Hún verslaði sér nærbrækur

 

 

Fyrir nokkru hlustaði ég á unga konu, að ég held á Rás 2,  sem þar var kynnt sem pistlahöfundur sem mundi flytja reglulega pistla í útvarpið.

Vissulega var konan lífleg og flutti sinn pistil vel,  en þar lagði hún út af eigin nærbrókum eða öllu heldur; skorti á þeim nauðsynlegu flíkum.

Pistilinn endaði hún á því að segja að þessum skorti yrði hún að útrýma.

Og hvað gerði hún?

Hún fór í búð og verslaði sér nærbrækur.

Er nokkuð við þetta að athuga, verður ekki hver að bjarga sér? Að sjálfsögðu, en þessi eflaust ágæti pistlahöfundur er greinilega sýktur af þeim sem ráða málþróun hér á landi því fyrir aðeins nokkrum árum hefði hún eflaust sagt að hún hefði keypt sér nærbrækur.

Sama heyrðist frá bóndanum sem kynnti nýtt greiðslukort, sem mig minnir að heiti fjárkort eða eitthvað álíka. Kostirnir við þetta nýja kort voru margir t. d. auðveldar það handhöfum þess að versla sér hótel þegar farið er í ferðalag að sögn bóndans.

Ætlar maðurinn virkilega að fá sér heilt hótel til að dvelja í nokkrar nætur?

Örugglega ekki; hann ætlaði að kaupa sér gistingu, nema hvað.

Á örstuttum tíma er búið að útrýma öllu vinsælu fólki hér á landi en það er ekki hægt að þverfóta fyrir ástsælu fólki. Nú má heyra bílainnflytjendur auglýsa ástsæla bíla svo til að verða ástsæll þarf ekki að vera persóna með sláandi hjarta og sjálfstæða hugsun í kolli.

Ég man vel eftir því þegar ég fór í það mikla ævintýri að fara til útlanda í fyrsta sinni.

En nú fer enginn til útlanda þó það sé miklu auðveldara og ódýrara en fyrir meira en hálfri öld.

Eru þá allir hættir að ferðast?

Ekki aldeilis. En nú fer fólk í stórum hópum erlendis, það dvelur erlendis og flestir koma aftur erlendis frá.

Eitt orð virðist ómissandi í alla texta. Það er þetta hvimleiða orð staðsett.

Ég ætla að biðja lesendur sem rekast á þetta innskotsorð næst í texta að strika yfir það og lesa textann án þess. Er það ekki til bóta?

Hverjir ráða þróun íslensks máls nú?

Fjölmiðlafólk og textasmiðir auglýsinga, þarna eru þeir sem ráða ferðinni. Kemur þeim aldrei til hugar að nota sjálfstæða hugsun eða finnst þeim þægilegra að fljóta með straumnum?      

 

 

 

 

Höfundur er vatnsvirkjameistari & orkuráðgjafi, búsettur í Þorlákshöfn

 


Mikill skellur fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Satt best að segja trúði ég vart mínum eigin augum þegar fyrst fregnir  úr þjóðaratkvæðinu birtust í gærkvöldi. Ég hélt að ofurvald Sjálfstæðisflokksins á sínum fylgismönnum og félögum væri slíkt að þeir mundu flykkjast á á kjörstaði og greiða NEI við öllu á kjörseðlinum nema auðvitað um þjókirkjuna.

En annað kom í ljós.

Það var áhugavert að fylgjast með  beygðum Bjarna Benedikssyni í Silfri Egils í dag, honum var sannarlega brugðið. Sjálfstæðisflokkurinn lét fyrst það boð út ganga hans fólk skyldi hundsa kosningarar en sá svo sit óvænna; skipti um gír og skipaði sínu fólki að mæta á kjörstað og krossa við NEI (nema að sjáldsögðu við spurnningunni um þjóðkirkjuna.

Ég horfði líka á þá sem komu til Egils á eftir stjórnmálaforingjunum. Þar gekk Jón Magnússon fram af mér, hann fullyrti að ALLIR fjölmiðlar hefðu rekið einhliða áróður fyrir því að kjósendur styddu tillögur Stjórnmálaráðs og koms upp með þann málflutning, hvorki Egill né aðrir þátttakendur gerðu athugasemd við þennan fráleita málflutning. Ég sé Morgunblaðið sjaldan en ef svo ber undir þá sé ég einhliða málflutning Sjálfstæðisflokksins í þessu máli og bendi ég þar á greinar eftir Ólöfu Nordal og Einar Guðfinnsson. Í einni geininnu stóð "Ríkisstjórnin mun senda þjóðina aftur í myrkur 18. aldar verði þessar tillögur smþykktar"  og "Afnema kristni sem opinbera trú á Íslandi". 

Og nú er lögfræðingurinn Jon Magnússon búinn að reikna út hér á blogginu að tillögur Stjórnlagaráðs hafi verið kofelldar í kosningunum í gær!!!

Það vantar ekki neitt upp á skaulegan málflutning fylgsmanna Sjálfstæðisflokksins.

 

 


Þórhallur fer vel af stað með framtíðarþátt sinn um Ísland í Sjónvarpinu, en fyrsti þátturinn var helmingi of langur

Ég held að þessi t Þórhalls lofi nokkuð góðu. En Þórhallur þarf að muna það að þessir umræðuþættir mega ekki vera of háfleygir og á mannamáli. Það tekur nokkuð á að fylgjast með umræðu um félags- og framfærslumáleins eins og annað sem þar bar á góma. Þess vegna átti Þórhallur að efna til umræðu um heilbrigðismálin í örðum þætti, þarna var allt of mikið efni sett fram í einu og ég óttast að það hafi í för með sér að áheyrandi/áhorfandi nái ekki að fanga allt sem þar kemur fram.

Eðlilega urðu miklar umræður um kjör öryrkja og einnig um kjör einstæðra foreldra sem í flestum tilfellum eru konur, þær sjá oftast um börnin eftir skilnað og sumar hafa misst maka sinn, en einstæðir feður eru einnig til. Það sem mér fannst athyglisverðast í umræðunni var sú hugmynd um að snúa mati á öryrkjum við, meta þá út frá færni en út frá vöntun á færni. Einnig að það gengur ekki lengur að flokka ákveðna þjóðfélagshópa eftir einu og sama lögmálinu, þarna er hópur sem er eins misjafn og aðrir hópar þjóðfélagsins að möguleikum og aðstöðu. Þarna þarf að skoða mál sérhvers einstaklings, þá kann að koma í ljós að sá hópur sem býr við hreina neyð er ekki eins stór og ætla mætti.

Það var nánast ekkert minnst á eldri borgar í þessum þætti frekar en annarstaðar í þjóðfélaginu. Aðeins Stefán Ólafsson ræddi um eldri borgara í sínu innslagi og benti einnig á að þar þyrfti að endurskipuleggja það flókna kerfi lífeyris sem klambrað hefur verið saman. Eldri borgarar eru ekki einsleitur hópur, þar er mannflóran mjög fjölbreytt. Þar eru margir sem ekki eiga til hnífs og skeiðar en þar er sem betur fer allgóður hópur sem á eignir og hefur góðar tekjur, þarna er ekki síðri þörf á að skoða mál einstakslingins, ég held að það sé engan veginn eins mikið verk og ætla mætti.

Enn og aftur segi ég að ég hef aldrei skilið þá gjörð Árna Páls flokksbróður míns, þáverandi félagsmálaráðherra, þegar hann lækkaði frítekjumark eldri borgara úr 1.300.200 kr niður í 480.000 á ári, fyrr mátti nú rota en dauðrota. Hvað halda ráðmenn að Ríkið græði á þessari gjörð? Ekki nokkurn skapaðan hlut en þetta sviptir margan mann möguleikanum á að afla sér nokkurra aukatekna og án vafa safnar það nokkrum krónum í skattpeningum í kassa ríkisins. Það ætti Árni Pál og aðrir unggæðingar að vita að ekkert er eins gefandi og gefa öldruðum kost á að vera á vinnumarkaði eins lengi og kostur er og miðla sérþekkingu sinni til samborgaranna.

Það þýðir lítið að segja við hálf áttræðan mann að þetta verði leiðrétt eftir tíu ár eða svo. 

Veit Árni Páll hvert á að senda leiðréttinguna til mín, á húna að fara í körina, eða þá upp eða niður?


UPPKOSNING, hverskonar orðskrípi er þetta?

Það er með ólíkindum hvernig orðskrípi og orðaleppar allskonar eiga auðvelt með að ná útbreiðslu með leifturhraða. Þeir sem þar vinna að útbreiðslunni eru í fyrsta lagi fjölmiðlamenn og á eftir þeim skríða stjórnmálamenn. Sú mikla umræða sem orðið hefur um hinn fráleit úrskurð Hæstaréttar að kosningarnar til Stjórnlagaþings væru ógildar hafa eðlilega kallað á ýmsar hugmyndir um hvernig við skuli bregðast. Helst var rætt um að Alþingi veldi þá 25 sem kosnir voru að öllu leyti löglegri kosningu til að semja tillögu að nýrri stjórnarskrá. Önnur hugmynd var að endurkjósa, þar yrðu sömu einstaklingar í framboði og við fyrri kosningarnar nema þeir sem hugsanlega mundu draga sig til baka .

En skyndilega var orðið ENDURKOSNING ekki nógu gott og einhver lukkuriddari í útvarpi  fór að tuða um þetta sama undir heitinu UPPKOSNING. Og það var ekki að sökum að spyrja frekar en í fjósinu hjá kúnum, þegar einni varð mál þurftu allar að míga. 

Og nú "míga" allir fjölmiðlamenn og stjórnmálamenn orðinu UPPKOSNING út úr sér.

Er þetta orðskrípi til bóta.


Ólafur Ragnar fyrir ári: Stöndum við skuldbindingar okkar


Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands sagði í viðtali við sjónvarpsstöðina Bloomberg TV Europe í morgun að allsendis væri óvíst hvort Íslendingar skulduðu Bretum og Hollendingum neitt vegna Icesave.
 
Fyrir rúmu ári – skömmu eftir að hann synjaði lögum um Icesave staðfestingar í fyrra skipti – sagði forsetinn þetta í viðtali við sömu sjónvarpsstöð: „Ég vil segja þetta alveg skýrt: Íslendingar eru ekki að hlaupast undan skuldbindingum sínum. Lögin sem ég skrifaði undir í september [2009] og eru í gildi byggjast á þeirri meginreglu að Íslendingar viðurkenna ábyrgð sína og skuldbindingar sínar, samkvæmt samkomulagi við Breta og Hollendinga.“
 
Fréttakonan spurði þá: „Fá Bretar og Hollendingar endurgreitt að fullu?“ og forsetinn svaraði:
„Að sjálfsögðu. Eins og ég sagði þá byggjast núgildandi lög á samningi milli landanna. [...] Íslendingar eru á engan hátt að hlaupast undan þeim skuldbindingum.“

Ótrúlegt hve illa Alþingi heldur á málum t. d. með ákærum á níumenningana

Ég fylgdist með atkvæðagreiðslunni á Alþingi þegar Icesave frumvarpið var afgreitt endanlega. Sem gamall ungmennafélagi, þar sem ég og margir fleiri fengum okkar félagslega uppeldi, fann ég fyrir talsverðum ónotum við forsetastörf Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Mörgum finnst það eflaust fáránlegt að gagnrýna forseta þingsins fyrir hvernig hann skýrir frá úrslitum atkvæðagreiðslu. Í mínu ungdæmi hefði það þótt brot á fundarsköpum að segja að mál hefði verið fellt með 33 atkv.gegn 30. Sú var tíðin að "með" þýddi fortakslaust hve margir greiddu atkvæði með máli, "gegn" þýddi hve margir voru á móti. Þess vegna bar forseta að tilkynna að málið hafi verið fellt með 30 atkv. gegn 33.

Eru reglur og hefðir einskisvirði?

Þetta er nokkuð sama og kemur út úr íþróttafréttamönnum sem rugla þessum hugtökum endalaust saman, ég hef ekki orku til að fara að ræða frekar um þá stétt manna.

En aftur að því sem gerist bak við tjöldin á Alþingi.

Tölva finnst á afviknum stað, tölva sem er virk og tengd inn á tölvukerfi Alþingis. Meðferð starfsmanna og stjórnenda Alþingis á þessu máli er með eindæmum. Tölvunni kippt úr samband án þess að sérfróðir menn séu kallaðir til og síðan er reynt að fara eins leynt með málið og mögulegt er.

Níumenningarnir sem voru með uppsteyt á áheyrendapöllum Alþingis eru ákærðir fyrir uppreisn, að þeir hafi ætlað að kollvarpa Alþingi, við því kann að liggja allt að 16 ára fangelsi. Samúð mín með þessum angurgöpum, sem virðast ekki þurfa að vinna fyrir mat sínum, er ákaflega takmörkuð og ekkert að því að þeir fái áminningu fyrir sitt framferði. En að leggja fram ákæru um að þarna hafi verið á ferðinni gjörð til að kollvarpa valdi Alþingis er aldeilis fráleitt. Að Lára Júlíusdóttir skuli láta draga sig út í að vera saksóknari á þessum grundvelli er fáránlegt og ég hélt að hún væri hæfari í lögfræðinni en svo. Sem betur fer var öllum þessum máltilbúnaði um valdarán hent af dómaranum út í hafsauga en fjórir fengu létta dóma en dóma sem þeir verða að bera. Fáránleikinn í máltilbúnaði Alþingis og saksóknarans hefur gert þetta upphlaupslið að píslarvottum. Það hlægilega í öllu málinu er, ef hægt er að tala um eitthvað hlægilegt, er að í þingsölum situr maður í ráðherrastóli sem afrekaði nákvæmlega sama brotið í sínum unggæðingshætti, að ráðast inn á áheyrendapalla og trufla störf Alþingis.

Engum datt í huga að ákæra hann fyrir óspektir og því síður fyrir tilraun til valdaráns.

Nú höfum við Forseta í lýðveldinu sem gjarnan vill afla sér stuðningsmanna í væntanlegum forsetakosningum að ári. Ég legg til að hann náði þessa fjóra af níumenningunum sem fengu dóma í undirrétti.

Er það ekki hægt, er ekki hægt fyrir forsetann að náða þá sem dóma hafa hlotið?

Varla hafa handhafar forsetans meiri völd en forsetinn sjálfur eða hvað? En voru það ekki þeir þrír, handhafar forsetavalds, sem notuðu tækifærið til að veita Árna Johnsen flokksbróður sínum úr Sjálfstæðisflokknum uppreisn æru þegar Forseti lýðveldisins var kominn enn einu sinnu upp í flugvél til að fara út í heim með útrásarvíkingum bankanna til að votta í útlöndum hve ótrúlega miklir hæfileikamenn væru þar á ferð.

Og þannig gat Árni Johnsen farið aftur í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi og  þar sópaði hann að sér slíku fylgi að senda varð á vettvang kjarnakonu til að taka efsta sæti D listans. Annars hefði Árni orðið efstur og krafist ráðherraembættis ef flokkur hans kæmist í stjórnaðstöðu.

Ekki vafi á að þá hefði Árni Johnsen gert kröfu um að fá embætti dómsmalaráðherra.


Ólafur Ragnar mun ekki sitja fimmta kjörtímabilið sem forseti í mínu umboði

Það er dapurlegt að Ólafur Ragnar lærði ekkert af hruninu 2008, hann hefur ekki beðið sína heittelskuðu þjóð afsökunar á að hafa flengst með útrásarvíkingum og rússneskum mafíósum um heiminn þveran og endilangan til að færa fram fagnaðarerindið um Ísland sem framtíðarinnar fjármálmiðstöð þar sem London, New York eða Frankfurt mega sín lítils.

Það var dapurlegt að fylgjast með málflutningi Ólags Ragnars á blaðamannfundinum á Bessastöðum þar sem hann tilkynnti að hann mundi vísa samþykktu Icesave frumvarpi til "hins löggjafans", þjóðarinnar. Það var dapurlegt að fylgjast með því að maðurinn sem ég hef stutt til að takast þetta embætti á herðar sér stóð keikur fyrir framan hóp blaðamana, vitandi það að hann var á öllum sjónvarpsskjám landsins, skrumskæla stjórnskipulag Íslanda. Það sem var alvarlegast að hann sem einstaklingur, þó forseti sé, lítilsvirti okkar æðstu valdstofnun, Alþingi, hann lítilsvirti þá samþykkt sem 70% þingmanna stóðu að, hann einn gat tekið ákvörðun sem því miður er réttlætt í Stjórnaskrá lýðveldisins, sýnir enn og aftur að Stjórnarskráin verður að endurskoða.

Ekki er nokkur vafi á að allt þetta brambolt Ólafs Ragnars er fyrsti vísirinn að því að hann ætli að bjóða sig fram til að sitja fimmta kjörtímabilið sem forseti Íslands. Þarna fiskar hann i gruggugu vatni, þar sér hann nýjan meirihluta sér að baki, en það munu líka mjög margir af hans fyrri stuðningsmönnum segja; hingað og ekki lengra.

En Ólafur Ragnar hefur kastað teningnum. Ekki öfunda ég hann af hans nýja baklandi. Þeir sem leiða munu undirbúninginn að kjöri hans til forseta næsta ár eru komnir fram í sviðsljósið. Þar eru Jón Valur, Loftur Altice, Hallur Hallsson, Páll Vilhjálmsson, Frosti Sigurjónsson og úr hópi stjórnmálamanna koma eflaust Sigmundur Davíð og Þór Saari.

Hver veit nema eitt ólíkindatól styðji annað ólíkindatól. Er ekki líklegt að höfuðfjandinn úr fjölmiðlamálinu, Davíð Oddsson, skeiði fram í baráttuna fyrir sínum forna fjandmanni og taki með sér Hannes Hólmstein og Baldur Hermannsson?

Þokkaleg hjörð eða hitt þá heldur! 


Hverjum datt upphaflega í hug sú reginvitleysa að brenna sorp?

Lengi vel hélt ég að Ísfirðingar væru þeir einu hér á landi sem settu upp og ráku SORPBRENNSLU. En þar fór ég villur vegar; sorpbrennslur eru miklu fleiri. Meira að segja er sorpbrennslan á Kirkjubæjarklaustri nánast sambyggð barnaskólanum, enda er varminn frá henni notaður til að hita upp skólahúsið og mun það vera eina sorpbrennslan hérlendis sem hirðir um að nýta þann mikla varma sem verður til við brennsluna.

En hugmyndin að brenna sorp er og hefur ætíð verið algjörlega galin. Svo það ætti engum með sæmilegt vit í hausnum að koma á óvart að sorpbrennsla getur aldrei orðið annað en mikill mengunarvaldur, svo hroðalegur mengunarvaldur að það hefur verið eyðilagður búskapur vestur í Skutulsfirði og nú skal hefja átak til að kanna heilsufar þeirra sem búa í nágrenni eða starfa við sorpbrennslurnar.

Það er hægt að eyða eða vinna sorp á margan annan hátt en að brenna því og þar er auðvitað nærtækast að urða það. 

Það er athyglisvert að langsamlegasta stærsta sorpstöð landsins að magni, SORPA í Reykjavík, sem þjónar öllu höfuðborgarsvæðinu og vel það, hefur aldrei gert minnstu tilraunir til sorpbrennslu. Hins vegar er þar hafið framleiðsla á metangasi sem að sjálfsögðu kemur ekki til greina þar sem sorpbrennslur eru.

Það er vonandi að öllum SORPBRENNSLUSTÖÐVUM landsins verið lokað sem allra fyrst, við næstu áramót verða þær aðeins til í minningunni sem heimskra mann gjörð.

Í framtíðinni verður að gera átak um allt land að allt sorp verði flokkað þar sem það verður til hvort sem það er á heimilum eða fyrirtækjum. Þá verður auðveldara að beina hverjum flokki sorps í réttan farveg og örugglega engu í BRENNSLU.


Herfileg misnotkun á póstlista frambjóðenda til Stjórnlagaþings

Fyrir kosningarnar til stjórnlagaþings varð til póstlisti hvar á voru póstföng nær allra frambjóðenda. Þetta var þarft framtak þá, frambjóðendur áttu að sjálfsögðu marga sameiginlega hagsmuni þó í samkeppni væru um hilli kjósenda. Nú eru kosningar að baki og meira að segja úrskurðaðar ógildar af hlutdrægum Hæstarétti, en ekki meira um það að sinni.

En nú brennur svo við að einhverjir óprúttnir náungar úr hópi frambjóðenda hafa tekið póstlistann traustataki til að berjast gegn samþykkt Icesave III á Alþingi og að samningurinn verði lagður undir þjóðaratkvæði.

Ég er ekki einn um það að mótmæla slíkri misnotkun á póstlistanum, inn til mín hafa streymt margir póstar þar sem einstaklingar mótmæla þessari misnotkun  og krefjast þess að verða strikaðir út af listanum.

Ég er ekki nógu tölvufróður til að vita hvernig koma á í veg fyrir þessa misnotkun, ég sé að fjölmargir frambjóðendur vilja láta eyða póstlistanum, en er það hægt? Geta óprúttnir einstaklingar látið dynja yfir okkur áróður um alla framtíð?

Spyr sá sem ekki veit.


Lagnafréttir úr Borgarleikhúsinu

Hreint út sagt; Fjölskyldan eftir bandaríska Írann Tracy Letts er mögnuð leiksýning þar sem ekki er nokkur einasti veikur hlekkur, ekki meðal þrettán leikaranna né annarra sem haf skapað þessa þriggja og hálfs klukkustunda löngu sýningu. Og ekki skal gleyma þeim stóra hópi sem skapar grundvöllinn og umgjörðina, án þeirra yrði erfitt fyrir leikarana að skila sínu hlutverki.

Það er freistandi að setjast í stól gagnrýnandans, hver velt nema hann skríði fram áður en pistlinum er lokið. En það var fleira sem upp í minn huga kom en í þá gömlu góðu daga þegar lifað var í andrúmslofti leikhússins. Ekki síður þau sextán ár sem pistlahöfundur Morgunblaðsins og skrifaðir voru þeir lífseigu pistlar, Lagnafréttir. Það rifjaðist einnig upp að nokkrir pistlanna tengdust leikhúsum, eða öllu heldur vanköntum nokkurra leikhúsa. Þessi árátta tók sig upp kröftuglega í gærkvöldi (laugard. 5. febr. 2011). Við Helga sátum á 14. bekk ásamt Sváfni syni okkar og Erlu tengdadóttur. Eins og flestir vita, sem notið hafa leiksýninga í Stóra sal Borgarleikhússins, er salurinn "brattur" sem tryggir öllum góða sjónlínu á sviðið, ekki er það verra. En þess vegna sitja áhorfendur í mismunandi hæð í salnum og þá kom vandamálið.

Það er ótrúlegt að í þessu tiltölulega nýja húsi, sem að sjálfsögðu hefur verið byggt samkvæmt ströngustu kröfum þar sem nýtt hefur verið öll nýjasta tækni, skuli áhorfendur verið farnir að stynja undan hita og þungu lofti þegar leið á sýninguna. 

Hvað hefur gerst?

Er Borgarleikhúsið eitt af þeim "fórnarlömbum" þar sem ekkert hefur verið til sparað, öll lagnakerfi sem best úr garði gerð, en síðan fer ýmislegt úrskeiðis? Hvað um viðhald og eftirlit, hvernig er því háttað. Við Íslendingar vorum ótrúlegir vitleysingar þegar við fórum fyrir alvöru að byggja hús úr varanlegu efni fyrir rúmri hálfri öld. Við fengum þá kolvitlausu flugu í höfuðið að þegar húsið væri fullbyggt væri ekki annað en að flytja inn, hvort sem það voru íbúðir eða atvinnuhúsnæði. Þá værum við komin í mannanna verk sem væru eilíf, ekkert þyrfti framar að gera. Ég er nú einmitt að vinna að því að koma endurbótum á geislahitunarkerfi á tveimur stöðum, þrjú stigahús á hvorum stað, þar sem allt er óbreytt síðastliðna hálfa öld, sýnir að vissulega hefur hönnum kerfanna verið með ágætum í upphafi.

En nú er ég komin út um víðan völl, aftur í Borgarleikhúsið. Ég er viss um að í Borgarleikhúsinu er loftræsikerfi sem bæði getur haldið góðu lofti í leikhússölum og hæfilegum hita. Það er líklegt að þetta sé ekki stórmál að kippa þessu í liðinn. Það er merkilegt að flestum er ljóst að það þurfi að smyrja bílinn með vissu millibili, láta skoða hann ekki eingöngu af skyldu heldur af tæknilegum þörfum, hemlabúnað þarf að endurnýja reglulega o. s. frv. En þegar kemur að tækni bygginganna þá virðist skilningurinn ærið takmarkaður.

Ég hef verið undir áhrifum þessarar mögnuðu leiksýningar, Fjölskyldunnar,  þennan sunnudagsmorgun og óneitanlega blaðað í leikskránni sem ég hafði ekki gefið mér tíma til fyrr en nú. Með því að skoða hana og lesa ætti flestum að vera ljóst hve mikið stuðningslið fylgir hverri leiksýningu, hverju leikhúsi. 

Skyndilega staldraði ég við eitt nafn, maður var titlaður umsjónarmaður hússins, maður að nafni Ögmundur Þór Jóhannesson. Það skyldi þó ekki vera sá sami og kom sem unglingur inn í Leikfélag Kópavogs og tók þátt söngleiknum "Bör Börsson" sem tveir Norðmenn gerðu eftir hinni vinsælu skálsögu Jóhan Falkberget og Helgi Hjörvar las sem vinsælustu útvarpssögu allra tíma. Guðrúm Þ. Stephensen leiksýrði þessari sýningu okkar með mikilli prýði árið 1974. Í Bör Börssyni fékk ég hlutverk skálksins Óla í Fitjakoti, ótrúlega skemmtilegur karakter. Þetta er líklega sá sami Ögmundur Þór sem tók við af mér nokkrum árum síðar sem formaður Leikfélags Kópavogs.

Nú við ég á engan hátt kenna Ögmundi um hitasvækjuna í Borgarleikhúsinu í gær, veit ekki einu sinni hvort þetta er í hans verkahring. En Ömmi, ef þú lest þessar línur þá er mera en tilbúinn til að líta til þín til ráðgjafar, eða réttara sagt benda þér á ráðgjafa því að hluta liggur þetta utan míns sérfræðisviðs.

Og þessi heimsókn skal ekki kosta þig meira en einn eða tvo kaffibolla. 

En þá er ekki hægt að stilla sig um að minnast aðeins nánar á þessa ótrúlegu "fjölskyldu" sem var á fjölunum í gær. Þarna rumskuðu þó aðallega gamlar minningar. Það byrjaði þegar tjaldið lyftist og Pétur Einarsson opnaði verkið. Pétur fékk ég einu sinni til að leikstýra hjá Leikfélagi Kópavogs. leikriti eftir Jökul Jakobsson, leikriti sem mér finnst atvinnuleikhúsin hafi ekki virt viðlits nema einu sinni í upphafi í Þjóðleikhúsinu, þetta var "Sonur skóarans og dóttir bakarans" Þar fékk ég hlutverk sem er í minningunni eitt af fjórum uppáhaldshlutverkum mínum, útbrunna skarið Albjart þar sem Helga kona mín lék jafn glataða konu hans, Matthildi. 

Sjaldan hef ég séð Margréti Helgu vinna eins afgerandi sigur og í "Fjölskyldunni" og hefur hún þó margan karakterinn skapað, ætíð með glæsibrag. Enn fór fortíðin að kræla á sér. Það var fyrir löngu sem ég fékk Margréti Helgu til að leikstýra barnaleikriti hjá Leikfélagi Kópavogs. Það var verk Herdísar Egilsdóttur "Gegn um holt og hæðir" og þá vil ég minnast einstaks samstarfsmanns sem nú er látinn. Gylfi Gíslason myndlistarmaður skapaði leikmyndina og saman lögðum við Gylfi okkar þekkingu til að búa til eðlilegan lítinn foss sem féll frama f sviðsbrúninni, líklega þætti það ekki mikið "flóð" miðað við hellirigninguna í Lé konungi á sviði Þjóðleikhússins. 

En það voru fleiri sem sýndu magnaðan leik. Sigrún Edda er stórkostleg sem elsta systirin, dóttir móðurinnar Margrétar Helgu. Það var magnað að sjá skyldleik þeirra mæðgna aukist óhugnanlega eftir því sem á leið sýninguna.  Sigrún Edda á ekki langt að sækja gáfuna, móðir hennar Guðrún Ásmundsdóttir sést nú sjaldan á sviði því miður. En enn eitt minnið skreið fram. Guðrún leikstýrði hjá okkur í Kópsvogi sóngleiksútgáfu af þeim gamla góða "Leynimel13". Enn fékk ég draumahlutverk; Madsen klæðskerameistara sem byrjaði sem mikill bindindismaður en að lokum sofnaði fullur í þvottabala. 

Eina persónan í"fjölskyldunni" er ameríski "frumbygginn" eða Indíánastúlkan sem vinnur verkin, þvær, býr til matinn og vinnur raunar öll störf á heimilinu. Það tók mig nokkurn tíma að átta mig á því að þarna var á ferðinni Unnur Ösp dóttir Stefáns Baldurssonar fyrrum Þjóðleikhússtjóra, borinn og barnfæddur Kópavogsbúi. Ég held að Stefán sé einhver minnisstæðasti leikstjóri sem ég fékk tækifæri til að starfa með. "Glataðir snillingar" eftir færeyska skáldið Villiam Heinesen er ljóðrænt og trakísk verk en þar fékk ég fjórða uppáhaldskarlinn minn að kljást við, Ankersen sparisjóðsstjóra og leiðtoga sértrúarsafnaðarins Iðunnar. Mér finnst furðulegt að leikhúsin skuli ekki hafa sýnt þessu einstaka verki áhuga. "Glataðir snillingar" hafa aðeins einu sinni hafa verið settir á fjalir eftir þetta, en það var Nemendaleikhús Leiklistarskólans sem setti það upp undir leikstjórn Stefáns Baldurssonar. Þar kom fram leikari sem síðan hefur mikið látið að sér kveða á leiksviði og kvikmyndum en þar lék Ingvar Sigurðsson Ankersen sparisjóðsstjóra og safnaðarleiðtoga. Ég sá þá sýningu enda nokkuð tengdur Leiklistarskólanum. Næst þegar ég hitti Stefán Baldursson var mér heitt í hamsi og lét gagnrýnina ganga og spurði "hvernig gastu breytt þessu ljóðræna og trakíska verki í farsa, þetta var skemmdarverk". Stefán brást við með sínu rólyndi og sagðist vilja kynna okkur nafnana í ágætu samkvæmi sem við vorum í og kallaði Ingvar Sigurðsson á vettvang. Sagði að hann hefði farið fljótlega til útlanda eftir fumsýningu í Nemendaleikhúsinu og ekki getað fylgst með framvindu og þróun legsýningarinnar. Spurði Ingvar hvort verið gæti að nokkurt ærsl hefði læðst inn í hinn unga hóp leiklistarnemanna?. Ingvar maldaði í móinn en viðurkenndi að lokum "að ekki væri loku fyrir það skotið að einhver fiðringur hefði gripið hópinn og ýmsir leyft sér meira í átt til ærslanna en lagt hefði verið upp með".

En svona vill stundum fara, ætlunin er að fara nokkrum orðum um magnaða leiksýningu en enginn ræður för, það er farið um víðan völl áður en við er litið.


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband