19.9.2009 | 11:30
"Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur"
Það var að koma ný skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokka, ríkisstjórnar og flokksforingja. Þessi skoðanakönnun er að því leyti sérstök að hún byggir á mannréttingabrotum. Þeir sem eru 67 ára og eldri eru slegnir af, fá ekki að vera með, líklega halda þeir sem þessari skoðanakönnun stýra að allir sem komnir eru á þennan aldur séu elliærir. Ekki í fyrsta sinn sem eldra fólki er sýnd fyrirlitning.
En það sem vekur athygli er að Sjálfstæðisflokkurinn er skv. þessari skoðanakönnun stærsti flokkur landsins og stuðningurinn við Ríkisstjórnina er komin niður í um 43%, sem sagt minni hluti landsmanna styður stjórnina sem er að berjast við að moka þann flór sem Sjálfstæðisflokkurinn útbíaði með dyggum stuðningi Framsóknarflokksins.
Eru þeir Davíð, Árni Matt., Halldór og Finnur gleymdir?
Erfiðasta mál þessarar Ríkisstjórnar er tvímælalaust Icesave málið
Skammtímaminni fólks er ótrúlega lélegt. Allur áróðurinn núna virðist beinast að því að gera núverandi Ríkisstjórn ábyrga fyrir því að Icesave reikningar Landsbankans urðu til, þessi ryksuga sem var sett í gang til að sópa peningum frá sárasaklausum almenningi í Hollandi og Bretlandi.
Voru að Jóhanna og Steingrímur sem stofnuðu þessa svikamillu sem Icesave reikningarnir voru?
Þeir sem þá stofnuðu voru þessir fjórmenningar, Davíð, Árni matt., Halldór og Finnur Ing. sem lögðu grundvöllinn að því að hér varð til einhver mesta fjarhags- og bankabóla sem þekkst hefur í heiminum, bóla sem síðan sprakk framan í okkur öll íbúa þessa lands. Davíð var gerður að Seðlabankastjóra og hann vann það afrek að gera Seðlabanka Íslands gjaldþrota!!! Ríkissjóður varð að leggja bankanum til 200 milljarða krónu svo hægt væri að segja að hann væri starfhæfur. Heimdellingur Jónas stýrði Fjármálaeftirlitinu þannig að bankarnir fengu að valsa um óáreittir og þannig gátu þeir Sigurjón, Halldór, Kjartan og Björgúlfur sett ryksuguna í gang og sópað til sín peningum í útlöndum, peningum sem nú eru týndir og við öll fáum að súpa seiðið af um ókomin ár.
Og nú er stór hópur fólks búinn að gleyma því hverjir komu okkur á kaldan klaka, hvaða einstaklingar og hvaða flokkar.
Þessir tveir flokkar, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur og foringjar þeirra koma nú fram af ótrúlegu ábyrgðarleysi, reyna eingöngu að fiska í gruggugu vatni, vinna gegn hagsmunum almennings, nota hverja smugu til að reyna að koma höggi á þá sem eru að reyna að bjarga landi og þjóð frá þeim hörmungum sem þeir bera ábyrgð á.
Ætlar stór hluti þjóðarinnar virkilega að sýna þessum flokkum, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki og foringjum þeirra Bjarna og Sigmundi Davíð traust? Við þessa tvo menn voru bundnar nokkrar vonir, að þeir mundu endurnýja starfsaðferðir þessara flokka, þeir mundu leggjast á árar og hjálpa til við björgunarstarfið.
Þessir flokkar og þessir forystumenn hafa gjörsamlega brugðist.
16.9.2009 | 13:02
Hvað varð um fangelsið á Keflavíkurflugvelli?
Þegar Donald Rumsfield ákvað að leggja niður herstöðina á Keflavíkurflugvelli góðu heilli tæmdust allar byggingar herstöðvarinnar á augabragði. Þessar byggingar hafa síðan fengið ný hlutverk og komið að góðum notum margar hverjar.
En svo stór herstöð sem sú sem var á Miðnesheiði hlýtur að hafa rekið stórt og mikið fangelsi, í öllum herstöðvum Bandríkjanna eru rekin fangelsi og þau mörg hver notuð til voðaverka og mannréttindabrota.
Í fréttum RÚV í hádeginu var við tal við Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra um þá furðulegu stöðu sem upp er komin í fangelsismálum hérlendis; brotamenn ganga lausir svo hundruðum skiptir vegna þess að fangelsi landsins eru yfirfull. Ráðherrann sagði að nú ætti að auglýsa eftir húsnæði fyrir fangelsi og auðvitað mun það kalla á mikil fjárútlát að innrétta leiguhúsnæði svo það verði fangelsi.
- En ég spyr; er ekki til það fangelsi sem Kanarnir ráku á Keflavíkurflugvelli, er það ekki lengur til? Ef það er enn til hvers vegna er það þá ekki notað til að koma lögum yfir eitthvað af þeim brotamönnum sem ganga lausir? Meira að segja dæmdir brotamenn eiga kröfu á að mannréttindi séu ekki brotin. Ef dæmdur maður getur ekki afplánað og verður jafnvel að bíða árum saman vegna "húsnæðisskorts" þá er í raun verið að þyngja refsingu hans umfram það sem dómsstólar ákváðu.
Hvað um fangelsið á Keflavíkurflugvelli?
14.9.2009 | 14:23
Israelsríki notar nasistískar aðferðir
Það má búast við að mörgum svelgist á þegar þeir lesa fyrirsögnina að þessum pistli. Ég vil benda sterklega á að það er ekkert samasemmerki milli Ísraelsríkis og Gyðinga. Gyðingar eru búsettir nær um allan heim, ég lít ekki á Gyðinga sem þjóð, miklu frekar sem trúflokk. Það er því ákaflega sorglegt að svívirðilegt framferði þeirra sem ráða Ísraelsríki komi niður á öllum Gyðingum.
Ísraelsmenn hafa frá því þeir stofnuðu Ísraelsríki 1946 notað nákvæmlega sömu aðferð og Nasistar notuðu forðum, þeirra stefna var og Ísraelsríkis nú er það sem kallað var og er LEBENSRAUM, lífsrýmisstefna. Það má búast við að farið sé að fenna yfir landrán þýskra nasista, því miður, en Bretar og Vesturveldin létu það óátalið þó þeir tækju Austurríki herskildi og síðan stóran hluta Tékkóslóvakíu.
En lítum á kort af Palestínu:
Lengst til vinstri er kort af Palestínu árið 1946 þá er innrás "Ísraela" að hefjast fyrir alvöru. Þá bjuggu, og höfðu búið lengi hlið við hlið Palestínumenn og Gyðingar, hvítu svæðin eru Gyðinga en svæði Palestínumanna græn. Árið 1947 er allt gjörbreytt. "Ísraelar" hafa sölsað undir sig meira og meira land og rekið þá sem landið áttu burt, þeir hafa verið flóttamenn síðan. Síðan kemur sexdagastríðið og þriðja kortið sýnir hvernig skipting landsins er að því loknu.
En sl. rúm 40 ár hefur landránið haldið áfram. Það er greinilegt að stefnan er að útrýma Palestínumönnum alfarið, hrekja þá burt frá þeim aðskildu og strjálu byggðum sem þeir hýrast enn á. Þetta gera Ísraelsmenn með fullu samþykki hins kristna heims og með sérstökum stuðningi Bandaríkjanna.
Og það dapurlegasta er að við Íslendingar erum, og höfum alltaf verið, einhverjir ötulustu stuðningsmenn Ísraelsríkis, það er sama hvað þeir gera. Þeir eru nýlega búnir að leggja samfélagið á Gasa í rúst og þá skipti ekki máli hve mörg börn voru drepin, þeir gráta það ekki þó Palestínumönnum fækki.
Ísraelar nota ekki gasklefa. En þó svo sé ekki þá er hægt að fremja þjóðarmorð eins og kjarnorkuveldið Ísrael er að gera.
10.9.2009 | 16:59
Yfirlýsing mörgæsanna
Þeir hafa húmor hjá Danmarks Meterologiska Institute og það hefur einnig Mikkel Sander í Kaupmannahöfn sem sendi þeim þessa skemmtilegu mynd.
Undir myndinni stendur i lauslegri þýðingu:
Harðlínumörgæsir á Istedagade hafna alfarið allri málmiðlun, þó það þýði að allar plöntur deyja út.
Framtíðin hrein af CO2
Yes sir
10.9.2009 | 16:55
Yfirlýsing mörgæsanna
Þeir hafa húmor hjá Danmarks Meterologiska Institute og það hefur einnig Mikkel Sander í Kaupmannahöfn sem sendi þeim þessa skemmtilegu mynd.
Undir myndinni stendur i lauslegri þýðingu:
Harðlínumörgæsir á Istedagade hafna alfarið allri málmiðlun, þó það þýði að allar plöntur deyja út.
Framtíðin hrein af CO2
Yes sir
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2009 | 10:09
Systkinin frá Bakka ætla að verða tengiliðir þings og þjóðar
Þetta er boðskapur Borgarahreyfingarinnar í Morgunblaðinu í dag. Minn skilningur nær víst æði skammt, ég sá bloggið hans Þór Saari og hélt að hann væri að fjalla um eigin flokk:
En svo djúpt fer ekki hans innri rýni, þremenningarnir hafa aðeins eitt skotmark; það er það sem þau kalla Fjórflokkinn. Borgarahreyfingin ætlaði að koma inn með nýja sýn, nýtt siðferði og ný vinnubrögð á Alþingi. En allir vita hver framvindan hefur orðið.
Hinsvegar kom fram nokkuð merkilegt fram í bloggi Birgittu Jónsdóttur. Í fyrsta lagi að Þór Saari sé ákaflega hláturmildur maður, sérstaklega geti hann hlegið endalaust að Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Í örðu lagi ennþá merkilegri frétt. Þór Saari ætlar ekki eingöngu að bjarga Íslandi frá bæði Fjórflokknum og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum heldur fer hann eins og logi yfir akur um þriðjaheims löndin og sópar upp óstjórn og ráðleysi sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur skilið eftir sig eftir misheppnaða hjálp.
Þetta hlýtur að vera rétt, þetta segir Birgitta í sínu bloggi. Það er enginn smátækur kraftaverkamaður sem ekki aðeins ætlar að bjarga Íslandi eftir hrunið og frá Fjórflokknum heldur einnig flestum þeim frumstæðu þjóðfélögum sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur verið skaða á undanförnum árum.
Erum við að fá nýjar persónur inn í þjóðsögurnar, þessi sérkennilegu systkini frá Bakka?
9.9.2009 | 10:15
Olli Rehn og sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins
Mér finnst full ástæða til að bjóða þann finnska Olli Rehn velkominn til Íslands. Við erum að fara í aðildarviðræður við ES, þess vegna er fengur að komu þessa góða gests sem hefur í tösku sinn litlar 2000 spurningar sem Jóhanna, Steingrímur og við öll verðum að svara skilmerkilega.
Sem betur fer tókst svo vel til að Alþingi samþykkti, naumlega þó, að sækja um aðild að ES. Á engan annan hátt var hægt að binda enda á áralangt þras um hvort þarna væru gull og græna skóga að fá eða ginnungagap ofstjórnar og allsherjar taps sjálfstæðis þjóðarinnar væri öruggt. Hvorutveggja er fjarri lagi.
En innganga íslands í EB er allt annar handleggur en umsókn um aðild og aðildarviðræður. Menn setja fyrir sig einkum sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu bandalagsins og það er svolítið sem vefst fyrir mér, algjörum landkrabba, þegar ég kíki inn í þann furðulega heim sem kallast sjávarútvegsstefna ES. Ég ætla samt að velta þessu aðeins fyrir mér í von um að einhverjir sérfræðingar í þjóðarrétti kunni að álpast inn á bloggið mitt og sýni mér fram á hvað ég er grunnhygginn eða þá sem ég vona frekar; að ég sé að ræða mál sem sé þess virði að það sé skoðað.
Sjávarútvegsstefna ES virðist vera einhverskonar grautur á þann hátt að þjóðir fái leyfi til að fara inn í landhelgi annarra ríkja og veiða þar fisk, sérstaklega ef þær hafa eitthvað sem kallast veiðireynsla sem oftast er fyrri rányrkja eins og margar þjóðir stunduðu á Íslandsmiðum.
En nú spyr þessi fávísi landkrabbi:
Hvers vegna er það ótvírætt að hver þjóð á þau gæði sem felast í hafsbotninum undir eigin landhelgi?
Danir eiga ótvíræðan rétt til olíu og gass undir sinni landhelgi, það eiga Skotar einnig.
Enginn dregur í efa að við eigum það sem leynast kann á hafsbotni Drekasvæðisins, þessu horni lengst norður í höfum út undir 200 mílna mörkunum.
Og enn spyr landkrabbinn:
Af hverju gildir ekki ótvírætt það sama um fiskinn í sjónum og það sem gildir um það sem leynast kann í hafsbotninum. Víða eru staðbundnar fiskitegundir sem alast upp verða veiðanlegir með hækkandi aldri, hjá okkur er víst þorskurinn fremstur meðal jafningja í þeirri stóru fjölskyldu.
Svo eru líka flökkustofnar svo sem síld, makríll og kolmunni sem fara má segja "milli landa". Í dag verðum við að semja um veiðar úr slíkum stofnum, það er engin nýlunda.
Evrópusambandið er í syngjandi rugli með sína sjávarútvegsstefnu. Geta Íslendingar lagt fram lausnir sem losa þá úr snörunni, hver þjóð skal eiga þá staðbundnu fiskistofna sem eru sannarlega í þeirra landhelgi. Ef fiskur þvælist í Norðursjó yfir mörkin, fer úr Skoskri landhelgi yfir í Dnaska þá einfaldlega breytir hann um ríkisfang, verður Danskur.
Þetta var hans val.
9.9.2009 | 09:34
Seinheppin sölumennska á landbúnaðarvörum
Seint skyldi ég flotinu neita og fátt fæ ég betra en vel matreitt íslenskt lambakjöt. Enda er ég sveitamaður í húð og hár, alinn upp við ljós frá steinolíulömpum, útikamar og eldun við kindaskán, Ég var ekki hér í loftinu þegar ég fékk embætti í sláturtíðinni þegar gamalám, sauðum og hrossum var slátrað á hlaðinu til að afla fjölskyldunni vetrarforða, reyndar ársforða. Mitt embætti var að hræra sem ákafast í blóðinu sem spýttist úr strjúpa kindanna og sauðanna eftir að þau höfðu verið skotin og skorin, þetta gerði ég með písk sem var gerður úr trénuðu ramfangi. Ef ekki var hrært í heitu blóðinu þá storknaði það og þá hefði enginn blóðmör verið gerður það haustið.
En fyrir þá sem ekki þegar hafa liðið út af undir þessari lýsingu ætlaði ég svolítið að agnúast út í markaðsfærslu landbúnaðarvara. Ástæðan er auglýsing frá Krónunni þar sem hún býður okkur heila lambskrokka af nýslátruðu á svona sæmilegu verði.
En þá kemur að sjálfsögðu þessi eilífa forsjárhyggja. Annað lærið er sneitt niður og framparturinn einnig. Ef ég kaupi heilan lambaskrokk þá við ég fá bæði lærin heil, ég vil einnig fá frampartana tvo heila, ósagaða. Ég hef oft reynt að fá heila bóga (framparta) en það virðist útilokað. Allir skulu sitja við sama borð, svona skaltu fá það kall minn, láttu okkur um að ákveða fyrir þig hvernið varan er tilreidd sem þú kaupir. Bógar eða frampartar eru nefnilega lystilega gott hráefni til að heilsteikja, en þeir er aldrei fáanlegir í verslunum.
Annað til að agnúast út í er þetta: oft er hægt að fá frosið súpukjöt í vænum pakkningum, ágætt til að elda góða kjötsúpu, muna samt eftir því að allt lambakjöt krefst nákvæmrar og vandaðrar afþýðingar. En þá kemur hugmyndaleysi sölustöðvanna. Það bregst varla að allar pakkningarnar eru næstum því jafn stórar og þungar.
Hefur engum dottið í hug að einhver vilji 1 kg, annar 3 kg og sá þriðji jafnvel 5 kg?
Það er ekki lengur tilviljun að sömu dómsdagsfréttirnar birtast samtímis í fréttum Ríkisútvarpsins og á síðum Morgunblaðsins. Það er með ólíkindum að ákveðin öfl (hjöllannir og ánnannir) skuli hafa orðið svo sterk ítök í þeim tveimur fréttamiðlum sem traustastir hafa verið taldir hérlendis um langa hríð.
Frétt dagsins er að "vísindamenn" hafi kannað þyngd ísbjarnahúna og það sé augljóst að þeir léttist vegna skorts á æti, veiðisvæði þeirra skreppi saman. Staðreyndin er sú að ísinn á Norðurskautinu er ekki að hopa, hann hopar á sumrum en eykst á vetrum og hefur verið mjög svipaður frá ári til árs undanfarin ár.
Ef eitthvað er að gerast í að ísbjarnarhúnar séu að léttast vegna ónógs ætis þá getur það ekki stafað af öðru en því að ísbirnir eru að verða of margir á Norðurskautinu. Um 1960 voru þeir taldir vera um það bil 5000 en nú eru þeir fimmfalt fleiri eða um 25000! Kannski var það orsökin fyrir flækingunum sem komu til Íslands á síðasta ári og settu allt á annan endann, að minnsta kosti í Umhverfisráðuneytinu. Þessir ísbirnir flæktust út fyrir sínar hefðbundnu veiðilendur. Ísbirnir eru einfarar nema rétt um fengitímann og helga sér víðáttumikil veiðisvæði.
Það er kominn tími til að fréttastjórar Morgunblaðsins og Ríkisútvarpsins standi fyrir máli sínu, það er dapurlegt að horfa upp á hvernig þeir láta ákveðin öfl draga sig á asnaeyrum.
7.9.2009 | 17:59
Dómsdagskirkjan í Mongstad í Noregi
Eigum við að byrja á því að setja inn mynd af stóru og stæðilegu mannvirki í Mongstad í Noregi?
Þetta mannvirki þætti eflaust ekki til prýði ef það væri risið hér á landi t.d. á Hellisheiði.
Byggjandinn er hið þekkta ríkisfyrirtæki Statoil í Noregi
Eflaust olíuhreinsunarstöð mun margur ætla, verður það svona flykki sem rís í fallegum fjörðum Vestfjarða.
Nei, þetta er ekki olíuhreinsunarstöð enda mundi margur náttúruverndarsinninn (eða þeir sem telja sig haf einkarétt á þeim titli) þá hafa gengið af göflunum.
Það vill svo einkennilega til að þessi ófreskja er einmitt reist með mikilli velþóknun og beinlínis undir miklum þrýstingi frá þeim sem ætla að bjarga heiminum einkum með því að ráða veðri og vindum og þó sérstaklega því sem gerist í lofthjúpi jarðar.
Kostaði skildinginn:
Þetta flykki kostaði sem nemur 110 milljörðum íslenskra króna og er þó byggingu ekki lokið.
Áætlaður rekstrarkostnaður er um 3 milljarðar ísl. króna á ári.
Er þetta ekki olíuhreinsistöð? Nei, aldeilis ekki.
Þetta er stöð sem á að vinna KOLTVÍSÝRING CO2 úr loftinu og binda hann í hinum rammgerðu berglögum Noregs.
Jan Stoltenberg forsætisráðherra Noregs nefndi þetta fyrirtæki með stolti þegar hann kom til Íslands sl. vetur en stundi svo við "verst að þetta ber engan arð"
Þarna fer semsagt fram samskonar starfsemi og hafin er á Hellisheiði; að særa Lúsifer niður í bergið og ganga þannig frá honum að hann komi aldrei upp aftur.
Auðvitað er þetta óskaplega gaman fyrir þá vísindamenn sem fá að leika sér að svona tilgangslausu verkefni, en er slíkur leikaraskapur það sem við höfum mesta þörf fyrir á þessum síðustu og verstu tímum?
En getum við verið minni menn en Norðmenn, verðum við ekki að byggja slíka Dómsdagskirkju á Hellisheiði?
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar