Færsluflokkur: Íþróttir

Til hamingju Breiðablik, sigurinn gleður gamlan formann félagsins

Þá er sú stóra stund upp runnin að Breiðablik er Íslandsmeistari í knattspyrnu í úrvalsdeildinni. Vissulega gleður það gamlan formann félagsins og gullblika að bikarinn er í höfn. Ég held að ég verði að draga fram í dagsljósið gamla mynd sem ég held að ég eigi enn í fórum mínum. Hún er af fyrsta knattspyrnuliði Breiðabliks sem þá var ekki í neinni deild eða móti heldur var hóað saman mönnum í fullu fjöri í Kópavogi sem grunur lék á að gætu sparkað bolta, sumir hverjir meira að segja lifandi enn þann dag í dag.  Það var ákveðið að ráðast ekki á garðinn þar sem hann var hæstur og einhverjir töldu vænlegast að keppa við sveitamenn. Þess vegna varð bræðrafélag okkar í Mosfellssveit fyrir valinu, Ungmennafélagið Afturelding, þar var vinum að mæta, bæði félögin í Ungmennasambandi Kjalarnesþings. Ég fór með þennan vaska hóp sem formaður Breiðabliks á Varmárbakka, þetta varð hörkuleikur.

Hann endaði 9-0

En því miður, það var Afturelding sem vann.

Já, það er mikið vatn runnið til sjávar síðan þessi leikur fór fram, þetta gerðist líklega fyrir 55 árum.

Enn og aftur til hamingju Breiðablik.


Er vonlaust að berjast við málfarsþrjóta, þeir taka ekki mark á neinni gagnrýni?

Örfá atriði í þetta skipti.

Það eru allir að berjast fyrir "að fjölga atvinnutækifærum". Í mínu ungdæmi gerðu menn sitt besta til "að auka atvinnu". Þetta sýnir í hnotskurn hvernig hugtök eru sett fram á nýjan hátt með  fjölgun  atkvæða. Í fyrra tilfellinu eru  atkvæðin 10 en í því seinna 6. Þetta sýnir okkar málþróun. Þar fyrir utan er áferð setninganna þeirri fyrri í óhag finnst mér, en eru það kannski elliglöp?

Enn bendi ég þeim sem skrifa texta á, hvort sem það er á blogginu eða í öðrum fjölmiðlum, hve orðið "staðsett" er ofnotað og það spillir næstum alltaf textanum. Reynið næst að lesa yfir textann ykkar og athugið hvort orðið "staðsettur" kemur þar fyrir. Fellið "staðsettur" brott. Ég er ekki í nokkrum vafa að allir munu sjá að það er nær alltaf til bóta. 

Ekki má gleyma garminum honum Katli. Íþróttafréttamenn segja gjarnan að "báðir" hafi skorað fimm mörk. Eftir mínum skilningi þá hefur hvor leikmaður skorað tvö og hálft mark, ekki satt.? Eða eiga bögubósarnir við að "hvor"leikmaður hafi skorað 5 mörk?


Er Ríkisútvarpinu sama um málfar og slettur?

Það skiptir ekki máli hvort stúlkurnar í íslenska landsliðinu í knattspyrnu gerðu mörk eða unnu leiki, þær stóðu þær sig með sóma á EM. Það að komast á EM er stórkostlegur árangur.

Til hamingju með það!

Auðvitað hefur Ríkisútvarpið sagt frá og sýnt leiki íslenska kvennalandsliðsins, en síðasti leikurinn var gegn Þjóðverjum og þannig sagði Páll Magnússon frá því oftar en einu sinni í fréttum Sjónvarpsins.

"Íslenska kvennalandsliðið tapaði leiknum við Þjóðverja með einu marki gegn engu"

Fann Páll Magnússon ekkert athugavert við þessa setningu? Svo virðist ekki vera enda er málfar Ríkisútvarpinu þegar fjallað er um íþróttir oft æði skrautlegt. Rétt er setningin þannig:

"Íslenska kvennalandsliðið tapaði leikum við Þjóðverja með engu marki gegn einu"

Þegar Ásta Ragnheiður forseti Alþingis tilkynnti úrslit atkvæðagreiðslunnar um Icesave ábyrgðina sagði hún:

"Lögin eru samþykkt með 34 atkv.,14 voru á móti".

Ef hún hefði sagt frá þessu með hætti Páls Magnússonar hefði hún sagt:

"Lögin voru samþykkt með 14 atkv. gegn  34". Sjá ekki flestir hve rangt það er?

Á minni löngu ævi hef ég árlega heyrt og séð í fjölmiðlum auglýsingar um að verslanir ætli að auk kaupgleði almennings með því að lækka verð á vörum sínum og efna til þess sem ætíð hefur verið nefnt:

ÚTSÖLUR

En nú í kreppunni er það  líklega ekki nógu fínt að segja "útsala" og yfir dynja í fjölmiðlum og sker í auga skilti út um alt með ömurlegri slettu, það er orðið:

OUTLET

Ríkisútvarpið, þessi gamli varðhundur íslensks máls, hefur greinilega velþóknun á skrípinu, á hverju kvöldi er því þröngvað inn í stofur landsmanna í auglýsingatímum.. Hins vegar er haldið strangt í þann fáránleika að fallbeygja útlensk heiti, menn skulu með illu eða góðu fara til Amsterdams svo dæmi sé tekið.

Hvar er Aðalsteinn Davíðsson málfarsráðunautur RÚV, er hann í endalausu sumarfríi? 


Má bjóða þér drullu í dós?

Þrátt fyrir allar tímabundnar þrengingar þá búum við Íslendingar enn við, og vonandi um ókomna framtíð, að fá alla þá heilbrigðu fæðu sem við þurfum á að halda. Gamall maður eins og ég man að það var ekki hægt að fá ávexti nema örlítið fyrir jólin og grænmeti var af skornum skammti, helst voru það auðvitað kartöflur og margir reyndu að rækta svolítið af gulrófum. Nýmeti var sjaldgæft til sveita nema helst í sláturtíðinni á haustin en þeir sem bjuggu við sjávarsíðuna fengu oftast nýja soðningu.

Éttu og drekktu "fæðubótaefni" er dagskipunin

Já, það er með ólíkindum að þá fyrst þegar við höfum fjölbreytt fæðuval lætur fólk, og aðallega unga fólkið, tæla sig til að kaupa alls kyns sull í flöskum og dósum sem "fæðubótaefni". Sú var tíðin að fyrir rúmri öld fóru ugluspeglar um sveitir og seldu fáfróðu fólki sull á flöskum sem bar nafnið "kínalífselixír. Þetta átti að vera allsherjarlyf sem læknaði allan krankleik hvernig sem hann birtist. Vísir menn sáu auðvitað í gegn um falsarana og voru þeir gerðir brottrækir úr öllum sveitum. Lengi á eftir var gert stólpagrín að þeim sem létu glepjast og keyptu og drukku sullið. En nú er öldin önnur. Nú eru fjölmargar verslanir með herskara sölumanna sem selur fáráðlingum alls kyns fæðubótaefni.Óþverri

Eyðileggur lifrina eins og alkóhól

Í fréttum sjónvarpsins í kvöld var sagt frá uppgötvun Finna. Skorpulifur er ekki einungis afleiðing af drykkjuskap og ofneyslu áfengis. Jafn slæmt, ef ekki verra eru öll þessi drulla sem fávís ungdómur (og raunar þeir sem eldri eru einnig) lætur ginna sig til að kaupa og drekka sem "fæðubótaefni"..

Hér til hliðar er mynd af flösku með einni tegund af þessu eitursulli. Nú er nóg komið af vitleysunni.

 


Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband