Færsluflokkur: Sjónvarp

Þórhallur fer vel af stað með framtíðarþátt sinn um Ísland í Sjónvarpinu, en fyrsti þátturinn var helmingi of langur

Ég held að þessi t Þórhalls lofi nokkuð góðu. En Þórhallur þarf að muna það að þessir umræðuþættir mega ekki vera of háfleygir og á mannamáli. Það tekur nokkuð á að fylgjast með umræðu um félags- og framfærslumáleins eins og annað sem þar bar á góma. Þess vegna átti Þórhallur að efna til umræðu um heilbrigðismálin í örðum þætti, þarna var allt of mikið efni sett fram í einu og ég óttast að það hafi í för með sér að áheyrandi/áhorfandi nái ekki að fanga allt sem þar kemur fram.

Eðlilega urðu miklar umræður um kjör öryrkja og einnig um kjör einstæðra foreldra sem í flestum tilfellum eru konur, þær sjá oftast um börnin eftir skilnað og sumar hafa misst maka sinn, en einstæðir feður eru einnig til. Það sem mér fannst athyglisverðast í umræðunni var sú hugmynd um að snúa mati á öryrkjum við, meta þá út frá færni en út frá vöntun á færni. Einnig að það gengur ekki lengur að flokka ákveðna þjóðfélagshópa eftir einu og sama lögmálinu, þarna er hópur sem er eins misjafn og aðrir hópar þjóðfélagsins að möguleikum og aðstöðu. Þarna þarf að skoða mál sérhvers einstaklings, þá kann að koma í ljós að sá hópur sem býr við hreina neyð er ekki eins stór og ætla mætti.

Það var nánast ekkert minnst á eldri borgar í þessum þætti frekar en annarstaðar í þjóðfélaginu. Aðeins Stefán Ólafsson ræddi um eldri borgara í sínu innslagi og benti einnig á að þar þyrfti að endurskipuleggja það flókna kerfi lífeyris sem klambrað hefur verið saman. Eldri borgarar eru ekki einsleitur hópur, þar er mannflóran mjög fjölbreytt. Þar eru margir sem ekki eiga til hnífs og skeiðar en þar er sem betur fer allgóður hópur sem á eignir og hefur góðar tekjur, þarna er ekki síðri þörf á að skoða mál einstakslingins, ég held að það sé engan veginn eins mikið verk og ætla mætti.

Enn og aftur segi ég að ég hef aldrei skilið þá gjörð Árna Páls flokksbróður míns, þáverandi félagsmálaráðherra, þegar hann lækkaði frítekjumark eldri borgara úr 1.300.200 kr niður í 480.000 á ári, fyrr mátti nú rota en dauðrota. Hvað halda ráðmenn að Ríkið græði á þessari gjörð? Ekki nokkurn skapaðan hlut en þetta sviptir margan mann möguleikanum á að afla sér nokkurra aukatekna og án vafa safnar það nokkrum krónum í skattpeningum í kassa ríkisins. Það ætti Árni Pál og aðrir unggæðingar að vita að ekkert er eins gefandi og gefa öldruðum kost á að vera á vinnumarkaði eins lengi og kostur er og miðla sérþekkingu sinni til samborgaranna.

Það þýðir lítið að segja við hálf áttræðan mann að þetta verði leiðrétt eftir tíu ár eða svo. 

Veit Árni Páll hvert á að senda leiðréttinguna til mín, á húna að fara í körina, eða þá upp eða niður?


UPPKOSNING, hverskonar orðskrípi er þetta?

Það er með ólíkindum hvernig orðskrípi og orðaleppar allskonar eiga auðvelt með að ná útbreiðslu með leifturhraða. Þeir sem þar vinna að útbreiðslunni eru í fyrsta lagi fjölmiðlamenn og á eftir þeim skríða stjórnmálamenn. Sú mikla umræða sem orðið hefur um hinn fráleit úrskurð Hæstaréttar að kosningarnar til Stjórnlagaþings væru ógildar hafa eðlilega kallað á ýmsar hugmyndir um hvernig við skuli bregðast. Helst var rætt um að Alþingi veldi þá 25 sem kosnir voru að öllu leyti löglegri kosningu til að semja tillögu að nýrri stjórnarskrá. Önnur hugmynd var að endurkjósa, þar yrðu sömu einstaklingar í framboði og við fyrri kosningarnar nema þeir sem hugsanlega mundu draga sig til baka .

En skyndilega var orðið ENDURKOSNING ekki nógu gott og einhver lukkuriddari í útvarpi  fór að tuða um þetta sama undir heitinu UPPKOSNING. Og það var ekki að sökum að spyrja frekar en í fjósinu hjá kúnum, þegar einni varð mál þurftu allar að míga. 

Og nú "míga" allir fjölmiðlamenn og stjórnmálamenn orðinu UPPKOSNING út úr sér.

Er þetta orðskrípi til bóta.


Ólafur Ragnar mun ekki sitja fimmta kjörtímabilið sem forseti í mínu umboði

Það er dapurlegt að Ólafur Ragnar lærði ekkert af hruninu 2008, hann hefur ekki beðið sína heittelskuðu þjóð afsökunar á að hafa flengst með útrásarvíkingum og rússneskum mafíósum um heiminn þveran og endilangan til að færa fram fagnaðarerindið um Ísland sem framtíðarinnar fjármálmiðstöð þar sem London, New York eða Frankfurt mega sín lítils.

Það var dapurlegt að fylgjast með málflutningi Ólags Ragnars á blaðamannfundinum á Bessastöðum þar sem hann tilkynnti að hann mundi vísa samþykktu Icesave frumvarpi til "hins löggjafans", þjóðarinnar. Það var dapurlegt að fylgjast með því að maðurinn sem ég hef stutt til að takast þetta embætti á herðar sér stóð keikur fyrir framan hóp blaðamana, vitandi það að hann var á öllum sjónvarpsskjám landsins, skrumskæla stjórnskipulag Íslanda. Það sem var alvarlegast að hann sem einstaklingur, þó forseti sé, lítilsvirti okkar æðstu valdstofnun, Alþingi, hann lítilsvirti þá samþykkt sem 70% þingmanna stóðu að, hann einn gat tekið ákvörðun sem því miður er réttlætt í Stjórnaskrá lýðveldisins, sýnir enn og aftur að Stjórnarskráin verður að endurskoða.

Ekki er nokkur vafi á að allt þetta brambolt Ólafs Ragnars er fyrsti vísirinn að því að hann ætli að bjóða sig fram til að sitja fimmta kjörtímabilið sem forseti Íslands. Þarna fiskar hann i gruggugu vatni, þar sér hann nýjan meirihluta sér að baki, en það munu líka mjög margir af hans fyrri stuðningsmönnum segja; hingað og ekki lengra.

En Ólafur Ragnar hefur kastað teningnum. Ekki öfunda ég hann af hans nýja baklandi. Þeir sem leiða munu undirbúninginn að kjöri hans til forseta næsta ár eru komnir fram í sviðsljósið. Þar eru Jón Valur, Loftur Altice, Hallur Hallsson, Páll Vilhjálmsson, Frosti Sigurjónsson og úr hópi stjórnmálamanna koma eflaust Sigmundur Davíð og Þór Saari.

Hver veit nema eitt ólíkindatól styðji annað ólíkindatól. Er ekki líklegt að höfuðfjandinn úr fjölmiðlamálinu, Davíð Oddsson, skeiði fram í baráttuna fyrir sínum forna fjandmanni og taki með sér Hannes Hólmstein og Baldur Hermannsson?

Þokkaleg hjörð eða hitt þá heldur! 


Ríkisútvarpið brýtur hlutleysisreglur og skiptir sér að starfi dómstóla á freklegan hátt

Mér brá illa í brún þegar haldinn var áróðursfundur í Kastljósi með söng Ellenar Kristjánsdóttur og dætra til að halda fram sakleysi þeirra níu sem voru með ólæti á áhorfendapöllum Alþingis. Burt séð hvaða skoðun menn hafa á framferði níumenninganna þá var þessi umfjöllun i Kastljósi fyrir neðan allar hellur og freklegt brot á hlutleysisreglum Ríkisútvarpsins. En þetta var áréttað í gær í Úrvarpinu þegar fjallað var um sama mál í þætti eftir fjögurfréttir á sama hátt, í bæði skiptin fullyrt að níumenningarnir væru saklausir og hefðu ekkert brotið að sér. Þetta mál er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og það er nánast hneyksli að Ríkisútvarpið leyfi sér að fjalla um dómsmál, skiptir ekki máli hvaða dómsmál það er, og kveða upp sýknudóma og þar dugði ekki minna en umfjöllun bæði í Sjónvarpi og Útvarpi.

Það hefur mikið verið fjallað um þrískiptingu valdsins i okkar þjóðfélagi undanfarið, fjallað um stoðirnar þrjár, löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald og nauðsyn þess að þarna séu skörp skil á milli þessara stoða. Fjölmiðlarnir eru oft nefndir sem fjórða valdið og að sjálfsögðu ber þeim að virða ákveðnar leikreglur, virða verksvið hinna þriggja meginstoða lýðræðisins á Íslandi. Fjölmiðlum ber einnig að virða sjálfstæði dómstóla. Það er dómari sem mun kveða upp dóm í þessu máli á sama hátt og í öðrum málum sem rekin eru fyrir dómstólum. Hvort hinir ákærðu verða sýknaðir eða dæmdir til refsingar veit ég ekki, það mun koma í ljós.

Ég spyr að lokum Pál Magnússon útvarpsstjóra: Er þessi fráleita umfjöllun um dómsmál gerð að hans frumkvæði eða var umfjöllunin gerð án hans vitundar.? Ég ætlast til að hann svari því skilmerkilega.


Áramótaskaupið og sjálfhverfa montspíran

Í rauninni er tæpast hægt að segja álit sit á Áramótaskaupinu fyrr en við endurskoðun sem vonandi verður bráðlega. En samt sem áður fannst mér margt ágætt og hnittið  sem þar bar fyrir augu og eyru. Líklega er þó atriðið með veiku konuna á spítalanum einna eftirminnislegast. Að sjálfsögðu vildu starfsfólk spítalans að konan hefði það sem best þar sem hún var tengd ýmsum tólum og tækjum til að halda i henni lífinu. Auðvitað var sjálfsagt að hún fengi að horfa á Sjónvarpið og þar með var henni boðin góð nótt. En óhamingjan ríður ekki við einteyming. Á sjónvarpsskjánum birtist ömurlegasti sjónvarpsþáttur sem sést hefur í mörg ár í dagskrá Sjónvarpsins, "HRINGEKJAN", sem kom í stað Spaugstofunnar. Mer fannst Spaugstofan gjarnan mega hverfa, átti þó stundum sæmilega spretti en var oftast gömul og þreytt. En það jafnvel læðist að manni sá grunur að þeir Spaugstofumenn hafi haft hönd í bagga með arftakanum, svo arfalélegur var þessi þáttur, "HRINGEKJAN". Það lá jafnvel við að gömlu þættirnir MAÐUR ER NEFNDUR gæfu ekki sama aulahrollinn í minningunni. En aumingja konan á spítalanum reyndi af veikum mætti að slökkva á þessari hörmung, "HRINGEKJUNNI", sem birtist á skjánum. Það tókst ekki fyrr en hún tók sjálfa sig úr sambandi og dó drottni sínum.

Það var gaman að sjá viðbrögð ýmissa sem komu við sögu, voru skotspónar Skaupsins, flestir voru ánægðir með sinn hlut. Þó saknaði ég viðbragða Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem nú hugsar ekki nema um eitt; hvernig hann geti lamið í gegn að engar breytingar verði á ráðuneytum svo hann geti setið áfram í sínum ráðherrastóli með Bjarna Harðarson við fótskörina. En einn af viðmælendunum, uppáhald fjölmiðlanna, montspíra sem kallar sig Gils eitthvað. Hann var yfir sig hneykslaður á því að hann skyldi ekki sýndur af einhverju vöðvabúnti, annað væri honum ekki boðlegt. Aumingja drengurinn skyldi ekki háðið í Skaupinu. Auðvitað var hann sýndur af einhverjum með þunna vöðva, höfundar skaupsins sendu honum kveðju og sýndu að það sem innra fyrir býr er ekki minna virði heldur en að vaða um með vöðvabúntin. Og auðvitað endaði vöðvabúntið röfl sitt á því að hann ætlaði að skíta á höfunda skaupsins.

Skrifaði þessi sjálfhverfa montspíra, sem endar flestar ræður sínar á að viðmælandi eigi að skíta á sig upp á bak eða hann geri það með eigin framleiðslu, bók um KURTEISI, bók sem átti að vera kennslubók í kurteisi og framkomu?


Kvikmynd Gunnars Sigurðssonar um Hrunið var geysilega góð og hlýtur að hafa hrisst upp í mörgum.

Sjónvarpið sýndi mynd Gunnars sunnudagskvöldið síðasta, daginn eftir kosningarnar til Stjórnlagaþings. Ég hefði gjarnan viljað fá þessa mynd á Skjáinn svo sem viku fyrir kosningar. Ég er ekki frá því að það hefði orðið til þess að adrenalínið hefði aukist hjá mörgum, það hefði jafnvel geta orðið til þess að fleiri hefðu komið á kjörstað og kosið til Stjórnlagaþings. Gunnar rekur í mynd sinni vel aðdragandann að Hruninu, þennan aðdraganda sem á einhvern furðulegan hátt hefur tekist að svæfa. Skammtímaminni manna virðist vera með eindæmum lélegt. Grein eftir grein, blogg eftir blogg kemur þetta minnisleysi mjög sterkt fram. Hrunið er skráð á þær Ríkisstjórnir sem sátu við völd þegar Hrunið varð og þær sem hafa barist við afleiðingar þess. Hvergi er minnst á gerendurna.

Miðað við framlag Sjónvarpsins fyrir kosningarnar til Stjórnlagaþings kæmi mér ekki á óvart þó það hafi verið yfirveguð ákvörðun stjórnenda RÚV að sýna ekki mynd Gunnars fyrr en EFTIR kosningarnar. Svo rækilega tók Sjónvarpið sér stöðu við hlið Morgunblaðsins að hundsa kosningarnar og kynna þær í engu.

En aftur að skammtímaminni okkar borgara þessa lands. Það hefur tekist að festa nafnið "Hrunstjórn" við Ríkisstjórn Geir Haarde, Þingvallastjórnina sem tók við stjórnartaumunum á miðju ári 2007. Þetta er stórmerkilegt hvernig tekist hefur að kenna þeim sem voru með stjórnartaumana eftir að skaðinn var skeður en enginn svo mikið sem nefnir þá sem byggðu upp Hrunið. Man enginn lengur eftir spillingunni og sukkinu við sölu ríkisbankanna? Man enginn eftir því að Björgólfsfeðgar fengu Landsbankann á spottprís og með öllu því listasafni sem þar var innanstokks, það "gleymdist" víst að minnast á þau verðmæti! Það "gleymdist" víst einnig að aflétta ríkisábyrgð af fjárskuldbindingum sem fóru frá ríkisbanka til einkabanka. Hefur fólk ekki tekið eftir því að nú er Ríkisjóður að blæða tvöfaldri þeirri upphæð sem feðgarnir borguðu fyrir bankann , tæplega 12 milljarðar, nú skal Ríkissjóður standa skil á 24 milljörðum vegna ábyrgða.

Ætlar einhver að segja að þarna hafi ekki verið á ferðinni sukk og spilling?

Búnaðarbankinn fór til alikálfa Framsóknarflokksins Finns Ingólfssonar, Ólafs i Samskipum og fleiri. Og með hverju borguðu þeir bankann? Með fjármunum sem þeir höfðu komist yfir frá Samvinnutryggingum sem reyndar áttu að renna til  viðskiptavina  félagsins í hlutfalli við fyrri viðskipti. 

Ætlar einhver að segja að þarna hafi ekki verið á ferðinni sukk og spilling?

Hvers vegna vildi ég að Sjónvarpið hefði sýnt mynd Gunnars viku fyrir en ekki daginn eftir kosninga?

Vegna þess að þá hefðu eflaust margir risið upp úr hægindi sínu og sagt: Ég kýs til Stjórnlagaþings því þar byrjum við að leggja grundvöllinn að nýju Íslandi, við getum ekki leyft að spilltir stjórnmálamenn eins og Davíð Oddsson og Halldór Ingólfsson, arkitektar Hrunsins mikla, fái aftur að leika lausum hala og eyðileggja okkar þjóðfélag. Okkur ber skylda til þess að vernda börnin okkar fyrir spilltum stjórnmálamönnum sem ekki aðeins eyðilögðu þjóðfélagið, innleiddu siðleysi á hæsta stigi heldur skuldbundu þeir Ísland til að fylgja ofstækisfullum og yfirrugluðum forseta Bandaríkjanna í verst glæp síðari ára, Íraksstríðið.

Mér hefur að framan orðið tíðrætt um sölu bankanna og þá spillingu sem þar ríkti. Sala bankanna er hluti af því sem Hruninu olli, þar kom vissuleg margt fleira til en bankasalan var þar mikill áhrifavaldur.


Þjóðin fékk gullið tækifæri en brást lýðræðisskyldu sinni að miklu leyti

Þá liggja úrslit kosninganna til Stjórnlagaþings fyrir og nú vitum við hvaða 25 einstaklingar voru valdir. Þar fóru kjósendur eftir frægð manna að mestu leyti og það er ekki út í hött að segja að Egill Helgason geti vel við unað; meirihluti þeirra sem náðu kjöri hafa verið tíðir gestir í Silfri Egils. Ég er einn af þeim 497 sem ekki náðum kjöri og ekki annað að gera en sætta sig við það, bjóst reyndar ekki við að að ég yrði fulltrúi á Stjórnlagþingi, til Þess væri ég ekki nægilega þekktur og hef reyndar aldrei komið í Silfur Egils.

Undirbúningur og úrslit hafa verið nokkuð umdeild eins og við mátti búast. Sumir telja að undirbúningstími hafi verið of stuttur, því er ég algjörlega ósammála, hvers vegna þurfti lengri tíma? Það skýtur nokkuð skökku við hvað margir buðu sig fram og svo þessi dræma þátttaka í kosningunum. Landsbyggðarmenn (ég tilheyri þeim) emja um að aðeins 3 fulltrúar séu af landsbyggðinni og hver ber ábyrgð á því? Landsbyggðarmenn sjálfir og engir aðrir sem notuðu atkvæðisrétt sinn mun verr en íbúar á höfuðborgarsvæðisins. Alverst var þátttakan á mínu heimasvæði, Suðurkjördæmi, þar sem hún náði  aðeins 29,2% enda náði enginn frambjóðandi af svæðinu, og þeir voru ekki margir, kjöri.

En hér að framan skrifaði ég grein um fjórða valdið, fjölmiðlana og komst að þeirri niðurstöðu að þar sé ástandið SKELFILEGT. Ég fékk svo sannarlega sönnun á þessu sterka orði; SKELFILEGT, í aðdraganda Stjórnlagaþings. Morgunblaðið sannaði endanlega að ritstjórnarstefna þess er lituð af annarlegri pólitík, þar situr við stjórnvölinn gamall, uppgefinn og vonsvikinn maður sem hefur þó slíkt hreðjatak á sínum gamla flokki, Sjálfstæðisflokknum, að undrum sætir. Lengi vel var skrifað um kosningarnar til Stjórnlagaþings með háði og spotti, allt að því illgirni, en þegar nær dró fóru fleiri og fleiri Sjálfstæðismenn að vinna gegn kosningaþátttöku. Svo eru þeir grjóthissa á því að, eftir þeirra eigin áliti, eingöngu vinstrimenn hafi náð kjöri sem reyndar er tóm vitleysa og sýnir að þeir eru sárir og reiðir yfir að hafa en einu sinni hlýtt fyrirmælunum frá Hádegismóum.

Það mætti halda að Sjónvarpið væri gengið í Sjálfstæðisflokkinn ef miðað er við framlag þess til kosninganna til Stjórnlagaþings. Svo virðist sem þar sé einnig unnið eftir línunni frá Hádegismóum. Engin kynning á kosningunum eða frambjóðendum og þótt þungt væri lagst á Sigmar stjórnanda Kastljóss að helga síðasta Kastljósinu fyrir kosningar Stjórnlagaþinginu haggaðist hann hvergi; sá Kastljósþáttur fjallaði eingöngu um meint kvennamál Gunnars í krossinum.

Sá prentmiðill sem stóð sig best var tvímælalaust DV. Frammistaða prentmiðla vekur enn og aftur upp þá nöturlegu staðreynd að þessi tvö dagblöð sem gefin eru út á Íslandi eru í höndum og eigu harðsoðinna sérhagsmunaklíkna. Eina ljósið framundan er að báðir eru þessi blöð, Fréttablaðið og Morgunblaðið, á fjárhagslegri heljarþröm og því fyrr sem þau fara fram af brúninni, því meiri möguleiki er að hér verði til heilbrigð dagblöð en ekki dagblöð sem eru leppar eigenda sinna.

"Þjóðin hefur talðað" æptu menn gjarnan á Austurvelli og börðu tunnur af öllum mætti "Viðheimtum kosningar og beint lýðræði" var einnig æpt um leið og eggjunum var kastað.

Þjóðin fékk kosningar og beint lýðræði. 

En þá nennti meirihluti kjósenda ekki á kjörstað, nennti ekki að taka þátt í lýðræðinu.

Ætla menn svo áfram að æpa og öskra "valdið til fólksins"!!!


Lokaorð vegna Stjórnlagaþings

Aðeins tveir dagar til kjördags þegar við öll fáum það einstaka tækifæri til að kjósa beint 25 fulltrúa sem fá það hlutverk að rita nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Öruggt að við þessi eldri fáum ekki slíkt tækifæri aftur, jafnvel ekki sú kynslóð sem hefur kosningarétt í dag.

Fyrir það fyrsta þá bendi ég þeim sem vilja enn kynna sér svolítinn boðskap og hvatningu frá okkur frambjóðendum að fara á:

kjostu.org

Þar eru góðar leiðbeiningar fyrir þá sem enn eru ekki alfarið búnir að  átta sig á því hvernig á að kjósa og hvatning frá okkur frambjóðendum til ykkar kjósenda til að koma á kjörstað og taka þátt í þessu einstaka tækifæri.

Til ykkar ágætu meðframbjóðendur

Hvatningarhópur frambjóðenda er okkar sameiginlega átak til að upplýsa kjósendur og hvetja þá til að kjósa, það er okkar hagur sem erum í framboði og landsmanna allra.

En við vissum alltaf það þyrfti að kosta einhverju til og því var búist við að hver og einn frambjóðandi legði fram nokkra upphæð, segjum 5.000 kr. inn á þessa bankaslóð; 

526 - 14 - 402711 - kt. 440902-2270

Ef framlög verða umfram kostnað rennur mismunurinn til góðgerðarmála.

Að svo mæltu þakka ég fyrir skemmtilega kosningabaráttu ,

Sigurður Grétar Guðmundsson 4976

 


Kjördæmaskipun og fjöldi þingmanna

Ég geri mér ljóst að eflaust er ég búinn að fjalla áður um það sem ég skrifa hér, þetta eru upprifjanir og áherslur

Kjördæmaskipun

Ég held að það sé óhætt að fullyrða að meiri hluti frambjóðenda til Stjórnlagaþings vill vinna að því að gera Ísland að einu kjördæmi, þar er einblínt á einn þátt eingöngu; jöfnun atkvæða.

Ég er efins um að gera Ísland að einu kjördæmi þó það tryggi jafnt vægi atkvæða, lengra verður tæplega komist í því. En ég óttast önnur áhrif, sérstaklega hættuna á auknu flokksræði. Eftir að Ísland hefur verið gert að einu kjördæmi verða allir framboðslistar matreiddir í Reykjavík á flokksskrifstofunum. Ég óttast að þar með verði áhrif hinna dreifðari og afskekktari byggða borinn fyrir borð. Möguleiki væri að jafnframt framboði lista verði einstaklingum heimilt að bjóða sig fram með ákveðnum fjölda meðmælanda. Einhver slík réttarbót yrði að fylgja verði Ísland gert að einu kjördæmi. 

Fjöldi þingmanna

Annað sem er oft slegið fram af frambjóðendum til Stjórnlagaþings er að fækka skuli þingmönnum, líklega eru flestir þar að horfa til sparnaðar.

Ég held að flestir sem slíku varpa fram þekki lítið til starfa Alþingis. Það er dapurlegt ef það er almennt álit að þingfundir, sem hægt er að horfa á í Sjónvarpinu, sýni í hnotskurn það mikla starf sem fram fer á Alþingi. Aðalstarfið fer fram í þeim mörgu nefndum sem kosnar eru á Alþingi, nefndir sem hafa mismunandi verkefni, sumar fjalla um iðnað og atvinnumál aðrar um menntamál og ekki má gleyma þeirri sem ekki hefur mesta ábyrgð, fjárlaganefnd.Til að manna allar nefndir þingsins þarf ákveðinn fjölda, það væri miður ef hver þingmaður getur ekki einbeitt sér að einum málflokki í nefnd. Þess vegna er það mikill misskilningur að fjöldi á löggjafarsamkundu eins lands sé eitthvert hlutfall af fjölda borgaranna, það er ekki nema eðlilegt að fjöldi á löggjafarsamkundu fámenns lands sé hlutfallslega meiri en meðal stærri þjóða. Eitt atriði í viðbót; með sama fjölda þingmanna og nú er eru meiri líkur á að þar sitji þverskurður þjóðarinnar. Það mætti gjarnan setja hámarkstíma á hve lengi hver og einn má sitja á Alþingi. Þannig minnka líkurnar á að til verði stétt atvinnustjórnmálamanna sem aldir eru upp í flokkunum, rétt klára lögfræðiprófið og koma blautir á bak við eyrun til setu á Alþingi án þess að hafa komið nálægt atvinnuvegum eða brauðstriti þjóðarinnar.

Ef það tekst að gera þau skörpu skil sem nauðsynleg eru milli Alþingis og Ríkisstjórnar þá verða störf Alþingis mun skilvirkari, þá mun Alþingi hafa mun meira frumkvæði að lagasetningum. Það hefur lengi verið dapurlegt að fylgjast með því að Alþingi er á stundum óstarfhæft vegna þess að það bíður eftir frumkvæði Ríkisstjórnar, hún hefur nær alfari hrifsað til sín allt frumkvæði að lagasetningu eða hvað verður oft um þingmannafrumvörp, hve oft daga þau uppi?


Eru engin takmörg fyrir því hvað djúpt er hægt að sökkva sér í skotgrafirnar á Alþingi?

Ekki man ég eftir kvöldi í langan tíma þar sem svo margar jákvæðar fréttir hafa komið í fjölmiðlum. Þar á ég ekki síst við þau tímamót sem urðu á Suðurnesjum að frumkvæði Ríkisstjórnarinnar, fundi hennar með forystumönnum allra sveitarfélaga á svæðinu. Þetta er vissulega gleðileg tíðindi, þarna taka höndum saman um að efla atvinnu á svæðinu og uppbyggingu Ríkisstjórn, sem talin er vinstri stjórn, og sveitarstjórnir á Suðurnesjum sem að ég held allar teljist til hægri í pólitík.

Ætla mætti að þessu væri tekið fagnandi í stjórnsýslunni, á Alþingi ekki síst.

En það var öðru nær. Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Jón Gunnarsson og Guðlaugur Þór Þórðarson ruku í pontu og rökkuðu allt niður sem fram kom í í þessi samkomulagi  og hæddust að öllu þó flokksbræður þeirra á Suðurnesjum gangi fagnandi til verks. 

Líklegt þykir mér að þarna hafi lágkúran á Alþingi komist neðst í leðjuna.

En hvaða samkomulag var gert á Suðurnesjum í dag, er ekki fróðlegt að líta á það?

Hér á eftir fer listi yfir þau verkefni sem ríkisstjórnin samþykki á fundi sínum í morgun að ráðast í nú þegar:

Forsætisráðherra

1. Samráðsvettvangur stjórnvalda og sveitarfélaga á Suðurnesjum

Að myndaður verði formlegur samráðsvettvangur stjórnvalda ríkisins og sveitarfélaga á svæðinu um atvinnu-, mennta- og velferðarmál.

Dómsmála- og mannréttindaráðherra:

1. Flutningur Landhelgisgæslu

Að skoðaðir verði vandlega kostir þess að flytja starfsemi Landhelgisgæslu Íslands á öryggisvæðið á Miðnesheiði á Suðurnesjum og að framkvæmd verði hagkvæmniathugun á þeim kosti.

Fjármálaráðherra:

1. Gagnaver

Að lagt verði fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt er geri samkeppnisstöðu gagnavera hér á landi samkeppnisfæra við gagnaver í löndum innan ESB.

2. Verklegum framkvæmdum á þróunarsvæði Keflavíkurflugvallar verði flýtt

Að til að auka nú þegar möguleika til frekari atvinnuuppbyggingu á þróunarsvæðinu og skapa um leið aukna atvinnu við verklegar framkvæmdir verði 250 m.kr. veitt aukalega til þróunarfélags Keflavíkurflugvallar þannig að félagið geti hraðað þeim verkefnum sem ákvörðun hefur verið tekin um að ráðast í.

3. Kynningar- og markaðsátak á fasteignum á varnarsvæðinu (Kadeco og Fjárfestingarsvið Íslandsstofu)

Að hrundið verði af stað kynningar- og markaðsátaki á fasteignum á varnarsvæðinu en Þróunarfélag Keflavíkur á fjölmargar eignir á gamla varnarsvæðinu sem er nauðsynlegt að komist í notkun.

4. Hersetusafn á Suðurnesjum

Að Þróunarfélagi Keflavíkur verði falið að setja á stofn Hersetusafn á gamla varnarsvæðinu í einu af fjölmörgum húsum félagsins. Safnið myndi kynna merkilega og umdeilda sögu bandarísks herliðs á Íslandi allt frá síðari heimstyrjöld.

Iðnaðarráðherra:

1. Starfshópur um atvinnumál á Suðurnesjum

Að unnið verði með starfshópi um atvinnumál á Suðurnesjum sem iðnaðarráðherra hefur skipað og ný verkefni verði lögð fyrir starfshópinn sem rýnir þau og metur. Jafnframt muni starfshópurinn vinna nýjar tillögur í samstarfi við heimamenn og leggja fyrir ráðherra og stofnanir.

2. Klasasamstarf fyrirtækja á sviði líforku

Að stutt verði við verkefni sem Nýsköpunarmiðstöð hefur verið falið að hefja undirbúning að um klasasamstarf á sviði líforku sem tengist jarðvarmaverum á Reykjanesi.

Félags- og tryggingamálaráðherra

1. Hámarkstímabil atvinnuleysisbóta lengt í 4 ár

Að hámarkstímabil greiðslu bóta úr atvinnuleysistryggingasjóði verði lengt tímabundið úr þremur árum í fjögur ár.

2. Formlegt samstarf sveitarfélaga í velferðarmálum – ráðning verkefnisstjóra.

Ríkisstjórnin leggi fram fjármagn til að ráðinn verði starfsmaður/verkefnisstjóri sem haldi utan formlegt samstarf sveitarfélaganna Reykjanesbæjar, Grindavíkur, Sandgerðis, Garðs og Voga á sviði velferðarmála sveitarfélaganna á svæðinu. Verkefnisstjórn skipuð lykilfólki frá sveitarfélögunum og fulltrúum Vinnumálastofnunar, Íbúðalánasjóðs og Umboðsmanns skuldara myndar samráðshóp sem vinnur með verkefnisstjóranum. Velferðarvaktin verði verkefnisstjórn og verkefnisstjóra til ráðgjafar og haldi utan um verkefnið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar/félags- og tryggingamálaráðherra. Verkefnið er hugsað sem fyrirmyndarverkefni sem önnur svæði gætu síðar ýtt úr vör.

3. Útibú umboðsmanns skuldara á Suðurnesjum.

Umboðsmaður skuldara fái aðstöðu á Suðurnesjum og taki þar á móti fólki sem þarf á þjónustu embættisins að halda. Til að byrja með þarf að setja tvo starfsmenn í verkið þar sem nauðungasölur eru hlutfallslega mjög margar á Suðurnesjum m.a. tífalt fleiri en á höfuðborgarsvæðinu.

Mennta- og menningarmálaráðherra


1. Þróun á nýju og fjölbreyttara námsframboði.

Rekstrargrundvöllur menntastofnana á Suðurnesjum verði tryggður og samstarf þeirra styrkt með sérstakri fjárveitingu sem svari til greiðslu launa tveggja sérfræðinga í fullu starfi í tvö ár sem fái það verkefni að þróa nýtt og fjölbreyttara námsframboð og styrkja ráðgjöf og hvatningu til þeirra sem minnsta menntun hafa eða eru án atvinnu.

2. Fiskitækniskóli Íslands.

Fisktækniskóla Íslands verði tryggt eitt stöðugildi.

Þetta er það sem þeir alþingismenn Sjálfstæðisflokksins þeir Jón Gunnarsson og Guðlaugur Þór Þórðarson töldu sig hafa stöðu til að rakka niður og hæðast að. Mér segir svo hugur um að ýmsir flokksfélagar þeirra á Alþingi kunni þeim litlar þakkir fyrir.


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband