Það verður að endurheimta eignarétt þjóðarinnar á auðlindum hafsins, ætlum við að gefast upp fyrir afturhaldsaflinu LÍÚ?

Mér er minnisstæð heimsókn til góðs vinar í Vestmannaeyjum. Hann ók mér um alla Heimaey, upp á nýja hraunið og að lokum umhverfis höfnina. Þar lágu reisuleg fiskiskip við festar. Hann benti mér á nýlegan togara af minni gerðinni og sagði "Þarna er arðsamasta skip flotans hér í Eyjum, það hefur þó ekki farið úr höfn síðustu árin". Ég varð eitt spurningamerki og skildi ekki neitt. "Einfalt mál, eigandinn nennti ekki að standa í þessu útgerðarströggli, fór í land og leigði kvótann. Hann lifir nú góðu lífi á þessum ágætu tekjum".

Ef eitthvað sýnir í hnotskurn það skelfilega sukk og spillingu sem íslenskur sjávarútvegur er sokkinn í þá er þessi litla saga efst í mínum huga.

Sú var tíðin að allir gátu róið til fiskjar og fiskað eins og hver vildi. Einkennilegt finnst mér samt að það var á þeim árum sem útlendingar, einkum Bretar, gátu fiskað eins og þeir vildu á íslenskum miðum. En með órofa samstöðu (slíkri sem okkur sárvantar nú í þjóðmálum í heild) var ekki látið staðar numið fyrr en við höfðum fengið lögsögu yfir 200 mílna belti umhverfis landið frá grunnlínupunktum. Þvílík breyting frá því að lögsaga okkar var einungis 3 mílur frá strandlengju.

En svo einkennilega bregður við að eftir að við leiðum vísindi inn í fiskveiðarnar og rekum alla útlendinga frá okkar fiskmiðum þá dregst afli saman. Þá er kvótakerfið innleitt, ekki hægt að komast hjá því segja menn. En eins og alltaf verður þegar gæði eru takmörkuð þá heldur spillingin innreið sína. Útgerðarmann sóttu fast á að fá kvótann eignfærðan og misvitrir stjórnmálamenn létu undan þrýstingnum enda áttu sumir þeirra beinna hagsmuna að gæta í sjávarútvegi. Fyrir tuttugu árum var kvótinn í rauninni gefinn útgerðarmönnum, hann gerður að braskvöru, keyptur, seldur og leigður.

Kvótinn er orðinn eign útgerðarmanna á ólöglegan hátt eins og dómar hafa staðfest. Þar með eru útgerðarmenn komnir með dýrmæta eign sem ekki aðeins má kaupa, selja eða leigja. Þess eign má ekki síður veðsetja og fá peninga í kassann, þá drukku útgerðarmenn eiturbikarinn í botn.

Ég átti í nokkrum skoðanaskiptum við útgerðarmann hér í Þorlákshöfn ekki fyrir löngu og hann viðurkenndi tvennt alveg óvænt. Í fyrsta lagi að íslenskur sjávarútvegur væri búinn að veðsetja sig upp í rjáfur, ekki aðeins í íslenskum lánastofnunum heldur einn í útlendum bönkum og í öðru lagi að skuldsetningin kæmi fyrst og fremst af þeim skelfilegu peningaútlátum greinarinnar til að kaupa þá, sem hættu útgerð, út úr greininni. Þannig hafa þeir sem hætt hafa mergsogið greinina, horfið á braut með mikið fjármagn sem þeir hafa ýmist braskað með í öðrum greinum eða notað til að lifa hinu ljúfa lífi í heimsborgum eða flatmaga á sólarströndum.

Það hefur aldrei staðið til að rústa íslenskri útgerð með því að vinda ofan af þessu skelfilega kerfi. Það er undarlegt að útgerðarmann sjálfir sjái ekki að það er verið að rétta þeim hjálparhönd til að draga þá upp ur því kviksyndi sem þeir eru sokknir í. Sú samningaleið sem þeir eru að þvinga fram er ekkert annað en framlenging á sukkinu og spillingunni, þessu verður að linna.

Ég fer inn á Stjórnlagaþing með opinn huga tilbúinn til að hlusta á allar góðar hugmyndir og tillögur sem þar koma fram. En ef ekki verður tekið á auðlind hafsins og hún færð aftur í þjóðareign þá sé ég ekki að til mikil sé barist.

Þarna verður að skera upp, þarna verður að grípa til róttækra aðgerða.

Þessu 


Eiga allar auðlindir, sem tilheyra Íslandi, að vera þjóðareign?

Fáir málaflokkar sem auðlindamálin eru af mörgum drifin áfram af tilfinningum frekar en skynsemi. Fyrir það fyrsta vil ég benda á að þegar rætt er um auðlindir á Íslandi er nær eingöngu rætt um auðlindir á landi og í landi.
Get ég ekki skilyrðislaust skrifað upp á að allar auðlindir á og í landi séu þjóðareign?

Nei, það get ég ekki.

Og hvers vegna spyrja eflaust margir undrandi?
Vegna þess að auðlindir á landi og í landi er mjög flókið mál, miklu flóknara mál en þeir sem drifnir eru áfram af tilfinningum einum átta sig á.
Það eru margvíslegar auðlindir á og í landi sem eru í einkaeign og ekki tel ég að við því eigi að hrófla.
Förum austur í Skaftafellssýslur. Þar hafa margir bændur virkjað bæjarlækinn og svo er reyndar víðar. Á Snæfellsnesi hafa verið byggðar einkarafstöðvar, vatnsaflsstöðvar, sem framleiða mun meira rafmagn en eigandinn hefur þörf fyrir. Þar er umframrafmagnið einfaldlega selt inn á landsdreifikerfið, viljum við þjóðnýta litlu virkjanirnar í bæjarlækjunum eða þessar litlu en þó stærri vatnsaflsvirkjanir?
Ekki er ég tilbúinn að vinna að því.
Ein mikil l auðlind eru fallvötn Íslands með eru í raun gjöful fiskimið. Þar hefur verið staðið vel að þróun mála og þess vandlega gætt að ekki sé gengið á stofnana og ekki nóg með það; mikil ræktun á sér stað víðast hvar þar sem þörf er á.
Vil ég þjóðnýta allar veiðiár landsins til að færa þær í þjóðareign?
Mitt svar er afgerandi nei.
Öll orkuver landsins, bæði þau sem framleiða raforku eða heitt vatn, eru í opinberri eigu, ýmist ríkisins (Landsvirkjun) eða í eigu sveitarfélaga (Orkuveita Reykjavíkur).
En áður en þessir opinberu fyrirtæki hafa getað virkjað, hvort sem það eru vatnsföll, jarðgufa eða heitt vatn sótt með borun, hafa þau orðið að semja við landeigendur og sveitarfélög til að fá vinnsluleyfin.
Þetta rek ég hér til að sýna fram á að það gagnar lítið að hrópa á strætum og gatnamótum að allar auðlindir í og á landi skuli vera þjóðareign. Þeir sem það gera hafa engan veginn krufið málið til mergjar því ef strangasta krafa þeirra sem ákafastir eru næði fram að ganga yrði að fara út í stórfellda þjóðnýtingu.
Vill nokkur í alvöru standa að því?
Ég er eindregið fylgjandi því að öll stærstu orkuver okkar séu í opinberri eigu svo sem er í dag, ég mæli sterkt á móti því að þau verði einkavædd þó ekkert mæli á móti því að þar geti einkaaðilar komið að fjármögnun, eins og ég mæli gegn algjörri þjóðnýtingu auðlinda hversu smár sem þær eru.
Ég ætla að lokum að biðja alla að ræða þessi mál af yfirvegum, án upphrópana byggðum á tilfinningum eingöngu, sem er ágætt að hafa með í bland. En rökhyggja og skynsemi þarf þar einnig að koma að.
Þá vil ég ekki síður biðja alla að gera greinarmun á auðlindum og nýtingu auðlinda. Þessu hefur því miður verið ruglað saman endalaust í opinberri umræðu, þar skulum við gera skil á málum, auðlind er eitt, nýting hennar annað.
Hér hef ég eingöngu rætt um auðlindir í og á landi.
Ég ætla að ræða um auðlindir hafsins í annarri grein.


Bloggfærslur 19. nóvember 2010

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband