Færsluflokkur: Dægurmál
11.10.2009 | 12:01
Ögmundur nýtur víðtæks stuðning hjá stjórnarandstöðunni sem er með allt niður um sig samkvæmt skoðanakönnun "capacent"
Ég hafði lengi vel trú á því að Vinstri grænir væru "stjórntækir", með þeim væri hægt að vinna. Kolbrún Bergþórsdóttir er æði hörð í þeirra garð í pistli sínum í Mbl. í morgun. En satt best að segja verð ég að játa að ég er að mörgu leyti sammála Kolbrúnu. Þau Steingrímur J. og Katrín Jakobsdóttir eru vissulega traustsins verð og meira að segja kom Álfheiður Ingadóttir nokkuð sterk út úr vinnu Fjárlaganefndar í sumar, það kom mér á óvart. En nú stendur Álfheiður frammi fyrir mestu áskorun sem hún hefur fengið, er orðinn Heilbrigðisráðherra.
Svo koma þau sem ekki virðist hægt að vinna með. Ögmundur er þar fremstur í flokki, hann reynir að færa flótta sinn úr ríkisstjórn í hugsjónabúning og höfðar títt til sinnar samvisku. Ég held að forystumaður einna stærstu launþegasamtaka landsins hafi hreinlega misst kjarkinn; að vera skyndilega orðinn niðurskurðarmeistari í viðkvæmasta málflokki stjórnsýslunnar, heilbrigðismálunum. Það er auðvitað svipað og setja mann, sem ekki þolir að sjá blóð, í að skera hausa af lömbum í sláturhúsi. Svo hef ég aldrei skilið neitt af því sem frá Guðfríði Lilju kemur, hún virðist lifa í einhverri útópíu algjörlega ófær um að ræða um og horfa á mál út frá raunsæi. Ekki veit ég á hvaða leið Ari Gíslason er, hann virðist vera fæddur til "að vera á móti". Ungi bóndinn úr dölunum Ásmundur Daði er holdgervingur gamla bændaafturhaldsins og hefði plumað sig vel sem framsóknarmaður um miðja síðustu öld.
Á þessari stundu er ég ekki bjartsýnn á framtíð núverandi Ríkisstjórnar, en ef hún splundrast innan frá hvað tekur þá við?
Um það ætti hið svokallaða "samvisku- og hugsjónafólk" Vinstri grænna að leiða hugann að um leið og það horfir, að eigin áliti, á engilhreinar ásjónur sínar í speglinum á hverjum morgni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.10.2009 | 11:32
Stjórnarandstaðan fær skelfilega útkomu í skoðanakönnun "capacent"
Það er varla að maður trúi þeirri skelfilegu niðurstöðu sem stjórnarandstaðan fékk í skoðanakönnun "capacent". Þar var spurt:
"Ert þú ánægð(ur) eða ánægð(ur) með störf stjórnarandstöðunnar?
Heildarniðurstaðan er sú að 18% eru ánægð, 27% hvorki né og 51% óánægð.
Þessum niðurstöðum hefur lítt verið flíkað í fjölmiðlum. Eitt er víst að ef þetta væru niðurstöður um fylgi ríkisstjórnarmeirihlutans hefðu verið rekin upp mikil ramakvein og þess krafist að Ríkisstjórnin segði af sér tafarlaust.
En nú getur stjórnarandstaðan ekki sagt af sér, hún hefur sitt umboð frá kjósendum til að sitja á Alþingi og mun sitja sem fastast.
En hvað veldur þessari hrikalegu niðurstöðu fyrir stjórnarandstöðuna, það er vert að velta því fyrir sér.
Eftir hið skelfilega hrun er þjóðin óttaslegin og ráðvillt, það er sannarlega skiljanlegt. Mikill meirihluti þjóðarinnar gerði þá kröfu til Alþingis og Alþingismanna að tekin yrðu upp ný vinnubrögð, steingelt karp lagt til hliðar og allir legðust á árar til að koma okkur sem fyrst upp úr kreppunni. Kosningarnar sl. vor gáfu Samfylkingunni og Vinstri grænum hreint og klárt umboð til að mynda ríkisstjórn og leiða uppbygginguna. Sjónarandstöðuflokkarnir fengu nýja forystu. Talsverðar vonir voru bundnar við nýju formennina, Bjarna Benediktsson hjá Sjálfstæðisflokki og Sigmund Davíð Gunnlaugsson hjá Framsóknarflokki.
Hafa þessir forystumenn breytt um vinnubrögð eða þeirra flokkar?
Það er nú eitthvað annað. Bjarni hefur verið ákaflega óöruggur og fálmandi í sinni forystu en hefur meir og meir verið að sækja inn á óraunsætt karp og yfirboð. Ég hafði vissulega trú á Sigmundi Davíð en ef einhvertíma hefur komist lýðskrumari inn á Alþingi þá er það hann. Þessir tveir menn hafa gefið tóninn um vinnubrögð stjórnarandstöðunnar. Þau vinnubrögð eru að reyna sífellt í öllum málum að koma höggi á Ríkisstjórnina. Það er oft æði auðvelt. Ríkisstjórnin tók við einhverjum mestu vandamálum sem nokkur ríkisstjórn á Íslandi hefur tekið við. Það er lítill vandi að fiska í gruggugu vatni, þessari stjórn hefur vissulega verið mislagðar hendur á stundum en verkefnið er tæplega mannlegt, hve lengi geta forystumenn stjórnarflokkanna risið undir hinni gífurlegu byrði sem þau bera?
Niðurstaða skoðanakönnunar "capacent" á traustinu sem fólk ber til stjórnarandstöðunnar lýsir skipbroti þessara tveggja forystumann, Bjarna og Sigmundar Davíðs. En þeir hafa með forystu sinni dregið fram lýðskrum margra flokksfélaga sinna. Fremstir fara þar Höskuldur Þórhallsson í Framsóknarflokki og Birgir Ármannsson í Sjálfstæðisflokki. En það er líka athyglisvert að sumir af þingliði þessara flokka láta ekkert í sér heyra.
En eru ekki stjórnarandstöðuflokkarni þrír?
Vissulega, þriðji flokkurinn sem var afsprengi Pottlokabyltingarinnar, Borgarahreyfingin, fékk fjóra þingmenn í síðustu kosningum. Þetta var flokkur sem ætlaði að bæta siðferðið á vinnubrögðin á Alþingi og í stjórnsýslunni. En hvernig stendur þá á því að þegar aðeins hált ár er liðið frá kosningum hefur þessi flokkur, Borgarahreyfingin, engan mann á þingi?
Ástæðan er einfaldlega sú að þessir fjórir Alþingismenn Borgarahreyfingarinn reyndust gjörsamleg heillum horfnir, vissu ekkert hvað þeir vildu annað en að rífast, kljúfa og ganga á bak orða sinna. Er það sú siðbót sem við höfðum mesta þörf fyrir?
Innkoma þessar fjórmenninga á Alþingi íslendinga er orðinn skrípaleikur, jafnvel harmleikur. Störf á Alþingi eru svo mikilvæg fyrir þjóðina að þar er ekki rúm fyrir neina sirkustrúða. Þessir fjórir einstaklingar geta aðeins gert þjóð sinni einn greiða, mikill greiða.
Að segja af sér þingmennsku á stundinni!!!
En þroski þjóðarinnar er á hærra stigi en ég þorði að vona. Almenningur hefur lýst vantrausti á hina nýju forystumenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þá Bjarna Benediktsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson að ekki sé talað um þá fjóra sirkustrúða sem skolaði inn á Alþingi á vegum flokksins sáluga, Borgarahreyfingarinnar. Íslenska þjóðin krefst ÁBYRGRA vinnubragða af öllum stjórnmálamönnum, að sjálfsögðu af þeim sem eru í meirihluta á Alþingi en ekki síður af þeim sem er í stjórnarandstöðu.
Ætlar stjórnarandstaðan að halda áfram á sömu braut lýðskrums og upphrópana eða ætlar hún að taka upp virðingarverð, öguð og árangursrík vinnubrögð?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.10.2009 | 11:53
Varasamar skotgrafir
Eftirfarandi athugasemd gerði ég við skrif Eyþórs Arnalds foringja Sjálfstæðismanna í Árborg. Ég nota sömu fyrirsögn og hann og vona að hann og aðrir Sjálfstæðismenn fari nú að líta í eigin barm, gangast við sínum verkum og biðjast afsökunar. Ég get einnig bætt því við að fjölmargir Sjálfstæðismenn hafa verið miklu svæsnari, óbilgjarnari og orðljótari en Eyþór.
Persónulegar árásir einkenna umræðu og skrif.
Þetta segir þú Eyþór Arnalds að framan og engan hittir það jafn rækilega fyrir og sjálfan þig. Frá því flokkur þinn, Sjálfstæðisflokkurinn, hrökklaðist frá völdum eftir langt valdatímabil þar sem þessum sama flokki tókst að leggja grundvöllinn að hruninu mikla með einkavinavæðingu bankanna og nýfrjálshyggju þá hefur þú og fjölmargir flokksfélagar þínir meira farið eftir þessu mottói sem ég vitna í:
Persónulegar árásir einkenna umræðu og skrif.
Í stað þess að sýna auðmýkt og biðja Íslenska þjóð afsökunar á framferði ykkar stundið þið einmitt að sem þú segir. Þið fiskið í gruggugu vatni í öllum málum, haldið að það sé leiðin til að komast aftur til valda.
Er almenningur svo skyni skroppinn að hann láti glepjast?
Þið Sjálfstæðismenn hafið sloppið ótrúlega vel. Þið er ráðist á núverandi Ríkisstjórn vegna ICESAVE en hverjir bjuggu þann óskapnað til? Það voru þeir sem Sjálfstæðisflokkurinn rétti Landsbankann á silfurfati (þar með talinn framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins) og þessir útvöldu óreiðumenn áttu ekki einu sinni fyrir útborguninni, slógu lán í Búnaðarbankanum og ætlast nú til að eftirstöðvarnar verði afskrifaðar!!!
Við skulum ekki gleyma því að það var núverandi ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrum Seðlabankastjóri sem kom þeim banka, sem átti að var bakhjarl íslensks fjármálalífs, á svo kaldan klaka að hann varð gjaldþrota. Ríkisstjórnin neyddist til að byggja Seðlabankann aftur upp með 300 milljarða kr. framlagi, það var og er skelfileg blóðtaka sem við öll súpum seiðið af.
Og þennan mann vörðuð þið með kjafti og klóm og gerið enn og nú hefur hann yfirtekið Morgunblaðið til að gera það að málpípu harðasta kjarnans úr Sjálfstæðisflokknum sem ábyrgð ber á hruninu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2009 | 11:30
"Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur"
Það var að koma ný skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokka, ríkisstjórnar og flokksforingja. Þessi skoðanakönnun er að því leyti sérstök að hún byggir á mannréttingabrotum. Þeir sem eru 67 ára og eldri eru slegnir af, fá ekki að vera með, líklega halda þeir sem þessari skoðanakönnun stýra að allir sem komnir eru á þennan aldur séu elliærir. Ekki í fyrsta sinn sem eldra fólki er sýnd fyrirlitning.
En það sem vekur athygli er að Sjálfstæðisflokkurinn er skv. þessari skoðanakönnun stærsti flokkur landsins og stuðningurinn við Ríkisstjórnina er komin niður í um 43%, sem sagt minni hluti landsmanna styður stjórnina sem er að berjast við að moka þann flór sem Sjálfstæðisflokkurinn útbíaði með dyggum stuðningi Framsóknarflokksins.
Eru þeir Davíð, Árni Matt., Halldór og Finnur gleymdir?
Erfiðasta mál þessarar Ríkisstjórnar er tvímælalaust Icesave málið
Skammtímaminni fólks er ótrúlega lélegt. Allur áróðurinn núna virðist beinast að því að gera núverandi Ríkisstjórn ábyrga fyrir því að Icesave reikningar Landsbankans urðu til, þessi ryksuga sem var sett í gang til að sópa peningum frá sárasaklausum almenningi í Hollandi og Bretlandi.
Voru að Jóhanna og Steingrímur sem stofnuðu þessa svikamillu sem Icesave reikningarnir voru?
Þeir sem þá stofnuðu voru þessir fjórmenningar, Davíð, Árni matt., Halldór og Finnur Ing. sem lögðu grundvöllinn að því að hér varð til einhver mesta fjarhags- og bankabóla sem þekkst hefur í heiminum, bóla sem síðan sprakk framan í okkur öll íbúa þessa lands. Davíð var gerður að Seðlabankastjóra og hann vann það afrek að gera Seðlabanka Íslands gjaldþrota!!! Ríkissjóður varð að leggja bankanum til 200 milljarða krónu svo hægt væri að segja að hann væri starfhæfur. Heimdellingur Jónas stýrði Fjármálaeftirlitinu þannig að bankarnir fengu að valsa um óáreittir og þannig gátu þeir Sigurjón, Halldór, Kjartan og Björgúlfur sett ryksuguna í gang og sópað til sín peningum í útlöndum, peningum sem nú eru týndir og við öll fáum að súpa seiðið af um ókomin ár.
Og nú er stór hópur fólks búinn að gleyma því hverjir komu okkur á kaldan klaka, hvaða einstaklingar og hvaða flokkar.
Þessir tveir flokkar, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur og foringjar þeirra koma nú fram af ótrúlegu ábyrgðarleysi, reyna eingöngu að fiska í gruggugu vatni, vinna gegn hagsmunum almennings, nota hverja smugu til að reyna að koma höggi á þá sem eru að reyna að bjarga landi og þjóð frá þeim hörmungum sem þeir bera ábyrgð á.
Ætlar stór hluti þjóðarinnar virkilega að sýna þessum flokkum, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki og foringjum þeirra Bjarna og Sigmundi Davíð traust? Við þessa tvo menn voru bundnar nokkrar vonir, að þeir mundu endurnýja starfsaðferðir þessara flokka, þeir mundu leggjast á árar og hjálpa til við björgunarstarfið.
Þessir flokkar og þessir forystumenn hafa gjörsamlega brugðist.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.9.2009 | 13:02
Hvað varð um fangelsið á Keflavíkurflugvelli?
Þegar Donald Rumsfield ákvað að leggja niður herstöðina á Keflavíkurflugvelli góðu heilli tæmdust allar byggingar herstöðvarinnar á augabragði. Þessar byggingar hafa síðan fengið ný hlutverk og komið að góðum notum margar hverjar.
En svo stór herstöð sem sú sem var á Miðnesheiði hlýtur að hafa rekið stórt og mikið fangelsi, í öllum herstöðvum Bandríkjanna eru rekin fangelsi og þau mörg hver notuð til voðaverka og mannréttindabrota.
Í fréttum RÚV í hádeginu var við tal við Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra um þá furðulegu stöðu sem upp er komin í fangelsismálum hérlendis; brotamenn ganga lausir svo hundruðum skiptir vegna þess að fangelsi landsins eru yfirfull. Ráðherrann sagði að nú ætti að auglýsa eftir húsnæði fyrir fangelsi og auðvitað mun það kalla á mikil fjárútlát að innrétta leiguhúsnæði svo það verði fangelsi.
- En ég spyr; er ekki til það fangelsi sem Kanarnir ráku á Keflavíkurflugvelli, er það ekki lengur til? Ef það er enn til hvers vegna er það þá ekki notað til að koma lögum yfir eitthvað af þeim brotamönnum sem ganga lausir? Meira að segja dæmdir brotamenn eiga kröfu á að mannréttindi séu ekki brotin. Ef dæmdur maður getur ekki afplánað og verður jafnvel að bíða árum saman vegna "húsnæðisskorts" þá er í raun verið að þyngja refsingu hans umfram það sem dómsstólar ákváðu.
Hvað um fangelsið á Keflavíkurflugvelli?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þar kom að því að Satan sjálfur fékk uppreisn æru.
Á hinum dimmu dögum og árum Litlu ísaldar á 18. öld var Satan í stóru hlutverki hjá Kristinni kirkju. Ekki dugðu nein vettlingatök á þeim sem hann klófesti, það dugði enginn kattarþvottur. Þeir sem í greipum hans lentu voru hreinlega brenndir á báli, þar með voru skelfileg áhrif þeirra útmáð. Síðar komst Kristin kirkja á þá skoðun að áhrif Skrattans hefðu verið stórlega ofmetin og hann lifir aðeins í hugarheimi þeirra allra trúuðustu.
En nú hefur Satan verið endurreistur í nýjum trúarbrögðum og eins og í kristninni er þar kominn fram á sviðið fallinn engill sem ógnar nú tilveru mannkyns svo að jafnvel hillir undir heimsenda.
Þessi "engill" hefur gengið undir nafninu KOLTVÍSÝRINGUR, þekktur undir sínu vísindamerki CO2. Þetta er gastegund eða eigum við að segja lofttegund sem hefur haft það hlutverk að efla allan jarðargróður og skapa súrefni svo að flest kvikindi jarðar, þar með talið maðurinn, geti andað og lifað.
En nú er "engillinn" fallinn og orðinn að hinum vonda, sjálfum Lúsifer.
Eins og í öðrum trúarbrögðum þá er það boðskapur dagsins að ráðast gegn hinum illa með ráðum og dáð því annars sé jafnvel heimsendir skammt undan. Og söfnuður og æðstuprestar þessara nýju trúarbragða eru engir aukvisar. Þeir skríða allsstaðar inn, þeir hafa náð taki á öllum helstu og valdamestu stjórnmálamönnum heimsins með fáum undantekningum. Þeir hafa náð tökum á flestum fjölmiðlum hvarvetna og Ísland er þar engin undantekin,
Í fréttum Ríkisútvarpsins kl. 16:00 í gær var lesin dæmalaus dómsdagsspá. Hún kann að vera mörgum gleymd og hún hefur farið fram hjá mörgum. En boðskapurin skal í pöpulinn og hann er að mestu endurtekinn á bls. 13 í Morgunblaðinu í dag. Er það tilviljun að þessi dómsdagsspá skuli birtast í þeim tveimur fjölmiðlum sem mest trausts njóta næstum samtímis?
Það þarf engan viskubrunn til að sjá að það eru sterk öfl á bak við nýju trúarbrögðin sem greinilega eru að blása til trúboðsherferðar.
Meira að segja á forsíðu Morgunblaðsins er frétt um það að það skal beita gamaldags aðferðum í baráttunni við hinn afturgengna Satan. Það á ekki að brenna neinn á báli í orðsins fyllstu merkingu. Það á að beita gömlu góðu aðferðunum sem kuklarar notuðu áður fyrr gegn draugum, það á að kveða hann niður í jörðina á svo rammbyggilega hátt að Skrattakollur komist aldrei upp aftur.
Og hver tekur verknaðinn að sér?
Það er sjálf Orkuveita Reykjavíkur sem ætlar að leggja í þetta fjármagn og mannafla að kveða Skrattann KOLTVÍSÝRING niður í sjálfa Hellisheiði. Að vísu mun þetta kosta mikla peninga og þetta skilar engum arði nema kannski því að fresta heimsenda eitthvað. Orkuveitan hefur verið að kveina um peningaleysi en hvað þýðir að fást um það. Á hinum köldu árum Litlu ísaldar fórnuðu menn dýrmætum eldiviði til að brenna þá sem voru á valdi Satans, tóku hrísið hann frá ekkjum og munaðarleysingjum til að bjarga sálarheill þessara aumingja, skipti ekki öllu máli hvort þeir króknuðu í dag eða á morgun.
Orkuveita Reykjavíkur á þann kost að hækka gjaldskrárnar til að afla fjár til þessa þjóðþrifaverks; að kveða niður í bergið óvininn sjálfan, Skrattann Koltvísýring.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.9.2009 | 17:20
Agnes Bragdóttir er söm við sig
Samtal Agnesar við Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra í Morgunblaðinu í dag er fyrir margra hluta sakir stórmerkilegt. Það sem stendur þó upp úr er hve Steingrímur fer vel yfir vettvang þeirrar gífurlegu vinnu og þeirra nánast yfirgengilegu erfiðleika sem hann og aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar eiga við að glíma. Það er öruggt að meginþunginn liggur á herðum hans og Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Ég get ekki séð fyrir mér tvo aðra hæfari einstaklinga úr röðum stjórnmálamanna til að glíma við vandann, vonandi að þeim endist þrek til glímunnar.
En annað var athyglisvert og það voru spurningar Agnesar. Í hveri spurningu voru settar fram allskyns fullyrðingar um ýmislegt sem var annaðhvort lævís áróður eð fullyrðingar sem voru fjarri því að vera staðreyndir. Steingrímur þurfti nánast í hverju svari að byrja á því að leiðrétta frasana og röngu fullyrðingarnar sem frá Agnesi komu. Þá læddi hún því inn að leiðréttingar Steingríms sýndu hvað hann væri viðkvæmur!
Að lestri loknum datt mér í hug að breyta um svið og skipta um aðalleikanda. Lét Agnesi sitja sem fastast í sínu hlutverki en lét hann hafa annan viðmælanda, sá heitir Davíð Oddsson, fyrrum var forsætisráðherra, utanríkisráðherra og að lokum formaður bankastjórnar í Seðlabankanum. Raunar er handritið til, það hljóta allir að muna eftir flaðrandi viðtölum Agnesar Bragadóttur við átrúnaðargoð sitt.
Þá hefði engar getsakir eða neikvæðar og rangar fullyrðingar komið frá spyrlinum.
Það verður seint sagt að Agnes Bragadóttir sé með heiðarlegustu blaðamönnum á Íslandi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2009 | 00:14
Fjallið tók jóðsótt og fæddist lítil mús
Menn flykktust á Austurvöll eftir hrunið mikla, börðu bumbur og pottlok undir stjórn Harðar Torfasonar, hentu drullu og eggjum í lögregluna, brutu rúður í Alþingishúsinu og Stjórnarráðinu, réðust inn á Hótel Borg og skemmdu útsendingarbúnað, komu í veg fyrir að "stjórnmálamenn" gætu komið máli sínu til almennings, þannig var málfrelsið á síðasta degi ársins 2008, ársins þegar bankaránin voru framin af þeim sem áttu alla möguleika til þess því þeir höfðu lyklana.
Niður með alla stjórnmálmenn, nýtt blóð, nýjar heilbrigðar persónur taki við!
Þetta var herhvötin, allt í einu var okkur sagt að það væri fullt af fólki í þjóðfélaginu sem hefði gáfur, hæfileika og framtíðarsýn, það þyrfti aðeins kosningar og henda öllu gamla settinu út, inn með nýjar mublur. Vissulega var það uppörvandi að fá að heyra það að meðal pottlokahjarðarinnar á Austurvelli leyndist afburðafólk sem gæti bjargað öllu, fólk sem hefði hugsjónir, fólk sem væri heiðarlegt og ekki síst þeim kostum búið að þekkja og virða lýðræðið, fólk sem gæti unnið af heilindum, fólk sem ætlaði að hlýða vilja "fólksins" í landinu, ef það fengi að taka við yrði allt gott, öll dýrin í skóginum yrðu vinir.
Svo komu kosningar
Nú áttu landsmenn tækifærið og hreinsa til í þeim hópi sem hafði komið Íslandi á kaldan klaka og kjósa nýja fólkið frá Austurvelli. Þá gerðist nokkuð sérkennilegt:
Tugir þúsunda kusu aftur þá sem höfðu eyðilagt okkar ágæta þjóðfélag, þeir kusu Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn, þessa tvo flokka sem höfðu stjórnað allri spillingu á Íslandi svo lengi sem ég man eftir og er ég nú svo gamall sem á grönum má sjá (lítið á myndina). Þessir tveir flokkar tóku "nýfrjálshyggjunni" opnum örmum, þeir einkavæddu ekki fyrirtækin sem þjóðin átti, þeir "einkavinavæddu" þau flest svo sem bankana, Símann, Íslenska aðalverktaka og svo mætti lengi telja.
En það gerðist einnig í þessum merkilegu kosningum að nýja aflið frá Austurvelli bauð fram til Alþingis albúið til að reisa aftur þjóðarbúið. Að vísu sprungu sumir á limminu strax og gáfust upp eftir nokkra misheppnaða upplýsingafundi. Bjarni bóksali á Selfossi (þessi með rýtinginn í erminni) og sakleysislegur og ágætur klerkur í Hafnarfirði Þórhallur að nafni sögðust ekki nenna þessu, ágæt dómgreind.
En AFLIÐ komst á þing, Borgarahreyfingin. Þór, Birgitta, Margrét og Þráinn. Satt best að segja hélt ég að Þór og Margrét hefðu eitthvað til brunns að bera, jafnvel Birgitta einnig en ég hafði enga trú á Þráni, þessum ágæta kvikmyndaleikstjóra og rithöfundi með allan sinn húmor. En hvað nú? Eini maðurinn sem ég ber einhverja virðinu fyrir nú er Þráinn, hann er þó þeirrar náttúru að vera heiðarlegur og vilja standa við sín orð. Um þau hin þrjú ætla ég ekki að eyða fleiri orðum. Og hvar er sá ágæti Hörður Torfason, sem ég held upp á bæði sem trúbador og ekki síður sem eindreginn kjarkmann í mannréttindamálum eins og hann hefur sýnt óumdeilanlega í baráttu samkynhneigðra á liðnum áru. Er hann týndur?
Ég hef enn trú á minni þjóð
Vegna þess að kjarni þessarar þjóðar skynjaði hvar veilan lá. Kjarni þessarar þjóðar bar gæfu til þess að veita tveimur vinstri flokkum ( þetta hugtak er að vísu að verða æði gamaldags en við höfum ekkert betra) Samfylkingunni og Vinstri grænum MEIRIHLUTA Á ALÞINGI. Ég mun ætíð á þeim árum sem ég á eftir verða stoltur af Alþingiskosningunum í apríl 2009. Ef eitthvað verður til þess að bjarga okkur út úr því skelfilega frjálshyggjusukki sem Sjálfstæðisflokkurinn með stuðningi Framsóknarflokksins kom okkur í þá er það þessi ótrúlegu úrslit: AÐ ÞESSIR TVEIR FLOKKAR SKYLDU FÁ MEIRIHLUTA ATKVÆÐISBÆRRA MANNA Í KOSNINGUNUM 2009! Þess vegna er Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra Íslands og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Ég ætla að ljúka þessum pistli með þökkum til Steingríms J. Sigfússonar fyrir rökfastan og málefnalegan málflutning í Kastljósi í kvöld.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.8.2009 | 10:09
Hvernig eru hinir útvöldu bloggarar valdir?
Ég er búinn að vera samferða Morgunblaðinu æði lengi; sem áskrifandi, sem pistlahöfundur og nú bloggari um nokkurt skeið. Bloggið er vissulega merkilegt fyrirbæri þó ég hafi ekki séð jafn mikið bull í nokkrum fjölmiðli sem blogginu. En á milli eru ýmsar góðar ábendingar og sumir stunda yfirveguð og nokkuð innihaldsrík skrif.
En þegar slegið er á <blog.is> þá birtist fyrst aðgangur að einhverjum 8 útvöldum sem þá auðvitað verða þeir sem mest eru heimsóttir, þar fyrir neðan ýmsir sem hægt er að velja á mismunandi hátt.
En það sem vekur athygli mína er að þessir 8 útvöldu eru svo sannarlega útvaldir því líklega er þetta ekki nema 20 - 30 manna hópur sem nýtur þeirrar náðar að komast inn í þessa "elítu". Þess vegna koma þarna fyrir aftur og aftur sömu andlitin (eða merkin) og það sem er merkilegra; flestir sem þangað upp komast eru neikvæðir nöldrarar, svo virðist sem jákvæðni og bjartsýni eigi ekki upp á pallborðið þegar í "elítuna" er valið.
Nú kann einhver að spyrja; hefur þú sem þessar línur ritar aldrei komist í "elítuna" og svo er ertu þá ekki bar öfundsjúkur? Ég hef aldrei þangað upp komist, sé örstutt í smettið á mér stundum þegar ég skrifa pistil undir <nýtt blog> en er venjulega horfinn að kveldi eða morgni.
En eftir stendur spurningin: Hver velur og hvernig er "elíta þeirra átta valin"?
Líklega fæ ég aldrei svar við því.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.7.2009 | 22:25
Sjónvarpið er að verð vonlaus fjölmiðill
Eru þeir sem ráða dagskrá Sjónvarpsins gengnir af göflunum? Ég lagði það á mig í kvöld að horfa á langan þátt um Elísabetu Bretadrottningu dragnast með Pusa mann sinn í heimsókn til Bush og Láru meðan þau bjuggu enn í Hvíta húsinu (en sem betur fer eru þau farin þaðan), Ekki nóg með það að sýndur hafi verið langur þrautleiðinlegur þáttur um breska drottningarslektið heldur stendur það svar á hvítu í dagskrárdálki Morgunblaðsins að það eigi eftir
að koma fimm þættir í viðbót næstu fimm mánudaga!!!
Hverjir hafa ánægju af slíkum þáttum? það væri fróðlegt að þeir gefi sig fram því ég hygg að það verði ekki langur listi.
Í gærkvöldi var að sjálfsögðu bíómynd sunnudagskvöldsins. Þar var tilkynntur til leiks einn af mínum uppáhaldsleikurum, Jeremy Irons. En þrátt fyrir að honum brigði fyrir gafst ég upp enda engin leið að botna hið minnsta í framvindunni. Sjónvarpið hefur haft það fyrir reglu að sýna furðulegar eða sorglegar myndir á sunnudagskvöldum. Margir eru haldnir verkkvíða fyrir komandi vinnuviku, væri ekki rétt að hressa fólk við á sunnudagskvöldum með hressilegum og skemmtilegum myndum.
En það væri ekki réttlátt að minnast ekki á einstaka góða þætti. Þættirnir um sólkerfi okkar og sérdeilis um jörðina eru stuttir, hnitmiðaðir og fróðlegir.
En aftur í það neikvæða. Hverjir hafa áhuga á Dönum sem elta uppi aðra Dani víðsvegar um veröldina og láta líta út sem þeir komi á óvart með sjaldséðan ættingja. Dapurleg amerísk fyrirmynd.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 114095
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar