Færsluflokkur: Kjaramál
9.11.2009 | 11:06
Mikilvæg ábending frá Guðmundi Ólafssyni hagfræðingi
Viðtalið við Guðmund Ólafsson hagfræðing og háskólakennara í Silfri Egils var með því athyglisverðasta sem þar hefur komið fram lengi. Þar benti Guðmundur skilmerkilega á að það hafa spekingar og hagfæðingar verið iðnir við að mála skrattann á vegginn um erlendar skuldir þjóðarbúsins. Ekki vildi hann nefna nein nöfn "málaranna" en Egill spurði hvort hann ætti við Gunnar Tómasson hagfræðing í NY og Lilju Mósesdóttur þingmann VG. Málið snýst einfaldlega um það að meirihluti erlendra skulda eru skuldir einkaaðila, ekki ríkisins og geta því aldrei fallið á ríkið eða almenning. Einn fjórði skuldanna er skuld eins félags sem raunar er víst eignarhaldsfélag. Ef lántakandi getur ekki borgað skuldina þá er það skaði hinna erlendu lánardrottna sem voru svo skyni skroppnir að lána íslenskum eignarhaldsfélögum peninga.
Þó Guðmundur vildi hvorki nefna nein nöfn um hverjir séu iðnir við að mála myndir af skrattanum þá þykist ég muna að þeir tveir fyrrnefndu hagfræðingar hafi rætt um það opinskátt að framundan væri greiðsluþrot Ríkissjóðs. Því miður eru enn að koma upp mál þar sem stjórnvöld gefa almenningi upplýsingar ekki nógu ítarlega og þeim fylgt eftir af krafti.
Lilja Mósesdóttir er einn af þessum nýju þingmönnum sem telja það vera farsælast til að gera sig gildandi að spila einleik. Lilja hefur lýst því yfir að hún muni ekki styðja lausn ICESAVE málsins sem hangir stöðugt yfir. Ekki veit hún hvort hún muni sitja hjá aða greiða atkvæði á móti. Hefur Lilja Mósesdóttir gert sér grein fyrir hvað tekur við ef Alþingi fellir ICESAVE samninginn? Það var hátt hrópað á Austurvelli síðasta vetur að leiðin út úr ógöngunum eftir fallið væri að setja alla þáverandi þingmenn af og fá nýja einstaklinga inn á þing. Lilja Mósesdóttir er einn af "nýliðunum" og hefur ekki unnið af ábyrgð og oft sett fram sjónarmið eins og Þór Saari sem ber ekki gott vitni um að þau nýti sér é réttan hátt þá menntun sem þau hlutu. Þá er ekki hægt annað en nefna Sigmund Davíð og Vigdísi Hauksdóttur sem nýja upphlaupskandídata og æði ábyrgðarlausa. Höskuldur Þórhallsson fylgir þeim dyggilega eftir þó hann sé ekki nýliði á þingi. Vigdís birti greinarstúf í Morgunblaðinu nýlega þar sem hún kenndi núverandi Ríkisstjórn um ICESAVE skrímslið. Að óreyndu hefði ég ekki trúað Vigdísi til slíks lýðskrums en lengi skal konuna reyna. Hún virðist geta án nokkurrar rumskunnar í eigin samvisku breitt yfir hlut þeirra Halldórs Ásgrímssonar og Valgerðar Sverrisdóttur í einkavæðingu bankanna sem er grundvöllurinn, ásamt fleiri mistökum þá, að hruninu mikla og þar með tilurð ICESAVE skrímslisins.
Valgerður, þú áttir bara að halda þig við blómin og gleymum ekki þorskhausunum hertu, í þessu tvennu ertu vissulega fær.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.10.2009 | 12:01
Ögmundur nýtur víðtæks stuðning hjá stjórnarandstöðunni sem er með allt niður um sig samkvæmt skoðanakönnun "capacent"
Ég hafði lengi vel trú á því að Vinstri grænir væru "stjórntækir", með þeim væri hægt að vinna. Kolbrún Bergþórsdóttir er æði hörð í þeirra garð í pistli sínum í Mbl. í morgun. En satt best að segja verð ég að játa að ég er að mörgu leyti sammála Kolbrúnu. Þau Steingrímur J. og Katrín Jakobsdóttir eru vissulega traustsins verð og meira að segja kom Álfheiður Ingadóttir nokkuð sterk út úr vinnu Fjárlaganefndar í sumar, það kom mér á óvart. En nú stendur Álfheiður frammi fyrir mestu áskorun sem hún hefur fengið, er orðinn Heilbrigðisráðherra.
Svo koma þau sem ekki virðist hægt að vinna með. Ögmundur er þar fremstur í flokki, hann reynir að færa flótta sinn úr ríkisstjórn í hugsjónabúning og höfðar títt til sinnar samvisku. Ég held að forystumaður einna stærstu launþegasamtaka landsins hafi hreinlega misst kjarkinn; að vera skyndilega orðinn niðurskurðarmeistari í viðkvæmasta málflokki stjórnsýslunnar, heilbrigðismálunum. Það er auðvitað svipað og setja mann, sem ekki þolir að sjá blóð, í að skera hausa af lömbum í sláturhúsi. Svo hef ég aldrei skilið neitt af því sem frá Guðfríði Lilju kemur, hún virðist lifa í einhverri útópíu algjörlega ófær um að ræða um og horfa á mál út frá raunsæi. Ekki veit ég á hvaða leið Ari Gíslason er, hann virðist vera fæddur til "að vera á móti". Ungi bóndinn úr dölunum Ásmundur Daði er holdgervingur gamla bændaafturhaldsins og hefði plumað sig vel sem framsóknarmaður um miðja síðustu öld.
Á þessari stundu er ég ekki bjartsýnn á framtíð núverandi Ríkisstjórnar, en ef hún splundrast innan frá hvað tekur þá við?
Um það ætti hið svokallaða "samvisku- og hugsjónafólk" Vinstri grænna að leiða hugann að um leið og það horfir, að eigin áliti, á engilhreinar ásjónur sínar í speglinum á hverjum morgni.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.7.2009 | 10:19
Spellvirkjunum hossað á kostnað björgunarsveitarinnar
Sá Fréttablaðið í morgun, þökk sé nágranna mínum Ragnari. Í sjálfu sér væri mér nokkuð sama þó ég sæi ekki það blað en þegar það er komið inn um lúguna les maður það auðvitað.
Þar segir í frétt að stuðningur við Ríkisstjórnina sé kominn niður í 43%, að fylgi við Sjálfstæðisflokkinn aukist, að fylgi Vinstri Græna fari dvínandi en aðrir flokkar haldi sjó. Þetta er mjög merkileg frétt og sýnir og sannar að minni háttvirtra þjóðfélagsþegna nær ákaflega skammt.
Æði margir virðast ýmist vera búnir að gleyma því, eða einfaldlega hafa aldrei gert sér grein fyrir því, að það var Sjálfstæðisflokkurinn sem ber höfuðábyrgð á hruninu mikla haustið 2008 enda búinn að vera í ríkisstjórn samfellt í 18 ár.
Vissulega naut Sjálfstæðisflokkurinn dyggilegs stuðnings Framsóknarflokksins við að teppaleggja brautina fyrir fjárglæframennina sem því miður hafa fengið það allt of virðulega heiti "útrásarvíkingar". Þeir tveir menn sem þeim óhappaverkum stýrðu voru Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Halldór var síðan gerður skaðlaus og sendur úr landi en Davíð Oddsson aldeilis ekki. Honum var lyft til æðstu valda í Seðlabanka Íslands til að gæta hagsmuna þjóðarinnar ásamt Heimdellingi nokkrum Jónasi Fr. sem stýrði Fjármálaeftirlitinu.
Og allir vita hvernig fór!
Ríkisstjórnin núverandi vinnum hörðum höndum við að bjarga landi og þjóð út úr ógöngum þeim sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur komu okkur við. Það er ekki auðvelt verk. Ég get hins vegar ekki séð neina tvo aðra einstaklinga til að leiða það verk en þau Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon. Auðvitað verða þau að grípa til margra óvinsælla ráðstafana. Við mig persónulega kemur það sér mjög illa að hámark tekjutengingar eldri borgara var lækkað úr 1.300.00 í 480.000. En samt sem áður styð ég þessa ríkisstjórn, hvað annað eigum við að gera?
Eigum við að leiða spellvirkjaflokkinn Sjálfstæðisflokk aftur til valda og áhrifa í íslensku þjóðfélagi?
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.6.2009 | 23:07
Samfylkingarmaður telur að skoða eigi tillögu Sjálfstæðismanna rækilega
Horfði á Kastljós í kvöld þar sem þeir Tryggvi Þór Herbertsson alþingismaður og Þórarinn V. Þórarinsson lögmaður tókust á um tillögu Sjálfstæðismanna um að skattleggja greiðslur í lífeyrissjóði um leið og greiðslur eiga sér stað en ekki um leið og lífeyrisgreiðslur eru greiddar út sem lífeyrir. Það var athyglisvert að þarna tókust á tveir Sjálfstæðismenn en voru þó algjörlega ósammál. Líklega er Tryggvi Þór aðal hugmyndasmiðurinn að þessari skattalegu breytingu sem myndi, eftir því sem Sjálfstæðismenn segja, gefa Ríkissjóði miklar tekjur strax og ekki veitir af, nú er leitað í hverri smugu eftir fjármunum til að fylla upp í þann rosalega fjárlagahalla sem verður viðvarandi næstu árin.
Það er skemmst frá því að segja að ég fékk þó nokkurn áhuga á þessari hugmynd Sjálfstæðismanna. Þórarinn gerði sig sekan um rökleysu þegar hann hélt því fram a þetta myndi svipta ríkið skatttekjum síðar meir en þann málflutning skil ég ekki. Almenningur mun halda áfram að greiða í lífeyrissjóði um ókomin ár og þar með mun alltaf myndast skattstofn. Það má líkja þessari breytingu við það þegar við tókum upp staðgreiðslu skatta sem ekki nokkur maður í dag efast um að var mikið heillaspor. Þar var breytt um innheimtu skatta. Fyrir breytinguna var skattur greiddur að tekjum síðasta árs (skattur greiddur að lífeyrisgreiðslum við útborgun) en eftir að staðgreiðslan var tekin upp var skattur greiddur af tekjunum um leið og þær mynduðust (skattur greiddur af lífeyrisgreiðslum við innborgun í lífeyrissjóði).
Eflaust er það rétt hjá Tryggva Þór að á þessari hugmynd eru magrir agnúar en eins og hann sagði það á að finna leiðir til að sníða þá af og einnig að það er lítil framsýni að skjóta hugmynd í kaf um leið og einhver agnnúi sést. Þórarinn sagði reyndar að ef skattur yrði tekinn af lífeyrisgreiðslum strax í upphafi væri stofninn sem ber vaxtatekjur minni framvegis og það er eflaust rétt.
En væri ekki hægt að mæta því að nokkru með því að "skera ofan af kökunni". Rekstur lífeyrissjóða er óheyrilega fjármagnsfrekur og er ekki hægt að hagræða með því að fækka lífeyrissjóðum. Hvað eru margir lífeyrissjóðir reknir hjá þessari 320.000 manna þjóð?
Ég skora á þau Jóhönnu forsætisráðherra og Steinrím fjármálaráðherra að skoða þessa tillögu Sjálfstæðismanna vandlega.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.4.2009 | 10:19
Hnitmiðuð og vel skrifuð grein eftir Grím Atlason
Stundum rekst maður á vel skrifaðar og hnitmiðaðar greinar í prentmiðlum, þessi grein Gríms Atlasonar er ein af þeim en hún birtist í Fréttablaðinu í dag. Fréttablaðið sé ég nú einungis á netinu, við hér í Þorlákshöfn fáum nokkur eintök send sem eru horfin fyrir kl 9:00 á morgnana. Þar sem ég tel að þessi ágæta grein Gríms eigi mikið erindi til allra daginn fyrir kjördag og Fréttablaðið virðist á fallandi fæti gerist ég svo djarfur að taka hana traustataki og birta á mínu bloggi. Ef ég man rétt var Grímur bæjarstjóri í Bolungarvík en er nú sveitarstjóri í Dalabyggð (Búðardal) og eins og sést neðst á framboðslista VG. Þessi grein fyllir mig Samfylkingamanninn bjartsýni á að núverandi stjórnarflokkar haldi áfram samstarfi í næstu ríkisstjórn, þá meirihlutastjórn, og sú stjórn sæki þegar um inngöngu í Evrópusambandið. Það er ekki sama og innganga, þá lyftist lokið og við sjáum svart á hvítu hverra kosta við eigum völ. Síðan er það þjóðarinnar að taka afstöðu til þess sem býðst.
Grímur Atlason skrifar um Evrópumál
Við verðum að skipta um gjaldmiðil - það er staðreynd. Kerfið, sem kallað var íslenska efnahagsundrið, bjó hér til loftbóluhagkerfi sem sprakk í andlitið á okkur með hrikalegum afleiðingum. Vaxtamunur og ónýtur gjaldmiðill hafa síðan gert það að verkum að við erum í algjörri pattstöðu. Nú er svo komið að þessi fyrirtæki eru flest farin að pakka niður og ætla sér annað. Við verðum að bregðast við.
Verkefni stjórnvalda eftir þessar kosningar eru eftirfarandi:
1. Setja sér samningsmarkmið og sækja um aðild að Evrópusambandinu og lýsa yfir eindregnum vilja okkar til þess að leggja af krónuna sem gjaldmiðil og taka upp evru.
2. Þjóðnýta kvótann og tryggja þannig að auðlindin haldist hjá þjóðinni og að byggðir landsins geti blómstrað á ný.
3. Ofangreindar aðgerðir ásamt samningum við lánardrottna okkar og jöklabréfaeigendur gerir það að verkum að hægt verður að lækka vexti fljótt og örugglega og verðbólga lækkar í kjölfarið.
4. Menntun menning og aftur menntun og menning eru lykilhugtök uppbyggingarinnar.
5. Styrkja sveitarstjórnarstigið þannig að nærsamfélagið verði starfhæft - en það er lykillinn að uppbyggingu.
6. Veðja á margt smátt í stað þess að veðja á eina patent lausn: Álver og bankar eru ágæt með en bara álver og bara bankar er fullreyndur stígur.
7. Fæðuöryggi þjóðarinnar verður best tryggt með því að hlúa að og styrkja íslenska matvælaframleiðslu - það fer ágætlega saman við inngöngu í Evrópusambandið.
Það er klárt mál að samningsmarkmið okkar eiga að vera skýr þegar kemur að samningum við ESB. Sérstaða íslensks landbúnaðar og sjávarútvegs liggur fyrir. Við erum eyþjóð og það er klárt að óheftur innflutningur t.d. á hráu kjöti gengur ekki upp. Það er líka rétt að 90% af pakkanum liggur ljós fyrir. En það er ekki eins og það sé slæmt.
Það er ekki stefna ESB að ofveiða fisk. Reglur ESB stuðla að hlutfallslegum stöðugleika og tryggja að íslenskur sjávarútvegur nýtur nálægðarinnar við miðin og hefðarréttar á stofnum sem ekki eru deilistofnar. Innan ESB verðum við ein af þremur stærstu fiskveiðiþjóðum sambandsins og í sterkri stöðu til að hafa mikil áhrif á mótun nýrrar fiskveiðistefnu. Þessu verður að halda til haga fyrir grátkórnum.
Stöðu sveitarfélaga á Íslandi, ekki síst þeirra sem eru á landsbyggðinni, er betur borgið innan Evrópusambandsins. Mýmargar áætlanir sem miða að uppbyggingu á harðbýlum svæðum og köldum hagkerfum innan einstakra landa eru í gangi. Þessar áætlanir hafa skilað umtalsverðum árangri m.a. í Portúgal, Spáni, Svíþjóð, Finnlandi, Slóveníu og Póllandi. Hverfum frá haftastefnunni, hún er vond og mun ekki byggja upp blómlega byggð á Íslandi. Losum bændur, sjómenn og aðra undan klöfum ofurvaxta og einhæfni.
Tökum þátt í samfélagi þjóða og öxlum okkar ábyrgð. Höfum trú á okkur sjálfum og því sem við getum gert fyrir Evrópu. Spyrjum ekki bara; hvað getur Evrópusambandið gert fyrir okkur? Spyrjum líka: Hvað getum við gert fyrir Evrópu? Okkur mun farnast vel sem fullgildum þátttakanda í samfélagi Evrópuríkja. Þess vegna er ég sammála því að gengið verði til aðildarviðræðna við Evrópusambandið strax að loknum kosningum. Ef þú ert sammála skráðu þig þá á www.sammala.is.
Höfundur er í 6. sæti á lista VG í Norðausturkjördæmi.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2009 | 12:36
Er Sjálfstæðisflokkurinn búinn að missa glóruna?
Sjálfstæðisflokkurinn hefur í áratugi verið stærsti flokkur þjóðarinnar og átt þó nokkra frambærilega foringja fyrr á áru. Oftast hafa þeir kunnað að haga sínum málflutningi þannig að fólk hefur kosið flokkinn en ég hef á langri ævi ekki orðið vitni að jafn glórulaust vitlausri kosningabaráttu og hjá Sjálfstæðisflokknum nú (ég er ekki að harma það, ég vona dagar þessa flokks séu taldir, það er kominn tími til eftir að hann með tilstyrk Framsóknarflokksins hefur nær sett Ísland á höfuðið).
Fokksþing þeirra lét sægreifana beygja sig frá því að taka skynsamlega stefnu í Evrópumálum og þar komu reyndar skammsýnir bændur einnig að málum. Síðan hrekjast flokkur og frambjóðendur upp að vegg hvað eftir annað, þannig var efsti maður (kona) í Suðurkjördæmi í bullandi vörn á framboðsfundi RÚV á Selfossi. En hún hefur þó "góðan" bakstuðning þó ekki sæist hann á fundinum. Í 2. sæti listans er Árni Johnsen, manni dettur jafnvel í hug Kári og Björn í Mörk nema hvað vopnfimi Kára virðist horfin út í buskann.
En hinn nýi formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, hefur nú fundið upp lausnina í peningamálum þjóðarinnar; að taka upp evru og láta Alþjóða gjaldeyrissjóðinn koma því í kring. Nú vita allir sem vilja vita að einhliða upptaka annarrar myntar en ísl. krónunnar er óframkvæmanleg og stendur ekki til boða. En þetta sýnir tvennt;
1. Sjálfstæðisflokkurinn er loksins búinn að viðurkenna það að ísl. krónan er handónýt og leiðir Ísland og ísl. þjóðina inn í fátæktargildru um ókomin ár.
2. Sjálfstæðisflokkurinn grípur nú til óraunhæfra örþrifaráða í kosningabaráttunni vitandi það að þeir hafa málað sig út í horn með skelfilegri ráðsmennski sl. 18 ár og niðurstöðum á landsfundi sínum sem voru ruglingskenndar og stefnulausar, allt hefur þetta það í för með sér að frambjóðendur flokksins sitja ráðvilltir fyrir svörum hvar sem þeir koma fram í fjölmiðlum.
3. Og svo bítur formaður Sjálfstæðisflokksins höfuðið af skömminni með því að ráðast dólgslega að hátt settum mönnum hjá Evrópusambandinu með því að segja þeim að skipta sér ekki af því sem hann segir þegar þeir benda kurteislega á að einhliða upptak evru komi ekki til greina og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafi ekkert um það að segja frekar en nefndur Bjarni Benediktsson..
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar