Stór hluti þjóðarinnar er í algjörri afneitun

Sérstakt þjóðfélagsástand kemur upp hjá hverri þjóð sem lendir í fjárhagslegu hruni, þar á ég við þær þjóðir sem við nefnum þróaðar þjóðir. Þeir sem aldrei hafa haft nema naumlega til hnífs og skeiðar þekkja þetta ekki, hjá þeim er baráttan áfram að reyna að haf í sig og á, verða að láta hverjum degi nægja sína þjáningu. En  hjá hinum þróuðu þjóðum virðist viðbrögð margra við erfiðleikum vera afneitun. Það er ekki annað að sjá á yfirborðinu en mikill hluti þjóðarinnar hafi úr talverðu að spila, veitingahúsin blómstra, glæsilegasta kvikmyndahús Norðurlanda er opnað í Egilshöll, tónleikar og leiksýningar á hverju strái, verslanir sprengfullar af munaðarvöru, bókaútgáfa blómstrar, þúsundir lítra af bjór renna um kverkar á öllum krám hvarvetna um land og óhemju magn að jólarusli hefur verið flutt inn og er að hrúgast upp í búðunum, ekki búist við öðru en það muni renna út sem heitar lummur.

Er þá ekki allt í lagi, blómstrar ekki þjóðlífið?

Að vissu marki gerir það svo og auðvitað er það jákvætt að einhver eyðsla eigi sér stað, öll viðskipti efla Ríkissjóð og ekki veitir af.

En það hefur fyrr verið líf og fjör í borgum heimsins þó grunnurinn sé örþunnur ís sem kann að bresta hvenær sem er. Það kann að virðast  ósvífni að hverfa frá Reykjavík  til Berlínar eftir heimskreppuna miklu, til tímans milli heimsstyrjaldanna tveggja. Hið ljúfa líf var í hámarki, það var hvort sem er allt á vonarvöl. Þannig höfðu sigurvegarar fyrri heimsstyrjaldarinnar búið um hnútana með þeim afarkostum sem þeir settu Þjóðverjum, þjóðinni sem mesta ábyrgð bar á  þessari skelfilegu styrjöld t og töpuðu henni gersamlega. Með  Versalasamningnum var skapaður jarðvegur fyrir skaðræðishreyfingu nasismans, þá sögu þekkja flestir, allir ættu að þekkja hana.

En sem betur fer erum við í Reykjavík og Íslandi árið 2010, svo erfitt sem það kann að reynast, en ekki á millistríðsárunum í Berlín og ég vona að þeir sem lesa þennan pistil minn taki þessa samlíkingu ekki of bókstaflega, en viðbrögðin við fjárhagslegum erfiðleikum er oft að sama toga.

En það eru fleiri í afneitun en þeir sem enn eiga eitthvað í handraðanum og geta þess vegna veitt sér þó nokkrar lystisemdir.

Tunnusláttarfólkið er ekki síður í afneitum. Ótrúlega margir sjá tunnuberjarana með glýju í augum, finnst jafnvel að þarna séu einhverjir "vormenn" að verki. Fréttamenn færa okkur nákvæmar fréttir af þessum hópi og ræða oft við einhverja sjálfskipaða talsmenn sem lýsa hvaða hugsjónir búa að baki. Eitt er þar sameiginlegt öllum sem láta í sér heyra um leið og þeir leggja frá sér lurkinn til að seilast í vasann eftir eggjum til að henda í Alþingishúsið. Það eina sem kemst að er að allt sé ómögulegt, Ríkisstjórnir fari út í hafsauga, Alþingismenn hundskist heim til sín, hvergi örlar á nokkru uppbyggilegri hugsun enda mjög skiljanlegt því þessi hópur hefur ekki skoðað bakgrunn þess sem hér gerðist eða hvað öfl komu okkur á þennan kalda klaka.

Dæmigert fyrr þennan "baráttuhóp" var uppákoman í Þingholtunum þar sem lítil deild úr tunnuhernum sló skjaldborg um hús eitt, en sá orðrómur komst á kreik að Landsbankinn ætlaði að láta bera íbúann á efstu hæð út. Þess þurfti raunar ekki því íbúinn var flúinn af vettvangi, hafði reyndar tapað íbúðinni til Landsbankans  20 mánuðum áður en fengið að búa þar áfram. Hann hafði ætlað að verða ríkur á augabragði með byggingarbraski og fékk fullt af peningum hjá Landsbankanum til þeirra framkvæmda því enga peninga átti hann sjálfur. En eins og svo margir braskarar sem ekkert áttu og skuldsettu sig upp fyrir haus fór hann rakleitt í gjaldþrot. Íbúðin góða við Laufásveg var veðsett upp í rjáfur og vel það. En áður en hetjan lagði á flótta hafði hann staðið í ýmsum framkvæmdum með þeim afleiðingum að íbúðareigendur á hæðinni fyrir neðan urðu að flýja þar sem vatnsleki niður alla veggi gerði íbúðina ónothæfa. En síðasta hálmstrá hetjunnar var að reyna að bjarga sér með því að tengja fram hjá hitaveitumæli Orkuveitu Reykjavikur, líklega hugsandi sem svo að komandi hækkun heita vatnsins væri óbærileg, þess vegna væri réttlætanlegt að fá heita vatnið ókeypis.

Ég er ekki í vafa um að með þessum orðum er ég að safna glóðum elds að höfði mér. Þúsundir hafa komið á Austurvöll við ýmis tækifæri að undanförnu til að þrýsta á stjórnvöld til að taka fastar á vandamálunum með nærveru sinni en án ofbeldis og upphlaupa. Þetta fólk á skilið virðingu fyrir nærveru sína og prúða framkomu. En uppvöðsluseggir sem með ólátum, tunnubarsmíðum og drullukasti hafa verið nánast friðhelgir, engin virðist þora að blaka við þessum ruglukollum sem hafa ekkert jákvætt fram að færa heldur þvert á móti; skemmdarverk sem hefur kostað milljónir að lagfæra.

Og meira að segja í þessum skrílslátum hefur Alþingiskona Hreyfingarinnar tekið þátt. Tæplega getur fulltrúi á Alþingi lýst betur yfir hugmyndafátækt sinni og getuleysi til að starfa jákvætt í þingsölum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Ágæt grein á Smugunni http://www.smugan.is/menning/smasjain/nr/4371. Þar skrifar Eiríkur Örn Norðdal um hæfi blaðamanna í ljósi bókmennta. Kannski á þetta við um fleira. Og ekki bara kannski.

Gísli Ingvarsson, 8.11.2010 kl. 15:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 113911

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband