22.5.2009 | 11:30
Fyrirlestur Dr. Fred Goldberg í Háskóla Íslands
Föstud. 29. maí kl. 11:00 mun sænski vísindamaðurinn Dr. Fred Goldberg halda fyrirlestur í Háskóla Íslands um hin mjög svo umdeildu loftslagsmál. Dr. Fred er algjörlega á öndverðum meiði við Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna IPCC sem Al Gore fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna byggir kvikmynd sína "Óþægilegur sannleikur" á. Það þarf talsverðan kjark til að ganga gegn þessum öflum sem hafa fengið Nóbelsverðlaun fyrir kenningar sínar.
Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku:
Is it CO2 or the sun and ocean currents that controls our climate?
The lecture will first present a short climate history overview and then I will discuss the CO2 properties and if it has a climate effect or not. Then I will demonstrate some interesting observations concerning the role of ocean currents over the climate, ice conditions in the Arctic and temperatures. Finally I will discuss some observations between sun magnetic activity, temperature changes and cloud formations and what climate we can expect in the future.
Fyrirlesturinn er þannig fram settur að hann er auðskilinn öllum, hann er ekki aðeins fyrir innvígða.
Dr. Fred er einn af sífellt fjölmennari hópi vísindamana og almennra borgara sem hafa opnað augu sín fyrir í hvað ógöngur ríki heimsins eru að koma sér í með þessari ofurtrú á að maðurinn sé með kolefnisbruna og aukningu koltvísýrings CO2 að vinna skaða á loftslagi og hitastigi jarðarinnar.
Ein lítil staðreynd: Eftir árið 2002 hefur hitastig á jörðinni fallið en ekki hækkað. Á sama tíma hafa "sloppið" 150 milljarðar tonna af CO2 út í andrúmsloftið.
Hvers vegna hefur hitastig þá ekki hækkað þegar það hefur sannarlega lækkað?
Er hætta á að við séum á leið inn í lækkandi hitastig jarðar?
Það væri svo örugglega miklu alvarlegri tíðindi en að hitastig væri hækkandi.
21.5.2009 | 18:47
Hvaða efni er í "gróðurhúsahjálminum" og er það vitað hvað mikið er af manna völdum?
Já, það er vitað hvaða efni eru í "gróðurhúsahjálminum" (mín þýðing á greenhause effect) og það er vitað hvernig hlutföll efnanna eru og það er vitað að nokkru hve mikið stafar af mannanna verkum.
Vatnsgufa er um 95% af gróðurhúslofttegundum, koltvísýringur innan við 1%, síðan er nefnt metan, köfnunarefnisdíoxíð og aðrar tegundir. Prósentutölurnar sýna hve mikið af hverjum flokki er til komið af manna völdum. Þar sést að hið mjög svo umdeilda gróðurhúsagas CO2 er af manna völdum 0,117% af þessu tæpa 1%.
Nú er í uppsiglingu og raunar víða komin til framkvæmda gífurlegt átak til að berjast gegn þessari örstærð, það er m. a. gert með mjög svo íþyngjandi skattlagningu. Þetta er barátta sem mun litlu sem engu skila, fjármununum væri betur varið í annað og brýnna.
Heimild: Ian Plimer, ástralskur prófessor.
21.5.2009 | 11:29
"Ertu búinn að versla þér sundskýlu"
Nákvæmlega þetta, sem í fyrirsögn stendur, sagði Ragnhildur Steinunn í Kastljósi í gærkvöldi. Hvað er að ykkur sem starfið í fjölmiðlum, er til of mikils mælst að þið talið íslensku nokkurn veginn lýtalaust? Ef ungu mennina, sem rætt var við, vantar sundskýlu þá ráðlegg ég þeim að fara í einhverja verslun og "kaupa" sér sundskýlu. Fólk fer oft út að versla og kaupir sér hitt og þetta. Þetta viðtal var sannarlega fróðlegt, þessir tveir ungu menn eru að fara til Feneyja og ætla að leika þar tvo klæðlausa keisara í hálft ár á kostnað lands og þjóðar. Ég lái þeim ekki, klæðlausir keisarar hafa alltaf verið vinsælir og afburða seigir við að útvega sér peninga fyrir fötum sem enginn sér.
19.5.2009 | 00:02
Sigmundur Davíð og Vigdís voru í lágkúrunni, hryllingssaga Ásbörns Óttarssonar af kvótabraski var með ólíkindum
Eflaust hefðu margir viljað að stefnuræða Jóhönnu hefði verið miklu ítarlegri og sagt okkur nákvæmlega hvað er framundan í skattamálum, niðurskurði, skuldastöðu og fl. en við því var tæpast að búast. Lágkúruna áttu þau Sigmundur Davíð og Vigdís Hauksdóttir. Það er dapurlegt að tveir nýir þingmen skulu vera á svo lágu plani eins og þau voru í kvöld og svo kórónaði Sigmundur Davíð allt með hroka sínum; ávarpaði hvorki forseta þingsins eða áheyrendur. Það er vissulega áhyggjuefni fyrir Framsóknarflokkinn ef hann ætlar að grafa sig niður í kalt stríð að gamalli fyrirmynd. Það var nokkur annar blær á ræðu Guðmundar Steingrímssonar og ég fagna því að það skuli kominn maður á þing sem hefur það vald á mæltu máli að geta talað blaðalaust, að undanförnu hefur það verið Steingrímur einn sem hefur haft það á valdi sínu. Mér fannst Borgarahreyfingin nokkuð málefnaleg enda getur hún varla verið öðruvísi ef hún ætlar að vera trú sínum uppruna.
En Sjálfstæðisflokkurinn kom mér á óvart. Ólöf Nordal var yfirveguð eins og hún á kyn til, var málefnaleg án allra upphrópana. Hins vegar varð ég undrandi á hvernig Bjarni Benediktsson form. Sjálfstæðisflokksins beraði sig sem vaktmann fyrir óbreytt kvótakerfi, hann eyddi talsverðu af ræðutíma sínum í að rekja hryllingsmynd útgerðarauðvaldsins að allur sjávarútvegur færi á hausinn ef fyrningaleiðin væri farin. En að hann skyldi vera svo seinheppinn að segja fyrningarleiðina "þjóðnýtingu" var með ólíkindum, Hver á veiðiréttinn, hver á auðlindina, hver á fiskinn í sjónum? Var formaður Sjálfstæðisflokksins að lýsa því yfir að auðlindir hafsins væru ekki sameign þjóðarinnar heldur óafturkræf eign fárra sægreifa?
En nýi þingmaðurinn frá Rifi var þó sá seinheppnasti í umræðunum. Sem útgerðarmaður rak hann áróður fyrir sín einkasjónarmið eins og þau koma honum fyrir sjónir en sagði sögu sem lýsti í hnotskurn hversu kvótakerfið er rotið og óheilbrigt. Útgerðarmaður í Ólafsvík seldi honum og öðrum útgerðarmanni á Rifi allan kvótann sinn á tugi milljóna. Þeir á Rifi áttu ekki krónu og slógu lán fyrir kvótakaupunum 100%. Nú hafa þessi lán hækkað og hækkað vegna óstjórnar Sjálfstæðisflokksins, en hvað um þann sem seldi?. Hann lifir eins og blómi í eggi, ávaxtaði það sem hann fékk fyrir kvótann og þarf ekki að dýfa hendi í kalt vatn, Hann á enn bátinn sem hann fékk kvótann út á en sá bátur fer aldrei úr höfn lengur.
Þetta sagði Ásbjörn í ræðu á Alþingi, þarna lýsti hann réttilega þessu gjörspillta kerfi, maður selur réttindi sem samfélagið veitir honum, hvernig í ósköpunum gat það gerst að þessi sameign þjóðarinnar yrði braskvara sem gerði suma svo ríka að þeir geta lifað í vellystingum praktuglega án þess að þurfa nokkuð fyrir því að hafa.
Hvernig fór fyrir Eskju á Eskifirði, hvert fóru lötu erfingjar Alla ríka með andvirði kvótans, hvernig var með "dýrasta" skilnað Íslandsögunnar þegar Samherjaforstjórinn skildi við eiginkonu síns. Hann varð að borga henni væna summu vegna syndandi þorska í sjónum. Áður hafði sameigandi hans og frændi fengið einnig stórar summur fyrir lifandi þorska sem þeir töldu sig eiga, frændinn flutti til Reykjavíkur og braskaði þar með þorskapeningana, sem við, þjóðin, héldum að við ættum.
Ef einhver útgerðar - eða fiskvinnslufyrirtæki fara á hausinn við fyrninguna þá mega þau fara rúllandi á hausinn, þá er enginn grundvöllur fyrir tilveru þeirra. Það eru nógu margir sem eru reiðubúnir til að ná í þann fisk sem við fáum að veiða árlega.
14.5.2009 | 23:36
Frá árinu 2002 hefur verið kólnun á jörðinni, ekki hlýnun
Hér kemur línurit sem sýnir þróun hitastigs á jörðinni frá árinu 2001.
Dökka línan sýnir mælingar úr gervitungli, sú rauða mælingar á jörðu.
Þetta sýnir "Global cooling" en ekki "Global warming". Það er hinsvegar staðreynd að koltvísýringur CO2 hefur aukist í andrúmslofti á sama tíma. Af hverju hefur þá ekki verið stöðug hlýnun á jörðinni ef þetta gas er sá orsakavaldur sem "alarmistar" (dómsdagsspámenn) halda fram?
Af hverju stafaði sú mikla hlýnun sem var á miðöldum þegar miklu minna var af CO2 í andrúmslofti? Af hverju stafaði "Litla ísöld" á milli áranna 1600 - 1700?
14.5.2009 | 13:22
Það var miklu hlýrra á Sturlungaöld en í dag, það viðurkenna allir heiðarlegir vísndamenn
Hann Hilmar í Sápuboxinu er loksins búinn að viðurkenna að Hokkýstafurinn hans Michael Mann er röng vísindi, ég segi ekkert annað en fölsun. Hokkýstafinn bjó MM til svo hann gæti sannað að hitastig á jörðinni hefði ekki verið hærra á norðurhveli jarðar sl. 1000 ár en á síðustu árum frá aldamótum. Hann þurrkaði einnig út "Litlu ísöld" þegar frost voru svo ströng að Thamsá í London varð ísilögð.
Hér er samanburður á hinum fráleita Hokkýstaf og því sem sannast hefur verið talið miðað við gögn, sögur og annála. Af því má sjá að hitinn var mestur um 1200 en lægstur 1600 - 1700. Nú er Michael Mann búinn að viðurkenna sína fölsun og færa Hokkýstafinn nær hinum eldri gögnum. Þá er hann heldur ekki lengur neinn Hokkýstafur heldur verður honum kastað á ruslahaug vísindanna, því miður er sá haugur allt of stór.
14.5.2009 | 11:10
Dómsdagur er í nánd segir World Wildlife Fund
Það er hrikaleg frétt í Fréttablaðinu í morgun. Það lítið hægt að segja við því að fjölmiðlar flytji slíkar fréttir. Hins vegar get ég sagt út frá þeirri þekkingu sem ég ef aflað mér að þessi"dómsdagsspá" er að nánast ekkert annað en enn ein skelfingarfréttin frá "alarmistum" sem ekki er byggð á vísindum heldur trúarhita, það skal ofan í lýðinn að maðurinn sé með sínum gjörðum að eyðileggja jörðina.
Sem betur fer er þetta litla peð, maðurinn, ekki með þá þekkingu og kraft til að vinna slíkt skemmdarverk. Því síður getur hann breytt neinu teljandi á jörðinni, allra síst að minnka magn koltvísýrings CO2 í andrúmslofti. Það er ekki hægt að neita því alfarið að maðurinn geti aukið magn CO2 en það er svo lítið að ekki skiptir máli. Nú er búið að reka flestar iðnvæddar þjóðir til að vinna gegn þessum meinta vágesti, CO2, með óheyrilegum kostnaði, skattlagningu og ekki síður að byggja heilu "skrímslin" til að vinna CO2 úr loftinu og festa niður í berglögum. Þó er vitað að það er sáralítið sem vinst í því að minnka magn CO2.
Hins vegar hefur þessi eindæma barátta gegn þessu lífsnauðsynlega gasi CO2 (það stendur undir öllum gróðri á jörðinni og sér okkur þar með fyrir súrefni) orðið til þess að athyglin beinist eingöngu þangað, allt annað virðist ekki skipta máli. Öll sú mengun sem er á jörðu niðri virðist gleymd, mengunin sem liggur í strætum borga, CO útblástu bíla (CO er ekki það sam og CO2) svifryk, allt það óhemjudrasl sem er hent í höfin, allt votelndið sem er eyðilagt, svo mætti lengi telja.
Það er ekki í "tísku" að tala um annað en "loftslagsbreytingar af manna völdum".
Þær eru sáralitlar sem engar.
12.5.2009 | 17:12
Getur verið að ég sé með áfallastreituröskun?
Hvað veit maður. Satt best að segja hef ég verið sáralítið sótthræddur á minni löngu ævi en kannski ætti maður að vera betur á verði. Ég hef látið mér í léttu rúmi liggja hvort svínainflúensan er komin til landsins og hvorki keypt mér grímu, spritt eða einhver töfralyf til að varna þessum veiruher að komast inn í skrokkinn á mér (Biðst afsökunar, ég á víst að segja "versla mér" en ekki "kaupa mér" skv. hinum einörðu tilskipunum fjölmiðlafólks).
En það er þetta með áfallastreituröskunina. Ég held að ég skilji íslensku nokkuð vel en verð að segja eins og er; orðið áfallastreituröskun veldur mér talsverðum heilabrotum, ég veit að þetta kemur eitthvað inn á heilbrigðið. En nú held ég að ég sé búinn að skilja þetta til fulls.Þetta á við ef maður verður fyrir áfalli, dettur niður stiga, verður fyrir bíl, stígur á nagla eða eitthvað annað. Þá er áfallið komið, ekki vafi. Af áfallinu fæ ég líklega streitu, það er víst eitthvað skylt við það sem í gamla daga var kallað taugveiklun eða móðursýki. En þá fer málið að vandast. Ef streitan er ekki viðvarandi heldur að koma og fara þá er streitan sem sagt að raskast, hún slitnar sundur. Er það þá jákvætt að vera stöðugt með streitu, er það betra en að hún sé á stöðugut að raskast? En ef hún kemur og fer eins og sjávarföll þá er viðkomandi klárlega kominn með "áfalla-streitu-röskun"
Nei skrattakornið, ég held að ég sé ekki með "áfallstreituröskun".
11.5.2009 | 11:08
Nýja ríkisstjórnin stendur frammi fyir hrikalegum vandamálum
Aldrei hefur nokkur ríkisstjórn á íslandi tekið við jafn hrikalegu búi og ríkisstjórnin sem tók við í gær. Það er full ástæða til að fagna því að í fyrsta skipti hefur komist til valda ríkisstjórn sem byggir á norrænum gildum jafnaðarmanna. Ráðherralisti stjórnarinnar er traustvekjandi. Það er rétt ráðið að þeir tveir ráðherrar sem eru utan þings, þau Ragna og Gylfi og sátu í 99 dag ríkisstjórninni, sitji áfram. Störf Rögnu hafa verið meira í skugga en ég vona af heilum hug að hún taki til hendi nú strax og rösklega að þvo þann smánarblett af stjórnvöldum og þjóðinni allri; hvernig við höfum tekið við hrjáðum flóttamönnum, það má telja á fingrum annarrar handar þá einstaklinga sem við höfum rétt hjálparhönd, viðbrögðin gagnvart flóttamönnum hafi nær alltaf verið þau að hrekja þá úr landi. Þetta verður Ragna að taka föstum tökum. Það er mikill fengur að Gylfi verði ráðherra efnahagsmála, hann er yfirvegaður og hefur mikla þekkingu á sínu sviði. Vonandi á Svandís farsælan feril sem Umhverfisráðherra framundan, hún hefur vítin að varast ef hún lítur á störf fyrirrennara sinna Þórunnar og Kolbrúnar. Fyrir Kópavogsbúa til margra áratuga er það sérstakt fagnaðarefni að "Kata stelpan úr Kópavogi" sé orðinn ráðherra, tekur hvorki meira né minna við einu af umdeildustu ráðherraembættunum, verður Iðnaðarráðherra. Og svo er það "Árni Páll strákurinn úr Kópavogi" sem tekur við einu viðkvæmasta málaflokknum, félagsmálunum. Ég tel að það hafi verið rétt að fjölga í ráðherrastöðunum við þessar aðstæður sem nú eru, að sjálfsögðu hefði það ekki verið neitt vit að Steingrímur hefði verið með sjávarútveg og landbúnað á sínum herðum ofan á fjármálaráðuneytið svo dæmi sé tekið. En Jóhanna forsætisráðherra er verkstjórinn og tæpast væri hægt að finna hæfari einstakling til að sinna því risavaxna verkefni en hana.
En svo kemur stóra spurningin; hvernig mun stjórnarandstaðan starfa á Alþingi?
Það eru vissulega slæm teikn á lofti um hvernig Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, þessir tveir flokkar sem eiga nær alfarið sök á óförum lands og þjóðar ásamt fjárglæframönnum sem fengu að leika sér að fjöreggjum þjóðarinnar í boði þessara tveggja flokka, ætla að starfa í stjórnaraðstöðu. Hjá báðum foringjunum, Bjarna Ben. og Sigmundi Davíð, er þegar farið að glitta í skóflublöðin. Ætla þeir virkilega að grafa sig niður í gamaldags skotgrafir? Framganga Sjálfstæðismanna á Alþingi fyrir kosningar er svo sannarlega ekki góð vísbending um hvað í vændum er. En við skulum vona það besta. Þessir foringjar stjórnarandstöðunnar ættu að gera sér grein fyrir því að þjóðin mun fylgjast með þeirra störfum ekki síður en með störfum ríkisstjórnarinnar. Mér sýnist að hinir fáu þingmenn Borgarahreyfingarinnar ætli að vinna málefnalega, vonandi vinnur öll stjórnarandstaðan þannig.
6.5.2009 | 21:09
Ágætt og fræðandi viðtal við bankastjórana þrjá
Kastljósi var að ljúka. Það kom margt ágætt og jákvætt fram í viðtalinu við Birnu, Finn og Ásmund. Satt best að segja er ég orðinn hundleiður á þeirri svartsýnu og neikvæðu umræðu sem verið hefur í þjóðfélaginu og öllum fjölmiðlum undanfarið. Með því að segja þetta er ég engan veginn að gera lítið úr erfiðleikum margra einstaklinga og fjölskyldna. Undanfarið hefur talsvert verið leitt fram af fólki sem á í miklum fjárhagslegum erfiðleikum. Hjá bankastjórunum kom fram og hjá Jóhönnu forsætisráðherra í fréttunum að samstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur gert fjölmörgum kleift að komast út úr erfiðleikunum en það kom einnig fram hjá þremenningunum að það eru ótrúlega margir sem ekki láta reyna á hvað hægt er að gera. Það má víst ekki nefna það en ég geri það samt sem áður; þeir voru of margir sem tóku þátt í dansinum um gullkálfinn í góðærinu og hefðu jafnvel ekki komist frá því með heilt skinn þó hrunið mikla hefði ekki á dunið. Það er t. d. ótrúlegt fyrirhyggjuleysi að kaupa sér hús eða íbúð án þess að eiga krónu og fá allt að láni 100%. Það hafa fyrr verið erfiðleikar á Íslandi og á minni löngu ævi hef ég séð margt og reynt margt. Ég hef heyrt hamar fógetans skella mínu stofuborði í húsinu sem við hjónin byggðum yfir okkur og börnin okkar fimm. Þetta var fyrir meira en þremur áratugum þegar verðbólgan fór í 70% á ársgrundvelli. En við gáfumst ekki upp og börðumst í von um að betri tíð væri í vændum og sú tíð kom með þjóðarsáttarstjórn Steingríms Hermannssonar sem kvað niður verðbólgudrauginn í samvinnu við atvinnurekendur og verkalýðsfélög með Sjálfstæðisflokkinn vælandi í stjórnarandstöðu, þann stjórnmálflokk sem hefur verið óþarfastur af öllum fyrir land og þjóð. En við hjónakornin neituðum að fara í hóp hinna gjaldþrota og með mikilli og góðri hjálp komumst við yfir erfiðleikana. Í mörg ár voru skuldir okkar langt yfir eignum en því dæmi tókst að snúa við. Við sameinuðum skuldir okkar hjá Glitni (nú Íslandsbanka) helmingurinn verðtryggðar krónur, helmingurinn myntkörfulán. Þetta hefur heldur betur vaxið eins og púki á fjósbita við bankahrunið en eitt stóð bjargfast fyrir okkur; í skilum skyldum við vera, sú hugmynd að hætta að borga af lánum, jafnvel þó það sé hægt, er svo arfavitlaus að engu tali tekur. Það var dapurlegt að horfa á og heyra ábyrga menn koma fram í Kastljósi í gær og mæla með þessari leið. Ég vona að fólk hlusti frekar á okkar ágæta viðskiptaráðgherra Gylfa Magnússon. Já, afborgunin af láninu í Íslandsbanka var orðin æði þung 1. febr. sl. en nú hefur bankinn komið til móts við okkur og skuldbreytt, fært afborgunina til þess sem hún var 1. maí 2008. Hvað þýðir það? Það þýðir að að afborgunin nú 1. maí er 18% lægri en hún var 1. febr.
Ég tek undir það með gamla Moskvukommanum Guðmundi Ólafssyni hagfræðingi í Silfri Egils að "syndafallið" gefur þessari þjóð, ekki síst þeim sem yngri eru, mikla möguleika í framtíðinni. Gamla Moskvukommanum er næstum fyriregefið að mæla með því að við tækjum upp dollar (nei ég held ég taki fyrirgefninguna til baka).
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar