Olli Rehn og sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins

Mér finnst full ástæða til að bjóða þann finnska Olli Rehn velkominn til Íslands. Við erum að fara í aðildarviðræður við ES, þess vegna er fengur að komu þessa góða gests sem hefur í tösku sinn litlar 2000 spurningar sem Jóhanna, Steingrímur og við öll verðum að svara skilmerkilega.

Sem betur fer tókst svo vel til að Alþingi samþykkti, naumlega þó, að sækja um aðild að ES. Á engan annan hátt var hægt að binda enda á áralangt þras um hvort þarna væru gull og græna skóga að fá eða ginnungagap ofstjórnar og allsherjar taps sjálfstæðis þjóðarinnar væri öruggt. Hvorutveggja er fjarri lagi.

En innganga íslands í EB er allt annar handleggur en umsókn um aðild og  aðildarviðræður. Menn setja fyrir sig einkum sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu bandalagsins og það er svolítið sem vefst fyrir mér, algjörum landkrabba, þegar ég kíki inn í þann furðulega heim sem kallast sjávarútvegsstefna ES. Ég ætla samt að velta þessu aðeins fyrir mér í von um að einhverjir sérfræðingar í þjóðarrétti kunni að álpast inn á bloggið mitt og sýni mér fram á hvað ég er grunnhygginn eða þá sem ég vona frekar; að ég sé að ræða mál sem sé þess virði að það sé skoðað.

Sjávarútvegsstefna ES virðist vera einhverskonar grautur á þann hátt að þjóðir fái leyfi til að fara inn í landhelgi annarra ríkja og veiða þar fisk, sérstaklega ef þær hafa eitthvað sem kallast veiðireynsla sem oftast er fyrri rányrkja eins og margar þjóðir stunduðu á Íslandsmiðum.

En nú spyr þessi fávísi landkrabbi:

Hvers vegna er það ótvírætt að hver þjóð á þau gæði sem felast í hafsbotninum undir eigin landhelgi?

Danir eiga ótvíræðan rétt til olíu og gass undir sinni landhelgi, það eiga Skotar einnig.

Enginn dregur í efa að við eigum það sem leynast kann á hafsbotni Drekasvæðisins, þessu horni lengst norður í höfum út undir 200 mílna mörkunum.

Og enn spyr landkrabbinn:

Af hverju gildir ekki ótvírætt það sama um fiskinn í sjónum og það sem gildir um það sem leynast kann í hafsbotninum. Víða eru staðbundnar fiskitegundir sem alast upp verða veiðanlegir með hækkandi aldri, hjá okkur er víst þorskurinn fremstur meðal jafningja í þeirri stóru fjölskyldu.

Svo eru líka flökkustofnar svo sem síld, makríll og kolmunni sem fara má segja "milli landa". Í dag verðum við að semja um veiðar úr slíkum stofnum, það er engin nýlunda.

Evrópusambandið er í syngjandi rugli með sína sjávarútvegsstefnu. Geta Íslendingar lagt fram lausnir sem losa þá úr snörunni, hver þjóð skal eiga þá staðbundnu fiskistofna sem eru sannarlega í þeirra landhelgi. Ef fiskur þvælist í Norðursjó yfir mörkin, fer úr Skoskri landhelgi yfir í Dnaska þá einfaldlega breytir hann um ríkisfang, verður Danskur.

Þetta var hans val.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þessi Olli Rehn hefur ítrekað verið með íhlutun í innanríkismál okkar Íslendinga, og þú fagnar komu hans hingað!!!

Jón Valur Jensson, 14.9.2009 kl. 12:30

2 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Ef þú kallar það íhlutun í innanríkismál okkar það sem Olli Rehn hefur sagt um Ísland og Íslendinga þá er hann þar ekki einn á báti. Það væri líklega hægt að telja upp tugi útlendinga sem hafa fjallað um slíkt og ekki fengið bágt fyrir. Mér sýnist þú fjalla í á gryfju að vera hlutdrægur; ef útlendingurinn fjallar um mál sem þú ert andvígur þá er það "íhlutun" en ef það er samkvæmt þínum skoðunum þá er það í lagi!!!

Sigurður Grétar Guðmundsson, 14.9.2009 kl. 13:16

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Við Íslendingar höfum fullt leyfi til að fjalla um framtíð lands okkar, það er stjórnarskrárvarinn réttur okkar að kynna viðhorf okkar og njóta hér mál- og ritfrelsis til þess. Þar að auki er það góð, þjóðleg, ábyrg og virðingarverð afstaða að verja stjórnarskrárbundin fullveldisréttindi þjóðarinnar, svo sem allar þær greinar í stjórnarskránni, sem taka fram, að löggjafarvaldið skuli vera hér á landi, í höndum Alþingis og forseta lýðveldisins, en gegn því beinist EB-innlimunarstefnan, já, svo mjög, að hún vill láta afnema allar þær lagagreinar úr stjórnarskránni, en reyndar láta EB-menn lítt á því bera í áróðri sínum – þeir ætla bara að láta skella á þessari stjórnarskrárbreytingu eins og einhverju óhjákvæmilegu þegar þeim þókknast.

Það væri lítið við því að amast, ef einhver útlendingur, óbreyttur borgari, væri með yfirlýsingar um það, sem hann teldi okkur hentast eða hvað við ættum að gera, en þegar háttsettur maður í forystusveit EB (framkvæmdastjórnin, EC, European Commission, er e.k. ríkisstjórn þess, og hann er þar einn kommissaranna 27, sem sé með ráðherra-ígildis stöðu) segir okkur bæði við eigum að ganga í EB og hvenær hvenær við eigum að gera það, þá eru það, á sviði diplómatíunnar, óviðurkvæmileg afskipti af innanlandsmáli okkar sjálfra.

Þú átt þakkir skildar fyrir afar skemmtilega pistla þína um lagnamál og landsins gagn og nauðsynjar í fasteignablaði Moggans, Sigurður Grétar, og einnig fyrir góða ádrepu um gróðurhúsalofttegunda-málin, en í þessu EB-máli sýnist mér þú sorglega langt frá sjálfstæðisvilja foreldra okkar, afa okkar og amma, sem fögnuðu nýfengnu frelsi og fullveldi þjóðarinnar

Jón Valur Jensson, 14.9.2009 kl. 14:05

4 identicon

Að mínum dómi er alveg óhæft að leyfa þessum manni gróflega íhlutun í sjálfstæði lands okkar.   Hann er of hlutdrægur og út í hött að fagna komu hans með fánagný og nánast lofi um hans óæskilega áróður og  íhlutun.

ElleE (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 21:10

5 identicon

Olían og gasið fer ekki neitt. Það þarf að ná í það. Fiskurinn hinsvegar syndir sinn sjó, óháð lögsögum og lögum. Vegna þess er sniðugt að hafa sameiginlega stjórnun á veiðum úr fiskistofnum þar sem það á við. Íslendingar eru að mestu leiti fyrir utan allt slíkt, fyrir utan einstaka flökkustofn sem kemur og fer. Þá eru flestir fiskveiðistofnar staðbundnir á miðunum í kringum Ísland. Það setur málið í talsvert aðra stöðu hjá Íslendingum en þeim ESB þjóðum sem stunda fiskveiðar.

Jón Frímann (IP-tala skráð) 17.9.2009 kl. 22:54

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

"Fiskveiðistjórnun" Evrópubandalagsins er ein hörmungarsaga, bæði á evrópskum miðum og ekki síður hjá eyþjóðum, sem EB hefur samið við, og við 3. heims lönd. Það virðast allir vita þetta nema Jón Frímann.

Jón Valur Jensson, 18.9.2009 kl. 01:58

7 identicon

Fiskveiðistjórnun ESB má gagnrýna, alveg eins og hina íslensku fiskveiðistjórnun. Hinsvegar er þetta ekki hörmungarsaga hjá þeim eins og Jón Valur heldur hérna ranglega fram. Yfirstjórn ESB og aðildarríki ESB læra af reynslunni og eru þessa dagana að undirbúa vandaðar breytingar á fiskveiðistjórn ESB. Samkvæmt nýjustu fréttum, þá eru fiskveiðistofnar farnir að jafna sig hjá aðildarríkjum ESB, sjá nánar hérna.

Jón Frímann (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 02:15

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

"Vandaðar breytingar" – jæja! Ein tillagan í maí í hvítbók frá bandalaginu fól í sér, að vel mætti gefa regluna um "hlutfallslegan stöðugleika" (relative stability) upp á bátinn. Samt hefur tilvist hennar verið ein helzta "röksemd" EB-dindla hérlendis fyrir því, að okkur Íslendingum væri alveg óhætt að sogast þarna inn, af því að við fengjum einir að veiða á okkar miðum á grundvelli hlutfallslegs stöðugleika í veiðum okkar!

Jón Valur Jensson, 18.9.2009 kl. 02:27

9 identicon

Það er alveg rétt að fiskveiðistjórnun EB sem og margra ríkja þess sitt í hvoru lagi, hefur verið svo slæm að svo mikið hefur verið gengið á mið þeirra að í dag er sú staða uppi að fiskveiðar eru víða nánast dauðar,Þeir hófu þannig að sækja norðar og ætluðu að hreinsa okkar mið í norðanverðu Atlanstshafi, við þekkjum öll það ferli, þorskastríðin nánar tiltekið, tökum breta sem dæmi, í gömlum fiskveiðibæjum eins og Grimsby og Hull er þetta nánast dautt, sama er upp á teningnum hjá spanverjum og portúgölum, það hefur verið hrun í þessari grein síðustu hva, 10-30 ár, enda fá þeir ekki sama óhefta aðgangin að íslenskum og norskum fiskimiðum sem og áður!!

Guðmundur Júlíusson (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 19:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 113922

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband