Það er mjög margt jákvætt að gerast i okkar þjóðfélagi

Það er óvenjulega margt jákvætt í fjölmiðlum á þessum degi. Ég leyfi mér að fullyrða að almenningur er orðinn hundleiður á svartagallsrausi og svívirðingum um þá sem vinna baki brotnu við að endurreisa okkar þjóðfélag eftir þá sem steyptu okkur í Hrunið mikla haustið 2008.

Ég ætla ekki að hafa um það fleiri orð frá eigin brjósti en læt fylgja með hluta af frétt Seðlabankans þegar tilkynnt var að stýrivextir væru lækkaðir um 0,25 prósentustig niður í 4,25 %. Fyrir tveimur árum, þegar Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við, voru stýrivextir Seðlabankans 18%, er þetta ekki dágóður árangur?

Úr yfirlýsingu peningastefnunefndar 2. febrúar 2011:

"Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti
bankans um 0,25 prósentur. Vextir á viðskiptareikningum
innlánsstofnana lækka í 3,25%, hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum
lækka í 4,0%, vextir á lánum gegn veði til sjö daga lækka í 4,25% og
daglánavextir lækka í 5,25%.

Áfram dró úr verðbólgu í desember og janúar. Tólf mánaða verðbólga var
1,8% í janúar eða 1,6% að áhrifum hærri neysluskatta frátöldum. Hún er
því nokkuð undir 2½% verðbólgumarkmiði bankans. Tilfallandi
verðlækkanir bættust við árstíðarbundna lækkun vísitölu neysluverðs í
janúar. Sem fyrr stuðla hagstæð gengisþróun undanfarið ár, lækkandi
verðbólgu­væntingar og slaki í þjóðarbúskapnum að lítilli og stöðugri
verðbólgu.

Samkvæmt spánni sem birt er í Peningamálum í dag, verður
efnahagsbatinn heldur meiri í ár en Seðlabankinn spáði í nóvember.
Spáð er 2,8% hagvexti í ár og liðlega 3% vexti á árunum 2012 og 2013.
Verðbólga hefur verið heldur minni en fólst í nóvemberspánni, aðallega
vegna einskiptisáhrifa breytinga á opinberum gjöldum, og er því spáð
að hún verði eitthvað undir verðbólgumarkmiðinu nánast til loka
spátímans."


Ástráður Haraldsson var geysilega rökfastur í Kastljósi í gærkvöldi

Eins og venjulega setur Helgi Seljan sig í stellingar saksóknara (svona eins og við sjáum þá í Bandarískum hasarmyndum) þegar hann heldur að nú sé fórnarlamb komið á sakabekkinn. En Ástráður Haraldsson fráfarandi formaður Landskjörstjórnar tók forystuna í þeirra átökum fyrir "réttinum" og satt að segja varð ég mjög með að þrautreyndur lögmaður flutti af sannfæringu þau rök sem ég hef áður sett fram um að Hæstiréttur hafi með úrskurði sínum túlkað lögin eftir strangasta bókstaf en algjörlega horft framhjá anda laganna og þar höfðaði Ástráður til þeirra laga og hefða sem hérlendis hafa gilt um kosningar almennt. Enn og aftur vil ég leiðrétta sjálfan mig og fjölmarga aðra; Hæstiréttur kvað ekki upp dóm heldur úrskurð og það bar honum að gera samkvæmt lögunum um kosningar til Stjórnlagaþings, honum hafði verið falið það illu heilli. Þarna tókust ekki á sækjendur né verjendur, sexmenningarnir hlustuðu ekki á neina nema hver á annan og nú skilaði Jón Steinar ekki sératkvæði enda var enginn í sakleysi sínu að opna útidyr með haglabyssu af því hann vildi endilega ná tali af húsráðanda.

En fullvissan um að Hæstiréttur hafi alltaf rétt fyrir sér birtist víða. Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur fer mikinn á vísi.is en þar er hann fastur pistlahöfundur. Ég rakst á pistil hans og þar segir hann m. a:

Þegar almennar kosningar eru dæmdar ógildar af sjálfum Hæstarétti landsins jafngildir það yfirlýsingu um að viðkomandi þjóð sé fákunnandi um lýðræði.

Hvernig rithöfundurinn kemst að þessari niðurstöðu er mér hulið. Kosningarnar voru engan veginn "dæmdar" ógildar heldur "úrskurðaðar" ógildar og á þessu er reginmunur. Það sem brást í kosningunum til Stjórnlagaþings var aðallega tvennt. Alþingi vann sitt löggjafarstarf ekki nógu vel þegar lögin um kosningarnar voru sett. Það var enginn vandi að girða fyrir það að dómarar, sem áttu að úrskurða um lögmæti kosninganna, gætu ekki fundið króka til að kveða upp hlutdrægan og pólitískan úrskurð og ég hef ekki heyrt betri rökstuðning fyrir því en hjá Ástráði Haraldssyni lögfræðingi í gærkvöldi. Hið síðara var að kjósendur brugðust og þá fyrst og fremst sjálfum sér. Krafan um beint og milliliðalaust lýðræði hefur verið hávær frá Hruninu í okt. 2008. Þeir eru eflaust fáir ofar moldu sem  fengu tækifærið í lýðveldiskosningunum 1944. Þegar á reyndi lögðu 2/3 hlutar kjósenda ekki á sig að taka þátt, stór huti af þeim reknir til heimasetu af Sjálfstæðisflokknum og Davíð Oddssyni.

Guðmundur Andri sagði margt fleira í þeim pistli hans sem ég hef minnst á og vitnað í. Guðmundi Andra yrði fagnað ef hann sækti um aðild að Sjálfstæðisflokknum, hann þyrfti ekki að útfylla umsókn, pistillinn yrð tvímælalasut tekinn gildur til inngöngu í flokkinn í Valhöll. 

 

 





 

 


Hvað skal gera eftir hinn fráleita úrskurð Hæstaréttar?

Það er mikil ólga víða í þjóðfélaginu eftir úrskurð Hæstaréttar; að ógilda kosningarnar til Stjórnlagaþings og það ríkir mikil Þórðargleði í sumum slotum. Mörum finnst það harður dómur hjá mér að segja fullum fetum að úrskurður Hæstaréttar sé pólitískur. En á er mér spurn, hvers vegna kætast svo geysilega frammámenn og fylgjendur eins stjórnmálaflokks, Sjálfstæðisflokksins, öðrum fremur?

En hvað er til ráða, kosningarnar ógildar, það stendur. Aðallega er rætt um þrjár leiðir eftir úrskurðinn: a) hætta við Stjórnlagaþing, þá situr stjórnarskrármálið í sömu hjólförunum og sl. 56 ár b) endurtaka kosningarnar c) Alþingi samþykki að áður kjörnir fulltrúar á Stjórnlagaþing fái umboð til að starfa á Stjórnlagaþingi og semja uppkast að nýrri stjórnarskrá og ég leyfi mér að bæta við; uppkastið verði lagt fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu ÁÐUR en Alþingi fær það til endanlegrar lagalegra afgreiðslu. Það á við jafnt þó að kjörnir yrðu nýir (eða gamlir) fulltrúar á Stjórnlagaþing.

Og hvað finnst mér sjálfum skynsamlegast að gera?

Það kemur ekki til greina að gefast upp og hætta við allt saman. Þá fer allt í gömlu hjólförin, málið komið til Alþingis án þess að nokkrir fulltrúar þjóðarinnar fái að fjalla um það beint. Þá hef ég afgreitt lið a).

Efna til nýrra kosninga? Það mun kosta vænan skilding en er þó réttlætanlegt ef almennt er talið að um þær kosningar verði sæmilegur friður. En því miður, um þær kosningar verður enginn friður, þau sterku öfl sem eyðilögðu kosningarnar sem Hæstiréttur úrskurðaði ógildar munu fara hamförum til að eyðileggja kosningarnar. Það þarf ekki annað en vitna í Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í Silfri Egils í dag þar sem hún áréttaði með þunga andstöðu Sjálfstæðisflokksins við þessa málsmeðferð; að kjósa fulltrúa og halda Stjórnlagaþing. Það má búast við að margir af þeim sem kusu í góðri trú telji sig svikna og mæti ekki aftur á kjörstað. Margir af frambjóðendum munu jafnvel neita að taka þátt aftur og þá óttast ég að það verði ýmsir sem fengur er að sem frambjóðendum, frekar að þeir sem minna erindi áttu sitji sem fastast. Hættan er sú að nýjar kosningar til Sjórnlagaþings verði dæmdar til að mistakast, kosningaþáttaka hrapi og þeir sem þar verða kjörnir sitji með mjög vafasamt umboð.

Alþingi veiti þegar kjörnum fulltrúum fullt umboð til að sitja á Stjórnlagþingi sem til þess kjörnir af Alþingi. Þetta er eina færa leiðin, verður vissulega mjög umdeild en er þó miklu vænlegri til árangurs en að efna til nýrra kosninga.

Það sem þarf að gerast á Alþingi er að þetta þarf að fá meira fylgi en fylgi stjórnarflokkanna (sem að sumu leyti er vafasamt). Í Silfri Egils í dag áréttaði Eygló Harðardóttir þingmaður Framsónarflokksins þá afstöðu síns flokks að hann hefði í rauninni átt upphafið að hugmyndinni að Stjórnlagaþingi. Ég tek mark á því sem Eygló segir, því mér finnst hun vera vaxandi þingmaður sem ræðir oftast málefnalega.

Ef það tækist að meirihlutaflokkarnir með tilstyrk Framsóknarflokksins og jafnvel Hreyfingarinnar stæðu að því að veita kjörnum fulltrúum á Stjórnlagaþings lögformlegt umboð til starfa á Stjórnlagaþingi yrði það mikill sigur fyrir lýðræðið í landinu.

Einu skulum við ekki gleyma, einu sem mér finnst að hafi alveg gleymst í umræðunni eftir hinn fráleyta úrskurð Hæstaréttar.

Það er réttur þeirra sem kjörnir voru á Stjórnlagaþing. Þeir hafa eflasut allir búið sig rækilega undir störf á þiginu, þeir eiga skilið að Alþingi sýni þeim þann trúnað og virðingu að þeir fái að taka að sér þá ábyrgð og störf sem þeir voru réttilega kjörnir til.

Þannig getur Alþingi leiðrétt þann óréttláta úrskurð sem Hæstiréttur kvað upp og verður honum til ævarandi minnkunar.


Hæstiréttur ógildir kosningar til Stjórnlagaþings með pólitískum dómi

Þetta eru mikil tíðindi og koma vissulega á óvart. Hér hefur Hæstiréttur kveðið upp pólitískan dóm eins og hann sé pantaður úr Valhöll enda ríkir þar mikil Þórðargleði. Þar fer fremstur hinn nýi varaformaður Sjálfstæðisflokksins Ólöf Nordal. Reynsluleysi hennar á hinum pólitíska vettvangi kemur æ meir í ljós og engu líkara en að hennar eina og sanna fyrirmynd sé reyndar ekki í Sjálfstæðisflokknum, Vigdís Hauksdóttir heitir fyrirmyndin sem er búin að slá öll met í ofstæki og innihaldslausum glamuryrðum.

En hvernig dirfist ég að gagnrýna Hæstarétt? Er hann ekki yfir alla gagnrýni hafinn?

Því hafna ég alfarið og endurtek: dómur Hæstaréttar um ógildingu kosninga til Stjórnlagaþings er pólitískur dómur, til þess gerður að styðja íslenskan stjórnmálaflokk, Sjálfstæðisflokkinn, sem hefur barist með öllum meðulum gegn Stjórnlagaþinginu og verkefni þess, að skipan yfirstjórnanda flokksins Davíðs Oddssonar ritstjóra Morgunblaðsins, enda hefur Morgunblaðinu verið stanslaust beitt gegn þessu merka átaki að kjósa til Stjórnlagaþing.

En nú er líklega farið að fjúka í marga (vonandi) og ég skal ekki víkjast undan því að rökstyðja það að dómur Hæstaréttar sé fráleitur og hlutdrægur. Dómstólar eiga að vinna eftir gildandi lögum á tvennan hátt: a) gildandi lagabókstaf b) anda gildandi laga. Þarna er sá gullni meðalvegur sem hver dómstóll verður að feta. Í þessum dómi Hæstaréttar er hver smuga fundin til að fara eftir lagabókstafnum en ekki í neinu hirt um að fara eftir anda laganna. Reyndar hefur sá merki lagaprófessor Eiríkur Tómasson bent á (um leið og hann dregur dóm Hæstaréttar í efa) að ef skírskotunin í lög um Alþingiskosningar hefðu ekki verið í lögunum um kosningar til Stjórnlagaþings hefði Hæstiréttur ekki getað notað þær smugur sem hann fann til að ógilda lögin.

Þá hefði ekki verið hægt að gera athugasemd við pappaveggina, ekki við kjörseðlana, ekki við kjörkassana eða annað sem Hæstiréttur tíndi til.

Núverandi dómarar við Hæstarétt eru nánast alfarið afsprengi Sjálfstæðisflokksins og skipaðir af dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Sá lærdómur af þessum hlutdræga dómi er ekki sístur sá að skipun þeirra sem eru þriðja valdið, dómara, verður að breyta og það strax.  

Og mörgum Sjálfstæðismönnum rennur blóðið til skyldunnar og réttlæta þennan fráleita dóm og réttlæta ekki síður baráttu Sjálfstæðisflokksins gegn kjöri Sjórnlagaþings og að það fái það verkefni að semja Íslandi nýja Stjórnarskrá.

Í Féttablaðinu í dag (laugard. 29. jan) horfir Þorsteinn Pálsson af sínum Kögunarhóli sem jafnan og þar er þessi makalausa setning:

Sjálfstæðisflokkurinn vildi hins vegar að Alþingi risi undir þessari skyldu sjálft. Það hefði getað tryggt skjótvirkari framgang þeirra stjórnarskrárbreytinga sem kallað er eftir.

Hvar hefur Þorsteinn Pálsson alið manninn eftir að hann sleit barnsskónum? Veit fyrrverandi forsætisráðherra ekki að þetta hefur verið verkefni Aþingis í nær 56 ár eða allt frá því lýðveldið var stofnað á Þingvöllum 17. júní 1944?

Og hver er árangurinn, það ætti Þorsteinn Pálsson að vita mæta vel, árangurinn er enginn! Þrátt fyrir að starfað hafi árum saman Stjórnarskrárnefndir kjörnar af Alþingi, oftast nær undir formennsku Sjálfstæðismanna.

Kosningarnar til að velja fulltrúa á Stjórnlagaþinng var nýjung, það var engan veginn hægt að styðjast við þau lög um kosningar sem gilda í landinu. Þess vegna voru sett sérstök lög um þessar kosningar og þar voru gerð mistök, að vísa í lög um Alþingiskosningar. Enginn hefur efað að kosningarnar fór rétt og skipulega fram, engin efar að þeir 25 fulltrúar sem kjörnir voru voru rétt kjörnir, engum hefur hugkvæmst að eitthvað óheiðarlegt hafi verið við kosningarnar.

Þes vegna átti Sjálfstæðsiflokkurin enga aðra leið færa til að eyðileggja þetta merka framtak en kalla eftir flokkshollustu þeirra sem hann hefur skipað í æðsta dómstól þjóðarinnar, Hæstarétt.


Skiptir engu hvað Mervyn King seðlabankastjóri Bretlands sagði við Davíð, hann hafði ekkert umboð til að gefa neinn afslátt af því að við bærum áby ábyrgð á Icesave skuldinni

Meiri undrun vekur að Davíð Oddsson seðlabankastjóri Íslands skuli leyfa sér að hljóðrita samtal við stéttarbróður sinn en það er skylda í öllum samskiptum rafrænt, á netinu og einnig í síma, að láta viðmælandann vita að viðtalið sé tekið upp eða hljóðritað. Ekki vekur það minni furðu það sem kom í fréttum RÚV í morgun að ein af nefndum Alþingis sé búin að fá þetta samtal í útskrift. Strax eru Alþingismenn farnir að ræða innihald samtalsins en segja svo í öðru orðinu að auðvitað séu þeir bundnir þagnarskyldu!

Hvað skyldi sú þagnarskylda halda lengi?

Var samtalið birt með samþykki Mervyn King eða blásum við á allar samskiptareglur og lágmarks kurteisi?


Íbúar í Landeyjum eiga tæpast undankomuleið ef Kötluhlaup kemur vestur af Mýrdalsjökli

Það er samdóma álit þeirra sem gerst þekkja að það sé ekki spurning um að Katla gjósi, spurningin sé miklu fremur hvenær. Flestir búast við stórhlaupi niður Mýrdalssand, þannig var það í síðasta gosi 1918. En það er ekki útilokað að stórhlaup verði vestur af Mýrdalsjökli  og leggist þá einkum í farveg Markarfljóts sem ekki annar slíku hamfarafljóti heldur muni það leggjast yfir miklu stærra svæði. Svo gæti hlaupið verið öflugt að það færði Landeyjar í kaf, ef svo hörmuleg vildi til þá er fjöldi manns í bráðri lífshættu

Héraðsblaðið "Dagskráin" sem gefin er út á Selfossi birtir ákall frá íbúum Vestur-Landeyja sem við slíkar hamfarir yrðu innikróaðir, þeirra undankomuleið er sú að fara á móti flóðinu og komast yfir brúna á Þverá sunnan Hvolsvallar. Það hljóta allir að sjá að undankomuleið undar holskeflu stórhlaups er að hörfa undan því en ekki öfugt.

Kötluhlaup.jpgMeðfylgjandi kort af , sem fengið er úr "Dagskránni", sýnir hvað þarf að gera til að til að skapa undankomuleið fyrir Vestur-Landeyinga. Við ármót Ytri-Rangá, Hólsár og Þverár verður að byggja brú yfir Hólsá við Djúpós, en Djúpós er sá staður nefndur þar sem Þykkbæingar á sinni tíð hlóðu fyrir vatnsflaum Þverár og Ytri-Rangár sem þá byltist vestur í Þjórsá og Þykkvibær var á rauninni stór hólmi umflotinn vatnselg á alla vegu.

Hugsanleg brú yfir Hólsá er merkt með hring á myndinni.

Með þessari brú er opin og greið leið til vesturs undan hugsanlegri flóðbylgju, þá er komin tenging við Þykkvabæjarlveg og sem liggur upp með Ytri-Rangá að vestan upp að Ægisíðu (gengt Hellu). Önnur mynd úr "Dagskránni" sýnir enn betur hvar hugsanleg leið til vesturs úr Vestur Landeyjum skal koma og þar sést fyrrnefnd ármót þriggja fljótanna

Djúpós.jpg Eflaust vefst þetta fyrir þeim sem ekki eru staðkunnugir en ef áhugi er á að kynna sér þetta betur þá er hægt að taka fram kortið af Mið-Suðurlandi og fá stærri mynd af svæðinu.

En með byggingu brúar yfir Hólsá við Djúpós opnast fleiri möguleikar, þessi brú getur opnað algerleg nýjan veg og orðið hluti af Suðurstrandarvegi sem nú er langt komin með bundnu slitlagi milli Þorlákshafnar og Grindavíkur. Hólsárbrúin tengist beint inn á Þykkvabæjarveg sem er með bundnu slitlagi alla leið í gegnum Þykkvabæ og vestur að Háfi sem stendur á bökkum Þjórsár. Með fyllingu yfir eyrarnar í Þjórsá og brú yfir höfuðálinn vestan Traustholtshólma er komið inn á Flóaveg og þar vantar aðeins að leggja bundið slitlag á 10 km spotta til að tengjast Gauðverjabæjarvegi sem er með bundnu slitlagi. Ef síðan þjóðvegurinn er færður norður fyrir Stokkseyri á sama hátt og hann liggur nú fyrir norðan Eyrabakka er komin nýr þjóðvegur frá Hólsárbrú til Grindavíkur. Síðan má láta gamminn geysa og hugsa sér að Þverárvegur frá Hólsárbrú að Þverárbrú á Suðurlandsvegi verði byggður upp og klæddur bundu slitlagi.

Þetta sýnir að bygging brúar yfir Hólsá við Djúpós er ekki aðeins öryggistenging fyrir íbúa Vestur-Landeyja við hugsanlegar hamfarið, heldur fyrst sporið í áttina að Suðurstrandarvegi frá Grindavík með tenginu í Austur-Landeyjum við Suðurlandsveg.


Ætlar Jóhanna að láta uppvöðslusaman kyrjukór draga sig inn í ruglið?

Mér brá ónotalega þegar Jóhanna forsætisráðherra bauð Björku og kyrjukór hennar l inn að fundarborði í Stjórnarráðinu, sem í sjálfu sér var allt í lagi, mér brá  vegna viðbragða hennar. Sjálfsagt að taka á móti fólki sem kemur fram af kurteisi jafnvel þó það sem það leggur fram sé tóm vitleysa.

Því miður lýsti Jóhanna því yfir að  hún vildi gjarnan standa með kyrjukórnum og taka hlut Magma-Energy í HS-Orki eignarnámi, þetta væri í samræmi við stefnu Ríkistjórnarinnar!

Hvernig dettur Jóhönnu önnur eins vitleysa í hug og hversvegna kalla ég það vitleysu að láta sér til hugar koma að fara út í eignarnám?

Vegna þess að Magma-Energy á ekki nokkurn einasta part í íslenskri auðlind. Magma-Energy á ráðandi hlut í orkuvinnslufyrirtæki og hver hættan við það? Ég sé hana ekki, ég hef áður bent á hvort að sé ekki ráðlegra að fá útlendinga til að hætta fjármagni hérlendis og að þeir fái af því nokkurn arð, en að taka lán endalaust hjá útlendum lánastofnunum til að reisa orkuver og borga fyrir það vænar fúlgur úr landi sem vexti.

Hvaða skilaboð er Ríkisstjórnin að senda umheiminum ef hún ræðst að eina útlendingnum sem hefur viljað hætta sinu fé hérlendis eftir Hrun? Er ekki þessi sama Ríkisstjórn sí og æ að boða  að það þurfi að laða að útlenda fjárfesta til að koma með áhættufé inn í landið?

Hvar ætlar Jóhanna að grípa upp 15 milljarða til að staðgreiða eignarnámið? Er hægt að réttlæta hækkandi skatta ef það á að henda gífurlegum fjárhæðum í svona vitleysu eins og þetta hugsanlega eignarnám?

Er rugluliðið í Vinstri grænum farið að smita frá sér inn í Samfylkinguna og getur það verið að forsætisráðherrann og formaður Samfylkingarinnar sé  þar veikastur fyrir?

Ég vona að þeir sem hugsa rökrétt innan Samfylkingarinnar komi vitinu fyrir Jóhönnu svo hún láti ekki framar svona rökleysur frá sér fara.


Fólk virðist tilbúið til að skrifa undir hvaða vitleysu sem er

Ólafur Ragnar forseti sagði í nýársávarpi sínu að þjóðaratkvæðagreiðslan sem hann bjó til um fyrri Icesave samning sýndi að þjóðinni væri treystandi til að taka ákvarðanir í stærri málum með þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég var í upphafi, og lengst af, stuðningsmaður Ólafs Ragnars til forsetakjörs og til setu í því embætti. En satt að segja er ég að verða oftar og oftar ósammála Ólafi Ragnari og svo er einnig um þennan boðskap hans frá nýársdegi. Þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave var engin sönnun fyrir hve djúpvitur þjóðarsálin er, þær kosningar voru hálfgerður skrípaleikur. Sem frambjóðandi til Stjórnlagaþings lýsti ég mig fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum en um slíkar kosninga yrði að gilda fastar reglur hvernig þær bæri að. Eitt er víst; það er með öllu ófært að einn  maður með athyglissýki geti ákveðið upp á sitt eindæmi að nú skuli þjóðin kjósa. Eitt slíkt slys er í uppsiglingu; þó Alþingi samþykki nýjasta Icesavesamninginn þá mun maðurinn á Bessastöðum kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu, hann hefur nánast lýst því yfir.

Tugir þúsunda einstaklinga virðast tilbúnir til að skrifa undir nánast hvað sem er ef einungis nógu öflugir áróðursmeistarar skipuleggja framtakið. Annarsvegar krafan um að auðlindir á og í landi séu þjóðareign og hinsvegar herleiðing Sunnlendinga til að mótæla afnotagjaldi bifreiðaeigenda af notkun þjóðvega, gjald sem rynni óskert til að endurbæta slysagildrurnar á þjóðvegum út frá höfuðborginni. Ég skal fúslega játa að ég var í upphafi harður andstæðingur þessa afnotagjalds en ég hef alla tíð verið ákaflega lélegur í múgmennsku. Ég skrifa aldrei undir neinar bænaskrár sem eru síðasta arfleifð kóngaveldis á Íslandi. En mér finnst það skylda hvers og eins þjóðfélagsþegns að kryfja hvert mál til mergjar, ekki að verða fórnarlamb múgmennsku eða hjarðmennsku, gera bara eins og allir aðrir gera. það er einmitt verið leiðin til lélegra stjórnarhátta, lýðræðið krefst þess að "hver maður geri skyldi sína" og skoða bakgrunn hvers máls. Þjóðaratkvæði um auðlindirnar er dæmi um frumhlaup sem er algjörlega án nokkurrar hugsunar, enginn veit hvernig á að forma þá spurningu sem ætlast er til að fari í þjóaratkvæði. Sunnlendingar þvinguðu fram á sínum tíma að Suðurlandsvegur á milli Reykjavíkur og Selfoss yrði 2+2 í stað 2+1 þó það þýddi fyrst og fremst óheyrilega sóun á fjármunum. Og nú hafa tugþúsundir Sunnlendinga mótmælt með múgmennsku og undirskriftum því að tekið sé afnotagjald af þeim sem um vegina út frá Reykjavík aka. Enginn vill borga meira fyrir gæði en hann er er nauðbeygður til. Hins vegar er það mín skoðun að við Sunnlendingar eigum aðeins um tvennt að velja:a) að greiða afnotagjaldið næstu árin, að hverfa frá 2+2 á Suðurlandsvegi og leggja 2+1 veg og fá endurbætur á einum hættulegasta þjóðvegi landsins, b) að berjast kröftuglega gegn afnotagjaldinu m. a. með alkunnri múgmennsku og undirskriftum og kveða það niður í eitt skipti fyrir öll og fá mjög takmarkaðar endurbætur á Suðurlandsvegi næsta áratuginn.

Sunnlendingar, þið eigið valið. Er til of mikils mælst að þið notið þær heilasellur sem hver og einn á og skoðið málið í kjölinn.


Ríkisútvarpið brýtur hlutleysisreglur og skiptir sér að starfi dómstóla á freklegan hátt

Mér brá illa í brún þegar haldinn var áróðursfundur í Kastljósi með söng Ellenar Kristjánsdóttur og dætra til að halda fram sakleysi þeirra níu sem voru með ólæti á áhorfendapöllum Alþingis. Burt séð hvaða skoðun menn hafa á framferði níumenninganna þá var þessi umfjöllun i Kastljósi fyrir neðan allar hellur og freklegt brot á hlutleysisreglum Ríkisútvarpsins. En þetta var áréttað í gær í Úrvarpinu þegar fjallað var um sama mál í þætti eftir fjögurfréttir á sama hátt, í bæði skiptin fullyrt að níumenningarnir væru saklausir og hefðu ekkert brotið að sér. Þetta mál er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og það er nánast hneyksli að Ríkisútvarpið leyfi sér að fjalla um dómsmál, skiptir ekki máli hvaða dómsmál það er, og kveða upp sýknudóma og þar dugði ekki minna en umfjöllun bæði í Sjónvarpi og Útvarpi.

Það hefur mikið verið fjallað um þrískiptingu valdsins i okkar þjóðfélagi undanfarið, fjallað um stoðirnar þrjár, löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald og nauðsyn þess að þarna séu skörp skil á milli þessara stoða. Fjölmiðlarnir eru oft nefndir sem fjórða valdið og að sjálfsögðu ber þeim að virða ákveðnar leikreglur, virða verksvið hinna þriggja meginstoða lýðræðisins á Íslandi. Fjölmiðlum ber einnig að virða sjálfstæði dómstóla. Það er dómari sem mun kveða upp dóm í þessu máli á sama hátt og í öðrum málum sem rekin eru fyrir dómstólum. Hvort hinir ákærðu verða sýknaðir eða dæmdir til refsingar veit ég ekki, það mun koma í ljós.

Ég spyr að lokum Pál Magnússon útvarpsstjóra: Er þessi fráleita umfjöllun um dómsmál gerð að hans frumkvæði eða var umfjöllunin gerð án hans vitundar.? Ég ætlast til að hann svari því skilmerkilega.


Svandís umhverfisráðherra er ekki "framandi" en svo sannarlega "ágeng"

Ekki veit ég hvar ráðsmennska Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra endar, barátta hennar gegn flóru landsins er orðinn slík þjóðremba að engu tali tekur. Það er nánast verið að gera allar helstu skógræktartegundir útlægar af því þær séu "framandi" eða með öðrum orðum að stofni til uppsprottin að fræjum sem safnað hefur verið á norðlægum slóðum þar sem aðstæður eru svipaðar og á Íslandi enda hafa þær margar hverjar staðið sig afburða vel til skógræktar hérlendis. Fjandskapurinn við lúpínuna er eitt, fjandskapur við þessa harðgerðu og duglegu uppgræðsluplöntu sem fer á undan öðrum gróðri, undirbýr jarðveginn fyrir annan gróður sem vel að merkja er með íslenskt ríkisfang, hefur verið hér frá landnámsöld.

Enn sem komið er hefur Svandís ekki fengið ísbjarnarmál til úrlausnar en það yrði sannarleg spennandi að fylgjast með hvernig hún mundi höndla slíka uppákomu. Ekki ólíklegt að henni tækist að fara fram úr allri vitleysunni sem Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrrum umhverfisráðherra sýndi við hennar "ísbjarnarmál". 

En Svandís á einn möguleika ef ísbjörn gengur á land. Sá er að fá Jón Gnarr með sér til Norðurlands (því þar mun ísbjörn eflaust ganga á land ef hann kemur á annað borð). Saman geta þau klappað bangsa og boðið hann velkominn til Íslands í von um að hann hvorki klóri þau né bíti. Síðan taka þau hann með sér í flugvél, auðvitað fær bangsi besta sætið suður. Síðan verði honum smíðuð fullkomin "svíta" í Húsdýragarði Reykjavíkurborgar, þá verður uppfyllt það eina af kosningaloforðum Jóns Gnarr sem hann lofaði aldrei að svíkja.

En nú skulum við staldra við. Er ekki ísbjörn "framandi" í íslenskri náttúru? Flokkast ísbjörn ekki undir sömu lögmál og lerki til skógræktar eða lúpína til jarðvegsbóta? Er ekki borin von að Jón Gnarr fái sína heitustu ósk uppfyllta um ísbjörn í Húsdýragarðinn meðan Svandís er umhverfisráðherra?

Ætli þau yrðu ekki að taka gjörólíka stefnu með bangsa eftir að þau Svandís og Jón verða búin að  klappa honum þeirri von að sá hvíti éti þau ekki?

Og hvert skal þá halda?

Ætli það sé ekki öruggast að fara með hann alla leið á Norðurpólinn og skilja hann þar eftir, kannski verður hann þá orðinn svo elskur að þeim tveimur að hann vilji engan veginn skilja við þessa tvo Íslendinga sem hafa sýnt honum slíka vináttu. Kannski fá þau Svandís og Jón ekki af sér að yfirgefa þennan nýja vin sinn. Blátt bann Svandísar við "framandi" dýrum og plöntum á Íslandi verður líkleg til þess að bangsi verður kyrrsettur þar norðurfrá.

Spurningin er hvort þau skötuhjúin Svandís og Jón kjósa ekki frelsið þar líka. Á Norðurpólnum er eitt öruggt. Þar eru allar plöntur "framandi", þar þarf ekkert að flokka.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 113832

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband