Færsluflokkur: Löggæsla

Ótrúlegt hve illa Alþingi heldur á málum t. d. með ákærum á níumenningana

Ég fylgdist með atkvæðagreiðslunni á Alþingi þegar Icesave frumvarpið var afgreitt endanlega. Sem gamall ungmennafélagi, þar sem ég og margir fleiri fengum okkar félagslega uppeldi, fann ég fyrir talsverðum ónotum við forsetastörf Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Mörgum finnst það eflaust fáránlegt að gagnrýna forseta þingsins fyrir hvernig hann skýrir frá úrslitum atkvæðagreiðslu. Í mínu ungdæmi hefði það þótt brot á fundarsköpum að segja að mál hefði verið fellt með 33 atkv.gegn 30. Sú var tíðin að "með" þýddi fortakslaust hve margir greiddu atkvæði með máli, "gegn" þýddi hve margir voru á móti. Þess vegna bar forseta að tilkynna að málið hafi verið fellt með 30 atkv. gegn 33.

Eru reglur og hefðir einskisvirði?

Þetta er nokkuð sama og kemur út úr íþróttafréttamönnum sem rugla þessum hugtökum endalaust saman, ég hef ekki orku til að fara að ræða frekar um þá stétt manna.

En aftur að því sem gerist bak við tjöldin á Alþingi.

Tölva finnst á afviknum stað, tölva sem er virk og tengd inn á tölvukerfi Alþingis. Meðferð starfsmanna og stjórnenda Alþingis á þessu máli er með eindæmum. Tölvunni kippt úr samband án þess að sérfróðir menn séu kallaðir til og síðan er reynt að fara eins leynt með málið og mögulegt er.

Níumenningarnir sem voru með uppsteyt á áheyrendapöllum Alþingis eru ákærðir fyrir uppreisn, að þeir hafi ætlað að kollvarpa Alþingi, við því kann að liggja allt að 16 ára fangelsi. Samúð mín með þessum angurgöpum, sem virðast ekki þurfa að vinna fyrir mat sínum, er ákaflega takmörkuð og ekkert að því að þeir fái áminningu fyrir sitt framferði. En að leggja fram ákæru um að þarna hafi verið á ferðinni gjörð til að kollvarpa valdi Alþingis er aldeilis fráleitt. Að Lára Júlíusdóttir skuli láta draga sig út í að vera saksóknari á þessum grundvelli er fáránlegt og ég hélt að hún væri hæfari í lögfræðinni en svo. Sem betur fer var öllum þessum máltilbúnaði um valdarán hent af dómaranum út í hafsauga en fjórir fengu létta dóma en dóma sem þeir verða að bera. Fáránleikinn í máltilbúnaði Alþingis og saksóknarans hefur gert þetta upphlaupslið að píslarvottum. Það hlægilega í öllu málinu er, ef hægt er að tala um eitthvað hlægilegt, er að í þingsölum situr maður í ráðherrastóli sem afrekaði nákvæmlega sama brotið í sínum unggæðingshætti, að ráðast inn á áheyrendapalla og trufla störf Alþingis.

Engum datt í huga að ákæra hann fyrir óspektir og því síður fyrir tilraun til valdaráns.

Nú höfum við Forseta í lýðveldinu sem gjarnan vill afla sér stuðningsmanna í væntanlegum forsetakosningum að ári. Ég legg til að hann náði þessa fjóra af níumenningunum sem fengu dóma í undirrétti.

Er það ekki hægt, er ekki hægt fyrir forsetann að náða þá sem dóma hafa hlotið?

Varla hafa handhafar forsetans meiri völd en forsetinn sjálfur eða hvað? En voru það ekki þeir þrír, handhafar forsetavalds, sem notuðu tækifærið til að veita Árna Johnsen flokksbróður sínum úr Sjálfstæðisflokknum uppreisn æru þegar Forseti lýðveldisins var kominn enn einu sinnu upp í flugvél til að fara út í heim með útrásarvíkingum bankanna til að votta í útlöndum hve ótrúlega miklir hæfileikamenn væru þar á ferð.

Og þannig gat Árni Johnsen farið aftur í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi og  þar sópaði hann að sér slíku fylgi að senda varð á vettvang kjarnakonu til að taka efsta sæti D listans. Annars hefði Árni orðið efstur og krafist ráðherraembættis ef flokkur hans kæmist í stjórnaðstöðu.

Ekki vafi á að þá hefði Árni Johnsen gert kröfu um að fá embætti dómsmalaráðherra.


Fólk virðist tilbúið til að skrifa undir hvaða vitleysu sem er

Ólafur Ragnar forseti sagði í nýársávarpi sínu að þjóðaratkvæðagreiðslan sem hann bjó til um fyrri Icesave samning sýndi að þjóðinni væri treystandi til að taka ákvarðanir í stærri málum með þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég var í upphafi, og lengst af, stuðningsmaður Ólafs Ragnars til forsetakjörs og til setu í því embætti. En satt að segja er ég að verða oftar og oftar ósammála Ólafi Ragnari og svo er einnig um þennan boðskap hans frá nýársdegi. Þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave var engin sönnun fyrir hve djúpvitur þjóðarsálin er, þær kosningar voru hálfgerður skrípaleikur. Sem frambjóðandi til Stjórnlagaþings lýsti ég mig fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum en um slíkar kosninga yrði að gilda fastar reglur hvernig þær bæri að. Eitt er víst; það er með öllu ófært að einn  maður með athyglissýki geti ákveðið upp á sitt eindæmi að nú skuli þjóðin kjósa. Eitt slíkt slys er í uppsiglingu; þó Alþingi samþykki nýjasta Icesavesamninginn þá mun maðurinn á Bessastöðum kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu, hann hefur nánast lýst því yfir.

Tugir þúsunda einstaklinga virðast tilbúnir til að skrifa undir nánast hvað sem er ef einungis nógu öflugir áróðursmeistarar skipuleggja framtakið. Annarsvegar krafan um að auðlindir á og í landi séu þjóðareign og hinsvegar herleiðing Sunnlendinga til að mótæla afnotagjaldi bifreiðaeigenda af notkun þjóðvega, gjald sem rynni óskert til að endurbæta slysagildrurnar á þjóðvegum út frá höfuðborginni. Ég skal fúslega játa að ég var í upphafi harður andstæðingur þessa afnotagjalds en ég hef alla tíð verið ákaflega lélegur í múgmennsku. Ég skrifa aldrei undir neinar bænaskrár sem eru síðasta arfleifð kóngaveldis á Íslandi. En mér finnst það skylda hvers og eins þjóðfélagsþegns að kryfja hvert mál til mergjar, ekki að verða fórnarlamb múgmennsku eða hjarðmennsku, gera bara eins og allir aðrir gera. það er einmitt verið leiðin til lélegra stjórnarhátta, lýðræðið krefst þess að "hver maður geri skyldi sína" og skoða bakgrunn hvers máls. Þjóðaratkvæði um auðlindirnar er dæmi um frumhlaup sem er algjörlega án nokkurrar hugsunar, enginn veit hvernig á að forma þá spurningu sem ætlast er til að fari í þjóaratkvæði. Sunnlendingar þvinguðu fram á sínum tíma að Suðurlandsvegur á milli Reykjavíkur og Selfoss yrði 2+2 í stað 2+1 þó það þýddi fyrst og fremst óheyrilega sóun á fjármunum. Og nú hafa tugþúsundir Sunnlendinga mótmælt með múgmennsku og undirskriftum því að tekið sé afnotagjald af þeim sem um vegina út frá Reykjavík aka. Enginn vill borga meira fyrir gæði en hann er er nauðbeygður til. Hins vegar er það mín skoðun að við Sunnlendingar eigum aðeins um tvennt að velja:a) að greiða afnotagjaldið næstu árin, að hverfa frá 2+2 á Suðurlandsvegi og leggja 2+1 veg og fá endurbætur á einum hættulegasta þjóðvegi landsins, b) að berjast kröftuglega gegn afnotagjaldinu m. a. með alkunnri múgmennsku og undirskriftum og kveða það niður í eitt skipti fyrir öll og fá mjög takmarkaðar endurbætur á Suðurlandsvegi næsta áratuginn.

Sunnlendingar, þið eigið valið. Er til of mikils mælst að þið notið þær heilasellur sem hver og einn á og skoðið málið í kjölinn.


Ríkisútvarpið brýtur hlutleysisreglur og skiptir sér að starfi dómstóla á freklegan hátt

Mér brá illa í brún þegar haldinn var áróðursfundur í Kastljósi með söng Ellenar Kristjánsdóttur og dætra til að halda fram sakleysi þeirra níu sem voru með ólæti á áhorfendapöllum Alþingis. Burt séð hvaða skoðun menn hafa á framferði níumenninganna þá var þessi umfjöllun i Kastljósi fyrir neðan allar hellur og freklegt brot á hlutleysisreglum Ríkisútvarpsins. En þetta var áréttað í gær í Úrvarpinu þegar fjallað var um sama mál í þætti eftir fjögurfréttir á sama hátt, í bæði skiptin fullyrt að níumenningarnir væru saklausir og hefðu ekkert brotið að sér. Þetta mál er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og það er nánast hneyksli að Ríkisútvarpið leyfi sér að fjalla um dómsmál, skiptir ekki máli hvaða dómsmál það er, og kveða upp sýknudóma og þar dugði ekki minna en umfjöllun bæði í Sjónvarpi og Útvarpi.

Það hefur mikið verið fjallað um þrískiptingu valdsins i okkar þjóðfélagi undanfarið, fjallað um stoðirnar þrjár, löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald og nauðsyn þess að þarna séu skörp skil á milli þessara stoða. Fjölmiðlarnir eru oft nefndir sem fjórða valdið og að sjálfsögðu ber þeim að virða ákveðnar leikreglur, virða verksvið hinna þriggja meginstoða lýðræðisins á Íslandi. Fjölmiðlum ber einnig að virða sjálfstæði dómstóla. Það er dómari sem mun kveða upp dóm í þessu máli á sama hátt og í öðrum málum sem rekin eru fyrir dómstólum. Hvort hinir ákærðu verða sýknaðir eða dæmdir til refsingar veit ég ekki, það mun koma í ljós.

Ég spyr að lokum Pál Magnússon útvarpsstjóra: Er þessi fráleita umfjöllun um dómsmál gerð að hans frumkvæði eða var umfjöllunin gerð án hans vitundar.? Ég ætlast til að hann svari því skilmerkilega.


Engan hefði átt að draga fyrir Landsdóm vegna þess að Landsdómur er algjörleg óhæft og ólöglegt verkfæri til að kalla fram réttlæti

Það var dapurlegt að sitja fyrir framan skjáinn og fylgjast með atkvæðagreiðslunni um hvort ákæra ætti fjóra fyrrverandi ráðherra úr Ríkisstjórn Geirs Haarde, Þingvallastjórninni, sem sat frá miðju ári 2007 fram í byrjun árs 2009. Enginn ber jafn mikla ábyrgð á þeim ömurlega farvegi sem Landsdómsmálið tók og Atli Gíslason formaður þingmannanefndarinnar svokölluðu. Það er að  dapurlegt því sú nefnd skilaði gagnmerku starfi sem algjörlega hefur fallið í skuggann af þessu ömurlega Landsdómsmáli.

Landsdómur er algjörlega úrelt fyrirbrigði sem sett var á laggirnar þegar við fengum heimastjórn í upphafi 20. aldar og einu sinni munu lögin um Landsdóm hafa verið endurskoðuð í staðinn fyrir að afnema þau með öllu. Með landsdómi er verið að rugla saman tveimur af grunstoðum lýðræðis á Íslandi, dómsvaldi og löggjafarvaldi. Ef stjórnmálamenn, hvort sem það eru ráðherrar eða aðrir kjörnir fulltrúar, teljast hafa brotið að sér á dómsvaldið að fjalla um mál þeirra.

Ef við skoðum uppbyggingu Landsdóms þá er það með ólíkindum að önnur eins stofnun, sem kalla má skrímsli, skuli vera til í íslenskri stjórnskipan. Alþingi er komið í  komið inn á svið dómskerfisins sem ákærandi, skipar hluta dómsstólsins og kýs sér saksóknara til að sækja mál á hendur þeim sem Alþingi samþykkir að skuli dregnir fyrir dóminn. Ekki nóg með það, Alþingi skal kjósa fimm alþingismenn  sem aðstoðarsaksóknara. Önnur eins hringavitleysa og lögin um Landsdóm eru tæplega til Í Lagasafni Íslands.

En þetta eru gildandi lög, er ekki eðlilegt að Alþingi fari eftir gildandi lögum? Á Alþingi hvíldi engin skylda um að vinna samkvæmt lögum um Landsdóm. Ég er yfir mig undarandi á að ekki einn einasti af 63 þingmönnum þjóðarinnar skyldi ekki standa upp og lýsa því yfir að lögin um Landsdóm væru svo gölluð að það væri ekki mögulegt að fara að vinna eftir þeim og sá hinn sami tæki ekki þátt í þeim hráskinnaleik sem leikinn var á Alþingi. Ég hef áður bent á hve lögin um Landsdóm brjóta stjórnarskrána hvað varðar hinar þrjár meginstoðir lýðræðisins, framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessi lög eru brot á Stjórnarskrá Íslands, brot á jafnréttisreglunni og þar með mannréttindabrot.

Mér finnst að þessir föstu lögspekingar, sem yfirleitt eru leiddir á skjá og í aðra fjölmiðla, hafi fallið á prófinu. Þeir hafa flestir vottað lögunum um Landsdóm, þessu gamla skrifli sem ætti að vera búð að afskrifa fyrir löngu, virðingu sína með því að votta að allt sé í ljúfasta lagi með þessi lög, pottþétt gegn Stjórnarskrá, jafnréttishugtakinu og mannréttindum.

Nú ætla ég að gera þá kröfu til hæfustu lögspekinga landsins, annarra en þeirra sem hafa látið draga sig í að gefa lögunum um Landsdóm heilbrigðisvottorð, láti duglega heyra í sér og taki hressilega á þessu ógeðfellda máli, á máli þar sem Alþingi féll gjörsamlega á prófinu og vann eftir lögum sem brýtur gegn öllum grundvallarreglum íslensks þjóðfélags.  Það getur tæplega verið hlutskipti pípulagningameistara í Þorlákshöfn að benda á þær augljósu staðreyndir sem raktar hafa verið að framan, hvar eru allir okkar hæfustu lögspekingar, hæfir lögspekingar sem ekki hafa selt sálu sína.


Sigurður Einarsson stundaði skothríð á eigin fætur

Í Fréttablaðinu sl. laugardag var heljarinnar viðtal við Sigurð Einarsson fjármálamann og fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings sáluga. Viðtalið tóku þeir Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri og Stígur Helgason blaðamaður. Að sjálfsögðu þurftu óvandaðir bloggarar að ráðast á þá tvo fyrir að upphefja Sigurð í "Baugsmiðli" sem  er heiti sem Fréttablaðið verður að dragnast með ennþá. Það er engin ásæða til að ráðast á þá Ólaf og Stíg, mér fannst þeir spyrja nokkuð hvasst á köflum eins og tilefni var til. Sigurður Einarsson var einn af alalleikendum í bankahruninu og það er sjálfsögð skylda við almenning að hann svari áleitnum spurningum, en hafa verður í heiðri að enginn er sekur fyrr en hann hefur verið dæmdur sekur.

Viðtalið var hvorki meira ná minna en þrjár síður og tæplega hefur nokkur maður, sem ber hrunið mikla á herðum sér, fengið jafn gullið tækifæri til að rétta sinn hlut, koma fram af tilhlýðilegri auðmýkt, og reyna að fá almenningsálitið sér nokkuð hliðhollara en verið hefur.

En aldrei hefur nokkur maður, sem ber hrunið á herðum sér, klúðrað slíku tækifæri jafn rækilega og Sigurður Einarsson gerði á síðum Fréttablaðsins.

Sigurður Einarsson gerði allt rétt að eigin áliti, hann bar ekki nokkra ábyrgð á því að Kaupþingsbanki valt með braki og brestum. Allt sem þarna gerðist var "öðrum" að kenna. Að sjá setningar hafðar eftir stjórnarformanninum svo sem þessa:

"Hafi stjórnvöld talið að við hefðum átt að minnka, vaxa hægar eða til dæmis færa starfsemina eitthvað annað, þá hefðu þau mátt benda okkur á það. Það var aldrei gert"

Eða þetta:

"Hann nefnir til dæmis að þegar Kaupþing vildi koma sér út úr kaupunum á NIBC- bankanum í Hollandi. Þá hefði honum þótt æskilegt að fá bréf frá íslenska Fjármálaeftirlitinu, sem myndi í raun banna bankanum að ljúka kaupunum"

Rauði þráðurinn í viðtali Fréttablaðsins er sú veruleikafirring sem viðmælandinn Sigurður Einarsson sýnir. Það væri hægt að draga fram margt í svörum hans sem sýnir það, þessar tvær tilvitnanir eru aðeins brot af fráleitum flótta Sigurðar undir mottóin" ekki benda á mig".

Sigurði Einarssyni má líkja við ökumann sem ekur á 200 km hraða og veldur stórslysi. Eftir á er ökumaðurinn  hissa og reiður og spyr "af hverju var lögreglan ekki búin að stoppa mig?


Hverjar eru kröfur slökkviliðsmanna?

Ég er vissulega einn af þeim sem hef verið gáttaður á því að slökkviliðsmenn hafi verið án samnings í heilt ár og hef talið að þarna væri á ferðinni einhver óbilgirni samninganefndar sveitarfélaga, við slökkviliðsmenn hefði átt að vera búið að semja fyrir löngu.

En nú er ég farinn að efast um að þarna valdi einungis óbilgirni samninganefndarinnar og sveitarfélaganna.

Ástæðan er sú að samninganefnd slökkviliðsmanna, eða talsmaður þeirra, hefur alltaf farið undan á flæmingi þegar spurt hefur verið þeirrar sjálfsögðu spurningar:

Hverjar eru kröfur slökkviliðsmana?

Það hefur lítið heyrst frá  samninganefnd sveitarfélaganna fyrr en í gærkvöldi. Þá kom formaður nefndarinnar í viðtal í Sjónvarpsfréttum og fullyrti að kröfur slökkviliðsmann væri upp á tugi prósenta launahækkun. Talsmaður slökkviliðsmanna var spurður um þessar fullyrðingar formannsins.   Þar fullyrti hann að þetta væri fjarri sanni en þá fékk hann að sjálfsögðu þá spurningu sem hann hefur margoft fengið:

Hverjar eru kröfur slökkviliðsmanna?

Hvert var svar hans? Aðeins óljóst tafs um að þær væru innan  skynsamlegra marka en enn á ný standa allir frammi fyrir því að hafa ekki hugmynd um hverjar kröfurnar eru.

Slökkviliðsmenn hafa notið mikils trausts og velvilja en nú er svo komið að við sem greiðum þeim laun eigum heimtingu á því að vita:

Hverjar eru kröfur slökkviliðsmanna?

Óneitanlega fer sá grunur að vakna að þetta ástand sem skapast hefur, samningsleysi í eitt ár og áskollið verkfall, sé ef til vill vegna kröfugerðar slökkviliðsmanna sem engin leið sé til að ganga að.

Slökkviliðsmenn, það hlýtur að vera krafa okkar allra að þið leggið spilin á borðið:

Hverjar eru kröfur slökkviliðsmanna?

 


Svar til Björns Vals Gíslasonar alþingismanns sem hann fékk frá mér á netinu

Heill og sæll Björn Valur
Og þakka þér fyrir að svara mér svo fljótt og með skilmerkilegum hætti.
Ég hef lesið tillögu þína, greinargerðina og það sem þú birtir á heimasíðu þinni.
Eftir að hafa kynnt mér þinn málflutning þá er ég hundrað prósent viss um að ég er ekki að misskilja neitt.
Ég tel það dapurlegt að þingmaður, maður sem situr á hinu háa Alþingi, skuli vera tilbúinn til að mæla því bót að gerð sé innrás á Alþingi, störf Alþingis trufluð og starfsmenn þingsins slasaðir.
Á heimasíðu þinni dregurðu nokkuð í land og viðurkennir að ekki sé hægt að láta uppvöðslulýð slasa starfsmenn Alþingis, minna má það tæplega vera. En þú vilt fría uppvöðsluseggina við húsbroti og öðrum brotum, það finnst mér með ólíkindum.
Ég hef sagt á mínu bloggi að búsáhaldabyltingin átti fullan rétt á sér og er þér sammála um að það var engin furða þó almenningur yrði yfir sig reiður og sár vegna hrunsins sem er auðvitað fyrst og fremst fjármála- og bankaafbrotamönnum að kenna en einnig FME og Seðlabanka en grundvöllinn lögðu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur. Ég ætla hins vegar engan veginn að sýkna minn eigin flokk, Samfylkinguna, þátttaka hennar í Ríkisstjórn Geirs Haarde (lélegasta forsætisráðherra sem Ísland hefur nokkurn tíma haft) var meira en dapurleg. En því miður; við tókum flest þátta í dansinum í kringum gullkálfinn og höfðum trú á tortúlalubbunum sem nú blessunarlega verða að svara til saka.
En eitt er víst. Þegar almenningur rís upp og mótmælir ranglæti stjórnvalda og stofnana með skipulögðum og yfirveguðum hætti þá safnast að alskyns lýður að sem veit ekkert um hvað málið snýst; nú er komið tækifæri til að fá alvöruhasar. Við sáum í Sjónvarpinu hvernig ýmsir lubbar réðust að lögreglunni, oftast grímuklæddir, ég man eftir einum sem reyndi með klaufhamri að brjóta glugga í Stjórnarráðinu, ég man eftir því þegar bullurnar réðust inn á Hótel Borg á gamlársdag. Ég man líka eftir því þegar yfirvegaðir mótmælendur slógu skjaldborg um lögregluna fyrir framan Stjórnarráðið.
Ég leyfi mér að spyrja þig Björn Valur; hefur þú ekki þá yfirsýn að geta greint á milli þeirra sem mótmæltu hruninu, þjófnaðinum mikla sem brann á hverjum og einum og ruslaralýð sem safnast að heiðarlegum mótmælendum sem tala kröftuglega og hafa hátt. Ertu virkilega tilbúinn að slá skjaldborg um hvað vitleysingahóp sem hafði sig í frammi með ofbeldi?
Þú rekur söguna, segir frá gömlum guðlastdómum og berð þetta saman við óeirðirnar við Austurvöll 30. mars 1949. Ég er nú svo miklu eldri en þú og man þess vegna glöggt eftir því sem gerðist 30. mars 1949. Þá réðst ekki nokkur maður inn á Alþingi. Ólafur Thors, Stefán Jóhann Stefánsson og Eysteinn Jónsson létu dreifa flugriti um allan bæ og skoruðu á fólk að koma á Austurvöll og sýna þar með að Alþingi ætti að hafa starfsfrið. Hins vegar var Alþingishúsið fullt að utanaðkomandi "hvítliðum" en Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri hafði kallað Heimdall, félag ungra Sjálfstæðismanna til starfa og þjálfað þá á laun til að berja á fólki. Þegar merki var gefið þustu þeir út og hófu barsmíðar á öllum sem á vegi þeirra varð og lögreglan byrjaði gasárás.
Þú lítilsvirðir allt það fólk sem þarna kom, og sumir hlutu síðar þunga dóma, með því að bera þá einstaklinga saman við bullurnar sem réðust inn á Alþingi með ofbeldi og sitja nú undir ákærum sem þú vilt að Alþingi skipti sér af, ráðist inn á vettvang dómsvaldsins.
Ég er handviss um að þessar bullur, sem þú vilt nú gerast verjandi fyrir með því að Alþingi fari að skipta sér að störfum dómsvaldsins, eiga ekkert skylt við þær þúsundir sem tóku þátt í búsáhaldabyltingunni, þessar bullur vissu ekki nokkurn skapaðan hlut um hvað málið snérist, óreyndir unglingar sem vita ekkert hvað lífsbaráttan er, en voru komnir á vettvang til að fá "verulega skemmtilegan hasar"
Ég ætlast til að þingmenn hafi þann þroska til að skilja sauðina frá höfrunum og viðurkenni ekki hvaða framferði sem er af því það er undir formerkjum heiðarlegra mótmæla. Af því þú minnist á Þórberg Þórðarson í þinni greinargerð þá vil ég vísa til hans líka. Ég var að enda við að lesa  seinni bók Péturs Gunnarssonar um ÞÞ. Þar kemur þessi mannlegi breyskleiki svo greinilega fram að viðurkenna allt svo fremi það sé undir ákveðnum formerkjum. Þórbergur afsakaði allt sem gerðist í Sovétríkjunum, Gúlagið var áróður, réttahöldin miklu fyrir stríð og aftökurnar áttu fullan rétt á sér, innrásirnar í Ungverjaland og Tékkóslóvakíu réttlætanlegar.
Á sama hátt er mörgum farið. Þeir viðurkenna rétt almennings til að mótmæla á kröftuglegan hátt óréttlætinu sem því er sýnt. En eins og Þórbergi er þér og fleirum ómögulegt að greina á milli hvað eru heiðaleg og réttsýn mótmæli, þið viðurkennið allt sem gert er undir merkjum þessarar hreyfingar, búsáhaldabyltingarinnar, og reynið ekki að greina atburðina.
Ég segi á mbl. blogginu að ef þú telur að þessi hópur, sem nú má sæta ákærum saksóknara, eigi skilið að fá að fara fram óáreittir þá ertu að segja að ef Nýnasistar eða Vítisenglar ráðast inn á Alþingi þá munir þú bregða fyrir þá skildi og vernda þá fyrir ásókn dómsvaldsins.
Eiga ekki allir að vera jafnir fyrir lögunum?



Mættu nýnasistar haga sé á sama hátt á þingpöllum og í dómssal?

Lára Hanna Einarsdóttir er einn öflugasti bloggari hér á þessum síðum. Oft æði skörp en nú hefur hún tekið að sér að safna um sig hópi álitsgjafa sem eru henni hjartanlega sammála um "píslarvætti" óeirðaseggjanna sem ruddust inn á svalir á Alþingi, efndu þar til slagsmála og slösuðu starfsmenn þingsins.

Ég læddi þessari athugasemd inn hjá henni en ætla að láta hana koma hér fram í mínu eigin bloggi.

Þið ágætu álitsgjafar að framan. Snúum dæminu við og segjum sem svo að Alþingi hafi verið að fjalla um réttindi þeldökkra aðfluttra borgara með jákvæðum hætti, auka réttindi þeirra. Þá ræðst hópur nýnasista inn á svalir þingsalarins með háreisti og á endanum kemur til átaka milli starfsmanna Alþingis og nýnasistanna sem endar með að því nýnasistarnir slasa starfsmenn.

Væruð þið flest hér að framan tilbúin til að verja framgang nýnasistanna og þá einnig framgöngu þeirra í dómssal þegar mál þeirra yrði tekið fyrir þar?
Það hlýtur að vera, ef þið teljið ofbeldi og yfirgang við Alþingi, dómstóla og lögreglu réttlætanlegt þá hljóta allir að hafa sama rétt til slíkra aðgerða án tillits til skoðana, sama hver málstaðurinn er.


Umsátur um heimili fólks er siðleysi

Ég gagnrýndi Guðlaug Þór og Steinunnu Valdísi í fyrradag fyrir siðleysi og krafðist afsagnar þeirra frá Alþingi og að fleiri ættu að fljóta með.

En í gær gerði gemsinn mér viðvart að ég væri að fé SMS skilaboð. Mér brá þegar ég sá skilaboðin. Þau voru áskorun um að koma að heimili Guðlaugs Þórs kl. 20:00 í gærkvöldi til að gera honum og fjölskyldu hans lífið leitt. Á þeim stað yrði síðan ákveðið hverjir aðrir yrðu heimsóttir sömu erinda.

Ekki veit ég hvaða aumingjar standa fyrir slíkri röskun á friðhelgi umdeildra einstaklinga. En eitt er víst; ef þessir einstaklingar sem að er sótt teljast hafa brotið siðferðislögmál þá eru þeir sem að þeim sækja  engu betri, ég hef andstyggð á þessum ræfilshætti að safnast saman og njóta nafnleyndar, enginn var skrifaður sem sendandi SMS skilaboðanna. Mér finnst full ástæða til að lögreglan komi í veg fyrir svona þjösnaskap. Það væri ekki úr vegi að minnsta kosti að mæta og taka myndir af þessum "hetjum".

Þessar "hetjur" eru, ekki síður en umdeildir einstaklingar sem að er sótt, siðleysingjar.


Það stendur hvergi í lögum að þú megir mála húsið þitt, svo láttu það vera, annars geturðu haft verra af!

Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrrum umhverfisráðherra sló öll met í Sjónvarpsfréttum nýlega þegar hún var spurð að því hvort úrskurður Svandísar Svavarsdóttir, núverandi umhverfisráðherra, um að staðfesta ekki skipulag þeirra sveitarfélaga þar sem fyrirhugaðar virkjanir munu rísa í neðri Þjórsá, stæðust lög, hvort einhver lög kveði á um að sveitarfélög megi ekki afla fjár til að greiða fyrir skipulag síns sveitarfélags nema beint frá hefðbundnum tekjustofnum.

Þórunn viðurkenndi að það væri ekkert sem bannaði sveitarfélögum að afla fjár til að greiða fyrir skipulagsvinnu  hvar sem væri, en það væri heldur hvergi til lög um það að það væri leyft!

Þess vegna stæðist úrskurður Svandísar!!!

Þvílík hundalógik.


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband