Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Jón Björgvinsson bjargar Fréttastofu RÚV (ef það er hægt)

Það var magnaður og stórskemmtilegur pistill sem Jón Björgvinsson fréttamaður RÚV í Sviss flutti í Speglinum í gærkvöldi um sirkusinn í Kaupmannahöfn, Loftslagráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þar dró hann alla vitleysuna sundur og saman í háði enda nægt tilefni til. Til að vera alveg heiðarlegur þá var það Friðrik Páll Jónsson, upphafsmaður þessa ágæta og fágæta fréttaskýringarþáttar, Spegilsins, sem braut þögnina miklu í Efstaleiti um að það hefði ýmislegt misjafnt verið að koma í ljós í störfum þeirra "vísindamanna" sem eru á mála hjá IPCC, loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna. Ég tek það fram að ég nota vísvitandi orðið "á mála" því það merkir einfaldlega að menn taka að sér verk, þekktast er það úr hernaði, og skeyta hvorki um skömm né heiður, né hvað er rétt eða rangt.

Það er  dapurleg staðreynd að þær ágætu konur, Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, eru á leiðinni eða þegar farnar til að ná í sporðinn á Loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn.

Skyldu þær vera sannfærðar, ég trúi því ekki.

Hins vegar er ég ekki hissa á að þau Árni Finnsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrrverandi umhverfisráðherra séu komin til Kaupmannahafnar með öll skilningarvit opin eins og frelsaðir einstaklingar hlustandi á boðskap Gunnars í Krossinum. Þar held ég að sé þó nokkur mismunur á þeirra skilningi; Árni kaldrifjaður tækifærissinni sem fyrir löngu fann sína fjöl til lífsviðurværis en Þórunn bláeyg og einföld, sanntrúuð.


Sóðalegasti sorakjaftur landsins orðinn framlenging á penna Davíðs Oddssonar

Morgunblaðinu var bjargað frá gjaldþroti og útrýmingu og flestir héldu að tækifærið yrði notað til að efla blaðið sem víðsýnan fréttamiðil þar sem allir gætu komið skoðunum sínum á framfæri, en svo varð aldeilis ekki. Það mátti sjá hvað klukkan sló þegar hinn afdankaði forsætisráðherra og seðlabankastjóri, Davíð Oddsson, var gerður að ritstjóra. Var furða þó sá grunur læddist að mörgum að þarna ætti "sá fyrrverandi" að fá tækifæri til að naga og stinga fyrrum andstæðinga, en ganga svo einnig vasklega fram í því að verja í líf og blóð mesta rán Íslandssögunnar, ránið á fiskinum í sjónum, gjöfinni til gæðinganna. Ekki síður að berjast hatrammlega gegn endanlegri könnun á því hvað biði okkar í Evrópusambandinu sem ekki er hægt að fá úr skorið nema með því að sækja um aðild og fara í alvöru aðildarumræður. Þetta mátti ekki gerast, koma kynni í ljós í þeim umræðum að hag okkar yrði tvímælalaust betur borgið innan ES en utan.

Það er staðreynd að fjölmargir mótmæltu strax og sögðu blaðinu upp. Ég var ekki einn af þeim, ég var pistlahöfundur Morgunblaðsins í 16 ár og fann ætíð gott viðmót þar meðan Styrmir Gunnarsson var ritstjóri. Ég vildi sjá hver þróunin yrði, Morgunblaðið og morgunkaffið hafa  í mörg ár verið óaðskiljanleg, erfitt að skera á þau bönd. Kannski mundu hraklegustu spár ekki rætast.

En nú er svarið komi. Það mátti auðvitað vera sterk vísbending að hlutdrægasti fjölmiðlamaður landsins, Agnes Bragadóttir,  fékk að að sitja áfram við sína Gróu á Leitis tölvu í ritstjórninni.   En ég var enn með svolitla von; kannski mundi Eyjólfur hressast.

En endanlega svarið kom í morgun laugardaginn 14. nóv. árið 2009.

Á þeim degi birtist í Morgunblaðinu nýr pistlahöfundur, greinilegt að það var kominn nýr "Laugardagspistill" og höfundur hans er persóna sem nefnist Sverrir Stormsker. Ritstjóri sem velur sér til hjálpar sóðalegasta sorakjaft þessarar þjóðar hlýtur að hafa með því ákveðinn tilgang.

Sá tilgangur er augljós.

Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins er lagður í krossferðina; að lemja niður þá sem hann telur að verði að jafna um, fólk sem hann stundum fann fyrir minnimáttarkennd gagnvart. Já vissulega ótrúlegt að ætla að Davíð Oddsson viti hvað minnimáttarkennd er, en sú kennd leynist víða og birtingarmynd hennar er oft andstæðan.

En Davíð Oddsson leggur ekki í það að koma framundir eigin nafni þegar sorinn skal vera sem mestur; hann fær sér leiguþý og sá fyrsti í þeim hópi er Sverrir Stormsker, vart hægt að fá hæfari mann til verksins. Engum kemur á óvart að fyrsti einstaklingurinn sem sorakjafturinn skal níða niður er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Níðgrein Sverris Stormskers (SS) um Ingibjörgu Sólrúnu er algjört einsdæmi í nútímanum, slíkt níð hefði jafnvel þótt fulllangt gengið á hinum margumtöluðu Hriflutímum sem svo eru nefndir og var þó Jónas frá Hriflu ekkert verri í skrifum sínum þá en margir aðrir sem voru á þeim dögum í pólitíkinni.

Ég vil benda alþjóð á að þegar þessi soragrein er lesin ættu lesendur að gera sér grein fyrir því að Sverrir Stormsker (SS) er ekkert annað en leiguþý. Þessi soragrein er á ábyrgð ritstjórans Davíðs Oddssonar og ekki nokkur vafi að hún er skrifuð að hans undirlagi og með hans velþóknun.  Ég tel fullvíst að Sverrir Stormsker (SS) hafi verið fenginn ganggert til að vinna þetta verk; alt bendir til að næstu laugardaga verði framhald á skítkastinu og fyrrum andstæðingar Davíðs Oddssonar rakkaðir niður af orðljótasta manni landsins, sá mun gelta þegar honum verður sigað.

Þessi grein skiptir sköpum fyrir mig. Ég mun á eftir senda Morgunblaðinu uppsögn á áskrift til áratuga. Ég vona að sem flestir fari að dæmi mínu og segi blaðinu upp. Það þarf að fá þá ráðningu sem það á skilið. Það endar líklega sem sorppollur sem gamall uppgjafapólitíkus notar til að ná sér niður á þá sem  áttu í fullu tré við hann.

Það munu verða endalok Morgunblaðsins.


Hægrikrati enn á ferð

Það er óralangt síðan síðasti Geirfuglinn hvarf af jörðu hér. Það er styttra síðan til var sérstök pólitísk tegund sem nefndust "hægrikratar". Þeir voru með flokksskírteini í gamla Alþýðuflokknum en völdu sér bólstað þétt upp við landamærin sem lágu að Sjálfstæðisflokknum. Lítið mátti út af bregða svo þeir færu ekki út um bakdyramegin þegar mikið lá við og skiluðu stundum atkvæðum sínum í kassa Sjálfstæðisflokksins. Sérstaklega stunduðu þeir þetta í Borgarstjórnarkosningum í Reykjavík, héldu þar Sjálfstæðsiflokknum við völd árum saman.

Satt best að segja hélt maður að þessi tegund pólitíkusa væri útdauð eða þannig. Sumir fóru yfir svo sem Gísli bæjarstjóri á Akranesi. Að vísu var hann keyptur yfir með þægindi ágætu sem hann settist þegar í og var hvorki meira ná minna en bæjarstjórastóllinn á Akranesi. Og þar virðist Gísli una hag sínum vel og vonandi verður hann þar áfram, enginn býst við honum yfir landamærin aftur. 

Það er til einn Geirfugl hérlendis, reyndar uppstoppaður í Náttúrugripasafninu. En það er líka til einn ósvikinn "hægrikrati" ekki uppstoppaður og sprelllifandi.

Það er Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður á Morgunblaðinu og bókmenntaspekingur í Kiljunni.

Kolbrún segist vera búin að fá nóg af upphlaupsliði Vinstri grænna sem séu aftur og aftur tilbúnir til að taka stjórnarflokana í gíslingu. Vissulega er talsvert til í þessu hjá Kolbrúnu en hún sér ljósið og er greinilega búin að setja upp gömlu hægrikrata gleraugun. Hennar framtíðarsýn er að Samfylkingin slíti stjórnarsamstarfinu við Vinstri græn en myndi á stundinni aðra ríkisstjórn.

Hún vill fá aftur Þingvallamynstrið, að Samfylkingin myndi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. 

Ja, þvílík framtíðarsýn!!!

Á Samfylkingin að ganga til samstarfs aftur við Sjálfstæðisflokkinn sem ber höfuð ábyrgð á hruninu mikla í október 2008? Á virkilega að horfa fram hjá því að Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn í herðar niður í mörgum málu?. Á að gleyma því að enn ríkir andi Davíðs Oddssonar yfir flokknum? Á að horfa framhjá því að þeir í flokknum sem eru jákvæðir gagnvart samningum við Evrópusambandið er haldið niðri hvað sem það kostar? Á að horfa fram hjá því að útgerðarauðvaldinu var færður allur fiskveiðikvóti Íslands til eignar, til að braska með, til að veðsetja hvarvetna þar sem einhverja peninga var að fá? 

Ef Samfylkingin vill fremja pólitískt harakiri þá fer hún í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. En það verður ekki, ég held að Kolbrún sé síðasti hægrikratageirfuglinn.


Stuttur pistill til Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings

Þessi pistill var reyndar fyrst festur á skjá sem athugasemd við blogg Einars en svo ákvað ég að "afrita og líma", láta hann birtast í mínu eigin bloggi.

Ég var að heyra það eða lesa í fréttum að þú værir með bók í smíðum um þessi yfirgengilegu loftslagsmál. Það veitir sannarlega ekki af því að upplýsa, ekki aðeins almenning, heldur miklu fremur þá sem ráða meiru í okkar umboði, stjórnmálamenn. En ég er satt að segja svolítið svartsýnn á þín efnistök og hvers vegna er ég það? Fyrir nokkru var ég beðinn að koma með svolítinn fyrirlestur á fund hjá Rotaryklúbbnum Þinghóli í Kópavogi, var þar sem aldinn sagnaþulur að segja mönnum frá Kópavogi eins og ég upplifði hann frá því ég flutti þangað 1947 og næstu árin þar á eftir. Þú hafðir verið fyrirlesari hjá þessum klúbbi næst á undan og rætt um loftslagsmál. Það sem þú sagðir hafði ritari fært samviskusamlega til bókar og endursagði, satt best að segja var ég ekki sáttur við margt af því sem þar kom fram.

Ég var að fá stórmerka grein að mínu áliti í hendur úr Jyllands Posten eftir Henrik Svensmark sem ég er viss um að þú þekkir vel til. Þar er hann a skýra sínar kenningar um áhrif sólar og geimgeisla á hitastig jarðar, sú kenning kemur ekki síður fram í bók hans Klima og Kosmos (The Chilling Stars á ensku) Ég hef legið í þessum fræðum og kynnt mér kenningar sem flestra, fæ mikið af efni frá Dr. Fred Goldberg sem þú þekkir, ég sá að þú varst á fyrirlestri hans í Háskóla Íslands sl. vor. Má til með að skjóta því inn í að enginn fjölmiðill íslenskur fékkst til að ræða við Dr. Fred og ég veit líka að það vakti úlfúð í HÍ að hann skyld fá að tala þar, hann hefur ekki "réttar" skoðanir á loftslagsmálum.

Mín niðurstaða er þessi:

1. Það er ekkert beint samband milli aukningar CO2 í andrúmslofti og hækkunar hita á jörðinni, miklu frekar að aukning á CO2 sé afleiðing af hækkandi hita, sérstaklega frá hafinu sem er mesta forðabúrð fyrir CO2.

2. Það er hægt að gera sér grein fyrir hve mikið af CO2 í andrúmslofti er af manna völdum, það er ótrúlega lítið.

3. Það er hægt að gera sér grein fyrir því að hve mikið við getum minnkað CO2 í andrúmslofti með öllum þeim aðgerðum sem boðaðar eru með gífurlegri skattlagningu á atvinnulíf og þar með einstaklinga. Árangurinn yrði ótrúlega lítill.

4. Að láta frá sér fara yfrlýsingu um að "hitastig jarðar skuli ekki hækka meira en 2°C fram til 20050" er einhver mesta heimska sem frá stjórnmálamönnum hefur komið. Við mannlýsnar erum sem betur fer ekki færrar um að hafa nein teljandi áhrif á það.

5. Miðað við dvalarástand sólarinnar (minni sólbletti) sl. 2 ár á bendir allt til að jörðin sé að fara inn í kaldara ástand og líklegt að það standi fram yfir 2030. Staðreynd er að hiti á jörinnu hefur ekki farið hækkandi á þessum 9 árum sem liðin eru af öldinni.

6. Það er því skelfilegt til þess að vita að það sé búið að trylla nær alla stjórnmálamenn heimsins til að taka upp samskonar baráttu og Don Kíkóti háði við vindmillur í sögu Cervantes. Það var þó aðeins skemmtileg skáldsaga en gjörðir sjtórnmálamanna eru dýpsta alvara.

7. Það er kannski ekki furða þó Loftslagsnefnd  Sameinuðu þjóðanna, IPCC, remdist eins og rjúpan við staurinn með sínar spár um hækkandi hitastig út alla þessa öld, bráðnandi jökla og hækkun sjávarborðs. Þessi nefnd var sett á laggirnar til að sanna þetta en ekki til að finna það sem sannast er. Svo kom áróðursmeistarinn Al Gore með sína kvikmynd. Það hörmulegasta í öllu þessu sjónarspili var að honum og IPCC voru veitt Nóbelsverðlaun. Það liggur í augum uppi að þeir sem fengið hefur slík verðlaun geta ekki snúið til baka; þeir verður að berja höfðinu við steininn og halda sig við kenninguna, hvernig geta þeir sagt "þetta var að mestu leyti bull og vitleysa?


Sigmundur Davíð og Bjarni Ben. halda áfram í lýðskrumi og ábyrgðarleysi

Þá er líklega komið að lokapunkti Icesve samninga. Samningar munu hafa verið undirskrifaðir í dag, frumvarp lagt fram á Alþingi einnig, mælt fyrir því og það tekið til umræðna og afgreiðslu þar á eftir.

Það er með ólíkindum að lesa margt sem sagt er á blogginu um Icesve og það er einnig með ólíkindum að lesa og heyra viðbrögð foringja stjórnarandstöðunnar um þetta sama mál. Það er hægt að krefja stjórnmálaforingja um meiri ábyrgð og yfirvegun en einhverja bloggara þó mér ofbjóði orðbragð margra bloggara og svívirðingarnar sem dunið hafa á Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Það virðist sem svo að þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Ben. haldi að þeir geti komið þeirri skoðun inn hjá almenningi að Icesave skrímslið  hafi verið skapað af núverandi stjórn og stjórnarflokkum, Samfylkingu og Vinstri grænum.

En svo er aldeilis ekki. Það voru Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur sem  lögðu grunnin að þessu skrímsli. Þeir voru í ríkisstjórn árum saman og það voru þeir sem stjórnuðu einkavæðingu bankanna, sem að vísu var enginn einkavæðing. Bankarnir voru afhentir á spottprís vildarvinum flokkanna sem sumir hafa reynst einstaklingar sem ekki voru hæfir til að reka banka og eru  að verða uppvísir að fjárglæfrum sem engu tali tekur.

Ætlast þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Ben til þess að þeim verði aftur afhent völdin í þjóðfélaginu? Örugglega þrá þeir það heitast, þá gætu þeir jafnvel brugðið fæti fyrir það öfluga starf sem í gangi er til að fletta ofan af þeim þokkapiltum sem fengu bankana nánast gefna, það kann að verða æði óþægilegt fyrir þessa tvo flokka, Sjálfstæðisflokka- og Framsóknarflokk, ýmislegt sem á eftir að koma í ljós.


Stjórnarandstaðan fær skelfilega útkomu í skoðanakönnun "capacent"

Það er varla að maður trúi þeirri skelfilegu niðurstöðu sem stjórnarandstaðan fékk í skoðanakönnun "capacent". Þar var spurt:

"Ert þú ánægð(ur) eða ánægð(ur) með störf stjórnarandstöðunnar?

Heildarniðurstaðan er sú að 18% eru ánægð, 27% hvorki né og 51% óánægð.

Þessum niðurstöðum hefur lítt verið flíkað í fjölmiðlum. Eitt er víst að ef þetta væru niðurstöður um fylgi ríkisstjórnarmeirihlutans hefðu verið rekin upp mikil ramakvein og þess krafist að Ríkisstjórnin segði af sér tafarlaust.

En nú getur stjórnarandstaðan ekki sagt af sér, hún hefur sitt umboð frá kjósendum til að sitja á Alþingi og mun sitja sem fastast.

En hvað veldur þessari hrikalegu niðurstöðu fyrir stjórnarandstöðuna, það er vert að velta því fyrir sér.

Eftir hið skelfilega hrun er þjóðin óttaslegin og ráðvillt, það er  sannarlega skiljanlegt. Mikill meirihluti þjóðarinnar gerði þá kröfu til Alþingis og Alþingismanna að tekin yrðu upp ný vinnubrögð, steingelt karp lagt til hliðar og allir legðust á árar til að koma okkur sem fyrst upp úr kreppunni. Kosningarnar sl. vor gáfu Samfylkingunni og Vinstri grænum hreint og klárt umboð til að mynda ríkisstjórn og leiða uppbygginguna. Sjónarandstöðuflokkarnir fengu nýja forystu. Talsverðar vonir voru bundnar við nýju formennina, Bjarna Benediktsson hjá Sjálfstæðisflokki og Sigmund Davíð Gunnlaugsson hjá Framsóknarflokki.

Hafa þessir forystumenn breytt um vinnubrögð eða þeirra flokkar?

Það er nú eitthvað annað. Bjarni hefur verið ákaflega óöruggur og fálmandi í sinni forystu en hefur meir og meir verið að sækja inn á óraunsætt karp og yfirboð. Ég hafði vissulega trú á Sigmundi Davíð en ef einhvertíma hefur komist lýðskrumari inn á Alþingi þá er það hann. Þessir tveir menn hafa gefið tóninn um vinnubrögð stjórnarandstöðunnar. Þau vinnubrögð eru að reyna sífellt í öllum málum að koma höggi á Ríkisstjórnina. Það er oft æði auðvelt. Ríkisstjórnin tók við einhverjum mestu vandamálum sem nokkur ríkisstjórn á Íslandi hefur tekið við. Það er lítill vandi að fiska í gruggugu vatni, þessari stjórn hefur vissulega verið mislagðar hendur á stundum en verkefnið er tæplega mannlegt, hve lengi geta forystumenn stjórnarflokkanna risið undir hinni gífurlegu byrði sem þau bera?

Niðurstaða skoðanakönnunar "capacent" á traustinu sem fólk ber til stjórnarandstöðunnar lýsir skipbroti þessara tveggja forystumann, Bjarna og Sigmundar Davíðs. En þeir hafa með forystu sinni dregið fram lýðskrum margra flokksfélaga sinna. Fremstir fara þar Höskuldur Þórhallsson í Framsóknarflokki og Birgir Ármannsson í Sjálfstæðisflokki. En það er líka athyglisvert að sumir af þingliði þessara flokka láta ekkert í sér heyra.

En eru ekki stjórnarandstöðuflokkarni þrír?

Vissulega, þriðji flokkurinn sem var afsprengi Pottlokabyltingarinnar, Borgarahreyfingin, fékk fjóra þingmenn í síðustu kosningum. Þetta var flokkur sem ætlaði að bæta siðferðið á vinnubrögðin á Alþingi og í stjórnsýslunni. En hvernig stendur þá á því að þegar aðeins hált ár  er liðið frá kosningum hefur þessi flokkur, Borgarahreyfingin, engan mann á þingi?

Ástæðan er einfaldlega sú að þessir fjórir Alþingismenn Borgarahreyfingarinn reyndust gjörsamleg heillum horfnir, vissu ekkert hvað þeir vildu annað en að rífast, kljúfa og ganga á bak orða sinna. Er það sú siðbót sem við höfðum mesta þörf fyrir?

Innkoma þessar fjórmenninga á Alþingi íslendinga er orðinn skrípaleikur, jafnvel harmleikur. Störf á Alþingi eru svo mikilvæg fyrir þjóðina að þar er ekki rúm fyrir neina sirkustrúða. Þessir fjórir einstaklingar geta aðeins gert þjóð sinni einn greiða, mikill greiða.

Að segja af sér þingmennsku á stundinni!!!

En þroski þjóðarinnar er á hærra stigi en ég þorði að vona. Almenningur hefur lýst vantrausti á hina nýju forystumenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þá Bjarna Benediktsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson að ekki sé talað um þá fjóra sirkustrúða sem skolaði inn á Alþingi á vegum flokksins sáluga, Borgarahreyfingarinnar. Íslenska þjóðin krefst ÁBYRGRA vinnubragða af öllum stjórnmálamönnum, að sjálfsögðu af þeim sem eru í meirihluta á Alþingi en ekki síður af þeim sem er í stjórnarandstöðu.

Ætlar stjórnarandstaðan að halda áfram á sömu braut lýðskrums og upphrópana eða ætlar hún að taka upp virðingarverð, öguð og árangursrík vinnubrögð?

 

 


"Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur"

Það var að koma ný skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokka, ríkisstjórnar og flokksforingja. Þessi skoðanakönnun er að því leyti sérstök að hún byggir á mannréttingabrotum. Þeir sem eru 67 ára og eldri eru slegnir af, fá ekki að vera með, líklega halda þeir sem þessari skoðanakönnun stýra að allir sem komnir eru á þennan aldur séu elliærir. Ekki í fyrsta sinn sem eldra fólki er sýnd fyrirlitning.

En það sem vekur athygli er að Sjálfstæðisflokkurinn er skv. þessari skoðanakönnun stærsti flokkur landsins og stuðningurinn við Ríkisstjórnina er komin niður í um 43%, sem sagt minni hluti landsmanna styður stjórnina sem er að berjast við að moka þann flór sem Sjálfstæðisflokkurinn útbíaði með dyggum stuðningi Framsóknarflokksins.

Eru þeir Davíð, Árni Matt., Halldór og Finnur gleymdir?

Erfiðasta mál þessarar Ríkisstjórnar er tvímælalaust Icesave málið 

Skammtímaminni fólks er ótrúlega lélegt. Allur áróðurinn núna virðist beinast að því að gera núverandi Ríkisstjórn ábyrga fyrir því að Icesave reikningar Landsbankans urðu til, þessi ryksuga sem var sett í gang til að sópa peningum frá sárasaklausum almenningi í Hollandi og Bretlandi. 

Voru að Jóhanna og Steingrímur sem stofnuðu þessa svikamillu sem Icesave reikningarnir voru?

Þeir sem þá stofnuðu voru þessir fjórmenningar, Davíð, Árni matt., Halldór og Finnur Ing. sem lögðu grundvöllinn að því að hér varð til einhver mesta fjarhags- og bankabóla sem þekkst hefur í heiminum, bóla sem síðan sprakk framan í okkur öll íbúa þessa lands. Davíð var gerður að Seðlabankastjóra og hann vann það afrek að gera Seðlabanka Íslands gjaldþrota!!! Ríkissjóður varð að leggja bankanum til 200 milljarða krónu svo hægt væri að segja að hann væri starfhæfur. Heimdellingur Jónas stýrði Fjármálaeftirlitinu þannig að bankarnir fengu að valsa um óáreittir og þannig gátu þeir Sigurjón, Halldór, Kjartan og Björgúlfur sett ryksuguna í gang og sópað til sín peningum í útlöndum, peningum sem nú eru týndir og við öll fáum að súpa seiðið af um ókomin ár.

Og nú er stór hópur fólks búinn að gleyma því hverjir komu okkur á kaldan klaka, hvaða einstaklingar og hvaða flokkar.

Þessir tveir flokkar, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur og foringjar þeirra koma nú fram af ótrúlegu ábyrgðarleysi, reyna eingöngu að fiska í gruggugu vatni, vinna gegn hagsmunum almennings, nota hverja smugu til að reyna að koma höggi á þá sem eru að reyna að bjarga landi og þjóð frá þeim hörmungum sem þeir bera ábyrgð á.

Ætlar stór hluti þjóðarinnar virkilega að sýna þessum flokkum, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki og foringjum þeirra Bjarna og Sigmundi Davíð traust? Við þessa tvo menn voru bundnar nokkrar vonir, að þeir mundu endurnýja starfsaðferðir þessara flokka, þeir mundu leggjast á árar og hjálpa til við björgunarstarfið.

Þessir flokkar og þessir forystumenn hafa gjörsamlega brugðist.

 

 


Israelsríki notar nasistískar aðferðir

Það má búast við að mörgum svelgist á þegar þeir lesa fyrirsögnina að þessum pistli. Ég vil benda sterklega á að það er ekkert samasemmerki milli Ísraelsríkis og Gyðinga. Gyðingar eru búsettir nær um allan heim, ég lít ekki á Gyðinga sem þjóð, miklu frekar sem trúflokk. Það er því ákaflega sorglegt að svívirðilegt framferði þeirra sem ráða Ísraelsríki komi niður á öllum Gyðingum.

Ísraelsmenn hafa frá því þeir stofnuðu Ísraelsríki 1946 notað nákvæmlega sömu aðferð og Nasistar notuðu forðum, þeirra stefna var og Ísraelsríkis nú er það sem kallað var og er LEBENSRAUM, lífsrýmisstefna. Það má búast við að farið sé að fenna yfir landrán þýskra nasista, því miður, en Bretar og Vesturveldin létu það óátalið þó þeir tækju Austurríki herskildi og síðan stóran hluta Tékkóslóvakíu.

En lítum á kort af Palestínu:

Palestína

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lengst til vinstri er kort af Palestínu árið 1946 þá er innrás "Ísraela" að hefjast fyrir alvöru. Þá bjuggu, og höfðu búið lengi hlið við hlið Palestínumenn og Gyðingar, hvítu svæðin eru Gyðinga en svæði Palestínumanna græn. Árið 1947 er allt gjörbreytt. "Ísraelar" hafa sölsað undir sig meira og meira land og rekið þá sem landið áttu burt,  þeir hafa verið flóttamenn síðan. Síðan kemur sexdagastríðið og þriðja kortið sýnir hvernig skipting landsins er að því loknu.

En sl. rúm 40 ár hefur landránið haldið áfram. Það er greinilegt að stefnan er að útrýma Palestínumönnum alfarið, hrekja þá burt frá þeim aðskildu og strjálu byggðum sem þeir hýrast enn á. Þetta gera Ísraelsmenn með fullu samþykki hins kristna heims og með sérstökum stuðningi Bandaríkjanna.

Og það dapurlegasta  er að við Íslendingar erum, og höfum alltaf verið, einhverjir ötulustu stuðningsmenn Ísraelsríkis, það er sama hvað þeir gera. Þeir eru nýlega búnir að leggja samfélagið á Gasa í rúst og þá skipti ekki máli hve mörg börn voru drepin, þeir gráta það ekki þó Palestínumönnum fækki.

Ísraelar nota ekki gasklefa. En þó svo sé ekki þá er hægt að fremja þjóðarmorð eins og kjarnorkuveldið Ísrael er að gera.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Olli Rehn og sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins

Mér finnst full ástæða til að bjóða þann finnska Olli Rehn velkominn til Íslands. Við erum að fara í aðildarviðræður við ES, þess vegna er fengur að komu þessa góða gests sem hefur í tösku sinn litlar 2000 spurningar sem Jóhanna, Steingrímur og við öll verðum að svara skilmerkilega.

Sem betur fer tókst svo vel til að Alþingi samþykkti, naumlega þó, að sækja um aðild að ES. Á engan annan hátt var hægt að binda enda á áralangt þras um hvort þarna væru gull og græna skóga að fá eða ginnungagap ofstjórnar og allsherjar taps sjálfstæðis þjóðarinnar væri öruggt. Hvorutveggja er fjarri lagi.

En innganga íslands í EB er allt annar handleggur en umsókn um aðild og  aðildarviðræður. Menn setja fyrir sig einkum sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu bandalagsins og það er svolítið sem vefst fyrir mér, algjörum landkrabba, þegar ég kíki inn í þann furðulega heim sem kallast sjávarútvegsstefna ES. Ég ætla samt að velta þessu aðeins fyrir mér í von um að einhverjir sérfræðingar í þjóðarrétti kunni að álpast inn á bloggið mitt og sýni mér fram á hvað ég er grunnhygginn eða þá sem ég vona frekar; að ég sé að ræða mál sem sé þess virði að það sé skoðað.

Sjávarútvegsstefna ES virðist vera einhverskonar grautur á þann hátt að þjóðir fái leyfi til að fara inn í landhelgi annarra ríkja og veiða þar fisk, sérstaklega ef þær hafa eitthvað sem kallast veiðireynsla sem oftast er fyrri rányrkja eins og margar þjóðir stunduðu á Íslandsmiðum.

En nú spyr þessi fávísi landkrabbi:

Hvers vegna er það ótvírætt að hver þjóð á þau gæði sem felast í hafsbotninum undir eigin landhelgi?

Danir eiga ótvíræðan rétt til olíu og gass undir sinni landhelgi, það eiga Skotar einnig.

Enginn dregur í efa að við eigum það sem leynast kann á hafsbotni Drekasvæðisins, þessu horni lengst norður í höfum út undir 200 mílna mörkunum.

Og enn spyr landkrabbinn:

Af hverju gildir ekki ótvírætt það sama um fiskinn í sjónum og það sem gildir um það sem leynast kann í hafsbotninum. Víða eru staðbundnar fiskitegundir sem alast upp verða veiðanlegir með hækkandi aldri, hjá okkur er víst þorskurinn fremstur meðal jafningja í þeirri stóru fjölskyldu.

Svo eru líka flökkustofnar svo sem síld, makríll og kolmunni sem fara má segja "milli landa". Í dag verðum við að semja um veiðar úr slíkum stofnum, það er engin nýlunda.

Evrópusambandið er í syngjandi rugli með sína sjávarútvegsstefnu. Geta Íslendingar lagt fram lausnir sem losa þá úr snörunni, hver þjóð skal eiga þá staðbundnu fiskistofna sem eru sannarlega í þeirra landhelgi. Ef fiskur þvælist í Norðursjó yfir mörkin, fer úr Skoskri landhelgi yfir í Dnaska þá einfaldlega breytir hann um ríkisfang, verður Danskur.

Þetta var hans val.


Ban-Ki-moon hafður að háði og spotti á norðurslóðum

Ban-Ki-moon er maður nefndur kóreskur að þjóðerni. Hann gegnir þeirri stöðu að vera framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Það voru einmitt þau, að mörgu leyti mikilvægu samtök, sem ýttu úr vör fyrir meira en tveimur ártugum áróðrinum mikla um að meðalhiti jarðar fari hækkandi sem sé mikil ógn við lífríki okkar jarðarbúa. Sett var á stofn mikið apparat sem ber skammstöfunina IPCC og nú hafa þúsundir einstaklinga lifibrauð sitt af því að halda stíft fram með öllum ráðum að hiti fari hækkandi á hnettinum. Þeir vísindamenn sem andæfa og gleypa ekki kenninguna hráa eru úti í kuldanum á ráðstefnum IPCC í Kyotu, Bali, Posnan og eflaust verður það sama uppi á teningnum á væntanlegri ráðstefnu í Kaupmannahöfn eftir 3 mánuði.

En aftur að karlinum honum Ban-Ki-moon

Í fréttum í gærkvöldi er hann að sigla í ís einhversstaðar nálægt Svalbarða, umkringdur vísindamönnum sem eru að heilaþvo karlinn, sýna honum ís sem er að bráðna og sanna þar með kenninguna um hækkandi hitastig jarðar sem muni hafa skelfilegar afleiðingar.

Nú vill svo til að eðlisfræðin gerir það að verkum að ís eykst á norðurslóðum yfir kaldasta tímann, veturinn, en minnkar yfir þann heitari, sumarið.

Ef skrollað er á neðri blaðsíður á blogginu mínu koma fram upplýsingar um flatarmál Pólaríssins síðustu ár. þessar tölur eru frá japanskri vísindastofnun: Japan Aeorospace Exploration Agency. Þar koma meðal annars þessar tölur fram:

1. maí 2008 var Pólarísinn 13.160.938 ferkílómetrar

1. sept. 2008 var Pólarísinn 4.957.656 ferkílómetrar

Þarna má sjá hve gífurleg sumarbráðnunin er, sú sumarbráðnun hefur ætíð orðið hvarvetna á norðurslóðum, sú sumarbráðnun sem nú er notuð til að blekkja þann einfalda Ban-Ki-moon. Þess má geta vegna stöðugs áróðurs um að Pólarísinn sé að hverfa að ísinn hafði ekki verið jafn mikill að flatarmáli árum saman og 2008 en JAEA gerir mælingar á ísnum daglega með gervihnetti. Það er engin tilviljun að mælingarnar eru gerðar 1. maí og 1. sept ár hvert, þá kemur hámark og lágmark á flatarmálii íssins best í ljós. Flatarmál íssins segir ekki alla söguna um magnið, það þarf líka að mæla þykktina. Bandaríski herinn mælir þykktina með baujum sem reka með ísnum og árið 2008 reyndist hann sá þykkasti til margra ára.

Það var dapurlegt að heyra tilfinningaþrungna tölu Ban-Ki-moon í gærkvöldi í Sjónvarpinu, aumingja maðurinn trúði eflaust því sem honum var sýnt; að bráðnun íssins við Svalbarða væri einstakt fyrirbrigði sem sannaði allt sem kemur fram í vægast sagt vafasömum kenningum og skýrslum IPCC, loftslagsstofnunnar Sameinuðu þjóðanna.

En nú er ekki nema eðlilegt að einhver spyrji:

Hvernig getur einn pípulagningameistari í Þorlákshöfn efast um það sem þúsundir vísindamanna halda fram um hlýnun andrúmsloftsins og spá einnig stöðugri hlýnun alla þessa öld eða næstu 90 ár?

Því er til að svara að kenningarnar eru ákaflega ótrúverðugar.

CO2,koltvísýringur, er um það bil 1% að gróðurhúsahjálminum

Af þessu 1% hefur verið sýnt fram á að  aðeins 0,117% sé af manna völdum.

Það hefur verið sannað að á liðnum árþúsundum er EKKI fylgni milli aukningar CO2 í andrúmslofti og hækkandi hita á jörðinni.

Á árunum 1929 - 1933 minnkaði CO2 af mannavöldum um 30%. Á sama tíma jókst bæði meðalhiti jarðar og CO2 í andrúmslofti.

Á árunum 1940 - 1977 féll meðalhiti jarðar um 0,3°C og vetrarkuldi varð mikill. Á sama tíma jókst CO2 geysilega mikið. 

Síða árið 2002 hefur aukning á meðalhita jarðar stöðvast, sum árin fallið. Á sama tíma hefur maðurinn sleppt frá sér 150 milljörðar tonna af CO2 sem eftir kenningum IPCC ætti að hafa gífurleg áhrif til aukningar á meðalhita á jörðinni.

Og síðast en ekki síst: IPCC fékk nóbelsverðlaun fyrir starf sitt ásamt Al Gore. Þúsundir manna hafa lifibrauð sitt af því að vinna stöðugt að áróðri fyrir kenningum IPCC. Fjölmiðlar endurvarpa stöðugt þeirra áróðri, þeir sem efast eða vilja láta vísindin njóta sannmælis fá aldrei inni í fjölmiðlum. Ef þær þúsundir vísindamanna sem eru á snærum IPCC færu að halda öðru fram en hinni einu sönnu kenningu mundu þeir missa sitt lifibrauð.

Auðvitað er það mannlegt að halda utanum sína hagsmuni.

Þess vegna er Ban-Ki-moon heilaþveginn við Svalbarða.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband