4.8.2009 | 13:43
Víti til varnaðar
Það er víst til lítils að vera að "nöldra" um tvöföldun Suðurlandsvegar. Ég hef í ræðu og riti bent Kristjáni Möller samgönguráðherra á þau gönuhlaup sem hafa verið stöðug í ákvarðanatöku um endurbætur á Suðurlandsvegi milli Reykjavíkur og Selfoss. Kristján, Björgvin Sigurðsson og Árni Matt. voru ótrúlega samstíga í því að henda allri skynsemi og ráðdeild sem lengst í burtu þegar teknar voru ákvarðanir um endurbætur Suðurlandsvegar
sem allir eru sammála um að er forgangsmál í samgöngumálum á Íslandi.
En þetta var ákveðið:
1. Elta gamla vegastæðið hvað sem það kostaði.
2. Ekki mátti minnast á þá gömlu skynsamlegu hugmynd að leggja veginn um Þrengsli, yfir Ölfusið með brú yfir Ölfusá fyrir sunnan Selfoss.
3. Þrátt fyrir að færustu erlendir sérfræðingar og einnig íslenskir teldu að mörgu leyti 2+1 veg betri endurbót og öruggari en 2+2, var haldið fast við 2+2, "nógir eru andskotans peningarnir sagði kallinn forðum".
4. 2+2 skyldi það vera þó Haraldur Sigþórsson verkfræðingur hjá Línuhönnun sýndi fram á að 2+2 kostar þrefalt meira en sá góði kostur 2+1.
5. Þrátt fyrir að ég hafi reynt að benda á þá staðreynd hverskonar óráðsía það er að leggja 2+2 yfir Hellisheiði því það munu örugglega koma göng undir heiðina síðar, þá fékk það engan hljómgrunn. Á sama tíma hamrar bormeistari Ísland, Kristján Möller, á að göng undir Vaðlaheiði séu forgangsmál. Víkurskarð er þó mun lægri og auðveldari vegur en Hellisheiði syðra.
En vitleysan og gönuhlaupin verða að hafa sinn gang. Það er eins og sumir hafi ekkert lært af "Hruninu mikla".
En eitt er víst, svona á ekki að taka ákvarðanir og það á ekki að henda peningum í vitleysu, vonandi verður þessi ferill víti til varnaðar öllum sem þurfa að taka tæknilegar ákvarðanir og sýsla með opinbert fé, sameign okkar allra.
(Tilefnið þessa pistils er að ég setti athugasemd inn hjá Morten Lange, en taldi svo ekki úr vegi að þetta kæmi inn á mitt blogg)
3.8.2009 | 23:24
Getur Hrannar verið áfram aðstoðarmaður Jóhönnu forsætisráðherra?
Það er gott framtak hjá Ágústi H. Bjarnasyni að birta mjög umtalaða grein Evu Joly um framkomu útlendinga, ráðandi manna í æðstu stöðum, gagnvart Íslandi, meira að segja á norsku, ensku, frönsku og íslensku. Ég er þegar búinn að senda greinina á norsku til tveggja í Noregi, einnig tveggja í Svíþjóð og svo sendi ég syni mínum í Frakklandi hana auðvitað á frönsku. Mér finnst grein Evu hnitmiðuð og rökföst og hún rifjar upp stutta grein eftir Ólaf Hauksson fjölmiðlatengil um að ekki hafi verið staðið nógu vel að kynningarmálum erlendis á okkar sérstæðu aðstæðum eftir hrunið og reyndar skortir enn á það að nógu vel sé að því staðið innanlands.
En hvað um Hrannar?
Hrannar er aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Jóhanna valdi hann sjálf til þeirra verka að vera hennar nánasti samverkamaður. Þess vegna bregður manni illilega þegar persóna í slíkri stöðu veður fram og gagnrýnir hvað er sagt um íslensk málefni eins og Eva Joly gerði í grein sinni. Hrannar mun hafa sagt á heimasíðu sinni að Eva ætti ekki að skipta sér af efnahagsmálum Íslands, það væru aðrir sem færu með þau mál. Er hægt að líta á það öðruvísi en þannig að það sem aðstoðarmaður forsætisráðherra lætur frá sér fara sé bergmál af skoðunum ráðherrans? Í öðru lagi; eiga aðstoðarmenn ráðherra yfirleitt að vera að leggja orð í belg í opinberri umræðu, þeir eru í mjög viðkvæmri og sérstæðri stöðu.
Getur Hrannar verið áfram aðstoðarmaður forsætisráðherra?
Auðvitað verður Jóhanna að ákveða það. En hún verður að gera sér það ljóst að ef engin breyting verður á högum og störfum Hrannars er hún að taka afstöðu með hans skoðunum sem hann hefur sett fram á ákaflega óheppilegan hátt.
Að mínu áliti á Jóhanna að víkja Hrannari úr starfi.
.
29.7.2009 | 10:19
Spellvirkjunum hossað á kostnað björgunarsveitarinnar
Sá Fréttablaðið í morgun, þökk sé nágranna mínum Ragnari. Í sjálfu sér væri mér nokkuð sama þó ég sæi ekki það blað en þegar það er komið inn um lúguna les maður það auðvitað.
Þar segir í frétt að stuðningur við Ríkisstjórnina sé kominn niður í 43%, að fylgi við Sjálfstæðisflokkinn aukist, að fylgi Vinstri Græna fari dvínandi en aðrir flokkar haldi sjó. Þetta er mjög merkileg frétt og sýnir og sannar að minni háttvirtra þjóðfélagsþegna nær ákaflega skammt.
Æði margir virðast ýmist vera búnir að gleyma því, eða einfaldlega hafa aldrei gert sér grein fyrir því, að það var Sjálfstæðisflokkurinn sem ber höfuðábyrgð á hruninu mikla haustið 2008 enda búinn að vera í ríkisstjórn samfellt í 18 ár.
Vissulega naut Sjálfstæðisflokkurinn dyggilegs stuðnings Framsóknarflokksins við að teppaleggja brautina fyrir fjárglæframennina sem því miður hafa fengið það allt of virðulega heiti "útrásarvíkingar". Þeir tveir menn sem þeim óhappaverkum stýrðu voru Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Halldór var síðan gerður skaðlaus og sendur úr landi en Davíð Oddsson aldeilis ekki. Honum var lyft til æðstu valda í Seðlabanka Íslands til að gæta hagsmuna þjóðarinnar ásamt Heimdellingi nokkrum Jónasi Fr. sem stýrði Fjármálaeftirlitinu.
Og allir vita hvernig fór!
Ríkisstjórnin núverandi vinnum hörðum höndum við að bjarga landi og þjóð út úr ógöngum þeim sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur komu okkur við. Það er ekki auðvelt verk. Ég get hins vegar ekki séð neina tvo aðra einstaklinga til að leiða það verk en þau Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon. Auðvitað verða þau að grípa til margra óvinsælla ráðstafana. Við mig persónulega kemur það sér mjög illa að hámark tekjutengingar eldri borgara var lækkað úr 1.300.00 í 480.000. En samt sem áður styð ég þessa ríkisstjórn, hvað annað eigum við að gera?
Eigum við að leiða spellvirkjaflokkinn Sjálfstæðisflokk aftur til valda og áhrifa í íslensku þjóðfélagi?
27.7.2009 | 22:25
Sjónvarpið er að verð vonlaus fjölmiðill
Eru þeir sem ráða dagskrá Sjónvarpsins gengnir af göflunum? Ég lagði það á mig í kvöld að horfa á langan þátt um Elísabetu Bretadrottningu dragnast með Pusa mann sinn í heimsókn til Bush og Láru meðan þau bjuggu enn í Hvíta húsinu (en sem betur fer eru þau farin þaðan), Ekki nóg með það að sýndur hafi verið langur þrautleiðinlegur þáttur um breska drottningarslektið heldur stendur það svar á hvítu í dagskrárdálki Morgunblaðsins að það eigi eftir
að koma fimm þættir í viðbót næstu fimm mánudaga!!!
Hverjir hafa ánægju af slíkum þáttum? það væri fróðlegt að þeir gefi sig fram því ég hygg að það verði ekki langur listi.
Í gærkvöldi var að sjálfsögðu bíómynd sunnudagskvöldsins. Þar var tilkynntur til leiks einn af mínum uppáhaldsleikurum, Jeremy Irons. En þrátt fyrir að honum brigði fyrir gafst ég upp enda engin leið að botna hið minnsta í framvindunni. Sjónvarpið hefur haft það fyrir reglu að sýna furðulegar eða sorglegar myndir á sunnudagskvöldum. Margir eru haldnir verkkvíða fyrir komandi vinnuviku, væri ekki rétt að hressa fólk við á sunnudagskvöldum með hressilegum og skemmtilegum myndum.
En það væri ekki réttlátt að minnast ekki á einstaka góða þætti. Þættirnir um sólkerfi okkar og sérdeilis um jörðina eru stuttir, hnitmiðaðir og fróðlegir.
En aftur í það neikvæða. Hverjir hafa áhuga á Dönum sem elta uppi aðra Dani víðsvegar um veröldina og láta líta út sem þeir komi á óvart með sjaldséðan ættingja. Dapurleg amerísk fyrirmynd.
27.7.2009 | 21:46
Má bjóða þér drullu í dós?
Þrátt fyrir allar tímabundnar þrengingar þá búum við Íslendingar enn við, og vonandi um ókomna framtíð, að fá alla þá heilbrigðu fæðu sem við þurfum á að halda. Gamall maður eins og ég man að það var ekki hægt að fá ávexti nema örlítið fyrir jólin og grænmeti var af skornum skammti, helst voru það auðvitað kartöflur og margir reyndu að rækta svolítið af gulrófum. Nýmeti var sjaldgæft til sveita nema helst í sláturtíðinni á haustin en þeir sem bjuggu við sjávarsíðuna fengu oftast nýja soðningu.
Éttu og drekktu "fæðubótaefni" er dagskipunin
Já, það er með ólíkindum að þá fyrst þegar við höfum fjölbreytt fæðuval lætur fólk, og aðallega unga fólkið, tæla sig til að kaupa alls kyns sull í flöskum og dósum sem "fæðubótaefni". Sú var tíðin að fyrir rúmri öld fóru ugluspeglar um sveitir og seldu fáfróðu fólki sull á flöskum sem bar nafnið "kínalífselixír. Þetta átti að vera allsherjarlyf sem læknaði allan krankleik hvernig sem hann birtist. Vísir menn sáu auðvitað í gegn um falsarana og voru þeir gerðir brottrækir úr öllum sveitum. Lengi á eftir var gert stólpagrín að þeim sem létu glepjast og keyptu og drukku sullið. En nú er öldin önnur. Nú eru fjölmargar verslanir með herskara sölumanna sem selur fáráðlingum alls kyns fæðubótaefni.
Eyðileggur lifrina eins og alkóhól
Í fréttum sjónvarpsins í kvöld var sagt frá uppgötvun Finna. Skorpulifur er ekki einungis afleiðing af drykkjuskap og ofneyslu áfengis. Jafn slæmt, ef ekki verra eru öll þessi drulla sem fávís ungdómur (og raunar þeir sem eldri eru einnig) lætur ginna sig til að kaupa og drekka sem "fæðubótaefni"..
Hér til hliðar er mynd af flösku með einni tegund af þessu eitursulli. Nú er nóg komið af vitleysunni.
23.7.2009 | 10:06
Vanhugsuð tillaga um hækkun aldurs til bílprófs
Þá er komin fram einhver vanhugsaðasta tillaga, og raunar óréttlátasta, sem lengi hefur komið frá stjórnvöldum. Nú skal hækka aldur þeirra sem taka bílpróf úr 17 árum í 18 ár.
Hvers vegna er þetta vanhugsuð tillaga?
Hún er fyrst og fremst óréttlát og jaðrar við það að standast ekki jafnræðisreglu, en sú regla á að vera leiðarljós stjórnvalda í öllum málum og er raunar lögvernduð.
Forsendan fyrir því að hækka bilprófsaldurinn er sú að sagt er að 17 ára bílstjórar séu valdir að fleiri umferðabrotum en aðrir aldursflokkar. Hins vegar eru það aðeins fáir einstaklingar sem fremja brot í þessum aldursflokki en eigi að síður skal refsa öllum aldursflokknum fyrir afbrot fárra.
Stenst þetta jafnræðisreglu?
Það má líkja þessari tillögu við ákvörðun veitingamanns í Austurstræti sem setti alla þeldökka menn í bann á sínum veitingastað vegna þess að þeldökkur maður hafði sýnt hvítri konu áreitni við barinn. Hann var spurður að því hvort hvítir karlmenn sýndu aldrei slíka hegðun og viðurkenndi hann að slíkt hefði komið fyrir. Hann var spurður að því af hverju hann setti þá ekki bann á alla hvíta karlmenn. Svar við þeirri spurningu kom aldrei.
Fáránlegar tillögur
Það á líka að lögfesta að ungir 18 ára ökumenn megi ekki hafa í bílum sínum nema takmarkaðan farþegafjölda. Hver á að framfylgja þeim lögum? Á lögreglan að gera það? Á sama tíma og lögreglan er í fjárhagslegri spennitreyju þá á að leggja meiri skyldur á þá fáu lögreglumenn sem eru á vakt hverju sinni. Þetta er einkenni íslenskra stjórnvalda; að setja lög og reglur sem vitað er fyrirfram að ekki er hægt að framfylgja. Er þetta ekki eitthvað svipað og bannið við að tala í gemsa undir akstri? Vissulega er það algjör óþarfi að tala í síma undir stýri og auðvitað hættulegt, athæfi sem hver maður ætti að venja sig af. En það breytir ekki því að það er ekki bæði hægt að skera lögregluna niður við trog og leggja svo á hennar herðar meiri og meiri skyldur.
Hverjar verða afleiðingarnar?
Mjög líklega munu fleiri ungmenni stelast til að aka próflaus en áður. Það er ekki nema von að það kraumi reiði í mörgum þeirra sem eru að verða 17 ára og höfðu hlakkað til að fá réttindi til að aka bíl. Við skulum ekki gleyma því að langflest 17 ára ungmenni haga sér vel í umferðinni, að refsa öllum fyrir afbrot fárra stenst ekki.
Hvað er skynsamlegast að gera?
Efla kennsluna, ekki síst sálfræðilega. Það verður að efla starf ökukennara, það er eins og samfélagið hafi litið á ökukennslu sem eitthvað formsatriði, þetta nám hefur aldrei notið þeirrar viðurkenningar sem það á skilið. Akstur á vegum er dauðans alvara, um það höfum við óræk dæmi. Þess vegna á ekki að nálgast þetta vandamál með refsigleði heldur nákvæmlega því gagnstæða, með kennslu og upplýsingu um þær hættur sem bíða okkar allra á þjóðvegum og strætum.
9.7.2009 | 13:57
Vofa Don Kíkóti (Don Quixote) gengur laus á G-8 fundi
Þá hafa valdamenn átta stærstu og mestu iðnríkja heims gert samþykkt sem mun síðar meir verða að athlægi og verður framvegis þekkt dæmi um heimsku og hroka, samþykkt sem nálgast að vera álíka og gjörð Kaþólsku kirkjunnar fyrr á öldum þegar hún samþykkti af miklum þunga að jörðin væri flöt og Galileo mátti þakka fyrir að ganga út frá réttarhöldum með höfuðið á búknum, sökin var að halda því fram að jörðin væri hnöttótt.
Samþykkt karlanna sjö og Angelu var hvorki meira né minna en þessi:
Hiti á hnetti okkar skal ekki hækka um meira en 2°C fram til ársins 2050!!!
Mannskepnan er vissulega orðin ráðvillt en einnig hefur hún greinilega ofmetnast, telur sig nú hafa náð svo langt að hún geti ráðið lofslagi og hitastigi heimsins. Sem betur fer er langt frá því að svo sé, maðurinn hefur engin teljandi áhrif á hitastig jarðar. Það hefur aldrei verið sannað að CO2 koltvísýringur í andrúmslofti sé að hækka hita á jörðinni. Hins vegar er CO2 ein af þeim gastegundum sem halda hita á jörðinni, án þeirrar virkni væri meðalhiti á jörðinni ekki plús 15°C heldur mínus 18°C, jörðin væri óbyggileg. Þessu "markmiði" G-áttmenninganna skal ná með því að stöðva sem mest kolefnisbruna og til þess á að verja óheyrilegum fjárhæðum. Þetta á að gera á sama tíma og börn og fullorðnir deyja úr sulti, malaríu og öðrum sjúkdómum, á meðan stór hluti mannkyns fær ekki ómengað drykkjarvatn og fátækt eykst og milljónir manna eru á flótta vegna styrjalda.
Eru engin takmörk fyrir heimsku mannanna?
28.6.2009 | 12:54
Góðir gestir í Þorlákshöfn og hvað gerist ef Alþingi fellir samninginn um Icesave?
Þau Björgvin G. Sigurðsson og Valgerður Bjarnadóttir alþingismenn komu í heimsókn til Þorlákshafnar sl. fimmtudag. Því miður voru allt of fáir mættir til að fagna góðum gestum en eigi að síður var þetta upplýsandi fundur um ástandið í þjóðmálunum. Að sjálfsögðu var rætt um Icesave samninginn sem vissulega liggur eins og mara á þjóðinni. Ég hef ætíð bent á þegar rætt er um þetta skelfilega mál að það er lítil yfirvegun í því að segja að það eigi einfaldlega að fella samninginn á Alþingi að þá verði hver og einn að reyna að gera sér grein fyrir hvað þá taki við. Ég er handviss um það að hugleiðingar um annan og betri samning er hreinlega bull, ef við fellum þennan samning erum við endanlega komin í skammarkrók þjóðanna, svo hrikalegt er málið. Ég spurði þingmennina um hvort eitthvað ákvæði væri í samningnum um hámarksgreiðslur okkar ef svo illa færi að eignir Landsbankans reyndust minna virði en áætlað er t. d. eitthvað viðmið við landsframleiðslu, það gæti tæplega verið nokkur akkur í því fyrir Evrópuþjóðir að við yrðum rúin inn að skinni og yrðum beiningafólk næstu öldina. Valgerður Bjarnadóttir svaraði þessu, engin ákvæði eru um viðmið þjóðarframleiðslu en það er ákvæði í samningum að ef ljóst verður þegar greiðslur á Icesave skuldbindingunum hefjast eftir 7 ár að forsendur hafa þróast okkur í óhag að það er hægt að taka samninginn til endurskoðunar.
Það fer að styttast í það að samningurinn verði lagður fyrir Alþingi og það er augljóst að Framsóknarflokkur og Borgarahreyfing ætla að taka fullkomlega óábyrga afstöðu.Fátt kemur mér á óvart héðan í frá hvað kemur úr herbúðum Framsóknarmanna, hinn nýi formaður virðist gjörsamlega heillum horfinn og honum fylgja tryggilega nokkrir nýir þingmenn sérstaklega hefur Vigdís Hauksdóttir valið sér það hlutskipt að senda pólitískum andstæðingum skammir og svívirðingar. Þau skötuhjúin ættu að muna hver ábyrgð Framsóknarflokksins er á þeim hörmungum sem yfir þjóðina hafa gengið en þau virðast heldur vilja leika sér algjörlega óábyrgt með vinnubrögðum sem voru góð og gild á Hriflutímanum. Borgarahreyfingin varð til í pottaglamrinu á Austurvelli og enn sannast það að það er auðvelt að vera hávær mótmælandi en erfiðara að vera ábyrgur trúnaðarmaður, kjörinn að sinni þjóð. Það er með ólíkindum að annað eins bull komi frá þingmanni eins og hagfræðingnum Þór Sari sem lysti því yfir að allar tillögur frá ríkisstjórninni væru della og vitleysa, þar væri byrjað á öfugum enda. Það hefði átt að láta allt bíða en einbeita sér að því að innheimta eða endurheimta það þá fjármuni sem útrásarvíkingarnir hefðu komið undan. Veit hagfræðingurinn og alþingismaðurinn Þór Sari ekki að slíkt getur tekið mörg ár? Veit hann ekki að sú vinna er hafin að rekja slóðir fjárglæframannanna, átti á láta allt reka á reiðanum í efnahagsmaálum á meðan? Birgitta Jónsdóttir þingkona Borgarahreyfingarinnar hefur endurvarpað skoðanir ÞS og segist ekkert vita hvaða afstöðu hún taki til Icesave samningsins. Og hvar er Þráinn Bertelsson, maðurinn sem taldi sig geta bjargað öllu fyrir kosningar en er týndur og tröllum gefinn eftir að hann fékk umboð þjóðarinnar til að ganga í björgunarflokkinn og fara í rústabjörgun?
Það er skelfilegt ábyrgðarleysi ef Alþingi fellir Icesave samninginn en miðað við þær skoðanir sem ýmsir hafa viðrað getur svo farið. Bjarni Benediktsson hinn nýi formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því yfir að mjög ólíklegt sé að flokkur hans styðji það á þingi að Icesave samningurinn taki gildi. Enn þá uggvænlegra er að það er vafasamt að sumir þingmenn Vinstri grænna styðji málið.
Icesave málið er skelfilegt mál fyrir land og þjóð. En við eigum ekki annan kost betri en gangast undir okið og samþykkja samninginn. Ég segi enn og aftur: Ef við gerum það ekki þá erum við komin í skammarkrók þjóðanna og verðum næstu áratugi að súpa seyðið af því, lifa sjálfsþurftarbúskap á landi hér, það er að segja þeir sem ekki koma sér burtu.
Þetta er skelfileg spá en er hún óraunsæ?
22.6.2009 | 23:07
Samfylkingarmaður telur að skoða eigi tillögu Sjálfstæðismanna rækilega
Horfði á Kastljós í kvöld þar sem þeir Tryggvi Þór Herbertsson alþingismaður og Þórarinn V. Þórarinsson lögmaður tókust á um tillögu Sjálfstæðismanna um að skattleggja greiðslur í lífeyrissjóði um leið og greiðslur eiga sér stað en ekki um leið og lífeyrisgreiðslur eru greiddar út sem lífeyrir. Það var athyglisvert að þarna tókust á tveir Sjálfstæðismenn en voru þó algjörlega ósammál. Líklega er Tryggvi Þór aðal hugmyndasmiðurinn að þessari skattalegu breytingu sem myndi, eftir því sem Sjálfstæðismenn segja, gefa Ríkissjóði miklar tekjur strax og ekki veitir af, nú er leitað í hverri smugu eftir fjármunum til að fylla upp í þann rosalega fjárlagahalla sem verður viðvarandi næstu árin.
Það er skemmst frá því að segja að ég fékk þó nokkurn áhuga á þessari hugmynd Sjálfstæðismanna. Þórarinn gerði sig sekan um rökleysu þegar hann hélt því fram a þetta myndi svipta ríkið skatttekjum síðar meir en þann málflutning skil ég ekki. Almenningur mun halda áfram að greiða í lífeyrissjóði um ókomin ár og þar með mun alltaf myndast skattstofn. Það má líkja þessari breytingu við það þegar við tókum upp staðgreiðslu skatta sem ekki nokkur maður í dag efast um að var mikið heillaspor. Þar var breytt um innheimtu skatta. Fyrir breytinguna var skattur greiddur að tekjum síðasta árs (skattur greiddur að lífeyrisgreiðslum við útborgun) en eftir að staðgreiðslan var tekin upp var skattur greiddur af tekjunum um leið og þær mynduðust (skattur greiddur af lífeyrisgreiðslum við innborgun í lífeyrissjóði).
Eflaust er það rétt hjá Tryggva Þór að á þessari hugmynd eru magrir agnúar en eins og hann sagði það á að finna leiðir til að sníða þá af og einnig að það er lítil framsýni að skjóta hugmynd í kaf um leið og einhver agnnúi sést. Þórarinn sagði reyndar að ef skattur yrði tekinn af lífeyrisgreiðslum strax í upphafi væri stofninn sem ber vaxtatekjur minni framvegis og það er eflaust rétt.
En væri ekki hægt að mæta því að nokkru með því að "skera ofan af kökunni". Rekstur lífeyrissjóða er óheyrilega fjármagnsfrekur og er ekki hægt að hagræða með því að fækka lífeyrissjóðum. Hvað eru margir lífeyrissjóðir reknir hjá þessari 320.000 manna þjóð?
Ég skora á þau Jóhönnu forsætisráðherra og Steinrím fjármálaráðherra að skoða þessa tillögu Sjálfstæðismanna vandlega.
20.6.2009 | 17:40
Viðbrögð fólks við rústabjörgun ríkisstjórnarinnar oft með ólíkindum
Það var æpt hátt á Austurvelli í vetur og raunar víða um land. Yfirþyrmandi reiði gegn útrásarvíkingunum, mönnunum sem eru örugglega búnir að koma undan stórum summum í skattaskjól víðsvegar um heim, og á tímabili að minnsta kosti gegn þeim stjórnmálmönnum, embættismönnum og stofnunum sem létu þetta viðgangast. En minnið virðist æði skammvinnt, það virðist sem svo að það sé að líða fólki úr minni hvernig allt þetta byrjaði. Það er ekki nokkur vafi á að ófarirnar byrjuðu með einkavinavæðingu bankanna þriggja, Landsbanka, Kaupþings og Glitnis. Mikill meirihluti þjóðarinnar var fylgjandi því að einkavæða bankana, það væri skárri kostur en að þeir væru ríkisreknir með tilheyrandi spillingu, hyglun vina og ættmenna og tök stjórnmálaflokkanna í gegnum bankaráðin og pólitísku bankastjóranna.
En hverjir voru það sem leiddu og stóðu fyrir einkavæðingu bankanna? Er það virkilega að gleymast að það voru þeir sem þá sátu í ríkisstjórn, það var samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem réttu einkavinum sínum bankana á spottprís, Björgólfum, Ólafi í Samskipum og Finni Ingólfsyni svo nokkrir séu nefndir. Svo tóku glæframenn úr viðskiptalífinu fullan þátt í þessu, sérstaklega var það áberandi í Kaupþingi. En það var heitt í kolunum í vetur of ekki að undra.
En við fórum í gegnum kosningar í vor og út úr þeim kosningum kom afgerandi um boð til þeirra tveggja flokka sem þá þegar voru komnir í rústabjörgun, minna fór fyrir hinum háværu pottalemjurum, þó varð til lítill flokkur Borgarahreyfingin með fjóra þingmenn og þeirra framganga virðist æði brottgeng.
En síðan rústabjörgunin hófst undir forystu Jóhönnu og Steingríms virðist hafa myndast tvenns konar hávær öfl sem ekkert gera nema æpa og öskra svo sem fyrrum. Það eru annarsvegar mjög óábyrgir stjórnmálamenn í stjórnarandstöðu á þingi og þar fer fremstur í flokki hinn nýi formaður Framsóknarflokksins Sigmundur Davíð og hefur sér til fulltingis tvær þingkonur, þær nefnst Vigdísi og Eygló. Þessi þríeining er ný á þingi og það er dapurlegt að þetta tiltölulega unga fólk virðist halda að það veki best á sér athygli með upphrópunum og ábyrgðarleysi. Þetta eru engir venjulegir tímar og þó þau séu ný á Alþingi þá bera þau ábyrgð á fortíð og afglöpum Framsóknarflokksins, þau ættu þess vegna ekki að hreykja sér hátt með óábyrgum upphlaupum, þjóðin er búin að fá nóg af slíku. Hins vegar eru ýmsir sjálfkjörnir einstaklingar sem stöðugt gera hróp að þeim sem í rústabjörguninni standa. Lengi hefur verið æpt á strætum og gatnamótum og auðvitað í fjölmiðlum "að ekkert sé gert" meira að segja ljósastauraökumaðurinn Eyþór Arnalds (sem DV gaf út sérstakt Suðurlandblað honum til heiður með forsíðumynd) "að landið sé stjórnlaust". Hann er aðeins einn af stórum hópi sem slíku hefur haldið fram þó allir viti bornir menn ættu að sjá og skilja að flórinn eftir Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn verður ekki mokaður á einum degi, einum mánuði eða einu ár, það mun taka mörg ár.Það hefur verið unnið hörðum höndum af ríkisstjórn, öllum stofnunum ríkisins, samtökum atvinnurekenda og launþega að finna leiðir út úr þessum hrikalega vanda eftir að þessir tver flokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkar, eyðilögðu undirstöður samfélagsins. Hefði þeir staðið sig betur í rústabjörguninni´ Og í dag heyrir maður að Hörður Torfason er kominn aftur á Austurvöll og veit nákvæmlega að allt sem nú er verið að gera til björgunar sé rangt. Ef þessi maður vissi nákvæmlega á sl. vetri hvað gera skyldi til bjargar, hvers vegna bauð hann ekki fram krafta sína og bauð sig fram til þings? Hörður Torfason er persónugervingur allir þeirra áábyrgu einstaklinga sem hafa ekkert fram að leggja annað en skammir, niðurrif og upphrópanir.
Við höfum þörf á öðru núna á þessum svo sannarlega síðustu og verstu tímum
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar