14.11.2009 | 14:55
Sóðalegasti sorakjaftur landsins orðinn framlenging á penna Davíðs Oddssonar
Morgunblaðinu var bjargað frá gjaldþroti og útrýmingu og flestir héldu að tækifærið yrði notað til að efla blaðið sem víðsýnan fréttamiðil þar sem allir gætu komið skoðunum sínum á framfæri, en svo varð aldeilis ekki. Það mátti sjá hvað klukkan sló þegar hinn afdankaði forsætisráðherra og seðlabankastjóri, Davíð Oddsson, var gerður að ritstjóra. Var furða þó sá grunur læddist að mörgum að þarna ætti "sá fyrrverandi" að fá tækifæri til að naga og stinga fyrrum andstæðinga, en ganga svo einnig vasklega fram í því að verja í líf og blóð mesta rán Íslandssögunnar, ránið á fiskinum í sjónum, gjöfinni til gæðinganna. Ekki síður að berjast hatrammlega gegn endanlegri könnun á því hvað biði okkar í Evrópusambandinu sem ekki er hægt að fá úr skorið nema með því að sækja um aðild og fara í alvöru aðildarumræður. Þetta mátti ekki gerast, koma kynni í ljós í þeim umræðum að hag okkar yrði tvímælalaust betur borgið innan ES en utan.
Það er staðreynd að fjölmargir mótmæltu strax og sögðu blaðinu upp. Ég var ekki einn af þeim, ég var pistlahöfundur Morgunblaðsins í 16 ár og fann ætíð gott viðmót þar meðan Styrmir Gunnarsson var ritstjóri. Ég vildi sjá hver þróunin yrði, Morgunblaðið og morgunkaffið hafa í mörg ár verið óaðskiljanleg, erfitt að skera á þau bönd. Kannski mundu hraklegustu spár ekki rætast.
En nú er svarið komi. Það mátti auðvitað vera sterk vísbending að hlutdrægasti fjölmiðlamaður landsins, Agnes Bragadóttir, fékk að að sitja áfram við sína Gróu á Leitis tölvu í ritstjórninni. En ég var enn með svolitla von; kannski mundi Eyjólfur hressast.
En endanlega svarið kom í morgun laugardaginn 14. nóv. árið 2009.
Á þeim degi birtist í Morgunblaðinu nýr pistlahöfundur, greinilegt að það var kominn nýr "Laugardagspistill" og höfundur hans er persóna sem nefnist Sverrir Stormsker. Ritstjóri sem velur sér til hjálpar sóðalegasta sorakjaft þessarar þjóðar hlýtur að hafa með því ákveðinn tilgang.
Sá tilgangur er augljós.
Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins er lagður í krossferðina; að lemja niður þá sem hann telur að verði að jafna um, fólk sem hann stundum fann fyrir minnimáttarkennd gagnvart. Já vissulega ótrúlegt að ætla að Davíð Oddsson viti hvað minnimáttarkennd er, en sú kennd leynist víða og birtingarmynd hennar er oft andstæðan.
En Davíð Oddsson leggur ekki í það að koma framundir eigin nafni þegar sorinn skal vera sem mestur; hann fær sér leiguþý og sá fyrsti í þeim hópi er Sverrir Stormsker, vart hægt að fá hæfari mann til verksins. Engum kemur á óvart að fyrsti einstaklingurinn sem sorakjafturinn skal níða niður er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Níðgrein Sverris Stormskers (SS) um Ingibjörgu Sólrúnu er algjört einsdæmi í nútímanum, slíkt níð hefði jafnvel þótt fulllangt gengið á hinum margumtöluðu Hriflutímum sem svo eru nefndir og var þó Jónas frá Hriflu ekkert verri í skrifum sínum þá en margir aðrir sem voru á þeim dögum í pólitíkinni.
Ég vil benda alþjóð á að þegar þessi soragrein er lesin ættu lesendur að gera sér grein fyrir því að Sverrir Stormsker (SS) er ekkert annað en leiguþý. Þessi soragrein er á ábyrgð ritstjórans Davíðs Oddssonar og ekki nokkur vafi að hún er skrifuð að hans undirlagi og með hans velþóknun. Ég tel fullvíst að Sverrir Stormsker (SS) hafi verið fenginn ganggert til að vinna þetta verk; alt bendir til að næstu laugardaga verði framhald á skítkastinu og fyrrum andstæðingar Davíðs Oddssonar rakkaðir niður af orðljótasta manni landsins, sá mun gelta þegar honum verður sigað.
Þessi grein skiptir sköpum fyrir mig. Ég mun á eftir senda Morgunblaðinu uppsögn á áskrift til áratuga. Ég vona að sem flestir fari að dæmi mínu og segi blaðinu upp. Það þarf að fá þá ráðningu sem það á skilið. Það endar líklega sem sorppollur sem gamall uppgjafapólitíkus notar til að ná sér niður á þá sem áttu í fullu tré við hann.
Það munu verða endalok Morgunblaðsins.
14.11.2009 | 11:55
Hversvegna ekki taka skattinn strax við inngreiðslur í lífeyrissjóði?
Einn bloggari fór mikinn í morgun uppfullur af hneykslun á því að það eigi að skattleggja lífeyrissjóðina.
Það hefur ekki nokkrum manni dottið í hug.
Hinsvegar eru allar greiðslur manna í lífeyrissjóði, bæði frá sjóðfélaganum og mótframlag atvinnurekandans, skattlögð. Í dag eru þær skattlagðar við útgreiðslu, allir sem fá greitt úr lífeyrissjóði verða að greiða skatt af þeim greiðslum. Þetta er ekki skattlagning á lífeyrissjóðina heldur á þær greiðslur sem sjóðfélaginn fær.
Þó ég sé Samfylkingarmaður og eindreginn stuðningsmaður núverandi Ríkisstjórnar á finnst mér að það þurfi að skýra það betur fyrir almenningi af hverju tillaga Sjálfstæðismanna um að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði í stað útgreiðslur er ófær leið, á endanum verður þetta skattlagt og er ekki nema eðlilegt.
Einhverstaðar var kippt í spottann og Sjálfstæðismenn voru ekki staðfastari en það að þeir fylgdu málinu ekki eftir. Ég sá einhversstaðar sagt að þetta gæfi Ríkissjóði 40 milljarða árlega, það væri ekki svo lítið upp í hið margumrædda fjárlagagat og mundi lina stórlega þá þungu skattbyrði sem verið er að leggja nú á þjóðina.
Fullyrðingar Steingríms fjármálaráðherra að með skattlagningu á inngreiðslur sé verið að taka frá framtíðinni og afkomendum okkar skil ég ekki, lífeyrisþeginn fær sitt, hann tapar engu og sem eldri borgari væri það sálrænt jákvæðara að fá þá litlu greiðslu sem ég fæ úr lífeyrissjóði að fullu, skatturinn afgreiddur fyrir löngu.
Hinsvegar verða vaxtatekjur lífeyrissjóðanna lægri og veltan minni við skattlagningu á inngreiðslur, þeir fá ekki tækifæri til að ráðskast með skattpeninga þjóðarinnar ártugum saman og eyða í yfirgengilegan rekstrarkostað og bruðl við stjórnun lífeyrissjóðanna.
En Steingrímur, mig vantar skýringar á orðum þínum og afstöðu.14.11.2009 | 11:21
"Marteinn" með því ömurlegasta sem sést hefur í Sjónvarpinu
Sat heima í gærkvöldi og horfði á sjónvarpið öðru hvoru. Hafði ekki séð fyrsta þáttinn af "Marteini" gamanþætti sem tekinn er skv. amerískum staðli, áhorfendur eru viðstaddir upptökur, í gamanþætti er þá treyst á að ekki þurfi að nota niðursoðin viðbrögð eða hlátur, það á að eftirláta hverjum og einum áhorfanda að ákveða viðbrögðin.
Það er skemmst frá því að segja að þarna var á ferðinni "gamanleikur" sem var bara alls ekkert gaman að horfa á. Ekki vantaði góða leikkrafta en eins og ég sagði í umfjöllun (og lofi) um "Hamarin", kvikmyndir og sjónvarpsleikrit standa og falla með góðu handriti. Í "Marteini" var reynt að raða saman aulabröndurum og fyrirmyndin var svo amerísk að útidyrnar eru í stofunni, nokkuð sem er óþekkt fyrirbrigði á Íslandi.
10.11.2009 | 12:21
Hversvegna var frítekjumark aldraðra lækkað?
Aldrei hefur nokkur Ríkisstjórn á Íslandi barist við viðlíka erfiðleika og sú ríkisstjórn sem nú situr. Ég er eindreginn stuðningsmaður stjórnarinnar og það verður að styðja hana með öllum ráðum út kjörtímabilið. Ef vel tekst til getur samstarf núverandi stjórnarflokka orðið lengra. Ég hef hér á undan í blogginu lagt út af þeirri bábilju að Samfylkingin eigi að hverfa að samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Framsóknarflokkurinn hefur gjörsamlega klúðrað því tækifæri sem hann fékk til að endurnýja sig.
En þó maður styðji stjórnina er ekki þar með sagt að hún eigi ekki að fá gagnrýni frá stuðningsmönnum sínum. Enn og aftur kemur það í ljós að þeir sem eru á miðjum aldri og yngri, jafnvel þó yfir miðjum aldri séu, hafi harla lítinn skilning á kjörum aldraðra. Þetta er að koma í ljós aftur og aftur. Ef gengið er á kjör þess sem er þrítugur á hann alla möguleika á að hann geti náð einhverri leiðréttingu, en hvað um þann aldraða?
Ég hélt upp á 75 ára afmæli mitt nýverið, fékk margar góðar gjafir og óskir. En ég fékk eina gjöf frá þeirri Ríkisstjórn sem ég styð sem setur mikið strik í mínar áætlanir sem geta engan veginn verið á sömu lund og þess þrítuga, hann á reikningslega séð ótal tækifæri í framtíðinni, það á ég tæplega. Ég er af þeirri kynslóð sem þekkir það að engir lífeyrissjóðir voru til. Ég er líka af þeirri kynslóð sjálfstætt starfandi einstaklinga sem ekki fóru að sinna lífeyrisgreiðslum fyrr en alltof seint, ekki fyrr en lögboð kom þar um. Hins vegar er ég þó nokkuð hress og tel mig búa yfir nokkuð mikilli þekkingu í mínu fagi, en ég titla mig nú sem vatnsvirkjameistara & orkuráðgjafa og það er það síðarnefnda sem ég hafði hugsað mér að stunda þó nokkuð meðan ég hef möguleika til.
Það sem gerði mig bjartsýnan á að svo gæti verið var sú ákvörðun fyrri ríkisstjórnar að hækka frítekjumarkið upp í 1.300.200 kr. á ári, það gaf mér ástæðu til að ég gæti gert gagn sjálfum mér og öðrum án þess að tapa nokkru í þeim tekjum sem ég hef frá TR og lífeyrissjóðum upp á næstum því 125.000 kr!!!
En Adam var ekki lengi í Pardís. Núverandi Ríkisstjórn lækkaði frítekjumarkið og það ekki um neitt smáræði.
Það er komið niður í 480.00 kr. á ári!
Þegar þessi staðreynd blasti við mér sá ég að það væri ekki mikið sem ég gæti unnið og miðlað af minni tækniþekkingu, sem þó er ekki lítil þörf fyrir, og ég ætla að fullyrða að sé þjóðhagslega hagkvæm. Ég mætti ekki hreyfa mig mikið svo þessar litli lífeyrir sem ég fæ færi ekki að skerðast. Ef ég væri nógu harður af mér gæti ég farið að fullu út á vinnumarkaðinn aftur og reynt að afla mér þeirra tekna að ég geti sleppt þessum lífeyriskrónum. En satt að segja er það æði mikil ákvörðum fyrir þann sem orðinn er 75 ára gamall og tæplega fær leið. Þá er ekki annað en að þiggja þennan lífeyri og reyna svo að sitja sem mest heima og afla ekki umframtekna.
Nú nokkur orð til þín minn gamli samborgari úr Kópavogi Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra.
Ég get engan vegið skilið það að þessi harkalega lækkun á frítekjumarki aldraðar skili nokkrum tekjum til Ríkissjóðs, það getur einmitt virkað öfugt. Ég hef að framan rakið nokkuð í hvaða gildru mér finnst ég vera fallinn. Það þýðir ekkert að segja við mann á mínum aldri að þetta verði lagað eftir nokkur ár, segjum 5 ár. Ég tel frekar ótrúlegt að ég sé svo mikið út á vinnumarkaði þá, verði bara að þrauka í þeirri fátækragildru sem ég sé framundan. Ég held að áhrifin af þessari mjög svo mistæku ákvörðun Ríkistjórnarinnar, að svipta aldraða þeirri lífsfyllingu að geta að nokkru aflað sér meiri tekna og vera aðeins út á meðal fólksins, gefi Ríkissjóði ekki nokkrar auknar tekjur.
Árni Páll, þú ert ungur og á þeim aldri skiljum við ekki eldra fólkið, það gerði ég ekki á þínum aldri. Ráðherrar eiga að fá ráðgjöf sem víðast að.
Gleymdu því ekki að "oft er gott sem gamlir kveða".
9.11.2009 | 21:16
Varnaðarorð um Landsspítalann í tíma töluð
Því miður setti ég það ekki á mig hvað konan hét sem kom í Silfur Egils í gær og varaði eindregið við því gönuhlaupi að ætla að byggja nýjan Landspítala á gömlu Hringbrautinni. Mér hefur lengi verið það ljóst að það er yfirgengileg vitleysa að byggja spítalann út frá gamla spítalanum.
Rökin eru margskonar en nefnum þau helstu:
Umferð til og frá spítalanum kollvarpar endanlega því gatnakerfi sem fyrir er. Það verður að grafa bílagöng undir Öskjuhlíð, önnur undir Þingholtin. Það leysir þó ekki vandann, allar leiðir til austurs teppast á morgnana og aftur eftir vinnudag.
Að ætla að endurbyggja gömlu húsin, hið formfasta hús Guðjóns Samúelssonar og alla kofana sem hefur verið raðað þar í kring hver öðrum ljótari, er eitt af því sem er eins mikið óráð og nokkuð getur verið óráð.
Ný bygging á "frjálsum" stað í útkanti borgarinnar er tvímælalaust það sem er skynsamlegast.
Hvers vegna ekki í nánd við Vífilstaði?
Í nýjum spítala skipulögðum frá grunni þar sem ekkert gamalt og úr sér gengið er að þvælast fyrir gæti einnig orðið til þess að öll vinna innanhúss yrði skipulagðari, það er ekki nokkur vafi á að hluti af vanda spítalans er nú léleg afköst vegna slæms og óhentugs húsnæðis en það er fleira að.
Skipulag verka innan spítalans eru sumstaðar mjög slæmt þar sem gamlir kóngar og drottningar ráða ríkjum, tví- og þríverknaður er þar því miður allt of algengur.
En þetta er mein sem ekki má tala um!
9.11.2009 | 20:53
Umburðarlyndi, trúartákn og tóbaksreykingar
Ég held því fram að ég sé nokkuð umburðarlyndur en veit vel að ýmsir sem mig þekkja eru ekki sammála þessu eigin áliti. Ég er það sem kallað er trúlaus, ekki heppilegt orð, en minn skilningur á því að þeir sem trúlausir eru trúa ekki á neina guði. En auðvitað er enginn trúlaus, ég vil trúa á mína samvisku og það góða sem við getum sýnt öðrum og ekki síst sjálfum sér, það eykur vissulega eigin vellíðan. Því miður er þjóðkirkjan sífellt að smeygja sér inn í skólana, hún ætti að sjá sóma sinn í að koma þar hvergi nærri. Ef hún fær leyfi til þess á Ásatrú, Íslam, Búddatrú og auðvitað öll trúarbrögð að sitja þar við sama borð. En hver yrði afleiðingin?
Skelfilega fyrir ung börn, áhrifagjörn eins og öll ung börn eru.
En hvað um trúartáknin?
Mér er nákvæmlega sama þó sá sem ég ræði við er með kross í festi um hálsinn, eða hvort ung stúlka er með fallega slæðu um höfuðið. Þannig voru allar íslenskar kaupakonur til sveita langt fram eftir síðustu öld, þá var ekki í tísku a sólbrenna sér til skaða.
Ég við þess vegna ekki amast við trúartáknum, það á að vera ákvörðun hvers og eins hvort hann/hún ber þau eða ekki.
Ég var að halda því fram að ég væri umburðarlyndur. Ég hætti alfarið að reykja 1969, það var einhver besta ákvörðun sem ég hef tekið. Ég tók meira að segja uppáhaldspípuna mína og splundraði henni í skrúfstykki. Tóbaksreykur fer líka mjög mikið í taugarnar á mér, ég vil vera alfarið laus við hann. Samt sem áður tel ég að með lögum og reglugerðum sé gengið allt og langt á réttindi reykingamanna. Þeir eru að nota vöru sem er leyfð, já meira að segja seld í einkaleyfi útgefnu af ríkinu.
Ég flaug heim frá Danmörku sl. sumar, flaug frá Billund en þangað hafði ég aldrei komið áður. Þar sá ég einstaklega vel út fært afdrep fyrir reykingamenn þar sem þeir gátu setið milli tveggja glerveggja, verið í sambandi við lífið í flugstöðinni og reykt sitt tóbak án þess að nokkur yrði var við það, sterkt útsog bar burt bæði reyk og lykt.
Verum umburðarlind gagnvart trúuðum, leyfum þeim að bera sín trúartákn, gerum reykingamönnum kleyft að soga sitt eitur, það er ekki brot á lögum, aðeins að þeir láti aðra ekki gjalda sinna afglapa.
9.11.2009 | 12:20
Hægrikrati enn á ferð
Það er óralangt síðan síðasti Geirfuglinn hvarf af jörðu hér. Það er styttra síðan til var sérstök pólitísk tegund sem nefndust "hægrikratar". Þeir voru með flokksskírteini í gamla Alþýðuflokknum en völdu sér bólstað þétt upp við landamærin sem lágu að Sjálfstæðisflokknum. Lítið mátti út af bregða svo þeir færu ekki út um bakdyramegin þegar mikið lá við og skiluðu stundum atkvæðum sínum í kassa Sjálfstæðisflokksins. Sérstaklega stunduðu þeir þetta í Borgarstjórnarkosningum í Reykjavík, héldu þar Sjálfstæðsiflokknum við völd árum saman.
Satt best að segja hélt maður að þessi tegund pólitíkusa væri útdauð eða þannig. Sumir fóru yfir svo sem Gísli bæjarstjóri á Akranesi. Að vísu var hann keyptur yfir með þægindi ágætu sem hann settist þegar í og var hvorki meira ná minna en bæjarstjórastóllinn á Akranesi. Og þar virðist Gísli una hag sínum vel og vonandi verður hann þar áfram, enginn býst við honum yfir landamærin aftur.
Það er til einn Geirfugl hérlendis, reyndar uppstoppaður í Náttúrugripasafninu. En það er líka til einn ósvikinn "hægrikrati" ekki uppstoppaður og sprelllifandi.
Það er Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður á Morgunblaðinu og bókmenntaspekingur í Kiljunni.
Kolbrún segist vera búin að fá nóg af upphlaupsliði Vinstri grænna sem séu aftur og aftur tilbúnir til að taka stjórnarflokana í gíslingu. Vissulega er talsvert til í þessu hjá Kolbrúnu en hún sér ljósið og er greinilega búin að setja upp gömlu hægrikrata gleraugun. Hennar framtíðarsýn er að Samfylkingin slíti stjórnarsamstarfinu við Vinstri græn en myndi á stundinni aðra ríkisstjórn.
Hún vill fá aftur Þingvallamynstrið, að Samfylkingin myndi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Ja, þvílík framtíðarsýn!!!
Á Samfylkingin að ganga til samstarfs aftur við Sjálfstæðisflokkinn sem ber höfuð ábyrgð á hruninu mikla í október 2008? Á virkilega að horfa fram hjá því að Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn í herðar niður í mörgum málu?. Á að gleyma því að enn ríkir andi Davíðs Oddssonar yfir flokknum? Á að horfa framhjá því að þeir í flokknum sem eru jákvæðir gagnvart samningum við Evrópusambandið er haldið niðri hvað sem það kostar? Á að horfa fram hjá því að útgerðarauðvaldinu var færður allur fiskveiðikvóti Íslands til eignar, til að braska með, til að veðsetja hvarvetna þar sem einhverja peninga var að fá?
Ef Samfylkingin vill fremja pólitískt harakiri þá fer hún í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. En það verður ekki, ég held að Kolbrún sé síðasti hægrikratageirfuglinn.
9.11.2009 | 11:06
Mikilvæg ábending frá Guðmundi Ólafssyni hagfræðingi
Viðtalið við Guðmund Ólafsson hagfræðing og háskólakennara í Silfri Egils var með því athyglisverðasta sem þar hefur komið fram lengi. Þar benti Guðmundur skilmerkilega á að það hafa spekingar og hagfæðingar verið iðnir við að mála skrattann á vegginn um erlendar skuldir þjóðarbúsins. Ekki vildi hann nefna nein nöfn "málaranna" en Egill spurði hvort hann ætti við Gunnar Tómasson hagfræðing í NY og Lilju Mósesdóttur þingmann VG. Málið snýst einfaldlega um það að meirihluti erlendra skulda eru skuldir einkaaðila, ekki ríkisins og geta því aldrei fallið á ríkið eða almenning. Einn fjórði skuldanna er skuld eins félags sem raunar er víst eignarhaldsfélag. Ef lántakandi getur ekki borgað skuldina þá er það skaði hinna erlendu lánardrottna sem voru svo skyni skroppnir að lána íslenskum eignarhaldsfélögum peninga.
Þó Guðmundur vildi hvorki nefna nein nöfn um hverjir séu iðnir við að mála myndir af skrattanum þá þykist ég muna að þeir tveir fyrrnefndu hagfræðingar hafi rætt um það opinskátt að framundan væri greiðsluþrot Ríkissjóðs. Því miður eru enn að koma upp mál þar sem stjórnvöld gefa almenningi upplýsingar ekki nógu ítarlega og þeim fylgt eftir af krafti.
Lilja Mósesdóttir er einn af þessum nýju þingmönnum sem telja það vera farsælast til að gera sig gildandi að spila einleik. Lilja hefur lýst því yfir að hún muni ekki styðja lausn ICESAVE málsins sem hangir stöðugt yfir. Ekki veit hún hvort hún muni sitja hjá aða greiða atkvæði á móti. Hefur Lilja Mósesdóttir gert sér grein fyrir hvað tekur við ef Alþingi fellir ICESAVE samninginn? Það var hátt hrópað á Austurvelli síðasta vetur að leiðin út úr ógöngunum eftir fallið væri að setja alla þáverandi þingmenn af og fá nýja einstaklinga inn á þing. Lilja Mósesdóttir er einn af "nýliðunum" og hefur ekki unnið af ábyrgð og oft sett fram sjónarmið eins og Þór Saari sem ber ekki gott vitni um að þau nýti sér é réttan hátt þá menntun sem þau hlutu. Þá er ekki hægt annað en nefna Sigmund Davíð og Vigdísi Hauksdóttur sem nýja upphlaupskandídata og æði ábyrgðarlausa. Höskuldur Þórhallsson fylgir þeim dyggilega eftir þó hann sé ekki nýliði á þingi. Vigdís birti greinarstúf í Morgunblaðinu nýlega þar sem hún kenndi núverandi Ríkisstjórn um ICESAVE skrímslið. Að óreyndu hefði ég ekki trúað Vigdísi til slíks lýðskrums en lengi skal konuna reyna. Hún virðist geta án nokkurrar rumskunnar í eigin samvisku breitt yfir hlut þeirra Halldórs Ásgrímssonar og Valgerðar Sverrisdóttur í einkavæðingu bankanna sem er grundvöllurinn, ásamt fleiri mistökum þá, að hruninu mikla og þar með tilurð ICESAVE skrímslisins.
Valgerður, þú áttir bara að halda þig við blómin og gleymum ekki þorskhausunum hertu, í þessu tvennu ertu vissulega fær.
8.11.2009 | 12:25
Maður er nefnur Jochen Flasberth
Þessi mjög svo sérkennilegur maður var á dögunum skipaður Präsident des Umweltbundesamtes í Þýskalandi af Angelu Merkel kanslara. Hann mun þar með vera forseti stofnunar sem er æðsta ráð í Þýskalandi í umhverfismálum, ætli þetta sé ekki einhverskonar Umhverfisstofnun Þýskalands. Angela valdi hann vegna þess að hann er ákafur umhverfissinni enda tók hann þegar til starfa af miklum þrótti. Hans fyrsta stefnumörkun var að Þýskaland skyldi vera laust við koltvísýring CO2 árið 2050, þetta var engin hálfvelgja hjá Jochen, landið og íbúar þess skyldu vera lausir við þetta "eiturgas" 100% á þessum fjórum áratugum.
Einn ágætur prófessor að nafni Thüne kærði Jochen Flasberth til lögreglu fyrir að stefna að þjóðarmorði. Í landi þar sem búið væri að útrýma CO2 algjörlega þrífst ekkert líf, enginn hvorki menn né skepnur geta lifað við þessa vöntun og enginn gróður þrífst heldur.
Forsetinn fyrir Umhverfisstofnun Þýskalands hefur nú dregið aðeins í land. CO2 skal ekki útrýmt algjörlega en stefna skal að því að minnka það um 80%, ekki 100%, fyrir árið 2050.
Ef það tækist yrði lífið erfitt í Þýskalandi, en sem betur fer getur enginn mannlegur máttur afrekað það.
31.10.2009 | 12:02
"Hamarinn" er vandaður sjónvarpsþáttur
Það er ekki heiglum hent að skapa góða sjónvarpsþætti. Við lifum í dag fyrir spennuþætti og spennusögur og yfir okkur hellast spennuþættir víða að. Ég er eingöngu með Sjónvarpið, og enn Skjá 1, og satt best að segja finnst mér spennuþættir frá BNA og Bretlandi í mikilli afturför. Það sem einkennir þróunina er að þeir verð stöðugt grófari, mannát er að verða algengt, jafnvel að menn séu étnir smátt og smátt með því að skera af þeim líkamshluta lifandi eð flá af þeim höfuðleður, einnig lifandi. Sú var tíðin að það var hægt að horfa á "Criminal Mind" en satt best að segja eru þeir að verða þessari þróun á viðbjóði að bráð. "Barnaby ræður gátuna" voru einu sinni þættir með aðalsmerkjum breskra gæða, en síðasti þáttur sem ég sá var bæði vitlaus og á köflum viðbjóðslegur. Í gærkvöldi var þáttur frá Morse heitnum, en arftaki hans er lítilmótlegur og ekki beint skemmtilegur. Þó var sá þáttur heldur skárri þó auðvitað verði að fjölga morðunum þar eins og í flestum þessar þátta. Það nægir ekki eitt morð aðeins til að skapa spennuna eins og hjá Agötu, fjöldamorð skal það vera til að lýðurinn fái sitt.
Kannski er eitt ljós eftir, gamli góði Taggart sem er þó sjálfur löngu dauður. En ætli hann verði ekki þróuninni að bráð eins og aðrir slíkir þættir, fjöldamorð og viðbjóður.
En þetta hraut óvart á skjáinn því ætlunin var að fjalla um "Hamarinn" spennuþátt í fjórum hlutum sem hafa runnið sitt skeið í Sjónvarpinu: Öll hlutverk voru vel skipuð. Íslensk leikarastétt hefur blómstrað síðan kvikmyndaöldin hófst og síðan Leiklistarskólinn var stofnaður. Sá skóli hefði þó komið fyrir lítið ef ekki hefðu tækifæri gefist fyrir þá sem byrjuðu að feta brautina eftir skóla með þessari ótrúlegu grósku í kvikmyndagerð. En þroski ungra íslenskra leikara er þó ekki síst því að þakka að flestir hafa fengið tækifæri í leikhúsunum. Vissulega er kvikmyndin mikil áskorun fyrir ungan leikara en ef hann fer á mis við leikhúsið þá vantar mikið. Dæmið um hina frægu leikkonu Oliviu de Haviland (sem er löngu látin) sýndi svo sannarlega hvað reynsla og þróun leikara var einhæf þegar hann hafði aldrei leikið nema fyrir fram tökuvel. Olivia leigði sér leikhús í NY og réð sér leikstjóra og allt sem til þurfti og setti upp leikrit þar sem hún lék aðalhlutverkið.
Það er skemmst frá því að segja að stykkið kolféll, Olivia, þessi dáða kvikmyndaleikkona, fór lítt eftir ráðum leikstjórans, lék eins og hún var vön fyrir framan tökuvélina. Enginn heyrði hvað hún sagði og hreyfingar og látbragð þótti með eindæmum bragðadauft, hún hafði enga reynslu af leiksviðinu.
En auðvitað var þetta útúrdúr og aftur að Hamrinum. Umgjörðin Hamarsins var mjög góð, landslag, sveitahýbýli og persónur féllu mjög vel saman, allt gekk upp.
En hvað var það sem skipti sköpum, hvað var það sem gerði Hamarinn að mögnuðu og góðu verki? Hefur því ekki verið svarað með hrósi um nánast allt sem máli skipti?
Nei, eitt er eftir, það sem oftast brestur í kvikmyndgerð. Við sjáum fjölmargar erlendar myndir þar sem ekkert er sparað, en samt nær kvikmyndin aldrei flugi. Hvernig stendur á því með einvalaliði leikara, leikstjóra, tækniliðs?
Það sem oftast vantar er HANDRITIÐ. En það er einmitt það sem er undirstaðan að því að gera Hamarinn að svo góðu verki sem raun ber vitni. Handrit Sveinbjörns I. Baldvinssonar var hreint afbragð. Ekki aðeins öll samtöl og framvinda, ekki síður hvernig honum tekst að auka á spennuna með því að nota okkar gömlu góðu þjóðtrú án þess þó að falla í þá gryfju að gera hana að raunverulegum eða sönnum þáttum þegar upp er staðið.
Ég hef oft hugsað um það hvað handritshöfundar í kvikmyndagerð eru lítils metnir, sem betur fer virðist ekki svo vera hérlendis, Hamarinn bendir til þess. Í leikhúsinu dettur okkur ekki í hug annað en að höfundarnir séu undirstaðan sem raunar öll framvinda verksins byggist á hvort sem þeir heita Skakspeare, Ibsen eða Jökull.
Vonandi ber íslensk kvikmyndagerð gæfu til þess hér eftir sem hingað til að skilja mikilvægi handrits og þar með handritahöfunda.
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 114207
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar