Fjörutíu og fimm þúsund Íslendingar skrifa upp á einhverja kröfu sem þeir sjálfir botna ekkert í

Það hefur verið líf og fjör í Norræna húsinu undanfarið. Þar hafa helstu "menningarvitar" þjóðarinnar staðið og þanið raddböndin í einhverri fáránlegustu baráttu fyrir einhverju sem enginn botnar í og örugglega ekki sá mikli fjöldi sem hefur látið glepjast til að gera eins og Björk, Ómar R, Megas, Bubbi og allt hitt liðið.

Og hver skyldi sú krafa vera sem hjarðmennskuhópur fjörutíu og fimmþúsund Íslendinga skrifar upp á í algjörri blindni?

Að fram fari þjóðaratkvæðisgreiðsla um að auðlindir Íslands (er þar átt við auðlindir á landi, auðlindir í landi?) skuli vera þjóðareign.

Hvernig á að orða það sem fyrir þjóðina verður lagt í hugsanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu? Ég hef ekki heyrt að það hafi verið formað sem á atkvæðaseðlinum skal standa.

Ég skrifaði pistil um þetta mál 19. sept sl. og sagði þar meðal annars:

Öll orkuver landsins (sem þá höfðu verið reist), bæði þau sem framleiða raforku eða heitt vatn, eru í opinberri eigu, ýmist ríkisins (Landsvirkjun td.) eða í eigu sveitarfélaga (Orkuveita Reykjavíkur td.).
En áður en þessir opinberu fyrirtæki hafa getað virkjað, hvort sem það eru vatnsföll, jarðgufa eða heitt vatn sótt með borun, hafa þau orðið að semja við landeigendur og sveitarfélög til að fá vinnsluleyfin.
Þetta rek ég hér til að sýna fram á að það gagnar lítið að hrópa á strætum og gatnamótum að allar auðlindir í og á landi skuli vera þjóðareign. Þeir sem það gera hafa engan veginn krufið málið til mergjar því ef strangasta krafa þeirra sem ákafastir eru næði fram að ganga yrði að fara út í stórfellda þjóðnýtingu.
Vill nokkur í alvöru standa að því?

Ég ætla að bæta því við að ef farið yrði í slíkar aðgerðir yrði það stórfelldasta þjóðnýting á vesturhveli jarðar frá því breski Verkamannaflokkurinn þjóðnýtti lungann af stóriðnaði Bretlands eftir lok seinni heimsstyrjaldir.

Og hver er orsökin að öllu bramboltinu í Norræna húsinu?

Sú að Kanadamaður einn hefur eignast stóran hlut í HS-Orku á Suðurnesjum  verði gerður afturreka. Hann hefur ekki eignast nokkurn skapaðan hlut í íslenskri auðlind, hann fær nýtingarrétt til ákveðins árafjölda á nákvæmlega sama hátt og Landsvirkjun fær afnotarétt af stórfljótum landsins.

Og svo kemur krafan um að Ríkisvaldið taki hlut Kanadamannsins eignarnámi og verði þar með að punga út líklega sem svarar 15 milljörðum króna í útlendum gjaldmiðli á stundinni.

Já, nógir eru andskotans peningarnir virðast "menningarvitarnir" álíta.

Og en spyr ég: Er ekki minni áhætta fyrir okkur Íslendinga að Kanadamaður komi með jafnvirði 15 milljarða í áhættufjármagn og fái fyrir það arð að sjálfsögðu, heldur en að taka lán hjá alþjóðlegum fjármálastofnunum, er það kannski ókeypis? Nei, hingað til hefur það ekki verið, slíkar stofnanir vilja fá sinn arð sem vaxta.

Skuldum við ekkert fyrir í útlendum fjármálastofnunum vegna þeirra orkuvera sem við höfum reist?

Varlega áætlað má búast við að stærstu orkufyrirtækin skuldi í útlöndum milli 500 og 1000 milljarða króna virði í útlendum gjaldeyri og það kostar svo sannarleg sitt. Að íslensk fyrirtæki eigi orkuverin tryggir ekki aldeilis að útlendingar fái ekki sinn arð af þeim.

Þeir fá hann í vaxtagreiðslum.

En sá lánlausi lýður sem kyrjaði í Norræna húsinu vældi ekkert um stærsta þjófnað Íslenskrar sögu, þjófnað sem gerður var löglegur en er með öllu siðlaus.

Það er ránið á fiskinum í sjónum en kyrjurunum virðist nákvæmlega sama um þjófnað ef þýfið aðeins lendir í vösum vafsamra Íslendinga. 


Nú er lag Ögmundur að vinda ofan af óráðsíu forvera þíns, Kristjáns Möller

Ögmundur var, eins og búast mátti við, í klemmu í Kastljósi í gærkvöldi að sannfæra Sigmar og hlustendur alla um að VG sé ekki kofinn flokkur. Það er ekki undarlegt, þingflokkurinn er klofinn, það fór ekki á milli mála efir að hafa hlustað á viðtal við Atla Gíslason.

En Ögmundur var skeleggur og afgerandi þegar hann ræddi um hugsanlega gjaldtöku á höfuðvegum út frá Reykjavík, Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi og Reykjanesbraut. Ég leit öðrum augum á þessa gjaldtöku, sem ég fram að því taldi algjöra fásinnu, eftir að hafa hlustað á rök Ögmundar sem eru mjög einföld:

Ef við viljum fá umbætur á þessum stofnbrautum eins fljótt og auðið er verður að afla fjár með gjaldtöku allra sem um framangreinda þjóðvegi fara.

Ef við neitum alfarið að gangast undir þessa gjaldtöku þá verður ekkert frekar gert á næstu árum í endurbótum á þessum þjóðvegum, það er einfaldlega ekki til fjármagn.

Sem íbúi fyrir "austan fjall" tel ég að við eigum að samþykkja gjaldtökuna. Margur kann að segja, sem þekkir mína hagi, sem svo að það sé einfalt fyrir mig að samþykkja, lífeyrisþega sem fer sjaldan um þjóðvegina, allavega ekki nauðbeygður til þess vegna vinnu minnar. Þar á móti segi ég að þeir sem þar fara á milli vegna vinnu sinnar  eru flestir, ef ekki allir, á góðum launum, ekki vafi að þau eru hærri en þau laun sem ég fæ útborguð mánaðarlega kr. 129.000 svo eflaust kunna tvær ferðir á mánuði að ganga nær minni pyngju en þeirra sem eru í fullu starfi á sæmilegum launum og fara daglega.

En þá tek ég upp gamalt baráttumál um sparnað í útgjöldum til vegamála. Forveri Ögmundar á stóli samgönguráðherra var flokksbróðir minn Kristján Möller. Ég tók þátt í umræðunni um Suðurlandveginn í ræðu og riti hvort hann ætti að vera 2+2 eða 2+1. Ég hikaði ekki við að segja að 2+2 vegur væri óþarfur, hann væri flottræfilsháttur og það er bjargföst sannfærin mín enn þann dag í dag. En háværar raddir hér austanfjalls féllu að hugmyndum Kristjáns Möller sem var ölvaður af velgengni sinni af því að hafa látið bora í gegnum fjöllin í sinni heimsbyggð, flott skyldi það vera.

Hinn 6. jan. 2008, vel að merkja fyrir hrun en á hrunárinu, var haldinn merkilegur fundur á Grand Hótel, fundarboðandi Lýðheilsustöð. Þar var rætt um hvort skyldi velja 2+2 eða 2+1 á Suðurlandsvegi. Þar hélt Haraldur Sigþórsson verkfræðingur á Línuhönnun eftirminnilegt og fróðlegt erindi. Hann bar saman kostnaðinn við Suðurlandsveg ef annarsvegar yrði farið í 2+2 væri kostnaðurinn 6 milljarðar en ef farið  yrði í 2+1 yrði kostnaðurinn 2 milljarðar. Umferðaröryggi yrði það sama miðað við hámarkshraða 90 km á 2+1 og 110 km hraða á 2+2. Þróun í öðrum löndum væri sú, sérstaklega í Evrópu (Svíþjóð) að æ fleiri vegir væru lagðir sem 2 +1. Slíkur vegur mundi hæglega anna þeirri umferð sem yrði um Suðurlandsveg til ársins 2030.

Ég tók þátt í umræðunni á fundinum og mælyi með 2+1 vegi gegn nokkrum háværum Sunnlendingum en hafði stuðning tveggja  lækna, Brynjólf Mogensen læknis og formanns slysavarnaráðs og Sigurðar Guðmundssonar þáverandi landlæknis.

Það er rétt að hafa það í huga að fundurinn og þær ákvarðanir sem teknar voru af Kristjáni Möller voru teknar í upphafi hrunársins, hvaða máli skipti hvað hlutirnir kostuðu, nægir voru andskotans peningarnir. En nú er lag að hugsa málið upp á nýtt. Það er aðeins komin í framkvæmd 2+2 vegalagning yfir Sandskeið. Og ef Ögmundur veit það ekki þá bendi ég honum á að fá það staðfest hjá Vegagerðinni að á þeim tímapunkti sem fundurinn var haldinn í  jan. 2008 var til hönnun vegarins milli Reykjavíkur og Selfoss sem 2+1, lausn sem vegagerðin mælti eindregið með.

Ég vona að Ögmundur samgönguráðherra taki til hendi og geri sér grein fyrir hve mikla fjármuni má spara með því að hverfa til upphaflegra áætlana með 2+1 veg. Hann á vísa góða ráðgjafa hjá Vegagerðinni og ég bendi honum eindregið á að fá Harald Sigþórsson verkfræðing einnig sem ráðgjafa sinn.

Ögmundur, þarna eru miklir fjármunir í húfi, við lifum ekki lengur í loftbólu fjármálavitfirringar sem betur fer.


Það er stutt að fara frá Pontíusi til Pílatusar

Sandgerðingur einn kvartaði sáran á bloggi Víkurfrétta yfir þeim móttökum sem hann og fjölskylda hans fékk í Bláa lóninu.

picture_3_1052200.pngÞetta er ekki í fyrsta sinn sem það sést á prenti að menn kvarta yfir því að þeir séu "sendir frá Pontíusi til Pílatusar".

 Eina bótin er þó sú að það er ekki langt á milli Pontíusar og Pílatusar því þetta er einn og sami persónuleikinn, einn af persónum Biblíunnar, Rómverji sem aldrei slíku vant uppfyllti kröfu Gyðinga og dæmdi Jesú til dauða.

Í mínu ungdæmi voru menn svo velupplýstir í Biblíunni að menn fóru rétt með það sem þar er sagt að frelsarinn sjálfur hefði verið sendur frá Pontíusi til Heródesar en þannig minnir mig að ég hafi lært þetta í biblíusögunum í Barnaskólanum í Þykkvabænum. Hver veit nema ég fari að lesa Biblíuna (en ég á enga slíka bók á íslensku) til að rifja upp og sannreyna hvort Gamla testamentið er slík sorabók sem mig minnir. Þar frömdu menn morð og sifjaspell, framseldu  dætur sínar til næturgamans fjölmennum hópum karla vegna þess að þær voru hreinar meyjar, allt að undirlagi guðs, sá sami guð hikaði ekki við að steikja íbúa heilla borga eða drekkja fjölmennum herdeildum ef þær voru eitthvað að ybbast upp á guðs útvöldu þjóð, Gyðinga. Svo segjast margir kristnir menn að þeir trúi hverju orði sem í Biblíunni stendur! Lifa þeir samkvæmt slíkum "orðum".

Jón Valur, þú ert ef til reiðubúinn með einhverjar athugasemdir við það sem ég segi að ofan.

 

 


Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn sem er heill og óklofinn

"Ekki batnar Birni enn banakringluverkurinn" var sagt forðum og þetta flaug um hug minn eftir að hafa hlustað á viðtöl RÚV við þá Steingrím J. Sigfússon og Ásmund Einar Daðason eftir langan og strangan fund þingflokks Vinstri grænna í gærkvöldi. Sjaldan hef ég heyrt í mönnum sem héldu langar tölur en sögðu ekki neitt en þó svo mikið. Það mátti svo sannarlega skilja að hvorugur gat gefið ákveðin svör við spurningum fréttamanns. Ástandið í þingflokki Vinstri grænna er að þar  greinilega varanlegur klofningur. Þremenningarnir, Lilja, Atli og Ásmundur Einar, ætla að að halda sínu striki, þau er ekki hægt lengur að telja til stuðningsmanna Ríkisstjórnarinnar á þingi sem þar með er einungis með eins atkvæðis meirihluta og það skyldi maður ætla að gengi ekki lengi.

En ekki er allt sem sýnist. Klofningur Vinstri grænna er staðreynd og þess vegna mætti ætla að stjórnarandstaðan á þingi gripi tækifærið feginshendi og flytti vantraust á Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. En það er líklega það sem stjórnarandstaðan vill allra síst hætta sér út í. 

Og hvers vegna?

Vegna þess að stjórnarandstöðuflokkarnir eru allir meira og minna klofnir. Sjálfstæðisflokkurinn lýtur enn forystu Davíðs Oddssonar. Á yfirborðinu er flokkurinn á móti umsókn Íslands að ESB og þeir sem blindastir eru á Davíð Oddsson (Unnur Brá Konráðsdóttir t.d.) eru með tillögu um að stöðva aðildarumsóknina að ESB. Allir vita að fjölmargir Sjálfstæðismenn styðja aðildarumsóknina eindregið og rétt er að árétta að umsóknin og umsóknarferlið þýðir engan veginn að búið sé að ákveða inngöngu. Fyrst verður við að sjá hvað okkur býðst, síðan mun þjóðin ákveða í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort af inngöngu verður eða ekki. Það er einnig langt frá því að allir Sjálfstæðismenn fylgi gallharðri stefnu Davíðs og Morgunblaðsins í kvótamálinu, fjölmargir í þeirra röðum sjá að óbreytt ástand getur ekki gengið. Klofningurinn í Sjálfstæðisflokknum er svo djúpstæður að í bígerð er stofnun nýs hægri flokks sem einmitt ætlar að láta brjóta á ESB málinu, kvótamálinu og að afgreiða Icesave málið í eitt skipti fyrir öll.

Framsóknarflokkurinn er einnig klofinn í sömu málum. Þó ekki sé gamall og þreyttur flokksformaður sem ræður öllu á þeim bæ hefur komið í ljós að flokkurinn var æði seinheppinn með val á formanni. Sigmundur Davíð verður tæpast formaður til langframa, en hver tekur við?  Framsóknarflokkurinn burðast einnig með fyrri hneykslismál eins og Sjálfstæðisflokkurinn, þar vegur þungt allt hneykslið við einkavæðingu bankanna. Arfleifð þeirra Halldórs Ásgrímssonar og Finns Ingólfssonar er flokknum þung byrði. Finnur Ingólfsson og fleiri Framsóknarmenn hafa látið greipar sópa um þá fjármuni sem ýmis fyrirtæki Sambands ísl. samvinufélaga skildu eftir sig, ekki síst það sem átti að skila aftur til viðskiptamanna Samvinnutrygginga.

Og ekki má gleyma garminum honum Katli. Hreyfingin er þegar klofin og meira að segja margklofin. Þetta var "bjartasta vonin" í augum margra sem fordæmdu alla stjórnmálaflokka og vildu ferska vinda inn á Alþingi. Hvað ferska vinda hefur Hreyfingin haft í farteskinu? Þingmenn hennar hafa dottið í röfl- og hælbítsfarið nákvæmlega eins og Sigmundur Davíð. Það hefur verið nokkur samkeppni milli þingamanna Hreyfingarinnar hver gengur lengst í innantómu þrasinu en sigurvegarinn er ótvírætt Þór Saari.

Sem bloggari fylgist ég að sjálfsögðu gerla með hvað kemur í pistlum þeirra sem þar eru að skrifa. Hjá sumum er hatrið á Samfylkingunni sá þráður sem ætíð er kjarninn. Freistandi væri að nefna með nafni þá helstu en ég ætla að láta það vera að sinni en það kann að koma síðar. Hatrið á Samfylkingunni helgast fyrst og fremst af ótta. Þrátt fyrir að Samfylkingin hafi gert mistök, sem ég segi af fullri alvöru að séu ekki mikil, þá ber allt að sama brunni:

Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn í dag sem er samstilltur og ókofinn. Þetta er merkileg staðreynd því Samfylkingin hefur nú í tvö ár leitt Ríkistjórn Íslands á erfiðustu tímum sem nokkru sinni hafa mætt Íslensku þjóðinni síðan hún hlaut fullveldi. 

Það er kominn tími til að halda þessu til haga. Mér finnst Samfylkingin engan veginn hafa beitt sínum vopnum til að verjast rógberum og hælbítum. Það kann að vera vegna þess að Samfylkingin hefur forystu fyrir endurreisn lands og þjóðar og hefur þess vegna ekki verið að eltast við lágkúruna sem einkennir stjórnarandstöðuna á Alþingi og þá flokka sem hana skipa og eru allir meira og minna klofnir og ráðvilltir.


Félagsráðgjafi Hjálparstofnunar kirkjunnar sýndi djörfung og raunsæi þegar hún sagði álit sitt á biðröðunum margumtöluðu

Ég hef svo sannlega haft ákveðnar skoðanir á því hörmulega skipulagi á "neyðarhjálp" að fólk komi til hjálparstofnana til að fá matvæli og standi þar tímunum saman í biðröðum. Ekki er nokkur vafi á að þar eru þeir sem af neyð leita eftir hjálp, en það er ekki minni vafi á því að þar slæðast margir með sem ekki eru í neyð. Það er sama hvaða hjálp er boðin, ef hún er jafn stjórnlaus og hún er í dag hjá Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálpinni þá er ekki nokkur vafi á að hjálpin er misnotuð af einhverjum hluta þeirra sem þangað leita. Viðbrögð forstöðukonu Fjölskylduhjálparinnar voru með eindæmum. Í stað þess að viðurkenna að allt þetta starf þyrfti að endurmeta réðst hún að félagsráðgjafa Hjálparstofnunar kirkjunnar og sakaði hana um lítilsvirðingu við þá sem hjálpar leita. Bætti við að sú hugmynd félagsráðgjafans, að upplýsa og hjálpa fólki að fara rétt með það fjármagn sem það hefur, væri fáránleg, fólk sem hefði enga peninga þyrfti ekki á slíkri ráðgjöf að halda. Líklega er ástandið ekki það slæmt að í biðröðunum séu margir sem enga peninga eiga, en það eru eflaust margir sem hafa peninga af skornum skammti, þeim þarf að hjálpa til að forgangsraða.

Það er athyglisvert að Hjálparstofnun kirkjunnar vinnur allt öðru vísi en hinar stofnanirnar. Þar fær hver og einn sem þangað leitar persónulega hjálp, það getur ekki hver sem er komið án þess að gera grein fyrir sér og rogast burt með poka með matvælum. Svo virðast sem a. m. k. Fjölskylduhjálpin vilji halda í óbreytt ástand og þá hlýtur maður að spyrja:  Er hjálpin farin að nærast á því að geta aflað sem mestra gæða hjá framleiðendum og verslunum til að úthluta til Péturs og Páls án þess að kanna á nokkurn hátt þörf hvers einstaklings. Vill Fjölskylduhjálpin hafa biðraðirnar og óbreytt ástand til að forstöðukonan geti síðan baðað sig í fjölmiðlum og barið sér þar á brjóst og sagt; Sjá hér er ég, miskunnsami Samverjinn.

Sveitarfélögin verða að taka sér tak og kortleggja þörfina. Neyðarhjálp á ekki að vera úthlutun matarpoka til fólks í biðröðum, biðraðirnar eiga að hverfa. 

Mér sýnist að sú skarpa sýn sem Hjálparstofnun kirkjunnar hefur á vandamálinu geti orðið leiðandi í því starfi að kortleggja vandann, skilgreina hverjir þurfa neyðarhjálp og hverjir þurfa framfærslu. Sveitarfélögin virðast vera steinsofandi og ekki gera sér grein fyrir skyldum sínum. En hver veit nema þau fari að rumska, þarna verða sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að rumska fyrst og taka hraustlega á vandamálinu.


Þar kom að því, Siv lætur í sér heyra

Ég endurtek það einu sinni enn; enginn maður fékk jafn gullið tækifæri á að hefja sig yfir lágkúrulega pólitíkina og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þegar hann varð formaður Framsóknarflokksins. Hann fékk það tækifæri einnig að hefja flokk sinn upp úr pyttinum sem hann var grafinn í á formannstíð Halldórs Ásgrímssonar.

En hvorugt gerði Sigmundur Davíð, hann sökkti sér á bólakaf í innihaldslaust argaþras pólitísku umræðunnar, fór þar meira að segja oft fremstur í flokki og á nú aðeins einn jafningja í Framsóknarflokknum á þingi; Vigdísi Hauksdóttur.

Þögn Sivjar Friðleifsdóttur er fyrir löngu orðið þannig að eftir var tekið, sama má segja um Guðmund Steingrímsson og fleiri mætti nefna í hópi þingmanna Framsóknarflokksins.

En nú hefur Siv látið í sér heyra. Hún styður ekki Sigmund Davíð, formann flokksins, í hans helstu stefnumálum. Hún styður hvorki myndun þjóðastjórnar né að efnt verði bráðlega til kosninga. Sagði réttilega að kosningar væri það sem þjóðin þyrfti síst á að halda núna.

Nokkur umræða hefur verið undanfarið um að Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms væri að bera víurnar í Framsókn  um að koma til liðs við Ríkisstjórnina. Ekki finnst mér það ólíklegt að einhverjar þreifingar eigi sér stað. Það hljóta alir að sjá, ekki síst Steingrímur J. Sigfússon, að þingflokkur Vinstri grænna er ekki lengur með þann styrk að geta veitt Ríkisstjórninni nauðsynlegar stuðning. Að stjórnin hafi aðeins eins atkvæðis meirihluta á Alþingi gengur ekki.

Ég held að Siv komi fram af þessum mikla þunga nú vegna þess að hún skynjar pólitíska ástandið á Alþingi hárrétt.  Ríkisstjórnin getur ekki reitt sig framvegis á stuðning þeirra Lilju, Ásmundar Einars og Atla. Það er ekki endalaust hægt að standa í "kattasmölun", leyfum "köttunum" að fara sín einstigi, þeirra tími er liðinn sem jákvætt afl á Alþingi.

 


Áramótaskaupið og sjálfhverfa montspíran

Í rauninni er tæpast hægt að segja álit sit á Áramótaskaupinu fyrr en við endurskoðun sem vonandi verður bráðlega. En samt sem áður fannst mér margt ágætt og hnittið  sem þar bar fyrir augu og eyru. Líklega er þó atriðið með veiku konuna á spítalanum einna eftirminnislegast. Að sjálfsögðu vildu starfsfólk spítalans að konan hefði það sem best þar sem hún var tengd ýmsum tólum og tækjum til að halda i henni lífinu. Auðvitað var sjálfsagt að hún fengi að horfa á Sjónvarpið og þar með var henni boðin góð nótt. En óhamingjan ríður ekki við einteyming. Á sjónvarpsskjánum birtist ömurlegasti sjónvarpsþáttur sem sést hefur í mörg ár í dagskrá Sjónvarpsins, "HRINGEKJAN", sem kom í stað Spaugstofunnar. Mer fannst Spaugstofan gjarnan mega hverfa, átti þó stundum sæmilega spretti en var oftast gömul og þreytt. En það jafnvel læðist að manni sá grunur að þeir Spaugstofumenn hafi haft hönd í bagga með arftakanum, svo arfalélegur var þessi þáttur, "HRINGEKJAN". Það lá jafnvel við að gömlu þættirnir MAÐUR ER NEFNDUR gæfu ekki sama aulahrollinn í minningunni. En aumingja konan á spítalanum reyndi af veikum mætti að slökkva á þessari hörmung, "HRINGEKJUNNI", sem birtist á skjánum. Það tókst ekki fyrr en hún tók sjálfa sig úr sambandi og dó drottni sínum.

Það var gaman að sjá viðbrögð ýmissa sem komu við sögu, voru skotspónar Skaupsins, flestir voru ánægðir með sinn hlut. Þó saknaði ég viðbragða Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem nú hugsar ekki nema um eitt; hvernig hann geti lamið í gegn að engar breytingar verði á ráðuneytum svo hann geti setið áfram í sínum ráðherrastóli með Bjarna Harðarson við fótskörina. En einn af viðmælendunum, uppáhald fjölmiðlanna, montspíra sem kallar sig Gils eitthvað. Hann var yfir sig hneykslaður á því að hann skyldi ekki sýndur af einhverju vöðvabúnti, annað væri honum ekki boðlegt. Aumingja drengurinn skyldi ekki háðið í Skaupinu. Auðvitað var hann sýndur af einhverjum með þunna vöðva, höfundar skaupsins sendu honum kveðju og sýndu að það sem innra fyrir býr er ekki minna virði heldur en að vaða um með vöðvabúntin. Og auðvitað endaði vöðvabúntið röfl sitt á því að hann ætlaði að skíta á höfunda skaupsins.

Skrifaði þessi sjálfhverfa montspíra, sem endar flestar ræður sínar á að viðmælandi eigi að skíta á sig upp á bak eða hann geri það með eigin framleiðslu, bók um KURTEISI, bók sem átti að vera kennslubók í kurteisi og framkomu?


Glæsilegir tónleikar Lúðrasveitar Þorlákshafnar í Versölum

Nýárshátíðin endaði vel í gær með tónleikum Lúðrasveitar Þorlákshafnar í samkomusalnum  Versölum í Ráðhúsi Ölfuss. Sem fyrr var það Róbert Darling sem sveiflaði tónsprotanum, en í sveitinni voru að mér sýndist nokkuð yfir 30 einstaklingar á mjög svo misjöfnum aldri. Nokkrir rosknir karlar en einnig ungar stúlkur úr efsta bekk grunnskólans. Það var ekki síður ánægjulegt að salurinn var troðfullur, já svo sannarlega troðfullur í orðsins fyllstu merkingu. Það verður ekki annað sagt en að  Þorlákshafnarbúar og íbúar víðar úr sveitarfélaginu Ölfusi hafi mætt, þarna sáust einnig kunn andlit frá Árborg og Hveragerði.

Í tveimur lögum mætti söngkona sem tók hressilega undir með hljómsveitinni. Félagar úr Leikfélaginu frömdu tvisvar skemmtilega gerninga sem kettir og trúðar. Ungur dansari var reiðubúinn til að taka sporin en því miður meiddist stúlkan sem er dansfélaginn kvöldið áður, vonandi ekki alvarlega. Þetta atriði hefði því fallið brott en þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Móðir þessa unga dansara hljóp í skarðið og í vals- og polkatakti svifu þau mæðginin um gólfið eftir öruggum takti Lúðrasveitar Þorlákshafnar.

Bestu þakkir til allra sem lögðu sitt af mörkum, ekki má gleyma Barböru í Bókasafninu sem leiddi þessa skemmtilegu tónleika með styrkri kynningu.


Ævisaga Gunnars Thoroddsen er merkileg heimild um pólitíkina á síðustu öld

Ég var svo heppinn að fá Ævisögu Gunnars Thoroddsen eftir Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing í jólagjöf. Bókin er engin smásmíði, 580 bls. með stuttum eftirmála. Ég er að verða búinn að lesa verkið, ríkisstjórnin sem Gunnar myndaði með Framsóknarflokki, Alþýðubandalagi og flokksbroti úr Sjálfstæðisflokknum er komin að fótum fram og pólitískur feril Gunnars á enda. Ekki get ég neitað því að stundum fannst mér, sérstaklega í upphafi, að Guðni dveldi of lengi við einstök mál,hann segir sögu Gunnars frá frumbernsku og  hvaða stofnar stóðu að honum. Hins vegar þegar fram í sótti fannst mér vanta frekar í textann heldur en að hann ætti að stytta. Það sem mér finnst vanta er að rekja betur hverjir sátu sem ráðherrar á hinni löngu ævi Gunnars. Guðni nefnir flestar ríkisstjórnir þessa langa tímabils en þar sem ég hef langa ævi að baki og hef alltaf haft mikinn áhuga á þjóðmálum þá held ég að ég sé nokkuð vel heima í pólitískri sögu Íslands allt frá því að það hlaut fullveldi 1. des. árið 1918. En stundum eru gloppur, sem dæmi get ég nefnt að undanarinn að stjórnarmyndum Gunnars í árbyrjun 1980. Hvaða ríkistjórn sat þá að völdum? Það er aðeins sagt örfáum árum að þá hafi minnihlutastjórn Alþýðuflokksins undir forsæti Benedikts Gröndal sagt af sér. Gjarnan hefði mátt hafa betri samfellu í því hvað gerðist áður en Gunnar myndaði sína stjórn, hvers vegna sat minnihlutastjórn að völdum næst á undan? Þetta segi ég því ég sé fyrir mér að þegar fram líða stundir verður Ævisaga Gunnars Thoroddsen eftir Guðna Th. Jóhannesson merkileg heimild um þennan sögulega tíma, megnið af 20. öldinni með fullveldi og  lýðveldisstofnun m.a. Síðar meir verður þessi saga ekki aðeins lesin sem ævisaga merks stjórnmálamanns heldur ekki síður sem heimild um stjórnarfarið og þá sem þar um véluðu, stjórnmálamenn 20. aldarinnar. Þess vegna sakna ég þess að ekki sé farið rækilegar í  pólitíska sögu aldarinnar og gerð grein fyrir þeim sem þar þrefuðu um stjórnarmyndanir á hverjum tíma og hverjir sátu í ráðherraembættum. Vissulega eru margir nefndir en það er ekki nógu ítarlegt.

En hver eru dýpstu áhrifin af lestri Ævisögu Gunnars Thoroddsen?

Auðvitað efst á blaði merkilegur ferill eins glæsilegasta stjórnmálamanns 20. aldarinnar á Íslandi sem þó alla tíð var barn síns tíma og varð að spila eftir leikreglum aldarinnar. En það segir ekki litla sögu um manninn Gunnar Thoroddsen hvað hann kom víða við og öll þau embætti sem honum hlotnuðust.  Ég held að þar hafi hann náð tindinum sem Borgarstjóri í Reykjavík. Stundum ætlaðist hann til of mikils svo sem þegar hann taldi sig eiga greiða leið í Forsetaembættið.

En það sem situr þó eftir er hversu gróflega íslensk stjórnmálastétt var spillt á 20. öldinni, hrossakaupin og hyglun fylgismann, vina, ættingja og flokksfélaga var með eindæmum. Það sem slær mig þá mest er að verða vitni að því að við nær allar stjórnarmyndanir, við myndanir Ríkistjórna Íslands var það ekki þjóðarhagur sem réði ferðinni. Pólitísku flokkarnir voru miklu framar þjóðarhag og þar með klíkuskapur og að halda sjálfum sér á floti. Vissulega má skynja að þarna var mannamunur en það gat enginn leyft sér að gleyma hag FLOKKSINS, HANN var efstur í hagsmunaflokkun. Þess vegna má segja að stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsen hafi ekki verið eftir mynstrinu en að sjálfsögðu var Gunnar, þá kominn á efri ár, knúinn af metnaðinum að ná æðstu metorðum. Næstum allar stjórnamyndanir voru karp og undirferli þar sem þjóðarhagur var langt frá því að vera  mönnum  efst í huga.

Höfum við eitthvað lært?

Tæplega ef tekið er mið af öllu því fádæma bulli sem sett er fram á blogginu þar sem æðsta markmiðið virðist vera að níða aðra, þar skeyta margir ekki um skömm né heiður

Satt best að segja hugsa ég alvarlega um það hvort verandi sé í þeim félagsskap.

 

 


Dapurleg framganga Róberts Marshall í verkfræðiklúðrinu mikla, Landeyjahöfn

Róbert Marshall þingmaður í Suðurkjördæmi og Vestmanneyingur er einn af þeim sem þunga ábyrgð bera á því að sandhöfnin Landeyjahöfn var byggð. Verkfræðimenntaðir menn hjá Siglingastofnun og víðar lét starfsheiður sinn lönd og leið, létu undan pólitískum þrýstingi og "hönnuðu" þessa höfn sem allir staðkunnugir vissu að gæti aldrei orðið nothæft samgöngumannvirki.

Ástæða þess að ég beini orðum mínum að Róbert Marshall, sem vissulega er á mína ábyrgð sem Alþingismaður, hefur látið þann boðskap frá sérfara að það sem nú vanti til að Landeyjahöfn sé brúkleg sé enn frekari pólitísk afskipti að þessu klúðri öllu, einmitt það sem hefur leitt til 4 milljarða taps ofan í sandinn. Í gömlum fjársjóðaævintýrum var leitað að földum fjársjóðum,  ekki síst á sandströndum. Þessum ævintýrum hafa Íslendingar snúið algjörlega við með því að grafa fjármuni í sand á ströndu sem er á stöðugri hreyfingu og víst er að sá fjársjóður mun hverfa og tapast með öllu. 

Róbert Marshall gekk algjörlega fram af mér þegar hann lét Sjónvarpið hafa viðtal við sig í þessu algjöra hneykslismáli. Hann krafðist þess að pólitíkusar tækju að sér ákvarðanir  í stað embættismanna og þar með að sanddæluskip yrði í stöðugri vinnu við að dæla sandi úr Landeyjahöfn. Einhversstaðar sá ég að ætla mætti að kostnaður við sanddæluskip yrði 360 milljónir á ári, eftir 10 ár yrði búið að henda í þetta vonlausa verkefni ekki lægri upphæð en fleygt var í stofnkostnaðinn við byggingu hafnarinnar.

Við höfum mikið rætt um það undanfarið að skapa þurfi skarpari skil milli löggjafarvalds annarsvegar og framkvæmdavalds hinsvegar. En um hvað er Róbert Marskall að biðja? Hann er að krefjast þess að Alþingismenn taki ákvarðanir um framkvæmdir og rekstur mannvirkis sem Alþingismen eiga ekki að skipta sér af á nokkurn hátt.Róbert Marshall má reyndar vera ánægður með að koma  hvergi nærri  þeirri vonlausu baráttu við að halda því í nothæfu ástandi, hans ábyrgð er þegar orðin næg, ábyrgð sem hann rís tæplega undir.

Hvað hefði nýr Herjólfur kostað? Nýr Herjólfur sem hefði farið milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar á innan við 2 klst? Flestir eru Vestmannaeyingar á leið til Reykjavíkur. Með nýjum Herjólfi til Þorlákshafnar hefði tekið þá um 2 tíma og 40 mín, að fara gömlu leiðina eða álíka og það tekur að fara um Landeyjahöfn þá sjaldan að færi gefst til þess.

Ætlar Róbert Marshall virkilega að gera þá kröfu að sanddæluskip verði að störfum árið um kring í Landeyjahöfn? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband