Færsluflokkur: Spil og leikir
11.1.2011 | 23:23
Fjörutíu og fimm þúsund Íslendingar skrifa upp á einhverja kröfu sem þeir sjálfir botna ekkert í
Það hefur verið líf og fjör í Norræna húsinu undanfarið. Þar hafa helstu "menningarvitar" þjóðarinnar staðið og þanið raddböndin í einhverri fáránlegustu baráttu fyrir einhverju sem enginn botnar í og örugglega ekki sá mikli fjöldi sem hefur látið glepjast til að gera eins og Björk, Ómar R, Megas, Bubbi og allt hitt liðið.
Og hver skyldi sú krafa vera sem hjarðmennskuhópur fjörutíu og fimmþúsund Íslendinga skrifar upp á í algjörri blindni?
Að fram fari þjóðaratkvæðisgreiðsla um að auðlindir Íslands (er þar átt við auðlindir á landi, auðlindir í landi?) skuli vera þjóðareign.
Hvernig á að orða það sem fyrir þjóðina verður lagt í hugsanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu? Ég hef ekki heyrt að það hafi verið formað sem á atkvæðaseðlinum skal standa.
Ég skrifaði pistil um þetta mál 19. sept sl. og sagði þar meðal annars:
Öll orkuver landsins (sem þá höfðu verið reist), bæði þau sem framleiða raforku eða heitt vatn, eru í opinberri eigu, ýmist ríkisins (Landsvirkjun td.) eða í eigu sveitarfélaga (Orkuveita Reykjavíkur td.).
En áður en þessir opinberu fyrirtæki hafa getað virkjað, hvort sem það eru vatnsföll, jarðgufa eða heitt vatn sótt með borun, hafa þau orðið að semja við landeigendur og sveitarfélög til að fá vinnsluleyfin.
Þetta rek ég hér til að sýna fram á að það gagnar lítið að hrópa á strætum og gatnamótum að allar auðlindir í og á landi skuli vera þjóðareign. Þeir sem það gera hafa engan veginn krufið málið til mergjar því ef strangasta krafa þeirra sem ákafastir eru næði fram að ganga yrði að fara út í stórfellda þjóðnýtingu.
Vill nokkur í alvöru standa að því?
Ég ætla að bæta því við að ef farið yrði í slíkar aðgerðir yrði það stórfelldasta þjóðnýting á vesturhveli jarðar frá því breski Verkamannaflokkurinn þjóðnýtti lungann af stóriðnaði Bretlands eftir lok seinni heimsstyrjaldir.
Og hver er orsökin að öllu bramboltinu í Norræna húsinu?
Sú að Kanadamaður einn hefur eignast stóran hlut í HS-Orku á Suðurnesjum verði gerður afturreka. Hann hefur ekki eignast nokkurn skapaðan hlut í íslenskri auðlind, hann fær nýtingarrétt til ákveðins árafjölda á nákvæmlega sama hátt og Landsvirkjun fær afnotarétt af stórfljótum landsins.
Og svo kemur krafan um að Ríkisvaldið taki hlut Kanadamannsins eignarnámi og verði þar með að punga út líklega sem svarar 15 milljörðum króna í útlendum gjaldmiðli á stundinni.
Já, nógir eru andskotans peningarnir virðast "menningarvitarnir" álíta.
Og en spyr ég: Er ekki minni áhætta fyrir okkur Íslendinga að Kanadamaður komi með jafnvirði 15 milljarða í áhættufjármagn og fái fyrir það arð að sjálfsögðu, heldur en að taka lán hjá alþjóðlegum fjármálastofnunum, er það kannski ókeypis? Nei, hingað til hefur það ekki verið, slíkar stofnanir vilja fá sinn arð sem vaxta.
Skuldum við ekkert fyrir í útlendum fjármálastofnunum vegna þeirra orkuvera sem við höfum reist?
Varlega áætlað má búast við að stærstu orkufyrirtækin skuldi í útlöndum milli 500 og 1000 milljarða króna virði í útlendum gjaldeyri og það kostar svo sannarleg sitt. Að íslensk fyrirtæki eigi orkuverin tryggir ekki aldeilis að útlendingar fái ekki sinn arð af þeim.
Þeir fá hann í vaxtagreiðslum.
En sá lánlausi lýður sem kyrjaði í Norræna húsinu vældi ekkert um stærsta þjófnað Íslenskrar sögu, þjófnað sem gerður var löglegur en er með öllu siðlaus.
Það er ránið á fiskinum í sjónum en kyrjurunum virðist nákvæmlega sama um þjófnað ef þýfið aðeins lendir í vösum vafsamra Íslendinga.
4.1.2011 | 10:21
Áramótaskaupið og sjálfhverfa montspíran
Í rauninni er tæpast hægt að segja álit sit á Áramótaskaupinu fyrr en við endurskoðun sem vonandi verður bráðlega. En samt sem áður fannst mér margt ágætt og hnittið sem þar bar fyrir augu og eyru. Líklega er þó atriðið með veiku konuna á spítalanum einna eftirminnislegast. Að sjálfsögðu vildu starfsfólk spítalans að konan hefði það sem best þar sem hún var tengd ýmsum tólum og tækjum til að halda i henni lífinu. Auðvitað var sjálfsagt að hún fengi að horfa á Sjónvarpið og þar með var henni boðin góð nótt. En óhamingjan ríður ekki við einteyming. Á sjónvarpsskjánum birtist ömurlegasti sjónvarpsþáttur sem sést hefur í mörg ár í dagskrá Sjónvarpsins, "HRINGEKJAN", sem kom í stað Spaugstofunnar. Mer fannst Spaugstofan gjarnan mega hverfa, átti þó stundum sæmilega spretti en var oftast gömul og þreytt. En það jafnvel læðist að manni sá grunur að þeir Spaugstofumenn hafi haft hönd í bagga með arftakanum, svo arfalélegur var þessi þáttur, "HRINGEKJAN". Það lá jafnvel við að gömlu þættirnir MAÐUR ER NEFNDUR gæfu ekki sama aulahrollinn í minningunni. En aumingja konan á spítalanum reyndi af veikum mætti að slökkva á þessari hörmung, "HRINGEKJUNNI", sem birtist á skjánum. Það tókst ekki fyrr en hún tók sjálfa sig úr sambandi og dó drottni sínum.
Það var gaman að sjá viðbrögð ýmissa sem komu við sögu, voru skotspónar Skaupsins, flestir voru ánægðir með sinn hlut. Þó saknaði ég viðbragða Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem nú hugsar ekki nema um eitt; hvernig hann geti lamið í gegn að engar breytingar verði á ráðuneytum svo hann geti setið áfram í sínum ráðherrastóli með Bjarna Harðarson við fótskörina. En einn af viðmælendunum, uppáhald fjölmiðlanna, montspíra sem kallar sig Gils eitthvað. Hann var yfir sig hneykslaður á því að hann skyldi ekki sýndur af einhverju vöðvabúnti, annað væri honum ekki boðlegt. Aumingja drengurinn skyldi ekki háðið í Skaupinu. Auðvitað var hann sýndur af einhverjum með þunna vöðva, höfundar skaupsins sendu honum kveðju og sýndu að það sem innra fyrir býr er ekki minna virði heldur en að vaða um með vöðvabúntin. Og auðvitað endaði vöðvabúntið röfl sitt á því að hann ætlaði að skíta á höfunda skaupsins.
Skrifaði þessi sjálfhverfa montspíra, sem endar flestar ræður sínar á að viðmælandi eigi að skíta á sig upp á bak eða hann geri það með eigin framleiðslu, bók um KURTEISI, bók sem átti að vera kennslubók í kurteisi og framkomu?
3.1.2011 | 23:03
Glæsilegir tónleikar Lúðrasveitar Þorlákshafnar í Versölum
Nýárshátíðin endaði vel í gær með tónleikum Lúðrasveitar Þorlákshafnar í samkomusalnum Versölum í Ráðhúsi Ölfuss. Sem fyrr var það Róbert Darling sem sveiflaði tónsprotanum, en í sveitinni voru að mér sýndist nokkuð yfir 30 einstaklingar á mjög svo misjöfnum aldri. Nokkrir rosknir karlar en einnig ungar stúlkur úr efsta bekk grunnskólans. Það var ekki síður ánægjulegt að salurinn var troðfullur, já svo sannarlega troðfullur í orðsins fyllstu merkingu. Það verður ekki annað sagt en að Þorlákshafnarbúar og íbúar víðar úr sveitarfélaginu Ölfusi hafi mætt, þarna sáust einnig kunn andlit frá Árborg og Hveragerði.
Í tveimur lögum mætti söngkona sem tók hressilega undir með hljómsveitinni. Félagar úr Leikfélaginu frömdu tvisvar skemmtilega gerninga sem kettir og trúðar. Ungur dansari var reiðubúinn til að taka sporin en því miður meiddist stúlkan sem er dansfélaginn kvöldið áður, vonandi ekki alvarlega. Þetta atriði hefði því fallið brott en þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Móðir þessa unga dansara hljóp í skarðið og í vals- og polkatakti svifu þau mæðginin um gólfið eftir öruggum takti Lúðrasveitar Þorlákshafnar.
Bestu þakkir til allra sem lögðu sitt af mörkum, ekki má gleyma Barböru í Bókasafninu sem leiddi þessa skemmtilegu tónleika með styrkri kynningu.
23.11.2010 | 14:16
Kjördæmaskipun og fjöldi þingmanna
Ég geri mér ljóst að eflaust er ég búinn að fjalla áður um það sem ég skrifa hér, þetta eru upprifjanir og áherslur
Kjördæmaskipun
Ég held að það sé óhætt að fullyrða að meiri hluti frambjóðenda til Stjórnlagaþings vill vinna að því að gera Ísland að einu kjördæmi, þar er einblínt á einn þátt eingöngu; jöfnun atkvæða.
Ég er efins um að gera Ísland að einu kjördæmi þó það tryggi jafnt vægi atkvæða, lengra verður tæplega komist í því. En ég óttast önnur áhrif, sérstaklega hættuna á auknu flokksræði. Eftir að Ísland hefur verið gert að einu kjördæmi verða allir framboðslistar matreiddir í Reykjavík á flokksskrifstofunum. Ég óttast að þar með verði áhrif hinna dreifðari og afskekktari byggða borinn fyrir borð. Möguleiki væri að jafnframt framboði lista verði einstaklingum heimilt að bjóða sig fram með ákveðnum fjölda meðmælanda. Einhver slík réttarbót yrði að fylgja verði Ísland gert að einu kjördæmi.
Fjöldi þingmanna
Annað sem er oft slegið fram af frambjóðendum til Stjórnlagaþings er að fækka skuli þingmönnum, líklega eru flestir þar að horfa til sparnaðar.
Ég held að flestir sem slíku varpa fram þekki lítið til starfa Alþingis. Það er dapurlegt ef það er almennt álit að þingfundir, sem hægt er að horfa á í Sjónvarpinu, sýni í hnotskurn það mikla starf sem fram fer á Alþingi. Aðalstarfið fer fram í þeim mörgu nefndum sem kosnar eru á Alþingi, nefndir sem hafa mismunandi verkefni, sumar fjalla um iðnað og atvinnumál aðrar um menntamál og ekki má gleyma þeirri sem ekki hefur mesta ábyrgð, fjárlaganefnd.Til að manna allar nefndir þingsins þarf ákveðinn fjölda, það væri miður ef hver þingmaður getur ekki einbeitt sér að einum málflokki í nefnd. Þess vegna er það mikill misskilningur að fjöldi á löggjafarsamkundu eins lands sé eitthvert hlutfall af fjölda borgaranna, það er ekki nema eðlilegt að fjöldi á löggjafarsamkundu fámenns lands sé hlutfallslega meiri en meðal stærri þjóða. Eitt atriði í viðbót; með sama fjölda þingmanna og nú er eru meiri líkur á að þar sitji þverskurður þjóðarinnar. Það mætti gjarnan setja hámarkstíma á hve lengi hver og einn má sitja á Alþingi. Þannig minnka líkurnar á að til verði stétt atvinnustjórnmálamanna sem aldir eru upp í flokkunum, rétt klára lögfræðiprófið og koma blautir á bak við eyrun til setu á Alþingi án þess að hafa komið nálægt atvinnuvegum eða brauðstriti þjóðarinnar.
Ef það tekst að gera þau skörpu skil sem nauðsynleg eru milli Alþingis og Ríkisstjórnar þá verða störf Alþingis mun skilvirkari, þá mun Alþingi hafa mun meira frumkvæði að lagasetningum. Það hefur lengi verið dapurlegt að fylgjast með því að Alþingi er á stundum óstarfhæft vegna þess að það bíður eftir frumkvæði Ríkisstjórnar, hún hefur nær alfari hrifsað til sín allt frumkvæði að lagasetningu eða hvað verður oft um þingmannafrumvörp, hve oft daga þau uppi?
25.9.2010 | 17:52
Til hamingju Breiðablik, sigurinn gleður gamlan formann félagsins
Þá er sú stóra stund upp runnin að Breiðablik er Íslandsmeistari í knattspyrnu í úrvalsdeildinni. Vissulega gleður það gamlan formann félagsins og gullblika að bikarinn er í höfn. Ég held að ég verði að draga fram í dagsljósið gamla mynd sem ég held að ég eigi enn í fórum mínum. Hún er af fyrsta knattspyrnuliði Breiðabliks sem þá var ekki í neinni deild eða móti heldur var hóað saman mönnum í fullu fjöri í Kópavogi sem grunur lék á að gætu sparkað bolta, sumir hverjir meira að segja lifandi enn þann dag í dag. Það var ákveðið að ráðast ekki á garðinn þar sem hann var hæstur og einhverjir töldu vænlegast að keppa við sveitamenn. Þess vegna varð bræðrafélag okkar í Mosfellssveit fyrir valinu, Ungmennafélagið Afturelding, þar var vinum að mæta, bæði félögin í Ungmennasambandi Kjalarnesþings. Ég fór með þennan vaska hóp sem formaður Breiðabliks á Varmárbakka, þetta varð hörkuleikur.
Hann endaði 9-0
En því miður, það var Afturelding sem vann.
Já, það er mikið vatn runnið til sjávar síðan þessi leikur fór fram, þetta gerðist líklega fyrir 55 árum.
Enn og aftur til hamingju Breiðablik.
10.9.2009 | 16:55
Yfirlýsing mörgæsanna
Þeir hafa húmor hjá Danmarks Meterologiska Institute og það hefur einnig Mikkel Sander í Kaupmannahöfn sem sendi þeim þessa skemmtilegu mynd.
Undir myndinni stendur i lauslegri þýðingu:
Harðlínumörgæsir á Istedagade hafna alfarið allri málmiðlun, þó það þýði að allar plöntur deyja út.
Framtíðin hrein af CO2
Yes sir
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar