Flatur niðurskurður á skuldum fasteignaeiganda er feigðarflan

Svo virðist sem Ríkisstjórnin sé að missa staðfestuna og láta undan þeim sem hæst hafa látið og heimtað flatan niðurskurð á skuldum fasteignaeigenda. Þar láta hæst minnihlutaflokkar á Alþingi með Framsóknarmenn í broddi fylkingar og ekki stendur á Hreyfingunni , Þór Saari og Margréti Tryggvadóttur (Birgitta er úti á túni að lemja tunnur), að fylgja þeirri forystu, svolítið hik virðist vera á Sjálfstæðismönnum. Hagsmunasamtök heimilanna fylgja málinu eindregið og nú er búið að festa hugsanlegan flatan niðurskurð skulda heimilanna við 18%. Satt best að segja get ég ekki skilið Hagsmunasamtök heimilanna  styðji slíkar aðgerðir því þær munu  að lokum kosta skattgreiðendur fúlgur fjár og leysa lítinn vanda.

Ég hef fyrir framan mig töflu frá Fjármálaráðuneytinu, sem ég dreg ekki í efa, að 20412 einstaklingar skuldi meira en 100% í sínum fasteignum og það kann að vera að þar bætist fleiri í hópinn ef fasteignaverð lækkar umtalsvert.

En þennan hóp má alls ekki setja í eina rétt og ganga síðan til verks þannig að skuldir allra séu færðar niður um 18% því aðstæður innan þessa hóps eru ákaflega misjafnar og það liggur í augum uppi að það verður ekki öllum bjargað. Ég undrast stórlega orð  bankastjóra Landsbankans í Sjónvarpinu í gærkvöldi að það ætti að einbeita sér að því að bjarga þeim sem eru verst settir.

Ef það verður gert verður engum bjargað.

Þarna eru 1360 einstaklingar sem skulda meira en 200% af verðgildi sinna fasteigna. Það liggur í augum uppi að þessum hópi verður ekki bjargað þó bankastjóri Landsbankans vilji einbeita sér að því. Með 18% flötum niðurskurði fær þessi hópur háar afskriftir af sínum skuldum en mér finnst liggja í augum uppi að það dugi engan veginn til að bjarga þeim frá því að missa  eignir sínar.

Það sem hefði átt að gera fyrir löngu er að greina þá sem skulda yfir 100% af sínum heimilum og sannreyna hvern og einn, hvernig er hægt að hjálpa þeim sem geta orðið bjargálna. Ef markið er sett sem hámark við þá sem skulda alt að 150% þá eru það 16433 einstaklingar.

Þetta er hópurinn sem á að einbeita sér að því að bjarga. Þeir sem eru yfir þessum mörkum eru 3979 einstaklingar og þeirra mál ber að sjálfsögu að skoða einnig. En þetta er sá hópur sem þarf mesta fjármuni til að bjarga og í þessum hópi eru þeir sem höguðu sér óskynsamlegast. Það er ekki vafi að margir þar voru í allt og dýru húsnæði og stóru og ekki ólíklegt að á heimreiðinni hafi staðið tveir jeppar, jafnvel sportbíll einnig og í einum bílskúrnum mótorhjólið, snjósleðinn og fjórhjólið. Ég veit að þessi orð geta orðið mér dýrkeypt en mér er nokkuð sama. Þetta eru þau orð sem hafa verið "tabú" í allri umræðunni, ég hika ekki við að brjóta það "tabú".

Satt best að segja líst mér ekkert á hvernig þessi mál þróast nú og spurning hvort hið fornkveðna "því verr gefast heimskra manna ráð því fleiri sem koma saman" á ekki orðið við um hvert stefnir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ég held þetta vera alveg á hinn veginn - þ.e. að hættan/kostnaðurinn sé miklu mun meiri ef þetta verður ekki gert?

Sjá bloggfærslu: Hvað kostar að gera ekki neitt? Síðustu dagana kemur fram maður eftir mann, og segir flatann niðurskurð óframkvæmanlegann!

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 14.10.2010 kl. 20:58

2 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Hérna er upptalning sem Marínó G. setur fram í sinni nýjustu færslu:

----------------------

Skoðum nokkrar tölulegar staðreyndir:

  • Skuldsetning heimilanna hefur farið úr 25% af ársráðstöfunartekjum árið 1980 í um og yfir 300% í árslok 2008.  Frá árslokum 2004 til ársloka 2008 fór skuldsetningin úr 877 milljörðum í 2014 milljarða, aukning upp á 130% á fjórum árum.
  • Samkvæmt tölum bankanna, sem birtast í skýrslu eftirlitsnefndar með úrlausnum fjármálafyrirtækja, kemur fram að mjög fáir hafa fengið úrlausn sinna mála í gegn um sértæka skuldaaðlögun og greiðsluaðlögun.  Eins og staðan var samkvæmt álagningar skrá, þá voru 20.412 heimili í landinu með yfirveðsettar eignir miðað við fasteignamat.  Alls nam yfirveðsetningin 125 milljörðum króna. 
  • Samkvæmt tölum lífeyrissjóðanna hafa 49.000 manns nýtt sér að taka út séreignarlífeyrissparnað og samkvæmt tölum fjármálaráðuneytisins höfðu fyrr í ár 42 milljarðar verið teknir út.
  • Vanskil í fjármálakerfinu hefur aukist mikið.  Samkvæmt upplýsingum í skýrslu AGS eru 65% lána að kröfuvirði óvirk (e. non-performing loans), þ.e. ekki er verið að greiða af þeim og hefur ekki verið gert síðustu 90 daga.  Ef bókfært virði er notað, þá er hlutfallið 45%.
  • Hjá stóru bönkunum þremur eru milli 80 - 85% lána í skilum, sem þýðir að 15-20% lána eru 45% af bókfærðu virði og 65% af kröfuvirði.  Hjá lífeyrissjóðunum munu vanskil vera "lítil" eða 10% (með frystingu).
  • Einn stóru bankanna sagðist "bara" hafa verið með 20 uppboð í síðustu viku.  Nái hann þessum fjölda vikulega allt árið, þá gerir það "bara" 1040 uppboð.
  • Yfir 1.500 íbúðir eru þegar komnar í eigu fjármálafyrirtækja, þ.m.t. Íbúðalánasjóðs.
  • Á fundi 8. september um fátækt kom fram að árið 2009 gátu 36.900 fjölskyldur ekki mætt óvæntum útgjöldum.  Þessi tala er núna komin vel yfir 40.000 fjölskyldur.  48.500 fjölskyldur voru sagðar eiga í vandræðum.

------------------------

Hef auðvitað engu við hana að bæta.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 14.10.2010 kl. 21:01

3 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Það er vissulega þörf á aðgerðum til að bjarga fjölmörgum heimilum en ég sný ekki aftur með þá skoðun mína að flataur niðurskurður á skuldum heimilanna er versta leið til bjargar sem hægt er að fara.

Það er vissulega rétt hjá þér Einar Örn að það verður dýrast að gera ekki neitt. Það er hins vegar næstum því útúrsnúningur að halda því fram að þó ég telji flatan niðurskurð ófæra og óréttláta leið þá sé ég að segja að það eigi ekki að gera neitt.

Ég mun koma frekar inn á það eftir helgi, er að fara frá tölvunni núna.

Sigurður Grétar Guðmundsson, 15.10.2010 kl. 11:10

4 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Jón og Séra Jón.

Tveir félagar byrja að skólagöngu lokinni að safna peningum, þegar sjóðirnir eru orðnir 10 miljónir ákveður Jón að nota sjóðinn sinn í að koma sér upp íbúð, en Séra Jón ákveður að láta það bíða svolítið, hann fær að búa hjá foreldrum eitthvað áfram 

Stuttu eftir að Jón kaupir íbúðina verður efnahagslegt hrun í þjóðfélaginu, kreppa skellur á og vísitala neysluverðs ríkur upp, og til að bæta gráu ofan á svart ákveður ríkisstjórnin að hækka öll möguleg gjöld, eins og eldsneytisgjald, áfengisgjald og virðisaukaskatt sem rata beint inn í vísitöluna og hækka lán bæði Jóns og annarra að sama skapi hækkar innstæða Séra Jóns um svipað hlutfall.

Þessi hækkun vísitölunnar eykur skuldir Jóns um 30% á nokkrum vikum, þannig að 15 miljóna lánið sem hann tók fyrir íbúðinni er ekki lengur 15 miljónir heldur er það orðið 19,5 miljónir, ekki nóg með það heldur kemst Jón að því þegar hann vill selja íbúðina að hún er ekki lengur 25 miljóna virði, hann má þakka fyrir fái hann 20 miljónir fyrir hana.

Þegar Jón les grein í Morgunblaðinu um að ekki sé neitt sem heiti ókeypis hádegismatur, heldur sé það eignaupptaka ef Séra Jón vinur hans verði látinn taka einhvern þátt í að borga niður kreppuna, renna á hann tvær grímur  Því nú er munur orðinn á eignum strákanna, Séra Jón á í bankanum 13 miljónir, en eignir Jóns eru um hálf milljón að frádregnum sölulaunum fyrir íbúðina.  Hvar liggur réttlætið?  er það eignaupptaka ef Séra Jón  þarf að taka einhvern hluta af skellinum með Jóni?    

Kjartan Sigurgeirsson, 20.10.2010 kl. 10:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband