Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Það hvarflar ekki að mér að Ólafur Ragnar muni synja því að staðfesta samþykkt Alþingis um Icesave

Það hefur verið lítil freisting að setjast við tölvuna til að blogga um hásumarið. Garðurinn býður upp á skemmtilega útiveru og vinabæjarmótið sem við 20 Ölfusingar sóttum í Skærbæk í Danmörku fyrstu vikuna í júlí var bráðskemmtilegt og vel skipulagt og stjórnað af Dönum.

En nú er Icesave máið að mestu komið í höfn, það er við hafnarkjaftinn, það á aðeins eftir að leggjast að bryggju og fá landfestar frá forseta vorum Ólafi Ragnari.

Menn hafa verið að gera því skóna, og sumir að krefjast þess, að Ólafur Ragnar synji því að samþykkja þessa afdrifaríku lagasetningu Alþingis. Margir líkja þessu við synjun forsetans á alræmdu frumvarpi Davíðs og Halldórs, hið svokallað fjölmiðjafrumvarp. Slík samlíking er algjörlega út í hött, raunar var fjölmiðlafrumvarpið ekki nema stormur í vatnsglasi miðar við stórviðri og brimskafla Icesave málsins. Ég veit að Ólafur Rafnar forseti er það raunsær maður að hann mun ekki setja þjóðlífið á annan endann með synjun.

En eitt er víst; þeir sem komu okkur Ísendingum í þetta skelfilega Icesave mál eru líklega einhverjir mestu óhappamenn sem finnast á landi hér og það má alveg fara allt aftur í landnám til samanburðar!

Það hefur verið bent á Gamla sáttmála til samanburðar en í raun var hann að sumu leyti ill nauðsyn, landið var að einangrast, loftslag breyttist til hins verra, lífkjör versnuðu, skipum fækkaði. En nóg um Gamla sáttmál.

En gerði ríkisstjórnin mikil mistök í Icesave málinu? Ekki er nokkur vafi á því í mínum huga að við bárum ábyrgð á Icesave reikningum Landsbankans sem óheillakrákan Sigurjón Árnason fyrrum bankastjóri LÍ segir að okkar ábyrgð hafi aldrei verið til. Sigurjón Árnason og hans samverkamenn ættu að skammast sín og láta sem minnst fyrir sér fara. En hvað um ríkistjórnina? Ég var yfir mig undrandi þegar Steingrímur fjármálráðherra skipaði gamlan flokksbróður sinn Svavar Gestsson sendiherra sem formann samninganefndarinnar, það var með eindæmum óheppilegt. Ég tel að samninganefndin um Icesave hafi ekki verið skipuð þeim hæfustu sem finnanlegir voru innanlands og það átti tvímælalaust að fá einnig hæfustu menn í útlöndum til að taka beinan þátt í samningaviðræðum.

En hvað um þátt Alþingis? Þar kemur furðuleg afstaða margra til Alþingis í ljós. Almenningur er orðinn svo vanur að ríkisstjórnin og framkvæmdavaldið í heild valti yfir Alþingi að fjölmargir halda að eitthvað sé bogið við það að Alþingi taki málið í sínar hendur og vinni það án þess að láta ríkisstjórnina segja sér fyrir verkum frá degi til dag.

Þar var Guðbjartur Hannesson form. fjárlaganefndar tvímælalaust fremstur með jafningja og vegur Alþingis hefur tvímælalaust vaxið af þessari glímu.

En svo reyndu sumir að fiska í gruggugu vatni og þar fór Sigmundur Davíð formaður Framsóknarflokksins fremstur. Ég hafði trú á þessum manni fyrst þegar hann kom inn í pólitíkina en sú trú er löngu gufuð upp. Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn undarlegur söfnuður sem virðist ekkert vita hvert á að stefna. Öðru vísi mér áður brá þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafði niðurnjörvaða stefnu og fylgdi henni gegn um þykkt og þunnt ekki síst til að hygla sínum mönnum og fyrirtækjum. Bjarni Benediksson virðist ekki ná neinum tökum á stjórn flokksins. Bláa höndin virðist enn stjórna bak við tjöldin. Það sáu það allir sem sjá vildu að það var óheppilegt að gera mann úr innstu elítu flokksins að formanni til að leiða endurreisnina eftir hina fráleitu arfleið Davíðs en Bláa höndin réði ferðinni. Það kom ekki til greina að sækja foringjann út á land, mann sem hafði víðtæka reynslu úr atvinnulífi og sveitarstjórn. En hann var ekki í elítunni eða af Ættunum, því fór sem fór. Ég hef ekki orku til að ræða um garminn hann Ketil, Borgaraflokkinn. 

Þvílíkir rugludallar hafa líklega aldrei sest á Alþingi Íslendinga og hafa þó margir undirmálsmenn náð að smeygja sér þar inn.


Getur Hrannar verið áfram aðstoðarmaður Jóhönnu forsætisráðherra?

Það er gott framtak hjá Ágústi H. Bjarnasyni að birta mjög umtalaða grein Evu Joly um framkomu útlendinga, ráðandi manna í æðstu stöðum, gagnvart Íslandi, meira að segja á norsku, ensku, frönsku og íslensku. Ég er þegar búinn að senda greinina á norsku til tveggja í Noregi, einnig tveggja í Svíþjóð og svo sendi ég syni mínum í Frakklandi hana auðvitað á frönsku. Mér finnst grein Evu hnitmiðuð og rökföst og hún rifjar upp stutta grein eftir Ólaf Hauksson fjölmiðlatengil um að ekki hafi verið staðið nógu vel að kynningarmálum erlendis á okkar sérstæðu aðstæðum eftir hrunið og reyndar skortir enn á það að nógu vel sé að því staðið innanlands.

En hvað um Hrannar?

Hrannar er aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Jóhanna valdi hann sjálf til þeirra verka að vera hennar nánasti samverkamaður.  Þess vegna bregður manni illilega þegar persóna í slíkri stöðu veður fram og gagnrýnir hvað er sagt um íslensk málefni eins og Eva Joly gerði í grein sinni. Hrannar mun hafa sagt á heimasíðu sinni að Eva ætti ekki að skipta sér af efnahagsmálum Íslands, það væru aðrir sem færu með þau mál. Er hægt að líta á það öðruvísi en þannig að það sem aðstoðarmaður forsætisráðherra lætur frá sér fara sé bergmál af skoðunum ráðherrans? Í öðru lagi; eiga aðstoðarmenn ráðherra yfirleitt að vera að leggja orð í belg í opinberri umræðu, þeir eru í mjög viðkvæmri og sérstæðri stöðu.

Getur Hrannar verið áfram aðstoðarmaður forsætisráðherra?

Auðvitað verður Jóhanna að ákveða það. En hún verður að gera sér það ljóst að ef engin breyting verður á högum  og störfum Hrannars er hún að taka afstöðu með hans skoðunum sem hann hefur sett fram á ákaflega óheppilegan hátt.

Að mínu áliti á Jóhanna að víkja Hrannari úr starfi.

.

 

 


Vofa Don Kíkóti (Don Quixote) gengur laus á G-8 fundi

Þá hafa valdamenn átta stærstu og mestu iðnríkja heims gert samþykkt sem mun síðar meir verða að athlægi og verður framvegis þekkt dæmi um heimsku og hroka, samþykkt sem nálgast að vera álíka og gjörð Kaþólsku kirkjunnar fyrr á öldum þegar hún samþykkti af miklum þunga að jörðin væri flöt og Galileo mátti þakka fyrir að ganga út frá réttarhöldum með höfuðið á búknum, sökin var að halda því fram að jörðin væri hnöttótt.

Samþykkt karlanna sjö og Angelu var hvorki meira né minna en þessi:

Hiti á hnetti okkar skal ekki hækka um meira en 2°C fram til ársins 2050!!!

Mannskepnan er vissulega orðin ráðvillt en einnig hefur hún greinilega ofmetnast, telur sig nú hafa náð svo langt að hún geti ráðið lofslagi og hitastigi heimsins. Sem betur fer er langt frá því að svo sé, maðurinn hefur engin teljandi áhrif á hitastig jarðar. Það hefur aldrei verið sannað að CO2 koltvísýringur í andrúmslofti sé að hækka hita á jörðinni. Hins vegar er CO2 ein af þeim gastegundum sem halda hita á jörðinni, án þeirrar virkni væri meðalhiti á jörðinni ekki plús 15°C heldur  mínus 18°C, jörðin væri óbyggileg. Þessu "markmiði" G-áttmenninganna skal ná með því að stöðva sem mest kolefnisbruna og til þess á að verja óheyrilegum fjárhæðum. Þetta á að gera á sama tíma og börn og fullorðnir deyja úr sulti, malaríu og öðrum sjúkdómum, á meðan stór hluti mannkyns fær ekki ómengað drykkjarvatn og fátækt eykst og milljónir manna eru á flótta vegna styrjalda.

Eru engin takmörk fyrir heimsku mannanna?


Svínaflensan er ekkert annað er svínaríis blekking

Fyrir það fyrsta kemur þessi flensa svínum ekkert við. Það er líklega of seint að koma þeim skilaboðum til Egypta, þeir eru víst þegar búnir að slátra sínum svínastofni, 300.000 dýrum, líklega hafa þau verið brennd.

Þeir sem yngri eru muna víst ekki hvað gerðist árið 1976. Þá kom upp "svínaflensa" með tilheyrandi "hysteríu" svipaðri og í dag. Þetta fjaraði að mestu út eins og er að koma á daginn með núverandi "svínaflensu". Þegar eru farnar að berast fréttir frá Mexíkó sem segja að þetta sé ekki eins alvarlegt og einhlýtt og af var látið í byrjun. Þetta er búið að skaða stórlega þjóðarbú Mexíkó en það eru aðrir púkar sem fitna. Það sama er að koma í ljós og árið 1976 að þessir púkar eru lyfjaframleiðendur. Þeir eru búnir að setja allt í gang til að framleiða bóluefni og þeir sem framleiða önnur flensulyf rokselja sína framleiðslu og ekki má gleyma öllum grímunum sem selst hafa.

Og að sjálfsögðu taka hinar einföldu sálir á fjölmiðlunum þátt í leiknum, fréttafólk sem er stöðugt í vandræðum með að verða sér út um krassandi fréttir, hér komust þeir í feitt. Allir fréttatímar í ljósvakamiðlum og prentmiðlum  stútfullir af æsifréttum um þessa ómerkilegu flensu, toppar fréttanna eru auðvitað ef hægt er að segja frá að einhverjir hafi dottið niður dauðir af hennar völdum.

Það er dapurlegt að "upplýstir" Íslendingar skuli láta draga sig á asnaeyrunum og kaupa og kaupa eins og þeir eigi lífið að leysa alls kyns óþarfa út af einhverri flensu sem er ekkert verri né hættulegri en flensur eru yfirleitt. Á ári hverju deyja  margir víðs vegar um heiminn úr inflúensu, það er nú einu sinni gangur lífsins.

Eitt sinn skal hver deyja! 


Hnitmiðuð og vel skrifuð grein eftir Grím Atlason

 Stundum rekst maður á vel skrifaðar og hnitmiðaðar greinar í prentmiðlum, þessi grein Gríms Atlasonar er ein af þeim en hún birtist í Fréttablaðinu í dag. Fréttablaðið sé ég nú einungis á netinu, við hér í Þorlákshöfn fáum nokkur eintök send sem eru horfin fyrir kl 9:00 á morgnana. Þar sem ég tel að þessi ágæta grein Gríms eigi mikið erindi til allra daginn fyrir kjördag og Fréttablaðið virðist á fallandi fæti gerist ég svo djarfur að taka hana traustataki og birta á mínu bloggi. Ef ég man rétt var Grímur bæjarstjóri í Bolungarvík en er nú sveitarstjóri í Dalabyggð (Búðardal) og eins og sést neðst á framboðslista VG. Þessi grein fyllir mig Samfylkingamanninn bjartsýni á að núverandi stjórnarflokkar haldi áfram samstarfi í næstu ríkisstjórn, þá meirihlutastjórn, og sú stjórn sæki þegar um inngöngu í Evrópusambandið. Það er ekki sama og innganga, þá lyftist lokið og við sjáum svart á hvítu hverra kosta við eigum völ. Síðan er það þjóðarinnar að taka afstöðu til þess sem býðst. 

 

Grímur Atlason skrifar um Evrópumál

Við verðum að skipta um gjaldmiðil - það er staðreynd. Kerfið, sem kallað var íslenska efnahagsundrið, bjó hér til loftbóluhagkerfi sem sprakk í andlitið á okkur með hrikalegum afleiðingum. Vaxtamunur og ónýtur gjaldmiðill hafa síðan gert það að verkum að við erum í algjörri pattstöðu. Nú er svo komið að þessi fyrirtæki eru flest farin að pakka niður og ætla sér annað. Við verðum að bregðast við.

Verkefni stjórnvalda eftir þessar kosningar eru eftirfarandi:

1. Setja sér samningsmarkmið og sækja um aðild að Evrópusambandinu og lýsa yfir eindregnum vilja okkar til þess að leggja af krónuna sem gjaldmiðil og taka upp evru.

2. Þjóðnýta kvótann og tryggja þannig að auðlindin haldist hjá þjóðinni og að byggðir landsins geti blómstrað á ný.

3. Ofangreindar aðgerðir ásamt samningum við lánardrottna okkar og jöklabréfaeigendur gerir það að verkum að hægt verður að lækka vexti fljótt og örugglega og verðbólga lækkar í kjölfarið.

4. Menntun menning og aftur menntun og menning eru lykilhugtök uppbyggingarinnar.

5. Styrkja sveitarstjórnarstigið þannig að nærsamfélagið verði starfhæft - en það er lykillinn að uppbyggingu.

6. Veðja á margt smátt í stað þess að veðja á eina patent lausn: Álver og bankar eru ágæt með en bara álver og bara bankar er fullreyndur stígur.

7. Fæðuöryggi þjóðarinnar verður best tryggt með því að hlúa að og styrkja íslenska matvælaframleiðslu - það fer ágætlega saman við inngöngu í Evrópusambandið.

Það er klárt mál að samningsmarkmið okkar eiga að vera skýr þegar kemur að samningum við ESB. Sérstaða íslensks landbúnaðar og sjávarútvegs liggur fyrir. Við erum eyþjóð og það er klárt að óheftur innflutningur t.d. á hráu kjöti gengur ekki upp. Það er líka rétt að 90% af pakkanum liggur ljós fyrir. En það er ekki eins og það sé slæmt.

Það er ekki stefna ESB að ofveiða fisk. Reglur ESB stuðla að hlutfallslegum stöðugleika og tryggja að íslenskur sjávarútvegur nýtur nálægðarinnar við miðin og hefðarréttar á stofnum sem ekki eru deilistofnar. Innan ESB verðum við ein af þremur stærstu fiskveiðiþjóðum sambandsins og í sterkri stöðu til að hafa mikil áhrif á mótun nýrrar fiskveiðistefnu. Þessu verður að halda til haga fyrir grátkórnum.

Stöðu sveitarfélaga á Íslandi, ekki síst þeirra sem eru á landsbyggðinni, er betur borgið innan Evrópusambandsins. Mýmargar áætlanir sem miða að uppbyggingu á harðbýlum svæðum og köldum hagkerfum innan einstakra landa eru í gangi. Þessar áætlanir hafa skilað umtalsverðum árangri m.a. í Portúgal, Spáni, Svíþjóð, Finnlandi, Slóveníu og Póllandi. Hverfum frá haftastefnunni, hún er vond og mun ekki byggja upp blómlega byggð á Íslandi. Losum bændur, sjómenn og aðra undan klöfum ofurvaxta og einhæfni.

Tökum þátt í samfélagi þjóða og öxlum okkar ábyrgð. Höfum trú á okkur sjálfum og því sem við getum gert fyrir Evrópu. Spyrjum ekki bara; hvað getur Evrópusambandið gert fyrir okkur? Spyrjum líka: Hvað getum við gert fyrir Evrópu? Okkur mun farnast vel sem fullgildum þátttakanda í samfélagi Evrópuríkja. Þess vegna er ég sammála því að gengið verði til aðildarviðræðna við Evrópusambandið strax að loknum kosningum. Ef þú ert sammála skráðu þig þá á www.sammala.is.

Höfundur er í 6. sæti á lista VG í Norðausturkjördæmi.


« Fyrri síða

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband