Til hamingju Breiðablik, sigurinn gleður gamlan formann félagsins

Þá er sú stóra stund upp runnin að Breiðablik er Íslandsmeistari í knattspyrnu í úrvalsdeildinni. Vissulega gleður það gamlan formann félagsins og gullblika að bikarinn er í höfn. Ég held að ég verði að draga fram í dagsljósið gamla mynd sem ég held að ég eigi enn í fórum mínum. Hún er af fyrsta knattspyrnuliði Breiðabliks sem þá var ekki í neinni deild eða móti heldur var hóað saman mönnum í fullu fjöri í Kópavogi sem grunur lék á að gætu sparkað bolta, sumir hverjir meira að segja lifandi enn þann dag í dag.  Það var ákveðið að ráðast ekki á garðinn þar sem hann var hæstur og einhverjir töldu vænlegast að keppa við sveitamenn. Þess vegna varð bræðrafélag okkar í Mosfellssveit fyrir valinu, Ungmennafélagið Afturelding, þar var vinum að mæta, bæði félögin í Ungmennasambandi Kjalarnesþings. Ég fór með þennan vaska hóp sem formaður Breiðabliks á Varmárbakka, þetta varð hörkuleikur.

Hann endaði 9-0

En því miður, það var Afturelding sem vann.

Já, það er mikið vatn runnið til sjávar síðan þessi leikur fór fram, þetta gerðist líklega fyrir 55 árum.

Enn og aftur til hamingju Breiðablik.


Skora á þingmenn Samfylkingarinnar að fella tillöguna um að draga fyrrum ráðherra fyrir Landsdóm

Ég hef aldrei dregið dul á mínar pólitísku skoðanir og að ég er flokksbundinn, ég er í Samfylkingunni. Líklega munu margir vilja túlka afstöðu mína sem að ofan greinir sem ákall um að hlífa flokksfélögum mínum.

Það er alrangt, ég hef önnur rök fyrir minni afstöðu og skoðum þau rök sem ég legg fram.

Þegar Ríkisstjórn Geirs Haarde, Þingvallastjórnin, var mynduð um mitt ár 2007 var skaðinn  skeður, Hrunið var óumflýjanlegt, þannig höfðu samstjórnir Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins stjórnað þjóðarbúinu. Það var á ábyrgð þessara tveggja flokka að einkavæða bankana, að afhenda þá fjárglæframönnum sem ekkert kunni  í  bankastarfsemi og rændu síðan bankana innanfrá, lánuðu sjálfum sér himinháar fúlgur til að kaupa ýmis fyrirtæki á yfirverði og þurftu engar tryggingar að setja fyrir þeim lánum sem þeir pumpuðu út úr bönkunum. Þannig sýndu þeir betri stöðu bankanna og notuðu einkum "óefnislegar eignir" svo sem viðskiptavild til að hækka verðgildi þeirra. Andvirði þessar lána hurfu síðan og álítur Vilhjálmur Bjarnason, sem flestir þekkja, að hvorki meira né minna en 6.000 - 7.000 milljarðar hafi þannig verið sognir út úr bankakerfinu og þjóðarbúinu og séu faldir í skálkaskjólum víða um heim. Ekki má gleyma glæpastarfsemi Landsbankans í Hollandi og Bretlandi þar sem saklausir launamenn m. a. voru lokkaðir til að trúa bankanum fyrir sparifé sínu og það liggur í augum uppi að það stóð aldrei til að skila þessu fé til baka. Hvar liggja þessir fjármunir í dag? Án efa að stórum hluta í skálkaskjólum víða um heim og bíða þess að refirnir komst í forðann.

Þetta eru aðeins helstu ástæður Hrunsins mikla og þó tekið sé tillit til hinnar að alþjóðlegu bankakreppu hefði þetta skelfilega hrun aldrei orðið á Íslandi þó við hefðum engan veginn komist hjá einhverjum skellum vegna þeirra áhrifa.

En fyrir hvað á að ákæra fjóra fyrrum ráðherra úr Þingvallastjórninni? Eftir því sem mér skilst er það ekki síst fyrir vanrækslu þó það liggi í augum uppi að þessi Ríkisstjórn, sem tók við um mitt ár 2007, gat engan veginn komið í veg fyrir Hrunið. Sýndi stjórnin vanrækslu? Vissulega má leiða rök að því þó alltaf sé hægt að vara vitur eftirá. 

Á árinu 2007 var öll þjóðin meðvirk í bankabrjálæðinu eða mikill meirihluti hennar. Enginn hlustaði á örfár varnaðarraddir innanlands og því síður þær sem komu frá útlöndum, Danske bank var ekkert annað en nöldur öfundsjúkra Dana og þannig var öll gagnrýni afgreidd, við vorum nánast öll meðvirk. Á þessum tíma lét einn aðalhöfundur hrunsins, Davíð Oddsson fyrrum forsætisráðherra  og þá Seðlabankastjóri, nánast afnema bindiskyldu fjármagns hjá íslensku bönkum, álíka gjörð og að ausa bensíni á brennandi hús.

Gat Ríkistjórn Geirs Haarde, Þingvallastjórnin, gripið til einhverra ráðstafana til að koma í veg fyrir hluta af skaðanum?

Já það gat hún vissulega. Hún gat gengið fram og skýrt þjóðinni frá því að glæpaklíkur innan bankanna væru að steypa þjóðinni fram af fjárhagslegum hengiflugi, hún gat afhjúpað skelfilega óstjórn í Seðlabankanum sem leiddi til þess að hann varð gjaldþrota og upplýst um að við værum með handónýtt Fjármálaeftirlit.

Hverjar hefðu afleiðingarnar orðið?

Líklegt að þá hefðu Hrunið mikla orðið samstundis, þá hefði fjármálablaðran sprungið ári fyrr eða haustið 2007. Ekki vafi á að þá hefði skaðinn orðið mun minni fyrir þjóðarbúið en samt hefði hann orðið gífurlegur.

Hvernig hefði alþjóð brugðist við?

Ég tel allar líkur á því að Ríkistjórninni hefði verið kennt um, hún hefði með því aða upplýsa um ástandið, sem var þó staðreynd, fellt íslenski bankana og kallað yfir þjóðina skelfilegt hrun. Glæpamennirnir bönkunum hefðu fengið samúð, þessir lúðulakar sem almenningur leit á að væru "snillingar".

En hefði Ríkistjórn, sem var samstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks átt möguleika á að grípa til slíkra verka?

Nei, útilokað. Þarna sátu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins þeir Geir Haarde og Árni Mattheisen, menn sem höfðu verið á kafi í því undir forystu Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar að "einkavæða" bankana í orðsins fyllstu merkingu, afhenda þá Bjrögólfunum, Ólafi í Samskip og Finni Ingólfssyni og álíka kónum á spottprís og síðan að gera Davíð Oddsson að æðsta manni peningamála hjá þjóðinni, Seðlabankastjóra.

Hver eru þá afglöp ráðherra Samfylkingarinar?

Að reyna ekki að berja fram það ómögulega, að upplýsa þjóðina um ástandið sem aldrei hefði náðst fram í samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn. Hverra kosta átti Samfylkingin þá?

Að slíta stjórnarsamstarfinu, en þá hefði hún orðið að upplýsa um ástandið í banka- og fjármálum landsins með sömu afleiðingum og raktar voru að framan, Hrunið mikla hefði orðið haustið 2007 sem hefði þó sparað þjóðinni mikið tap.

Hverjum hefði verið kennt um Hrunið mikla? Að sjálfsögðu flokknum sem sleit Ríkisstjórninni og upplýstu um hið rétta ástand þjóðarbúsins, Samfylkingunni, gegn henni hefðu öll öfl snúist hvort sem það voru stjórnmálaöfl að ég ekki tali um bankaræningjanna sem með því hefðu líklega ekki getað hreinsað fjárhirslur bankanna endanlega.

En hversvegna er ég þá á móti að ráðherrar séu dregnir fyrir Landsdóm?

Þar til liggur fleira en ein átæða. Það eru aðeins ráðherrar úr Ríkisstjórn Geirs Haarde sem á að ákæra og vissulega eru ráðherrar úr Sjálfstæðsflokknum í þeirri Ríkistjórn Geir Haarde og  Árni Mattheisen sekir um að vera meðhöfundar að Hruninu mikla haustið 2008. En ég held að flestum sé misboðið hvernig staðið er að þessum ákærum þó eflaust sé þar farið að lögum. Að þeir sem þyngsta sökina bera af að hafa undirbyggt Hrunið, Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson, sitji á friðarstóli og að við þeim sé ekki blakað er eins og blaut tuska framan í hvern þjóðfélagsþegn. Það má heldur ekki gleyma þeim Finni Ingólfssyni og Valgerði Sverrisdóttur.

Þið, sem sátuð í þingnefndinni fyrir hönd Samfylkingarinnar, unnuð mjög margt ágætt í þeirri nefnd eins og nefndarmen allir, þið hafið unnið kappsamlega og margt sem frá nefndinni kom er vandað og orð í tíma töluð. En þið hafið látið draga ykkur inn í lævíst samsæri. Það hefur verið massífur áróður fyrir því undir forystu Morgunblaðsins, og allir vita hver ritstýrir því, að kom allri sök af Hruninu mikla á Þingavallastjórnina, í dag eru það aðeins veikar raddir eins og mín sem andæfa og rekja með rökum hverjir eru sekastir af því að Hrunið varð úr hópi stjórnmálamanna.

Ætla menn að það sé tilviljun að útgerðarauðvaldið hafi komist yfir Morgunblaðið og gert höfuðskúrk Hrunsins, Davíð Oddsson, að ritstjóra og einvaldi yfir. Með því vinnst svo margt, það er auðvelt að trylla þjóðina og leiða athyglina frá Davíð, Halldóri og þeirra líkum, það er hægt að ónýta endurbætur á fiskveiðikerfinu og þeir vona einnig að þeim takist að trylla þjóðina enn frekar og eyðileggja umsóknarferil Íslands að Evrópusambandinu.

Allt er þegar þrennt er, Íslands óhamingju virðist verða allt að vopni. 


Svandís á að segja af sér, lögbrjótur á ekki að sitja í ráðherrastóli

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmd fyrir lögbrot. Hún neitaði að staðfesta aðalskipulag Flóahrepps, ástæðan sú að Landsvirkjun hafði kostað skipulagsvinnuna að hluta. Þarna hljóp Svandís illilega á sig og það af pólitískum ástæðum. Þó hún sé á móti virkjunum í neðri Þjórsá mátti hún ekki að brjóta lög til að koma í veg fyrir það. Úrskurður hennar um aðalskipulag Flóahrepps hefur verið felldur úr gildi enda var hann lögbrot.

Svandís á að sjá sóma sinn í að biðjast lausnar sem Umhverfisráðherra

 


Þjóðir heimsins munu leyfa Ísraelsmönnum að kæfa endanlega Palestínumenn og stela því litla landi sem þeir eiga eftir

Enn eru sýndarmennskusamningar settir á svið milli Ísraelsmann og Palestínumanna. Þeir munu fara eins og allir aðrir slíkir fundir út um þúfur. Barak Obama bandríkjaforseti hefur í þessu máli minna vald en margir hyggja, þrýstihópar Ísraels eru miklu sterkari en forsetaembættið.

Bloggari einn sem er þrennt að eigin sögn; kristinn, zíónisti,og sjálfstæðismaður. Þetta er blanda sem margir burðast með og hann vitnaði um ást sína á Ísrael og öllum þeirra gjörðum.Líklega einn af bókstafstrúarmönnunum sem lifir og hrærist í öllum þeim viðbjóði sem Gamla testamentið sýnir á síðum sínum. 

Ég setti inn hjá honum stutta athugasemd, læt hana fylgja með:

Voru það ekki Gyðingar sem krossfestu Jesú? Ekki veit ég hvaðan dálæti kristinna manna á Ísraelsríki kemur, ríki sem að mörgu leyti hefur tileinkað sér starfshætti þeirra sem píndu Gyðinga hvað mest, nasistanna í Þýskalandi undir forystu Hitlers.

Gyðingar eru trúflokkur, tæplega þjóðflokkur, þeir búa nánast hvarvetna um heiminn og úr Þeirra hópi hefur komið margt úrvalsfólk. Ísrael hefur engan rétt til að vera í forsvari fyrir alla Gyðinga. Í mínum augum er mikill skyldleik með zíonisma og nasisma, stefnan er "lífsrými", sjálfsagt að ráðast gegn Pólverjum og Tékkum og stela landi þeirra, það gerðu nasistar, settu upp útrýmingarbúðir fyrir Gyðinga af því þeir voru álitnir óæðri þjóðflokkur. Sama gera Ísraelsmenn í Ísrael. Nær öllu landi sem Ísrael hefur komist yfir í dag hafa þeir stolið frá Palestínumönnum, sem að þeirra áliti er óæðri kynstofn.

Það er margt líkt með skyldum, nasistum og zíónistum.

 


Aðeins ein leið til að bjarga Landeyjahöfn

Verstu hrakspár um Landeyjahöfn hafa ræst. Það ástand sem þar er komið upp er nokkuð sem fjöldi sjómanna og jafnvel landmanna í Rangárþingi óttuðust. Ég man þá tíð þegar ég var að alast upp á Þjórsárbökkum og sækja barnaskóla í Þykkvabæinn að Rangæingar áttu allir sem einn tvær óskir a) að byggð yrði höfn á suðurströndinni b) að Urriðafoss yrði virkjaður samkvæmt áætlunum Títanfélagsins og Einars Benedikssonar. Nú er höfnin orðin staðreynd en því miður má búast við að Landeyjahöfn eigi eftir að valda miklum vonbrigðum.

Um miðja síðustu öld, eftir að Ameríkanar settu upp herstöðina á Keflavíkurflugvelli, hófu þeir mikla könnun á því hvort unnt væri að byggja höfn í sandfjörum Suðurlands. Þá heyri ég það að þeir hefðu komist að þeirri niðurstöðu að vænlegast væri að byggja höfnina suður frá Þykkvabæ, í fjörunni milli Hólsár og Þjórsár. Þar var til örnefni sem ég veit ekki hvort nokkur man lengur, Dyrasandur, og var hluti af fyrrnefndri strönd. Ég held að örnefnið sé svo gagnsætt að það segi meira en mörg orð. En Kanarnir byggðu enga höfn og eru sem betur fer farnir til síns heima eða til að ráðskast með aðrar þjóðir en Íslendinga.

Mér var sagt að Lúðvík Gissurarson, sem rak faðernismál gegn Hermanni Jónassyni fyrrum forsætisráðherra látnum og vann það, hafi nýlega skrifað grein í Mbl. þar sem hann setti fram hugmynd sem reyndar varð mér umhugsunarefni þegar ég heyrði fyrst getið um áætlanir um Landeyjahöfn. Lúðvík leggur til að smálækur verði lagður inn í höfnina til hreinsunar hennar, gæti haft einhver áhrif en ég held að vatnsmagnið sé of lítið.

Landeyjahöfn er á röngum stað, hún átti að vera í minni Markarfljóts eða því sem næst. Þar hefði þurft lokubúnað til að leiða beint til sjávar ísskrið og til að geta stjórnað því hve mikið vatnsmagn ætti að renna í gegnum höfnina. Vatnsmagnið í Markarfljóti er glettilega mikið en eins og í öðrum jökulám mismikið. Þar kemur lokubúnaðurinn til og heldur jöfnu rennsli í gegnum höfnina. Það þyrfti þó að vera það mikið að sandrif næði ekki að myndast í hafnarmynninu eða út frá því. þessi straumur ætti engan veginn að hindra skip í að sigla inn í höfnina. Engin ástæða til að hafa áhyggjur af eldgosaöskunni, streymið í gegnum höfnina verður að vera það mikið og dreift um höfnina að öll askan skili sér til sjávar. en setjist ekki til.

En Landeyjahöfn verður ekki flutt austur að Markarfljóti en fyrir góðan pening er hægt að flytja Markarfljót að höfninni eða hluta þess. Þetta kann að vera dýr framkvæmd en hvað skal gera? Á að láta dýpkunarskip vera 365 daga á ári við að dæla sandi úr höfninni, hvað kostar það?

Ég býst við að fram komi mótrök, að ísskrið í Markarfljóti geri óskunda í höfninni. En til þess er lokubúnaðurinn, hann er til að veita hugsanlegu ísskriði beint til sjávar. Sú tækni er öll til hjá Landsvirkjun enda virðist ekki vanþörf á að fleiri en sérfræðingar Siglingastofnunar komi að björgun Landeyjahafnar, bæði lærðir og leikir.

Er eitthvert vit í því að byggja höfn í ármynni eða sama sem í því, virknin yrði sú sama með því að veita Markarfljóti að hluta til hafnarinnar? Förum í ferðalag í  austurátt. Þar hefur risið blómleg byggð við höfn sem er í ármynni, Höfn í Hornafirð. Ég tel harla ólíklegt að sá blómlegi og fallegi bær væri til ef lífgjafann vantaði, Hornafjarðarfljót.

Urðu engar slíkar pælingar til í kollum sérfræðinganna á Siglingastofnun, datt þeim aldrei Hornafjarðarfljót og Höfn í Hornafirði í hug?


Íslandsklukkan í Þjóðleikhúsinu er afburða góð leiksýning

Það var vissulega með nokkuð gagnrýnum huga sem ég tók mér sæti í Þjóðleikhúsinu til að sjá þriðju uppfærslu sem ég hef séð þar á hinu magnaða verki Halldórs Laxness, Íslandsklukkunni. Ég vissi að þar mundi ég sjá ný efnistök Baltasar, hvernig mundi mér líka þau? Enn situr í mér sýningin sem ég sá fyrir 55 árum, en þá var  vígsluverk Þjóðleikhússins tekið til endursýningar vegna Nóbelsverðlauna Halldórs Laxness. Þetta var sýningin sem formaði Íslandsklukkuna sem leikhúsverk, sá sem hvað mest og best vann að þeirri umbreytingu var leikstjóri verksins, Lárus Pálsson. Ég skal vissulega játa það að Jón Hreggviðsson er í mínum huga Brynjólfur Jóhannesson, Snæfríður Herdís Þorvaldsdóttir, Arnas Þorsteinn Ö. Stephensen og Jón Grínvisensis Lárus Pálsson. En ég gerði mér grein fyrir því að það var ekki sami persónuleikinn sem gekk inn í Þjóðleikhúsið sl. föstudag og tvítugi ungi maðurinn sem settist þar í stólinn 1955, þá þegar að fangast alvarlega af leiklistargyðjunni sem hann átti að förunaut í yfir fjóra áratugi.

Vissulega leist mér ekki á sviðið í upphafinu en ég gekk fljótlega inn í þetta nýja umhverfi Íslandsklukkunnar og naut svo sannarlega að heyra hinn meitlaða texta Halldórs og sjá persónur hans persónugerast. Hér er ekki ætlunin að skrifa  leiklistarrýni, miklu frekar að fara nokkrum orðum um eftirminnilega upplifun í leikhúsi. Ég get samt ekki setið á mér að minnast á nokkur þeirra sem ljáðu persónum Íslandsklukkunnar hold, blóð, hreyfingar og rödd, við suma var ég fyllilega sáttur, ekki alveg eins við aðra eins og gengur. Ingvar er þriðji Jóninn Hreggviðsson  sem ég sé þarna á fjölunum. Hann gaf ólánsmanninum Jóni fyllilega allt sem þurfti. Lilja Nótt sem Snæfríður fyllti mjög vel út í þær lýsingar sem koma fram í textanum (álfakroppurinn mjói) en náði ekki alveg að sýna mér þá Snæfríði sem ég vildi sjá. Framsögn hennar var einnig stundum á tæpasta vaði og þar held ég að Þjóðleikhúsið þurfi að gera átak, framsögn hefur að mér fundist frekar vera afturför hjá leikhúsunum. Meira að segja gamli jöfurinn Erlingur Gíslason, sem flutti prologus Halldórs Laxness að ég held frá vígslu hússins, var of kraftlaus svo tæpast heyrðist út í salinn. En mér féll mjög vel túlkun Björns Thors á jungkæranum Magnúsi í Bræðratungu, ólánsmannsins sem drakk frá sér vitið á kvöldin og grét á morgnana. Hann sýndi vel þennan klofna persónuleika.

En umhverfið var ekki sá raunveruleika stíll sem oftast hefur fylgt gamalli íslenskri klassík en sýndi þá ótrúlegu endurnýjun sem leikhúsið ræður yfir. Meira að segja hýðing Jóns Hreggviðssonar með hvellhettum og tússpenna, sem vissulega var á mörkunum, gekk  upp.

Það sem ég gekk inn með hvað gagnrýnast í mínu sinni var að láta konu leika Jón Grindvíking og ég spurði sjálfan mig; á að gera Jón að fífli eða skrípi, það væri skemmdarverk. En Ilmur gerði þetta mjög vel og slapp fyrir horn. Kækurinn sem Lárus Pálsson bjó til 1950, að klóra sér á kálfanum, hefur ætíð fylgt Jóni síðan. Ilmur notaði kækinn því miður of ótæplega, þetta gerist stundum í leikhúsi; ef eitthvað atriði fellur í kramið og vekur hlátur verður freistingin til endurtekninga og mikil, reyndir leikarar eiga ekki að falla í þá gryfju.

En allt tekur enda, svo er um hverja leiksýningu og oft er vandi að ljúka góðu verki. Ekki veit ég hvað Baltasar gengur til að útvatna lokatriðið þegar Jón Hreggviðsson mætir dómkirkjuprestinum, sem Jón Eyjólfsson lýsi mæta vel, með því að troða honum með sinni ektakvinnu Snæfríði Íslandssól inn í hliðarsvalirnar þar sem þó sjást varla. Þetta dró úr skerpu lokanna, Jón á heimleið eftir áratuga streð við yfirvöldin, Snæfríður stendur við orð sín; heldur þann versta en þann næstbesta. Ég er ekki viss um að þeir sem ekki þekkja Íslandklukkuna gerla hafi áttað sig á hvað persónur voru þar á ferð, hver voru karlinn og konan sem varla sáust inn í svölunum, þetta atriði má ekki útvatnast .

En Íslandsklukka Baltasar er geysilega gott leikhúsverk. Hann er trúr hinum magnaði texta Halldórs þó sumir mættu fara nokkuð ákveðnar og skarpar með hann. Engu hefur verið bætt við, mér heyrðist að eitthvað hefði verið fellt út svo sem í samræðum Snæfríðar við föður sinn og hjá kanselíráðinu með sultutauið.

Og að lokum; aldrei bregst Herdís, hún var einstök í sínu litla hlutverki sem móðir Jóns Hreggviðssonar. 


Bar Ríkisstjórn Geirs Haarde, Þingvallastjórnin, ábyrgð á hruninu í okt. 2008?

Skýrsla nefndar Atla Gíslasonar um stjórnsýslu, hrunið 2008, og um hugsanlega ráðherraábyrgð og hvort kalla eigi saman Landsdóm hefur verið birt. Ég hef ekki séð skýrsluna ennþá en hef hlustað grannt eftir því hvað er sagt og ályktað í henni eins og fram kemur í fréttum. Ekki síður það sem EKKI er minnst á í skýrslunni, það er kannski það athygliverðasta. Undanfarið hefur verið rekinn þungur áróður fyrir því í blöðum og bloggum að hrunið sé að kenna Ríkisstjórn Geirs Haarde, samsteypustjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, sem mynduð var um mitt ár 2007. Atli Gíslason og meðnefndarmenn hans reka síðan smiðshöggið á þennan áróður með nefndaráliti sínu, sem að vísu ekki er samhljóða.

Eitt er víst. Þegar Þingvallastjórnin var mynduð 2007 var búið að stjórna þannig á Íslandi af stjórnmálamönnum og fjármáglæframönnum í bönkum og fjármálafyrirtækjum að Hrunið mikla var á leiðinni, aðeins spurning um hvenær blaðran mundi springa. Þar höfðu um vélað fjármálbraskararnir sem fengu óáreittir að braska með íslenska hagkerfið og raka til sín milljörðum sem nú er faldir í holum á Tortúla og öðrum skálkaskjólum sem finnast um víða veröld. Þar brást Seðlabankinn gersamlega, Fjármálaeftirlitið einnig og þær Ríkisstjórnir sem sátu að völdum frá aldamótum. En þrátt fyrir þessa óvefengjanlegu staðreynd, að grundvöllurinn að Hruninu var kyrfilega lagður á árunum eftir aldamótin, er ekki einn einasti af þeim ráðmönnum, stjórnmálamönnum og fjárglæframönnum, sem þá stýrðu öllu hérlendis nefndur á nafn í skýrslu nefndar Atla Gíslasonar.

Hvar er nöfnin Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson, Árni Mattheisen, Finnur Ingólfsson og Valgerður Sverrisdóttir í skýrslunni svo helstu arkitektar hrunsins úr röðum stjórnmálamanna séu nefndir.

Já, þetta er að takast með samræmdur áróðri í blöðum og bloggum að fá almenning til að gleyma   hverjir ábyrgðina báru. Vissulega voru sekir menn í Þingvallastjórninni, helstu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins voru búnir að sitja í ráðherrastólum í fjölda ára, áranna þegar öllu var sleppt lausu og hin skelfilega fjármálabóla blásin upp, fjármálabólan sem sprakk með hvelli í október 2008.

En brást Þingvallstjórnin skyldum sínum?

Hún var með lokuð augun eins og nær allir landmenn sem horfðu með glýju á bóluna miklu og trúðu því bulli að Ísland væri á leið að verða ein helsta fjármálamiðstöð heimsins.

En átti Þingvallastjórnin ekki að grípa inn í þessa óheillaþróun sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn voru búnir að leggja grunninn að?

Jú, hún átti tvímælalaust að gera það. Að vísu hefði stjórnin og ráðherrar hennar verið úthrópaðir sem skemmdarverkamenn. Vegna þess einfaldlega að þá hefði Hrunið dunið yfir ári fyrr, segjum í október 2007. Grundvöllur að hruninu var lagður að kempunum sem ég taldi upp fyrr: Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson, Árni Mattheisen, Finnur Ingólfsson og Valgerður Sverrisdóttir. Enginn bar þó meiri ábyrgð en Davíð Oddsson sem lengstum var forsætisráðherra, í stuttan tíma utanríkisráðherra og síðast en ekki síst: Formaður bankastjórnar Seðlabankans.

En þessi framangreinda hjörð á greinilega að sleppa  með öllu.

Þar sem ég er nýbúin að sjá Íslandsklukkuna í Þjóðleikhúsinu detta mér í hug þau fleygu orð sem Laxness leggur Jóni Hreggviðssyni í munn:

"slæmt er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti"


Hvað þarf að brenna margar Biblíur til að mótmæla eða bæta fyrir glæpi og hryðjuverk kristinna manna?

Kolruglaður preláti í Florida vestra, sem stýrir 50 manna söfnuði, hefur sett heiminn á annan með hótun um að brenna slatta af Kóraninum, hinni helgu bók íslam. Sá hinn sami klerkur ætti að líta sér nær og hugleiða hve margar Biblíur, helga bók kristinna, þyrfti að brenna til að mótmæla framferði kristinna manna frá þeim tíma að kristin trú var fundin upp eða í nálægt 2000 ár. Þar á ég ekki við afbrot kristinnar kirkju, það er sérkapítuli, heldur verk kristinna manna sem vissulega höfðu oft presta með í för til að réttlæta verk sín.

Nýjasta dæmið er Íraksstríðið, einhver versti glæpur kristinna manna, Bush og Blair, á síðari tímum. Íraksstríðið var háð undir merkjum þess að koma þyrfti fyrir kattarnef Saddam Hussein einvaldi í Írak sem hafði vissulega marga glæpi á samviskunni. Ástæðan var sú uppgefin að finna þyrfti eiturvopn sem Saddam lumaði á en sem Bandaríkin höfðu á sínum tíma gefið honum, ætluð til að drepa Írani sem höfðu unnið sér það til óhelgi að koma frá völdum gjörspilltum keisara. Írak var á þeim tíma það ríki í Arabaheiminum þar sem lífskjör voru hvað best, menntun góð og kvenfrelsi á mun hærra stigi en í öðrum Arabalöndum. Í dag er Írak rjúkandi rúst, að sumu leyti er búið að skjóta landinu aftur á steinöld, lífskjör skelfileg, mannréttindi lakari en nokkurn tíma undir Saddam.

En Saddam var búinn með öll eiturvopnin sem Bandaríkin gáfu honum svo ástæðan gufaði upp en það skipti ekki svo miklu máli; Bush var alveg sama, hans raunverulega ástæða var að komast yfir olíulindir Íraks auk þess að sýna sinn sjúka hug, hann kallaði sjálfan sig stoltur "stríðsforseta".

Og dindillinn Tony Blair elti hann eins og tryggur smalahundur húsbónda sinn. 

Líklega eru ekki margir sem gera sér grein fyrir að mikið af erfiðleikum hinna ríku vesturlanda í dag eru "timburmenn" nýlendustefnunnar sem flestir hyggja að sé löngu liðin. En svo er aldeilis ekki, nýlendustefnan lifir sínu lífi og er nú að koma þessum dólgslegu hvítu kristnu drottnurum í koll. Á 18. og 19. öld og fram eftir þeirri 20. fóru hvítir kristnir vesturlandamenn eins og stormsveipur  yfir Afríku, Suður-Ameríku og stóran hluta Asíu, deildu þar og drottnuðu, frömdu hvarvetna skelfilega glæpi. Bandríkjamenn höfðu samið viðauka við Biblíuna. Þar var voru svartir menn skilgreindir sem "ekkimenn" sem heimilt var að taka, setja í hlekki og flytja nauðuga til Bandaríkjanna og gera þá að þrælum. Þetta var reyndar í samræmi við Biblína, það stendur í boðorðunum tíu að mann skuli ekki girnast "þræl eða ambátt" nágrannans, skýrar verður það varla að þrælahald er vel séð í Biblíunni

Hvíti maðurinn kristni strádrap frumbyggja gervallrar Ameríku og Ástralíu, allt var þetta gert í nafni Jesú Krists.

Já, það þyrfti dálaglegan stafla af Biblíum til brennslu ef það getur á einhvern hátt bætt fyrir glæpi og hryðjuverk hvítra kristinna manna.  


Hverjum var Hrunið 2008 að kenna?

Nú fara menn mikinn hér á blogginu og eflaust víðar skilst mér þar sem skýrsla Atla Gíslasonar og hans meðnefndarmann er að birtast. Margir bloggarar fara hamförum gegn þeim sem sátu í Ríkisstjórn Geirs Haarde fyrir Samfylkinguna. Þar hafa menn fundið sökudólgana, enginn er þó eins slæmur í þeirra augum og Össur Skarphéðinsson. Það má sjá fingraför eins manns á þessari herferð en það er fyrrum forsætisráðherra, fyrrum Seðlabankastjóri Davíð Oddsson. Það er merkileg söguskoðun að ætla að ráðherrar Samfylkingarinnar í Ríkisstjórn Geirs Haarde beri aðalábyrgð á Hruninu, tæplega minnst á að í sömu Ríkisstjórn sátu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sem höfðu reyndar setið lengi í þeim stólum, fyrst undir forsæti Davíðs Oddssonar, síðan Halldórs Ásgrímssonar og síðast undir forsæti Geirs Haarde. Vissulega er pólitískt minni mann hérlendis heldur gloppótt, en Davíð Oddssyni finnst samt að það þurfi að skerpa á gloppunum og afvegaleiða sem flesta; fyrst og fremst að leiða athyglina frá því að hann bar mesta ábyrgð að rekstri þjóðfélagsins árum saman fyrir hrun.

Ætla menn nokkrum manni að meðtaka þann boðskap frá Hádegismóum að aðalsökudólgar Hrunsins í október 2008 séu þeir ráðherrar Samfylkingarinnar sem tóku sæti í Ríkisstjórn Geirs Haarde um mitt ár 207? Það er vissulega mannlegt að leiða athyglina frá sjálfum sér þegar slæm mál eru í farvatninu. En almenningur er ekki búinn að gleyma því að þeir sem bera meginábyrgð á Hruninu úr hópi stjórnmálamanna eru Davíð Oddsson og Halldór Ásrímsson. Fleiri lögðu þar hönd á plóg svo sem Finnur Ingólfsson, Valgerður Sverrisdóttir, Árni Matthiesen og Geir Haarde auk allra fjárglæframannanna í bönkunum.

Nú er spurningin þessi; á að setja Landsdóm yfir þeim sem voru ráðherrar í Ríkisstjórn Geirs Haarde sem tók við stjórnartaumunum um mitt ár 2007? Þeir sem þar sátu fyrir Sjálfstæðisflokkinn áttu miklu lengri setu í Ríkisstjórn en eru gjörðir manna frá þeim tíma fyrndar?

Sitja þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrómsson þess vegna í öruggu skjóli og þurfa ekki að svara fyrir gerðir sínar?


Þór, Birgitta, Margrét og Þráinn hafa öll svikið sína kjósendur

Ég sá þá meinloku á blogginu  að Þráinn Bertelsson hefði verið kjörinn á þing á vegum Hreyfingarinnar.

Hreyfingin var ekki til við síðustu kosningar og því enginn á hennar vegum í framboði hvorki Þráinn Bertelsson né nokkur annar. Þráinn, og þau þrjú sem flutu með honum á þing voru kjörin sem frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar. Þrjú þeirra yfirgáfu Borgarahreyfinguna og skildu Þráin eftir einan, nú er hann einnig horfinn frá þeirri hreyfingu sem kom honum á þing, Borgarahreyfingin á þar með engan þingmann. 

Þessir fjórmenningar töldu sig fremsta og heiðarlegasta af öllum pottlokaberjurum og fóru inn undir merkjum heiðarleika og endurnýjunar. Öll hafa þau svikið sína kjósendur. Að vera kosinn á þing af ákveðnum hópi kjósenda, hlaupa frá þeim kjósendum í aðra flokka er ekkert annað en lágkúra og svik. Þessir fjórmenningar hafa afhjúpað sig sem spillta stjórnmálamenn.

Var ekki að  þeirra áliti  nóg af þeim fyrir?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband