Færsluflokkur: Kjaramál
9.6.2010 | 09:31
Veggjöld eða ekki veggjöld?
Eru veggjöld ætíð af hinu illa? Svo mætti ætla ef tekið er mið af vanstilltum bloggurum eða samskonar greinarhöfundum í öðrum fjölmiðlum. Það virðist vera nokkuð sama hvaða róttækar tilögur koma fram; þá hefst mikið ramakvein hjá þeim sem alltaf eru fúlir á móti. Þar má benda á hugmyndir Árna Páls Árnasonar félagsmálaráðherra um að frysta laun opinberra stafsmanna næstu þrjú árin. Líklega er engin leið betri til að tryggja opinberum stafsmönnum störf áfram, en opinberir starfsmönnum fjölgaði gífurlega í bólutíðinni og er víst að fjölga ennþá. Tillögur Jóns Steinssonar um að hafa eina virðisaukaskattsprósentu á alla selda vöru og þjónustu fékk sömu móttökur hjá öskuröpunum, bakgrunnurinn ekkert skoðaður. Það er sérstakt að þeir sem hæst hafa látið og öskra stöðugt um að Ríkisstjórnin geri ekki neitt og heimta aðgerðir, umhverfast algjörlega ef fram koma róttækar tillögur sem vert er að skoða.
Ég hef hér að framan nefnt þrjár róttækar tillögur sem berja á niður strax í fæðingu án nokkurrar skoðunar. Það sem ég nefndi fyrst eru vegtollar, aðferð sem gæti hleypt miklu lífi í opinberar framkvæmdir, fjármögnun þeirra og mundi draga talsvert úr viðvarandi atvinnuleysi. Við skulum ekki gleyma því að slíkar framkvæmdir hafa mikil jákvæð áhrif, vegaframkvæmdir sem byggjast á að kostnaður verði endurgreiddur með vegatollum mun örva atvinnulífið umtalsvert vegna afleiddra starfa einnig.
Kristján Möller samgönguráðherra lýsti því nýlega í viðtali að það er hægt að innheimta vegagjöld rafrænt það er óþarfi að menn sitji í búrum og heimti peninga af öllum sem framhjá búrunum fara. Þannig mundu vega tollar á engan hátt hamla umferð, en þær framkvæmdir sem kalla á vegtolla skapa betri umferðaræðar, gera umferðina öruggari og draga úr umferðarslysum, greiða götu allra sem um vegina fara.
Ég minnist þess að hafa komið til höfuðborgar eins vestræns ríkis fyrir nokkrum árum þar sem til var mikið net þar sem vegatollar voru innheimtir. Þannig hafði þessi borg getað lagt mikið af jarðgöngum sem gjörsamlega endurnýjaði umferðarnetið. Þetta var í höfuðborg ríkasta lands heims, Noregs, þetta var í Oslo. Meira að segja ríkasta land í heimi notaði vegatolla til að standa undir vega- og gangagerð.
Ég hef hér að framan nefnt þrjár athyglisverðar tillögur, róttækar tillögur; a) veggjöld sem leggur grundvöll að umtalsverðum vegaframkvæmdum b) tillögur Árna Páls Árnasonar um að frysta laun opinberra starfsmann í 3 ár, sem mun ekki síst koma opinberum starfsmönnum til góða c) hugmynd Jóns Steinssonar um eina % virðisaukaskatts, sem mun einfalda alla slíka skattheimtu og ekki síst; tryggja að ábatinn af skattheimtunni skili sér til ríkisins og okkar allra, flestum ætti að vera í fersku minni að þegar % á matvæli var lækkuð hvarf ábatinn að mestu í fjárhirslur verslunar og þjónustu.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.4.2010 | 11:27
Smákóngaárátta er undirrótin að baráttunni gegn Iðnaðarmálagjaldinu
Maður er nefndur Vörður og er húsasmíðameistari. Hann hafði sigur gegn Iðnaðarmálagjaldinu fyrir Mannréttindadómstólnum í Strassborg. Ætla mætti að þar færi maður mikilla hugsjóna en sagan er reyndar allt önnur. Samtök iðnaðarins, sem hafa tekið við þessu gjaldi og ráðstafað því til góðra verka, eru samtök flestra þeirra sem reka iðnfyrirtæki þar á meðal flestra meistarafélaga í iðnaði, flestra félaga í byggingariðnaði. Gjaldinu hefur verið varið til uppbyggingar menntunar í iðnaði. Ég er hér fyrir framan mig 6 binda flokk kennslubóka fyrir pípulagnanema sem sækja sína bóklegu menntun í Fjölbrautar- og iðnskóla. Þetta er flokkur kennslubóka, sem ég hafði forgöngu um að var saminn og gefinn út á þeim árum sem ég var starfandi með Samtökum iðnaðarins. Þessi bókaflokkur var að mestu kostaður af þeim fjármunum sem fékkst með Iðnaðarmálagjaldinu, auk þessa fjölmörg önnur framfaramál iðnaðarins í landinu.
En það eru til smákóngar sem ekki vilja styðja heildina og þar eru fremstir forystumenn Meistarafélags húsasmiða, Meistarafélags dúklagningamann og Félag pípulagningameistara. Þeir vilja ekki skipa sér í megin afl sem Samtök iðnaðarins enda augljóst að þar kæmust þeir ekki til fremstu mannaforráða vegna eigin verðleika, þess vegna er betra að hokra í kotinu heldur en eiga heimilisfesti á höfuðbólinu.
En þessir hokrarar sáu ofsjónum yfir Iðnaðarmálagjaldinu sem þeir eins og aðrir iðnrekendur þurftu að borga. Þeir hófu baráttu, ekki að leggja gjaldið niður heldur að þeir fengju hluta af kökunni. Sú barátta stóð lengi en löggjafinn taldi að gjaldið kæmi flestum að bestum notum ef einn, í þessu tilfelli Samtök iðnaðarins, sæju um vörslu þess og ráðstöfun.
Þá gáfust kotbændur upp en hófu nýja baráttu. Fyrst þeir fengju ekkert í sinn vasa skyldi enginn fá neitt. Þannig var stefnunni kúvent og nú hófst mikill málarekstur fyrir Héraðsdómi fyrst og síðan Hæstarétti. Á báðum dómstigum töpuðu kotbændur. Þá var stefnt fyrir Mannréttindadómstólinn þar sem þeir höfði sigur. Ekki að skatturinn væri ólöglegur heldur að eitt hagsmunafélag, Samtök iðnaðarins, fengi hann til umráða og ráðstafaði honum. Ef þessum skatti sem var ráðstafað til eflingar iðnaði í landinu, fyrst og fremst til menntunar og í önnur mikilvæg málefni iðnaðar, og það hefði verið óháður aðili sem hefði stýrt því hefði gjaldið ekki verið dæmt stangast á við mannréttindi.
Það er skaði fyrir allan iðnað á Íslandi að þessi skattstofn og tekjustofn fyrir menntun og þróun iðnaðar skuli þar með verða afnuminn. Mér finnst rétt að sagan komi fram eins og hún er rétt, þeir sem þarna unnu að málum eru ekki réttlætismenn sem höfðu sigur heldur litlir kallar sem af öfundsýki og lítilmennsku börðust fyrir því að skaða íslenskan iðnað og höfðu sigur, því miður.
En það eru fjölmörg önnur samtök á Íslandi sem eru í sömu stöðu og má þar nefna Bændasamtökin og Félag smábátaeigenda. Þess vegna er ég undrandi á því sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir (sé það rétt eftir haft) að þó Iðnaðarmálagjaldið verði afnumið verði ekki hreyft við annarri skattheimtu á ýmsar atvinnugreinar þar sem skattheimtan rennur til hagsmunasamtaka.
Nú er um tvennt að velja fyrir stjórnvöld:
1. Afnema iðnaðarmálagjaldið og öll önnur hliðstæð gjöld sem í gildi eru hérlendis.
2. Láta öll þessi gjöld standa en færa þau til óháðra aðila sem ráðstafi þeim til eflingar viðkomandi atvinnugrein. Óháðu aðilarnir gætu einfaldlega verið stjórnir sjóða sem myndast af gjaldinu, þessar stjórnir gætu verið skipaðar af ráðherra þó með tilnefningum að hluta frá helstu hagsmunaaðilum. Þetta yrði ekki ólíkt og stjórnir lífeyrissjóða sem vissulega eru ekki góðar fyrirmyndir.
Eitt er víst; við getum ekki hundsað dóm Mannréttindadómstólsins. En við getum samt með breytingum látið þessa gjaldtöku standa. Það er þörf fyrir hana og þetta gjald hefur á undanförnum árum staðið undir kostnaði við mörg framfaramál iðnaðarins. En það eru samtök hér á landi sem beinlínis líta á þetta gjald sem félagsgjald sinna samtaka og það getur ekki staðist. Ég fullyrði að svo er ekki raunin með Iðnaðarmálagjaldið en íslenskur iðnaður má ekki missa þann slagkraft góðra verka sem þetta gjald stendur undir.
Ég vona að "kotbændurnir" hjá húsasmíðameisturum, dúkagningameisturum og pípulagningameisturum verðir ekki hafnir til skýjanna með geislabaug réttlætis um höfuðið. Þeirra gjörð var í upphafi að skara eld að sinni köku en þegar það tókst ekki var kúvent; fyrst þeir fengju ekkert skyldi enginn fá neitt.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.3.2010 | 09:28
Batnandi manni er best að lifa
Framsóknarmenn hafa sett fram nýja stefnu, ekki hef ég fengið plaggið til yfirlestrar en inntakið er "samvinna" og einhverntíma hefði það ekki þótt saga til næsta bæjar að það væri höfuðinntak í stefnu Framsóknarflokksins. Ég ætla nú ekki að vera svo sjálfhverfur að halda því fram að Sigmundur Davíð hafi lesið pistilinn minn hérna á blogginu sem bar þá þungu fyrirsögn "Sigmundur Davíð rassskelltur í skoðanakönnun" ef ég man rétt. Ég benti Sigmundi Davíð á það að hann hefði haft gullið tækifæri til að hefja sig og Framsóknarflokkinn upp úr skotgröfunum og starfa og tala af víðsýn,i en það hefur þessi maður aldeilis ekki gert, en sé svo að pistillinn minn hafi haft þessi áhrif á hann til betri manns þá er það vel
Ég við benda Sigmundi Davíð og öllum sem áhrif hafa í stjórnkerfinu á grein Magnúsar Orra Schram í Fréttablaðinu í dag. Málefni dagsins í dag er einmitt það sem hann bendir á; við verðum að komast að samkomulagi við Breta og Hollendinga um ICESAVE og það strax. Ætlum við að halda áfram að berja höfðinu við steininn og halda í einhveri óskhyggju að við komumst að betri kjörum en okkur stóðu til boða efir áramótin? Ætlum við að halda áfram að berja höfðinu við steininn og bíða í algjörri óvissu eftir kosningum í báðum löndunum sem eru okkar viðsemjendur?
Það sem við eigum að gera núna er að ná sambandi að nýju við Breta og Hollendinga á æðsta stjórnstigi (ráðherrastigi) og segja eignfaldlega "við göngum að ykkar tilboði sem þið settuð fram eftir áramótin og undirritum samkomulag um áframhaldið", þannig sleppum við eins vel og hægt er úr því sem komið er. Það hefur alltaf verið kristalstært að ICESAVE skuldina yrðum við að greiða á einhvern hátt.
Öll bið á lausn málsins er okkur miklu, miklu dýrari en að semja á grundvelli síðasta tilboðs Breta og Hollendinga. Ég tel það fullvíst þrátt fyrir stjórnmálaástandið í þessum löndum (starfsstjórn og kosningar framundan) að sitjandi stjórnir geta sem best gengið frá málinu eins og þær lögðu það upp eftir áramótin.
Ég hef ásakað Sigmund Davíð fyrir að hafa verið sá sem kom í veg fyrir samninga. Ég er ekki í nokkrum vafa að ég hef rétt fyrir mér. En nú hefur Sigmundur Davíð það gullna tækifæri að rísa upp fyrir argaþrasið, koma upp úr skotgröfunum og starfa af víðsýni út frá þjóðarheill, en ekki lágkúrulegum atkvæðaveiðum.
Hann ætti að sjá það manna best að þau veiðarfæri sem hann hefur notað hafa ekki fangað eina einustu bröndu.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.3.2010 | 09:58
Gefum Vilmundi og Vilhjálmi fleiri selbita
Mér finnst dapurlegt að Vilmundur Jósefsson, sem ég þekki að góðu einu sem fyrrum formann Samtaka iðnaðarins, skuli láta hafa sig í það skítverk að spenna sig fyrir sérhagsmunavagn Landsambands íslenskra útvegsmanna. Ekki þekki ég svokallað "skötuselsfrumvarp" niður í kjölinn enda skiptir það ekki öllu þegar rætt er um þetta einstaka upphlaup Samtaka atvinnulífsins út af frumvarpinu. Það er rétt að benda öllum almenningi á hvað það er sem gerir forystu SA svo froðufellandi. Það er fyrst og fremst það að þar hefur forysta atvinnurekenda gerst málpípa útgerðarauðvaldsins sem með kjafti og klóm ætlar að koma í veg fyrir að nokkrar endurbætur verði gerðar á kvótakerfinu. Ef menn vilja lesa frekar um mínar skoðanir á því máli bendi ég á pistilinn hér á blogginu "Landkrabbi svarar útgerðarmanni" sem var svar mitt við ruglingslegri grein eftir útgerðarmanninn Ármann Einarsson í Þorlákshöfn. Mér er sagt að nú sitji útgerðarmenn í Þorlákshöfn með sveittan skallann við að bræða saman svar við þessari grein minni, líklega birtist hún í næsta tbl. "Bæjarlífs", ekki ólíklegt að þar fari lítið fyrir rökum og raunsæi.
Og nú er iðnrekandinn Vilmundur Jósefsson orðinn dráttarklár útgerðarmanna. Andstaða útgerðarmanna við þetta lítilfjörlega skötuselsfrumvarp er ekki það að kvóti á skötusel sé aukinn heldur það ákvæði að ráðherra geti veitt auknar veiðiheimildir og þá kemur rúsínan í pylsuendanum:
Það á að taka gjald fyrir þær heimildir og allir sem skötusel geta veitt fá möguleika á að fá úthlutun. Það sem LÍÚ þolir ekki er að það skuli hróflað við forréttindum þeirra, það hefði ekki heyrst hósti né stuna frá þeim ef þessar auknu veiðiheimildir hefðu runnið til þeirra sem þegar hafa kvóta á skötusel og auðvitað; án nokkurs endurgjalds.
Ef þetta skötuselsmál opnar ekki augu landsmanna fyrir hvað snák við ölum við brjóstið þar sem LÍÚ er þá er ég illa svikinn.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.3.2010 | 16:54
Froðufellandi Sigmar gegn Árna Páli félagsmálaráðherra
Það var mjög eftirminnilegt viðtalið sem Sigmar í Kastljósi átti við Árna Pál félagsmálaráðherra um leiðréttingar á gengistryggðum bílalánum. Það hefur lengi verið gagnrýnt, og það með réttu að nokkru leyti, að meira sé gengið að og meiri ábyrgð sett á skuldara en lánveitendur, og það er talsvert til í því. Nú hefur Árni Páll skorið upp herör gegn þeim sem lánuðu villt og galið fé til bílakaupa og ég hef verið einn af þeim sem hefur fundist að það hafi verið krafan að öllum skuli bjargað hve óskynsamlega sem menn höguðu sér í lántökum fyrir hrunið og fjölmiðlar hafa tekið undir það að meiri ábyrgð ætti að leggja á lánveitendur. Það er einmitt það sem Árni Páll stefnir að með aðgerðum sínum að krefja lánveitendur um lækkun höfuðstóls bílalána jafnveð ganga svo langt að þessir einu og sönnu sem lánuðu til bílakaupa emja og veina og segjast sjá fram á gjaldþrot.
En í gærkvöldi gerðist nokkuð athyglisvert í Kastljósi. Það mátti segja að Sigmar fréttamaður missti algjörlega stjórn á sér og segja má að Árni Páll hafi tæpast fengið frið til að ljúka nokkurri setningu. Sigmar varð þarna næstum því sér til skammar. Þeir lántakendur eru til vissulega sem höguðu sér eins og þeir ættu heiminn og slógu endalaust lán, margir hefðu farið á hausinn þó ekkert hrun hefði orðið. En ég held að fréttamann verði að halda sér ámottunni og koma fram af kurteisi en ekki froðufellandi bræði eins og Sigmar gerði í gærkvöldi.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.2.2010 | 17:06
Megi skömm Bæjarstjórnar Kópavogs verða uppi meðan land byggist
Ráðandi öfl í bæjarmálum Kópavogs skortir ekki samherjana til vondra verka. Þeir fundu heldur en ekki matarholu sem gæti stórbætt fjárhag þessa stærsta sveitarfélags utan höfuðborgarinnar, Kópavogs, sem að sjálfsögðu þarf á því að halda eftir mörg ár óstjórnlegrar útþenslubólu sem að fór eftir línu flokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarfloks.
Það sem á að bjarga fjárhag þessa fjölmenna sveitarfélags er að svipta eldri borgara ókeypis aðgangi að sundstöðum Kópavogs!!!
En þetta vaki svo sem ekki svo mikla furðu hjá mér, þessi sveitastjórnarmeirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks virðist höfuðlaus her eftir að Gunnar Birgisson varð að fara í óumbeði frí til að sinna uppeldisma uppeldismálum heima fyrir. Þannig fer oft þegar undirsátar eiga að fara að stjórna þar sem einræðisherra hefur ríkt en verður svo skyndilega óvígur
En meirihlutinn höfuðlausi var ekki einn í ráðum um að ræna þessari litlu sporslu frá þeim öldruðu. Þeir sem hafa hreykt sér af umhyggju fyrir þeim minnimáttar, fulltrúar félagshyggjuflokkanna þau Guðríður frá Samfylkingunni og Ólafur frá Vinstri grænum voru hjartanlega sammála meirihlutanum, engin ástæða að vera að púkka undir þetta gamla drasl, þeir gætu annaðhvort borgað eins og aðrir eða þá bara setið heima og farið í sitt eigið baðker.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þeir sem velta sér upp úr því að vera réttsýnni og umhyggjusamari en aðrir gleyma því æði oft þegar kemur að málefnum aldraðra. Aftur og aftur kemur þetta berlega í ljós þegar aldraðir eiga í hlut
Má ég koma með annað dæmi: Mig minnir að það hafi verið í tíð Þtngvallstjórnarinnar þar sem núverandi forsætisráðherra var félagsmálaráðherra, sá sami ráðherra kom með þau gleðilegu fyrirmæli að frítekjumark aldraðra hækkað ríflega, færu upp 1.300.200 kr. Þetta þýddi að aldraður lífeyrisþegi, sá sem hafði náð 67 ára aldri, mátti hafa árlegar tekjur upp að þessu marki án þess að lífeyrir skertist. Persónulega fannst mér að þarna væri ég að ganga í endurnýjun lífdaganna. Ég er svo drýldinn að halda því fram að ég búi yfir talsverðri þekkingu í mínu fagi, pípulögnum, og hef leyft mér a titla mig orkurágjafa. Þarna kemur til löng ævi þar sem sífellt hefur safnast í þekkingarsarpinn, en ekki síður að nú er svo komið að þekking á eldri hitakerfum af sérstakri gerð er að mestu glötuð, helst að hún væri finnanleg í gömlum kolli eins og mínum.
En Adam var ekki lengi í Pardís!
Ekki man ég hvort flokkssystkini mitt það var sem sá að þannig ætti alls ekki að mylja undir gamlingja sem ættu að sitja heima og bíða þess að hrökkva upp af. Eitt er víst að annaðhvort var það Ásta Ragnheiður eða Árni Páll sem að sjálfsögðu settu undir lekann og lækkuðu frítekjumarkið niður í 480.000 kr. á ári.
Nú er ég ekki í nokkrum vafa um að þetta gera hæstvirtir ráðamenn í þeim göfuga tilgangi að auka tekjur hins opinbera, sveitarfélags og ríkis. Kópavogur áætlar að afnám bruðlsins til gamlingjanna gefi 7 millj. í aðra hönd, ekki veit ég hvað Árni Páll reiknar sér í tekjur af lækkun frítekjumarksins, en eflaust á það að skila umtalsverðum tekjum.
En sem aldaður borgari í þessu landi langar mið að segja þetta við ykkur Árni Páll, Guðríður og Ólafur. Þessar gjörði lýsa í fyrsta lagi heimsku og í öðru lagi botnlausu skilningsleysi á því hvað er að vera aldraður. Þið munuð ekki uppskera mikinn fjarhagslegan ábata af þessum gjörðum ykkar. Það er næsta fullvíst að margir aldraðir í Kópavogi, sem þurfa að velta fyrir sér hveri krónu verða að spara neita sér um þá heilsulind sem sundið er. Ég er viss um það Árni Pall að þessi gjörð að lækka frítekjumarkið skilar litlu sem engu. Þér væri nær að hugsa til þess að frítekjumarki eins og það var hefði skila þó nokkrum tekjum í ríkissjóð. Láttu þér ekki detta í hug að fjöldi ellilífeyrisþega muni halda áfram að afla sér tekna og sjá það hverfa með lækkandi lífeyri. Gæti það verið að aldraður maður héldi betri heilsu ef hann fengi lengur að vera frjáls maður á vinnumarkaði að einhverju leyti? Gæti það jafnvel sparað heilbrigðiskerfinu umtalsverð útgjöldum?
Ég veit að margir eru svo grunnhyggnir að segja sem svo; við lögum þetta aftur þegar efnahagurinn batnar eftir svo sem 5 - 10 ár!
Ég hef náð þeim háa aldri að vera orðinn 75 ár.
En hvar verð ég eftir 5 - 10 ár?
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.1.2010 | 18:41
Er umfjöllun um ICESAVE endanlega lokið?
Að sjálfsögðu ekki, samþykkt Alþingis er komin í hendur Forseta Íslands til samþykktar eða synjunar. Ég hef heyrt þær raddir sem telja það vísbendingu um hvað hann ætlist fyrir að hann afgreiddi ekki lögin á Ríkisráðsfundi á gamlársdag. Aldrei hvarflaði að mér að það mundi Ólafur Ragnar gera. Ef hann hefði hann gert það hefði hann orðið fyrir hafsjó að gagnrýni þeirra sem enn lifa í voninni um að hann muni synja um samþykki, þ. e. a. s. ef hann hefði samþykkt lagafrumvarpið hálfum sólarhring eftir að Alþingi afgreiddi málið. Sú hraða afgreiðsla hefði vissulega verið gagnrýni verð burtséð frá því hver afgreiðslan hefði orðið.
Ólafur Ragnar flutti nýársávarp sitt í dag nýársdag, skv. venju. Mér fannst margt vel sagt í ávarpinu sérstaklega hvað hann var afgerandi og gagnrýninn á flokkshollustu og pólitískar ráðningar embættismanna, þar sem flokksskírteinið var þýðingarmeira oft á tíðum en menntun og hæfileikar. Margir hafa greinilega hlustað grannt eftir því hvort Ólafur Ragnar gæfi vísbendingu um á hvern veg hann ætlar að afgreiða ICESAVE lögin. Honum tókst að nálgast það á þann hátt að þeir sem vilja að hann synji telja sig finna sterkar vísbendingar fyrir að svo fari þegar hann ræddi um þjóðarvilja og þýðingu þess að þjóðin komi meir að stórum ákvörðunum.
Einn sem ég hef átt orðaskipti við hérna á blogginu heldur því statt og stöðugt fram að ICESAVE ábyrgðin hafi verið felld en ekki samþykkt á Alþingi 30. des. sl. Hann rökstyður það með því að ákveðnir þingmann Vinstri granna hafi kosið gegn eigin sannfæringu, verið þvingaðir til að greiða atkvæði með frumvarpinu, verið beittir flokksaga. Ég hef enga trú á því að nokkur þingmaður láti kúga sig þannig. En á móti má þá segja og spyrja: Voru allir þingmenn minnihlutans á Alþingi (að Þráni undanskildum) að fylgja sinni innstu sannfæringu og greiða atkv. gegn frumvarpinu? Voru einhverjir í þeirra hópi þvingaðir til að greiða atkvæði á annan hátt en samviska þeirra og skoðun sagði þeim að gera, voru þeir einhverjir kengbeygðir undir flokksaga? Ég held ekki. Ég hef það mikla tiltrú á Alþingismönnum að þeir láti ekki kúga sig hvort sem eru stjórnarsinnar eða í stjórnarandstöðu.
Nú munu undirskriftir undir áskorun til Forseta Íslands um að samþykkja ekki lögin frá Alþingi vera orðnar nær 55.000. Er þetta ekki nokkuð stór hópur þjóðarinnar? Vissulega en við vitum ekkert um hve mikill hluti þjóðarinnar vill að Forseti staðfesti lögin. Ég ætla hér og nú að lýsa þeirri skoðun minni að undirskriftalistar hafa harla lítið gildi í mínum huga, en einhver óáreiðanlegasta birtingarmynd lýðræðis og ekki sé hægt að treysta því að þar komi fram vilji þeirra sem þar setja nöfn sín. Það hefur oft verið sýnt fram á að það virðist vera hægt að fá mikinn fjölda til að setja nöfn sín á lista sem eru að mótmæla einhverju. Nýlega kom í ljós að einhver hópur ýtti af stað undirskriftasöfnun (ekki hérlendis) til að krefjast þess að unnið sé af alefli fyrir útrýmingu H2O. Þetta voru að sjálfsögðu einhverjir loftslagshópar sem nú fara mikinn víða um lönd. Og það er ekki að orðlengja það að þessi undirskriftasöfnun gekk mjög vel.
Mikill fjöldi manna og kvenna skráði nafn sitt á lista og krafðist þess að unnið yrði af afefli að því að útrýma VATNI.
En hvað tekur við ef Forseti Íslands samþykkir ekki lögin um ICESAVE ábyrgðina frá Alþingi?
Ég hef fengið fá svör frá þeim sem berjast fyrir ógildingu og þjóðaratkvæði hvað þá taki við. Kristinn Pétursson kenndur við Bakkfjörð er sá fyrsti sem hafði fyrir því að svara mér. Hann segir að ef Forseti synji og lögin verði felld í þjóðaratkvæði gildi lögin sem samþykkt voru sl. sumar.
Þetta tel ég nánast útilokað að þar sé nokkur lausn. Skuldheimtumenn höfnuðu þeim lögum, þess vegna varð að semja upp á nýtt. Nú við ég minna á gagnorða grein eftir fyrrverandi Alþingismann Kristin Gunnarsson. Hann varaði eindregið við því að halda þannig á málum að skuldheimtumenn fái ástæðu til að fara með málið fyrir dómstóla, það gæti skapað okkur miklu meiri fjárútlát heldur en þeir samningar sem náðst hafa.
Þetta er það sem ég óttast ef Forseti synjar og þjóðin fellir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Lög Alþingis um ICESAVE frá sl. sumri eru gagnslaus með öllu, skuldheimtumenn hafa hafnað þeim. Þá blasir við málrekstur sem standa mun nokkur ár og enda með miklu meiri fjárútlátum en núverandi lög vísa til. Mjög vafasamt er að núverandi Ríkisstjórn geti setið áfram, nánast útilokað. Yfir því munu margir gleðjast, en hvað tekur þá við?
Ég sé ekki annað en langvarandi stjórnarkreppu sem líklega yrði að leysa með kosningum.
Öll endurreisn fellur í dvala, það verða tekin mörg skref afturábak.
Ég krefst svara:
Hver er framtíðarsýn ykkar sem viljið að Forseti Íslands synji lögunum frá 30. des. 2009 og að þjóðin felli lögin endanlega í þjóðaratkvæðagreiðslu?
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.11.2009 | 10:22
Algjörlega sammála Pétri Blöndal
Hversvegna er hugmynd Sjálfstæðismann um skattlagningu á inngreiðslur lífeyrissjóða ekki tekin til gagngerrar skoðunar?
Ég blogga um þetta mál hér að neðan en eftir að hafa hlustað á Pétur Blöndal alþingismann og fulltrúa lífeyrissjóðanna (hvers nafn ég greip ekki því miður) í gær í Kastljósi þá er ég enn sannfærðari um að þetta er leið sem við eigum að fara. Það er langt síðan ég hef heyrt frá "ábyrgum" manni jafn miklar rökleysur og komu fram hjá lífeyrisjóðafulltrúanum.
Lítum aðeins á rökleysur hans:
1. Hann hélt því fram að lífeyrissjóðirnir þyrftu, ef þetta yrði tekið upp, að losa og selja eignir. Hvers vegna, lífeyrissjóðirnir eru ekki að greiða neitt út, þeir fá hins vegar minna í kassann og geta ekki legið með skattpeninga ríkisins í áratugi og vaxtað þá vel eða illa eftir atvikum.
2. Hann sagði þetta verð ákaflega flókið mál. Þessi breyting er í mínum huga sambærileg og þegar við tókum upp staðgreiðslukerfi skatta, enginn vill hverfa frá því kerfi.
3. Hann sagði að við værum að taka frá börnum og barnabörnum, þau mundu fá sítt úr lífeyriskerfinu en hvað um samneysluna? Að sjálfsögðu fær hún sitt, á hverju ári koma inn skatttekjur til ríkisins á nákvæmlega sama hátt og frá staðgreiðslu skatta, skatttekjur sem skila sér betur en ef þær eru teknar af útgreiðslum.
4. Skatttekjur skila sér nær 100% við skattlagningu á inngreiðslum, en við eftirágreiðslu skatta glatar ríkið alltaf einhverju vegna þess að fjöldi lífeyrisþega fær aldrei greitt út að fullu það sem hann hefur greitt inn. Hvað gerist ef lífeyrisþegi fellur frá rétt áður en hann kemst á aldur til að taka lífeyri? Erfingjar fá eitthvað en hvað um þá sem enga nákomna ættingja eiga?
Ég átel núverandi Ríkisstjórn fyrir að hafa ekki tekið þetta mál föstum tökum og notað þetta mikla peningaflæði til að loka fjárlagagatinu frekar en að fara út í þessa skattheimtu sem alltaf verður sársaukafull þó reynt sé að gæta fyllsta réttlætis. Ég átel Sjálfstæðismenn fyrir að hafa ekki fylgt þessu máli eftir með hörku og ákveðni í stað þeirrar hálfvelgju sem þeir hafa sýnt.
Ég krefst þess að Ríkisstjórnin, og þá sérstaklega fjármálaráðherra, skýri fyrir mér og þjóðinni allri hvaða meinbugir séu á þessari leið. Einhverjir meinbugir kunna að vera á málinu, en ég sé þá ekki.
14.11.2009 | 11:55
Hversvegna ekki taka skattinn strax við inngreiðslur í lífeyrissjóði?
Einn bloggari fór mikinn í morgun uppfullur af hneykslun á því að það eigi að skattleggja lífeyrissjóðina.
Það hefur ekki nokkrum manni dottið í hug.
Hinsvegar eru allar greiðslur manna í lífeyrissjóði, bæði frá sjóðfélaganum og mótframlag atvinnurekandans, skattlögð. Í dag eru þær skattlagðar við útgreiðslu, allir sem fá greitt úr lífeyrissjóði verða að greiða skatt af þeim greiðslum. Þetta er ekki skattlagning á lífeyrissjóðina heldur á þær greiðslur sem sjóðfélaginn fær.
Þó ég sé Samfylkingarmaður og eindreginn stuðningsmaður núverandi Ríkisstjórnar á finnst mér að það þurfi að skýra það betur fyrir almenningi af hverju tillaga Sjálfstæðismanna um að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði í stað útgreiðslur er ófær leið, á endanum verður þetta skattlagt og er ekki nema eðlilegt.
Einhverstaðar var kippt í spottann og Sjálfstæðismenn voru ekki staðfastari en það að þeir fylgdu málinu ekki eftir. Ég sá einhversstaðar sagt að þetta gæfi Ríkissjóði 40 milljarða árlega, það væri ekki svo lítið upp í hið margumrædda fjárlagagat og mundi lina stórlega þá þungu skattbyrði sem verið er að leggja nú á þjóðina.
Fullyrðingar Steingríms fjármálaráðherra að með skattlagningu á inngreiðslur sé verið að taka frá framtíðinni og afkomendum okkar skil ég ekki, lífeyrisþeginn fær sitt, hann tapar engu og sem eldri borgari væri það sálrænt jákvæðara að fá þá litlu greiðslu sem ég fæ úr lífeyrissjóði að fullu, skatturinn afgreiddur fyrir löngu.
Hinsvegar verða vaxtatekjur lífeyrissjóðanna lægri og veltan minni við skattlagningu á inngreiðslur, þeir fá ekki tækifæri til að ráðskast með skattpeninga þjóðarinnar ártugum saman og eyða í yfirgengilegan rekstrarkostað og bruðl við stjórnun lífeyrissjóðanna.
En Steingrímur, mig vantar skýringar á orðum þínum og afstöðu.Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2009 | 12:21
Hversvegna var frítekjumark aldraðra lækkað?
Aldrei hefur nokkur Ríkisstjórn á Íslandi barist við viðlíka erfiðleika og sú ríkisstjórn sem nú situr. Ég er eindreginn stuðningsmaður stjórnarinnar og það verður að styðja hana með öllum ráðum út kjörtímabilið. Ef vel tekst til getur samstarf núverandi stjórnarflokka orðið lengra. Ég hef hér á undan í blogginu lagt út af þeirri bábilju að Samfylkingin eigi að hverfa að samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Framsóknarflokkurinn hefur gjörsamlega klúðrað því tækifæri sem hann fékk til að endurnýja sig.
En þó maður styðji stjórnina er ekki þar með sagt að hún eigi ekki að fá gagnrýni frá stuðningsmönnum sínum. Enn og aftur kemur það í ljós að þeir sem eru á miðjum aldri og yngri, jafnvel þó yfir miðjum aldri séu, hafi harla lítinn skilning á kjörum aldraðra. Þetta er að koma í ljós aftur og aftur. Ef gengið er á kjör þess sem er þrítugur á hann alla möguleika á að hann geti náð einhverri leiðréttingu, en hvað um þann aldraða?
Ég hélt upp á 75 ára afmæli mitt nýverið, fékk margar góðar gjafir og óskir. En ég fékk eina gjöf frá þeirri Ríkisstjórn sem ég styð sem setur mikið strik í mínar áætlanir sem geta engan veginn verið á sömu lund og þess þrítuga, hann á reikningslega séð ótal tækifæri í framtíðinni, það á ég tæplega. Ég er af þeirri kynslóð sem þekkir það að engir lífeyrissjóðir voru til. Ég er líka af þeirri kynslóð sjálfstætt starfandi einstaklinga sem ekki fóru að sinna lífeyrisgreiðslum fyrr en alltof seint, ekki fyrr en lögboð kom þar um. Hins vegar er ég þó nokkuð hress og tel mig búa yfir nokkuð mikilli þekkingu í mínu fagi, en ég titla mig nú sem vatnsvirkjameistara & orkuráðgjafa og það er það síðarnefnda sem ég hafði hugsað mér að stunda þó nokkuð meðan ég hef möguleika til.
Það sem gerði mig bjartsýnan á að svo gæti verið var sú ákvörðun fyrri ríkisstjórnar að hækka frítekjumarkið upp í 1.300.200 kr. á ári, það gaf mér ástæðu til að ég gæti gert gagn sjálfum mér og öðrum án þess að tapa nokkru í þeim tekjum sem ég hef frá TR og lífeyrissjóðum upp á næstum því 125.000 kr!!!
En Adam var ekki lengi í Pardís. Núverandi Ríkisstjórn lækkaði frítekjumarkið og það ekki um neitt smáræði.
Það er komið niður í 480.00 kr. á ári!
Þegar þessi staðreynd blasti við mér sá ég að það væri ekki mikið sem ég gæti unnið og miðlað af minni tækniþekkingu, sem þó er ekki lítil þörf fyrir, og ég ætla að fullyrða að sé þjóðhagslega hagkvæm. Ég mætti ekki hreyfa mig mikið svo þessar litli lífeyrir sem ég fæ færi ekki að skerðast. Ef ég væri nógu harður af mér gæti ég farið að fullu út á vinnumarkaðinn aftur og reynt að afla mér þeirra tekna að ég geti sleppt þessum lífeyriskrónum. En satt að segja er það æði mikil ákvörðum fyrir þann sem orðinn er 75 ára gamall og tæplega fær leið. Þá er ekki annað en að þiggja þennan lífeyri og reyna svo að sitja sem mest heima og afla ekki umframtekna.
Nú nokkur orð til þín minn gamli samborgari úr Kópavogi Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra.
Ég get engan vegið skilið það að þessi harkalega lækkun á frítekjumarki aldraðar skili nokkrum tekjum til Ríkissjóðs, það getur einmitt virkað öfugt. Ég hef að framan rakið nokkuð í hvaða gildru mér finnst ég vera fallinn. Það þýðir ekkert að segja við mann á mínum aldri að þetta verði lagað eftir nokkur ár, segjum 5 ár. Ég tel frekar ótrúlegt að ég sé svo mikið út á vinnumarkaði þá, verði bara að þrauka í þeirri fátækragildru sem ég sé framundan. Ég held að áhrifin af þessari mjög svo mistæku ákvörðun Ríkistjórnarinnar, að svipta aldraða þeirri lífsfyllingu að geta að nokkru aflað sér meiri tekna og vera aðeins út á meðal fólksins, gefi Ríkissjóði ekki nokkrar auknar tekjur.
Árni Páll, þú ert ungur og á þeim aldri skiljum við ekki eldra fólkið, það gerði ég ekki á þínum aldri. Ráðherrar eiga að fá ráðgjöf sem víðast að.
Gleymdu því ekki að "oft er gott sem gamlir kveða".
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar