Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Landkrabbi svarar útgerðarmanni

Útgerðarmenn þessa lands hafa stimplað sig inn sem eitthvert rammasta afturhald sem uppi hefur verið á landi hér og er þá mikið sagt. Ármann Einarsson útgerðarmaður hér í Þorlákshöfn eys úr skálum reiði sinnar í Bæjarlífi. 2. tbl. þessa árs. Eins og sönnum útgerðarmanni sæmir telur hann núverandi Ríkisstjórn orsök alls hins illa. Þessi sanntrúaði Sjálfstæðismaður lokar augunum fyrir því að það var hans flokkur sem leiddi landstjórnina í 18 ár, það var sá flokkur sem gaf völdum fjárglæframönnum ríkisbankana sem keyrðu sig í þrot á haustdögum árið 2008, og það voru forystumenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sem innleiddu allt svínaríið og braskið með frjálsu framsali fiskveiðikvótans. Ármann telur sér sæma að kalla fjármálaráðherra “vitleysing”. Það er öruggt að ekki minnkar Steingrímur við þá nafngift og eins öruggt að ekki verður Ármann hærri í loftinu.

 

 

Fyrningarleiðin, leiðrétting á stuldi aldarinnar

Ég ætla að leyfa mér að segja nokkur orð um fyrningarleiðina, að þjóðin innkalli sína eign, fiskveiðikvótann, úr klóm útgerðarmanna á 20 árum. Ekki eitt orð af viti hefur komið frá útgerðarmönnum um þetta mál. Stöðugar upphrópanir um að þetta setji alla útgerð og fiskvinnslu á hausinn, aldrei nein rök. Kvótakerfið var upphaflega sett til að við veiddum þann takmarkaða afla, sem við töldum óhætt að veiða, á sem hagkvæmastan hátt. Um það er hægt að hafa mörg orð en segjum að það hafi verið rétt og nauðsynlegt. Óumdeilt var þá að það var þjóðin sem átti fiskinn í sjónum, hlutur minn og hlutur Ármanns voru nákvæmlega jafnstórir.

Útgerðarmönnum var úthlutaður kvóti samkvæmt veiðireynslu, fyrir þessi réttindi þurftu útgerðarmenn ekkert að borga, þeir fengu þessi réttindi á silfurfati.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Sú ólukkuríkisstjórn, sem hafði Davíð Oddssson og Halldór Ásgrímsson sem foringja, lét undan gífurlegum þrýstingi útgerðarmanna og veitti þeim “eignarhald” á því sem þjóðin átti öll. Ef útgerðarmenn sjá kjarna málsins ættu þeir að skilja að þar var þeim réttur baneitraður bikar, en þeir voru svo grunnhyggnir að þeir héldu að þeir væru að detta í lukkupottinn með því að fá í sínar hendur annarra eign til að braska með, til að eiga, til að leigja, til að kaupa, til að selja.

En nú eru blikur á lofti, núverandi ríkisstjórn ætlar á tuttugu árum að afhenda réttum eigendun, þjóðinni, kvótann. En hvað heyrist þá úr hinum rammafturhaldsama kór útgerðarmanna sem ekki má heyra minnst á nokkrar breytingar; ríkisstjórnin er að gera öll útgerðarfyrirtæki á Íslandi gjaldþrota með því að fyrna kvótann á 20 árum.

Ég spyr sem landkrabbi; hvernig getur þessi litla breyting á afturkölluðum kvóta haft svo geigvænleg áhrif? Ekki hefur þetta minnstu áhrif á lausafjárstöðu fyrirtækjanna þetta hefur engin fjárútlát í för með sér. Mér finnst jafnvel koma til greina að vel rekin útgerðarfyrirtæki fái að nýta áfram þennan kvóta, fái hann til afnota frá réttum eigendum, mér finnst jafnvel koma til greina að þeir þurfi ekki að greiða afgjald fyrstu fimm árin.

 

 

Hvað er þá að gerast?

Ætli við ættum ekki að líta á efnahagsreikning útgerðarfyrirtækjanna? Það skyldi þó ekki vera að það sé búið að bókfæra þessa almannaeign sem einkaeign fyrirtækisins. Það væri ekki úr vegi að líta í veðbækur. Það skyldi þó ekki vera að það sé búið að veðsetja þessa almannaeign upp í topp. Ekki aðeins hér á landi heldur einnig hjá útlendum lánastofnunum, stofnunum sem samkvæmt íslenskum lögum mega ekki eignast fiskveiðikvóta í íslenskri landhelgi en taka hann samt sem góð og gild veð.

Er ég þarna farinn að nálgast tárakirtlana sem svo óspart eru knúðir hjá langflestum útgerðarmönnum?

Ég sagði hér að framan að með því að þiggja það lögbrot, sem þeir Davíð og Halldór réttu fram, hafi útgerðarmenn bergt á beiskum eiturbikar. Með því að samfélagið hefði áfram átt kvótann og úthlutað honum til vel rekinna fyrirtækja stæði íslenskur sjávarútvegur mun  betur en raunin er í dag. Þá hefði ekki orðið til hið gerspillta brask með kvóta til fiskveiða. Fyrir skömmu heyrði ég frá skilvirkum mönnum í útgerð að 90% af kvóta útgerðarfyrirtækja væri keyptur og hefði jafnvel skipt um hendur margoft. Má ég spyrja; hvar voru þeir peningar teknir sem fóru í kvótakaup? Voru þeir ekki teknir úr íslenskum sjávarútvegi? Ef laust fé var ekki til í fyrirtækjum voru þá ekki slegin lán og oft á tíðum kvótinnn settur sem trygging víðs vegar um heim? Hvað varð um allt þetta fé sem flæddi út úr íslenskum sjávarútvegi?

Því er fljótsvarað. Það fór til ýmissa spekúlanta sem þarna sáu sé leik á borði; hætta þessu amstri og fá fúlgur fjár fyrir gæði sem þeir áttu ekkert í. Hvað skyldu margir slíkir, sem búnir eru að mergsjúga íslenskan sjavarútveg á liðnum árum, sitja í glæsihöllum í London eða sleikja sólina í Karabíska hafinu? Hvernig fór með það gamla góða fyrirtæki Alla ríka á Eskifirði, Eskju. Eru ekki afæturnar einmitt að drekka út andviðri þess eða sólunda því í spilavítum? Samherji á Akureyri var stofnaður af þremur hörkuduglegum fjölskyldum. En svo vildi einn máttarstólpinn fara að lifa hinu ljúfa lífi, hætta í slorinu. Það virtist ekkert mál fyrir Samherja að snara út verðgildi eins þriðja af fyrirtækinu. Það hefði líklega kveðið við annan tón ef þetta hefði verið 5% af kvótanum sem þó hefði ekki kostað fyrirtækið krónu að láta af hendi og fá jafnvel að nýta áfram.

En þá hefði líklega komið ramakveinið, helvítis vinstrimennirnir eru að gera

okkur gjaldþrota!

 

Arðsamasta skipið í Vestmannaeyjum

Fyrir nokkrum árum heimsótti ég vin minn ágætan í Vestmannaeyjum. Hann ók mér vítt og breytt um þessar fögru eyjar og auðvitað fórun við meðfram höfninni. Hann benti mér á skip eitt í höfninni, líklega togari af minni gerðinni og sagði:

“Þetta er arðsamasta skipið í okkar flota, en hefur þó ekki verið leyst frá bryggju í nokkur ár”.

Þessi gáta var of flókin fyrir mig en lausnin var einföld. Eigandinn hætti að gera út skipið og lifði nú kónga- og letilífi á leigunni af kvótanum!

Því segi ég enn og aftur. Þið útgerðarmenn hafið aldrei sopið af eitraðri bikar en þegar þið supuð á framsalseitrinu úr hendi ykkar ástsælu ráðherra forðum daga.Þið væruð mun betur settir nú ef þið hefðuð hafnað honum og aldrei komist í þá botnlausu spillingu sem kvótaframsalið hefur leitt af sér. Hundruðir milljarða króna hefðu ekki streymt út úr íslenskum sjávarútvegi, væru þar sem orkugjafi fyrirtækjana. Ykkur mundi einnig líða mun betur í dag, ég er ekki í nokkrum vafa um að þið hafið samvisku flestir.

Takið þátt í því að rekja ofan af þessu kvótasvínaríi, hættið að grenja eins og óstýrilátir krakkar og takið hraustlega á til að endureisa réttlætið, það er ykkur sjálfum fyrir bestu.

Að lokum; ef þú skyldir svara mér Ármann, sem ég býst tæplega við að þú leggir út í, þá ætlast ég til að þú talir af rökum og réttsýni, gefir tárakirtlunum frí.

 


Ekki bíða eftir köldu húsi eða ökklavatni á gólfum

 

Svo er sagt í gömlum sögnum að margir máttu þola það, einkum á efri árum, að þeir færu ekki einir um götur, þeir hefðu eignast”fylgjur” sem nánast fylgdu viðkomandi hvert fótmál og létu jafnvel finna til sín þegar til hvílu var gengið. Þessar fylgjur gátu verið æði mismunandi, illgjarnar sumar en aðrar góðar og hjálpsamar. Nú er ég svo gamall sem á grönum má sjá svo aldurs vegna ætti ég jafnvel að hafa eignast fylgju, en samkvæmt skynsemistrú nútímans byggðist trú á fylgjur á einfeldni og trúgirni, aðalega undirmálsfólks.

En ég verð þó að játa á mig að fylgju nokkra hef ég eignast og skal ég segja frá því á síðum Morgunblaðsins enda kviknaði hún þar, kveikjan að henni fæddist 1992. Fyrir einhverja tilviljun örlaganna hóf ég þá að skrifa pistla sem nefndust “Lagnafréttir”. Þetta  áttu ekki að verða margir pistlar en oft taka mál aðra stefnu en ætlað er. Þessi skrif stóðu vikulega næstum í 16 ár og urðu pistlarnir nær 700 að tölu. En það bærðist fleira að baki pistlanna en á yfirborði sást. Þeir virtust nokkuð mikið lesnir og þar með varð ég ósjálfrátt ráðgjafi fjölmargra húseigenda og húsbyggjenda.

Og ég fer ekkert leynt með það að líklega hafa 75% sem til mín leituðu verið konur. Þetta sýndi mér og sannaði að konur láta sig meiru varða hvernig heimilið þróast og eru opnari og skilningsríkari á það hvað þarf að lagfæra innan stokks og utan. En allt tekur enda og ég hætti þessum skrifum að mig minnir haustið 2008 og segi gjarnan að það féll fleira þá haustmánuði en fjármálakerfi þjóðfélagsins.

En þá gerist það óvænta. Þó skrifum sé lokið hef ég nokkra samfylgd áfram, það gerist enn að ég fæ póst á netinu, einstaka upphringingu og einstaka bréf þeirra eldri sem ekki eiga tölvu. Nú er það síður en svo að ég sé að kvarta undan því að til mín sé leitað enn, finnst það meira að segja hlýlegt og nokkur sönnun þess að “margt sé gott sem gamlir kveða”.

Nýlega frétti ég af skemmtilegu framtaki. Dagana 5. og 6. mars nk. verður sýning og upplýsingastefna í Smáralind, kjölfesta þessa framtaks er Múrbúðin. Sýning þessi ber nafnið “Viðhald 2010” og er ætlað að veita sem mestri og bestri þekkingu til allra þeirra fjölmörgu sem þurfa á leiðbeiningum og ráðleggingum að halda um viðhald heimila og húseigna. Nú er lag, 100% endurgreiðsla á virðisaukaskatti af vinnulið út þetta ár, aldrei fleiri góðir iðnaðarmenn á lausum kili sem klæjar í lófana eftir að fá verkefni og síðast en ekki síst; fjölmörg hús eru að grotna niður.

Þetta varð til þess að ég fékk hugmynd. Ef ég bý yfir einhverri reynslu og þekkingu sem komið getur að gagni þá ákvað ég að mæta á staðinn og rabba við gott fólk á sama hátt og þegar mínir gömlu og góðu góðu lesendur höfðu samband við mig, ég vona að ýmislegt af þeim ráðum hafi komið að gagni.

Ég ætla að vera til taks á sýningunni “Viðhald 2010” í Smáralind 5.- 6. mars, kannski er ég undir áhrifum gamallar góðrar “fylgju”.

 


Ég er ekki svartsýnn en mér verður óglatt af síðustu fréttum úr heimi bankanna

Nágranni minn einn ágætur læðir stundum að mér eldri eintökum af DV. Síðan ég sagði Morgunblaðinu upp hef ég háð baráttu fyrir því að við íbúar Þorlákshafnar fáum kost á Fréttblaðinu og hefur þar verið gerð mikil bragarbót en betur má ef duga skal.

Í  DV var farið yfir hverjir væru helstu "Sturlungar" nútímans, þeir sem fram að þessu hafa verið nefndir "útrásarvíkingar". Ég verð að segja að þessir menn eiga engan rétt á að vera nefndir "víkingar" og þó. Víkingar miðalda fóru vissulega ránshendi um lönd í Vestur-Evrópu og hver sá sem stal mestu góssi, að ógleymdum glæslegum yngismeyjum, var fremstur meðal jafningja. En þessir víkingar rændu ekki í eigin landi, þeir rændu meðal annarra þjóða og komu heim með ránsfenginn hvort sem var eðalmálmar eða íturvaxnar meyjar sem að sjálfsögðu misstu þann titil um leið og þær voru komnar í klærnar á illa þefjandi og lúsugum ránsmönnum, þessum svokölluðu víkingum.

En arftakar þeirra í nútímanum, við skulum gefa þeim nýtt "sæmdarheiti" og nefna þá "tortólalubba". Flestir eru þeir flúnir land, út af fyrir sig er það ágætt og vonandi að þeir komi aldrei til baka. Vonandi tekst okkar ágæta Sérstaka saksóknara og hans fólki að endurheimta sem mest af því sem totólalubbarnir hafa stolið frá þessari fámennu þjóð og grafið í grenjum á Tortóla og víðar.

Ég var farinn að fagna því að totóalubbarnir kæmu aldrei til baka. En þar fagnaði ég of fljótt. Ég ætlaði ekki að trúa mínu augum og eyrum þegar það var kunngjört að Óafur nokkur Ólafsson kenndur við Samskip (sem hann ásamt fleiri fjarglæframönnum Framsóknarflokksins tókst að véla til sín út úr reitum Sambands íslenskra samvinnufélaga) væri kominn til landsins frá Sviss og hvað beið hans hér;

Arionbanki rétti honum á silfurfati þetta fyrirtæki, Samskip, aftur til eignar og ábúðar.

Ég spyr; eru engin takmörk fyrir því hvað á að reka ofan í kok landsmanna með illu eða góðu. Finnur bankastjóri Arionbanka kemur vígreifur á skjáinn og segir kokhraustur gegn betri vitund:

Við afskrifuðum ekki nett!!!

Almenningur stendur agndofa og algjörlega máttvana. Arionbanki hefur verið einkavæddur enda ekki um anað að ræða, kröfuhafarnir hirtu bankann. 

En líklega sýnir þetta okkur hvað er í vændum. Eru fleiri tortúlulubbar en Ólafur Ólafsson á heimleið, þeir ætla líklega ekki að láta sér nægja það fé sem þeir eru búnir að grafa á ýmsum eyjum eins og gamlir sjóræningjar gerðu fyrr á öldum. 

Það eru mikil verðmæti heima á gamla landinu sem þeir léku svo grátt, á gamla landinu þar sem þeir rændu og rupluðu. Siðgæði þeirra er á sama núlli og það var þegar þeir voru að moka fé í milljarðatugum í vildarvini út úr bönkunum á meðan þessir sömu bankar hrundu. Svo létu þeir sig hverfa út í hið alþjóðlega náttmyrkur eins og rónar sem leita skjóls meðan  hellirignir en fara á stjá um leið og upp styttir.

Þetta er í fyrsta skipti sem ég finn hjá mér þörf til að berja pottlok, stórt og mikið pottlok.

 


Ungir þingmenn Framsóknarflokksins skeyta hvorki um skömm né heiður, tyggja endalaust skelfingaráróður og blekkingar

Spunameistarar Samfylkingarinnar finna sífellt ný orð til að slengja fram úr fjóshaugnum sínum.

Þetta sagði  Eygló Harðardóttir alþingismaður Framsóknarflokksins í bloggi sínu. Það sem að neðan stendur er athugasemd mín við bloggi hennar, ætla að birta það hér því Eygló virðist hafa þagnað með öllu.

Þú heldur líklega Eygló að þú verðir stærri og merkilegri með svona orðbragði, þú um það. Ég hef átt marga góða vini í Framsóknarflokknum og finnst verulega dapurlegt að fylgjast með framgöngu þeirra Sigmundar Davíðs og Höskuldar sem sífellt ala á ótta með þjóðinni, hafa ekkert fyrir því að fara með rangt mál,  fara jafnvel í skrípaferðir til annarra landa (Noregsferðin fræga) til að reyna að sýnast meiri menn en þeir eru. Þú og Vigdís Hauksdóttir hafa fylgt þeim vel eftir í óttaáróðri, ég hafði nokkra trú á ykkur þessu unga fólki sem kom á þing fyrir Framsóknarflokkinn, en mikið skelfingar ósköp er framganga ykkar dapurleg og vesöl, því miður. Núverandi Ríkisstjórn er að hreinsa upp þann "fjóshaug" af spillingu og mistökum sem þínir flokksmenn sköpuðu og fóru þar fremst í flokki Halldór Ásgrímsson og Valgerður Sverrisdóttir, auðvitað í órofa samstöðu með Sjálfstæðisflokknum, þar má ekki gleyma þeim sem lengst var forsætisráðherra Davíð Oddsson og fjármálaráðherra Árni Matt.

Icesave er skilgetið afkvæmi af einkavæðingu bankanna þar sem klíkur þessara tveggja flokka fengu bankana nánast gefins.

Allt eftirlit brást og ábyrgð Íslensku þjóðarinnar á Isesave er því miður hafin yfir allan vafa. En þú og þínir nánustu samverkamenn spilið algjörlega án nokkurrar ábyrgðar. Icesave var ekki búið til að núverandi stjórnarflokkum, þetta skrímsli var og er fyrst og fremst á ábyrgð Framsóknarflokksins.

Þú ert auðvitað hreykin af því sem Ríkisendurskoðun er að upplýsa og nánast ákæra fyrir hvernig Davíð Oddsson hagaði sér í Seðlabankanum. Það er dapurlegast að þið virðist oft á tíðum komst upp með að rangtúlka og blekkja, hverjir séu raunverulegu ábyrgir fyrir Isesave, óráðsíunni í Seðlabankanum og Fjármáleftirlitinu. Þú og þið fjórmenningarnir í Framsóknarflokknum skeytið hvorki um skömm né heiður heldur tyggið endalaust ykkar skelfingaáróður og blekkingar.

Aukum veiðar á þorski

Það er engin spurning; við eigum að auka veiðar á þorski, við höfum ekki efni á því að láta þorskinn verða ellidauðann í sjónum í stórum stíl eða láta hann synda til okkar nágranna sem ekki fúlsa við slíkri gjafmildi.

Ég er dæmigerður landkrabbi en hver fylgist ekki með sjávarútvegi og fiskveiðum. Hef ætíð haft meira álit á ráðgjöf Jóns Kristjánssonar fiskifræðings og Kristins Péturssonar fiskverkanda á Bakkfirði en á ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar. Hafrannsóknarstofnun finnur ekki þorskseiðin en einn ágætur Grímseyingur sagðist í hádegisfréttum geta upplýst Hafró um hvar þau eru.

Jóhann Sigurjónsson, hættu að leita og hringdu norður til Grímseyjar, það er miklu ódýrari leið til að finna seiðin en skrapa alla firði.

Eftir yfirgengilegt stjórnleysi og vitleysu undanfarin sukkár virðist sem svo að komin sé upp ákveðin stirðleiki í kerfinu; nú þora menn vart að taka ákvarðanir, tæplega að ræða róttækar aðgerðir til að koma okkur úr vandanum sem fyrst.

Við eigum að taka djarfar ákvarðanir og fylgja þeim eftir:

Auka fiskveiðar og skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði, ekki aðeins séreignasparnað heldur allar inngreiðslur.


Algjörlega sammála Pétri Blöndal

Hversvegna er hugmynd Sjálfstæðismann um skattlagningu á inngreiðslur lífeyrissjóða ekki tekin til gagngerrar skoðunar?

Ég blogga um þetta mál hér að neðan en eftir að hafa hlustað á Pétur Blöndal alþingismann og fulltrúa lífeyrissjóðanna (hvers nafn ég greip ekki því miður) í gær í Kastljósi  þá er ég enn sannfærðari um að þetta er leið sem við eigum að fara. Það er langt síðan ég hef heyrt frá "ábyrgum" manni jafn miklar rökleysur og komu fram hjá lífeyrisjóðafulltrúanum.

Lítum aðeins á rökleysur hans:

1. Hann hélt því fram að lífeyrissjóðirnir þyrftu, ef þetta yrði tekið upp, að losa og selja eignir. Hvers vegna, lífeyrissjóðirnir eru ekki að greiða neitt út, þeir fá hins vegar minna í kassann og geta ekki legið með skattpeninga ríkisins í áratugi og vaxtað þá vel eða illa eftir atvikum.

2. Hann sagði þetta verð ákaflega flókið mál. Þessi breyting er í mínum huga sambærileg og þegar við tókum upp staðgreiðslukerfi skatta, enginn vill hverfa frá því kerfi.

3. Hann sagði að við værum að taka frá börnum og barnabörnum, þau mundu fá sítt úr lífeyriskerfinu en hvað um samneysluna? Að sjálfsögðu fær hún sitt, á hverju ári koma inn skatttekjur til ríkisins á nákvæmlega sama hátt og frá staðgreiðslu skatta, skatttekjur sem skila sér betur en ef þær eru teknar af útgreiðslum.

4. Skatttekjur skila sér nær 100% við skattlagningu á inngreiðslum, en við eftirágreiðslu skatta glatar ríkið alltaf einhverju vegna þess að fjöldi lífeyrisþega fær aldrei greitt út að fullu það sem hann hefur greitt inn. Hvað gerist ef lífeyrisþegi fellur frá rétt áður en hann kemst á aldur til að taka lífeyri? Erfingjar fá eitthvað en hvað um þá sem enga nákomna ættingja eiga?

Ég átel núverandi Ríkisstjórn fyrir að hafa ekki tekið þetta mál föstum tökum og notað þetta mikla peningaflæði til að loka fjárlagagatinu frekar en að fara út í þessa skattheimtu sem alltaf verður sársaukafull þó reynt sé að gæta fyllsta réttlætis. Ég átel Sjálfstæðismenn fyrir að hafa ekki fylgt þessu máli eftir með hörku og ákveðni í stað þeirrar hálfvelgju sem þeir hafa sýnt.

Ég krefst þess að Ríkisstjórnin, og þá sérstaklega fjármálaráðherra, skýri fyrir mér og þjóðinni allri hvaða meinbugir séu á  þessari leið. Einhverjir meinbugir kunna að vera á málinu, en ég sé þá ekki.

 

 


Hversvegna ekki taka skattinn strax við inngreiðslur í lífeyrissjóði?

Einn bloggari fór mikinn í morgun uppfullur af hneykslun  á því að það eigi að skattleggja lífeyrissjóðina.

Það hefur ekki nokkrum manni dottið í hug.

Hinsvegar eru allar greiðslur manna í lífeyrissjóði, bæði frá sjóðfélaganum og mótframlag atvinnurekandans, skattlögð. Í dag eru þær skattlagðar við útgreiðslu, allir sem fá greitt úr lífeyrissjóði verða að greiða skatt af þeim greiðslum. Þetta er ekki skattlagning á lífeyrissjóðina heldur á þær greiðslur sem sjóðfélaginn fær.

Þó ég sé Samfylkingarmaður og eindreginn stuðningsmaður núverandi Ríkisstjórnar á finnst mér að það þurfi að skýra það betur fyrir almenningi af hverju tillaga Sjálfstæðismanna um að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði í stað útgreiðslur er ófær leið, á endanum verður þetta skattlagt og er ekki nema eðlilegt.

Einhverstaðar var kippt í spottann og Sjálfstæðismenn voru ekki staðfastari en það að þeir fylgdu málinu ekki eftir.  Ég sá einhversstaðar sagt að þetta gæfi Ríkissjóði 40 milljarða árlega, það væri ekki svo lítið upp í hið margumrædda fjárlagagat og mundi lina stórlega þá þungu skattbyrði sem verið er að leggja nú á þjóðina.

Fullyrðingar Steingríms fjármálaráðherra að með skattlagningu á inngreiðslur sé verið að taka frá framtíðinni og afkomendum okkar skil ég ekki, lífeyrisþeginn fær sitt, hann tapar engu og sem eldri borgari væri það sálrænt jákvæðara að fá þá litlu greiðslu sem ég fæ úr lífeyrissjóði að fullu, skatturinn afgreiddur fyrir löngu.

Hinsvegar verða vaxtatekjur lífeyrissjóðanna lægri og veltan minni við skattlagningu á inngreiðslur, þeir fá ekki tækifæri til að ráðskast með skattpeninga þjóðarinnar ártugum saman og eyða í yfirgengilegan rekstrarkostað og bruðl við stjórnun lífeyrissjóðanna.

En Steingrímur, mig vantar skýringar á orðum þínum og afstöðu.

Hversvegna var frítekjumark aldraðra lækkað?

Aldrei hefur nokkur Ríkisstjórn á Íslandi barist við viðlíka erfiðleika og sú ríkisstjórn sem nú situr. Ég er eindreginn stuðningsmaður stjórnarinnar og það verður að styðja hana með öllum ráðum út kjörtímabilið. Ef vel tekst til getur samstarf núverandi stjórnarflokka orðið lengra. Ég hef hér á undan í blogginu lagt út af þeirri bábilju að Samfylkingin eigi að hverfa að samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.  Framsóknarflokkurinn hefur gjörsamlega klúðrað því tækifæri sem hann fékk til að endurnýja sig.

En þó maður styðji stjórnina er ekki þar með sagt að hún eigi ekki að fá gagnrýni frá stuðningsmönnum sínum. Enn og aftur kemur það í ljós að þeir sem eru á miðjum aldri og yngri, jafnvel  þó yfir miðjum aldri séu, hafi harla lítinn skilning á kjörum aldraðra. Þetta er að koma í ljós aftur og aftur. Ef gengið er á kjör þess sem er þrítugur á hann alla möguleika á að hann geti náð einhverri leiðréttingu, en hvað um þann aldraða?

Ég hélt upp á 75 ára afmæli mitt nýverið, fékk margar góðar gjafir og óskir. En ég fékk eina gjöf frá þeirri Ríkisstjórn sem ég styð sem setur mikið strik í mínar áætlanir sem geta engan veginn verið á sömu lund og þess þrítuga, hann á reikningslega séð ótal tækifæri í framtíðinni, það á ég tæplega. Ég er af þeirri kynslóð sem þekkir það að engir lífeyrissjóðir voru til. Ég er líka af þeirri kynslóð sjálfstætt starfandi einstaklinga sem ekki fóru að sinna lífeyrisgreiðslum fyrr en alltof seint, ekki fyrr en lögboð kom þar um. Hins vegar er ég þó nokkuð hress og tel mig búa yfir nokkuð mikilli þekkingu í mínu fagi, en ég titla mig nú sem vatnsvirkjameistara & orkuráðgjafa og það er það síðarnefnda sem ég hafði hugsað mér að stunda þó nokkuð meðan ég hef möguleika til. 

Það sem gerði mig bjartsýnan á að svo gæti verið var sú ákvörðun fyrri ríkisstjórnar að hækka frítekjumarkið upp í 1.300.200  kr. á ári, það gaf mér ástæðu til að ég gæti gert gagn sjálfum mér og öðrum án þess að tapa nokkru í þeim tekjum sem ég hef frá TR og lífeyrissjóðum upp á næstum því 125.000 kr!!!

En Adam var ekki lengi í Pardís. Núverandi Ríkisstjórn lækkaði frítekjumarkið og það ekki um neitt smáræði. 

Það er komið niður í 480.00 kr. á ári!

Þegar þessi staðreynd blasti við mér sá ég að það væri ekki mikið sem ég gæti unnið og miðlað af minni tækniþekkingu, sem þó er ekki lítil þörf fyrir, og ég ætla að fullyrða að sé þjóðhagslega hagkvæm. Ég mætti ekki hreyfa mig mikið svo þessar litli lífeyrir sem ég fæ færi ekki að skerðast. Ef ég væri nógu harður af mér gæti ég farið að fullu út á vinnumarkaðinn aftur og reynt að afla mér þeirra tekna að ég geti sleppt þessum lífeyriskrónum. En satt að segja er það æði mikil ákvörðum fyrir þann sem orðinn er 75 ára gamall og tæplega fær leið. Þá er ekki annað en að þiggja þennan lífeyri og reyna svo að sitja sem mest heima og afla ekki umframtekna. 

Nú nokkur orð til þín minn gamli samborgari úr Kópavogi Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra.

Ég get engan vegið skilið það að þessi harkalega lækkun á frítekjumarki aldraðar skili nokkrum tekjum til Ríkissjóðs, það getur einmitt virkað öfugt. Ég hef að framan rakið nokkuð í hvaða gildru mér finnst ég vera fallinn. Það þýðir ekkert að segja við mann á mínum aldri að þetta verði lagað eftir nokkur ár, segjum 5 ár. Ég tel frekar ótrúlegt að ég sé svo mikið út á vinnumarkaði þá, verði bara að þrauka í þeirri fátækragildru sem ég sé framundan. Ég held að áhrifin af þessari mjög svo mistæku ákvörðun Ríkistjórnarinnar, að svipta aldraða þeirri lífsfyllingu að geta að nokkru aflað sér meiri tekna og vera aðeins út á meðal fólksins, gefi Ríkissjóði ekki nokkrar auknar tekjur.

Árni Páll, þú ert ungur og á þeim aldri skiljum við ekki eldra fólkið, það gerði ég ekki á þínum aldri. Ráðherrar eiga að fá ráðgjöf sem víðast að.

Gleymdu því ekki að "oft er gott sem gamlir kveða".

 


Mikilvæg ábending frá Guðmundi Ólafssyni hagfræðingi

Viðtalið við Guðmund Ólafsson hagfræðing og háskólakennara í Silfri Egils var með því athyglisverðasta sem þar hefur komið fram lengi. Þar benti Guðmundur skilmerkilega á að það hafa spekingar og hagfæðingar verið iðnir við að mála skrattann á vegginn um erlendar skuldir þjóðarbúsins. Ekki vildi hann nefna nein nöfn "málaranna" en Egill spurði hvort hann ætti við Gunnar Tómasson hagfræðing í NY og Lilju Mósesdóttur þingmann VG. Málið snýst einfaldlega um það að meirihluti erlendra skulda eru skuldir einkaaðila, ekki ríkisins og geta því aldrei fallið á ríkið eða almenning. Einn fjórði skuldanna er skuld eins félags sem raunar er víst eignarhaldsfélag. Ef lántakandi getur ekki borgað skuldina þá er það skaði hinna erlendu lánardrottna sem voru svo skyni skroppnir að lána íslenskum eignarhaldsfélögum peninga.

Þó Guðmundur vildi hvorki nefna nein nöfn  um hverjir séu iðnir við að mála myndir af skrattanum þá þykist ég muna að þeir tveir fyrrnefndu hagfræðingar hafi rætt um það opinskátt að framundan væri greiðsluþrot Ríkissjóðs. Því miður eru enn að koma upp mál þar sem stjórnvöld gefa almenningi upplýsingar ekki  nógu ítarlega og þeim fylgt eftir af krafti.

Lilja Mósesdóttir er einn af þessum nýju þingmönnum sem telja það vera farsælast til að gera sig gildandi að spila einleik. Lilja hefur lýst því yfir að hún muni ekki styðja lausn ICESAVE málsins sem hangir stöðugt yfir. Ekki veit hún hvort hún muni sitja hjá aða greiða atkvæði á móti. Hefur Lilja Mósesdóttir gert sér grein fyrir hvað tekur við ef Alþingi fellir ICESAVE samninginn? Það var hátt hrópað á Austurvelli síðasta vetur að leiðin út úr ógöngunum eftir fallið væri að setja alla þáverandi þingmenn af og fá nýja einstaklinga inn á þing. Lilja Mósesdóttir er einn af "nýliðunum" og hefur ekki unnið af ábyrgð og oft sett fram sjónarmið eins og Þór Saari sem ber ekki gott vitni um að þau nýti sér é réttan hátt þá menntun sem þau hlutu. Þá er ekki hægt annað en nefna Sigmund Davíð og Vigdísi Hauksdóttur sem nýja upphlaupskandídata og æði ábyrgðarlausa. Höskuldur Þórhallsson fylgir þeim dyggilega eftir þó hann sé ekki nýliði á þingi. Vigdís birti greinarstúf í Morgunblaðinu nýlega þar sem hún kenndi núverandi Ríkisstjórn um ICESAVE skrímslið. Að óreyndu hefði ég ekki trúað Vigdísi til slíks lýðskrums en lengi skal konuna reyna. Hún virðist geta án nokkurrar rumskunnar í eigin samvisku breitt yfir hlut þeirra Halldórs Ásgrímssonar og Valgerðar Sverrisdóttur í einkavæðingu bankanna sem er grundvöllurinn, ásamt fleiri mistökum þá, að hruninu mikla og þar með tilurð ICESAVE skrímslisins.

Valgerður, þú áttir bara að halda þig við blómin og gleymum ekki þorskhausunum hertu, í þessu tvennu ertu vissulega fær.


Sigmundur Davíð og Bjarni Ben. halda áfram í lýðskrumi og ábyrgðarleysi

Þá er líklega komið að lokapunkti Icesve samninga. Samningar munu hafa verið undirskrifaðir í dag, frumvarp lagt fram á Alþingi einnig, mælt fyrir því og það tekið til umræðna og afgreiðslu þar á eftir.

Það er með ólíkindum að lesa margt sem sagt er á blogginu um Icesve og það er einnig með ólíkindum að lesa og heyra viðbrögð foringja stjórnarandstöðunnar um þetta sama mál. Það er hægt að krefja stjórnmálaforingja um meiri ábyrgð og yfirvegun en einhverja bloggara þó mér ofbjóði orðbragð margra bloggara og svívirðingarnar sem dunið hafa á Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Það virðist sem svo að þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Ben. haldi að þeir geti komið þeirri skoðun inn hjá almenningi að Icesave skrímslið  hafi verið skapað af núverandi stjórn og stjórnarflokkum, Samfylkingu og Vinstri grænum.

En svo er aldeilis ekki. Það voru Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur sem  lögðu grunnin að þessu skrímsli. Þeir voru í ríkisstjórn árum saman og það voru þeir sem stjórnuðu einkavæðingu bankanna, sem að vísu var enginn einkavæðing. Bankarnir voru afhentir á spottprís vildarvinum flokkanna sem sumir hafa reynst einstaklingar sem ekki voru hæfir til að reka banka og eru  að verða uppvísir að fjárglæfrum sem engu tali tekur.

Ætlast þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Ben til þess að þeim verði aftur afhent völdin í þjóðfélaginu? Örugglega þrá þeir það heitast, þá gætu þeir jafnvel brugðið fæti fyrir það öfluga starf sem í gangi er til að fletta ofan af þeim þokkapiltum sem fengu bankana nánast gefna, það kann að verða æði óþægilegt fyrir þessa tvo flokka, Sjálfstæðisflokka- og Framsóknarflokk, ýmislegt sem á eftir að koma í ljós.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband