Færsluflokkur: Heimspeki
10.11.2010 | 15:18
Athyglisvert viðtal Þórhalls við Björk í Návígi í gærkvöldi
Ég játa strax; viðtalið kom mér mjög á óvart, jákvætt á óvart. Björk sýndi og sannaði að hún er ekki í hópi glamrara, hún hefur greinilega kynnt sér mál auðlindanna og orkugeirans á Íslandi mjög vel.
Það er vissulega hægt að þrasa endalaust um kaup Magma Energy á hluta af HS-Orku á Suðurnesjum. En þær deilur sem þar hafa risið koma ekki síst af því að við höfum ekki markað okkur stefnu í auðlinda- og orkumálum, það er kjarni málsins. Ég held raunar að við ættum að hætta að þrefa um Magma málið og láta það ná fram að ganga, allt annað er rugl. En sé okkur það ekki að skapi eigum við umfram allt að marka stefnuna til framtíðar það vel að við í framtíðinni verðum að finna okkur annað til að þrasa um. En stefnumörkunin er lífsnauðsyn og þá ákalla ég Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra um að ganga hratt til verks, ég trúi henni og treysti til forystu.
Þrennt gladdi mig sérstaklega sem Björk sagði í gær:
Hún benti á það sem og ég hef bent á áður en fengið litla athygli; nýting jarðgufu til orkuframleiðslu er allt annað mál en nýting vatnsafls. Á mínu bloggi er þessi pistill:
8.10.2010 | 17:30
Notkun á jarðgufu eingöngu til raforkuframleiðslu er hrikaleg rányrkja á auðlind
Mér til nokkurrar furðu hef ég lítil viðbrögð fengið. En Björg kom réttilega inn á að við gætur ekki borað að vild og sótt endalaust gufu, jarðhitasvæðin eru viðkvæm en nóg um það; þeir sem ekki hafa lesið þennan pistil minn geta blaðað aftur til 8. okt. og þar er hann.
Í annan stað nefndi hún fiskinn í sjónum sem mér finnst fá allt of litla athygli sem auðlind. Auðlindaumræðan hefur eingöngu snúist um auðlindir á og í landi, þess vegna verður þessi mikli hvellur út af Magma Energy, allt virðist ætla af göflunum að ganga vegna eignarhalds einkaaðila, ekki á auðlindinni heldur á nýtingu hennar. En þeir sem hæst láta þar virðast eingöngu taka við sér ef útlendingar koma með eignaraðild, en láta sér í léttu rúmi liggja þó íslenskir ríkisborgarar sölsi undir sig auðlindir okkar með dyggum stuðningi stjórnmálaafla. Mér liggur við að bera þetta saman við það að við kipptum okkur ekki upp við það að menn færu um rænandi og ruplandi einungis ef þar færu Íslendingar en legðum allt kapp á að góma slíka kóna ef þeir væru útlendingar.
Í þriðja lagi vil ég nefna þá róttæku hugmynd sem Björk setti fram; að breyta stálgrindaskálunum tveimur, sem búið er að reisa fyrir álver, í ylræktarver. Þarna mætist það sem ég hef lagt áherslu á; að ef við öflum gufu til orkuframleiðslu getum við ekki nýtt hana af viti og framsýni nema láta hana fyrst framleiða rafmagn og þar á eftir heitt vatn eða áframhaldandi sem gufu líkt og gert er á Nesjavöllum, Svartsengi og gert verður í Hellisheiðarvirkjun.
Ég benti á Kröfluvirkjun; hversvegna ekki ylræktarver þar?
9.11.2010 | 09:48
Dapurlegt hvernig komið er fyrir Morgunblaðinu
Ég átti góða samleið með Morgunblaðinu í 16 ár, árin sem ég skrifaði pistlana Lagnafréttir. Lengst að var Magnús Sigurðsson umsjónarmaður Fasteignablaðsins sem Lagnafréttir birtust í, við áttum alla tíð hið besta samstarf. Það kom fyrir að Styrmir Gunnarson legði mér lið en þetta var á þeim árum sem hann og Matthías Johannessen voru búnir að endurreisa Morgunblaðið og gera það að víðsýnum fjölmiðli þó ekki kæmist það alfarið hjá því að leggja Sjálfstæðisflokknum lið.
En nú er öldin önnur. Einhverntíma hefði það þótt saga til næsta bæjar að í Morgunblaðinu birtist annar ein leiðari og þar sást í gær. Hann var uppfullur af rætni, hæðni en ekki síst af minnimáttarkennd og öfund. Efni leiðarans var þjóðfundurinn um helgina sem eflaust gefur þeim 25 sem kjörnir verða á Stjórnlagaþingið góðar ábendingar.
Tryggvi Gíslason, sá gagnmerki skólamaður, hefur svarað þessum leiðara á yfirvegaðan hátt með festu og fengið stuðning minn og fleiri með athugasemdum við sinn pistil.
Að lokum vona ég að Morgunblaðið nái aftur þeirri reisn sem það bar undir stjórn Styrmis og Matthíasar, sökkvi ekki á kaf í að verða sorapyttur og útrás fyrir geðillsku þess sem finnur að hann er búinn að tapa fyrri tiltrú, grefur þar með sína eigin gröf.
8.11.2010 | 11:56
Stór hluti þjóðarinnar er í algjörri afneitun
Sérstakt þjóðfélagsástand kemur upp hjá hverri þjóð sem lendir í fjárhagslegu hruni, þar á ég við þær þjóðir sem við nefnum þróaðar þjóðir. Þeir sem aldrei hafa haft nema naumlega til hnífs og skeiðar þekkja þetta ekki, hjá þeim er baráttan áfram að reyna að haf í sig og á, verða að láta hverjum degi nægja sína þjáningu. En hjá hinum þróuðu þjóðum virðist viðbrögð margra við erfiðleikum vera afneitun. Það er ekki annað að sjá á yfirborðinu en mikill hluti þjóðarinnar hafi úr talverðu að spila, veitingahúsin blómstra, glæsilegasta kvikmyndahús Norðurlanda er opnað í Egilshöll, tónleikar og leiksýningar á hverju strái, verslanir sprengfullar af munaðarvöru, bókaútgáfa blómstrar, þúsundir lítra af bjór renna um kverkar á öllum krám hvarvetna um land og óhemju magn að jólarusli hefur verið flutt inn og er að hrúgast upp í búðunum, ekki búist við öðru en það muni renna út sem heitar lummur.
Er þá ekki allt í lagi, blómstrar ekki þjóðlífið?
Að vissu marki gerir það svo og auðvitað er það jákvætt að einhver eyðsla eigi sér stað, öll viðskipti efla Ríkissjóð og ekki veitir af.
En það hefur fyrr verið líf og fjör í borgum heimsins þó grunnurinn sé örþunnur ís sem kann að bresta hvenær sem er. Það kann að virðast ósvífni að hverfa frá Reykjavík til Berlínar eftir heimskreppuna miklu, til tímans milli heimsstyrjaldanna tveggja. Hið ljúfa líf var í hámarki, það var hvort sem er allt á vonarvöl. Þannig höfðu sigurvegarar fyrri heimsstyrjaldarinnar búið um hnútana með þeim afarkostum sem þeir settu Þjóðverjum, þjóðinni sem mesta ábyrgð bar á þessari skelfilegu styrjöld t og töpuðu henni gersamlega. Með Versalasamningnum var skapaður jarðvegur fyrir skaðræðishreyfingu nasismans, þá sögu þekkja flestir, allir ættu að þekkja hana.
En sem betur fer erum við í Reykjavík og Íslandi árið 2010, svo erfitt sem það kann að reynast, en ekki á millistríðsárunum í Berlín og ég vona að þeir sem lesa þennan pistil minn taki þessa samlíkingu ekki of bókstaflega, en viðbrögðin við fjárhagslegum erfiðleikum er oft að sama toga.
En það eru fleiri í afneitun en þeir sem enn eiga eitthvað í handraðanum og geta þess vegna veitt sér þó nokkrar lystisemdir.
Tunnusláttarfólkið er ekki síður í afneitum. Ótrúlega margir sjá tunnuberjarana með glýju í augum, finnst jafnvel að þarna séu einhverjir "vormenn" að verki. Fréttamenn færa okkur nákvæmar fréttir af þessum hópi og ræða oft við einhverja sjálfskipaða talsmenn sem lýsa hvaða hugsjónir búa að baki. Eitt er þar sameiginlegt öllum sem láta í sér heyra um leið og þeir leggja frá sér lurkinn til að seilast í vasann eftir eggjum til að henda í Alþingishúsið. Það eina sem kemst að er að allt sé ómögulegt, Ríkisstjórnir fari út í hafsauga, Alþingismenn hundskist heim til sín, hvergi örlar á nokkru uppbyggilegri hugsun enda mjög skiljanlegt því þessi hópur hefur ekki skoðað bakgrunn þess sem hér gerðist eða hvað öfl komu okkur á þennan kalda klaka.
Dæmigert fyrr þennan "baráttuhóp" var uppákoman í Þingholtunum þar sem lítil deild úr tunnuhernum sló skjaldborg um hús eitt, en sá orðrómur komst á kreik að Landsbankinn ætlaði að láta bera íbúann á efstu hæð út. Þess þurfti raunar ekki því íbúinn var flúinn af vettvangi, hafði reyndar tapað íbúðinni til Landsbankans 20 mánuðum áður en fengið að búa þar áfram. Hann hafði ætlað að verða ríkur á augabragði með byggingarbraski og fékk fullt af peningum hjá Landsbankanum til þeirra framkvæmda því enga peninga átti hann sjálfur. En eins og svo margir braskarar sem ekkert áttu og skuldsettu sig upp fyrir haus fór hann rakleitt í gjaldþrot. Íbúðin góða við Laufásveg var veðsett upp í rjáfur og vel það. En áður en hetjan lagði á flótta hafði hann staðið í ýmsum framkvæmdum með þeim afleiðingum að íbúðareigendur á hæðinni fyrir neðan urðu að flýja þar sem vatnsleki niður alla veggi gerði íbúðina ónothæfa. En síðasta hálmstrá hetjunnar var að reyna að bjarga sér með því að tengja fram hjá hitaveitumæli Orkuveitu Reykjavikur, líklega hugsandi sem svo að komandi hækkun heita vatnsins væri óbærileg, þess vegna væri réttlætanlegt að fá heita vatnið ókeypis.
Ég er ekki í vafa um að með þessum orðum er ég að safna glóðum elds að höfði mér. Þúsundir hafa komið á Austurvöll við ýmis tækifæri að undanförnu til að þrýsta á stjórnvöld til að taka fastar á vandamálunum með nærveru sinni en án ofbeldis og upphlaupa. Þetta fólk á skilið virðingu fyrir nærveru sína og prúða framkomu. En uppvöðsluseggir sem með ólátum, tunnubarsmíðum og drullukasti hafa verið nánast friðhelgir, engin virðist þora að blaka við þessum ruglukollum sem hafa ekkert jákvætt fram að færa heldur þvert á móti; skemmdarverk sem hefur kostað milljónir að lagfæra.
Og meira að segja í þessum skrílslátum hefur Alþingiskona Hreyfingarinnar tekið þátt. Tæplega getur fulltrúi á Alþingi lýst betur yfir hugmyndafátækt sinni og getuleysi til að starfa jákvætt í þingsölum.
1.11.2010 | 12:05
Þrjár stofnair eða samtök grafa sína eigin gröf
Ég við Þjóðkirkjuna, Landsamband íslenskra útvegsmanna og Bændasamtök Íslands. Ég hef hér að framan lýst þeirri skoðun minni að það eigi að aðskilja Þjóðkirkjuna og Ríkið alfarið. Þetta er af neinum fjandskap við hina evangelísku lútersku kirkju, Þjóðkirkjuna. En ég undrast viðbrögð biskupa, presta og preláta við hófsömum tillögum Menningarráðs Reykjavíkur um að ekki skuli stunda trúboð í skólum. Enginn dregur í efa að meirihluti Íslendinga eru í hinni evangelísku lútersku kirkju, Þjóðkirkjunni, en á fleira ber að líta.
Þarna komum við að mikilvægu atriði sem varðar störf þeirra sem á Stjórnagaþing setjast. Meirihlutinn verður ætíð að taka tillit til þeirra sem eru í minnihluta. Mér blöskrar hvað forystumenn hinar evangelísku lútersku kirkju, Þjóðkirkjunnar, eru blindir á þessi sjálfsögðu mannréttindi. Þeir berjast gegn öllum breytingum á eigin forréttindum í skólum landsins. Þeir ættu nú að líta í eigin barm og spyrja sjálfa sig; erum við ekki að skaða okkar eigin kirkju og boðskap hennar með þessu framferði, er það kirkju okkar til framdráttar að búa til vaxandi óvild í garð hinar evangelísku lútersku kirkju, Þjóðkirkjunnar?
Landsamtök íslenskra útvegsmann eru hagsmunasamtök þeirra sem gera út fiskiskip, allavega stærri fiskiskip. Þeir sem þann atvinnuveg stunda fengu fyrir um tuttugu árum eignarhald á auðlindinni, fiskinum í sjónum. Á meðan tilfinningar blossa vegna auðlinda á landi virðast flestir láta sér þetta í léttu rúmi liggja.
En ég held áfram að klifa á því að með þessu ólöglega eignarhaldi (þeir sem það framseldu höfðu engan rétt til þess) hafi útvegsmönnum verið réttur eitraður bikar sem nú er að leggja heilbrigði þeirra í rúst. Þetta er það sem hefur sogað gífurlega fjármuni út úr greininni.
En útvegsmenn umhverfast í hvert sinn sem aðeins er kvakað um endurheimtur á réttlætinu, að þjóðin fái til baka sína eign, auðlindir hafsins. Íslenskur sjávarútvegur ætti að taka slíku fagnandi, fagna því að þeir væru frelsaðir frá því að dæla fármagni í kaup á kvóta eða leigu, borga þeim fúlgur fjár sem hætta og leggjast í ljúfa lífið í útlendur stórborgum og flatmaga á sólarströndum, þess í stað að greiða samfélaginu sanngjarnt gjald fyrir afnot af auðlindinni.
En útvegsmenn eru sjálfum sér verstir, þeir halda að þeir muni missa spón úr aski, engu má breyta.
Bændasamtök Ísland hafa viðurkennt að þau standi að hluta undir rekstrarkostnaði Heimssýnar, samtaka sem ekki aðeins berjast gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu heldur vinna að því öllum árum að aðildarviðræðum verði hætt. Ég get engan veginn sagt á þessari stundu hvort ég muni greiða atkvæði með inngöngu Íslands í Evrópusambandið, til þess skortir mig þær upplýsingar sem aðildarviðræðurnar skila. Reyndar tel ég að frekar ólíklegt að við fáum viðunandi samning, en umfram allt; látum reyna á það. En nú er spurningin þessi: Hafa Bændasamtök Íslands rétt til að láta mikla fjármuni af hendi rakana til samtaka sem berjast fyrir því að við fáum aldrei svör við því hvort við náum fram þeim samningum við Evrópusambandið að það verði þess virði að skoða hann og meta og taka afstöðu til hans í þjóðaratkvæðagreiðslu? Eru Bændasamtök Íslands með umboð allra bænda til að verja fjármunum í það að bændur fái aldrei að vita hvað í boði er og hvaða kvaðir fylgja? Er það ekki með öllu siðlaust að samtök og atvinnugrein, sem þiggur geysilegt fé úr okkar sameiginlegu sjóðum, verji fé til einhliða áróður fyrir að berja niður öflun upplýsinga sem bændur landsins hafa sannarlega rétt til að fá?
Enn ein samtökin sem augljóslega vinna gegn eigin hagsmunum og hika ekki við siðleysi og jafnvel lögbrot í þeim tilgangi.
29.10.2010 | 13:47
Hversvegna hefur verið einblínt svona á orkugjafa sem hina einu sönnu auðlind Íslands?
Mér fannst síðasti pistill minn um auðlindir landsins orðinn langhundur svo skynsamlegra væri að skrifa fleiri og styttri. Það eru miklar tilfinningar í gangi þegar umræða hefst um orkuauðlindir Íslands og mér finnst stundum að þar fari sumir út um víðan völl.
Orkuauðlindir Íslands eru aðallega af tvennum toga þegar skoðaðar eru þær virkjanir sem framleiða fyrir okkur orku. Það eru vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir. Sú furðulega flokkun hefur orðið til hér á landi að skilja menn í tvo flokka; virkjunarsinna og virkjunarandstæðinga. Ég held að þessi flokkun eigi ekki nokkurn rétt á sér, það er eðlilegt að sitt sýnist hverjum hvar og hvað eigi að virkja. Líklega, miðað við hvað ég hef látið frá mér fara í rituðu máli, er ég l flokkaður virkjunarsinni sem á þó engan rétt á sér. Þekktur umhverfissinni, nafni minn, sendi frá sér blogg nýlega þar sem hann lýsti sig andsnúinn vatnsaflsvirkjunum, frekar ætti að snúa sér að jarðgufuvirkjunum, það hefði Einar Benediksson gert ef sú tækni í beislun jarðgufu hefði verið komin fram á hans dögum. Ég gerði athugasemd við þessa skoðun, veit ekki hvort nafni minn hefur svarað, hef ekki fundið það.
Ég hef sett fram harða gagnrýni á þá stefnu að virkja meira og meira af gufuafli til raforkuframleiðslu eingöngu og ekki hikað við að segja að þar erum við að fara í hrikalega rányrkju á auðlind okkar. Hvað vit er í því að bora og bora eftir gufu sem síðan knýr aðeins túrbínur sem framleiða rafmagn. Þar nýtum við aðeins um 14% af því afli sem í gufunni býr. Gufuforði í iðrum Íslands er ekki óþrjótandi og ferillinn frá því vatn fer niður í hin heitu jarðlög og er síðan tekið upp aftur sem gufuafl er mjög langur.
Er vit í því að stunda rányrkju á auðlind til að framleiða rafmagn sem síðan er selt til orkufrekasta iðnaðar sem fyrirfinnst, málmbræðslu í okkar tilfelli álbræðslu?
Á Nesjavöllum er framleitt rafmagn með gufuafli sem síðan er notað til að hita kalt vatn upp í hátt í 90°C. Þar með nýtum við gufuaflið 85%, komumst tæplega hærra. Með þessu vatni eru öll hús í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Álftanesi hituð upp
En það er eftir að ræða um eignarhaldið á þessari auðlind, orkuauðlindunum, vatnsföllum og gufuafli.
Þar gagnrýni ég hvað umræðan um þessar auðlindir hefur orðið ómarkviss og ruglingsleg. Ég vil sterklega undirstrika að eignarhald á auðlind er eitt, beislun og nýting annað. Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að auðlindirnar séu í eigu þjóðarinnar, segi það beint út; þær eiga að vera þjóðnýttar, sem er alls ekki svo í dag. Hvort sem við reisum Kröfluvirkjun eða minni virkjanir veður að semja um land g nýtingu við fjölmarga aðila. Nýting er allt annar handleggur. Við erum vön því að fá og öflug íslensk fyrirtæki hafa aðallega nýtt orkuauðlindir. Þar er Landsvirkjun langstærst en fleiri koma þar við sögu svo sem Orkuveita Reykjavíkur, Orkubú Vestfjarða, Hitaveita Akureyrar og margar fleiri hitaveitur.
Ég hef verið spurður að því hvaða afstöðu ég taki til einkarafstöðva, einkahitaveitna frá einni borholu til lítilla byggða svo eitthvað sé nefnt. Ekki dettur mér í hug að farið verði að þjóðnýta litlar heimilisstöðvar í bæjarlækjum þar sem þær finnast. Framtaksamir menn hafa borað eftir heitu vatni í sinni jörð og fundið þó nokkuð af heitu vatni. Er það vatn þeirra einkaeign? Við höfum fram að þessu litið svo á þó þar sé allt annað að gerast en virkjun bæjarlækjarins. Vatn sem kemur upp í borholu á einni jörð kann að koma úr miklu stærra forðabúri og sprunguneti en því sem aðeins er undir jörð viðkomandi. Þess vegna gæti það gerst ef nágrannarnir bora líka að þá minnki rennslið hjá þeim sem fyrstur fann heita vantið.
Þarna geta vaknað margar gagnrýnar spurningar
25.10.2010 | 11:00
Fjórða stoð lýðræðis, fjölmiðlar
Í lýðræðisríki gegna fjölmiðlar geysimiklu hlutverki, þeirra þýðing hefur stöðugt aukist undanfarna áratugi. Einn atburður markar þó dýpra spor hérlendis en nokkur annar, stofnun Ríkisútvarpsins árið 1930. Áhrif Ríkisútvarpsins urðu mjög mikil strax eftir stofnun og fjölmörg heimili á landinu lögðu í þá fjárfestingu að kaupa sér útvarpstæki. Ég er orðinn nokkuð aldraður en þó er Ríkisútvarpið nokkru eldra en ég. Ég man ekki eftir örðu en að hafa hlustað á útvarpið og ég held að áhrif þess hafi ekki síst verið fræðslan sem þá seytlaði frá því um allt þjóðlífið. Ég horfði opinmyntur sem barn á þessi merkilegu tæki sem stóðu á hornhillu í baðstofunni sem við kölluðum svo. Bogadregni hátalarinn lengst til hægri, svarti kassinn sem kallaður var lampatækið, á milli þeirra þungur sýrufylltur rafgeymir, þeir voru til tveir og var annar oftast á hleðslu á Urriðafossi hinum megin við Þjórsá. En hann nægði ekki sem orkugjafi, það þurfti einnig heljarmikið þurrbatterí sem keypt var hjá Verslun Friðriks Friðrikssonar í Miðkoti í Þykkvabæ.
Útvarðið sagði fréttir á hverjum degi. Ég var einmitt að komast til vits og ára þegar seinni heimsstyrjöldin hófst og hélt því lengi vel að stríð væri eðlilegt ástand sem væri stöðugt í heiminum og má segja að þar hafi ég skilið ástandið rétt. En ekki síður var það tónlistin sem flæddi frá tækinu og Stefán Íslandi varð heimilisvinur. Bjarni Björnsson lék jólasveininn í barnatíma sjónvarpsins á jóladag. Auðvitað átti ég að trúa því að þetta væri ekta jólasveinn en ég vissi betur en tókst að halda því leyndu. Þess vegna var sorgin mikil þegar sú frétt barst að Bjarni Björnsson hefði dáið langt fyrir aldur fram, mundi enginn jólasveinn koma hér eftir í útvarpið? Það er ekki nokkur vafi á að útvarpið var ein helsta menntastofnun landsins. Leikritin á laugardagskvöldum var nokkuð sem enginn vildi missa af og enn man ég flutning Helga Hjörvar á þekktustu útvarpssögu allra tíma, Bör Börsson eftir norska skáldið Johan Falkberget. Seinna hlotnaðist mér sú ánægja að leika "skúrkinn" Óla í Fitjakoti á sviði hjá Leikfélagi Kópavogs, þá umbreytt í söngleik af Norðmönnunum Harald Tussberg og Egil Monn Iversen.
En nú er ég þó svo sannarlega kominn út um víðan völl því ætlunin var að fjalla um fjölmiðla sem fjórðu stoð lýðræðis í okkar landi. Ég verð að viðurkenna að þá liggur við að mér falla allur ketill í eld. Enn vil ég minnast á Ríkisútvarpið sem vissulega hefur orðið að hopa talsvert eftir að útvarps- og sjónvarprekstur var nær alfarið gefinn frjáls, það var vissulega óhjákvæmilegt. Oftast hlusta ég á gömlu gufuna og læt mér nægja að horfa á Ríkissjónvarpið, ekki eftir neinu að slægjast á öðrum stöðvum. Hvernig veit ég ég það kann einhver að spyrja fyrst þú sérð þær aldrei? Nægjanlegt að lesa sjónvarpsdagskrárnar, á þeim er nánast ekkert annað en amerískt drasl, nóg af því í Sjónvarpinu vissulega. Það er dapurlegt að sjá hvert frelsið hefur leitt einstaka menn eins og ég hef áður bloggað um; Ingvi Hrafn Jónsson fyrrum fréttastjóri Ríkisútvarpsins kófdrukkinn á sjónvarpsstöð sinni að ryðja úr sér svívirðingum og sleggjudómum.
En Ríkisútvarpið og Sjónvarpið á tvímælalaust tilverurétt, hvorutveggja á að efla eins og ég kem inn á í umsögn minni um viðtalið við Pál Skúlason í þætti Þórhalls Gunnarssonar, Návígi.
En hvað um prentmiðlana, blöðin?
Þar er ástandið ekkert annað en skelfilegt. Hér eru tvö dagblöð gefin út. Morgunblaðið á langa sögu að baki og var lengst af eitt af illvígustu flokksblöðum landsins. En Matthías Johannessen og Styrmir Gunnarson rifu blaðið upp úr lágkúrunni um leið og öll flokksblöð liðu undir lok, þau mátti svo sannarlega missa sig. En það varð mikil breyting á eignarhaldi Morgunblaðsins fyrir fáum árum og þá varð stórslys. Í stað þess að Morgunblaðið kæmist í hendur víðsýnna útgefenda lenti það í höndum samtakanna sem hafa komist yfir eina dýrmætustu auðlind Íslands, fiskinn í sjónum og réttin til að veiða hann. Þeir komust á svipaðan hátt yfir fiskinn og þeir sem eignuðust bankana og rændu þá innanfrá. Landsamband ísl. útvegsmann áttu næga hauka í horni á Alþingi sem réttu þeim auðlindina á silfurfati, þeir þurftu engu að stela en hvað um siðferði þeirra sem réttu fram silfurfatið og þeirra sem tóku við?
Glórulaus og siðlaus gjörð sem tilreidd var sem lögleg!
Og svo kom reiðarslagið. Fyrrum Forsætisráðherra og Seðlabankastjóri Davíð Oddsson, maðurinn sem ber einna mesta sök á að fjármálkerfið hrundi, var gerður að ritstjóra.
Síðan er blaðið á fallandi fæti, einsýnt og þröngsýnt, málpípa þeirra sem ætla ekki að sleppa því sem þeir hafa komist yfir á hneykslanlegan hátt, auðlindum hafsins. Meira en fjórðungur áskrifenda blaðsins létu ekki bjóða sér þennan óþverra allan og sögðu blaðinu upp. Tap þess á ári er nú talið í milljörðum og skyldi engan undra.
En hve lengi ætlar útgerðarauðvaldið að láta milljarðana renna í taphít blaðsins, ætla menn að endalaust að láta peninga renna í hana?
En hvað um hitt blaðið, Fréttablaðið. Þetta er blaðið sem fyrrnefndur Davíð Oddsson fékk á heilann og, barðist gegn ásamt allri sinni hirð og fékk um það sett eftirminnileg lög sem nefndust Fjölmiðlalögin.
En ólíkindatólið á Bessastöðum greip þá inn í, neitaði að undirskrifa og vísaði Fjölmiðlalögunum til þjóðarinnar. En þá sá Davíð sitt óvænna og dró lögin til baka og ekkert varð úr þjóðaratkvæðagreiðslunni.
En hver á Fréttablaðið? Er það ekki maðurinn sem hefur gert usla í fjármálum þjóðarinnar, er það ekki maðurinn sem á íbúðir á dýrasta stað í New York, er það ekki maðurinn sem átti (eða á ) skemmtisnekkju sem er á stærð við okkar gamla Gullfoss, nefnist sá maður ekki Jón Ásgeir Jóhannesson?
Hvers vegna er þessi maður að eiga og gefa út dagblað, reka útvarsstöð og sjónvarpsstöð, er það til þess að standa vörð um prentfrelsið og málfrelsið? Lætur hann enn fé af hendi rakna til að halda þessum fjölmiðlum á floti?
Það virðist einsýnt að slíkur karakter sé fyrst og fremst í fjölmiðlun til að hans eigin fjölmiðlar taki svari hans ef á þarf að halda!
DV hefur sinn sess og ákveðinn lesendahóp, blað sem á sín systkinu víða um lönd. En líklega er DV eina blaðið á Íslandi sem er ekki læst í helgreipar sérhagsmunaaðila.
Svo er það öll tímaritaflóran. Ekki vantar að tímaritin séu flott, glanspappírinn ekki sparaður og sannarlega merkilegt a þau hafa getað sópað til sín dýrum auglýsingum þrátt fyrir hrun og kreppu. En öll eru glanstímmaritin á kafi í því að búa til staðalmyndir, einkum ungra stúlna. Þær skulu vera leggjalangar og þvengmjóar. Helstu fyrirmyndir eru sýningarstúlkur í París og öðrum tískuháborgum sem víxla sér fram eftir göngubrettum með smínk á andlitinu sem sóma mundi sér á andliti Djáknans á Myrká.
En hvað um allar bloggsíðurnar? Er þær ekki hluti af íslenskri fjölmiðlum? Vissulega, og í bland eru þar rökræður viðhafðar en þeir eru ekki margir sem þannig tjá sig. Mikið ber á háværum upphrópunum og þar sjást einnig svívirðingar, það er hin dapurlega staðreynd.
Þannig er ástand fjölmiðla á Íslandi í dag!
Ástandið er í einu orðði sagt:
SKELFILEGT!!!
22.10.2010 | 11:50
Stjórnarskráin á að tryggja trúfrelsi á Íslandi
Eitt af "heitustu" málum dagsins í dag er hvernig skilja beri "trúfrelsi" og það kann að vera skiljanlegt eins og trú er fjölmörgum mikilvæg og ekki er vafi á að kristin trú er það sem flestir aðhyllast á landi hér. En eftir að "trúfrelsi" var tekið í lög hérlendis hafa fjölmörg önnur trúarbrögð en kristin trú náð hér fótfestu. Þá kemur þversögnin; kristnir menn, eða eigum við að segja hin lúterska Þjóðkirkja, er ekki tilbúin að viðurkenna jafnrétti allra trúarbragða.
Þess vegna kemur ekki annað til greina en að í nýrri Stjórnarskrá verði gerður alger skilnaður milli ríkis og Þjóðkirkju. Margir kirkjunnar menn halda því þó fram að sá aðskilnaður sé þegar orðinn en það er alrangt, við erum enn með okkar Ríkiskirkju sem vill ekki sleppa þeim áhrifum sem hún hefur náð inn í menntakerfi þjóðarinnar.
Í núverandi Stjórnarskrá , SJÖUNDA KAFLA, 62. grein, stendur:
Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Stjórnarskráin núverandi er oft heldur loðin en hér fer ekkert á milli mála, við höfum Ríkistrúarbrögð. Það þýðir lítið fyrir forystumenn Þjóðkirkjunnar að halda öðru fram þó ýmsar breytingar hafi verið gerðar á undanförnum árum á tengslum Ríkis og Þjókirkju.
Hér á landi ríkir miklir fordómar gagnvart öðrum trúarbrögðum en kristinni trú. Ekki hvað síst er það íslamstrú sem fordómarnir beinast að og er þá bent á árásirnar á Tvíburaturnana í New York og ýmis önnur hermdarverk sem íslamistar hafa gert sig seka um. Þessi verk minnihluta íslamista eru síðan heimfært upp á trúarbrögðin í heild sem er auðvitað hrein firra.
Kristnir menn eru engan veginn með hreinan skjöld frekar en íslamistar en það væri hrein firra að það sé heimfært upp a trúarbrögðin í heild. Ég ætla að nefna aðeins eitt dæmi. Árið 1982 voru framin í Líbanon, í flóttamannabúðunum Shabra og Shatila einhver hryllilegust fjöldamorð á síðari tímum og þar voru að verki kristnir falangistar, Líbanar. Ekki voru þeir einir að verki því Ísraelski herinn sat um búðirnar til að enginn slyppi burt. Þegar þetta gerðist voru nær allir karlmenn í búðunum flúnir til Túnis svo fórnarlömbin voru konur, börn og gamalmenni. Þarna gengu kristnir men fram af ótrúlegri grimmd, fyrst með nauðgunum og síðan allsherjar slátrun.
Eigum við að fordæma kristna trú vegna þessara og annarra álíka voðaverka sem kristnir menn hafa á samviskunni?
Að sjálfsögðu ekki.
Nú er mikið deilt um áhrif kristinnar kirkju og presta hennar í skólum landsins allt frá leikskólum upp í framhaldsskóla. Þessi þungu áhrif prestanna koma mér talsvert á óvart því þetta þekktist ekki í mínu ungdæmi, en það er æði langt síðan ég var ungur. Þessi áhrif hafa greinilega verið að aukast jafnt og þétt á liðnum árum.
Mín afstaða er afdráttarlaus:
Við eigum að aðskilja Ríkið og Þjóðkirkjuna algerlega.
Engin kirkjudeild á að hafa aðgang að óbörnuðum börnum og ungmennum innar skólaveggja.
Við eigum, sem hluta af sögukennslu, að fræða um trúarbrögð og þá öll trúarbrögð.
Hver trúarbrögð og sá söfnuður sem þau reka, á að starfa innan sinna kirkna og safnaða, þeir sem þangað vilja sækja styrk og trú á að vera það að öllu frjálst.
Ríkisvaldið á að styðja trúarsöfnuði hvaða trú sem þeir boða. Það er greinilegt að mikill meirihluti þjóðarinnar er trúaður á einhvern hátt.
Þarna á að vera fullkominn jöfnuður og það eru alls engin rök að einhver trúarbrögð hafi meira fylgi en önnur, algjört jafnræði skal ríkja.
En aftur að Þjóðkirkjunni. Ég er undrandi á hvað þeir sem mæla fyrir munn hennar eru harðir á því að þessi kirkjudeild verði að vera undir sérstakri vernd ríkisins, að prestar hennar megi þröngva sér inn í skóla landsins til að þeir, þó ekki sé nema með nærveru sinni, klæðnaði og atferli, geti haft áhrif á óharðnaðar sálir sem eiga tvímælalaust rétt til að verði ekki fyrir slíkri innrætingu. Þarna finnst mér birtast ótrúleg minnimáttatkennd og vantrú á boðskap og stafi núverandi Þjóðkirkju. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ekkert mundi efla meir hina evangelísku lútersku kirkju en að losa hana úr hinu langa faðmlagi við ríkið og að hún hætti því að efna til ófriðar við svo marga þegna þessa lands.
Er ekki friðarboðskapur (ef við sleppum Gamla testamentinu) kjarninn í boðskap kristinnar trúar?
20.10.2010 | 21:00
Stefnumið vegna Stjórnlagaþings
Þar sem ég hef boðið mig fram til Stjórnlagaþings tel ég rétt að setja fram mín sjónarmið, hvernig ég tel rétt að starfa ef ég næði kjöri og hver eru mín helstu stefnumið:
- Ég vil taka sæti á Stjórnlagaþingi með opnum huga, þó ég sé búinn að setja mér markmið fer ég á þingið tilbúinn til að hlusta á aðra þingfulltrúa. Þeir sem þar taka sæti mega engan veginn falla í sömu gryfju og Alþingi er í; á Stjórnlagaþingi verður að ræða mál af yfirvegun, með rökum og virðingu fyrir öðrum fulltrúum og sjónarmiðum þeirra.
- Ég hef áður lýst því að ég hef miklar efasemdir um að gera landið að einu kjördæmi. Ekki verður nær komist algjöru jafnræði í vægi atkvæða, það viðurkenni ég. En með þeirri gjörð óttast ég að flokksræðið aukist, framboðslistar verði ákveðnir í höfuðstöðvum flokka í Reykjavík, þetta gæti minnkað vægi byggða utan höfuðborgarsvæðisins til áhrifa og almennings almennt..
- Núverandi kjördæmaskipan hefur sýnt nokkuð hvað væri í vændum með landinu sem einu kjördæmi. Þessi stóru kjördæmi hafa dregið fram galla vegna stærðar sinnar.
- Vissulega mundi það draga úr kjördæmapoti, þingmenn falla oft í freistingu atkvæðapots og vinsældaleitar eins og sjá má um dæmi þegar rætt hefur verið um hinn mikla niðurskurð í heilbrigðisgeiranum á landsbyggðinni.
- Einmenningskjördæmi eru eflaust þau óréttlátustu sem finnast, en þar er einn kostur; hver frambjóðandi verður að standa undir sjálfum sér, hefur ekki lista til að fljóta með eða meðframbjóðendur til að skýla sér.
- Mikil krafa hefur verið uppi um meiri áhrif hvers kjósanda á hverjir veljast til framboðs og forystu. Ein hugmynd um slíkt ef landið verur gert að einu kjördæmi: Frambjóðendur mega skipa sér á lista þar sem kjósendur geta raðað í sæti á listanum upp á nýtt en jafnframt geta einstaklingar boðið sig fram á eigin spýtur jafnframt því að lýsa yfir stuðningi við flokka eða verið alfarið óháðir en með skýr markmið.
- Skýra þarf verk- og valdsvið hinna þriggja stoða lýðveldisins, löggjafarvalds (Alþingi) framkvæmdavald (Ríkisstjórn) og dómsvalds (Dómstólar). Ég tel mikla þörf á að fá fram betri aðskilnað sérstaklega á löggjafarvaldi og framkvæmdavaldi.
- Við höfum alla tíð frá því að við fengum íslenskan ráðherra búsettan á Íslandi búið við þingræðisstjórn. Hefur það gefist vel eða er það sjálfgefið að það sé það sem við viljum í framtíðinni? Hvernig hefur þetta skipulag gefist? Eitt af því neikvæðasta við þingbundna ríkisstjórn er að kjósandinn veitt ekkert hvaða Ríkisstjórn hann er að kjósa í Alþingiskosningum, hann hefur ekkert að segja um það hvaða Ríkisstjórn verður við völd að loknum kosningum. Er þetta lýðræðislegt?
- Í núverandi stjórnarskrá er mikil umfjöllun um Forsetaembættið, það er að mörgu leyti dapurlega lesning. Forsetanum eru veitt mikil völd í öðru orðinu en tekin frá honum í því næsta, þannig er Forseti lýðveldisins Íslands nær algerlega valdalaus. Aðeins að einu leyti hefur hann raunveruleg völd; hann getur neitað að undirrita lög frá Alþingi og vísað þeim til þjóðaratkvæðis.
- Ég tel að tveir möguleikar séu til að ákvarða framtíð Forsetaembættisins; a) leggja það niður, b) breyta því og efla. Óbreytt Forsetaembætti á enga framtíð.
- Þarna kemur möguleikinn til að aðskilja frekar löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið. Gefum okkur dæmi: Forsetinn er kjörinn í þjóðaratkvæði. Hann skipar forsætisráðherra sem síðan velur menn til að gegna ráherraembættum. Þeir sem veljast til ráðherraembætta ættu síst að vera alþingismenn, ef svo er afsala þeir sér þingmennsku. Ráðherrar sitja ekki á þingi en einstakar þingnefndir geta kallað þá fyrir út af einstökum málum. Á ríkistjórnin að þurfa að fá meirihlutastuðning Alþingis? Á Alþingi að geta lýst vantrausti á Ríkisstjórn? Hve mikill skal meirihlutinn að vera til að vantraust hljóti gildi? Er einfaldur meirihluti alltaf það rétta, gæti ekki þurft 2/3 meðatkvæði til að vantraust verði samþykkt?
- Alþingi verður eftir þessa breytingu sannarlega Löggjafarþing sem ekki situr og stendur eins og framkvæmdavaldinu þóknast. Vissulega verður Ríkisstjórn hverju sinni að leggja fram lagafrumvörp vegna ýmissa mála, Fjárlagfrumvarp að sjálfsögðu svo nokkuð sé nefnt.
- Með þessu yrði lagt niður einskisvert karp milli ráðherra og þingmanna sem ekki hvað minnst hefur eyðilagt virðingu Alþingis og er algjör tímasóun.
- Tel að ekki eigi að fækka þingmönum sem er oft hávær krafa. Til að unnt sé að manna allar starfsnefndir Alþingis eru takmörk fyrir því hve fámennt Alþingi má vera. Krafan um fækkun Alþingismanna virðist oftast koma fram sem krafa um sparnað, ekki tekið tillit til annarra þátta. Á Alþingi ekki að hafa áfram rétt til að rannsaka ýmis álitamál? Það tel ég einsýnt.
- Er líklegt að ef hið margumrædda karp milli Ráðherra og Alþingismanna lýkur að unnt verði að stytta starfstíma Alþingis? Er möguleiki að hverfa aftur til þess tíma þegar seta á Alþingi var ekki fullt starf? Væri ekki þannig hægt að búast við að Alþingi verði þverskurður þjóðarinnar og loku yrði skotið fyrir að menn verði atvinnustjórnmálmenn sem óttast má að slitni úr sambandi við lífið í landinu?
Læt hér staðar numið að sinni, umsagnir um þessar hugmyndir væru vel þegnar. Vonandi stutt í næsta pistil um Stjórnarskrána.
11.10.2010 | 13:49
Ég hef boðið mig fram til Stjórnlagaþings
Fullyrðing mín um rányrkju byggist á því að ef jarðgufuvirkjun framleiðir aðeins rafmagn nýtir hún einungis 14% af þeirri orku sem í jarðgufunni býr. Ef virkjunin framleiðir bæði rafmagn og heitt vatn er nýtingin 85% og lengra verður tæplega komist. Lítum aðeins á hagkvæmustu jarðgufuvirkjun landsins, Nesjavelli við Þingvallavatn. Þegar búið er að nýta jarðgufuna til rafmagnsframleiðslu er hitað upp vatn með sömu gufu og búin er að knýja rafmagnstúrbínurnar og því vatni dælt til höfuðborgarsvæðisins. Það heita vatn nægir til að hita upp öll hús í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Álftanesi. Þannig verður Hellisheiðarvirkjun einnig byggð upp þó tæpast sé ennþá markaður fyrir heita vatnið sem hún mun framleiða, en að því mun koma. Suðurnesjavirkjun mun einnig vera nokkuð hagkvæm, framleiðir bæði rafmagn og heitt vatn.
En er til virkjun á Íslandi sem sóar svona átakanlega orkunni sem við sækjum í formi gufu í iður jarðar?
Sú virkjun heitir Kröfluvirkjun, hún nýtir aðeins 14% af orkunni sem sótt er niður í jörðina, síðan fer gufan sína leið, hún er meira að segja kæld með töluverðum kostnaði og engum til gagns.
Þetta er rányrkja og ekkert annað.
Stundum hefur hvarflað að mér hvort ekki væri hægt að nýta þessa miklu orku, sem fer til spillis við Kröfluvirkjun, og reisa mikið og gjöfult ylræktarver sem gæti séð landmönnum fyrir miklum hluta þess grænmetis sem við verðum nú að flytja inn og skapaði mikla vinnu í Þingeyjarsýslum. Vissulega nokkur stofnkostnaður en orkan er ókeypis, hún fer í dag út í veður og vind engum til gagns. Og nú eru áætlanir um að reisa álbræðslur við Húsavík og í Helguvík ásamt því að stækka Straumsvík og reisa mörg og mikil gagnaver. Allar eiga þessar áætlanir það sameiginlegt að orkan skal sótt að mestu í iður jarðar í formi jarðgufu. Þeistareykir, Gjástykki, Reykjanes og Hellisheiði, víða skal leitað fanga með rányrkju á náttúruauðlindinni sem er langt frá því að vera óþrjótandi. Það er því miður ekki til nema lítill markaður fyrir heitt vatn frá þessum jarðgufuvirkjunum og þær norðlensku, ef af verður, hafa engin þéttbýli sem markað.
Við höfum á undanförnum árum deilt ákaft um virkjanir og þá aðallega vatnsaflsvirkjanir. Í þeim er ekki um sóun á orku að ræða, frekar beinist gagnrýnin að umhverfi og náttúru. En meira að segja sú umdeildasta, Kröfluvirkjun, nýtir vatnsafl, vatn sem hvort sem er rynni sína leið til sjávar, afl sem án virkjunar yrði engum til gagns.
Í vatnsaflsvirkjunum er aldrei um samskonar rányrkju á náttúruauðlind að ræða og í flestum jarðgufuvirkjunum ef þær verða staðreynd.
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar