11.10.2010 | 16:32
Hvað vakir fyir þingmönnum, sem fljótlega eftir að Stjórnlagaþing var ákveðið, fóru að koma fram með tillögur sem varða stjórnarskrána?
Mér finnst þetta nokkuð sláandi. Alþingi, sem hefur ekki getað endurskoðað Stjórnarskrána i heild frá lýðveldisstofnun er nú farið að vasast í breytingum á stjórnarskrártengdum málum. Það er vitað að aðgreining þriggja þátta stjórnkerfisins verður eitt mikilvægasta verkefni Stjórnlagaþings. Samt eru þingmenn að koma fram með tillögur um að þingmenn segi af sér þingmennsku ef þeir verða ráðherrar, landið verði gert að einu kjördæmi og núna síðast að setja einhverskonar reglur um persónukjör.
Ættu ekki Alþingismenn að sýna verðandi Stjórnlagaþingi þá virðingu og það traust að slík mál verði þar tekin föstum tökum og verði í þeirri heildarendurskoðun Stjórnarskrárinnar sem að er stefnt?
11.10.2010 | 13:49
Ég hef boðið mig fram til Stjórnlagaþings
9.10.2010 | 10:13
Hvimleið ónákvæmni í fjölmiðlum og ekki síður dapurleg málþróun
Til hamingju með afmælið á morgun þríburar á Brjánslæk. Ég var að lesa um ykkur í Fréttablaðinu í morgun og þá kom enn einu sinni í ljós léleg landafæðikunnátta fréttamanns, eða var það bara flumbrugangur? Þríburarnir voru sagðir eiga heima á Brjánslæk, reyndar á Brjánslæk við Patreksfjörð. Ég fór að kanna í eigin huga hvort einhver bær með því nafni sé við Patreksfjörð en þegar ég sá að þríburarnir sækja skóla að Birkimel þá fór ekki á milli mála að þeir eiga heima á Brjánslæk á Barðaströnd við Breiðafjörð.
Hvernig væri nú fjölmiðlamenn góðir að vanda sig svolítið betur?
Þó ég væri ekki að leggja náið við hlustir þá heyrði ég að í útvarpinu á Rás 1 var einhver umræða um Snæfellsnes. Þar var sagt að á nesinu væru þrír þéttbýliskjarnar (5 atkvæði). Hvers á hið gamla stutta og snjalla orð ÞORP (1 atkvæði) að gjalda? Ég á heima í Sveitarfélaginu Ölfusi og til nánari skýringar í þorpinu Þorlákshöfn.
9.10.2010 | 09:51
Landselur var það, ekki útselur
Ekki er nokkur vafi að skemmtilegasta sjónvarpsefni, sem nú er í boði, er Útsvar. Þau eru aldeilis prýðilegir stjórnendur þau Þóra og Sigmar. Mismunandi er hvernig keppendur ýta undir húmor og skemmtilegheit, i gær var stórgaman af liðum Reykjaness og Álftaness.
Í gær varð að koma fram leiðrétting vegna fjölda sveitarfélaga og þar var annað liðið í þarsíðustu keppni hækkað um 15 stig sem þó hafði ekki áhrif á úrslitin.
Í gærkvöldi kom svar í flokkaspurningum frá Álftnesingum hvaða selur sæist a mynd. Álftnesingar svöruðu að þar væri liggjandi útselur og fengu stig fyrir rétt svar. Ég er alinn upp á Þjórsárbökkum en þar á eyrunum kæpti landselurinn og frá blautu barnsbeini man ég ekki eftir nokkru vori að ekki væru veiddir 20 - 30 landselskópar. Það er öruggt að svarið útselur var rangt, myndin var af landsel. Útselurinn er miklu stærri og þessa seli er auðvelt að að þekkja í sundur á höfuðlaginu, útselurinn er miklu stórskornari.
Fullyrðing mín um rányrkju byggist á því að ef jarðgufuvirkjun framleiðir aðeins rafmagn nýtir hún einungis 14% af þeirri orku sem í jarðgufunni býr. Ef virkjunin framleiðir bæði rafmagn og heitt vatn er nýtingin 85% og lengra verður tæplega komist. Lítum aðeins á hagkvæmustu jarðgufuvirkjun landsins, Nesjavelli við Þingvallavatn. Þegar búið er að nýta jarðgufuna til rafmagnsframleiðslu er hitað upp vatn með sömu gufu og búin er að knýja rafmagnstúrbínurnar og því vatni dælt til höfuðborgarsvæðisins. Það heita vatn nægir til að hita upp öll hús í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Álftanesi. Þannig verður Hellisheiðarvirkjun einnig byggð upp þó tæpast sé ennþá markaður fyrir heita vatnið sem hún mun framleiða, en að því mun koma. Suðurnesjavirkjun mun einnig vera nokkuð hagkvæm, framleiðir bæði rafmagn og heitt vatn.
En er til virkjun á Íslandi sem sóar svona átakanlega orkunni sem við sækjum í formi gufu í iður jarðar?
Sú virkjun heitir Kröfluvirkjun, hún nýtir aðeins 14% af orkunni sem sótt er niður í jörðina, síðan fer gufan sína leið, hún er meira að segja kæld með töluverðum kostnaði og engum til gagns.
Þetta er rányrkja og ekkert annað.
Stundum hefur hvarflað að mér hvort ekki væri hægt að nýta þessa miklu orku, sem fer til spillis við Kröfluvirkjun, og reisa mikið og gjöfult ylræktarver sem gæti séð landmönnum fyrir miklum hluta þess grænmetis sem við verðum nú að flytja inn og skapaði mikla vinnu í Þingeyjarsýslum. Vissulega nokkur stofnkostnaður en orkan er ókeypis, hún fer í dag út í veður og vind engum til gagns. Og nú eru áætlanir um að reisa álbræðslur við Húsavík og í Helguvík ásamt því að stækka Straumsvík og reisa mörg og mikil gagnaver. Allar eiga þessar áætlanir það sameiginlegt að orkan skal sótt að mestu í iður jarðar í formi jarðgufu. Þeistareykir, Gjástykki, Reykjanes og Hellisheiði, víða skal leitað fanga með rányrkju á náttúruauðlindinni sem er langt frá því að vera óþrjótandi. Það er því miður ekki til nema lítill markaður fyrir heitt vatn frá þessum jarðgufuvirkjunum og þær norðlensku, ef af verður, hafa engin þéttbýli sem markað.
Við höfum á undanförnum árum deilt ákaft um virkjanir og þá aðallega vatnsaflsvirkjanir. Í þeim er ekki um sóun á orku að ræða, frekar beinist gagnrýnin að umhverfi og náttúru. En meira að segja sú umdeildasta, Kröfluvirkjun, nýtir vatnsafl, vatn sem hvort sem er rynni sína leið til sjávar, afl sem án virkjunar yrði engum til gagns.
Í vatnsaflsvirkjunum er aldrei um samskonar rányrkju á náttúruauðlind að ræða og í flestum jarðgufuvirkjunum ef þær verða staðreynd.
8.10.2010 | 17:18
Hvað sagði Mark Flanagan um árangur íslenskra stjórnvalda eftir hrun?
Samstarf Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa verið umdeilt hér á landi. Ekki hefur þó tekist að benda á nokkuð sem sýni að AGS segi íslenskum stjórnvöldum fyrir verkum og ég álít að við værum í dag ver stödd ef við hefðum ekki tekið upp samstarf við AGS. Mark Flanagan hefur frá upphafi verið formaður sendinefndar AGS hér á landi frá því samstarfið hófst en lætur nú af því starfi.
Hann metur ástand efnahags- og þjóðmála á eftirfarandi hátt og ég held að álit hans sé öllum holl lesning:
Það var fullt tilefni til að ætla að ástandið yrði slæmt á meðan
kreppan stæði yfir. En íslenska hagkerfið virðist hafa náð jafnvægi
fyrr en við reiknuðum með. Ég veit að það mat kann að vera umdeilt á
Íslandi, en ef við horfum á alla helstu hagvísa þá sýna þeir þann
árangur. Neysla virðist hafa náð jafnvægi í lok síðasta árs,
vinnumarkaður hefur náð jafnvægi, verðbólga hefur lækkað mikið og
gjaldmiðillinn hefur jafnað sig frábærlega á síðustu mánuðum. Margir
þeirra lykilþátta sem eru nauðsynlegir til að ná efnahagslegum
stöðugleika hafa orðið að veruleika á síðustu tveimur árum.
Það hefur því mjög margt náðst fram hvað varðar aðlögun íslenska
efnahagslífsins að nýjum veruleika. Ísland er að mörgu leyti langt á
undan öðrum löndum í sínum bata sem hafa lent í svona vandræðum"
Það er líka mikið afrek að íslenskum stjórnvöldum hefur tekist að
fara í gegnum þessa aðlögun á sama tíma og þeim hefur tekist að
viðhalda meginundirstöðum norræns velferðarkerfis og án þess að gera
eðlisbreytingu á því sem við hjá AGS teljum vera mjög einfalt og
afkastamikið skattkerfi.
Það er ekki hægt að vinna sig upp úr svona stórri kreppu á skömmum
tíma. Þar er enn margt sem þarf að gera til að gera efnahag landsins
stöðugan á ný og það tekur tíma að vinna úr skuldabagga af þeirri
stærðargráðu sem Ísland glímir við.
Reynslan úr fyrri kreppum segir okkur að endurskipulagningarferli
fyrirtækja taki vanalega á bilinu 18-36 mánuði. Núna erum við stödd
nokkurn veginn í miðju þess tímaramma.
"Listamenn geta fengið sér venjulega vinnu" segir Ásbjörn og vill afnema öll listamannalaun. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slíkar kröfur koma fram á Alþingi, en listamannalaun eru miklu eldri en núverandi lög um launin. Vissulega gerðist ýmislegt rammpólitískt fyrrum svo sem þegar Halldór Laxnes var sviptur þeim launum, sem Alþingi hafði samþykkt honum til handa, fyrir hið eftirminnilega ljóð "Unglingurinn i skóginum".
En nefndur Ásbjörn Óttarsson á sér nokkuð eftirminnilega sögu eftir að hann kom á þing. Hann er útgerðarmaður af Snæfellsnesi og eflaust einn af þeim sem vilja standa fast á þeim "stuldi" á auðlind sem er fiskurinn í sjónum. Að vísu var sá "stuldur" studdur lögum frá Alþingi svo það má víst heimfæra hin fleygu ummæli Vilmundar Gylfasonar um þann verknað að hann sé" löglegur en siðlaus". En eins og flestir útgerðarmenn vill Ásbjörn gera tvennt í einu; skuldsetja útgerðina upp í rjáfur en fá samt góð laun auk ríkulegs arðs út úr sömu útgerð. Eitt árið gekk ekki vel svo hann, auk launa, tók aðeins um 20 milljónir í arð og er þó hans útgerð ekki nema einn bátur. En þar skriplaði hann á skötunni, þetta ár var bókhaldslegt tap á útgerð hans og skattmann þurfti endilega að skipta sér af. Fyrirtæki sem er rekið með bókhaldslegu tapi má ekki greiða eiganda sínum arð!
Þar fór í verra, Ásbjörn einfaldlega endurgreiddi 20 milljónirnar og sagðist ekkert hafa vitað um að hann mætti ekki taka að vild peninga úr sinni eigin útgerð. En næsta árið var reksturinn með bókhaldlegan hagnað og að sjálfsögðu fór Ásbjörn í sjóði félagsins og greiddi sér arð auk launa.
Þá bætti hann sér ríflega upp 20 milljónirnar sem hann varð að skila og tók sér 60 milljónir í arð fyrir eitt ár!
Er nokkur furða að slíkur landstólpi sjái ofsjónum yfir launum til bókabéusa, einhverra gaulara og pensilstrokumanna svo nokkrir hópar séu nefndir sem fá einhverja hungurlús frá því opinbera. Svo hefur nefndur Ásbjörn allt á hornum sér vegna Hörpunnar, tónlistarhússins sem er að rísa við höfnina. Peningarnir, sem til þeirrar byggingar renna, væru eflaust betur komnir í umferðamiðstöð við flugvöll sem er að hverfa, austur á peningum í 2+2 Suðurlandsveg þegar hægt er að fá jafnvel betri veg sem er 1+2 og að minnsta kosti helmingi ódýrari, eða þá að gera aðra tilraun við að byggja "nothæfa" höfn í sandi Suðurstrandar.
En hafa listamenn ekki alltaf verið til óþurftar? Það er ekki eins og listamen séu einhver nútíma uppfinning. Þessi þjóð var ekki búin að vera lengi á Íslandi þegar menn fóru að paufast við að skrifa á kálfskinn í klaustrum og kotbýlum. Hvað mörgum kálfslífum fórnaði Snorri Sturluson til að geta párað á skinnin, þá var að vísu enginn Ásbjörn uppi til að koma í veg fyrir alla kálfaslátrunina. Ef Íslendingar hefðu alla tíð verið harðir gegn allri sóun til manna og kvenna sem telja sig listamenn en ættu í staðinn að vinna ærlega vinni væri öðru vísu umhorfs. Af hverju gátu Einar Jónsson, Ásmundur og Sigurjón ekki unnið sem múrarar í staðinn fyrir að vera að búa til fígúrur sem sem svo er dreift út um borg og bí? Og hvaða vit er í að vera að gera eitt einbýlishús í Mosfellsdalnum að safni til minningar um mann sem páraði nokkrar bækur og sigldi til Svíþjóðar til að ná sér í verðlaun sem sprengjusérfræðingurinn Nóbel stofnaði?
En til að öllu réttlæti sé fullnægt er rétt að geta þess að nefndur Ásbörn hefur beðist afsökunar á orðum sínum um listamannalaun. Ástæðan til að þau hrukku út úr honum eru alls ekki á hans ábyrgð, þau eru á ábyrgð konunnar sem í það skipti sat í forsetstóli á Alþingi. Hún hélt fast við einhver tímamörk þegar Ásbjörn lét gullkornin falla í ræðustóli og lá á því lúalagi að fara að lemja bjöllu. Hvernig átti arðþeginn af Snæfellsnesi að geta hugsað skýrt við slíkar aðstæður og truflanir?
Það er sannað að til eru menn sem geta ekki gengið eftir gangstétt og tuggið tyggigúmmí jafnframt, ráða við annaðhvort; standa kyrrir og tyggja eða ganga og tyggja ekki. Slíkir menn verða að velja sér verk sem þeir ráða við og starfsvettvang eftir hæfileikum.
1.10.2010 | 10:59
Engan hefði átt að draga fyrir Landsdóm vegna þess að Landsdómur er algjörleg óhæft og ólöglegt verkfæri til að kalla fram réttlæti
Það var dapurlegt að sitja fyrir framan skjáinn og fylgjast með atkvæðagreiðslunni um hvort ákæra ætti fjóra fyrrverandi ráðherra úr Ríkisstjórn Geirs Haarde, Þingvallastjórninni, sem sat frá miðju ári 2007 fram í byrjun árs 2009. Enginn ber jafn mikla ábyrgð á þeim ömurlega farvegi sem Landsdómsmálið tók og Atli Gíslason formaður þingmannanefndarinnar svokölluðu. Það er að dapurlegt því sú nefnd skilaði gagnmerku starfi sem algjörlega hefur fallið í skuggann af þessu ömurlega Landsdómsmáli.
Landsdómur er algjörlega úrelt fyrirbrigði sem sett var á laggirnar þegar við fengum heimastjórn í upphafi 20. aldar og einu sinni munu lögin um Landsdóm hafa verið endurskoðuð í staðinn fyrir að afnema þau með öllu. Með landsdómi er verið að rugla saman tveimur af grunstoðum lýðræðis á Íslandi, dómsvaldi og löggjafarvaldi. Ef stjórnmálamenn, hvort sem það eru ráðherrar eða aðrir kjörnir fulltrúar, teljast hafa brotið að sér á dómsvaldið að fjalla um mál þeirra.
Ef við skoðum uppbyggingu Landsdóms þá er það með ólíkindum að önnur eins stofnun, sem kalla má skrímsli, skuli vera til í íslenskri stjórnskipan. Alþingi er komið í komið inn á svið dómskerfisins sem ákærandi, skipar hluta dómsstólsins og kýs sér saksóknara til að sækja mál á hendur þeim sem Alþingi samþykkir að skuli dregnir fyrir dóminn. Ekki nóg með það, Alþingi skal kjósa fimm alþingismenn sem aðstoðarsaksóknara. Önnur eins hringavitleysa og lögin um Landsdóm eru tæplega til Í Lagasafni Íslands.
En þetta eru gildandi lög, er ekki eðlilegt að Alþingi fari eftir gildandi lögum? Á Alþingi hvíldi engin skylda um að vinna samkvæmt lögum um Landsdóm. Ég er yfir mig undarandi á að ekki einn einasti af 63 þingmönnum þjóðarinnar skyldi ekki standa upp og lýsa því yfir að lögin um Landsdóm væru svo gölluð að það væri ekki mögulegt að fara að vinna eftir þeim og sá hinn sami tæki ekki þátt í þeim hráskinnaleik sem leikinn var á Alþingi. Ég hef áður bent á hve lögin um Landsdóm brjóta stjórnarskrána hvað varðar hinar þrjár meginstoðir lýðræðisins, framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald.
Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessi lög eru brot á Stjórnarskrá Íslands, brot á jafnréttisreglunni og þar með mannréttindabrot.
Mér finnst að þessir föstu lögspekingar, sem yfirleitt eru leiddir á skjá og í aðra fjölmiðla, hafi fallið á prófinu. Þeir hafa flestir vottað lögunum um Landsdóm, þessu gamla skrifli sem ætti að vera búð að afskrifa fyrir löngu, virðingu sína með því að votta að allt sé í ljúfasta lagi með þessi lög, pottþétt gegn Stjórnarskrá, jafnréttishugtakinu og mannréttindum.
Nú ætla ég að gera þá kröfu til hæfustu lögspekinga landsins, annarra en þeirra sem hafa látið draga sig í að gefa lögunum um Landsdóm heilbrigðisvottorð, láti duglega heyra í sér og taki hressilega á þessu ógeðfellda máli, á máli þar sem Alþingi féll gjörsamlega á prófinu og vann eftir lögum sem brýtur gegn öllum grundvallarreglum íslensks þjóðfélags. Það getur tæplega verið hlutskipti pípulagningameistara í Þorlákshöfn að benda á þær augljósu staðreyndir sem raktar hafa verið að framan, hvar eru allir okkar hæfustu lögspekingar, hæfir lögspekingar sem ekki hafa selt sálu sína.
28.9.2010 | 21:01
Hörmuleg afgreiðsla Alþingis á ákærum til Landsdóms
Ég hef sagt það áður hér á blogginu; það átti enginn af fyrrverandi ráðherrum að fara fyrir Landsdóm. Í fyrsta lagi vegna þess að málefnagrundvöllur er ekki fyrir hendi svo nær það ekki nokkurri átt að Alþingi sé með ákæruvald sem það getur beitt. Það er rétt sem kom fram hjá mörgum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að andi laganna og réttlætisins er sá að ekki eigi að ákæra nema líkurnar á sekt séu meiri en líkurnar á sýknu. Vinstri grænir voru einhuga á eftir formanni þingmannanefndarinnar, Atla Gíslason; refsigleðin var í stafni. Þó mátti sjá að Steingrími var brugðið eftir að úrslitin lágu fyrir. Ég er ánægður með að minn flokksformaður, Jóhanna, kemur keik út frá málinu, var ætíð samkvæm sjálfri sér. Sama verður ekki sagt um þá Samfylkingarþingmenn sem svo greinilega létu pólitíkina ráða og kusu eftir flokkslínum í þessu alvarlega máli. (Vona að næst þegar Mörður vafrar um þingsalinn, og veit ekkert hvað hann á að gera, vafri hann út úr Alþingishúsinu og komi aldrei til baka).
Samfylkingin greiddi sjálfri sér þungt högg í þessari atkvæðagreiðslu, hún verður lengi að jafna sig eftir það. Það mátti sjá hvað Ólína var ráðvillt í Sjónvarpinu í kvöld, hún er þó vön að vera glaðbeitt og koma fyrir sig orði, nú var yfirbragðið annað.
Ég veit ekki af hverju ekki er hægt að ræða jafn mikilvægt mál og aðildarumsókn Íslands að ESB án þess að grípa til útúrsnúninga. Það er sérkennilegt að segja að Joe Borg hafi verið boðið til Ísland til trúboðs. Eitt er víst, trúboð á heima hjá trúflokkum, ekki í alvarlegri umræðu um mikilvæg þjóðmál. Joe Borg var boðið hingað til lands til að miðla reynslu sinni og þekkingu, en hann leiddi aðildarviðræður Möltu við ESB. Þarftu Jón Baldur að grípa til svo lágkúrulegra meðala að reyna að lítillækka mann sem Joe Borg með því að koma því inn að hann hafi síðar, eftir inngöngu Möltu orðið hálaunaður embættismaður hjá ESB. Fyrst sagðirðu 4 milljóna maður en nú ertu búinn að lækka launin um 25%, nú eru þau 3 millj. Eftir inngöngu hvers lands skipar það fulltrúa sinn hjá ESB og var ekki eðlilegast að Malta skipaði sinn reyndasta mann. Er málefnafátækt þín slík að þú þurfir að reyna að lítillækka þennan ágæta gest? Og má ég spyrja; af hverju þorðir þú ekki að koma á fyrirlestur Joe Borg í Háskólanum í Reykjavík sl. laugardag?
Malta er lítil eyja með 400.000 íbúa svo það liggur í augum uppi að við höfum margt af þeim að læra þegar af þeirra reynslu af aðildarviðræðum og inngöngu. Það sem kemur hér fram að ofan, að Ísland sé að bera sig saman um fiskveiðar við Möltu og reynslu þeirra, þá er það alrangt. Maltverjar eiga nánast engin fiskiskip nema minni báta sem veiða aðallega innan 50 mílna frá landi og hlutur fisveiða og vinnslu er örlítið brot að þeirra þjóðarframleiðslu, algerlaga öfugt við Ísland.
Það kom margt athyglisvert fram hjá Joe Borg og því hefur ekki verið gerð skil ef undan er skilið Silfur Egils. Eitt það athyglisverðasta var þetta:
Fisveiðistefna ESB er í algjörri endurskoðun. Það er því tilgangslaust að mála skrattann á vegginn og búa til einhver ákvæði um að hér yrðu Spánverjar, Portúgalar og fleiri ESB þjóðir komnar með rétt til veiða innan okkar lögsögu ef við göngum í ESB enda mundum við ALDREI samþykkja slíkt. Joe Borg taldi að við þessa endurskoðun gæti svo farið að ESB mundi frekar aðalaga sig að fiskveiðistefnu Íslands en öfugt. (Þá er örugglega ekki verið að miða við okkar skelfilega kvótakerfi með frjálsu framsali, sölu og leigu).
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar