6.1.2011 | 15:53
Það er stutt að fara frá Pontíusi til Pílatusar
Sandgerðingur einn kvartaði sáran á bloggi Víkurfrétta yfir þeim móttökum sem hann og fjölskylda hans fékk í Bláa lóninu.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem það sést á prenti að menn kvarta yfir því að þeir séu "sendir frá Pontíusi til Pílatusar".
Eina bótin er þó sú að það er ekki langt á milli Pontíusar og Pílatusar því þetta er einn og sami persónuleikinn, einn af persónum Biblíunnar, Rómverji sem aldrei slíku vant uppfyllti kröfu Gyðinga og dæmdi Jesú til dauða.
Í mínu ungdæmi voru menn svo velupplýstir í Biblíunni að menn fóru rétt með það sem þar er sagt að frelsarinn sjálfur hefði verið sendur frá Pontíusi til Heródesar en þannig minnir mig að ég hafi lært þetta í biblíusögunum í Barnaskólanum í Þykkvabænum. Hver veit nema ég fari að lesa Biblíuna (en ég á enga slíka bók á íslensku) til að rifja upp og sannreyna hvort Gamla testamentið er slík sorabók sem mig minnir. Þar frömdu menn morð og sifjaspell, framseldu dætur sínar til næturgamans fjölmennum hópum karla vegna þess að þær voru hreinar meyjar, allt að undirlagi guðs, sá sami guð hikaði ekki við að steikja íbúa heilla borga eða drekkja fjölmennum herdeildum ef þær voru eitthvað að ybbast upp á guðs útvöldu þjóð, Gyðinga. Svo segjast margir kristnir menn að þeir trúi hverju orði sem í Biblíunni stendur! Lifa þeir samkvæmt slíkum "orðum".
Jón Valur, þú ert ef til reiðubúinn með einhverjar athugasemdir við það sem ég segi að ofan.
6.1.2011 | 10:16
Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn sem er heill og óklofinn
"Ekki batnar Birni enn banakringluverkurinn" var sagt forðum og þetta flaug um hug minn eftir að hafa hlustað á viðtöl RÚV við þá Steingrím J. Sigfússon og Ásmund Einar Daðason eftir langan og strangan fund þingflokks Vinstri grænna í gærkvöldi. Sjaldan hef ég heyrt í mönnum sem héldu langar tölur en sögðu ekki neitt en þó svo mikið. Það mátti svo sannarlega skilja að hvorugur gat gefið ákveðin svör við spurningum fréttamanns. Ástandið í þingflokki Vinstri grænna er að þar greinilega varanlegur klofningur. Þremenningarnir, Lilja, Atli og Ásmundur Einar, ætla að að halda sínu striki, þau er ekki hægt lengur að telja til stuðningsmanna Ríkisstjórnarinnar á þingi sem þar með er einungis með eins atkvæðis meirihluta og það skyldi maður ætla að gengi ekki lengi.
En ekki er allt sem sýnist. Klofningur Vinstri grænna er staðreynd og þess vegna mætti ætla að stjórnarandstaðan á þingi gripi tækifærið feginshendi og flytti vantraust á Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. En það er líklega það sem stjórnarandstaðan vill allra síst hætta sér út í.
Og hvers vegna?
Vegna þess að stjórnarandstöðuflokkarnir eru allir meira og minna klofnir. Sjálfstæðisflokkurinn lýtur enn forystu Davíðs Oddssonar. Á yfirborðinu er flokkurinn á móti umsókn Íslands að ESB og þeir sem blindastir eru á Davíð Oddsson (Unnur Brá Konráðsdóttir t.d.) eru með tillögu um að stöðva aðildarumsóknina að ESB. Allir vita að fjölmargir Sjálfstæðismenn styðja aðildarumsóknina eindregið og rétt er að árétta að umsóknin og umsóknarferlið þýðir engan veginn að búið sé að ákveða inngöngu. Fyrst verður við að sjá hvað okkur býðst, síðan mun þjóðin ákveða í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort af inngöngu verður eða ekki. Það er einnig langt frá því að allir Sjálfstæðismenn fylgi gallharðri stefnu Davíðs og Morgunblaðsins í kvótamálinu, fjölmargir í þeirra röðum sjá að óbreytt ástand getur ekki gengið. Klofningurinn í Sjálfstæðisflokknum er svo djúpstæður að í bígerð er stofnun nýs hægri flokks sem einmitt ætlar að láta brjóta á ESB málinu, kvótamálinu og að afgreiða Icesave málið í eitt skipti fyrir öll.
Framsóknarflokkurinn er einnig klofinn í sömu málum. Þó ekki sé gamall og þreyttur flokksformaður sem ræður öllu á þeim bæ hefur komið í ljós að flokkurinn var æði seinheppinn með val á formanni. Sigmundur Davíð verður tæpast formaður til langframa, en hver tekur við? Framsóknarflokkurinn burðast einnig með fyrri hneykslismál eins og Sjálfstæðisflokkurinn, þar vegur þungt allt hneykslið við einkavæðingu bankanna. Arfleifð þeirra Halldórs Ásgrímssonar og Finns Ingólfssonar er flokknum þung byrði. Finnur Ingólfsson og fleiri Framsóknarmenn hafa látið greipar sópa um þá fjármuni sem ýmis fyrirtæki Sambands ísl. samvinufélaga skildu eftir sig, ekki síst það sem átti að skila aftur til viðskiptamanna Samvinnutrygginga.
Og ekki má gleyma garminum honum Katli. Hreyfingin er þegar klofin og meira að segja margklofin. Þetta var "bjartasta vonin" í augum margra sem fordæmdu alla stjórnmálaflokka og vildu ferska vinda inn á Alþingi. Hvað ferska vinda hefur Hreyfingin haft í farteskinu? Þingmenn hennar hafa dottið í röfl- og hælbítsfarið nákvæmlega eins og Sigmundur Davíð. Það hefur verið nokkur samkeppni milli þingamanna Hreyfingarinnar hver gengur lengst í innantómu þrasinu en sigurvegarinn er ótvírætt Þór Saari.
Sem bloggari fylgist ég að sjálfsögðu gerla með hvað kemur í pistlum þeirra sem þar eru að skrifa. Hjá sumum er hatrið á Samfylkingunni sá þráður sem ætíð er kjarninn. Freistandi væri að nefna með nafni þá helstu en ég ætla að láta það vera að sinni en það kann að koma síðar. Hatrið á Samfylkingunni helgast fyrst og fremst af ótta. Þrátt fyrir að Samfylkingin hafi gert mistök, sem ég segi af fullri alvöru að séu ekki mikil, þá ber allt að sama brunni:
Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn í dag sem er samstilltur og ókofinn. Þetta er merkileg staðreynd því Samfylkingin hefur nú í tvö ár leitt Ríkistjórn Íslands á erfiðustu tímum sem nokkru sinni hafa mætt Íslensku þjóðinni síðan hún hlaut fullveldi.
Það er kominn tími til að halda þessu til haga. Mér finnst Samfylkingin engan veginn hafa beitt sínum vopnum til að verjast rógberum og hælbítum. Það kann að vera vegna þess að Samfylkingin hefur forystu fyrir endurreisn lands og þjóðar og hefur þess vegna ekki verið að eltast við lágkúruna sem einkennir stjórnarandstöðuna á Alþingi og þá flokka sem hana skipa og eru allir meira og minna klofnir og ráðvilltir.
Bloggfærslur 6. janúar 2011
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar