Nokkur orð til Páls Vilhjálmssonar fjölmiðlamanns

Páll, ekki man ég betur en við höfum á árum áður verið flokksbræður. Þú varst mér alla tíð mikil ráðgáta og stundum velti ég því fyrir mér hvers vegna þú værir í Samfylkingunni. Þú tilbaðs alla tíð Davíð Oddsson næstum því eins mikið og Hannes Hólmsteinn. Nú ertu kominn heim til föðurhúsanna en virðist samt vera haldinn mikilli vanlíðan. Þú bloggar og allt sem frá þér kemur er svartagallsraus og neikvæðni. Mér finnst það ekki einkennilegt að svo sé. Að geta lotið svo lágt að verja allt sem Sjálfstæðisflokkurinn gerði, einkavæðingin og allur skandallinn í stjórn efnahagsmála var með slíkum endemum að það hlýtur að vera mikil blinda að sjá það ekki. Nú er reynt að hamra það inn i þjóðina að ICESAVE sé til komið vegna mistaka núverandi Ríkisstjórnar og stjórnarflokka. Það er kannski ekki að undra að maður eins og þú, haldinn pólitískri þráhyggju og tilbeiðslu á einum manni sem átti ekki lítinn þátt í að undirbyggja hrunið fabúlerir endalaust um það. Davíð Oddsson var ekki aðeins forsætisráðherra í hálfan annan ártug heldur síðar seðlabankastóri. En að þeir menn sem eru nýbúnir að taka við forystu í hrunaflokkunum tveimur, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki skuli voga sér að stunda lýðskrum og baktjaldamakk, það er yfirgengilegt. Mer sama hvoru megin hryggjar Sjálfstæðisflokkurinn liggur, en vona jafnvel að Framsóknarflokkurinn fái betri leiðtoga en Sigmund Davíð. Líklega er nú þegar ákveðin öfl farin að undirbúa að velta honum úr sessi. Ekki ólíklegt að það takist og þriðji ættliðurinn, Guðmundur Steingrímsson, endurreisi það orðspor sem eitt sinn fór að þeim flokki.

En ég vona að þú Páll Vilhjálmsson náir einhverjum bata, þér hlýtur að líða mjög illa með allt þitt neikvæða beinakvak.


Hraðinn er ekki eina orsökin, ekki síður yfirgengilegt fúsk

Það voru ekki fagrar myndir sem birtust nýlega í Sjónvarpsfréttum af rakaskemmdum  í nýjum eða nýlegum húsum. Ástæðan var sögð of mikill hraði í byggingu húsanna en ég vil ekki nefna það sem einu ástæðuna. Ef heiðarlegir iðnaðarmenn eru að störfum þá fara þeir aldrei hraðar í sínum störfum en svo að verkið sé eins vel af hendi leyst og mögulegt er. Það er engin sem getur gert alla hluti 100% en  iðnaðarmenn eiga ætíð að reyna að komast eins nálægt því marki og mögulegt er.

Hver er þá orsökin?

Ég nefni orsökina  FÚSK, tökuorð, en hefur náð vistfestu í íslensku. Því miður er það svo að á undanförnum "stórveldisárum"  hefur margt farið úrskeiðis í störfum okkar, ekki aðeins í fjármálaheiminum, heldur einnig í mörgum þáttum atvinnulífsins og þar er byggingariðnaðurinn ekki undanskilinn. Þessir hroðalegu gallar á nýjum húsum, þar sem raki með tilheyrandi sveppagróðri er sýnilegur víða, er ekkert annað en fúsk, kæruleysi og einnig það að hafa kastað fyrir róða margvíslegri þekkingu sem var jafnvel vel þekkt hérlendis áður en byggingaöldin hófst eftir lok síðari heimsstyrjaldar. Við erum að stæra okkur af því að tækninni hafi fleygt fram, ný byggingarefni komið á markað og hvorutveggja er þetta gott og blessað. En það er líklegt að það komi okkur að litlu gagni að eignast nýjan forláta bíl ef við kunnum ekki að aka honum og höfum jafnvel ekki réttindi til þess. Nú ætla ég ekki að bera alfarið blak af ísl. iðnaðarmönnum, stundum hafa þeim verið mislagðar hendur. Reyndar sagði ég einhvertíma í einhverjum minna gömlu pistla, Lagnafrétta í Fasteignablaði Morgunblaðsins, að jafnvel  stundum væru hættulegustu fúskararnir með bæði sveinsbréf og meistarabréf. En það eru aðrir hlutir sem hafa verið orsakavaldur að þeim miklu göllum sem hafa verið að koma fram undanfarin ár í nýjum byggingum.

Mistökin með byggingarstjórana

Árið 1998 var samin og löggilt ný Byggingarreglugerð hérlendis, reglugerð sem gildir fyrir landið í heild. Þar var eitt nýmæli sem átti að vera mikið framfaraskref. Áður höfðu meistarar í hveri iðngrein borið ábyrgð á störfum sinna mann og því að þeirra þáttur í byggingunni væri sómasamlega unninn. Hins vegar hafði sú þróun orðið að í stórbyggingum höfðu þau stóru byggingarfyrirtæki sem voru heildarverktakar sett upp embætti Byggingarstjóra, eðlileg og sjálfsögð þróun, hæfur maður fenginn til að samræma störf allra iðnþátta svo ekki ræki sig hvað á annars horn. Þetta fyrirkomulag kom hvergi fram í Byggingarlögum eða afleiddri Byggingarreglugerð, þetta var eðlileg þróun, löggjafinn þurfti þar vergi að koma nálægt, þörfin kallaði á þetta án nokkurrar þvingunar. Þannig breyttist lítið í störfum eða ábyrgð einstakra iðnmeistara, þeir höfðu áfram samband við Byggingarfulltrúa sveitarfélagsins, lögðu inn teikningar og sáu um úttektir. En þá kom löggjafinn til sögunnar og þurfti endilega að grípa inn í, þróunin mátti ekki hafa sinn ganga án þess að hann væri með puttana í þessu sem öðru. Embætti Byggingarstjóra var fyrirskipað, ekki aðeins í stærri byggingum eða stærri verkum, heldur í öllum byggingum alveg niður í hundakofa.

Skorið á tengslin

Ekki nóg með það, skorið var á öll bein tengsl iðnmeistara og Byggingarfulltrúa, nú skyldi Byggingarstjórinn sjá um allt. Hann skilaði inn nöfnum iðnmeistaranna og hann fékk óskorað vald til að sjá um úttektir á verkum. Afleiðingin varð allt að því skelfileg aðallega í minni framkvæmdum, í minni byggingum. Á liðnum veltiárum hafa orðið til margskonar byggingarfyrirtæki sem hafa ætlað að græða í bólunni miklu, fengið lóðir og farið að byggja hús. Eigandinn varð sé út um tryggingu og fékk réttindi til að starfa sem Byggingarstjóri. Og þá hófst fúskið fyrir alvöru, Einhvernveginn tókst að útvega nöfn manna með meistararéttindi, þeir komu stundum ekkert nálægt byggingunum. Byggjandinn réði til sín einhverja menn, oft þótti gott að geta krækti í nokkra Pólverja sem hægt var að hýrudraga. Nú skal það skýrt tekið fram að fjölmargir Pólverjar hafa unnið hér í margvíslegum atvinnugreinum á undanförnum árum við góðan orstír. En starfsmennirnir voru oft, íslenskir sem útlenskir menn sem aldrei höfðu komið nálægt húsbyggingum fyrr. En hvað um úttektir og eftirlit hins opinbera? Byggingarstjórinn sá um að kalla til úttektar og samkvæmt Byggingarreglugerðinni frá 1998 þurfti hann ekkert að láta iðnmeistara vita, þeir höfðu ekki hugmynd um að risið var hús sem þeir báru vissulega talsverða ábyrgð á. Ekki er hægt að segja þessum iðnmeisturm neitt til afsökunar, þeir höfðu svo mikið að gera að þar kom tímaskorurinn og hraðinn vissulega til sögunnar. Annað sérkennilegra í ölli þessu kraðaki var aðstundum kom eitthvað upp á og þá kom í ljós að Byggingarstjórinn hafði aldrei komið á staðinn og vissi heldur ekki að þarna í mýrinni eða á melnum væri risið hús.

Afleiðingarnar eru fúsk

Það var kannski full mikið sagt í upphafi að hraðinn væri ekki hluti af orsökinni en hraði, þar sem menn hafa ekki tök á neinu, er ekkert annað en fúsk. Það er því sannarlega tími til kominn að taka Byggingarreglugerðina frá 1998 til gagngerðrar endurskoðunar. Taka aftur um gamla og góða siði og ábyrgð sem að mörgu leyti hafði reynst vel. Nú hefur heldur betur róast á byggingarmarkaði. Það á ekki að hika við að gera þá sem hlutina framkvæmdu ábyrga fyrir sínum gjörðum. Það væri jafnvel full ástæða til að Samtök iðnaðarins, innan þeirra vébanda eru atvinnurekendur, og Samiðn, þar eru iðnaðarsveinar, létu þetta til sín taka og gerður átak í því að saklausir kaupendur þyrftu ekki að hrekjast úr húsum sem þeir hafa keypt eða látið byggja. Og auðvitað eiga Byggingarfulltrúarnir að koma að þessum máli.

 


Fólk hrætt við svínaflensu, engin furða, fjömiðlar hafa magnað upp múgsefjun og móðursýki

Það kom fram í hádegisfréttum RÚV að fólk væri hrætt við svínainflúensu og fjölmargir eru að hringja inn til heilbrigðisstofnana, sóttvarnarlæknir er stöðugt í fréttum með hrakfaraspár  og sögur af bóluefninu ógurlega sem á öllum að bjarga. Það á að henda nær 1 milljón á hvern landsmann í þetta bóluefni og áfram halda fjölmiðlar, í hverjum fréttatíma ogí hverju blaði eru ógnvekjandi fréttir af svínainflúensu.

Ég hef aldrei upplifað aðra eins móðursýki í þjóðfélaginu eins og þessi endemi sem búið er að koma inn hjá fólki. Það gengur inflúensa á Íslandi á hverju hausti og líklega með þeim afleiðingum á hverju ári að einhverjir, sem eru veikir fyrir látast, svo er einnig nú. Það sem er sérkennilegt nú að flensan er kölluð ógnvekjandi nafni; SVÍNAINFLÚENSA.

Og hverjir standa á bak við þess móðursýki?

Ekki nokkur vafi. Það eru lyfjarisar sem nú láta allar kvarnir snúast dag og nótt, senda bóluefni til allra þeirra sem standa í biðröðum eftir að fá sprautur. Bóluefni sett á markað nánast áður en prófunum er lokið.  Jafnvel  það snemma að bóluefnið verði hættulegra en inflúensan.

Það var búist við því að upplýsingaþjóðfélagið mundi hækka þekkingarstuðul almennings, jafnvel stjórnvalda. En almenningur og stjórnvöld láta  blekkjast í fleiri og fleiri málum, það sem fer sem eldur í sinu um hinn upplýsta heim er ekki aukin þekking heldur miklu fremur múgsefjun.

Svínaflensan er ekki sjúkdómurinn hættulegi, miklu fremur múgsefjunin sem tekst að koma á eins og holskeflu um hinn upplýsta heim. 

Hinir fátæku sem eiga ekki mat, sem horfa á börnin sín deyja úr hungri, sem eru á stöðugum flótta frá vitskertum glæpamönnum sem myrða, nauðga og ræna, þar er umræðan ekki hin "stórhættulega svínaflensa". Þar er hið stöðuga verkefni að deyja ekki úr hungri og vatnsskorti eða  bjargast frá því að vera stunginn á hol af vitskertum drullusokkum.

En hvað kemur þetta okkur þetta við. Við erum í stórhættu að fá svínainflúensu, mikill fjöldi Íslendinga hefur tapað umtalsverðum peningum og hvað finnst Íslendingum meira virði en peningar, stór einbýlishús, nokkrir bílar á heimili, sólarstrandir og skíðapardísir.

Það verður hver að hugsa um sig, ekki satt!


Stuttur pistill til Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings

Þessi pistill var reyndar fyrst festur á skjá sem athugasemd við blogg Einars en svo ákvað ég að "afrita og líma", láta hann birtast í mínu eigin bloggi.

Ég var að heyra það eða lesa í fréttum að þú værir með bók í smíðum um þessi yfirgengilegu loftslagsmál. Það veitir sannarlega ekki af því að upplýsa, ekki aðeins almenning, heldur miklu fremur þá sem ráða meiru í okkar umboði, stjórnmálamenn. En ég er satt að segja svolítið svartsýnn á þín efnistök og hvers vegna er ég það? Fyrir nokkru var ég beðinn að koma með svolítinn fyrirlestur á fund hjá Rotaryklúbbnum Þinghóli í Kópavogi, var þar sem aldinn sagnaþulur að segja mönnum frá Kópavogi eins og ég upplifði hann frá því ég flutti þangað 1947 og næstu árin þar á eftir. Þú hafðir verið fyrirlesari hjá þessum klúbbi næst á undan og rætt um loftslagsmál. Það sem þú sagðir hafði ritari fært samviskusamlega til bókar og endursagði, satt best að segja var ég ekki sáttur við margt af því sem þar kom fram.

Ég var að fá stórmerka grein að mínu áliti í hendur úr Jyllands Posten eftir Henrik Svensmark sem ég er viss um að þú þekkir vel til. Þar er hann a skýra sínar kenningar um áhrif sólar og geimgeisla á hitastig jarðar, sú kenning kemur ekki síður fram í bók hans Klima og Kosmos (The Chilling Stars á ensku) Ég hef legið í þessum fræðum og kynnt mér kenningar sem flestra, fæ mikið af efni frá Dr. Fred Goldberg sem þú þekkir, ég sá að þú varst á fyrirlestri hans í Háskóla Íslands sl. vor. Má til með að skjóta því inn í að enginn fjölmiðill íslenskur fékkst til að ræða við Dr. Fred og ég veit líka að það vakti úlfúð í HÍ að hann skyld fá að tala þar, hann hefur ekki "réttar" skoðanir á loftslagsmálum.

Mín niðurstaða er þessi:

1. Það er ekkert beint samband milli aukningar CO2 í andrúmslofti og hækkunar hita á jörðinni, miklu frekar að aukning á CO2 sé afleiðing af hækkandi hita, sérstaklega frá hafinu sem er mesta forðabúrð fyrir CO2.

2. Það er hægt að gera sér grein fyrir hve mikið af CO2 í andrúmslofti er af manna völdum, það er ótrúlega lítið.

3. Það er hægt að gera sér grein fyrir því að hve mikið við getum minnkað CO2 í andrúmslofti með öllum þeim aðgerðum sem boðaðar eru með gífurlegri skattlagningu á atvinnulíf og þar með einstaklinga. Árangurinn yrði ótrúlega lítill.

4. Að láta frá sér fara yfrlýsingu um að "hitastig jarðar skuli ekki hækka meira en 2°C fram til 20050" er einhver mesta heimska sem frá stjórnmálamönnum hefur komið. Við mannlýsnar erum sem betur fer ekki færrar um að hafa nein teljandi áhrif á það.

5. Miðað við dvalarástand sólarinnar (minni sólbletti) sl. 2 ár á bendir allt til að jörðin sé að fara inn í kaldara ástand og líklegt að það standi fram yfir 2030. Staðreynd er að hiti á jörinnu hefur ekki farið hækkandi á þessum 9 árum sem liðin eru af öldinni.

6. Það er því skelfilegt til þess að vita að það sé búið að trylla nær alla stjórnmálamenn heimsins til að taka upp samskonar baráttu og Don Kíkóti háði við vindmillur í sögu Cervantes. Það var þó aðeins skemmtileg skáldsaga en gjörðir sjtórnmálamanna eru dýpsta alvara.

7. Það er kannski ekki furða þó Loftslagsnefnd  Sameinuðu þjóðanna, IPCC, remdist eins og rjúpan við staurinn með sínar spár um hækkandi hitastig út alla þessa öld, bráðnandi jökla og hækkun sjávarborðs. Þessi nefnd var sett á laggirnar til að sanna þetta en ekki til að finna það sem sannast er. Svo kom áróðursmeistarinn Al Gore með sína kvikmynd. Það hörmulegasta í öllu þessu sjónarspili var að honum og IPCC voru veitt Nóbelsverðlaun. Það liggur í augum uppi að þeir sem fengið hefur slík verðlaun geta ekki snúið til baka; þeir verður að berja höfðinu við steininn og halda sig við kenninguna, hvernig geta þeir sagt "þetta var að mestu leyti bull og vitleysa?


Sigmundur Davíð og Bjarni Ben. halda áfram í lýðskrumi og ábyrgðarleysi

Þá er líklega komið að lokapunkti Icesve samninga. Samningar munu hafa verið undirskrifaðir í dag, frumvarp lagt fram á Alþingi einnig, mælt fyrir því og það tekið til umræðna og afgreiðslu þar á eftir.

Það er með ólíkindum að lesa margt sem sagt er á blogginu um Icesve og það er einnig með ólíkindum að lesa og heyra viðbrögð foringja stjórnarandstöðunnar um þetta sama mál. Það er hægt að krefja stjórnmálaforingja um meiri ábyrgð og yfirvegun en einhverja bloggara þó mér ofbjóði orðbragð margra bloggara og svívirðingarnar sem dunið hafa á Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Það virðist sem svo að þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Ben. haldi að þeir geti komið þeirri skoðun inn hjá almenningi að Icesave skrímslið  hafi verið skapað af núverandi stjórn og stjórnarflokkum, Samfylkingu og Vinstri grænum.

En svo er aldeilis ekki. Það voru Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur sem  lögðu grunnin að þessu skrímsli. Þeir voru í ríkisstjórn árum saman og það voru þeir sem stjórnuðu einkavæðingu bankanna, sem að vísu var enginn einkavæðing. Bankarnir voru afhentir á spottprís vildarvinum flokkanna sem sumir hafa reynst einstaklingar sem ekki voru hæfir til að reka banka og eru  að verða uppvísir að fjárglæfrum sem engu tali tekur.

Ætlast þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Ben til þess að þeim verði aftur afhent völdin í þjóðfélaginu? Örugglega þrá þeir það heitast, þá gætu þeir jafnvel brugðið fæti fyrir það öfluga starf sem í gangi er til að fletta ofan af þeim þokkapiltum sem fengu bankana nánast gefna, það kann að verða æði óþægilegt fyrir þessa tvo flokka, Sjálfstæðisflokka- og Framsóknarflokk, ýmislegt sem á eftir að koma í ljós.


Ögmundur nýtur víðtæks stuðning hjá stjórnarandstöðunni sem er með allt niður um sig samkvæmt skoðanakönnun "capacent"

Ég hafði lengi vel trú á því að Vinstri grænir væru "stjórntækir", með þeim væri hægt að vinna. Kolbrún Bergþórsdóttir er æði hörð í þeirra garð í pistli sínum í Mbl. í morgun. En satt best að segja verð ég að játa að ég er að mörgu leyti sammála Kolbrúnu. Þau Steingrímur J. og Katrín Jakobsdóttir eru vissulega traustsins verð og meira að segja kom Álfheiður Ingadóttir nokkuð sterk út úr vinnu Fjárlaganefndar í sumar, það kom mér á óvart. En nú stendur Álfheiður frammi fyrir mestu áskorun sem hún hefur fengið, er orðinn Heilbrigðisráðherra.

Svo koma þau sem ekki virðist hægt að vinna með. Ögmundur er þar fremstur í flokki, hann reynir að færa flótta sinn úr ríkisstjórn í hugsjónabúning og höfðar títt til sinnar samvisku. Ég held að forystumaður einna stærstu launþegasamtaka landsins hafi hreinlega misst kjarkinn; að vera skyndilega orðinn niðurskurðarmeistari í viðkvæmasta málflokki stjórnsýslunnar, heilbrigðismálunum. Það er auðvitað svipað og setja mann, sem ekki þolir að sjá blóð, í að skera hausa af lömbum í sláturhúsi. Svo hef ég aldrei skilið neitt af því sem frá Guðfríði Lilju kemur, hún virðist lifa í einhverri útópíu algjörlega ófær um að ræða um og horfa á mál út frá raunsæi. Ekki veit ég á hvaða leið Ari Gíslason er, hann virðist vera fæddur til "að vera á móti". Ungi bóndinn úr dölunum Ásmundur Daði er holdgervingur gamla bændaafturhaldsins og hefði plumað sig vel sem framsóknarmaður um miðja síðustu öld.

Á þessari stundu er ég ekki bjartsýnn á framtíð núverandi Ríkisstjórnar, en ef hún splundrast innan frá hvað tekur þá við?

Um það ætti hið svokallaða "samvisku- og hugsjónafólk" Vinstri grænna að leiða hugann að um leið og það horfir, að eigin áliti, á engilhreinar ásjónur sínar í speglinum á hverjum morgni.


Stjórnarandstaðan fær skelfilega útkomu í skoðanakönnun "capacent"

Það er varla að maður trúi þeirri skelfilegu niðurstöðu sem stjórnarandstaðan fékk í skoðanakönnun "capacent". Þar var spurt:

"Ert þú ánægð(ur) eða ánægð(ur) með störf stjórnarandstöðunnar?

Heildarniðurstaðan er sú að 18% eru ánægð, 27% hvorki né og 51% óánægð.

Þessum niðurstöðum hefur lítt verið flíkað í fjölmiðlum. Eitt er víst að ef þetta væru niðurstöður um fylgi ríkisstjórnarmeirihlutans hefðu verið rekin upp mikil ramakvein og þess krafist að Ríkisstjórnin segði af sér tafarlaust.

En nú getur stjórnarandstaðan ekki sagt af sér, hún hefur sitt umboð frá kjósendum til að sitja á Alþingi og mun sitja sem fastast.

En hvað veldur þessari hrikalegu niðurstöðu fyrir stjórnarandstöðuna, það er vert að velta því fyrir sér.

Eftir hið skelfilega hrun er þjóðin óttaslegin og ráðvillt, það er  sannarlega skiljanlegt. Mikill meirihluti þjóðarinnar gerði þá kröfu til Alþingis og Alþingismanna að tekin yrðu upp ný vinnubrögð, steingelt karp lagt til hliðar og allir legðust á árar til að koma okkur sem fyrst upp úr kreppunni. Kosningarnar sl. vor gáfu Samfylkingunni og Vinstri grænum hreint og klárt umboð til að mynda ríkisstjórn og leiða uppbygginguna. Sjónarandstöðuflokkarnir fengu nýja forystu. Talsverðar vonir voru bundnar við nýju formennina, Bjarna Benediktsson hjá Sjálfstæðisflokki og Sigmund Davíð Gunnlaugsson hjá Framsóknarflokki.

Hafa þessir forystumenn breytt um vinnubrögð eða þeirra flokkar?

Það er nú eitthvað annað. Bjarni hefur verið ákaflega óöruggur og fálmandi í sinni forystu en hefur meir og meir verið að sækja inn á óraunsætt karp og yfirboð. Ég hafði vissulega trú á Sigmundi Davíð en ef einhvertíma hefur komist lýðskrumari inn á Alþingi þá er það hann. Þessir tveir menn hafa gefið tóninn um vinnubrögð stjórnarandstöðunnar. Þau vinnubrögð eru að reyna sífellt í öllum málum að koma höggi á Ríkisstjórnina. Það er oft æði auðvelt. Ríkisstjórnin tók við einhverjum mestu vandamálum sem nokkur ríkisstjórn á Íslandi hefur tekið við. Það er lítill vandi að fiska í gruggugu vatni, þessari stjórn hefur vissulega verið mislagðar hendur á stundum en verkefnið er tæplega mannlegt, hve lengi geta forystumenn stjórnarflokkanna risið undir hinni gífurlegu byrði sem þau bera?

Niðurstaða skoðanakönnunar "capacent" á traustinu sem fólk ber til stjórnarandstöðunnar lýsir skipbroti þessara tveggja forystumann, Bjarna og Sigmundar Davíðs. En þeir hafa með forystu sinni dregið fram lýðskrum margra flokksfélaga sinna. Fremstir fara þar Höskuldur Þórhallsson í Framsóknarflokki og Birgir Ármannsson í Sjálfstæðisflokki. En það er líka athyglisvert að sumir af þingliði þessara flokka láta ekkert í sér heyra.

En eru ekki stjórnarandstöðuflokkarni þrír?

Vissulega, þriðji flokkurinn sem var afsprengi Pottlokabyltingarinnar, Borgarahreyfingin, fékk fjóra þingmenn í síðustu kosningum. Þetta var flokkur sem ætlaði að bæta siðferðið á vinnubrögðin á Alþingi og í stjórnsýslunni. En hvernig stendur þá á því að þegar aðeins hált ár  er liðið frá kosningum hefur þessi flokkur, Borgarahreyfingin, engan mann á þingi?

Ástæðan er einfaldlega sú að þessir fjórir Alþingismenn Borgarahreyfingarinn reyndust gjörsamleg heillum horfnir, vissu ekkert hvað þeir vildu annað en að rífast, kljúfa og ganga á bak orða sinna. Er það sú siðbót sem við höfðum mesta þörf fyrir?

Innkoma þessar fjórmenninga á Alþingi íslendinga er orðinn skrípaleikur, jafnvel harmleikur. Störf á Alþingi eru svo mikilvæg fyrir þjóðina að þar er ekki rúm fyrir neina sirkustrúða. Þessir fjórir einstaklingar geta aðeins gert þjóð sinni einn greiða, mikill greiða.

Að segja af sér þingmennsku á stundinni!!!

En þroski þjóðarinnar er á hærra stigi en ég þorði að vona. Almenningur hefur lýst vantrausti á hina nýju forystumenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þá Bjarna Benediktsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson að ekki sé talað um þá fjóra sirkustrúða sem skolaði inn á Alþingi á vegum flokksins sáluga, Borgarahreyfingarinnar. Íslenska þjóðin krefst ÁBYRGRA vinnubragða af öllum stjórnmálamönnum, að sjálfsögðu af þeim sem eru í meirihluta á Alþingi en ekki síður af þeim sem er í stjórnarandstöðu.

Ætlar stjórnarandstaðan að halda áfram á sömu braut lýðskrums og upphrópana eða ætlar hún að taka upp virðingarverð, öguð og árangursrík vinnubrögð?

 

 


Drullusokkar og dusilmenni

Brauðið er komið í vélina og hún er byrjuð að marra. Það er aðeins hlé þangað til mitt gamla félag, Breiðablik, hefur baráttuna um bikarinn í annað sinn. Man en snjókornin sem féllu á Meðalvellinum þegar Breiðablik barðist við Víking og varð að játa sig sigrað 1971. Og svo eru það stelpurnar á morgun.

En fyrirsögnin þessa pistils getur tæplega átt við þessar hugleiðingar um brauðbakstur og Breiðablik, nei aldeilis ekki.

Kveikjan að þessum orðum "drullusokkar og dusilmenni" kviknaði í mínum kolli við hlustun hádegisfrétta. Þar var enn sagt frá "drullusokkum og dusilmennum" sem læðast um í náttmyrkri og ausa málningu og þaðan af hættulegri efnum á saklaus hús sem kannski hýsa ekki saklausa einstaklinga. Það nýjasta er að ausa eitri yfir bíla til að eyðileggja á þeim lakkið. Þetta á víst að vera myndbirting þeirrar reiði sem eðlilega grasserar í þjóðfélaginu.

En er það svo?

Langt frá því. Hér eru á ferðinni hugsjónalaus dusilmenni og drullusokkar sem notfæra sér ástandið í þjóðfélaginu til að fá útrás fyrir sjúklegar hvatir. Það er ráðist á þá sem eru mest í umfjöllun fjölmiðla, svokallaða útrásarvíkinga. En þeir teygja sig lengra. Hjörleifur Kvaran forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og Rannveig Rist forstjóri Álversins í Straumsvík stýra hvort fyrir sig þjóðþrifafyrirtækjum sem hafa á undanförnum árum skapað þjóðarbúinu miklar tekjur. En þau eru áberandi í umræðunni, þess vegna verða þau fyrir barðinu á dusilmennum og drullusokkum sem druslast um í náttmyrkri með sjúkan hug.

Auðvitað eru þessar árásir allar óþolandi en mér finnst jafnvel ennþá alvarlegri afstað fjöldans til þessara mála. Það er sama afstaðan og kom sterkt fram í "búsáhaldabyltingunni". Þar var lagt að jöfnu sterk ávörp á Austurvelli og árásir á lögregluna, skemmdarverk á húsum svo sem Alþingishúsinu og Stjórnarráðshúsinu. Jafnvel Alþingismenn mæltu þeim drullusokkum og dusilmennum bót sem réðust inn á Hótel Borg á gamlársdag, eyðilögðu útsendingarbúnað og börðu þannig niður málfrelsi og réttinn til að tjá sig.

Nú er kominn tími til að kosta nokkru til að hafa hendur í hári drullusokka og dusilmenna þeirra sem nú eru komnir á þá ystu brún að verða hættulegir lífi og limum alsaklauss fólks.

Því miður virðist það vera ríkt í íslenskri þjóðarsál að viðurkenna möglunarlaust ýmislegt sem er ekkert annað en ræfildómur og hræsni. Það er nóg að segjast vera kristinn, þá er það tekið gott og gilt hvaða endemisboðskapur sem fluttur er, allir sem mættu á Austurvöll voru teknir gagnrýnislaust í hópinn af pottlokafólki og fjölmiðlum, skipti ekki máli þó þeir gengu svo langt að skaða einstaklinga í lögreglunni sem voru á yfirvegaðan hátt að sinna skyldustörfum.

En þetta gengur ekki lengur, brauðinu líður vel en Breiðablik er að hefja baráttan um BIKARINN.

Nú verða þeir að vinna!!! 


Varasamar skotgrafir

Eftirfarandi athugasemd gerði ég við skrif Eyþórs Arnalds foringja Sjálfstæðismanna í Árborg. Ég nota sömu fyrirsögn og hann og vona að hann og aðrir Sjálfstæðismenn fari nú að líta í eigin barm, gangast við sínum verkum og biðjast afsökunar. Ég get einnig bætt því við að fjölmargir Sjálfstæðismenn hafa verið miklu svæsnari,  óbilgjarnari og orðljótari en Eyþór.

Persónulegar árásir einkenna umræðu og skrif.

 Þetta segir þú Eyþór Arnalds að framan og engan hittir það jafn rækilega fyrir og sjálfan þig. Frá því flokkur þinn, Sjálfstæðisflokkurinn, hrökklaðist frá völdum eftir langt valdatímabil þar sem þessum sama flokki tókst að leggja grundvöllinn að hruninu mikla með einkavinavæðingu bankanna og nýfrjálshyggju þá hefur þú og fjölmargir flokksfélagar þínir meira farið eftir þessu mottói sem ég vitna í:

Persónulegar árásir einkenna umræðu og skrif. 

Í stað þess að sýna auðmýkt og biðja Íslenska þjóð afsökunar á framferði ykkar stundið þið einmitt að sem þú segir. Þið fiskið í gruggugu vatni í öllum málum, haldið að það sé leiðin til að komast aftur til valda.

Er almenningur svo skyni skroppinn að hann láti glepjast?

Þið Sjálfstæðismenn hafið sloppið ótrúlega vel. Þið er ráðist á núverandi Ríkisstjórn vegna ICESAVE en hverjir bjuggu þann óskapnað til? Það voru þeir sem Sjálfstæðisflokkurinn rétti Landsbankann á silfurfati (þar með talinn framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins) og þessir útvöldu óreiðumenn  áttu ekki einu sinni fyrir útborguninni, slógu lán í Búnaðarbankanum og  ætlast nú til að eftirstöðvarnar verði afskrifaðar!!!

Við skulum ekki gleyma því að það var núverandi ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrum Seðlabankastjóri sem kom þeim banka, sem átti að var bakhjarl íslensks fjármálalífs, á svo kaldan klaka að hann varð gjaldþrota. Ríkisstjórnin neyddist til að byggja Seðlabankann aftur upp með 300 milljarða kr. framlagi, það var og er skelfileg blóðtaka sem við öll súpum seiðið af.

Og þennan mann vörðuð þið með kjafti og klóm og gerið enn og nú hefur hann yfirtekið Morgunblaðið til að gera það að málpípu harðasta kjarnans úr Sjálfstæðisflokknum sem ábyrgð ber á hruninu.


Hiti á hnettinum hefur ekki aukist frá aldamótum, ísinn á Norðurslóðum eykst

Rajendra Pachauri, formaður IPCC, Intergovernmental Panel on Climate Change, loftlagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, var hér í heimsókn í boði Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands. Rajendra hélt fyrirlestur í hátíðarsal Háskóla Íslands, því miður gat ég ekki verið viðstaddur þann atburð enda æði fyrirsjáanlegt hvað Rajendra mundi segja eins og kom í ljós í viðtalinu sem Egill tók við hann og birti í Silfrinu í gær.

IPCC var ekki stofnað til að finna það sem sannara reynist heldur bókstaflega eins og segir í stofnskránni:

"að sýna fram á að maðurinn er með sínum gjörðum að breyta loftslagi heimsins"

og sú breyting, skv. kenningum IPCC er að maðurinn með kolefnisbruna og aukningu á koltvísýringi CO2 sé að hækka meðalhita jarðar.

IPCC og Al Gore fyrrum varaforseti Bandaríkjanna fengu friðarverðlaun Nóbels fyrir starf sitt.

Þessar kenningar, um að maðurinn sé að hækka meðalhita jarðar og ís á skautum og jöklar séu á hröðu undanhaldi, er grundvöllurinn fyrir Nóbelsverðlaununum svo það er ekki undarlegt þó öllum vísindamönnum, og þeir eru fjölmargir, sem halda fram gagnstæðum skoðunum, sé ekki hleypt inn á ráðstefnurnar í Kyoto, Bali, Posnan og líklega verður það sama upp á teningnum  á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn nú í desember. Það er svo sem mannlegt að þeir sem hafa fengið Nóbelsverðlaun fyrir kenningar geti ekki dregið þær til baka heldur halda þeir áfram að predika sína trú, sumir líklega gegn betri vitund.

Þetta línurit var lagt fram á ársfundi Geografist Forening í Noregi fyrir skömmu og sýnir þróun meðalhita sl. öld. Það hefur verið hamrað á því að hiti hafi stöðugt verið að hækka alla 20. öldina. Það er rangt. Það má skipta öldinni hvað þetta varðar  í fjögur tímabil 20 - 30 ára. Þarna má sjá hve hiti féll frá 1947 - 1979 en þá fór að hlýna. Skv. þess línuriti hefur hiti ekki hækkað á þessari öld þó hiti hafi rokkað upp og niður milli ára. Enda erum við illi heilli líklega að fara inn í tímabil fram til 2030 þar sem hiti mun ekki hækka heldur falla. Það getur haft erfiðleika í för með sér fyrir okkur hérlendis svo sem í akuryrkju og hafís kann að aukast við landið.

Baráttan gegn CO2 er því sannkallaður "vindmylluslagur", skaðlegur vindmylluslagur.

Hiti síð. aldar

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Ís á Noðrurskauti

 

 

 

 

 

 

 

 Það hefur lítið farið fyrir sjónarmiðum andstæðum kenningum IPCC hérlendis en í nágrannalömdum fá andstæð sjónamið að koma fram í fjölmiðlum. The Telegraph í Bretlandi birti grein um þá staðreynd að ísbreiðan á Norðurslóðum er að aukast, ekki að minnka eins og IPCC heldur fram. 

Það var því ljótur leikur þegar flogið var með Ban-Ki-moon framkvstjr. SÞ til Svalbarða til að sýna honum sumarbráðnun íss þegar hún er í hámarki í september. Ban-Ki-moon beit á agnið og hélt hjartnæma ræðu um að þarna mætti sjá mannanna verk, maðurinn væri að bræða íshelluna á norðurslóðum!!!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband