Færsluflokkur: Dægurmál

Það er "ástsælt" að fara "erlendis" og "versla" jólagjafir

Ég var að fá póst á netinu frá Olís þar sem ég er einn af lyklabörnunum. Þar er mér boðið að koma í Ellingsen á Granda á morgun og "versla jólagjafir" með 20% afslætti.

Nú er ég svo skrítin skepna að ég "versla" aldrei jólagjafir en það kemur fyrir að ég "kaupi" jólagjafir ef ég á einhverjar krónur í buddunni.

Það eru ekki ýkja mörg ár síðan rætt var um "að það væri vinsælt að fara til útlanda og kaupa jólagjafir".

Nú er ég ekki að reka áróður fyrir svoleiðis flakki. En ég mótmæli þeirri lágkúru sem er orðin svo áberandi hjá tveimur starfsstéttum; fjölmiðlamönnum og ekki síður textahöfundum á auglýsingastofum.

Það er með ólíkindum á hve skömmum tíma þessu fólki tekst að útrýma góðum og gildum orðum í íslensku máli og koma með í staðinn, oft á tíðum,  algjör orðskrípi.


Kenningin um að koltvísýringur CO2 sé að hækka hita í heiminum hefur aldrei verið sönnuð

Kenningin er ekki sannanleg, enda kenning.

Þakka þér Höski Búi fyrir þessa yfirlýsingu. Þarna er einmitt kjarni málsins; óljós kenning er að leiða okkur á hrikalegar villigötur, það er búið að trylla  flesta stjórnmálamenn til að eyða milljörðum í baráttu til að halda niðri hnattrænum hita, (sem ekki er hægt og það er heldur ekki að hlýna á jörðinni) og skattleggja fram úr hófi atvinnulíf sem mun síðan leiða til  lélegri lífskjara og meiri hörmunga fyrir hinar"gleymdu" þjóðir sem eru að eru án vatns, án heilbrigðisþjónustu og matar.

Þú segir að ég endurtaki alltaf það sama og því neita ég ekki, ég krefst svara, þetta er einmitt það sem þíð á Loftslag.is gerið; endurtakið alltaf það sama. 

Þú segir að þið fjallið um loftslagsbreytingar ekki veðrið. Síðan segið þið að aukning á CO2 og hlýnun jarðar hafi veðurfarslegar afleiðingar.

Hvernig er hægt að komast svona í mótsögn við sjálfan sig?

Nú er rætt um að nautpeningur á Indlandi sé stórhættulegur vegna þess metans sem hann gefur frá sér, ég hef séð "sanntrúaða" predika að það eigi jafnvel allir að hætta að leggja sér kjöt til munns vegna þessa. En á hverju á þá mannfólkið að lifa? Á grænmeti segja sömu spekingar. Er það mögulegt að auka stórlega ræktun grænmetis og djöflast um leið gegn aukningu CO2 sem er undirstaða alls gróður í heiminum?

Að rækta grænmeti eru einmitt þau ráð sem Grænfriðungar gáfu Grænlendingum og Inúítum í Norður-Kanada, þá gætu þeir hætta að veita hvali, seli og annað sjávarfang. Ráð af sama toga og franska drottningin gaf almenningi; ef ekki er til brauð því borðar fólkið þá ekki kökur!

Þið segið að aukning CO2 komi als ekki úr hafinu, það verður seint sannað. Þið ættuð að vita það að hver manneskja gefur frá sér umtalsvert CO2 við öndun.

Hefur ekki mannfjöldi í heiminum tvöfaldast á síðustu öld eða réttara sagt seinni hluta seinustu aldar?

Ætlið þið svo að halda áfram að stinga höfðinu í sandinn varðandi hið stóra "ClimateGate" láta eins og það hneyksli hafi aldrei gerst, að "vísindamen" hafi hagrætt staðreyndum til að sanna kenningar sínar. Er Michael Mann enn einn af ykkar "páfum" í vísindum loftslagsins? Ertu að vísa til hans þegar þú segir "en mælingar á náttúrunni urðu til þess að menn gátu reynt á hana með almennilegum mæligögnum".

Ég veit að ykkur "sanntrúuðum "  er ekki verra við neitt en rökræður, það kemur alltaf betur og betur í ljós.

Pistillinn að ofan var athugasemd við það sem kom fram á loftslag.is. Set það einnig hér fram á mínu bloggi. Til skýringar: Michael Mann prófessor við háskóla í Virginíu vestra er sannur að hrikalegum fölsunum um veðurfar frá árinu 1000 til nútímans. Hann reyndi að sýna fram á að hiti á miðöldum (víkingatímanum) sem sannarlega var að m.k. 2°C hærri en nú, hafi aldrei verið staðreynd. Hann reyndi einnig að sýna fram á að "Litla ísöld" á 17. og 18. öld hafi aldrei verið til, íslenskir annálar segja okkur nákvæmlega um veðurfar á þeim tíma. Eitt árið gengu 30 hvítabirnir á land á Íslandi, meira að segja 2 í Skaftafellssýslum.

Og engin Þórunn til að taka á móti þeim!

Hafís náði 15 sjómílur suður af landinu það árið!


Aukum veiðar á þorski

Það er engin spurning; við eigum að auka veiðar á þorski, við höfum ekki efni á því að láta þorskinn verða ellidauðann í sjónum í stórum stíl eða láta hann synda til okkar nágranna sem ekki fúlsa við slíkri gjafmildi.

Ég er dæmigerður landkrabbi en hver fylgist ekki með sjávarútvegi og fiskveiðum. Hef ætíð haft meira álit á ráðgjöf Jóns Kristjánssonar fiskifræðings og Kristins Péturssonar fiskverkanda á Bakkfirði en á ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar. Hafrannsóknarstofnun finnur ekki þorskseiðin en einn ágætur Grímseyingur sagðist í hádegisfréttum geta upplýst Hafró um hvar þau eru.

Jóhann Sigurjónsson, hættu að leita og hringdu norður til Grímseyjar, það er miklu ódýrari leið til að finna seiðin en skrapa alla firði.

Eftir yfirgengilegt stjórnleysi og vitleysu undanfarin sukkár virðist sem svo að komin sé upp ákveðin stirðleiki í kerfinu; nú þora menn vart að taka ákvarðanir, tæplega að ræða róttækar aðgerðir til að koma okkur úr vandanum sem fyrst.

Við eigum að taka djarfar ákvarðanir og fylgja þeim eftir:

Auka fiskveiðar og skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði, ekki aðeins séreignasparnað heldur allar inngreiðslur.


Algjörlega sammála Pétri Blöndal

Hversvegna er hugmynd Sjálfstæðismann um skattlagningu á inngreiðslur lífeyrissjóða ekki tekin til gagngerrar skoðunar?

Ég blogga um þetta mál hér að neðan en eftir að hafa hlustað á Pétur Blöndal alþingismann og fulltrúa lífeyrissjóðanna (hvers nafn ég greip ekki því miður) í gær í Kastljósi  þá er ég enn sannfærðari um að þetta er leið sem við eigum að fara. Það er langt síðan ég hef heyrt frá "ábyrgum" manni jafn miklar rökleysur og komu fram hjá lífeyrisjóðafulltrúanum.

Lítum aðeins á rökleysur hans:

1. Hann hélt því fram að lífeyrissjóðirnir þyrftu, ef þetta yrði tekið upp, að losa og selja eignir. Hvers vegna, lífeyrissjóðirnir eru ekki að greiða neitt út, þeir fá hins vegar minna í kassann og geta ekki legið með skattpeninga ríkisins í áratugi og vaxtað þá vel eða illa eftir atvikum.

2. Hann sagði þetta verð ákaflega flókið mál. Þessi breyting er í mínum huga sambærileg og þegar við tókum upp staðgreiðslukerfi skatta, enginn vill hverfa frá því kerfi.

3. Hann sagði að við værum að taka frá börnum og barnabörnum, þau mundu fá sítt úr lífeyriskerfinu en hvað um samneysluna? Að sjálfsögðu fær hún sitt, á hverju ári koma inn skatttekjur til ríkisins á nákvæmlega sama hátt og frá staðgreiðslu skatta, skatttekjur sem skila sér betur en ef þær eru teknar af útgreiðslum.

4. Skatttekjur skila sér nær 100% við skattlagningu á inngreiðslum, en við eftirágreiðslu skatta glatar ríkið alltaf einhverju vegna þess að fjöldi lífeyrisþega fær aldrei greitt út að fullu það sem hann hefur greitt inn. Hvað gerist ef lífeyrisþegi fellur frá rétt áður en hann kemst á aldur til að taka lífeyri? Erfingjar fá eitthvað en hvað um þá sem enga nákomna ættingja eiga?

Ég átel núverandi Ríkisstjórn fyrir að hafa ekki tekið þetta mál föstum tökum og notað þetta mikla peningaflæði til að loka fjárlagagatinu frekar en að fara út í þessa skattheimtu sem alltaf verður sársaukafull þó reynt sé að gæta fyllsta réttlætis. Ég átel Sjálfstæðismenn fyrir að hafa ekki fylgt þessu máli eftir með hörku og ákveðni í stað þeirrar hálfvelgju sem þeir hafa sýnt.

Ég krefst þess að Ríkisstjórnin, og þá sérstaklega fjármálaráðherra, skýri fyrir mér og þjóðinni allri hvaða meinbugir séu á  þessari leið. Einhverjir meinbugir kunna að vera á málinu, en ég sé þá ekki.

 

 


Hversvegna ekki taka skattinn strax við inngreiðslur í lífeyrissjóði?

Einn bloggari fór mikinn í morgun uppfullur af hneykslun  á því að það eigi að skattleggja lífeyrissjóðina.

Það hefur ekki nokkrum manni dottið í hug.

Hinsvegar eru allar greiðslur manna í lífeyrissjóði, bæði frá sjóðfélaganum og mótframlag atvinnurekandans, skattlögð. Í dag eru þær skattlagðar við útgreiðslu, allir sem fá greitt úr lífeyrissjóði verða að greiða skatt af þeim greiðslum. Þetta er ekki skattlagning á lífeyrissjóðina heldur á þær greiðslur sem sjóðfélaginn fær.

Þó ég sé Samfylkingarmaður og eindreginn stuðningsmaður núverandi Ríkisstjórnar á finnst mér að það þurfi að skýra það betur fyrir almenningi af hverju tillaga Sjálfstæðismanna um að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði í stað útgreiðslur er ófær leið, á endanum verður þetta skattlagt og er ekki nema eðlilegt.

Einhverstaðar var kippt í spottann og Sjálfstæðismenn voru ekki staðfastari en það að þeir fylgdu málinu ekki eftir.  Ég sá einhversstaðar sagt að þetta gæfi Ríkissjóði 40 milljarða árlega, það væri ekki svo lítið upp í hið margumrædda fjárlagagat og mundi lina stórlega þá þungu skattbyrði sem verið er að leggja nú á þjóðina.

Fullyrðingar Steingríms fjármálaráðherra að með skattlagningu á inngreiðslur sé verið að taka frá framtíðinni og afkomendum okkar skil ég ekki, lífeyrisþeginn fær sitt, hann tapar engu og sem eldri borgari væri það sálrænt jákvæðara að fá þá litlu greiðslu sem ég fæ úr lífeyrissjóði að fullu, skatturinn afgreiddur fyrir löngu.

Hinsvegar verða vaxtatekjur lífeyrissjóðanna lægri og veltan minni við skattlagningu á inngreiðslur, þeir fá ekki tækifæri til að ráðskast með skattpeninga þjóðarinnar ártugum saman og eyða í yfirgengilegan rekstrarkostað og bruðl við stjórnun lífeyrissjóðanna.

En Steingrímur, mig vantar skýringar á orðum þínum og afstöðu.

"Marteinn" með því ömurlegasta sem sést hefur í Sjónvarpinu

Sat heima í gærkvöldi og horfði á sjónvarpið öðru hvoru. Hafði ekki séð fyrsta þáttinn af "Marteini" gamanþætti sem tekinn er skv. amerískum staðli, áhorfendur eru viðstaddir upptökur, í gamanþætti er þá treyst á að ekki þurfi að nota niðursoðin viðbrögð eða hlátur,  það á að eftirláta hverjum og einum áhorfanda að ákveða viðbrögðin.

Það er skemmst frá því að segja að þarna var á ferðinni "gamanleikur" sem var bara alls ekkert gaman að horfa á. Ekki vantaði góða leikkrafta en eins og ég sagði í umfjöllun (og lofi) um "Hamarin", kvikmyndir og sjónvarpsleikrit standa og falla með góðu handriti. Í "Marteini" var reynt að raða saman aulabröndurum og fyrirmyndin var svo amerísk að útidyrnar eru í stofunni, nokkuð sem er óþekkt fyrirbrigði á Íslandi.

 


Hversvegna var frítekjumark aldraðra lækkað?

Aldrei hefur nokkur Ríkisstjórn á Íslandi barist við viðlíka erfiðleika og sú ríkisstjórn sem nú situr. Ég er eindreginn stuðningsmaður stjórnarinnar og það verður að styðja hana með öllum ráðum út kjörtímabilið. Ef vel tekst til getur samstarf núverandi stjórnarflokka orðið lengra. Ég hef hér á undan í blogginu lagt út af þeirri bábilju að Samfylkingin eigi að hverfa að samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.  Framsóknarflokkurinn hefur gjörsamlega klúðrað því tækifæri sem hann fékk til að endurnýja sig.

En þó maður styðji stjórnina er ekki þar með sagt að hún eigi ekki að fá gagnrýni frá stuðningsmönnum sínum. Enn og aftur kemur það í ljós að þeir sem eru á miðjum aldri og yngri, jafnvel  þó yfir miðjum aldri séu, hafi harla lítinn skilning á kjörum aldraðra. Þetta er að koma í ljós aftur og aftur. Ef gengið er á kjör þess sem er þrítugur á hann alla möguleika á að hann geti náð einhverri leiðréttingu, en hvað um þann aldraða?

Ég hélt upp á 75 ára afmæli mitt nýverið, fékk margar góðar gjafir og óskir. En ég fékk eina gjöf frá þeirri Ríkisstjórn sem ég styð sem setur mikið strik í mínar áætlanir sem geta engan veginn verið á sömu lund og þess þrítuga, hann á reikningslega séð ótal tækifæri í framtíðinni, það á ég tæplega. Ég er af þeirri kynslóð sem þekkir það að engir lífeyrissjóðir voru til. Ég er líka af þeirri kynslóð sjálfstætt starfandi einstaklinga sem ekki fóru að sinna lífeyrisgreiðslum fyrr en alltof seint, ekki fyrr en lögboð kom þar um. Hins vegar er ég þó nokkuð hress og tel mig búa yfir nokkuð mikilli þekkingu í mínu fagi, en ég titla mig nú sem vatnsvirkjameistara & orkuráðgjafa og það er það síðarnefnda sem ég hafði hugsað mér að stunda þó nokkuð meðan ég hef möguleika til. 

Það sem gerði mig bjartsýnan á að svo gæti verið var sú ákvörðun fyrri ríkisstjórnar að hækka frítekjumarkið upp í 1.300.200  kr. á ári, það gaf mér ástæðu til að ég gæti gert gagn sjálfum mér og öðrum án þess að tapa nokkru í þeim tekjum sem ég hef frá TR og lífeyrissjóðum upp á næstum því 125.000 kr!!!

En Adam var ekki lengi í Pardís. Núverandi Ríkisstjórn lækkaði frítekjumarkið og það ekki um neitt smáræði. 

Það er komið niður í 480.00 kr. á ári!

Þegar þessi staðreynd blasti við mér sá ég að það væri ekki mikið sem ég gæti unnið og miðlað af minni tækniþekkingu, sem þó er ekki lítil þörf fyrir, og ég ætla að fullyrða að sé þjóðhagslega hagkvæm. Ég mætti ekki hreyfa mig mikið svo þessar litli lífeyrir sem ég fæ færi ekki að skerðast. Ef ég væri nógu harður af mér gæti ég farið að fullu út á vinnumarkaðinn aftur og reynt að afla mér þeirra tekna að ég geti sleppt þessum lífeyriskrónum. En satt að segja er það æði mikil ákvörðum fyrir þann sem orðinn er 75 ára gamall og tæplega fær leið. Þá er ekki annað en að þiggja þennan lífeyri og reyna svo að sitja sem mest heima og afla ekki umframtekna. 

Nú nokkur orð til þín minn gamli samborgari úr Kópavogi Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra.

Ég get engan vegið skilið það að þessi harkalega lækkun á frítekjumarki aldraðar skili nokkrum tekjum til Ríkissjóðs, það getur einmitt virkað öfugt. Ég hef að framan rakið nokkuð í hvaða gildru mér finnst ég vera fallinn. Það þýðir ekkert að segja við mann á mínum aldri að þetta verði lagað eftir nokkur ár, segjum 5 ár. Ég tel frekar ótrúlegt að ég sé svo mikið út á vinnumarkaði þá, verði bara að þrauka í þeirri fátækragildru sem ég sé framundan. Ég held að áhrifin af þessari mjög svo mistæku ákvörðun Ríkistjórnarinnar, að svipta aldraða þeirri lífsfyllingu að geta að nokkru aflað sér meiri tekna og vera aðeins út á meðal fólksins, gefi Ríkissjóði ekki nokkrar auknar tekjur.

Árni Páll, þú ert ungur og á þeim aldri skiljum við ekki eldra fólkið, það gerði ég ekki á þínum aldri. Ráðherrar eiga að fá ráðgjöf sem víðast að.

Gleymdu því ekki að "oft er gott sem gamlir kveða".

 


Mikilvæg ábending frá Guðmundi Ólafssyni hagfræðingi

Viðtalið við Guðmund Ólafsson hagfræðing og háskólakennara í Silfri Egils var með því athyglisverðasta sem þar hefur komið fram lengi. Þar benti Guðmundur skilmerkilega á að það hafa spekingar og hagfæðingar verið iðnir við að mála skrattann á vegginn um erlendar skuldir þjóðarbúsins. Ekki vildi hann nefna nein nöfn "málaranna" en Egill spurði hvort hann ætti við Gunnar Tómasson hagfræðing í NY og Lilju Mósesdóttur þingmann VG. Málið snýst einfaldlega um það að meirihluti erlendra skulda eru skuldir einkaaðila, ekki ríkisins og geta því aldrei fallið á ríkið eða almenning. Einn fjórði skuldanna er skuld eins félags sem raunar er víst eignarhaldsfélag. Ef lántakandi getur ekki borgað skuldina þá er það skaði hinna erlendu lánardrottna sem voru svo skyni skroppnir að lána íslenskum eignarhaldsfélögum peninga.

Þó Guðmundur vildi hvorki nefna nein nöfn  um hverjir séu iðnir við að mála myndir af skrattanum þá þykist ég muna að þeir tveir fyrrnefndu hagfræðingar hafi rætt um það opinskátt að framundan væri greiðsluþrot Ríkissjóðs. Því miður eru enn að koma upp mál þar sem stjórnvöld gefa almenningi upplýsingar ekki  nógu ítarlega og þeim fylgt eftir af krafti.

Lilja Mósesdóttir er einn af þessum nýju þingmönnum sem telja það vera farsælast til að gera sig gildandi að spila einleik. Lilja hefur lýst því yfir að hún muni ekki styðja lausn ICESAVE málsins sem hangir stöðugt yfir. Ekki veit hún hvort hún muni sitja hjá aða greiða atkvæði á móti. Hefur Lilja Mósesdóttir gert sér grein fyrir hvað tekur við ef Alþingi fellir ICESAVE samninginn? Það var hátt hrópað á Austurvelli síðasta vetur að leiðin út úr ógöngunum eftir fallið væri að setja alla þáverandi þingmenn af og fá nýja einstaklinga inn á þing. Lilja Mósesdóttir er einn af "nýliðunum" og hefur ekki unnið af ábyrgð og oft sett fram sjónarmið eins og Þór Saari sem ber ekki gott vitni um að þau nýti sér é réttan hátt þá menntun sem þau hlutu. Þá er ekki hægt annað en nefna Sigmund Davíð og Vigdísi Hauksdóttur sem nýja upphlaupskandídata og æði ábyrgðarlausa. Höskuldur Þórhallsson fylgir þeim dyggilega eftir þó hann sé ekki nýliði á þingi. Vigdís birti greinarstúf í Morgunblaðinu nýlega þar sem hún kenndi núverandi Ríkisstjórn um ICESAVE skrímslið. Að óreyndu hefði ég ekki trúað Vigdísi til slíks lýðskrums en lengi skal konuna reyna. Hún virðist geta án nokkurrar rumskunnar í eigin samvisku breitt yfir hlut þeirra Halldórs Ásgrímssonar og Valgerðar Sverrisdóttur í einkavæðingu bankanna sem er grundvöllurinn, ásamt fleiri mistökum þá, að hruninu mikla og þar með tilurð ICESAVE skrímslisins.

Valgerður, þú áttir bara að halda þig við blómin og gleymum ekki þorskhausunum hertu, í þessu tvennu ertu vissulega fær.


Nokkur orð til Páls Vilhjálmssonar fjölmiðlamanns

Páll, ekki man ég betur en við höfum á árum áður verið flokksbræður. Þú varst mér alla tíð mikil ráðgáta og stundum velti ég því fyrir mér hvers vegna þú værir í Samfylkingunni. Þú tilbaðs alla tíð Davíð Oddsson næstum því eins mikið og Hannes Hólmsteinn. Nú ertu kominn heim til föðurhúsanna en virðist samt vera haldinn mikilli vanlíðan. Þú bloggar og allt sem frá þér kemur er svartagallsraus og neikvæðni. Mér finnst það ekki einkennilegt að svo sé. Að geta lotið svo lágt að verja allt sem Sjálfstæðisflokkurinn gerði, einkavæðingin og allur skandallinn í stjórn efnahagsmála var með slíkum endemum að það hlýtur að vera mikil blinda að sjá það ekki. Nú er reynt að hamra það inn i þjóðina að ICESAVE sé til komið vegna mistaka núverandi Ríkisstjórnar og stjórnarflokka. Það er kannski ekki að undra að maður eins og þú, haldinn pólitískri þráhyggju og tilbeiðslu á einum manni sem átti ekki lítinn þátt í að undirbyggja hrunið fabúlerir endalaust um það. Davíð Oddsson var ekki aðeins forsætisráðherra í hálfan annan ártug heldur síðar seðlabankastóri. En að þeir menn sem eru nýbúnir að taka við forystu í hrunaflokkunum tveimur, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki skuli voga sér að stunda lýðskrum og baktjaldamakk, það er yfirgengilegt. Mer sama hvoru megin hryggjar Sjálfstæðisflokkurinn liggur, en vona jafnvel að Framsóknarflokkurinn fái betri leiðtoga en Sigmund Davíð. Líklega er nú þegar ákveðin öfl farin að undirbúa að velta honum úr sessi. Ekki ólíklegt að það takist og þriðji ættliðurinn, Guðmundur Steingrímsson, endurreisi það orðspor sem eitt sinn fór að þeim flokki.

En ég vona að þú Páll Vilhjálmsson náir einhverjum bata, þér hlýtur að líða mjög illa með allt þitt neikvæða beinakvak.


Hraðinn er ekki eina orsökin, ekki síður yfirgengilegt fúsk

Það voru ekki fagrar myndir sem birtust nýlega í Sjónvarpsfréttum af rakaskemmdum  í nýjum eða nýlegum húsum. Ástæðan var sögð of mikill hraði í byggingu húsanna en ég vil ekki nefna það sem einu ástæðuna. Ef heiðarlegir iðnaðarmenn eru að störfum þá fara þeir aldrei hraðar í sínum störfum en svo að verkið sé eins vel af hendi leyst og mögulegt er. Það er engin sem getur gert alla hluti 100% en  iðnaðarmenn eiga ætíð að reyna að komast eins nálægt því marki og mögulegt er.

Hver er þá orsökin?

Ég nefni orsökina  FÚSK, tökuorð, en hefur náð vistfestu í íslensku. Því miður er það svo að á undanförnum "stórveldisárum"  hefur margt farið úrskeiðis í störfum okkar, ekki aðeins í fjármálaheiminum, heldur einnig í mörgum þáttum atvinnulífsins og þar er byggingariðnaðurinn ekki undanskilinn. Þessir hroðalegu gallar á nýjum húsum, þar sem raki með tilheyrandi sveppagróðri er sýnilegur víða, er ekkert annað en fúsk, kæruleysi og einnig það að hafa kastað fyrir róða margvíslegri þekkingu sem var jafnvel vel þekkt hérlendis áður en byggingaöldin hófst eftir lok síðari heimsstyrjaldar. Við erum að stæra okkur af því að tækninni hafi fleygt fram, ný byggingarefni komið á markað og hvorutveggja er þetta gott og blessað. En það er líklegt að það komi okkur að litlu gagni að eignast nýjan forláta bíl ef við kunnum ekki að aka honum og höfum jafnvel ekki réttindi til þess. Nú ætla ég ekki að bera alfarið blak af ísl. iðnaðarmönnum, stundum hafa þeim verið mislagðar hendur. Reyndar sagði ég einhvertíma í einhverjum minna gömlu pistla, Lagnafrétta í Fasteignablaði Morgunblaðsins, að jafnvel  stundum væru hættulegustu fúskararnir með bæði sveinsbréf og meistarabréf. En það eru aðrir hlutir sem hafa verið orsakavaldur að þeim miklu göllum sem hafa verið að koma fram undanfarin ár í nýjum byggingum.

Mistökin með byggingarstjórana

Árið 1998 var samin og löggilt ný Byggingarreglugerð hérlendis, reglugerð sem gildir fyrir landið í heild. Þar var eitt nýmæli sem átti að vera mikið framfaraskref. Áður höfðu meistarar í hveri iðngrein borið ábyrgð á störfum sinna mann og því að þeirra þáttur í byggingunni væri sómasamlega unninn. Hins vegar hafði sú þróun orðið að í stórbyggingum höfðu þau stóru byggingarfyrirtæki sem voru heildarverktakar sett upp embætti Byggingarstjóra, eðlileg og sjálfsögð þróun, hæfur maður fenginn til að samræma störf allra iðnþátta svo ekki ræki sig hvað á annars horn. Þetta fyrirkomulag kom hvergi fram í Byggingarlögum eða afleiddri Byggingarreglugerð, þetta var eðlileg þróun, löggjafinn þurfti þar vergi að koma nálægt, þörfin kallaði á þetta án nokkurrar þvingunar. Þannig breyttist lítið í störfum eða ábyrgð einstakra iðnmeistara, þeir höfðu áfram samband við Byggingarfulltrúa sveitarfélagsins, lögðu inn teikningar og sáu um úttektir. En þá kom löggjafinn til sögunnar og þurfti endilega að grípa inn í, þróunin mátti ekki hafa sinn ganga án þess að hann væri með puttana í þessu sem öðru. Embætti Byggingarstjóra var fyrirskipað, ekki aðeins í stærri byggingum eða stærri verkum, heldur í öllum byggingum alveg niður í hundakofa.

Skorið á tengslin

Ekki nóg með það, skorið var á öll bein tengsl iðnmeistara og Byggingarfulltrúa, nú skyldi Byggingarstjórinn sjá um allt. Hann skilaði inn nöfnum iðnmeistaranna og hann fékk óskorað vald til að sjá um úttektir á verkum. Afleiðingin varð allt að því skelfileg aðallega í minni framkvæmdum, í minni byggingum. Á liðnum veltiárum hafa orðið til margskonar byggingarfyrirtæki sem hafa ætlað að græða í bólunni miklu, fengið lóðir og farið að byggja hús. Eigandinn varð sé út um tryggingu og fékk réttindi til að starfa sem Byggingarstjóri. Og þá hófst fúskið fyrir alvöru, Einhvernveginn tókst að útvega nöfn manna með meistararéttindi, þeir komu stundum ekkert nálægt byggingunum. Byggjandinn réði til sín einhverja menn, oft þótti gott að geta krækti í nokkra Pólverja sem hægt var að hýrudraga. Nú skal það skýrt tekið fram að fjölmargir Pólverjar hafa unnið hér í margvíslegum atvinnugreinum á undanförnum árum við góðan orstír. En starfsmennirnir voru oft, íslenskir sem útlenskir menn sem aldrei höfðu komið nálægt húsbyggingum fyrr. En hvað um úttektir og eftirlit hins opinbera? Byggingarstjórinn sá um að kalla til úttektar og samkvæmt Byggingarreglugerðinni frá 1998 þurfti hann ekkert að láta iðnmeistara vita, þeir höfðu ekki hugmynd um að risið var hús sem þeir báru vissulega talsverða ábyrgð á. Ekki er hægt að segja þessum iðnmeisturm neitt til afsökunar, þeir höfðu svo mikið að gera að þar kom tímaskorurinn og hraðinn vissulega til sögunnar. Annað sérkennilegra í ölli þessu kraðaki var aðstundum kom eitthvað upp á og þá kom í ljós að Byggingarstjórinn hafði aldrei komið á staðinn og vissi heldur ekki að þarna í mýrinni eða á melnum væri risið hús.

Afleiðingarnar eru fúsk

Það var kannski full mikið sagt í upphafi að hraðinn væri ekki hluti af orsökinni en hraði, þar sem menn hafa ekki tök á neinu, er ekkert annað en fúsk. Það er því sannarlega tími til kominn að taka Byggingarreglugerðina frá 1998 til gagngerðrar endurskoðunar. Taka aftur um gamla og góða siði og ábyrgð sem að mörgu leyti hafði reynst vel. Nú hefur heldur betur róast á byggingarmarkaði. Það á ekki að hika við að gera þá sem hlutina framkvæmdu ábyrga fyrir sínum gjörðum. Það væri jafnvel full ástæða til að Samtök iðnaðarins, innan þeirra vébanda eru atvinnurekendur, og Samiðn, þar eru iðnaðarsveinar, létu þetta til sín taka og gerður átak í því að saklausir kaupendur þyrftu ekki að hrekjast úr húsum sem þeir hafa keypt eða látið byggja. Og auðvitað eiga Byggingarfulltrúarnir að koma að þessum máli.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 114095

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband