11.8.2010 | 22:06
Guðlaugur Þór vaknar eftir dúk og disk á miðjum Suðurlandsvegi
Guðlaugur Þór alþingismaður virðist eiga greiðan aðgang að Ríkisútvarpinu. Viðtal við hann um Suðurlandsveginn í hádegisfréttum Útvarpsins í dag og síðan viðtal um sama efni í Sjónvarpinu um kvöldið. Það sem hann sagði um þetta verkefni var vissulega rétt svo langt sem það náði. Hann spurði réttilega af hverju Suðurlandvegurinn væri byggður 2+2 en ekki 2+1 sem er mun ódýrara, skapar ekki minna umferðaröryggi.
En hvar hefur Guðlaugur Þór verið undanfarin tvö ár?
Átökin um val á gerð Suðurlandsvegar fór fram á öndverðu ári 2008. Þá var mikil móðursýki í pólitíkusum og fleirum austan Hellisheiðar og þá var barið í gegn að Suðurlandvegurinn skyldi verða 2+2. Ég beitti mér nokkuð fyrir því að vegurinn yrði 2+1 þar sem þar var um góða lausn að ræða, 2+2 yrði þrefalt dýrari en 2+1.
Í byrjun febrúar árið 2008 hélt Lýðheilsustöð fund um Suðurlandsveginn á Grand Hótel í Reykjavík. Við sem komum frá Selfossi og Þorlákshöfn urðum nokkuð sein á fundinn vegna ófærðar en ef mig minnir rétt þá var það þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór, sem setti fundinn en hvarf síðan strax af vettvangi.
Haraldur Sigþórsson verkfræðingur á Línuhönnun flutti ítarlegt erindi um þessar tvær vegagerðir, 2+2 og 2+1. Í máli hans kom fram að reikna mætti með að 2+2 væri þrefalt dýrari framkvæmd en 2+1 sem væri fyllilega jafn öruggur vegur samt. Gerð 2+1 vegar eykst víðast hvar á kostnað 2+2, sérstaklega væru Svíar þar í farabroddi og Bandríkjamenn væru farnir að kynna sér ítarlega rök Svíanna og taka upp þeirra stefnu í vegamálum.
Ég var fyrstur upp á eftir frummælendum og hélt fram rökunum fyrir 2+1, það sama gerðu Brynjólfur Mogensen slysavarnarlæknir og Sigurður Guðmundsson landlæknir. En ýmsar háværar raddir frá Suðurlandi heimtuðu 2+2, ekki kæmi annað til greina.
Og það varð ofaná, stefnan var tekin á 2+2 veg milli Reykjavíkur of Selfoss þrátt fyrir að Vegagerðin vildi taka stefnuna á 2+1, fá öruggan veg á 1/3 kostnaðar.
En takið eftir: Þessi umræða fór fram árla árs 2008 áður en hrunið mikla skall á.
Núna er verið að ganga til samninga við verktaka um fyrsta kaflann, frá Lögbergi að Litlu kaffistofunni, vegurinn skal vera 2+2.
Hefur ekkert breyst eftir hrunið? Datt engum í hug að ef til vill væri rétt í fjárhagslegri stöðu þjóðfélagsins að horfa svolítið í kostnaðinn? Klingdu engar bjöllur hjá ráðamönnum? Hvernig stendur á því að þingmaður kemur nú af fjöllum eins og jólasveinn í desember og veit greinilega ekkert hvað hefur verið að gerast síðustu 2 árin? Af hverju hljóp hann burtu af fundinum forðum og gleymdi málinu síðan gersamlega þar til hann virðist vakna nú þegar verið er að undirskrifa verksamning um fyrsta áfangann. Hann er tæknilega 2+2 svo þeir sem tóku ávörðun um að láta þá sóun standa virðast ekki vera í tengslum við ástandið í þjóðfélaginu.
Sá sem ber mesta og þyngsta ábyrgð á því að vegagerðinni var ekki breytt í 2+1 og 1/3 hluti kostnaðar er Kristján Möller samgönguráðherra. Hann tók snemma þá ákvörðun að fylgja flottræfilshætti ákveðinna Sunnlendinga sem með því reyndu að slá sig til riddara í pólitískum tilgangi. Það er vart hægt að segja annað en það eru embættisafglöp Kristjáns Möllers að hafa ekki tekið í taumana og stöðvað þessa óheyrilegu sóun sem lögn 2+2 vegar milli Reykjavíkur og Selfoss er.
Guðlaugur Þór, ætti bara að sofna aftur og umfram allt: láta sig hverfa fyrir fullt og allt af Alþingi.
11.8.2010 | 09:31
Ögmundur Jónasson fer yfir siðferðismörkin, hörmulegt að fylgjast með orðræðu hans
Það er nokkuð líkt með pólitískri framgöngu Ögmundar Jónassonar og Spaugstofunni. Hvorugur aðilinn þekkir sinn vitjunartíma, skilur ekki að tímaglasið er runnið út. Ögmundur varð ungur öflugur foringi opinberra starfsmann og safnaði að sér harðskeyttri fylgissveit sem bar hann á höndum sér alla leið inn í sali Alþingis.
Við síðustu myndun Ríkistjórnar varð Ögmundur ráðherra, það taldi að sjálfsögðu hans harðskeytta fylgissveit sjálfsagt, ekki kom annað til greina.
En þá fór að halla undan fæti hjá Ögmundi. Þessi maðu,r sem alla tíð hafði verið baráttummaður launþega og andófsmaður á Alþingi, fótaði sig ekki þegar pólitíska ábyrgðin lagðist á hans herðar; hann kiknaði og sagði af sér ráðherradómi.
Síðan þá hefur farið fram ótrúlegur sirkus í kringum Ögmund Jónasson. Heimssveit hann í Vinstri grænum hefur rembdist við eins og rjúpan við staurinn að koma Ögmundi aftur í ráherrastöðu, nokkuð sem hann hefur einu sinni kiknað undan, einu sinni er nóg.
En nú hefur Ögmundur farið rækilega yfir strikið í hatrömmum málflutning sínum gegn aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Þeir eru vissulega til á blogginu sem hafa gripið til samlíkinga við alræðisríki nasista, sem atti heiminum út í hörmungar seinni heimstyrjaldarinnar, en að maður sem hefur verið jafn áhrifamikill og Ögmundur Jónasson gerði slíkt bjóst ég ekki við. Að voga sér slíkan samanburð, svo sem að Evrópusambandið sé að auka sitt "lífsrými" er eins og köld vatnsgusa framan í hvern mann. En Ögmundur bætir um betur og líkir Evrópusambandinu við hvítu mennina sem komu frá Evrópu, sölsuðu undir sig lönd Indíána í Vesturheimi og borguðu fyrir með glerperlum og spíra.
Ég held að Ögmundur ætti að fara að dæmi Einars Kristjánssonar óperusöngvara sem ég rakti í pistlinum um Spaugstofuna.
Það þurfa allir að þekkja sinn vitjunartíma, einnig Ögmundur Jónasson!
11.8.2010 | 09:01
Spaugstofan lögð niður í Sjónvarpinu, hárrétt ákvörðun
Það virðist hrista upp í mörgum að Spaugstofan hafi runnið sitt skeið í Sjónvarpinu, það er ekki einkennilegt því þeir eru búnir að vera fastur punktur í Sjónvarpinu í rúmlega tuttugu ár.
En það voru ekki Spaugstofumenn sem tóku þessa ákvörðun, það var Páll Magnússon sem það gerði tilneyddur með niðurskurðarhnífinn á lofti.
En tími Spaugstofunnar var liðinn og þó fyrr hefði verið. Oft á tíðum hittu þeir á að gera góða þætti en þreytumerkin á þeim voru greinileg síðustu árin. Það var frekar sjaldgæft að þeim tækist að hitta naglann á höfuðið í spaugi sínu og þöglir einþáttungar Arnar Árnasonar, sem stundum voru voru settir inn í prógrammið til uppfyllingar, vor sérlega pínlegir satt að segja.
Ég hef verið þeirrar skoðunar í þó nokkurn tíma að Spaugstofan ætti að hverfa af skjánum, en í skemmtanabransanum eiga þeir sem koma fram oft og verða vinsælir erfitt með að þekkja sinn vitjunartíma.
En nú hefur Páll Magnússon tekið af þeim ómakið. Þegar er farið að bollaleggja að þeir komi fram á örðum stöðvum, ekki hirði ég um það. Ég sé einungis Sjónvarpið og þykir alveg nóg að hafa völ á einni lélegri sjónvarpsstöð. Einhver kann að segja sem svo að ég sé tæplega hæfur til að dæma þær stöðvar sem ég hef enga reynslu af, en mér nægir að líta yfir dagskrár annarra stöðva, þar eru ríkjandi amerískir aulaþættir sem ég ef engan áhuga á.
En aftur að Spaugstofumönnum sem ekki þekktu sinn vitjunartíma. Ég minnist þess sem Einar Kristjánsson óperusöngvari sagði forðum. Hann var nær allan sinn starfsaldur söngvari við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn. Einar tilkynnti óvænt á besta aldri að hann væri hættur hjá Konunglega og hættur að syngja opinberlega. Fjölmargir skoruðu á hann að halda söngnum áfram en þá svaraði Einar:
Ég vil heldur að sagt verði "synd að hann Einar sé hættur að syngja" frekar en "synd að hann Einar sé enn að syngja".
Spaugstofumenn hefðu átt að taka álíka ákvörðun eins og Einar fyrir þó nokkru, ekki láta Pál taka hana fyrir sig.
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar