25.7.2010 | 18:25
Er ekki ógerningur að standa áfram í kattasmölun?
Verkefni núverandi Ríkisstjórnar eru hrikaleg, þessari stjórn er ætlað að reisa landið úr þeim rústum sem Framsóknarflokkur og ekki síður Sjálfstæðisflokkur komu komu landi og þjóð í. Til að það sé mögulegt þarf sterka og samstillta Ríkisstjórn sem hefur afl til að standa að hörðum og jafnvel sársaukafullum aðgerðum. Forystumen Ríkisstjórnarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hafa verið brimbrjótar stjórnarinnar.
En nú eru veður öll válynd á stjórnarheimilinu, þeim veðrum ræður órólega deildin í Vinstri grænum. Ég er í Samfylkingunni og hef ætíð stutt Ríkisstjórnina. En nú er svo komið að ég sé ekki að stjórnin geti setið mikið lengur. Stjórn sem á líf sitt undir Guðríði Lilju Grétarsdóttur, Lilju Mósesdóttur, Ásmundi Daða Einarssyni og Ögmundi Jónassyni getur tæplega verið starfhæf til lengri tíma. Þessi hópur svífst einskis til að koma höggi á stjórnina og nú virðist vera að sverfa til stáls í Magma Energy málinu. Ríkisstjórn sem hefur jafn sundurleitan flokk á bak við sig og Vinstri græna ræður ekki við þau gífurlega mikilvægu mál sem stjórnin verður að glíma við. Þessi ríkisstjórn má ekki falla í sömu gryfju og stjórn Gunnars Thoroddsen, að sitja sem fastast en hafa þó ekkert afl til að koma fram nauðsynlegum og aðkallandi málum áfram.
En hvað tekur þá við?
Svo einkennilega vill til að flokkarnir sem hruninu ollu, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur, hafa ekki sýnt neinar tilhneigingar í þá átt að vilja taka við stjórnartaumunum, frekar að vera óábyrg stjórnarandstaða. Þessir tveir flokkar hafa reyndar ekki afl til að mynda meirihlutastjórn og yrðu því að finna víðari samstarfsvettvang.
Aðeins eitt er víst; ef óábyrga hávaðfólkið í Vinstri grænum tekst að fella Ríkisstjórnina og fella Samfylkinguna frá því að vera í forystu, þá mun Samfylkingin ekki taka þátt í myndun nýrrar Ríkisstjórnar
Þá hljóta þeir sem stjórnina fella og þeir flokkar sem nú eru í stjórnarandstöðu að mynda nýja Ríkisstjórn, þá yrði mynduð samsteypustjórn Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins. Hvoru megin hryggjar Hreyfingin liggur skiptir engu máli. Þá yrðu þessir gömlu hrunflokkar S+F að beygja sig undir þá meginkröfu að ógilda kaupsamninginn á Magma Energy með illu eða góðu, löglega eða ólöglega. Annað ættu þessir flokkar auðvelt með að sporðrenna. Aðildarumsóknin um inngöngu í Evrópusambandið yrði dregin til baka, slegin skjaldborg um íslensku krónuna með öllum ráðum og margskonar höftum, gjaldeyrishöftin verða föst næsu árin. Vinstri grænir munu eflaust feta í fótspor Ungverja og krefjast þess að samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn verið slitið, því yrði sporðrent af hinum flokkunum, algjörlega neitað að greiða ICESAVE, framundan þar illvíg og langvinn málferli með gífurlegum fjárútlátum Íslands.
Um þetta ættu Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir að eiga auðvelt með að ná saman, þar mun andi ritstjóra Morgublaðsins svífa yfir vötnum. Þar með hefur íhaldsdeildin í Vinstri grænum náð því sem hún stefnir að, ómeðvitað ef til vill, að ná saman við íhalds- og þjóðernisstefnuna frá Hádegismóum í Sjálfstæðisflokknum.
Eina sem kynni að vera óljóst er hvernig mun Framsóknarflokkurinn taka á málun við myndun þessarar Ríkisstjórnar?
Það er svo furðulegt sem það er að í dag veit enginn hver í rauninni stefna Framsóknarflokksins er, það verður því að byggja á því sem formaður Framsóknarflokksins sagði áður en hann missti málið. Miðað við það ættu þessir þrír flokkar að ná saman og stofna Rikisstjórn á þeim málefnagrundvelli sem að framan var rakinn.
Rennur engum kalt vatn milli skins og hörunds?
25.7.2010 | 12:22
Auglýsingar Símans eru fyrirtækinu til skammar
Einhverjar ógeðfelldustu auglýsingar sem dynja framan í okkur í Sjónvarpinu eru frá Símanum, fyrirtæki sem á að vera eitt af símafyrirtækjum á samkeppnismarkaði en hefur greinilega slíka velvild stjórnvalda að geta haldið landsmönnum í gíslingu. En aftur að auglýsingum Símans. Þar birtast mest aular sem eru gerðir sem ógeðslegastir, ýmist slefandi eða gubbandi og svo er ekki hikað við að klæmast á íslensku máli og ekki virðist málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins hafa neitt við þetta að athuga.
Sem sauðþrár stuðningsmaður Ríkisútvarsins (ég segi sauðþrár því stundum vildi maður helst geta lokað endanlega fyrir það sem frá Ríkisútvarpinu kemur) þá geri ég þá kröfu að tekið sé til hendi til lagfæringar á auglýsingastofu stofnunarinnar til þess að ýmiskonar viðbjóður, eins og auglýsingar Símans, þurfi ekki að dynja á þeim sem ennþá horfa á dagskrá Sjónvarpsins.
Ég sagði að framan að greinilega nýtur Síminn sérstakrar vildar stjórnvalda og Samkeppniseftirlits. Allt byrjaði þetta með einkavæðingunni. Þá vildu margir fara þá leið að skilja grunnnetið frá sölunni, grunnnetinu sem öll síma- og fjarskiptafyrirtæki þurfa að hafa aðgang að. En það vildu stjórnvöld ekki hlusta á enda var þetta á Davíðs/Halldórs tímanum.
Ég ákvað eftir að fjarskipti voru gefin frjáls að færa mig frá Símanum eftir ótrúlega framkomu fyrirtækisins. Nýr sími keyptur hjá n fékk ekki samband þegar hann var settur í hleðslu, Fór með hann á verkstæði Símans í Ármúla og eftir viku og mörg símtöl var mér sagt að nú mætti ég sækja gripinn. Ég skundaði á staðinn og síminn var lagður á borði, þakkaði fyrir og ætlaði að halda á brott. En ekki aldeilis, síminn gripinn og fyrir mig lagður reikningur sem ég skyldi borga! En síminn er nýr, hann er í ábyrgð? Nei hún gildir ekki, þú hlýtur að hafa set snúruna þjösnalega í samband, lóðning hafði gefið sig. Ég neitaði að borga. Þá var mér tilkynnt að þar með yrði síminn tekin í gíslingu og ekki afhentur fyrr en ég borgaði viðgerðina.
Hverra kosta átti ég völ? Ég borgaði og ákvað á stundinni að hætta öllum viðskiptum við Símann, það væru fleiri kostir til og flutti mig yfir til Vódafón.
En þar fór ég villur vegar, það losnar enginn við Símann og öll árin síðan fæ ég að sjálfsögðu reikninga frá Vódafón en mér til mikillar furðu einnig frá Símanum. Því fyrirtæki þarf ég að borga nær 2.000 kr mánaðarlega fyrir eitthvað sem Síminn kallar "Þjónustu vegna heimasíma" og þegar ég fékk mér síma með númerabirtingu hélt ég að ég gæti fengið það skráð hjá Vódafon. Nei, þar var mér sagt að ég yrði að leita til Símans, þetta væri hans einkasvið.
Og allar götur síðan borga ég Símanum mánaðargreiðslu kr. 99 fyrir númerabirtingu. Stundum læðist inn kostnaður á reikningum Símans "símtöl innanlands", "símtöl í upplýsingaveitur" og"símtöl í þjónustunúmer". Svo skulum við ekki gleyma Símaskránni sem gefin er út árlega af Símanum með kostnaði fyrir alla sem símanúmer hafa á Íslandi, burtséð við hvað fjarskiptatfyrirtæki þeir skipta við.
Er þetta hin frjálsa samkeppni í því landi Íslandi á 21. öld?
Bloggfærslur 25. júlí 2010
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar