8.9.2010 | 10:54
Engir útlendingar fá veiðiréttindi í íslenskri lögsögu þó við göngum í Evrópusambandið
Ég hef lengi vonað að umræðan hérlendis um hugsanlega inngöngu Íslands í Evrópusambandið yrði málefnaleg. Ég hef ekkert við það að athuga að margir séu andvígir inngöngu í ESB, en ef litið er á það sem frá andstæðingum inngöngu hér á blogginu kemur er ekki hægt að neita því að þar hafa komið fram allskyns fullyrðingar sem eiga enga stoð í veruleikanum. Ungir bændur vara við herskyldu ungra Íslendinga ef við göngum í ESB og fjölmargir hanga endalaust á fiskveiðistefnu ESB sem eitthvað sem sé óumbreytanlegt. Það er örugglega algjör samstaða um það hérlendis að við munum ALDREI gefa eftir yfirráð okkar yfir fiski og fiskveiðum í okkar lögsögu. Það get ég fullyrt sem fylgismaður inngöngu ef við fáum svo hagstæðan samning að það tryggi betur tilveru og efnahag Íslands auk margra annarra kosta.
Ég hef oftar en einu sinni skrifað um þessi mál á blogginu og haldið því fram að við gætum náð samningum við ESB um inngöngu Íslands og jafnframt haft tryggt yfirráð yfir auðlindum hafsins, bæði í botni og sjó í okkar lögsögu.
Það er ánægjulegt að hlusta á aðalsamningamann okkar við ESB þegar hann segir:
Stefán sagði það vera á kristaltæru að aðrar þjóðir hefðu ekki veiðiréttindi við Ísland, því hér hefðu engir aðrir verið að veiða í yfir 30 ár! Hann sagði þetta mæta skilning innan ESB og að framkvæmdastjórnin myndi t.d. ekki styðja kröfur Spánverja um fiskveiðiréttindi hér við land. ,,Enginn annar en við eigum rétt hér við land," sagði Stefán á fundinum.
Er þetta ekki kristalstært, þurfum við að halda áfram að fullyrða að við verðum við inngöngu að gangast undir stórgallaða fiskveiðistefnu Evrópusambandsins sem þeir eru þar að auki að gefast upp á?
7.9.2010 | 11:16
Eru ekki allir til í að lækka hitareikninginn?
Eru einhver töfrabrögð í boði til þess að lækka hitareikninginn? Kannski ekki töfrabrögð en það er Íslendingseðlið sem vert er að skoða, þar í liggur möguleiki til lækkunar.
Hvernig má það það vera?
Ein afleiðingin af því hve heita vatnið hefur verið ódýrt er að hjá okkur Íslendingum hafa skapast hitavenjur sem hvergi í nokkru öðru landi þekkjast. Þetta er sá vani að hafa hita á heimilum mun hærri en nokkurs staðar á byggðu bóli. Hönnuðir hitakerfa vinna út frá þeirri forsendu að hitakerfi húsa sé fært um að halda 20°C hita innandyra þó úti sé mínus 15°C. Þetta er arfleifð þess tíma að innihiti þótti hæfilegur 20°C. En mikið vill oft meira og í dag þekkist vart að innihiti sé undir 22°C, 24°C búa margir við .
Þarna er verið að sóa peningum. Fyrir hverja °C sem þér tekst að lækka stöðugan innihita lækkar þú hitareikninginn um 5%.
En til þess að það takist þurfa stýritæki hitakerfisins að vera í lagi og rétt valin. Stýritækin þurfa þá að stjórnast af lofthitanum inni, ekki af hita vatnsins sem út af ofnunum rennur.
Annar ótrúlegur ósiður Íslendinga er að láta glugga standa upp á gátt daglangt ef ekki allan sólarhringinn. Þetta er gert þó enginn sé heima frá morgni og langt fram eftir degi. Að sjálfsögðu er loftræsing mikil nauðsyn en ef enginn er heim eiga gluggar að vera lokaðir. Loftræsingu á að framkvæma með fullri opnun glugga og kröftugum loftskiptum í nokkurn tíma, hafa glugga svo ekki opnari en þörf krefur þegar verið er heima, þetta getur skilað þó nokkrum krónum. Margir vilja sofa við opinn glugga, það eiga menn að sjálfsögðu að veita sér.
Tvennt á að vera til á hverju heimili a) vandaður hitamælir sem segir þér hve heitt er inni b) rakamælir sem sýnir hve mikill raki er í vistarverum, á ekki ekki að vera undir 40%. Yfirleitt er of lágt rakastig í íbúðum og öðrum vistarverum hérlendis.
Hvernig á að auka rakann í íbúðum? Nota úðakönnur eða/og setja grunnar skálar með vatni á ofna. Svo eru einnig til tæki sem sjá um rétt rakastig og hreinsa loftið. Hjá tækjaóðri þjóð er ekki svo vitlaust að fjárfesta í slíku tæki.
6.9.2010 | 11:22
Þetta er reginhneyksli, geirfugl er líkur geirfugli
Þessi fugl er því miður útdauður vegna græðgi mannskepnunnar. Suðurnesjamenn vildu heiðra minningu þessa horfna fugls og reistu honum minnisvarða, styttu þar sem reyndar eiga a koma fleiri styttur af útdauðum fuglum.
En þá verður allt vitlaust. Það kemur í ljós að styttan af geirfugli á Suðurnesjum líkist styttu af styttu af geirfugli í Reykjavík. Þetta er þegar talið af sérfræðingum sem hugverkastuldur. Þannig hlýtur geirfuglinn á Suðurnesjum eiga að líkjast einhverju allt öðrum fugli en útdauðum geirfugli, var ekki hægt að hafa hrafn eða grágæs sem fyrirmynd til að komast hjá hugverkastuldi?
Þetta hlýtur að leiða til þess að enginn listamaður má birta styttu af geirfugli framar.
Og af hverju?
Vegna hættunnar á að geirfuglsstyttan líkist geirfugli og þar með geirfuglsstyttunni í Reykjavík.
Stundum gera listaverkafræðingar sig að athlægi. Ég legg til að Suðurnesjamenn fjarlægi hið snarasta styttuna af geirfuglinum og reisi á staðnum styttu af "listaverkafræðingnum" Knúti Brun, þetta getur veri smástytta, svona í geirfuglsstærð. En þá skal enginn dirfast að gera styttu af Knúti Brun og stilla henni upp, hún gæti líkst Knúti Brun og er þar með hugverkastuldur!
6.9.2010 | 11:02
Örn Bárður Jónsson prestur fer með rangt mál úr prdikunarstóli
4.9.2010 | 17:53
Heita vatnið hækkar umtalsvert frá Orkuveitu Reykjavíkur, nú er lag að fara í endurbætur á hitakerfum
Fyrst skulum við gera okkur ljóst að þeir sem kaupa heitt vatn frá Orkuveitu Reykjavíkur (þar áður Hitaveitu Reykjavíkur) hafa í mörg ár keypt ódýrustu orku til húshitunar sem fáanleg er sem fáanleg er hvarvetna á byggðu bóli. Heita vatnið hefur meira að segja ekkert hækkað síðustu ár og satt að segja hefur það ekki verið skynsamleg stefna hjá OR að láta ekki verðið á heita vatninu fylgja verðlagi.
En þetta lága orkuverð hefur haft einn leiðan fylgikvilla. Vegna hins lága verðs hafa húseigendur haft litinn áhuga á að endurnýja sín hitakerfi og stýritæki þeirra, allt í lagi þó vatnið renni til muna of heitt út í skólplagnir, allt í lagi þó hitinn í íbúðinni fari upp úr öllu valdi, þá bara að opna alla glugga og svalhurðir upp á gátt. En húseigendur skynja oft ekki að þetta viðhaldsleysi gerir hitakerfin léleg, hiti í húsum ójafn, hitaþægindin engan veginn eins og þau ættu að vera ef viðhald t. d. stýritækja hitakerfa væri í lagi. Svo er gott að muna þetta: Það er ekki verið að kaupa heitt vatn, það er verið að kaupa varma, um að gera að kreista sem flestar hitagráður úr vatninu.
Nú er lag
Endurnýjun stýritækja hitakerfa fylgir auðvitað talsverður kostnaður aðallega vegna þess að það útheimtir talsverða vinnu fagmanna, fagmanna sem vita hvað þeir eru að gera og vita að þeir eiga ekki að fara frá verkinu fyrr en hitakerfið hefur verið stillt (því það þarf ekki síður að gera þó sett séu upp ný stýritæki) og húseigandi fengið í hendur stuttar leiðbeiningar um hvernig hann á að nýta sér kosti nýrra stýritækja.
Eyðirðu of miklu af heitu vatni?
Það geta flestir húseigendur gert sér grein fyrir með því að fá frá OR upplýsingar um eigin eyðslu, svokallaða "álestrarsögu" hvers kerfis. Það eru til einfalt og gott dæmi um að hver og einn á að geta lesið út úr þeim gögnum hve mikið hann eyðir af heitu vatni, hvort það er eðlileg eyðsla eða bruðl sem kostar ennþá meira hér eftir en hingað til. Þetta er hægt að sjá á nýtingartölunni.
Hana er hægt að finna með einföldu dæmi sem byggist á hlutfallinu milli stærðar hússins í rúmmetrum og hvað margir rúmmetrar af heitu vatni hafa verið keyptir á 1 ári. Segjum að hús sé 500 rúmmetrar að stærð og hafi keypt 500 rúmmetra af heitu vatni frá OR á ári. Þá er nýtingartalan 1. Slík hitakerfi og hús eru finnanleg en þau eru líklega ekki mörg, lengra verður tæpleg komist í nýtingu á keyptu heitu vatni. Annað dæmi: húsið er jafnstórt eða 500 rúmmetrar en kaupir og notar 1000 rúmmetra af heitu vatni á ári. Þá er nýtingartalan 2 og þá geturðu verið viss um að það er eitthvað að í hitakerfi hússins, þú eyðir of miklu af heitu vatni.
En hvað er eðlileg notkun á heitu vatni í 500 rúmmetra húsi. Ekki ástæða til að hrökkva við þó notaðir séu 650 rúmmetrar af heitu vatni, þá er nýtingartalan 1,3. En því hærri sem nýtingartalan verður er ennþá meiri ástæða til að fara að huga að lagfæringum sem í mörgum tilfellum þurfa ekki að vera svo kostnaðarsamar.
En það er þörf á sérfræðiþekkingu, það ættu allir að muna.
4.9.2010 | 11:54
Vilborg G. Hansen hikar ekki við að fara með rangt mál varðandi viðræður Íslands við Evrópusambandið
Ég veit af fyrri reynslu að það er skörp sía hjá Vilborgu á athugasemdum, þó hefur hún birt athugasemd Sigurðar Grétarssonar þar sem hann leiðréttir rangfærslur hennar sem eru þær sömu og Jón Bjarnason ráðherra setti fram í forsíðuviðtali Morgunblaðsins; að við séum í aðlögunarferli í viðræðunum við ESB. Ég tek mér það bessaleyfi að afrita athugasemd nafna míns og líma hana hér inn. Þetta eru orð í tíma töluð:
Þetta er rangt hjá þér. Hér er aðeins verið að greina hvað þarf að gera til að íslensk stjórnsýsla standist ESB reglur auk þess að gera tímasetta áætlun um það hvernig henni skuli hrint í framkvæmd fari svo að aðild verði samþykkt. Ef aðild verður ekki samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu þá verður áætluninni ekki hrint í framkvæmd. Þetta kemur meðal annars skýrt fram í viðtali Kastljóss þann 1. semptember við Stefán Hauk Jóhannesson aðalsamningamann Íslands í samningunum við Evróusambandið. Viðtalið má sjá hér:
http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4544920/2010/09/01/0/
Í þessu viðtali kemur skýrt fram að samningaferlið og aðlögunarferlið eru sitthvort ferlið. Aðlögunarferlið hefst eftir að búið er að samþykkja aðild Íslands að ESB og getur tekið allt að tvö ár. Það er fyrst eftir að því er lokið, sem við göngum formlega í ESB. Þetta ferli feri hins vegar ekki í gang ef aðild verður ekki samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það að þjóðaratkvæðagreiðslan verði ekki formlega bindandi gefur okkur ekkert tilefni til að óttast að við göngum samt inn í ESB þó aðild verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Í fyrsta lagi þá er mjög ólíklegt að ESB myndi vilj okkur inn ef aðild er hafnað í þjóðaratkvæðagreiðsl og í öðru lagi þá munu væntanlega flokkar með það kosningaloforð að segja okkur aftur úr ESB sigra í næstu þingkosningum þar á eftir ef ESB hefði geð í að taka okkur inn gegn vilja meirihluta þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Því fengi ESB einfaldlega úrsögn frá okkur eftir næstu þingkosningar.
4.9.2010 | 01:15
Athugasemd til Tryggva Gíslasonar sem er færi inn í mitt blogg
Tryggvi, þú ert einn af þeim mönnum sem ég hef fylgst með á minni löngu ævi, allar götur frá því þú varst fréttamaður á góðu gömlu gufunni og alltaf haft dágott álit á þér.
Að ofan kemur þú inn á eitt mikilvægasta hlutverk þeirra sem hafa verið kjörnir til trúnaðarstarfa á Alþingi. Ég veit, og það vitum við öll, að Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir tók við skelfilegasta búi sem nokkur Ríkisstjórn Íslands hefur fengið til úrlausnar. Þessi Ríkisstjórn hefur unnið þrekvirki en eflaust orðið oft á og ekki ráðið við öll verkefnin. Ég ber ómælda virðingu fyrir þeim Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni, það eru þau tvö sem með órofa samstöðu eru að draga okkur upp úr feni hrunsins. Mér finnst grátlegt að heyra og sjá stjórnarandstöðuna á þingi, þar er engin jákvæð rödd til, aðeins gamaldagsnöldur eins og best þótti á Hriflutímanum. Þó ég taki þannig til orða er ég þar engan veginn að vega að einum framsæknasta stjórnmálamanni Íslands fyrr og síðar, Jónasi frá Hriflu.
En stjórnarandstaðan á Alþingi er sífrandi hjörð vælukjóa sem halda að það eitt sé pólitík minnihlutans að vera sífellt á móti. Þeir eru vissulega samtaka þar Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins, Sigmundur Davíð formaður Framsóknarflokksins og Þór Saari talsmaður Hreyfingarinnar sem öllu ætlaði að breyta, allt ætlaði að bæta.
Af hverju hefur Framsóknarflokkurinn ekki bætt við sig nokkru fylgi í skoðanakönnunum?
Af því að maðurinn sem áttu mesta möguleika í íslenskri pólitík til að hefja sig yfir dægurþrasið og gefa íslenskri pólitík nýjan tón, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sökk á kaf í þraspyttinn og lítilmennskuna, hann eyðilagði gjörsamlega möguleika Framsóknarflokksins til að verða endurnýjað afl í íslenskri pólitík og byggja aftur á samvinnuhugsjóninni sem á tvímælalaust að endurreisa á Íslandi. En arftaki Jónasar, Hermanns, Eysteins og Steingríms kaus í þess stað að verða frosinn þrasbelgur sem hefur ekki bætt neinu við fylgi þess flokks sem kaus hann sinn foringja.
Sjálfstæðisflokkurinn er á algjöru valdi manns sem var eitt sinn glæstur foringi, Davíð Oddsson. Veikindi hans eru staðreynd, hann skilur ekki sinn vitjunartíma og þeir sem gerðu hann að ritstjóra Morgunblaðsins eru óhappamenn Íslands. Landfundur Sjálfstæðisflokksins sat skellihlæjandi undir ömurlegri ræðu Davíðs Oddssonar þegar bæði fyrrum fylgismenn hans og andstæðingar fylgdust með og hugsuðu það sama; hann átti skilið betra en að gera sjálfan sig að trúði
Og þessi sami landsfundur kaus aftur drenginn úr Garðabæ með silfurskeiðina í munninum sem formann sinn, drenginn sem í dag þorir ekki að kvaka eitt orð nema fá til þess leyfi frá Hádegismóum. Þetta er flokkurinn sem hafði ekki vit á því að kjósa sem foringja sinn þrautreyndan mann til sjós og lands, Kristján Þór Júlíusson fyrrum bæjarstóra og sjómann. Mann með þá reynslu sem er mikilvæg fyrir þann sem tekur að sér forystuhlutverk í íslenskri pólitík.
Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum á það fámenna lið sem telur sig til Hreyfingarinnar, Þetta ruglulið sem ætlaði öllu að bjarga en eru í dag ekkert annað en innantómir þrasbelgir sem koma ekki fram með eitt einasta jákvætt kvak.
En hvers vegna er ég að harma það að flokkar, sem ég fylgi ekki, hafa verið svo seinheppnir í að velja sér lélega forystu? Ætti ég ekki að vera ánægður með það að dusilmenni séu í forystu í mínum andstöðuflokkum?
Nei, svo langt frá því. Við þurfum öll á því að halda að hinir víðsýnustu og hæfustu séu í forystu í öllu þeim öflum og flokkum sem fulltrúa eiga á Alþingi. Það er höfuðnauðsyn til að við getum myndað öfluga Ríkisstjórn til að takast á við þau vandamál sem þjóðin glímir við.
Hinsvegar er ég nú svo gamall sem á grönum má sjá; mér finnst vandamál íslensku þjóðarinnar i dag ekki vera nema stormur í vatnsglasi miðað við hvaða erfiðleika var við glíma fyrr á árum.
Tryggvi, þetta átti aðeins að vera stutt athugasemd en orðið nokkuð lengri en ég ætlaði. Taktu það ekki illa upp þó ég afriti hana og lími inn í eigið blogg.
3.9.2010 | 11:18
Skæruliði sestur í Ríkisstjórn í annað sinn
Þessi tilraun, að vingast við skæruliða með því að bjóða honum til stofu, er dæmd til að mistakast. Ögmundur Jónasson er eitt allsherjar "ég, um mig, frá mér, til mín" maður sem hófst til áhrifa sem formaður BSRB, samtaka þar sem hann varð algjör einræðisherra, nokkuð sem var óhollt fyrir hans stóra egó. Guðrún Helgadóttir, fyrrum alþingismaður og forseti Alþingis, ber alla ábyrgð á því að Ögmundur varð þingmaður Alþýðubandalagsins, vann ætíð sem minnihlutamaður á Alþingi, það var hans staður, annað getur hann ekki.
Ég segi enn og aftur; þetta er dæmt til að mistakast að reyna að berja í brestina með því að lúta skæruliðanum og hans herflokki. Ögmundur er ekki eini skæruliðinn sem er innan borgarhliðsins, þar situr einnig erkiíhaldið Jón Bjarnason. Vera hans og framkoma í Ríkisstjórninni hefði átt að sýna Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra að þetta bragð, að taka Ögmund í Ríkistjórnina, getur engu breytt til batnaðar.
Hvernig hagaði Jón Bjarnason sér þó hann væri ráðherra í Ríkisstjórninni?
Jón Bjarnason gekk á mála hjá einræðisherra Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddssyni ritstjóra Morgunblaðsins. Lét birta forsíðuviðtal við sig í Morgunblaðinu þar sem hann fór með ósannindi og dylgjur um það út á hvað viðræðurnar við Evrópusambandið gengju. Þeir vissu það báðir, Jón og Davíð, að allt það sem Jón sagði efnislega um viðræðurnar var þvættingur og ég nota ekki sterkara orð en ósannindi og skrumskæling um máflutning Jóns.
Ætti þetta ekki að sýna að það er engin trygging á því að ráðherrar sýni Ríkisstjórninni hollustu og séu heiðarlegir í sínum störfum þó þeir séu ráðherrar? Dettur nokkrum manni það í hug annað en þannig, eins og Jón, muni Ögmundur Jónasson starfa?
Þetta er fullreynt, Vinstri grænir eru ekki samstarfshæfir í Ríkisstjórn. Kaldhæðnin er sú að minnihlutinn á Alþingi hefur ekkert að bjóða annað en þras og upphrópanir. Ef þessi Ríkisstjórn segir af sér er ekkert annað framundan, ef mynda á nýja Ríkisstjórn, en að Vinstri grænir og núverandi stjórnarandstaða myndi þá stjórn. Dálagleg framtíðarsýn eða hitt þó heldur!
Það var dapurlegt að hlusta á foringja stjórnarandstöðunnar á Alþingi í gær. Allt við það sama, gamla þrasið og bullið um að allt sé ómögulegt, hvergi örlaði á jákvæðum málflutningi.
Eru fylgjendur Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar stoltir af foringjum sínu?
1.9.2010 | 09:51
Björn Lomborg gengur í lið skattheimtumanna
Það er víst til lítils að ræða loftslagsmál lengur, svo rækilega er búið að "trylla lýðinn" lesist pólitíkusa heimsins með því endemisbulli að maðurinn sé þess megnugur að hækka hita á hnettinum. Mannskepnan hefur aldrei, sem betur fer, verið fær um slíkt og er þess vegna með öllu ófær um að lækka heimshitann að sjálfsögðu.
Björn Lomborg, danskur hagfræðingur, var lengi einn af þeim sem hélt fram heilbrigðri skynsemi í loftslagsmálum en hefur nú snúist á sveif með "stóra apparatinu", Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna, en segist hins vegar ekki hafa skipt um skoðun! En það liggja miklir peningar í "stóra apparatinu" sem hefur ekki hikað við að falsa vísindaniðurstöður. Þar má nefna Hokkýstafinn sem falsarin Michael Mann skapaði en hefur nú orðið að draga til baka og viðurkenna fölsun sína og sá yfirgengilega fráleiti spádómur að allir jöklar Himalaja verði bráðnaðir 2035 og hundruðir milljóna manna verði vatnslausar á Indlandsskaga! Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur orðið að viðurkenna að þessi kenning er ekkert annað en bull og fals.
Meðalhiti í heiminum hefur á þeim tíma sem þessi hnöttur hefur verið byggilegur ýmist hækkað eða lækkað og orsakirnar eru nær alfarið frá sólinni, þó hefur það áhrif hvar jörðin er í Vetrarbrautinni, hnötturinn er á stöðugri hreyfingu í Vetrarbrautinni, á ekki einhvern fastan punkt þar.
Það eru miklir hlutir að gerast í sólinni núna og þær miklu hræringar munu standa allt fram á árið 2012. Þessar hræringar hafa mikil áhrif á hnettinum, þangað má rekja ójafnvægið; skógarelda á vissum svæðum jarðarinnar en gífurleg flóð á öðrum, fellibylji, eldgos og jarðskjálfta.
30.8.2010 | 13:45
Sigurður Einarsson stundaði skothríð á eigin fætur
Í Fréttablaðinu sl. laugardag var heljarinnar viðtal við Sigurð Einarsson fjármálamann og fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings sáluga. Viðtalið tóku þeir Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri og Stígur Helgason blaðamaður. Að sjálfsögðu þurftu óvandaðir bloggarar að ráðast á þá tvo fyrir að upphefja Sigurð í "Baugsmiðli" sem er heiti sem Fréttablaðið verður að dragnast með ennþá. Það er engin ásæða til að ráðast á þá Ólaf og Stíg, mér fannst þeir spyrja nokkuð hvasst á köflum eins og tilefni var til. Sigurður Einarsson var einn af alalleikendum í bankahruninu og það er sjálfsögð skylda við almenning að hann svari áleitnum spurningum, en hafa verður í heiðri að enginn er sekur fyrr en hann hefur verið dæmdur sekur.
Viðtalið var hvorki meira ná minna en þrjár síður og tæplega hefur nokkur maður, sem ber hrunið mikla á herðum sér, fengið jafn gullið tækifæri til að rétta sinn hlut, koma fram af tilhlýðilegri auðmýkt, og reyna að fá almenningsálitið sér nokkuð hliðhollara en verið hefur.
En aldrei hefur nokkur maður, sem ber hrunið á herðum sér, klúðrað slíku tækifæri jafn rækilega og Sigurður Einarsson gerði á síðum Fréttablaðsins.
Sigurður Einarsson gerði allt rétt að eigin áliti, hann bar ekki nokkra ábyrgð á því að Kaupþingsbanki valt með braki og brestum. Allt sem þarna gerðist var "öðrum" að kenna. Að sjá setningar hafðar eftir stjórnarformanninum svo sem þessa:
"Hafi stjórnvöld talið að við hefðum átt að minnka, vaxa hægar eða til dæmis færa starfsemina eitthvað annað, þá hefðu þau mátt benda okkur á það. Það var aldrei gert"
Eða þetta:
"Hann nefnir til dæmis að þegar Kaupþing vildi koma sér út úr kaupunum á NIBC- bankanum í Hollandi. Þá hefði honum þótt æskilegt að fá bréf frá íslenska Fjármálaeftirlitinu, sem myndi í raun banna bankanum að ljúka kaupunum"
Rauði þráðurinn í viðtali Fréttablaðsins er sú veruleikafirring sem viðmælandinn Sigurður Einarsson sýnir. Það væri hægt að draga fram margt í svörum hans sem sýnir það, þessar tvær tilvitnanir eru aðeins brot af fráleitum flótta Sigurðar undir mottóin" ekki benda á mig".
Sigurði Einarssyni má líkja við ökumann sem ekur á 200 km hraða og veldur stórslysi. Eftir á er ökumaðurinn hissa og reiður og spyr "af hverju var lögreglan ekki búin að stoppa mig?
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar