29.10.2010 | 13:47
Hversvegna hefur verið einblínt svona á orkugjafa sem hina einu sönnu auðlind Íslands?
Mér fannst síðasti pistill minn um auðlindir landsins orðinn langhundur svo skynsamlegra væri að skrifa fleiri og styttri. Það eru miklar tilfinningar í gangi þegar umræða hefst um orkuauðlindir Íslands og mér finnst stundum að þar fari sumir út um víðan völl.
Orkuauðlindir Íslands eru aðallega af tvennum toga þegar skoðaðar eru þær virkjanir sem framleiða fyrir okkur orku. Það eru vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir. Sú furðulega flokkun hefur orðið til hér á landi að skilja menn í tvo flokka; virkjunarsinna og virkjunarandstæðinga. Ég held að þessi flokkun eigi ekki nokkurn rétt á sér, það er eðlilegt að sitt sýnist hverjum hvar og hvað eigi að virkja. Líklega, miðað við hvað ég hef látið frá mér fara í rituðu máli, er ég l flokkaður virkjunarsinni sem á þó engan rétt á sér. Þekktur umhverfissinni, nafni minn, sendi frá sér blogg nýlega þar sem hann lýsti sig andsnúinn vatnsaflsvirkjunum, frekar ætti að snúa sér að jarðgufuvirkjunum, það hefði Einar Benediksson gert ef sú tækni í beislun jarðgufu hefði verið komin fram á hans dögum. Ég gerði athugasemd við þessa skoðun, veit ekki hvort nafni minn hefur svarað, hef ekki fundið það.
Ég hef sett fram harða gagnrýni á þá stefnu að virkja meira og meira af gufuafli til raforkuframleiðslu eingöngu og ekki hikað við að segja að þar erum við að fara í hrikalega rányrkju á auðlind okkar. Hvað vit er í því að bora og bora eftir gufu sem síðan knýr aðeins túrbínur sem framleiða rafmagn. Þar nýtum við aðeins um 14% af því afli sem í gufunni býr. Gufuforði í iðrum Íslands er ekki óþrjótandi og ferillinn frá því vatn fer niður í hin heitu jarðlög og er síðan tekið upp aftur sem gufuafl er mjög langur.
Er vit í því að stunda rányrkju á auðlind til að framleiða rafmagn sem síðan er selt til orkufrekasta iðnaðar sem fyrirfinnst, málmbræðslu í okkar tilfelli álbræðslu?
Á Nesjavöllum er framleitt rafmagn með gufuafli sem síðan er notað til að hita kalt vatn upp í hátt í 90°C. Þar með nýtum við gufuaflið 85%, komumst tæplega hærra. Með þessu vatni eru öll hús í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Álftanesi hituð upp
En það er eftir að ræða um eignarhaldið á þessari auðlind, orkuauðlindunum, vatnsföllum og gufuafli.
Þar gagnrýni ég hvað umræðan um þessar auðlindir hefur orðið ómarkviss og ruglingsleg. Ég vil sterklega undirstrika að eignarhald á auðlind er eitt, beislun og nýting annað. Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að auðlindirnar séu í eigu þjóðarinnar, segi það beint út; þær eiga að vera þjóðnýttar, sem er alls ekki svo í dag. Hvort sem við reisum Kröfluvirkjun eða minni virkjanir veður að semja um land g nýtingu við fjölmarga aðila. Nýting er allt annar handleggur. Við erum vön því að fá og öflug íslensk fyrirtæki hafa aðallega nýtt orkuauðlindir. Þar er Landsvirkjun langstærst en fleiri koma þar við sögu svo sem Orkuveita Reykjavíkur, Orkubú Vestfjarða, Hitaveita Akureyrar og margar fleiri hitaveitur.
Ég hef verið spurður að því hvaða afstöðu ég taki til einkarafstöðva, einkahitaveitna frá einni borholu til lítilla byggða svo eitthvað sé nefnt. Ekki dettur mér í hug að farið verði að þjóðnýta litlar heimilisstöðvar í bæjarlækjum þar sem þær finnast. Framtaksamir menn hafa borað eftir heitu vatni í sinni jörð og fundið þó nokkuð af heitu vatni. Er það vatn þeirra einkaeign? Við höfum fram að þessu litið svo á þó þar sé allt annað að gerast en virkjun bæjarlækjarins. Vatn sem kemur upp í borholu á einni jörð kann að koma úr miklu stærra forðabúri og sprunguneti en því sem aðeins er undir jörð viðkomandi. Þess vegna gæti það gerst ef nágrannarnir bora líka að þá minnki rennslið hjá þeim sem fyrstur fann heita vantið.
Þarna geta vaknað margar gagnrýnar spurningar
29.10.2010 | 11:35
Hverjar eru auðlindir Íslands, hver á að eiga þær, hverjir eiga að nýta þær?
Sá sem hefur boðið sig fram til Stjórnlagaþings verður að svara þeim spurningum sem koma fram í fyrirsögn pistilsins.
Fyrst vil ég gera stutta grein fyrir hverjar eru auðlindir Íslands. Að undanförnu hefur verið einblínt á orkugjafann, vatnsorku og jarðvarmaorku. Að sjálfsögðu hárrétt, þarna er hluti af auðlindum landsins en aðeins hluti. Það fer ekki á milli mála að nú stendur yfir landsfundur Landsambands íslenskra útvegsmanna, boðskapurinn sem þaðan kom er þessi; þið skuluð ekki voga ykkur að hrófla við núverandi kvótakerfi, þetta er okkar eign, við höfum keypt réttinn til að veiða fiskinn í sjónum dýru verði og það er vissulega rétt, margir haf gert það. En sú furðulega staða að tilfinningar og pólitík tröllríður umræðunni um auðlindir á landi, einkum orkugjafana, þá virðist auðlindin í hafinu, lífríkið í hafinu lítið hreyfa við þeim sem hæst hafa um vatnsaflsvirkjanir eð jarðvarmavirkjanir.
Við gerðum þau reginmistök fyrir um það bil 20 árum að rétta útgerðarmönnum eignarétt á fiskinum í sjónum, þeir fengi ekki aðeins eignarréttinn heldur rétt til að selja og leigja þessa mikilvægu "eign". Aldrei frá upphafi Íslandsbyggðar hefur einum hagsmunahópi verið afhent endurgjaldslaust önnur eins verðmæti, auðlindina miklu í hafinu sem örðum fremur hefur á undanförnum öldum haldið lífinu í Íslendingum og staðið undir velferð okkar.
En ég hef átt í nokkrum orðaskiptum við útgerðamann hér í Þorlákshöfn í litlu þorpsblaði. Þar viðurkenndi hann að íslenskur sjávarútvegur, sjávarútvegsfyrirtæki, eru skuldum vafin og kvótinn veðsettur innanlands og utan. Ekki nóg með það, hann viðurkenndi einnig hvernig þessar himinháu skuldir höfðu hrannast upp þrátt fyrir að þessi hagsmunahópur, útgerðarmenn, fengu auðlindina án nokkurs endurgjalds. Hann staðfesti að skuldirnar eru að mestu tilkomnar vegna kaupa á kvóta þeirra sem eru að hætta útgerð.
Hérlendis sem erlendis sitja fjölmargir fyrrverandi útgerðarmenn og lifa kóngalífi á þeim fjármunum sem þeir fengu fyrir sölu á kvóta til þeirra sem áfram basla.
Gera menn sér grein fyrir hve gífurlegir fjármunir hafa sogast út úr þessari atvinnugrein, fiskveiðum og útgerð, á þennan hátt? Gera útgerðarmenn sér ekki grein fyrir hve eitraður bikar það var sem að þeim var réttur með því að gefa þeim kvótann, með frjálsa framsalinu, með leigunni á kvótanum, með því að verða að kaupa út úr greininni með geysilegum fjármunum þá sem hætta ?
Það var sett á laggirnar nefnd til að endurskoða kvótakerfið og ég gerði mér miklar vonir um að sú endurskoðun mundi skila okkur, almenningi og þjóðinni allri, eignaréttinn og nýtingarréttinn yfir auðlindum hafsins, yfir nýtingu þeirra fiskistofna sem eru innan okkar 200 mílna lögsögu. Út úr starfi endurskoðunarnefndarinnar kom ekkert sem hönd er á festandi, loðmulla sem LÍÚ samdi og kallast samningaleið; sem sagt óbreytt ástand.
LÍÚ hefur með hræðsluáróðri tekist að halda í þennan "eignarétt" sinna fyrirtækja. Slíku verður að breyta og ný Stjórnarskrá verður að taka af skarið:
Auðlindir hafsins eru eign þjóðarinnar, engan afslátt frá því!
25.10.2010 | 11:00
Fjórða stoð lýðræðis, fjölmiðlar
Í lýðræðisríki gegna fjölmiðlar geysimiklu hlutverki, þeirra þýðing hefur stöðugt aukist undanfarna áratugi. Einn atburður markar þó dýpra spor hérlendis en nokkur annar, stofnun Ríkisútvarpsins árið 1930. Áhrif Ríkisútvarpsins urðu mjög mikil strax eftir stofnun og fjölmörg heimili á landinu lögðu í þá fjárfestingu að kaupa sér útvarpstæki. Ég er orðinn nokkuð aldraður en þó er Ríkisútvarpið nokkru eldra en ég. Ég man ekki eftir örðu en að hafa hlustað á útvarpið og ég held að áhrif þess hafi ekki síst verið fræðslan sem þá seytlaði frá því um allt þjóðlífið. Ég horfði opinmyntur sem barn á þessi merkilegu tæki sem stóðu á hornhillu í baðstofunni sem við kölluðum svo. Bogadregni hátalarinn lengst til hægri, svarti kassinn sem kallaður var lampatækið, á milli þeirra þungur sýrufylltur rafgeymir, þeir voru til tveir og var annar oftast á hleðslu á Urriðafossi hinum megin við Þjórsá. En hann nægði ekki sem orkugjafi, það þurfti einnig heljarmikið þurrbatterí sem keypt var hjá Verslun Friðriks Friðrikssonar í Miðkoti í Þykkvabæ.
Útvarðið sagði fréttir á hverjum degi. Ég var einmitt að komast til vits og ára þegar seinni heimsstyrjöldin hófst og hélt því lengi vel að stríð væri eðlilegt ástand sem væri stöðugt í heiminum og má segja að þar hafi ég skilið ástandið rétt. En ekki síður var það tónlistin sem flæddi frá tækinu og Stefán Íslandi varð heimilisvinur. Bjarni Björnsson lék jólasveininn í barnatíma sjónvarpsins á jóladag. Auðvitað átti ég að trúa því að þetta væri ekta jólasveinn en ég vissi betur en tókst að halda því leyndu. Þess vegna var sorgin mikil þegar sú frétt barst að Bjarni Björnsson hefði dáið langt fyrir aldur fram, mundi enginn jólasveinn koma hér eftir í útvarpið? Það er ekki nokkur vafi á að útvarpið var ein helsta menntastofnun landsins. Leikritin á laugardagskvöldum var nokkuð sem enginn vildi missa af og enn man ég flutning Helga Hjörvar á þekktustu útvarpssögu allra tíma, Bör Börsson eftir norska skáldið Johan Falkberget. Seinna hlotnaðist mér sú ánægja að leika "skúrkinn" Óla í Fitjakoti á sviði hjá Leikfélagi Kópavogs, þá umbreytt í söngleik af Norðmönnunum Harald Tussberg og Egil Monn Iversen.
En nú er ég þó svo sannarlega kominn út um víðan völl því ætlunin var að fjalla um fjölmiðla sem fjórðu stoð lýðræðis í okkar landi. Ég verð að viðurkenna að þá liggur við að mér falla allur ketill í eld. Enn vil ég minnast á Ríkisútvarpið sem vissulega hefur orðið að hopa talsvert eftir að útvarps- og sjónvarprekstur var nær alfarið gefinn frjáls, það var vissulega óhjákvæmilegt. Oftast hlusta ég á gömlu gufuna og læt mér nægja að horfa á Ríkissjónvarpið, ekki eftir neinu að slægjast á öðrum stöðvum. Hvernig veit ég ég það kann einhver að spyrja fyrst þú sérð þær aldrei? Nægjanlegt að lesa sjónvarpsdagskrárnar, á þeim er nánast ekkert annað en amerískt drasl, nóg af því í Sjónvarpinu vissulega. Það er dapurlegt að sjá hvert frelsið hefur leitt einstaka menn eins og ég hef áður bloggað um; Ingvi Hrafn Jónsson fyrrum fréttastjóri Ríkisútvarpsins kófdrukkinn á sjónvarpsstöð sinni að ryðja úr sér svívirðingum og sleggjudómum.
En Ríkisútvarpið og Sjónvarpið á tvímælalaust tilverurétt, hvorutveggja á að efla eins og ég kem inn á í umsögn minni um viðtalið við Pál Skúlason í þætti Þórhalls Gunnarssonar, Návígi.
En hvað um prentmiðlana, blöðin?
Þar er ástandið ekkert annað en skelfilegt. Hér eru tvö dagblöð gefin út. Morgunblaðið á langa sögu að baki og var lengst af eitt af illvígustu flokksblöðum landsins. En Matthías Johannessen og Styrmir Gunnarson rifu blaðið upp úr lágkúrunni um leið og öll flokksblöð liðu undir lok, þau mátti svo sannarlega missa sig. En það varð mikil breyting á eignarhaldi Morgunblaðsins fyrir fáum árum og þá varð stórslys. Í stað þess að Morgunblaðið kæmist í hendur víðsýnna útgefenda lenti það í höndum samtakanna sem hafa komist yfir eina dýrmætustu auðlind Íslands, fiskinn í sjónum og réttin til að veiða hann. Þeir komust á svipaðan hátt yfir fiskinn og þeir sem eignuðust bankana og rændu þá innanfrá. Landsamband ísl. útvegsmann áttu næga hauka í horni á Alþingi sem réttu þeim auðlindina á silfurfati, þeir þurftu engu að stela en hvað um siðferði þeirra sem réttu fram silfurfatið og þeirra sem tóku við?
Glórulaus og siðlaus gjörð sem tilreidd var sem lögleg!
Og svo kom reiðarslagið. Fyrrum Forsætisráðherra og Seðlabankastjóri Davíð Oddsson, maðurinn sem ber einna mesta sök á að fjármálkerfið hrundi, var gerður að ritstjóra.
Síðan er blaðið á fallandi fæti, einsýnt og þröngsýnt, málpípa þeirra sem ætla ekki að sleppa því sem þeir hafa komist yfir á hneykslanlegan hátt, auðlindum hafsins. Meira en fjórðungur áskrifenda blaðsins létu ekki bjóða sér þennan óþverra allan og sögðu blaðinu upp. Tap þess á ári er nú talið í milljörðum og skyldi engan undra.
En hve lengi ætlar útgerðarauðvaldið að láta milljarðana renna í taphít blaðsins, ætla menn að endalaust að láta peninga renna í hana?
En hvað um hitt blaðið, Fréttablaðið. Þetta er blaðið sem fyrrnefndur Davíð Oddsson fékk á heilann og, barðist gegn ásamt allri sinni hirð og fékk um það sett eftirminnileg lög sem nefndust Fjölmiðlalögin.
En ólíkindatólið á Bessastöðum greip þá inn í, neitaði að undirskrifa og vísaði Fjölmiðlalögunum til þjóðarinnar. En þá sá Davíð sitt óvænna og dró lögin til baka og ekkert varð úr þjóðaratkvæðagreiðslunni.
En hver á Fréttablaðið? Er það ekki maðurinn sem hefur gert usla í fjármálum þjóðarinnar, er það ekki maðurinn sem á íbúðir á dýrasta stað í New York, er það ekki maðurinn sem átti (eða á ) skemmtisnekkju sem er á stærð við okkar gamla Gullfoss, nefnist sá maður ekki Jón Ásgeir Jóhannesson?
Hvers vegna er þessi maður að eiga og gefa út dagblað, reka útvarsstöð og sjónvarpsstöð, er það til þess að standa vörð um prentfrelsið og málfrelsið? Lætur hann enn fé af hendi rakna til að halda þessum fjölmiðlum á floti?
Það virðist einsýnt að slíkur karakter sé fyrst og fremst í fjölmiðlun til að hans eigin fjölmiðlar taki svari hans ef á þarf að halda!
DV hefur sinn sess og ákveðinn lesendahóp, blað sem á sín systkinu víða um lönd. En líklega er DV eina blaðið á Íslandi sem er ekki læst í helgreipar sérhagsmunaaðila.
Svo er það öll tímaritaflóran. Ekki vantar að tímaritin séu flott, glanspappírinn ekki sparaður og sannarlega merkilegt a þau hafa getað sópað til sín dýrum auglýsingum þrátt fyrir hrun og kreppu. En öll eru glanstímmaritin á kafi í því að búa til staðalmyndir, einkum ungra stúlna. Þær skulu vera leggjalangar og þvengmjóar. Helstu fyrirmyndir eru sýningarstúlkur í París og öðrum tískuháborgum sem víxla sér fram eftir göngubrettum með smínk á andlitinu sem sóma mundi sér á andliti Djáknans á Myrká.
En hvað um allar bloggsíðurnar? Er þær ekki hluti af íslenskri fjölmiðlum? Vissulega, og í bland eru þar rökræður viðhafðar en þeir eru ekki margir sem þannig tjá sig. Mikið ber á háværum upphrópunum og þar sjást einnig svívirðingar, það er hin dapurlega staðreynd.
Þannig er ástand fjölmiðla á Íslandi í dag!
Ástandið er í einu orðði sagt:
SKELFILEGT!!!
22.10.2010 | 11:50
Stjórnarskráin á að tryggja trúfrelsi á Íslandi
Eitt af "heitustu" málum dagsins í dag er hvernig skilja beri "trúfrelsi" og það kann að vera skiljanlegt eins og trú er fjölmörgum mikilvæg og ekki er vafi á að kristin trú er það sem flestir aðhyllast á landi hér. En eftir að "trúfrelsi" var tekið í lög hérlendis hafa fjölmörg önnur trúarbrögð en kristin trú náð hér fótfestu. Þá kemur þversögnin; kristnir menn, eða eigum við að segja hin lúterska Þjóðkirkja, er ekki tilbúin að viðurkenna jafnrétti allra trúarbragða.
Þess vegna kemur ekki annað til greina en að í nýrri Stjórnarskrá verði gerður alger skilnaður milli ríkis og Þjóðkirkju. Margir kirkjunnar menn halda því þó fram að sá aðskilnaður sé þegar orðinn en það er alrangt, við erum enn með okkar Ríkiskirkju sem vill ekki sleppa þeim áhrifum sem hún hefur náð inn í menntakerfi þjóðarinnar.
Í núverandi Stjórnarskrá , SJÖUNDA KAFLA, 62. grein, stendur:
Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Stjórnarskráin núverandi er oft heldur loðin en hér fer ekkert á milli mála, við höfum Ríkistrúarbrögð. Það þýðir lítið fyrir forystumenn Þjóðkirkjunnar að halda öðru fram þó ýmsar breytingar hafi verið gerðar á undanförnum árum á tengslum Ríkis og Þjókirkju.
Hér á landi ríkir miklir fordómar gagnvart öðrum trúarbrögðum en kristinni trú. Ekki hvað síst er það íslamstrú sem fordómarnir beinast að og er þá bent á árásirnar á Tvíburaturnana í New York og ýmis önnur hermdarverk sem íslamistar hafa gert sig seka um. Þessi verk minnihluta íslamista eru síðan heimfært upp á trúarbrögðin í heild sem er auðvitað hrein firra.
Kristnir menn eru engan veginn með hreinan skjöld frekar en íslamistar en það væri hrein firra að það sé heimfært upp a trúarbrögðin í heild. Ég ætla að nefna aðeins eitt dæmi. Árið 1982 voru framin í Líbanon, í flóttamannabúðunum Shabra og Shatila einhver hryllilegust fjöldamorð á síðari tímum og þar voru að verki kristnir falangistar, Líbanar. Ekki voru þeir einir að verki því Ísraelski herinn sat um búðirnar til að enginn slyppi burt. Þegar þetta gerðist voru nær allir karlmenn í búðunum flúnir til Túnis svo fórnarlömbin voru konur, börn og gamalmenni. Þarna gengu kristnir men fram af ótrúlegri grimmd, fyrst með nauðgunum og síðan allsherjar slátrun.
Eigum við að fordæma kristna trú vegna þessara og annarra álíka voðaverka sem kristnir menn hafa á samviskunni?
Að sjálfsögðu ekki.
Nú er mikið deilt um áhrif kristinnar kirkju og presta hennar í skólum landsins allt frá leikskólum upp í framhaldsskóla. Þessi þungu áhrif prestanna koma mér talsvert á óvart því þetta þekktist ekki í mínu ungdæmi, en það er æði langt síðan ég var ungur. Þessi áhrif hafa greinilega verið að aukast jafnt og þétt á liðnum árum.
Mín afstaða er afdráttarlaus:
Við eigum að aðskilja Ríkið og Þjóðkirkjuna algerlega.
Engin kirkjudeild á að hafa aðgang að óbörnuðum börnum og ungmennum innar skólaveggja.
Við eigum, sem hluta af sögukennslu, að fræða um trúarbrögð og þá öll trúarbrögð.
Hver trúarbrögð og sá söfnuður sem þau reka, á að starfa innan sinna kirkna og safnaða, þeir sem þangað vilja sækja styrk og trú á að vera það að öllu frjálst.
Ríkisvaldið á að styðja trúarsöfnuði hvaða trú sem þeir boða. Það er greinilegt að mikill meirihluti þjóðarinnar er trúaður á einhvern hátt.
Þarna á að vera fullkominn jöfnuður og það eru alls engin rök að einhver trúarbrögð hafi meira fylgi en önnur, algjört jafnræði skal ríkja.
En aftur að Þjóðkirkjunni. Ég er undrandi á hvað þeir sem mæla fyrir munn hennar eru harðir á því að þessi kirkjudeild verði að vera undir sérstakri vernd ríkisins, að prestar hennar megi þröngva sér inn í skóla landsins til að þeir, þó ekki sé nema með nærveru sinni, klæðnaði og atferli, geti haft áhrif á óharðnaðar sálir sem eiga tvímælalaust rétt til að verði ekki fyrir slíkri innrætingu. Þarna finnst mér birtast ótrúleg minnimáttatkennd og vantrú á boðskap og stafi núverandi Þjóðkirkju. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ekkert mundi efla meir hina evangelísku lútersku kirkju en að losa hana úr hinu langa faðmlagi við ríkið og að hún hætti því að efna til ófriðar við svo marga þegna þessa lands.
Er ekki friðarboðskapur (ef við sleppum Gamla testamentinu) kjarninn í boðskap kristinnar trúar?
20.10.2010 | 21:00
Stefnumið vegna Stjórnlagaþings
Þar sem ég hef boðið mig fram til Stjórnlagaþings tel ég rétt að setja fram mín sjónarmið, hvernig ég tel rétt að starfa ef ég næði kjöri og hver eru mín helstu stefnumið:
- Ég vil taka sæti á Stjórnlagaþingi með opnum huga, þó ég sé búinn að setja mér markmið fer ég á þingið tilbúinn til að hlusta á aðra þingfulltrúa. Þeir sem þar taka sæti mega engan veginn falla í sömu gryfju og Alþingi er í; á Stjórnlagaþingi verður að ræða mál af yfirvegun, með rökum og virðingu fyrir öðrum fulltrúum og sjónarmiðum þeirra.
- Ég hef áður lýst því að ég hef miklar efasemdir um að gera landið að einu kjördæmi. Ekki verður nær komist algjöru jafnræði í vægi atkvæða, það viðurkenni ég. En með þeirri gjörð óttast ég að flokksræðið aukist, framboðslistar verði ákveðnir í höfuðstöðvum flokka í Reykjavík, þetta gæti minnkað vægi byggða utan höfuðborgarsvæðisins til áhrifa og almennings almennt..
- Núverandi kjördæmaskipan hefur sýnt nokkuð hvað væri í vændum með landinu sem einu kjördæmi. Þessi stóru kjördæmi hafa dregið fram galla vegna stærðar sinnar.
- Vissulega mundi það draga úr kjördæmapoti, þingmenn falla oft í freistingu atkvæðapots og vinsældaleitar eins og sjá má um dæmi þegar rætt hefur verið um hinn mikla niðurskurð í heilbrigðisgeiranum á landsbyggðinni.
- Einmenningskjördæmi eru eflaust þau óréttlátustu sem finnast, en þar er einn kostur; hver frambjóðandi verður að standa undir sjálfum sér, hefur ekki lista til að fljóta með eða meðframbjóðendur til að skýla sér.
- Mikil krafa hefur verið uppi um meiri áhrif hvers kjósanda á hverjir veljast til framboðs og forystu. Ein hugmynd um slíkt ef landið verur gert að einu kjördæmi: Frambjóðendur mega skipa sér á lista þar sem kjósendur geta raðað í sæti á listanum upp á nýtt en jafnframt geta einstaklingar boðið sig fram á eigin spýtur jafnframt því að lýsa yfir stuðningi við flokka eða verið alfarið óháðir en með skýr markmið.
- Skýra þarf verk- og valdsvið hinna þriggja stoða lýðveldisins, löggjafarvalds (Alþingi) framkvæmdavald (Ríkisstjórn) og dómsvalds (Dómstólar). Ég tel mikla þörf á að fá fram betri aðskilnað sérstaklega á löggjafarvaldi og framkvæmdavaldi.
- Við höfum alla tíð frá því að við fengum íslenskan ráðherra búsettan á Íslandi búið við þingræðisstjórn. Hefur það gefist vel eða er það sjálfgefið að það sé það sem við viljum í framtíðinni? Hvernig hefur þetta skipulag gefist? Eitt af því neikvæðasta við þingbundna ríkisstjórn er að kjósandinn veitt ekkert hvaða Ríkisstjórn hann er að kjósa í Alþingiskosningum, hann hefur ekkert að segja um það hvaða Ríkisstjórn verður við völd að loknum kosningum. Er þetta lýðræðislegt?
- Í núverandi stjórnarskrá er mikil umfjöllun um Forsetaembættið, það er að mörgu leyti dapurlega lesning. Forsetanum eru veitt mikil völd í öðru orðinu en tekin frá honum í því næsta, þannig er Forseti lýðveldisins Íslands nær algerlega valdalaus. Aðeins að einu leyti hefur hann raunveruleg völd; hann getur neitað að undirrita lög frá Alþingi og vísað þeim til þjóðaratkvæðis.
- Ég tel að tveir möguleikar séu til að ákvarða framtíð Forsetaembættisins; a) leggja það niður, b) breyta því og efla. Óbreytt Forsetaembætti á enga framtíð.
- Þarna kemur möguleikinn til að aðskilja frekar löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið. Gefum okkur dæmi: Forsetinn er kjörinn í þjóðaratkvæði. Hann skipar forsætisráðherra sem síðan velur menn til að gegna ráherraembættum. Þeir sem veljast til ráðherraembætta ættu síst að vera alþingismenn, ef svo er afsala þeir sér þingmennsku. Ráðherrar sitja ekki á þingi en einstakar þingnefndir geta kallað þá fyrir út af einstökum málum. Á ríkistjórnin að þurfa að fá meirihlutastuðning Alþingis? Á Alþingi að geta lýst vantrausti á Ríkisstjórn? Hve mikill skal meirihlutinn að vera til að vantraust hljóti gildi? Er einfaldur meirihluti alltaf það rétta, gæti ekki þurft 2/3 meðatkvæði til að vantraust verði samþykkt?
- Alþingi verður eftir þessa breytingu sannarlega Löggjafarþing sem ekki situr og stendur eins og framkvæmdavaldinu þóknast. Vissulega verður Ríkisstjórn hverju sinni að leggja fram lagafrumvörp vegna ýmissa mála, Fjárlagfrumvarp að sjálfsögðu svo nokkuð sé nefnt.
- Með þessu yrði lagt niður einskisvert karp milli ráðherra og þingmanna sem ekki hvað minnst hefur eyðilagt virðingu Alþingis og er algjör tímasóun.
- Tel að ekki eigi að fækka þingmönum sem er oft hávær krafa. Til að unnt sé að manna allar starfsnefndir Alþingis eru takmörk fyrir því hve fámennt Alþingi má vera. Krafan um fækkun Alþingismanna virðist oftast koma fram sem krafa um sparnað, ekki tekið tillit til annarra þátta. Á Alþingi ekki að hafa áfram rétt til að rannsaka ýmis álitamál? Það tel ég einsýnt.
- Er líklegt að ef hið margumrædda karp milli Ráðherra og Alþingismanna lýkur að unnt verði að stytta starfstíma Alþingis? Er möguleiki að hverfa aftur til þess tíma þegar seta á Alþingi var ekki fullt starf? Væri ekki þannig hægt að búast við að Alþingi verði þverskurður þjóðarinnar og loku yrði skotið fyrir að menn verði atvinnustjórnmálmenn sem óttast má að slitni úr sambandi við lífið í landinu?
Læt hér staðar numið að sinni, umsagnir um þessar hugmyndir væru vel þegnar. Vonandi stutt í næsta pistil um Stjórnarskrána.
20.10.2010 | 10:04
Málfrelsi er ein af undirstöðum lýðræðis, dapurlegt að sjá hvernig það er misnotað
Ég var að enda við umfjöllun um það sem fram kom hjá Páli Skúlasyni í Sjónvarpinu á gær; um hvernig stjórnmálaumræðan hérlendis er sokkin djúpt í skotgrafir.
En það verður að gera kröfu til fleiri en stjórnmálmanna. Í lýðræðisríki hafa allir þegnar málfrelsi en því miður, nokkur hluti þeirra telur að málfrelsi sé frelsi til að ausa skít yfir náungann, að halda endalaust fram sömu rökleysunum, að tyggja aftur of aftur sömu innihaldslausu frasana. Ég hef stundum verið komin á fremsta hlunn með að hætta hér á blogginu, of margir á því eru ekki viðræðuhæfir og því miður virðist ýmsum ofstækismönnum vera hossað hátt og eru stöðugt í sérstöku úrvali. Þó gagnrýna megi stjórnmálamenn fyrir margt eru takmörk fyrir því þar sem annarsstaðar hve lágt má leggjast í orðbragði og lúalegri framkomu. Líklega hefur enginn fengið jafn margar svívirðingar hér á blogginu og Jóhanna Sigurðardóttur forsætisráðherra, þar virðist einnig blandast inn í karlremba sumra lítilsigldra karla, sem aldrei geta falið og vilja líklega ekki fela, kvenfyrirlitningu sína.
Ég er satt að segja ekki enn búinn að ná mér eftir að hafa rekist einhverstaðar á myndband með Ingva Hrafni Jónssyni fyrrum fréttastjóra Sjónvarpsins og núverandi sjónvarpsstjóra á eigin Sjónvarpsstöð. Það var ekki nóg með að aumingja maðurinn væri augljóslega kófdrukkinn, heldur jós hann úr sér svívirðingum aðallega um tvær persónur, Evu Joly og Ólaf Hauksson sérstakan saksóknara. Reyndar voru allir "undir" sem starfa við embætti Sérstaks saksóknara, þetta var að áliti hins kófdrukkna allt undirmálsfólk. Nákvæmnin í málflutningi aumingja mannsins var reyndar engin eins og oft vill verða þegar drukknir menn fara að láta ljós sitt skína. M. a. sagði hann að Eva Joly hefði fengið hundruður þúsunda dollara" í laun og ferðakostnað frá Íslenska ríkinu. Einhverstaðar sá ég að heildarkostnaður viðstörf Evu Joly hérlendis væru um 27 milljónir króna.
En það dapurlegasta er að þó nokkur fjöldi venjulegs fólks virðist njóta illmælginnar sem út úr Ingva Hrafni veltur drukknum sem ódrukknum.
20.10.2010 | 09:14
Athyglisvert viðtal við Pál Skúlason í Sjónvarpinu í gær
Þórhallur Gunnarsson er að sækja sig með sinn nýja vikulega viðtalsþátt í Sjónvarpinu og í gærkvöldi kom margt merkilegt fram. Greining Páls Skúlasonar fyrrum Háskólarektors á ástandi stjórnmálumræðunnar á Íslandi var gagnmerk. Það er dapurlegt að flest af því sem hann sagði þar um er rétt ályktað; stjórnmálmenn og stjórnmálumræða á Íslandi er í skotgröfum þar sem hver reynir að komast lengra í "málfundaumræðunni".
Það hefði mátt ætla að Hrunið hefði þjappað stjórnmálamönnum saman um að ræða málefnin með rökum og yfirvegun en það er öðru nær; aldrei hefur Alþingi verið eins lágt metið og nú samkvæmt skoðanakönnunum. Ég ætla ekki að hika við að nefna ákveðna einstaklinga til að sýna fram á hve djúpt er hægt að sökkva. Framsóknarflokkurinn hefur velskt í brimskafli stjórnmálanna frá því að Halldór Ásgrímsson og Finnur Ingólfsson skyldu við flokkinn í rúst eftir fjármálsukkið við einkavæðingu bankanna. Nýr formaður fannst, ungur maður að nafni Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Ekki nokkur maður í stjórnmálflórunni hefur átt önnur eins tækifæri til að lyfta sér og sínum flokki upp úr skotgröfunum.
En það fór á annan veg. Sigmundur Davíð sökk í pytt skotgrafanna á stundinni dyggilega studdur að ungum angurgöpum í flokknum. Þó virðist hann ekki hafa algjöran stuðning. Guðmundur Steingrímsson sýnir að hann vill ekki í pyttinn fara og ekki heyrist mikið frá Siv Friðleifsdóttur. Enginn af nýju þingmönnum Framsóknarflokksins hefur þó valdið eins miklum vonbrigðum og Vigdís Hauksdóttir sem á svipstundu tókst að tileinka sér hernað skotgrafanna eftir að hún komst á þing. Nýjasta ævintýri hennar er að leggja fram tillögu, ásamt ýmsum skoðanasystkinum úr öðrum flokkum, um að þjóðin greiði um það atkvæði þegar kosið verður til Stjórnlagaþings hvort draga skuli umsókn Íslands um inngöngu í ESB til baka. Flumbrugangur hennar og meðflutningsmanna er slíkur að þau voru öll búin að gleyma nýsettum lögum, sem þau tóku þátt í að afgreiða, um að líða skuli minnst 3 mánuðir frá því Alþingi samþykkir þjóðaratkvæði þar til atkvæðagreiðslan fer fram! "Sorry" segir Vigdís, ég flyt bara tillögu um breyta nýsettum lögum um þjóðaratkvæði! Telur Vigdís Hauksdóttir að Alþingi sé sjálfsafgreiðsla þar sem hún og hennar líkar geti valsað um og fengið flýtimeðferð til að þóknast sýniþörf viðkomandi?
Hávær krafa kom fram í búsáhaldabyltingunni um að hreinsa alla sem þá sátu á Alþingi út, burt með þá og reyndar að stjórnmálflokkarnir fykju líka. Mikil endurnýjun varð hjá flokkunum og nýtt afl kom einn á þing, hét þá Borgarahreyfingin, en hinir nýju þingmenn þessarar hreyfingar voru vart sestir á þing þegar Borgarahreyfingin klofnaði, þrír sátu eftir í nýjum flokki Hreyfingunni og einn, Þráinn, labbaði yfir til Vinstri grænna og hefur síðan staðið sig best að fjórmenningunum, hefur ekki sagt orð. En þrímenningarnir Birgitta, Margrét og Þór haf ekki setið auðum höndum en sokkið djúpt í svað skotgrafanna.
Sjálfstæðisflokkurinn er því miður að mestu á valdi síns gamla foringja Davíðs Oddssonar en stóð þó vel að málum við atkvæðagreiðsluna um Landsdóm, voru sjálfum sér samkvæmir. Ekki verður það sama sagt um þó nokkra af þingmönnum Samfylkingarinnar sem sýndu einhverskonar klæki við atkvæðagreiðsluna, voru ýmist með eða á móti. Sem betur fer var meirihluti þingmanna flokksins staðfastur og greiddi atkvæði á móti Landsdómi.
Hvers vegna tel ég að þeir sem greiddu atkvæði gegn því að draga fyrrum ráðherra fyrir Landsdóm hafi staðið réttar að málum? Því hef ég lýst áður í pistli hér á blogginu og vísa til þess en skal þó endurtaka tvennt. Í fyrsta lagi næst þar engan veginn til þeirra stjórnmálamanna sem mesta ábyrgð bera á Hruninu í okt. 2008, þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, í öðru lagi er Landdómur eins og gamalt skrímsli sem er ónothæft með öllu.
En aftur að vitalinu við Pál Skúlason. Hann benti eindregið á þörf fyrir upplýsingu um flest mál sem hið opinbera fjallar um og þar væri Sjónvarpið kjörinn vettvangur sem svo annarlega væri vannýttur til þeirra hluta. Hann lagði til að gerðir yrðu stuttir hnitmiðaðir fræðsluþættir um margvísleg efni, svo sem Stjórnarskrána og komandi Stjórnlagaþing. Ég hef lengi saknað slíkra þátta, vandaðra fréttaskýringa t. d. Í dag eru aðeins tveir þættir sem standa undir nafni þar. Það er "Spegillinn" í Ríkisútvarpinu og "Silfur Egils" í Ríkissjónvarpinu.
Vona að ráðmenn hafi heyrt þessi sjónarmið Páls Skúlasonar og taki þau alvarlega.
14.10.2010 | 10:31
Flatur niðurskurður á skuldum fasteignaeiganda er feigðarflan
Svo virðist sem Ríkisstjórnin sé að missa staðfestuna og láta undan þeim sem hæst hafa látið og heimtað flatan niðurskurð á skuldum fasteignaeigenda. Þar láta hæst minnihlutaflokkar á Alþingi með Framsóknarmenn í broddi fylkingar og ekki stendur á Hreyfingunni , Þór Saari og Margréti Tryggvadóttur (Birgitta er úti á túni að lemja tunnur), að fylgja þeirri forystu, svolítið hik virðist vera á Sjálfstæðismönnum. Hagsmunasamtök heimilanna fylgja málinu eindregið og nú er búið að festa hugsanlegan flatan niðurskurð skulda heimilanna við 18%. Satt best að segja get ég ekki skilið Hagsmunasamtök heimilanna styðji slíkar aðgerðir því þær munu að lokum kosta skattgreiðendur fúlgur fjár og leysa lítinn vanda.
Ég hef fyrir framan mig töflu frá Fjármálaráðuneytinu, sem ég dreg ekki í efa, að 20412 einstaklingar skuldi meira en 100% í sínum fasteignum og það kann að vera að þar bætist fleiri í hópinn ef fasteignaverð lækkar umtalsvert.
En þennan hóp má alls ekki setja í eina rétt og ganga síðan til verks þannig að skuldir allra séu færðar niður um 18% því aðstæður innan þessa hóps eru ákaflega misjafnar og það liggur í augum uppi að það verður ekki öllum bjargað. Ég undrast stórlega orð bankastjóra Landsbankans í Sjónvarpinu í gærkvöldi að það ætti að einbeita sér að því að bjarga þeim sem eru verst settir.
Ef það verður gert verður engum bjargað.
Þarna eru 1360 einstaklingar sem skulda meira en 200% af verðgildi sinna fasteigna. Það liggur í augum uppi að þessum hópi verður ekki bjargað þó bankastjóri Landsbankans vilji einbeita sér að því. Með 18% flötum niðurskurði fær þessi hópur háar afskriftir af sínum skuldum en mér finnst liggja í augum uppi að það dugi engan veginn til að bjarga þeim frá því að missa eignir sínar.
Það sem hefði átt að gera fyrir löngu er að greina þá sem skulda yfir 100% af sínum heimilum og sannreyna hvern og einn, hvernig er hægt að hjálpa þeim sem geta orðið bjargálna. Ef markið er sett sem hámark við þá sem skulda alt að 150% þá eru það 16433 einstaklingar.
Þetta er hópurinn sem á að einbeita sér að því að bjarga. Þeir sem eru yfir þessum mörkum eru 3979 einstaklingar og þeirra mál ber að sjálfsögu að skoða einnig. En þetta er sá hópur sem þarf mesta fjármuni til að bjarga og í þessum hópi eru þeir sem höguðu sér óskynsamlegast. Það er ekki vafi að margir þar voru í allt og dýru húsnæði og stóru og ekki ólíklegt að á heimreiðinni hafi staðið tveir jeppar, jafnvel sportbíll einnig og í einum bílskúrnum mótorhjólið, snjósleðinn og fjórhjólið. Ég veit að þessi orð geta orðið mér dýrkeypt en mér er nokkuð sama. Þetta eru þau orð sem hafa verið "tabú" í allri umræðunni, ég hika ekki við að brjóta það "tabú".
Satt best að segja líst mér ekkert á hvernig þessi mál þróast nú og spurning hvort hið fornkveðna "því verr gefast heimskra manna ráð því fleiri sem koma saman" á ekki orðið við um hvert stefnir.
13.10.2010 | 09:35
Að einstaklingur eyði 2 milljónum króna i kosningabaráttu fyrir sjálfan sig fyrir Stjórnlagaþingið nær ekki nokkurri átt
Ég lauk við í gær að senda þau gögn sem ég átti að senda rafrænt til Landskjörstjórnar vegna framboðs míns til Stjórnlagaþings svo ég tel á þar með sé ég orðinn fullgildur frambjóðandi. Ég ætla á næstunni að setja fram skoðanir mínar um helstu atriði sem ég legg á herslu á á Stjórnlagaþinginu. Ég er þegar búinn að lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að gera landið að einu kjördæmi sé lýðræðinu ekki til framdráttar og er andvígur því.
En því miður eru þeir sem sett hafa saman reglur fyrir frambjóðendur til Stjórnlagaþings undir áhrifum síðustu bólutíma í fjármálum. Í reglum fyrir frambjóðendur stendur skýrum stöfum að hverjum og einum frambjóðanda sé heimilt að verja 2 milljónum króna til að kynna sjálfan sig.
Fékk enginn í undirbúningsnefnd Stjórnlagaþings bakþanka þegar þetta var ákveðið? Eru menn enn svo samdauna því siðlausa peningasukki sem viðgengist hefur hjá mörgum stjórnmálamönnum sem hafa verið í framboði til Alþingis? Framboð til Stjórnlagþings er algjörlega persónulegt, eða það vona ég að minnsta kosti. Að leyfa þetta peningasukk í undirbúningi kosninga til Stjórnlagaþings er andlýðræðislegt og skekkir stórlega aðstöðu frambjóðenda. Ég persónulega á engar 2 milljónir til að leggja í framboðssukk og þó svo væri mundi ég aldrei fara að eyða peningum í framboð mitt.
Ég ætla stoltur að lýsa því yfir að ég muni ekki eyða 1 krónu í að koma mér á framfæri og skora á undirbúningsnefnd Stjórnlagaþings að afturkalla þetta sukkákvæði úr reglum um kosningar til Stjórnlagaþings. Ef það verður ekki gert tel ég að ég og margir fleiri drögum framboð okkar til baka eða sumir hætti við framboð.
11.10.2010 | 16:53
Er skynsamlegt að gera landið að einu kjördæmi?
Þessi krafa, að Ísland verði eitt kjördæmi, er ekki ný af nálinni. Það sem fyrir þeim vakir, sem aðhyllast þessa stefnu, er að sjálfsögðu múmer 1, 2 og 3 að þannig verði endanlega náð fram algjörlega jöfnu vægi atkvæða sem lengi hefur verið stefnt að. Þær breytingar, sem gerðar hafa verið á kjördæmaskipan hníga allar í þá átt. En fólksflutningar innanlanda skekkja fljótlega þann jöfnuð sem í sjálfu sér var ætíð nokkuð langt frá því að nást.
Vissulega er það lýðræðislega rétt að vægi atkvæða sé sem jafnast, helst algjört.
En í þessu máli, sem svo mörgum öðrum, fylgir böggull skammrifi. Með því að gera Ísland að einu kjördæmi koma fylgifiskarnir:
Efling flokksræðis er sá hættulegasti. Er ekki hættan sú að með þeirri gjörð verði allt vald og ákvarðanir um framboð flutt til höfuðstöðva flokkanna sem allar eru í Reykjavík? Hvað mundi Gunna á Raufarhöfn eða Jón á Rauðasandi hafa um þetta að segja? Hætt er við að áhrif þeirra, og annarra á landbyggðinni sem oft á tíðum eru sáralítil í dag, hverfi næstum því með öllu.
En ein spurning vekur aðra. Er hægt með því að stórauka persónukjör og gefa kjósendum meira val í kjörklefanum að vinna gegn nefndu flokksræði. Er mögulegt að frambjóðendur séu á listum flokka og einnig einstaklingar sem bjóða sig fram á eigin vegum eða á vegum ákveðinna hópa?
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar