19.8.2010 | 15:53
Ég hef átt samleið með Hitaveitu Reykjavíkur í meira en hálfa öld
Fyrst þegar ég fór að venja komu mína til Hitaveitu Reykjavíkur var skrifstofa og afgreiðsla Hitaveitunnar í íbúðarhverfi, nánar til tekið við Drápuhlíð í Hlíðahverfinu í Reykjavík. Jóhannes Zoega var þá forstjóri Hitaveitunnar og kynntumst við Jóhannes vel og leyfi ég mér að segja að öll okkar kynni voru hin bestu. Jóhannes stjórnaði þeirri miklu uppbyggingu Hitaveitunnar sem hófst um 1960 þegar Geir Hallgrímsson varð borgarstjóri.
Hitaveita Reykjavíkur vann það grettistak að leggja hitaveitu í alla Reykjavík innan Hringbrautar á stríðsárunum, nokkur hús höfðu áður átt kost á heitu vatni úr Laugardal en eftir það átak varð alger stöðnun, ekkert frekar gert í útvíkkun hitaveitunnar fyrr en þeir Geir og Jóhannes komu til skjalanna. Ég var einn af þeim bæjarfulltrúum í Bæjarstjórn Kópavogs sem vildi taka þá stefnu að semja við Hitaveitu Reykjavíkur um að Hitaveitan legði hitaveitu um allan Kópavog án nokkurra fjárútláta af hálfu Kópavogs en vissulega voru þau sjónarmið á lofti að stofna eigin hitaveitu í Kópavogi, leita eftir vatni í bæjarlandinu og leggja síðan hitaveitu með stórfelldum lántökum. Þessi stefna varð undir sem betur fer en hafði það í för með sér að þáverandi meirihluti í Bæjarstjórn sprakk en stefnan um samninga við Hitaveitu Reykjavíkur varð ofan á. Þannig var Kópavogsbúum forðað frá því að taka á sig drápsklyfjar af skuldum sem langan tíma hefði tekið að komast út úr. Síðan fóru Garðabær, Hafnarfjörður og Bessastaðahreppur að okkar dæmi og þannig urðu allir íbúar höfuðborgarsvæðisins aðnjótandi þessara mestu gæða sem Ísland á; að hita upp hús sín með jarðvarma, orkugjafa án allrar mengunar.
Eftir að Jóhannes lét af stjórn sem forstjóri Hitaveitu Reykjavíkur tók Gunnar Kristinsson við, mætur maður sem ég átti hin bestu samskipti við. Síðan byggði Hitaveita Reykjavíkur aðalstöðvar sínar við Grensásveg, þar var rúmt um alla starfsemi og ég held að allir hafi unað glaðir við sitt. Þessir heiðursmenn, Jóhannes Zoega og Gunnar Kristinsson er báðir látnir.
Svo kom að því að hitaveitan, vatnsveitan og holræsakerfið í Reykjavík voru sameinað undir einn hatt. Guðmundur Þóroddsson vatnsveitustjóri tók við stjórn í hinu sameinaða fyrirtæki. Allan þann tíma frá því hin stórfellda uppbygging og útbreiðsla hitaveitunnar hófst var Hitaveita Reykjavíkur og síðan hið sameinaða fyrirtæki, Orkuveita Reykjavíkur, mjólkurkú sem skilaði eiganda sínum umtalsverðum arði.
En nú er öldin önnur, mjólkurkýrin mjólkar ekki lengur, Orkuveita Reykjavikur er skuldum vafið fyrirtæki á barmi greiðslufalls.
Hvað gerðist?
Vissulega var farið í nýjar stórframkvæmdir. Nesjavallavirkjun byggð sem framleiðir bæði rafmagn og heitt vatn, virkjun sem var hagkvæm í alla staði og er búin að borga sig. Síðan kemur Hellisheiðarvirkjun sem enn sem komið er framleiðir aðeins rafmagn, ekki heitt vatn einnig, nýtir aðeins 15% af jarðorkunni í stað 85% eins og Nesjavallavirkjun. Þá voru tekin mikil útlend lán og síðan kom hrunið.
Er það eina skýringin á slæmri stöðu OR, útlendu lánin?
Þau eru þyngst en því verður ekki á móti mælt að hjá OR hófst flottræfilsháttur í rekstri sem ekki mátti síður rekja til pólitíkusa en stjórnenda OR. Skýrasta dæmið um það er hið skelfilega hússkrímsli við Bæjarháls. Ekki veit ég hvað það er stórt en þó tekið sé tillit til að hitaveita, vatnsveita og holræsakerfi hafi verið sameinuð í eitt, er ekki lítil þensla í húsnæði og mannafla frá Drápuhlíð til Bæjarháls. Bruðlið við byggingu hússins við Bæjarháls var með eindæmum, að bruðla þar endalaust með fjármuni almennings er ófyrirgefanlegt og afurðin er einhver ljótasta og óhagkvæmasta bygging sem risið hefur hér á landi á undanförnum árum.
Síðasta kjörtímabil var eitthvert svartasta tímabilið í pólitískri sögu Reykjavíkur frá upphafi. Forystuna um þá niðurlægingu hafði Sjálfstæðisflokkurinn. Til að reyna að hreinsa sig völdu kjörnir fulltrúar að gera Guðmund Þóroddsson forstjóra að blóraböggli og hann rekinn og Hjörleifur Kvaran ráðinn í staðin, hafði áður verið lögfræðingur fyrirtækisins og þar áður Reykjavíkurborgar. Nú hefur Hjörleifur verið látinn taka pokann sinn, en hverju breytir það, er verið að finna nýjan blóraböggul?
Alla starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur þarf að taka til gagngerðrar endurskoðunar. Leitun mun á fyrirtæki á Íslandi sem hefur eins tryggan rekstrargrundvöll, hefur nánast einkarétt á að reka hitaveitur á Suð-vesturlandi nema á Reykjanesi.
Um langan aldur mun skrímslið við Bæjarháls verða minnismerki um hvernig kjörnum fulltrúum, sem áttu að gæta hagsmuna almennings, tókst að klúðra málum gersamlega með bruðli og gífurlegri skuldsetningu.
Megi "Skrímslið" verða öllum viðvörun um aldur og ævi.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Sveitarstjórnarkosningar, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Tek undir hvert orð með þér Sigurður gamli félagi varðandi sögu þessa annars arðbæra fyrirtækis, burt með frjálshyggjuna úr þessum rekstri öllum, þetta er einfaldlega samtryggingarmál og sameign almennings þessa svæðis. Lifðu heill Kv. Páll Trausti.
Páll Trausti Jörundsson (IP-tala skráð) 19.8.2010 kl. 21:15
Ég sömuleiðis þakka góða grein og man vel fetir skrifstofunni í hlíðunum. Það er undarlegt hve fljótt var hægt að klúðra þessu.
Valdimar Samúelsson, 19.8.2010 kl. 22:20
Ég tek undir með þér Sigurður, orkustofnanir borgarinnar hafa verið til fyrirmyndar, eiga sennilega ekki marga sína líka í veröldinni. En mér finnst skýring þín á hnignun fyrirtækisins frekar frjálsleg. Í mínum huga byrjaði hún þegar R-listinn setti stjórn fyrirtækisins í hendur Alfreðs Þorsteinssonar. Maðurinn virðist hafa misst alla tengingu við raunveruleikann, setti gífurlegar fjárhæðir í vitlausar fjárfestingar sem komu þessu fjöreggi íbúa höfuðborgarsvæðisins ekki að neinum notum. Eins og að fara í samkeppni við opinbert fyrirtæki Símann um lagnir ljósleiðara um borgina, þetta er eitthvað sem fer að komast í notkun núna, en búið er að setja í það óhemju fjárhæðir, það var farið í ræktun á risarækju, keyptar upp óarðbærar hitaveitur utan höfuðborgarsvæðisins sem komu höfuðborgarbúum alls ekkert við og svona má lengi telja. Líklegast er það sem nú er að setja allt í þrot, enn ein samkeppnin við ríkisfyrirtækið Landsvirkjun í orkuframleiðslu fyrir stóriðju.
Það getur aðeins verið að besti flokkurinn í Reykjavík vinni sér inn tilverurétt geti hann undið ofan af þessari vitleysu og sniðið fyrirtækið að því upphaflega hlutverki sínu, sem er að sjá íbúum höfuðborgarsvæðisins fyrir orku á viðráðanlegu verði. Mætti þá að því loknu, hreinsa þá ljótu vörtu af ásýnd borgarinnar sem húsið þeirra er í dag.
En það held ég að sé alveg ljóst að Hrunadansinn hófst í stjórnartíð R listans þó svo að smáskammta stjórn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á síðasta kjörtímabili hefði mátt sýna meiri viðleitni við að koma fyrirtækinu á réttan kúrs. Sennilega hafa stjórnendur borgarinnar þá haft of mikið að gera við að verja eigin stöðu fyrir bakstungum samstarfsmanna sinna, til að geta sinnt málefnum borgarinnar sem skyldi.
Kjartan Sigurgeirsson, 20.8.2010 kl. 10:01
Sæll Sigurður Grétar í Þorlákshöfn! Af hverju þar?
Ég tek undir skýringar Kjartans Sigurgeirssonar um leið og ég spyr Pál Trausta Jörundsson hvaðan hann dregur "frjálshyggjuna" inn í málið? Hugtak sem fæstir ef nokkrir sem slengja því fram í tíma og ótíma vita hvað þýðir.
Skrímslið á Bæjarhálsi gufar ekki léttilega upp, svo að þér verður að ósk þinni.
En burtséð frá öllu þvi sem afvega hefur ferið í veituálum höfuðborgarsvæðisins liggur á lausu, að betra og ódýrara veitukerfi er vandfundið.
Herbert Guðmundsson, 20.8.2010 kl. 15:21
Kjartan, þú segir að skýring mín á hnignun fyrirtækisins sé frekar frjálsleg, ekki veit ég hvernig þú færð það út. Ég kenni pólitíkusum að mestu um hvernig komið er fyrir OR og þó ég hafi ekki nefnt nein nöfn þá er það hárrétt hjá þér að Alfreð Þorsteinsson er sannarlega í þeim hópi. Í hans stjórnartíð var farið út í allskyns vitleysu, það er staðreynd. En sem sannur Sjálfstæðismaður þá ertu að sjálfsögðu að koma sem mestu á R-listann en þínir flokksbræður eru svo sannarlega ekki saklausir heldur, að gera Kjartan lækni að borgarstjóra var einum of langt seilst til að komast í völdin svo ég nefni einhver furðulegustu verk "pólitíkusa" hjá Reykjavíkurborg
Ekki má gleyma því sem vel var gert og þar tel ég fremst bygging Nesjavallavirkjunar sem er einhver hagkvæmasta virkjun sem reist hefur verið hér á landi. Það er gaman að sýna gapandi útlendingum, svo sem stéttarbræðrum mínum, þetta undur sem þeim finnst, notar gufuna fyrst til raforkuframleiðslu og síðan til að hita upp vatn sem notað er til húshitunar. Nýting á gufuaflinu 85% lengra verður ekki gengið. Hellisheiðarvirkjun verður sami gullmolinn í framtíðinni.
Þú segir að OR hafi keypt upp óarðbærar hitaveitur utan höfuðborgarsvæðisins, m. a. hítaveituna í Þorlákshöfn. En ég held að þú ættir að skoða þetta aðeins nánar því ég veit ekki til að neinar af þessum hitaveitum séu óarðbærar, síður en svo. Þessi kaup hafa örugglega styrkt bæði OR og þau sveitarfélög sem seldu sínar hitaveitur. Salan á Hitaveitu Þorlákshafnar var gerð skömmu áður en við Helga fluttum í Þorlákshöfn 2002 og þá var heitt í kolunum í Þorlákshöfn, fjölmargir voru á móti sölunni og enn fleiri töldu söluverðið allt of lágt. Ég hefðu stutt söluna eindregið hefði ég verið orðinn borgari hér þá.
Páll, gaman að heyra frá þér, þú tekur vel undir mína grein og ekki kemur mér á óvart að Herbert kveinki sér undan að "frjálshyggjan" sé nefnd. En Herbert, ég skal ljúflega svara því hvers vegna við Helga fluttum til Þorlákshafnar. Þegar svo var komið að ég rataði ekki um þann byggingaskóg sem Gunnar Birgisson stóð fyrir í Kópavogi þá vildum við flytja okkur um set. Við vildum einfaldlega vera á rólegum stað, stað sem minnti svolítið á gamla góða Kópavog. Þessir tveir staðir eiga sér svipaða sögu. Um miðja síðustu öld var allt á frumstigi og ég hef heyrt álíka raddir um Þorlákshöfn eins og um Kópavog þess tíma, álíka neikvæðar. Ekki spillir að ég er kominn nær upprunanum, hef fyrir augum gamla góða fjallahringinn sem ég sá frá austurbakka Þjórsár þar sem ég fæddist og ólst upp.
En ég tek undir með þér Herbert að betra og ódýrara veitukerfi en OR er vandfundið og á ég þar sérstaklega við þá hreinu og ódýru orku sem heita vatnið er. Ég vil enn á ný undirstrika að þáttur Jóhannesar Zoega var mikill og giftudrjúgur.
Sigurður Grétar Guðmundsson, 22.8.2010 kl. 16:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.