Lagnafréttir úr Borgarleikhúsinu

Hreint út sagt; Fjölskyldan eftir bandaríska Írann Tracy Letts er mögnuð leiksýning þar sem ekki er nokkur einasti veikur hlekkur, ekki meðal þrettán leikaranna né annarra sem haf skapað þessa þriggja og hálfs klukkustunda löngu sýningu. Og ekki skal gleyma þeim stóra hópi sem skapar grundvöllinn og umgjörðina, án þeirra yrði erfitt fyrir leikarana að skila sínu hlutverki.

Það er freistandi að setjast í stól gagnrýnandans, hver velt nema hann skríði fram áður en pistlinum er lokið. En það var fleira sem upp í minn huga kom en í þá gömlu góðu daga þegar lifað var í andrúmslofti leikhússins. Ekki síður þau sextán ár sem pistlahöfundur Morgunblaðsins og skrifaðir voru þeir lífseigu pistlar, Lagnafréttir. Það rifjaðist einnig upp að nokkrir pistlanna tengdust leikhúsum, eða öllu heldur vanköntum nokkurra leikhúsa. Þessi árátta tók sig upp kröftuglega í gærkvöldi (laugard. 5. febr. 2011). Við Helga sátum á 14. bekk ásamt Sváfni syni okkar og Erlu tengdadóttur. Eins og flestir vita, sem notið hafa leiksýninga í Stóra sal Borgarleikhússins, er salurinn "brattur" sem tryggir öllum góða sjónlínu á sviðið, ekki er það verra. En þess vegna sitja áhorfendur í mismunandi hæð í salnum og þá kom vandamálið.

Það er ótrúlegt að í þessu tiltölulega nýja húsi, sem að sjálfsögðu hefur verið byggt samkvæmt ströngustu kröfum þar sem nýtt hefur verið öll nýjasta tækni, skuli áhorfendur verið farnir að stynja undan hita og þungu lofti þegar leið á sýninguna. 

Hvað hefur gerst?

Er Borgarleikhúsið eitt af þeim "fórnarlömbum" þar sem ekkert hefur verið til sparað, öll lagnakerfi sem best úr garði gerð, en síðan fer ýmislegt úrskeiðis? Hvað um viðhald og eftirlit, hvernig er því háttað. Við Íslendingar vorum ótrúlegir vitleysingar þegar við fórum fyrir alvöru að byggja hús úr varanlegu efni fyrir rúmri hálfri öld. Við fengum þá kolvitlausu flugu í höfuðið að þegar húsið væri fullbyggt væri ekki annað en að flytja inn, hvort sem það voru íbúðir eða atvinnuhúsnæði. Þá værum við komin í mannanna verk sem væru eilíf, ekkert þyrfti framar að gera. Ég er nú einmitt að vinna að því að koma endurbótum á geislahitunarkerfi á tveimur stöðum, þrjú stigahús á hvorum stað, þar sem allt er óbreytt síðastliðna hálfa öld, sýnir að vissulega hefur hönnum kerfanna verið með ágætum í upphafi.

En nú er ég komin út um víðan völl, aftur í Borgarleikhúsið. Ég er viss um að í Borgarleikhúsinu er loftræsikerfi sem bæði getur haldið góðu lofti í leikhússölum og hæfilegum hita. Það er líklegt að þetta sé ekki stórmál að kippa þessu í liðinn. Það er merkilegt að flestum er ljóst að það þurfi að smyrja bílinn með vissu millibili, láta skoða hann ekki eingöngu af skyldu heldur af tæknilegum þörfum, hemlabúnað þarf að endurnýja reglulega o. s. frv. En þegar kemur að tækni bygginganna þá virðist skilningurinn ærið takmarkaður.

Ég hef verið undir áhrifum þessarar mögnuðu leiksýningar, Fjölskyldunnar,  þennan sunnudagsmorgun og óneitanlega blaðað í leikskránni sem ég hafði ekki gefið mér tíma til fyrr en nú. Með því að skoða hana og lesa ætti flestum að vera ljóst hve mikið stuðningslið fylgir hverri leiksýningu, hverju leikhúsi. 

Skyndilega staldraði ég við eitt nafn, maður var titlaður umsjónarmaður hússins, maður að nafni Ögmundur Þór Jóhannesson. Það skyldi þó ekki vera sá sami og kom sem unglingur inn í Leikfélag Kópavogs og tók þátt söngleiknum "Bör Börsson" sem tveir Norðmenn gerðu eftir hinni vinsælu skálsögu Jóhan Falkberget og Helgi Hjörvar las sem vinsælustu útvarpssögu allra tíma. Guðrúm Þ. Stephensen leiksýrði þessari sýningu okkar með mikilli prýði árið 1974. Í Bör Börssyni fékk ég hlutverk skálksins Óla í Fitjakoti, ótrúlega skemmtilegur karakter. Þetta er líklega sá sami Ögmundur Þór sem tók við af mér nokkrum árum síðar sem formaður Leikfélags Kópavogs.

Nú við ég á engan hátt kenna Ögmundi um hitasvækjuna í Borgarleikhúsinu í gær, veit ekki einu sinni hvort þetta er í hans verkahring. En Ömmi, ef þú lest þessar línur þá er mera en tilbúinn til að líta til þín til ráðgjafar, eða réttara sagt benda þér á ráðgjafa því að hluta liggur þetta utan míns sérfræðisviðs.

Og þessi heimsókn skal ekki kosta þig meira en einn eða tvo kaffibolla. 

En þá er ekki hægt að stilla sig um að minnast aðeins nánar á þessa ótrúlegu "fjölskyldu" sem var á fjölunum í gær. Þarna rumskuðu þó aðallega gamlar minningar. Það byrjaði þegar tjaldið lyftist og Pétur Einarsson opnaði verkið. Pétur fékk ég einu sinni til að leikstýra hjá Leikfélagi Kópavogs. leikriti eftir Jökul Jakobsson, leikriti sem mér finnst atvinnuleikhúsin hafi ekki virt viðlits nema einu sinni í upphafi í Þjóðleikhúsinu, þetta var "Sonur skóarans og dóttir bakarans" Þar fékk ég hlutverk sem er í minningunni eitt af fjórum uppáhaldshlutverkum mínum, útbrunna skarið Albjart þar sem Helga kona mín lék jafn glataða konu hans, Matthildi. 

Sjaldan hef ég séð Margréti Helgu vinna eins afgerandi sigur og í "Fjölskyldunni" og hefur hún þó margan karakterinn skapað, ætíð með glæsibrag. Enn fór fortíðin að kræla á sér. Það var fyrir löngu sem ég fékk Margréti Helgu til að leikstýra barnaleikriti hjá Leikfélagi Kópavogs. Það var verk Herdísar Egilsdóttur "Gegn um holt og hæðir" og þá vil ég minnast einstaks samstarfsmanns sem nú er látinn. Gylfi Gíslason myndlistarmaður skapaði leikmyndina og saman lögðum við Gylfi okkar þekkingu til að búa til eðlilegan lítinn foss sem féll frama f sviðsbrúninni, líklega þætti það ekki mikið "flóð" miðað við hellirigninguna í Lé konungi á sviði Þjóðleikhússins. 

En það voru fleiri sem sýndu magnaðan leik. Sigrún Edda er stórkostleg sem elsta systirin, dóttir móðurinnar Margrétar Helgu. Það var magnað að sjá skyldleik þeirra mæðgna aukist óhugnanlega eftir því sem á leið sýninguna.  Sigrún Edda á ekki langt að sækja gáfuna, móðir hennar Guðrún Ásmundsdóttir sést nú sjaldan á sviði því miður. En enn eitt minnið skreið fram. Guðrún leikstýrði hjá okkur í Kópsvogi sóngleiksútgáfu af þeim gamla góða "Leynimel13". Enn fékk ég draumahlutverk; Madsen klæðskerameistara sem byrjaði sem mikill bindindismaður en að lokum sofnaði fullur í þvottabala. 

Eina persónan í"fjölskyldunni" er ameríski "frumbygginn" eða Indíánastúlkan sem vinnur verkin, þvær, býr til matinn og vinnur raunar öll störf á heimilinu. Það tók mig nokkurn tíma að átta mig á því að þarna var á ferðinni Unnur Ösp dóttir Stefáns Baldurssonar fyrrum Þjóðleikhússtjóra, borinn og barnfæddur Kópavogsbúi. Ég held að Stefán sé einhver minnisstæðasti leikstjóri sem ég fékk tækifæri til að starfa með. "Glataðir snillingar" eftir færeyska skáldið Villiam Heinesen er ljóðrænt og trakísk verk en þar fékk ég fjórða uppáhaldskarlinn minn að kljást við, Ankersen sparisjóðsstjóra og leiðtoga sértrúarsafnaðarins Iðunnar. Mér finnst furðulegt að leikhúsin skuli ekki hafa sýnt þessu einstaka verki áhuga. "Glataðir snillingar" hafa aðeins einu sinni hafa verið settir á fjalir eftir þetta, en það var Nemendaleikhús Leiklistarskólans sem setti það upp undir leikstjórn Stefáns Baldurssonar. Þar kom fram leikari sem síðan hefur mikið látið að sér kveða á leiksviði og kvikmyndum en þar lék Ingvar Sigurðsson Ankersen sparisjóðsstjóra og safnaðarleiðtoga. Ég sá þá sýningu enda nokkuð tengdur Leiklistarskólanum. Næst þegar ég hitti Stefán Baldursson var mér heitt í hamsi og lét gagnrýnina ganga og spurði "hvernig gastu breytt þessu ljóðræna og trakíska verki í farsa, þetta var skemmdarverk". Stefán brást við með sínu rólyndi og sagðist vilja kynna okkur nafnana í ágætu samkvæmi sem við vorum í og kallaði Ingvar Sigurðsson á vettvang. Sagði að hann hefði farið fljótlega til útlanda eftir fumsýningu í Nemendaleikhúsinu og ekki getað fylgst með framvindu og þróun legsýningarinnar. Spurði Ingvar hvort verið gæti að nokkurt ærsl hefði læðst inn í hinn unga hóp leiklistarnemanna?. Ingvar maldaði í móinn en viðurkenndi að lokum "að ekki væri loku fyrir það skotið að einhver fiðringur hefði gripið hópinn og ýmsir leyft sér meira í átt til ærslanna en lagt hefði verið upp með".

En svona vill stundum fara, ætlunin er að fara nokkrum orðum um magnaða leiksýningu en enginn ræður för, það er farið um víðan völl áður en við er litið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband