Færsluflokkur: Sjónvarp
25.10.2010 | 11:00
Fjórða stoð lýðræðis, fjölmiðlar
Í lýðræðisríki gegna fjölmiðlar geysimiklu hlutverki, þeirra þýðing hefur stöðugt aukist undanfarna áratugi. Einn atburður markar þó dýpra spor hérlendis en nokkur annar, stofnun Ríkisútvarpsins árið 1930. Áhrif Ríkisútvarpsins urðu mjög mikil strax eftir stofnun og fjölmörg heimili á landinu lögðu í þá fjárfestingu að kaupa sér útvarpstæki. Ég er orðinn nokkuð aldraður en þó er Ríkisútvarpið nokkru eldra en ég. Ég man ekki eftir örðu en að hafa hlustað á útvarpið og ég held að áhrif þess hafi ekki síst verið fræðslan sem þá seytlaði frá því um allt þjóðlífið. Ég horfði opinmyntur sem barn á þessi merkilegu tæki sem stóðu á hornhillu í baðstofunni sem við kölluðum svo. Bogadregni hátalarinn lengst til hægri, svarti kassinn sem kallaður var lampatækið, á milli þeirra þungur sýrufylltur rafgeymir, þeir voru til tveir og var annar oftast á hleðslu á Urriðafossi hinum megin við Þjórsá. En hann nægði ekki sem orkugjafi, það þurfti einnig heljarmikið þurrbatterí sem keypt var hjá Verslun Friðriks Friðrikssonar í Miðkoti í Þykkvabæ.
Útvarðið sagði fréttir á hverjum degi. Ég var einmitt að komast til vits og ára þegar seinni heimsstyrjöldin hófst og hélt því lengi vel að stríð væri eðlilegt ástand sem væri stöðugt í heiminum og má segja að þar hafi ég skilið ástandið rétt. En ekki síður var það tónlistin sem flæddi frá tækinu og Stefán Íslandi varð heimilisvinur. Bjarni Björnsson lék jólasveininn í barnatíma sjónvarpsins á jóladag. Auðvitað átti ég að trúa því að þetta væri ekta jólasveinn en ég vissi betur en tókst að halda því leyndu. Þess vegna var sorgin mikil þegar sú frétt barst að Bjarni Björnsson hefði dáið langt fyrir aldur fram, mundi enginn jólasveinn koma hér eftir í útvarpið? Það er ekki nokkur vafi á að útvarpið var ein helsta menntastofnun landsins. Leikritin á laugardagskvöldum var nokkuð sem enginn vildi missa af og enn man ég flutning Helga Hjörvar á þekktustu útvarpssögu allra tíma, Bör Börsson eftir norska skáldið Johan Falkberget. Seinna hlotnaðist mér sú ánægja að leika "skúrkinn" Óla í Fitjakoti á sviði hjá Leikfélagi Kópavogs, þá umbreytt í söngleik af Norðmönnunum Harald Tussberg og Egil Monn Iversen.
En nú er ég þó svo sannarlega kominn út um víðan völl því ætlunin var að fjalla um fjölmiðla sem fjórðu stoð lýðræðis í okkar landi. Ég verð að viðurkenna að þá liggur við að mér falla allur ketill í eld. Enn vil ég minnast á Ríkisútvarpið sem vissulega hefur orðið að hopa talsvert eftir að útvarps- og sjónvarprekstur var nær alfarið gefinn frjáls, það var vissulega óhjákvæmilegt. Oftast hlusta ég á gömlu gufuna og læt mér nægja að horfa á Ríkissjónvarpið, ekki eftir neinu að slægjast á öðrum stöðvum. Hvernig veit ég ég það kann einhver að spyrja fyrst þú sérð þær aldrei? Nægjanlegt að lesa sjónvarpsdagskrárnar, á þeim er nánast ekkert annað en amerískt drasl, nóg af því í Sjónvarpinu vissulega. Það er dapurlegt að sjá hvert frelsið hefur leitt einstaka menn eins og ég hef áður bloggað um; Ingvi Hrafn Jónsson fyrrum fréttastjóri Ríkisútvarpsins kófdrukkinn á sjónvarpsstöð sinni að ryðja úr sér svívirðingum og sleggjudómum.
En Ríkisútvarpið og Sjónvarpið á tvímælalaust tilverurétt, hvorutveggja á að efla eins og ég kem inn á í umsögn minni um viðtalið við Pál Skúlason í þætti Þórhalls Gunnarssonar, Návígi.
En hvað um prentmiðlana, blöðin?
Þar er ástandið ekkert annað en skelfilegt. Hér eru tvö dagblöð gefin út. Morgunblaðið á langa sögu að baki og var lengst af eitt af illvígustu flokksblöðum landsins. En Matthías Johannessen og Styrmir Gunnarson rifu blaðið upp úr lágkúrunni um leið og öll flokksblöð liðu undir lok, þau mátti svo sannarlega missa sig. En það varð mikil breyting á eignarhaldi Morgunblaðsins fyrir fáum árum og þá varð stórslys. Í stað þess að Morgunblaðið kæmist í hendur víðsýnna útgefenda lenti það í höndum samtakanna sem hafa komist yfir eina dýrmætustu auðlind Íslands, fiskinn í sjónum og réttin til að veiða hann. Þeir komust á svipaðan hátt yfir fiskinn og þeir sem eignuðust bankana og rændu þá innanfrá. Landsamband ísl. útvegsmann áttu næga hauka í horni á Alþingi sem réttu þeim auðlindina á silfurfati, þeir þurftu engu að stela en hvað um siðferði þeirra sem réttu fram silfurfatið og þeirra sem tóku við?
Glórulaus og siðlaus gjörð sem tilreidd var sem lögleg!
Og svo kom reiðarslagið. Fyrrum Forsætisráðherra og Seðlabankastjóri Davíð Oddsson, maðurinn sem ber einna mesta sök á að fjármálkerfið hrundi, var gerður að ritstjóra.
Síðan er blaðið á fallandi fæti, einsýnt og þröngsýnt, málpípa þeirra sem ætla ekki að sleppa því sem þeir hafa komist yfir á hneykslanlegan hátt, auðlindum hafsins. Meira en fjórðungur áskrifenda blaðsins létu ekki bjóða sér þennan óþverra allan og sögðu blaðinu upp. Tap þess á ári er nú talið í milljörðum og skyldi engan undra.
En hve lengi ætlar útgerðarauðvaldið að láta milljarðana renna í taphít blaðsins, ætla menn að endalaust að láta peninga renna í hana?
En hvað um hitt blaðið, Fréttablaðið. Þetta er blaðið sem fyrrnefndur Davíð Oddsson fékk á heilann og, barðist gegn ásamt allri sinni hirð og fékk um það sett eftirminnileg lög sem nefndust Fjölmiðlalögin.
En ólíkindatólið á Bessastöðum greip þá inn í, neitaði að undirskrifa og vísaði Fjölmiðlalögunum til þjóðarinnar. En þá sá Davíð sitt óvænna og dró lögin til baka og ekkert varð úr þjóðaratkvæðagreiðslunni.
En hver á Fréttablaðið? Er það ekki maðurinn sem hefur gert usla í fjármálum þjóðarinnar, er það ekki maðurinn sem á íbúðir á dýrasta stað í New York, er það ekki maðurinn sem átti (eða á ) skemmtisnekkju sem er á stærð við okkar gamla Gullfoss, nefnist sá maður ekki Jón Ásgeir Jóhannesson?
Hvers vegna er þessi maður að eiga og gefa út dagblað, reka útvarsstöð og sjónvarpsstöð, er það til þess að standa vörð um prentfrelsið og málfrelsið? Lætur hann enn fé af hendi rakna til að halda þessum fjölmiðlum á floti?
Það virðist einsýnt að slíkur karakter sé fyrst og fremst í fjölmiðlun til að hans eigin fjölmiðlar taki svari hans ef á þarf að halda!
DV hefur sinn sess og ákveðinn lesendahóp, blað sem á sín systkinu víða um lönd. En líklega er DV eina blaðið á Íslandi sem er ekki læst í helgreipar sérhagsmunaaðila.
Svo er það öll tímaritaflóran. Ekki vantar að tímaritin séu flott, glanspappírinn ekki sparaður og sannarlega merkilegt a þau hafa getað sópað til sín dýrum auglýsingum þrátt fyrir hrun og kreppu. En öll eru glanstímmaritin á kafi í því að búa til staðalmyndir, einkum ungra stúlna. Þær skulu vera leggjalangar og þvengmjóar. Helstu fyrirmyndir eru sýningarstúlkur í París og öðrum tískuháborgum sem víxla sér fram eftir göngubrettum með smínk á andlitinu sem sóma mundi sér á andliti Djáknans á Myrká.
En hvað um allar bloggsíðurnar? Er þær ekki hluti af íslenskri fjölmiðlum? Vissulega, og í bland eru þar rökræður viðhafðar en þeir eru ekki margir sem þannig tjá sig. Mikið ber á háværum upphrópunum og þar sjást einnig svívirðingar, það er hin dapurlega staðreynd.
Þannig er ástand fjölmiðla á Íslandi í dag!
Ástandið er í einu orðði sagt:
SKELFILEGT!!!
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2010 | 10:04
Málfrelsi er ein af undirstöðum lýðræðis, dapurlegt að sjá hvernig það er misnotað
Ég var að enda við umfjöllun um það sem fram kom hjá Páli Skúlasyni í Sjónvarpinu á gær; um hvernig stjórnmálaumræðan hérlendis er sokkin djúpt í skotgrafir.
En það verður að gera kröfu til fleiri en stjórnmálmanna. Í lýðræðisríki hafa allir þegnar málfrelsi en því miður, nokkur hluti þeirra telur að málfrelsi sé frelsi til að ausa skít yfir náungann, að halda endalaust fram sömu rökleysunum, að tyggja aftur of aftur sömu innihaldslausu frasana. Ég hef stundum verið komin á fremsta hlunn með að hætta hér á blogginu, of margir á því eru ekki viðræðuhæfir og því miður virðist ýmsum ofstækismönnum vera hossað hátt og eru stöðugt í sérstöku úrvali. Þó gagnrýna megi stjórnmálamenn fyrir margt eru takmörk fyrir því þar sem annarsstaðar hve lágt má leggjast í orðbragði og lúalegri framkomu. Líklega hefur enginn fengið jafn margar svívirðingar hér á blogginu og Jóhanna Sigurðardóttur forsætisráðherra, þar virðist einnig blandast inn í karlremba sumra lítilsigldra karla, sem aldrei geta falið og vilja líklega ekki fela, kvenfyrirlitningu sína.
Ég er satt að segja ekki enn búinn að ná mér eftir að hafa rekist einhverstaðar á myndband með Ingva Hrafni Jónssyni fyrrum fréttastjóra Sjónvarpsins og núverandi sjónvarpsstjóra á eigin Sjónvarpsstöð. Það var ekki nóg með að aumingja maðurinn væri augljóslega kófdrukkinn, heldur jós hann úr sér svívirðingum aðallega um tvær persónur, Evu Joly og Ólaf Hauksson sérstakan saksóknara. Reyndar voru allir "undir" sem starfa við embætti Sérstaks saksóknara, þetta var að áliti hins kófdrukkna allt undirmálsfólk. Nákvæmnin í málflutningi aumingja mannsins var reyndar engin eins og oft vill verða þegar drukknir menn fara að láta ljós sitt skína. M. a. sagði hann að Eva Joly hefði fengið hundruður þúsunda dollara" í laun og ferðakostnað frá Íslenska ríkinu. Einhverstaðar sá ég að heildarkostnaður viðstörf Evu Joly hérlendis væru um 27 milljónir króna.
En það dapurlegasta er að þó nokkur fjöldi venjulegs fólks virðist njóta illmælginnar sem út úr Ingva Hrafni veltur drukknum sem ódrukknum.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.10.2010 | 09:14
Athyglisvert viðtal við Pál Skúlason í Sjónvarpinu í gær
Þórhallur Gunnarsson er að sækja sig með sinn nýja vikulega viðtalsþátt í Sjónvarpinu og í gærkvöldi kom margt merkilegt fram. Greining Páls Skúlasonar fyrrum Háskólarektors á ástandi stjórnmálumræðunnar á Íslandi var gagnmerk. Það er dapurlegt að flest af því sem hann sagði þar um er rétt ályktað; stjórnmálmenn og stjórnmálumræða á Íslandi er í skotgröfum þar sem hver reynir að komast lengra í "málfundaumræðunni".
Það hefði mátt ætla að Hrunið hefði þjappað stjórnmálamönnum saman um að ræða málefnin með rökum og yfirvegun en það er öðru nær; aldrei hefur Alþingi verið eins lágt metið og nú samkvæmt skoðanakönnunum. Ég ætla ekki að hika við að nefna ákveðna einstaklinga til að sýna fram á hve djúpt er hægt að sökkva. Framsóknarflokkurinn hefur velskt í brimskafli stjórnmálanna frá því að Halldór Ásgrímsson og Finnur Ingólfsson skyldu við flokkinn í rúst eftir fjármálsukkið við einkavæðingu bankanna. Nýr formaður fannst, ungur maður að nafni Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Ekki nokkur maður í stjórnmálflórunni hefur átt önnur eins tækifæri til að lyfta sér og sínum flokki upp úr skotgröfunum.
En það fór á annan veg. Sigmundur Davíð sökk í pytt skotgrafanna á stundinni dyggilega studdur að ungum angurgöpum í flokknum. Þó virðist hann ekki hafa algjöran stuðning. Guðmundur Steingrímsson sýnir að hann vill ekki í pyttinn fara og ekki heyrist mikið frá Siv Friðleifsdóttur. Enginn af nýju þingmönnum Framsóknarflokksins hefur þó valdið eins miklum vonbrigðum og Vigdís Hauksdóttir sem á svipstundu tókst að tileinka sér hernað skotgrafanna eftir að hún komst á þing. Nýjasta ævintýri hennar er að leggja fram tillögu, ásamt ýmsum skoðanasystkinum úr öðrum flokkum, um að þjóðin greiði um það atkvæði þegar kosið verður til Stjórnlagaþings hvort draga skuli umsókn Íslands um inngöngu í ESB til baka. Flumbrugangur hennar og meðflutningsmanna er slíkur að þau voru öll búin að gleyma nýsettum lögum, sem þau tóku þátt í að afgreiða, um að líða skuli minnst 3 mánuðir frá því Alþingi samþykkir þjóðaratkvæði þar til atkvæðagreiðslan fer fram! "Sorry" segir Vigdís, ég flyt bara tillögu um breyta nýsettum lögum um þjóðaratkvæði! Telur Vigdís Hauksdóttir að Alþingi sé sjálfsafgreiðsla þar sem hún og hennar líkar geti valsað um og fengið flýtimeðferð til að þóknast sýniþörf viðkomandi?
Hávær krafa kom fram í búsáhaldabyltingunni um að hreinsa alla sem þá sátu á Alþingi út, burt með þá og reyndar að stjórnmálflokkarnir fykju líka. Mikil endurnýjun varð hjá flokkunum og nýtt afl kom einn á þing, hét þá Borgarahreyfingin, en hinir nýju þingmenn þessarar hreyfingar voru vart sestir á þing þegar Borgarahreyfingin klofnaði, þrír sátu eftir í nýjum flokki Hreyfingunni og einn, Þráinn, labbaði yfir til Vinstri grænna og hefur síðan staðið sig best að fjórmenningunum, hefur ekki sagt orð. En þrímenningarnir Birgitta, Margrét og Þór haf ekki setið auðum höndum en sokkið djúpt í svað skotgrafanna.
Sjálfstæðisflokkurinn er því miður að mestu á valdi síns gamla foringja Davíðs Oddssonar en stóð þó vel að málum við atkvæðagreiðsluna um Landsdóm, voru sjálfum sér samkvæmir. Ekki verður það sama sagt um þó nokkra af þingmönnum Samfylkingarinnar sem sýndu einhverskonar klæki við atkvæðagreiðsluna, voru ýmist með eða á móti. Sem betur fer var meirihluti þingmanna flokksins staðfastur og greiddi atkvæði á móti Landsdómi.
Hvers vegna tel ég að þeir sem greiddu atkvæði gegn því að draga fyrrum ráðherra fyrir Landsdóm hafi staðið réttar að málum? Því hef ég lýst áður í pistli hér á blogginu og vísa til þess en skal þó endurtaka tvennt. Í fyrsta lagi næst þar engan veginn til þeirra stjórnmálamanna sem mesta ábyrgð bera á Hruninu í okt. 2008, þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, í öðru lagi er Landdómur eins og gamalt skrímsli sem er ónothæft með öllu.
En aftur að vitalinu við Pál Skúlason. Hann benti eindregið á þörf fyrir upplýsingu um flest mál sem hið opinbera fjallar um og þar væri Sjónvarpið kjörinn vettvangur sem svo annarlega væri vannýttur til þeirra hluta. Hann lagði til að gerðir yrðu stuttir hnitmiðaðir fræðsluþættir um margvísleg efni, svo sem Stjórnarskrána og komandi Stjórnlagaþing. Ég hef lengi saknað slíkra þátta, vandaðra fréttaskýringa t. d. Í dag eru aðeins tveir þættir sem standa undir nafni þar. Það er "Spegillinn" í Ríkisútvarpinu og "Silfur Egils" í Ríkissjónvarpinu.
Vona að ráðmenn hafi heyrt þessi sjónarmið Páls Skúlasonar og taki þau alvarlega.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.10.2010 | 09:51
Landselur var það, ekki útselur
Ekki er nokkur vafi að skemmtilegasta sjónvarpsefni, sem nú er í boði, er Útsvar. Þau eru aldeilis prýðilegir stjórnendur þau Þóra og Sigmar. Mismunandi er hvernig keppendur ýta undir húmor og skemmtilegheit, i gær var stórgaman af liðum Reykjaness og Álftaness.
Í gær varð að koma fram leiðrétting vegna fjölda sveitarfélaga og þar var annað liðið í þarsíðustu keppni hækkað um 15 stig sem þó hafði ekki áhrif á úrslitin.
Í gærkvöldi kom svar í flokkaspurningum frá Álftnesingum hvaða selur sæist a mynd. Álftnesingar svöruðu að þar væri liggjandi útselur og fengu stig fyrir rétt svar. Ég er alinn upp á Þjórsárbökkum en þar á eyrunum kæpti landselurinn og frá blautu barnsbeini man ég ekki eftir nokkru vori að ekki væru veiddir 20 - 30 landselskópar. Það er öruggt að svarið útselur var rangt, myndin var af landsel. Útselurinn er miklu stærri og þessa seli er auðvelt að að þekkja í sundur á höfuðlaginu, útselurinn er miklu stórskornari.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2010 | 10:59
Engan hefði átt að draga fyrir Landsdóm vegna þess að Landsdómur er algjörleg óhæft og ólöglegt verkfæri til að kalla fram réttlæti
Það var dapurlegt að sitja fyrir framan skjáinn og fylgjast með atkvæðagreiðslunni um hvort ákæra ætti fjóra fyrrverandi ráðherra úr Ríkisstjórn Geirs Haarde, Þingvallastjórninni, sem sat frá miðju ári 2007 fram í byrjun árs 2009. Enginn ber jafn mikla ábyrgð á þeim ömurlega farvegi sem Landsdómsmálið tók og Atli Gíslason formaður þingmannanefndarinnar svokölluðu. Það er að dapurlegt því sú nefnd skilaði gagnmerku starfi sem algjörlega hefur fallið í skuggann af þessu ömurlega Landsdómsmáli.
Landsdómur er algjörlega úrelt fyrirbrigði sem sett var á laggirnar þegar við fengum heimastjórn í upphafi 20. aldar og einu sinni munu lögin um Landsdóm hafa verið endurskoðuð í staðinn fyrir að afnema þau með öllu. Með landsdómi er verið að rugla saman tveimur af grunstoðum lýðræðis á Íslandi, dómsvaldi og löggjafarvaldi. Ef stjórnmálamenn, hvort sem það eru ráðherrar eða aðrir kjörnir fulltrúar, teljast hafa brotið að sér á dómsvaldið að fjalla um mál þeirra.
Ef við skoðum uppbyggingu Landsdóms þá er það með ólíkindum að önnur eins stofnun, sem kalla má skrímsli, skuli vera til í íslenskri stjórnskipan. Alþingi er komið í komið inn á svið dómskerfisins sem ákærandi, skipar hluta dómsstólsins og kýs sér saksóknara til að sækja mál á hendur þeim sem Alþingi samþykkir að skuli dregnir fyrir dóminn. Ekki nóg með það, Alþingi skal kjósa fimm alþingismenn sem aðstoðarsaksóknara. Önnur eins hringavitleysa og lögin um Landsdóm eru tæplega til Í Lagasafni Íslands.
En þetta eru gildandi lög, er ekki eðlilegt að Alþingi fari eftir gildandi lögum? Á Alþingi hvíldi engin skylda um að vinna samkvæmt lögum um Landsdóm. Ég er yfir mig undarandi á að ekki einn einasti af 63 þingmönnum þjóðarinnar skyldi ekki standa upp og lýsa því yfir að lögin um Landsdóm væru svo gölluð að það væri ekki mögulegt að fara að vinna eftir þeim og sá hinn sami tæki ekki þátt í þeim hráskinnaleik sem leikinn var á Alþingi. Ég hef áður bent á hve lögin um Landsdóm brjóta stjórnarskrána hvað varðar hinar þrjár meginstoðir lýðræðisins, framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald.
Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessi lög eru brot á Stjórnarskrá Íslands, brot á jafnréttisreglunni og þar með mannréttindabrot.
Mér finnst að þessir föstu lögspekingar, sem yfirleitt eru leiddir á skjá og í aðra fjölmiðla, hafi fallið á prófinu. Þeir hafa flestir vottað lögunum um Landsdóm, þessu gamla skrifli sem ætti að vera búð að afskrifa fyrir löngu, virðingu sína með því að votta að allt sé í ljúfasta lagi með þessi lög, pottþétt gegn Stjórnarskrá, jafnréttishugtakinu og mannréttindum.
Nú ætla ég að gera þá kröfu til hæfustu lögspekinga landsins, annarra en þeirra sem hafa látið draga sig í að gefa lögunum um Landsdóm heilbrigðisvottorð, láti duglega heyra í sér og taki hressilega á þessu ógeðfellda máli, á máli þar sem Alþingi féll gjörsamlega á prófinu og vann eftir lögum sem brýtur gegn öllum grundvallarreglum íslensks þjóðfélags. Það getur tæplega verið hlutskipti pípulagningameistara í Þorlákshöfn að benda á þær augljósu staðreyndir sem raktar hafa verið að framan, hvar eru allir okkar hæfustu lögspekingar, hæfir lögspekingar sem ekki hafa selt sálu sína.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.9.2010 | 21:01
Hörmuleg afgreiðsla Alþingis á ákærum til Landsdóms
Ég hef sagt það áður hér á blogginu; það átti enginn af fyrrverandi ráðherrum að fara fyrir Landsdóm. Í fyrsta lagi vegna þess að málefnagrundvöllur er ekki fyrir hendi svo nær það ekki nokkurri átt að Alþingi sé með ákæruvald sem það getur beitt. Það er rétt sem kom fram hjá mörgum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að andi laganna og réttlætisins er sá að ekki eigi að ákæra nema líkurnar á sekt séu meiri en líkurnar á sýknu. Vinstri grænir voru einhuga á eftir formanni þingmannanefndarinnar, Atla Gíslason; refsigleðin var í stafni. Þó mátti sjá að Steingrími var brugðið eftir að úrslitin lágu fyrir. Ég er ánægður með að minn flokksformaður, Jóhanna, kemur keik út frá málinu, var ætíð samkvæm sjálfri sér. Sama verður ekki sagt um þá Samfylkingarþingmenn sem svo greinilega létu pólitíkina ráða og kusu eftir flokkslínum í þessu alvarlega máli. (Vona að næst þegar Mörður vafrar um þingsalinn, og veit ekkert hvað hann á að gera, vafri hann út úr Alþingishúsinu og komi aldrei til baka).
Samfylkingin greiddi sjálfri sér þungt högg í þessari atkvæðagreiðslu, hún verður lengi að jafna sig eftir það. Það mátti sjá hvað Ólína var ráðvillt í Sjónvarpinu í kvöld, hún er þó vön að vera glaðbeitt og koma fyrir sig orði, nú var yfirbragðið annað.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.8.2010 | 09:01
Spaugstofan lögð niður í Sjónvarpinu, hárrétt ákvörðun
Það virðist hrista upp í mörgum að Spaugstofan hafi runnið sitt skeið í Sjónvarpinu, það er ekki einkennilegt því þeir eru búnir að vera fastur punktur í Sjónvarpinu í rúmlega tuttugu ár.
En það voru ekki Spaugstofumenn sem tóku þessa ákvörðun, það var Páll Magnússon sem það gerði tilneyddur með niðurskurðarhnífinn á lofti.
En tími Spaugstofunnar var liðinn og þó fyrr hefði verið. Oft á tíðum hittu þeir á að gera góða þætti en þreytumerkin á þeim voru greinileg síðustu árin. Það var frekar sjaldgæft að þeim tækist að hitta naglann á höfuðið í spaugi sínu og þöglir einþáttungar Arnar Árnasonar, sem stundum voru voru settir inn í prógrammið til uppfyllingar, vor sérlega pínlegir satt að segja.
Ég hef verið þeirrar skoðunar í þó nokkurn tíma að Spaugstofan ætti að hverfa af skjánum, en í skemmtanabransanum eiga þeir sem koma fram oft og verða vinsælir erfitt með að þekkja sinn vitjunartíma.
En nú hefur Páll Magnússon tekið af þeim ómakið. Þegar er farið að bollaleggja að þeir komi fram á örðum stöðvum, ekki hirði ég um það. Ég sé einungis Sjónvarpið og þykir alveg nóg að hafa völ á einni lélegri sjónvarpsstöð. Einhver kann að segja sem svo að ég sé tæplega hæfur til að dæma þær stöðvar sem ég hef enga reynslu af, en mér nægir að líta yfir dagskrár annarra stöðva, þar eru ríkjandi amerískir aulaþættir sem ég ef engan áhuga á.
En aftur að Spaugstofumönnum sem ekki þekktu sinn vitjunartíma. Ég minnist þess sem Einar Kristjánsson óperusöngvari sagði forðum. Hann var nær allan sinn starfsaldur söngvari við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn. Einar tilkynnti óvænt á besta aldri að hann væri hættur hjá Konunglega og hættur að syngja opinberlega. Fjölmargir skoruðu á hann að halda söngnum áfram en þá svaraði Einar:
Ég vil heldur að sagt verði "synd að hann Einar sé hættur að syngja" frekar en "synd að hann Einar sé enn að syngja".
Spaugstofumenn hefðu átt að taka álíka ákvörðun eins og Einar fyrir þó nokkru, ekki láta Pál taka hana fyrir sig.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2010 | 09:37
Það er samstaða um að auðlindir Íslands skuli vera í eigu þjóðarinar
Svo hefur ekki alltaf verið en baráttan um Gullfoss opnaði augu manna fyrir því að ekki væri alltaf hægt að meta náttúruperlur einungis með peningalegum sjónarmiðum. Ýmsir gerðust talsmenn þessara sjónarmiða, m. a. sá umdeildi en sterki stjórnmálamaður Jónas frá Hriflu. Ekki má gleyma Sigríði í Brattholti og baráttu hennar fyrir fyrir verndun Gullfoss sem var í túnfæti hennar.
Þetta ættum við að hafa í huga í fárinu sem nú stendur um kaup Magma Energiy á meirihluta á HS-orku.
Það sem við verðum að gera er að muna að AUÐLIND er eitt en NÝTING hennar annað. Margir stjórnmálmenn gera sig seka um hreinar falsanir, rugla vísvitandi saman þessu tvennu. Verra er þó að fölmiðlar eru engu betri. Það er dapurlegt að fylgjast með Fréttastofu Ríkisútvarpsins taka þátt í þessum hráskinnaleik. Þessi fjölmiðill átti löngum mitt traust en ímynd hans hefur laskast illilega. Eina ljósið þeim bæ var oft á tíðum gagnmerkar fréttaskýringar í "SPEGLINUM" sem var á dagskrá eftir kvöldfréttir, en til þessa þáttar hefur ekki heyrst í langan tíma.
En ég segi enn og aftur: Þeir sem hæst láta um eign Magma Energi í ORKUFYRIRTÆKINU HS-orku hafa ekki sagt orð um að örfáar fjölskyldur skuli hafa sölsað undir sig eina helstu AUÐLIND Íslands, fiskinn í sjónum og réttinn til að veiða hann.
Er í lagi að allt velti á því að þeir sem sölsa undir sig AUÐLINDIR séu Íslendingar, en að allt verði vitlaust ef útlendingar leggja fram fjármagn í ORKUFYRIRTÆKI?
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.7.2010 | 21:06
Fréttastofa Sjónvarpsins verður sér til skammar
Fréttastofa Sjónvarpsins boðaði í yfirliti frétta að rætt yrði við Ögmund Jónasson þar sem hann krefðist þess að auðlindir landsins yrðu í þjóðareign í viðræðum um Magma málið. Ég sló því auðvitað föstu að Ögmundur ætlaði að verða það óheiðarlegur, eins og margir fleiri, að halda því fram að Magma Energy væri að kaupa auðlind með kaupum sínum á HS-orku.
En svo kom viðtalið og þá blöskraði mér óheiðarleiki fréttamanns Fréttastofu Sjónvarpsins. Ögmundur ræddi vissulega um Magma Energy en hann minntist ekki einu orði á að það fyrirtæki hefði með kaupunum eignast hlut í auðlind. Hann talaði um orkufyrirtæki og gerði þá kröfu um að slík fyrirtæki væru í íslenskri eigu, í eigu hins opinbera, að þau væru rekin sem þjóðnýtt fyrirtæki.
Ég er ákaflega ósammála Ögmundi í hans einstrengingslegu afstöðu, hann er einstrengingur í öllum málum. En það er til skammar að fréttamaður Fréttastofu Sjónvarpsins leggi mönnum orð í munn eins og það að Ögmundur hafi rætt um auðlindir þegar hann ræddi um orkufyrirtæki.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2010 | 12:22
Auglýsingar Símans eru fyrirtækinu til skammar
Einhverjar ógeðfelldustu auglýsingar sem dynja framan í okkur í Sjónvarpinu eru frá Símanum, fyrirtæki sem á að vera eitt af símafyrirtækjum á samkeppnismarkaði en hefur greinilega slíka velvild stjórnvalda að geta haldið landsmönnum í gíslingu. En aftur að auglýsingum Símans. Þar birtast mest aular sem eru gerðir sem ógeðslegastir, ýmist slefandi eða gubbandi og svo er ekki hikað við að klæmast á íslensku máli og ekki virðist málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins hafa neitt við þetta að athuga.
Sem sauðþrár stuðningsmaður Ríkisútvarsins (ég segi sauðþrár því stundum vildi maður helst geta lokað endanlega fyrir það sem frá Ríkisútvarpinu kemur) þá geri ég þá kröfu að tekið sé til hendi til lagfæringar á auglýsingastofu stofnunarinnar til þess að ýmiskonar viðbjóður, eins og auglýsingar Símans, þurfi ekki að dynja á þeim sem ennþá horfa á dagskrá Sjónvarpsins.
Ég sagði að framan að greinilega nýtur Síminn sérstakrar vildar stjórnvalda og Samkeppniseftirlits. Allt byrjaði þetta með einkavæðingunni. Þá vildu margir fara þá leið að skilja grunnnetið frá sölunni, grunnnetinu sem öll síma- og fjarskiptafyrirtæki þurfa að hafa aðgang að. En það vildu stjórnvöld ekki hlusta á enda var þetta á Davíðs/Halldórs tímanum.
Ég ákvað eftir að fjarskipti voru gefin frjáls að færa mig frá Símanum eftir ótrúlega framkomu fyrirtækisins. Nýr sími keyptur hjá n fékk ekki samband þegar hann var settur í hleðslu, Fór með hann á verkstæði Símans í Ármúla og eftir viku og mörg símtöl var mér sagt að nú mætti ég sækja gripinn. Ég skundaði á staðinn og síminn var lagður á borði, þakkaði fyrir og ætlaði að halda á brott. En ekki aldeilis, síminn gripinn og fyrir mig lagður reikningur sem ég skyldi borga! En síminn er nýr, hann er í ábyrgð? Nei hún gildir ekki, þú hlýtur að hafa set snúruna þjösnalega í samband, lóðning hafði gefið sig. Ég neitaði að borga. Þá var mér tilkynnt að þar með yrði síminn tekin í gíslingu og ekki afhentur fyrr en ég borgaði viðgerðina.
Hverra kosta átti ég völ? Ég borgaði og ákvað á stundinni að hætta öllum viðskiptum við Símann, það væru fleiri kostir til og flutti mig yfir til Vódafón.
En þar fór ég villur vegar, það losnar enginn við Símann og öll árin síðan fæ ég að sjálfsögðu reikninga frá Vódafón en mér til mikillar furðu einnig frá Símanum. Því fyrirtæki þarf ég að borga nær 2.000 kr mánaðarlega fyrir eitthvað sem Síminn kallar "Þjónustu vegna heimasíma" og þegar ég fékk mér síma með númerabirtingu hélt ég að ég gæti fengið það skráð hjá Vódafon. Nei, þar var mér sagt að ég yrði að leita til Símans, þetta væri hans einkasvið.
Og allar götur síðan borga ég Símanum mánaðargreiðslu kr. 99 fyrir númerabirtingu. Stundum læðist inn kostnaður á reikningum Símans "símtöl innanlands", "símtöl í upplýsingaveitur" og"símtöl í þjónustunúmer". Svo skulum við ekki gleyma Símaskránni sem gefin er út árlega af Símanum með kostnaði fyrir alla sem símanúmer hafa á Íslandi, burtséð við hvað fjarskiptatfyrirtæki þeir skipta við.
Er þetta hin frjálsa samkeppni í því landi Íslandi á 21. öld?
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar