara var lækkað úr 1.300.00 í 480.000. En samt sem áður styð ég þessa ríkisstjórn, hvað annað eigum við að gera?

Eigum við að leiða spellvirkjaflokkinn Sjálfstæðisflokk aftur til valda og áhrifa í íslensku þjóðfélagi?


Samfylkingarmaður telur að skoða eigi tillögu Sjálfstæðismanna rækilega

Horfði á Kastljós í kvöld þar sem þeir Tryggvi Þór Herbertsson alþingismaður og Þórarinn V. Þórarinsson lögmaður tókust á um tillögu Sjálfstæðismanna um að skattleggja greiðslur í lífeyrissjóði um leið og greiðslur eiga sér stað en ekki um leið og lífeyrisgreiðslur eru greiddar út sem lífeyrir. Það var athyglisvert að þarna tókust á tveir Sjálfstæðismenn en voru þó algjörlega ósammál. Líklega er Tryggvi Þór aðal hugmyndasmiðurinn að þessari skattalegu breytingu sem myndi, eftir því sem Sjálfstæðismenn segja, gefa Ríkissjóði miklar tekjur strax og ekki veitir af, nú er leitað í hverri smugu eftir fjármunum til að fylla upp í þann rosalega fjárlagahalla sem verður viðvarandi næstu árin.

Það er skemmst frá því að segja að ég fékk þó nokkurn áhuga á þessari hugmynd Sjálfstæðismanna. Þórarinn gerði sig sekan um rökleysu þegar hann hélt því fram a þetta myndi svipta ríkið skatttekjum síðar meir en þann málflutning skil ég ekki. Almenningur mun halda áfram að greiða í lífeyrissjóði um ókomin ár og þar með mun alltaf myndast skattstofn. Það má líkja þessari breytingu við það þegar við tókum upp staðgreiðslu skatta sem ekki nokkur maður í dag efast um að var mikið heillaspor. Þar var breytt um innheimtu skatta. Fyrir breytinguna var skattur greiddur að tekjum síðasta árs (skattur greiddur að lífeyrisgreiðslum við útborgun) en eftir að staðgreiðslan var tekin upp var skattur greiddur af tekjunum um leið og þær mynduðust (skattur greiddur af lífeyrisgreiðslum við innborgun í lífeyrissjóði).

Eflaust er það rétt hjá Tryggva Þór að á þessari hugmynd eru magrir agnúar en eins og hann sagði það á að finna leiðir til að sníða þá af og einnig að það er lítil framsýni að skjóta hugmynd í kaf um leið og einhver agnnúi sést. Þórarinn sagði reyndar að ef skattur yrði tekinn af lífeyrisgreiðslum strax í upphafi væri stofninn sem ber vaxtatekjur minni framvegis og það er eflaust rétt.

En væri ekki hægt að mæta því að nokkru með því að "skera ofan af kökunni". Rekstur lífeyrissjóða er óheyrilega fjármagnsfrekur og er ekki hægt að hagræða með því að fækka lífeyrissjóðum. Hvað eru margir lífeyrissjóðir reknir hjá þessari 320.000 manna þjóð?

Ég skora á þau Jóhönnu forsætisráðherra og Steinrím fjármálaráðherra að skoða þessa tillögu Sjálfstæðismanna vandlega.


Sigmundur Davíð og Vigdís voru í lágkúrunni, hryllingssaga Ásbörns Óttarssonar af kvótabraski var með ólíkindum

Eflaust hefðu margir viljað að stefnuræða Jóhönnu hefði verið miklu ítarlegri og sagt okkur nákvæmlega hvað er framundan í skattamálum, niðurskurði, skuldastöðu og fl. en við því var tæpast að búast. Lágkúruna áttu þau Sigmundur Davíð og Vigdís Hauksdóttir. Það er dapurlegt að tveir nýir þingmen skulu vera á svo lágu plani eins og þau voru í kvöld og svo kórónaði Sigmundur Davíð allt með hroka sínum; ávarpaði hvorki forseta þingsins eða áheyrendur. Það er vissulega áhyggjuefni fyrir Framsóknarflokkinn ef hann ætlar að grafa sig niður í kalt stríð að gamalli fyrirmynd. Það var nokkur annar blær á ræðu Guðmundar Steingrímssonar og ég fagna því að það skuli kominn maður á þing sem hefur það vald á mæltu máli að geta talað blaðalaust, að undanförnu hefur það verið Steingrímur einn sem hefur haft það á valdi sínu. Mér fannst Borgarahreyfingin nokkuð málefnaleg enda getur hún varla verið öðruvísi ef hún ætlar að vera trú sínum uppruna.

En Sjálfstæðisflokkurinn kom mér á óvart. Ólöf Nordal var yfirveguð eins og hún á kyn til,  var málefnaleg án allra upphrópana. Hins vegar varð ég undrandi á hvernig Bjarni Benediktsson form. Sjálfstæðisflokksins beraði sig sem vaktmann fyrir óbreytt kvótakerfi, hann eyddi talsverðu af ræðutíma sínum í að rekja hryllingsmynd útgerðarauðvaldsins að allur sjávarútvegur færi á hausinn ef fyrningaleiðin væri farin. En að hann skyldi vera svo seinheppinn að segja fyrningarleiðina "þjóðnýtingu" var með ólíkindum, Hver á veiðiréttinn, hver á auðlindina, hver á fiskinn í sjónum? Var formaður Sjálfstæðisflokksins að lýsa því yfir að auðlindir hafsins væru ekki sameign þjóðarinnar heldur óafturkræf eign fárra sægreifa?

En nýi þingmaðurinn frá Rifi var þó sá seinheppnasti í umræðunum. Sem útgerðarmaður rak hann áróður fyrir sín einkasjónarmið eins og þau koma honum fyrir sjónir en sagði sögu sem lýsti í hnotskurn hversu kvótakerfið er rotið og óheilbrigt. Útgerðarmaður í Ólafsvík seldi honum og öðrum útgerðarmanni á Rifi allan kvótann sinn á  tugi milljóna. Þeir á Rifi áttu ekki krónu og slógu lán fyrir kvótakaupunum 100%. Nú hafa þessi lán hækkað og hækkað vegna óstjórnar Sjálfstæðisflokksins, en hvað um þann sem seldi?. Hann lifir eins og blómi í eggi, ávaxtaði það sem hann fékk fyrir kvótann og þarf ekki að dýfa hendi í kalt vatn, Hann á enn bátinn sem hann fékk kvótann út á en sá bátur fer aldrei úr höfn lengur.

Þetta sagði Ásbjörn í ræðu á Alþingi, þarna lýsti hann réttilega þessu  gjörspillta kerfi, maður selur réttindi sem samfélagið veitir honum, hvernig í ósköpunum gat það gerst að þessi sameign þjóðarinnar yrði braskvara sem gerði suma svo ríka að þeir geta lifað í vellystingum praktuglega án þess að þurfa nokkuð fyrir því að hafa.

Hvernig fór fyrir Eskju á Eskifirði, hvert fóru lötu erfingjar Alla ríka með andvirði kvótans, hvernig var með "dýrasta" skilnað Íslandsögunnar þegar Samherjaforstjórinn skildi við eiginkonu síns. Hann varð að borga henni væna summu vegna syndandi þorska í sjónum. Áður hafði sameigandi hans og frændi fengið einnig stórar summur fyrir lifandi þorska sem þeir töldu sig eiga, frændinn flutti til Reykjavíkur og braskaði þar með þorskapeningana, sem við, þjóðin, héldum að við ættum.

Ef einhver útgerðar - eða fiskvinnslufyrirtæki fara á hausinn við fyrninguna þá mega þau fara rúllandi á hausinn, þá er enginn grundvöllur fyrir tilveru þeirra. Það eru nógu margir sem eru reiðubúnir til að ná í þann fisk sem við fáum að veiða árlega.


« Fyrri síða

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband