Auglýsingar Símans eru fyrirtækinu til skammar

Einhverjar ógeðfelldustu auglýsingar sem dynja framan í okkur í Sjónvarpinu eru frá Símanum, fyrirtæki sem á að vera eitt af símafyrirtækjum á samkeppnismarkaði en hefur greinilega slíka velvild stjórnvalda að geta haldið landsmönnum í gíslingu. En aftur að auglýsingum Símans. Þar birtast mest aular sem eru gerðir sem ógeðslegastir, ýmist slefandi eða gubbandi og svo er ekki hikað við að klæmast á íslensku máli og ekki virðist  málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins hafa neitt við þetta að athuga.

Sem sauðþrár stuðningsmaður Ríkisútvarsins (ég segi sauðþrár því stundum vildi maður helst geta lokað endanlega fyrir það sem frá Ríkisútvarpinu kemur) þá geri ég þá kröfu að tekið sé til hendi til lagfæringar á auglýsingastofu stofnunarinnar til þess að ýmiskonar viðbjóður, eins og auglýsingar Símans, þurfi ekki að dynja á þeim sem ennþá horfa á dagskrá Sjónvarpsins.

Ég sagði að framan að greinilega nýtur Síminn sérstakrar vildar stjórnvalda og Samkeppniseftirlits. Allt byrjaði þetta með einkavæðingunni. Þá vildu margir fara þá leið að skilja grunnnetið frá sölunni, grunnnetinu sem öll síma- og fjarskiptafyrirtæki þurfa að hafa aðgang að. En það vildu stjórnvöld ekki hlusta á enda var þetta á Davíðs/Halldórs tímanum.

Ég ákvað eftir að fjarskipti voru gefin frjáls að færa mig frá Símanum eftir ótrúlega framkomu fyrirtækisins. Nýr sími keyptur hjá n fékk ekki samband þegar hann var settur í hleðslu, Fór með hann á verkstæði Símans í Ármúla og eftir viku og mörg símtöl var mér sagt að nú mætti ég sækja gripinn. Ég skundaði á staðinn og síminn var lagður á borði, þakkaði fyrir og ætlaði að halda á brott. En ekki aldeilis, síminn gripinn og fyrir mig lagður reikningur sem ég skyldi borga! En síminn er nýr, hann er í ábyrgð? Nei hún gildir ekki, þú hlýtur að hafa set snúruna þjösnalega í samband, lóðning hafði gefið sig. Ég neitaði að borga. Þá var mér tilkynnt að þar með yrði síminn tekin í gíslingu og ekki afhentur fyrr en ég borgaði viðgerðina.

Hverra kosta átti ég völ? Ég borgaði og ákvað á stundinni að hætta öllum viðskiptum við Símann, það væru fleiri kostir til og flutti mig yfir til Vódafón.

En þar fór ég villur vegar, það losnar enginn við Símann og öll árin síðan fæ ég að sjálfsögðu reikninga frá Vódafón en mér til mikillar furðu einnig frá Símanum. Því fyrirtæki þarf ég að borga nær 2.000 kr mánaðarlega fyrir eitthvað sem Síminn kallar "Þjónustu vegna heimasíma" og þegar ég fékk mér síma með númerabirtingu hélt ég að ég gæti fengið það skráð hjá Vódafon. Nei, þar var mér sagt að ég yrði að leita til Símans, þetta væri hans einkasvið.

Og allar götur síðan borga ég Símanum mánaðargreiðslu kr. 99 fyrir númerabirtingu. Stundum læðist inn kostnaður á reikningum Símans  "símtöl innanlands", "símtöl í upplýsingaveitur" og"símtöl í þjónustunúmer". Svo skulum við ekki gleyma Símaskránni sem gefin er út árlega af Símanum með kostnaði fyrir alla sem símanúmer hafa á Íslandi, burtséð við hvað fjarskiptatfyrirtæki þeir skipta við.

Er þetta hin frjálsa samkeppni í því landi Íslandi á 21. öld?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband