Færsluflokkur: Matur og drykkur

Félagsráðgjafi Hjálparstofnunar kirkjunnar sýndi djörfung og raunsæi þegar hún sagði álit sitt á biðröðunum margumtöluðu

Ég hef svo sannlega haft ákveðnar skoðanir á því hörmulega skipulagi á "neyðarhjálp" að fólk komi til hjálparstofnana til að fá matvæli og standi þar tímunum saman í biðröðum. Ekki er nokkur vafi á að þar eru þeir sem af neyð leita eftir hjálp, en það er ekki minni vafi á því að þar slæðast margir með sem ekki eru í neyð. Það er sama hvaða hjálp er boðin, ef hún er jafn stjórnlaus og hún er í dag hjá Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálpinni þá er ekki nokkur vafi á að hjálpin er misnotuð af einhverjum hluta þeirra sem þangað leita. Viðbrögð forstöðukonu Fjölskylduhjálparinnar voru með eindæmum. Í stað þess að viðurkenna að allt þetta starf þyrfti að endurmeta réðst hún að félagsráðgjafa Hjálparstofnunar kirkjunnar og sakaði hana um lítilsvirðingu við þá sem hjálpar leita. Bætti við að sú hugmynd félagsráðgjafans, að upplýsa og hjálpa fólki að fara rétt með það fjármagn sem það hefur, væri fáránleg, fólk sem hefði enga peninga þyrfti ekki á slíkri ráðgjöf að halda. Líklega er ástandið ekki það slæmt að í biðröðunum séu margir sem enga peninga eiga, en það eru eflaust margir sem hafa peninga af skornum skammti, þeim þarf að hjálpa til að forgangsraða.

Það er athyglisvert að Hjálparstofnun kirkjunnar vinnur allt öðru vísi en hinar stofnanirnar. Þar fær hver og einn sem þangað leitar persónulega hjálp, það getur ekki hver sem er komið án þess að gera grein fyrir sér og rogast burt með poka með matvælum. Svo virðast sem a. m. k. Fjölskylduhjálpin vilji halda í óbreytt ástand og þá hlýtur maður að spyrja:  Er hjálpin farin að nærast á því að geta aflað sem mestra gæða hjá framleiðendum og verslunum til að úthluta til Péturs og Páls án þess að kanna á nokkurn hátt þörf hvers einstaklings. Vill Fjölskylduhjálpin hafa biðraðirnar og óbreytt ástand til að forstöðukonan geti síðan baðað sig í fjölmiðlum og barið sér þar á brjóst og sagt; Sjá hér er ég, miskunnsami Samverjinn.

Sveitarfélögin verða að taka sér tak og kortleggja þörfina. Neyðarhjálp á ekki að vera úthlutun matarpoka til fólks í biðröðum, biðraðirnar eiga að hverfa. 

Mér sýnist að sú skarpa sýn sem Hjálparstofnun kirkjunnar hefur á vandamálinu geti orðið leiðandi í því starfi að kortleggja vandann, skilgreina hverjir þurfa neyðarhjálp og hverjir þurfa framfærslu. Sveitarfélögin virðast vera steinsofandi og ekki gera sér grein fyrir skyldum sínum. En hver veit nema þau fari að rumska, þarna verða sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að rumska fyrst og taka hraustlega á vandamálinu.


Borða geitur með hníf og gaffli?

Það var ágætt viðtal við fróða konu um geitur í Ríkisútvarpinu í morgun. En því miður féll konan í þan fúla málfarspytt að tala um að skepnur borði.

Orðið að "éta" var lengi ráðandi í íslensku máli en svo fannst einhverjum það ekki nógu virðulegt orð og þá varð til orðið að "borða". Hún er dregin af borðinu sem setið er við þegar menn éta. Hins vegar lifir þetta góða gamla orð góðu lífi í norrænum málum, enn tala Svíar um að "eta" mat og skammast sín ekki fyrir.

Ég get engan veginn fellt mig við að nota orðið að "borða" um þann verknað þegar dýr éta. Pempíuhátturinn sækir á, afar sjaldan er umræða um æti fiska eða fugla, það er auðvitað miklu virðulegra að tala um að fæðu dýra.


Viðbjóður á Vestfjörðum

Það er lítið sem hundstungan finnur ekki. Þetta gamla spakmæli datt mér í hug þegar ég horfði á Sjónvarpsfréttir í kvöld. Fréttastofa, sem er staðin að hlutdrægni og óheiðarleika, lætur hafa sig í það að sjónvarpa langri frétt um viðbjóð á Vestfjörðum. Það er greinilega ekki kreppa hjá öllum þar vestra. Hópur manna kemur saman og keppir í því sem þeim finnst eflaust göfugust íþrótta; að keppa í ofáti!!!

Þar voru menn látnir keppa í því að éta á ákveðnum tíma 1 kg af steik, líklega lambasteik en það skiptir svo sem ekki máli. 

Þennan viðbjóð telur Fréttastofa Sjónvarps nauðsynlegt að koma á framfæri við alla landsmenn á sama tíma og hún grjótheldur kjafti yfir fréttum um vísindahneyksli sem "elítan" rembist við að þagga niður, hneykslinu sem hefur fengið heitið "Climategate". En auðvitað fáum við stöðugar fréttir frá Kaupmannahöfn um ráðstefnuna miklu þar sem bjarga á heiminum frá agnarsmárri einingu í gufuhvolfi jarðar, koltvísýringi CO2, sem er hvorki meira né minna en 0,0387% af gufuhvolfinu eða 1% af gróðurhúsahjálminum þegar dregin hafa verið frá öll þau efni sem ekki tilheyra honum.

Um miðja síðustu öld var opnað veitingahús í Reykjavík við Vesturgötu sem hlaut nafnið Naust. Þetta veitingahús var um árabil eitt vinsælasta veitingahús í höfuðborgini. Eitt af því sem það endurvakti var íslenskur þjóðlegur matur, súrmatur, sem síðar hefur gengið undir nafninu "þorramatur". Það varð ákaflega vinsælt að fara í Naustið og éta súrmat úr trogum á gamlan máta. En því miður tóku veitingamennirnir upp á skelfilegum ósið. Þeir auglýstu að hver sem gæti torgað öllu úr troginu þyrfti ekki að borga góðmetið súrsaða. Þetta varð of mikil freisting fyrir suma þó margir snæddu sinn mat af yfirvegur og fágun. Sumir sem reyndu við áskorunina tókst að lokum að komast á salernin í kjallaranum þar sem spýjan stóð upp úr þeim, aðrir höfðu ekki svo mikið þrek svo magainnhaldið lenti á borðum eða gagnvegum.

Sem betur fer sáu veitingamenn að sér og drógu þetta eindæma "tilboð" til baka og seinna vildu þeir aldrei ræða það, þetta varð þeirra feimnismál.

En nú segir Sjónvarpið okkur að komnir séu fram víkingar á Vestfjörðum sem ætli að endurvekja siðinn.

Kannski við fáum framvegis að  sjá í Sjónvarpsfréttum spúandi Vestfirðinga, ætli þau Óðinn, Elín og aðrir fréttavíkingar Sjónvarpsins fari ekki vestur og kanni hvar spýjuþolmörk þeirra eru? 


Seinheppin sölumennska á landbúnaðarvörum

Seint skyldi ég flotinu neita og fátt fæ ég betra en vel matreitt íslenskt lambakjöt. Enda er ég sveitamaður í húð og hár, alinn upp við ljós frá steinolíulömpum, útikamar og eldun við kindaskán, Ég var ekki hér í loftinu þegar ég fékk embætti í sláturtíðinni þegar gamalám, sauðum og hrossum var slátrað á hlaðinu til að afla fjölskyldunni vetrarforða, reyndar ársforða. Mitt embætti var að hræra sem ákafast í blóðinu sem spýttist úr strjúpa kindanna og sauðanna eftir að þau höfðu verið skotin og skorin, þetta gerði ég með písk sem var gerður úr trénuðu ramfangi. Ef ekki var hrært í heitu blóðinu þá storknaði það og þá hefði enginn blóðmör verið gerður það haustið.

En fyrir þá sem ekki þegar hafa liðið út af undir þessari lýsingu ætlaði ég svolítið að agnúast út í markaðsfærslu landbúnaðarvara. Ástæðan er auglýsing frá Krónunni þar sem hún býður okkur heila lambskrokka af nýslátruðu á svona sæmilegu verði. 

En þá kemur að sjálfsögðu þessi eilífa forsjárhyggja. Annað lærið er sneitt niður og framparturinn einnig. Ef ég kaupi heilan lambaskrokk þá við ég fá bæði lærin heil, ég vil einnig fá frampartana tvo heila, ósagaða. Ég hef oft reynt að fá heila  bóga (framparta) en það virðist útilokað. Allir skulu sitja við sama borð, svona skaltu fá það kall minn, láttu okkur um að ákveða fyrir þig hvernið varan er tilreidd sem þú kaupir. Bógar eða frampartar eru nefnilega lystilega gott hráefni til að heilsteikja, en þeir er aldrei fáanlegir í verslunum.

Annað til að agnúast út í er þetta: oft er hægt að fá frosið súpukjöt í vænum pakkningum, ágætt til að elda góða kjötsúpu, muna samt eftir því að allt lambakjöt krefst nákvæmrar og vandaðrar afþýðingar. En þá kemur hugmyndaleysi sölustöðvanna. Það bregst varla að allar pakkningarnar eru næstum því jafn stórar og þungar. 

Hefur engum dottið í hug að einhver vilji 1 kg, annar 3 kg og sá þriðji jafnvel 5 kg?


Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband