Ég svaraði Þórhalli Heimissyni presti, sem ég ber virðingu fyrir, en því ekki að birta það beint á mínu bloggi?

Þú kemur mér á óvart Þórhallur með hvað þú ert afdráttarlaus í þínu máli eins og fyrirsögnin að þínum pistli ber vott um, að þessu finnst mér vera fengur að prestur fer ekki í felur. Svo þú vitir hvar ég stend þá sagði ég mig úr Þjóðkirkjunni fyrir nokkrum árum. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að öll trúarbrögð eru hjóm og hismi og voru fundin upp til að sefja lýðinn og ég er ekki hissa á að fólk í gegnum skelfingar fyrri alda þyrftu á einhverju að halda til að geta lifað af daglegar hörmungar.

Ég  var viðstaddur nafngjöf og skírn yndislegs drengs í dag, móðirin er stjúpdóttir míns elsta sonar. Presturinn fór með trúarjátninguna sem ég hef oft heyrt, en samt brá mér. Í henni lýsa menn yfir trú á guð, hans son Jesú og heilagan anda. Lengi hélt ég að kristin trú væri eingyðistrú, guðinn væri aðeins einn en þarna kemur fram að í kristinni trú eru þeir þeir þrír. Og ekki nóg með að kristnir menn eigi að trúa á þrjá guði heldur heyrði ég í fyrsta skipti, eða tók eftir, i að við eigum að trúa á þann fjórða.

Og hver skyldi það vera?

Jú, kristnir men eiga að trúa á heilaga kristna kirkju auk þessara þriggja guða.

Sem sagt, við eigum að lýsa því yfir að stofnun sú er hin látni brotlegi biskup, Ólafur Skúlason, var biskup yfir sé guðs ígildi og þar með fjórði guð kristinna manna.

Þórhallur, mér finnst margt af því sem þú ert að gera lofsvert, það gætirðu gert hvort sem þú ert prestur kristins safnaðar eða ekki.

En nú ætla ég að leggja fyrir þig samviskuspurningu sem ég á enga heimtingu á að þú svarir, kannski eru aðrir ábyrgari fyrir svarinu.

Við höfum í þjóðfélaginu gífurlega sterkt afl sem heitir Frímúrarareglan. Er það ekki nánast víst að allir þeir sem studdu Óaf Skúlason og reyndu að hylma yfir hans lífernu, meira að segja áður en hann var kjörinn biskup, sé samsvarin klíka í Frímúrarareglunni? Er Hjálmar Jónson dómkirkjuprestur í reglunni, er Pálmi Matthíasson í reglunni, er Vigfús Þór í reglunni og síðast er ekki síst; er núverandi biskup Karl Sigurbjörnsson í reglunni?

Mér finnst ekki úr vegi að þeir sem ég hef nefnt að framan svari undanbragðalaust.


Vilborg G.Hanssen leyfir ekki að gerðar séu athugasemdir við blogg hennar (nema vera útvalinn) og hikar þess vegna ekki við að fara með rangt mál

Þó ég hafi gagnrýnt Árna Pál Árnason félagsmálaráðherra þá læt ég ekki óhlutvanda bloggara komast upp með að vega að neinum ap ósekju, hvorki Árna Páli né öðrum. Kona sem nefnir sig Vilborg G. Hanssen vegur úr lokuðu búri sínu þegar hún fjallar um stjórn Íbúðalánasjóð og félagsmálaráðherra.

1. Hún segir að stjórn Íbúðalánasjóðs hafi verið búin að ráða Ástu Bragadóttur sem forstjóra Íbúðalánasjóðs. Það er rangt, stjórnin fól henni að gegna stöðunni  þar til forstjóri yrði valinn úr hópi umsækjenda. Ásta var einn af umsækjendum.

2. Stjórn ÍBLS reyndi að ráða samhljóða einn af fjórum umsækjendum sem töldust hæfastir, það tókst ekki.

3 Árni Páll Árnason félagsmálráðherra skipaði þá valnefnd til að meta umsækjendur, það er góð stjórnsýsla. Í valnefndinni eiga sæti Jón Sigurðsson (fv. formaður Framsóknar), Magnús Pétursson ríkissáttasemjari og dr. Tinna Laufey í HÍ. Þessi valnefnd ætti að vera yfir allan vafa um pólitíska fyrirgreiðslu ríkisstjórnarinnar eða annarra afla. Ásta Bragadóttir virðist hafa talið sig svo sjálfsagða í embættið, þar sem hún var beðin að gegna því tímabundið, að hún dró umsókn sína til baka.

Ef óhlutvandir bloggarar telja sig óhulta fyrir gagnrýni eða leiðréttingum með því að loka á athugasemdir þá eru til leiðir, eins og hér sést, til að ná til þeirra. 

Mitt blogg er öllum opið fyrir athugasemdum.

 


Eigum við Íslendingar allan arðinn af virkjunun okkar?

Eitt af því sem kom fram hjá Guðríði Lilju Grétarsdóttur, formanni þingflokks Vinstri grænna, þegar hún lýsi yfir eindreginni andstöðu við að útlendingur gæti eignast hlut í Magma Energy, var að þá mundu þessir útlendingur eða þetta útlenda fyrirtæki fá arð af sínu hlutafé, þá færi arður af íslensku orkufyrirtæki, virkjun, úr landi. Hún vildi að við Íslendingar ættum þetta orkuver og tryggja þar með að arðurinn yrði kyrr innanlands. Er þetta ekki gott og háleitt markmið, eigum við ekki Landvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur, Orkubú Vestfjarða svo nokkur séu nefnd. Er það ekki tryggt að allur arður af þessum orkufyrirtækjum verður kyrr í landinu? Er þetta ekki einfalt mál, það eiga engir útlendingar hlutafé í þessum fyrirtækjum svo þannig hlýtur það að vera eftir skilgreiningu Guðfríðar Lilju, svo engir útlendingar fá neinn arð af hlutafé í þessum fyrirtækjum.

Ég vildi að satt væri, að allur arður af öllum okkar orkufyrirtækjum yrði kyrr í landinu, það munar um minna.

En því miður. Við byggingu allra orkuvera Íslands þurftum við að fá lán í útlöndum, ekki aðeins að borga lánin aftur heldur einnig vexti á hverju einasta ári.

Eftir því sem ég veit best skulda íslensk orkufyrirtæki 600 milljarða króna í dag. Ekki veit ég hvernig skiptingin er milli innlendra og erlendra lána en mér finnst ekki óeðlilegt að erlendu lánin séu 500 milljarðar. Af þessum lánum þarf að sjálfsögðu að borga vexti. Hvað skyldi það vera háar upphæðir árlega?

Gefum okkur að erlendu lánin, 500 milljarðar, séu á 5% vöxtum. Hvað gerir það mikið í íslenskum krónum? Getur verið að það séu 25 milljarðar á ári sem við borgum úr landi árlega sem vexti?

Við getum allavega hrósað happi að við erum ekki að borga einhverjum útlendingum arð af áhættufjármagni, hlutafé, sem þeir vilja leggja í íslensk orkufyrirtæki.

Að vísu er það svo að framlagt hlutafé er áhætta þess sem það leggur fram, ef greiðslufall verður hjá orkufyrirtækinu verður það tap útlendingsins að eiga í því hlutabréf. En ef féð frá útlöndum er tekið að láni verður að greiða það til baka hvað sem tautar og raular.

En við Íslendingar viljum vera skilamenn svo það skiptir víst engu máli, ekki að mati órólegu deildarinnar hjá Vinstri Grænum.

Og þeir hafa hagfræðing í sínum hópi, sá hlýtur að vita sínu viti eða hvað?


Nátttröllið glottir

Það er langt síðan ég fór að líta á Lútersku þjóðkirkjuna sem Nátttröll í íslensku þjóðfélagi. Ég sagði mig úr henni af því að ég er algjörlega andvígur því að hér séu þjóðnýtt trúarbrögð sem ALLIR eru skráðir inn í við fæðingu  og einnig að ég er algjör guðleysingi, trúi ekki á þessa þrjá guði kristinnar trúar, Guð, Jésú og heilagan anda. Ég tel sjálfsagt að hver og einn fái að velja sín trúarbrögð eða trúleysi og ég held að það sé ekki hjá því komist að ríkið styrki trúfélög að einhverju leyti. En þá veður það að vera á algjörum jafnréttisgrundvelli. Þess vegna er þessi gamli arfur, Nátttröllið Þjóðkirkjan með öllu óþolandi, þetta er arfur frá fyrri öldum þegar Kristnar kirkjur, fyrst kaþólska kirkjan og eftir "siðaskiptin" lúterska kirkjan höfðu ótrúleg völd hérlendis og víðar og sópuðu til sín löndum og lausum aurum með glæpsamlegri starfsemi, því verður ekki neitað með rökum.

Nú stöndum við frammi fyrir því að biskup lúterskra hérlendis, sem er látinn, er uppvís að því að hafa verið barnaníðingur og ofbeldismaður gagnvart konum. Sú skelfilega vitneskja að þegar hann var hafinn á æðsta stall Þjóðkirkjunnar vissu margir innan stofnunarinnar, Nátttröllsins, hvað mann þessi einstaklingur hafði geyma; samt var hann kjörinn biskup.

Einn af þeim sem brá skildi fyrir hinn brotlega prest sem var kjörinn biskup var arftaki hans, Karl Sigurbjörnsson, sem nú ber titilinn "Biskup Íslands" minna má það ekki vera. Ef þetta Nátttröll, Íslenska þjóðkirkjan væri ekki á sérstöku framfæri ríkisins og þjóðarinnar allrar, stæði sjálf undir framfærslu sinni, mundi ég ekki skipta mér af því hvaða misheppnaðir einstaklingar stýrðu Nátttröllinu. En ég fæ ekki séð hvernig Karl Sigurbjörnsson, sem er í rauninni ríkistarfsmaður, ætlar að sitja áfram í þessu embætti með þessum mikilúðlega titli.

Hann er rúinn trausti og ætti að segja af sér á stundinni.

Eitt af því sem væntanlegt Stjórnlagaþing þarf að taka á er að skafa burt allt sem  stendur í núverandi Stjórnarskrá um Íslenska þjóðkirkju, það er eitt af mörgum málum sem hreinsa þarf út.

Burt með þjóðnýtt trúarbrögð á Íslandi, burt með trúarstofnun sem allir Íslendingar eru sjálfkrafa skráðir inn í við fæðingu og eiga þaðan tæpast útgönguleið.

Ef menn segja að útgönguleiðirnar séu greiðar ættu þeir fyrst að minnast frelsishetjunnar Helga Hóseassonar!


Ég hef átt samleið með Hitaveitu Reykjavíkur í meira en hálfa öld

Fyrst þegar ég fór að venja komu mína til Hitaveitu Reykjavíkur var skrifstofa og afgreiðsla Hitaveitunnar  í íbúðarhverfi, nánar til tekið við Drápuhlíð í Hlíðahverfinu í Reykjavík. Jóhannes Zoega var þá forstjóri Hitaveitunnar og kynntumst við Jóhannes vel og leyfi ég mér að segja að öll okkar kynni voru hin bestu. Jóhannes stjórnaði þeirri miklu uppbyggingu Hitaveitunnar sem hófst um 1960 þegar Geir Hallgrímsson varð borgarstjóri.

Hitaveita Reykjavíkur vann það grettistak að leggja hitaveitu í alla Reykjavík innan Hringbrautar á stríðsárunum, nokkur hús höfðu áður átt kost á heitu vatni úr Laugardal en eftir það átak varð alger stöðnun, ekkert frekar gert í útvíkkun hitaveitunnar fyrr en þeir Geir og Jóhannes komu til skjalanna. Ég var einn af þeim bæjarfulltrúum í Bæjarstjórn Kópavogs sem vildi taka þá stefnu að semja við Hitaveitu Reykjavíkur um að Hitaveitan legði hitaveitu um allan Kópavog án nokkurra fjárútláta af hálfu Kópavogs en vissulega voru þau sjónarmið á lofti að stofna eigin hitaveitu í Kópavogi, leita eftir vatni í bæjarlandinu og leggja síðan hitaveitu með stórfelldum lántökum. Þessi stefna varð undir sem betur fer en hafði það í för með sér að þáverandi meirihluti í Bæjarstjórn sprakk en stefnan um samninga við Hitaveitu Reykjavíkur varð ofan á. Þannig var Kópavogsbúum forðað frá því að taka á sig drápsklyfjar af skuldum sem langan tíma hefði tekið að komast út úr. Síðan fóru Garðabær, Hafnarfjörður og Bessastaðahreppur að okkar dæmi og þannig urðu allir íbúar höfuðborgarsvæðisins aðnjótandi þessara mestu gæða sem Ísland á; að hita upp hús sín með jarðvarma, orkugjafa án allrar mengunar.

Eftir að Jóhannes lét af stjórn sem forstjóri Hitaveitu Reykjavíkur tók Gunnar Kristinsson við, mætur maður sem ég átti hin bestu samskipti við. Síðan byggði Hitaveita Reykjavíkur aðalstöðvar sínar við Grensásveg, þar var rúmt um alla starfsemi og ég held að allir hafi unað glaðir við sitt. Þessir heiðursmenn, Jóhannes Zoega og Gunnar Kristinsson er báðir látnir.

Svo kom að því að hitaveitan, vatnsveitan og holræsakerfið í Reykjavík voru sameinað undir einn hatt. Guðmundur Þóroddsson vatnsveitustjóri tók við stjórn í hinu sameinaða fyrirtæki. Allan þann tíma frá því hin stórfellda uppbygging og útbreiðsla hitaveitunnar hófst var Hitaveita Reykjavíkur og síðan hið sameinaða fyrirtæki, Orkuveita Reykjavíkur, mjólkurkú sem skilaði eiganda sínum umtalsverðum arði.

En nú er öldin önnur, mjólkurkýrin mjólkar ekki lengur, Orkuveita Reykjavikur er skuldum vafið fyrirtæki á barmi greiðslufalls.

Hvað gerðist?

Vissulega var farið í nýjar stórframkvæmdir. Nesjavallavirkjun byggð sem framleiðir bæði rafmagn og heitt vatn, virkjun sem var hagkvæm í alla staði og er búin að borga sig. Síðan kemur Hellisheiðarvirkjun sem enn sem komið er framleiðir aðeins rafmagn, ekki heitt vatn einnig, nýtir aðeins 15% af jarðorkunni í stað 85% eins og Nesjavallavirkjun. Þá voru tekin mikil útlend lán og síðan kom hrunið.

Er það eina skýringin á slæmri stöðu OR, útlendu lánin?

Þau eru þyngst en því verður ekki á móti mælt að hjá OR hófst flottræfilsháttur í rekstri sem ekki mátti síður rekja til pólitíkusa en stjórnenda OR. Skýrasta dæmið um það er hið skelfilega hússkrímsli við Bæjarháls. Ekki veit ég hvað það er stórt en þó tekið sé tillit til að hitaveita, vatnsveita og holræsakerfi hafi verið sameinuð í eitt,  er ekki lítil þensla í húsnæði og mannafla frá Drápuhlíð til Bæjarháls. Bruðlið við byggingu hússins við Bæjarháls var með eindæmum, að bruðla þar endalaust með fjármuni almennings er ófyrirgefanlegt og afurðin er einhver ljótasta og óhagkvæmasta bygging sem risið hefur hér á landi á undanförnum árum.

Síðasta kjörtímabil var eitthvert svartasta tímabilið í pólitískri sögu Reykjavíkur frá upphafi. Forystuna um þá niðurlægingu hafði Sjálfstæðisflokkurinn. Til að reyna að hreinsa sig völdu kjörnir fulltrúar að gera  Guðmund Þóroddsson forstjóra að blóraböggli og hann rekinn og Hjörleifur Kvaran ráðinn í staðin, hafði áður verið lögfræðingur fyrirtækisins og þar áður Reykjavíkurborgar. Nú hefur Hjörleifur verið látinn taka pokann sinn, en hverju breytir það, er verið að finna nýjan blóraböggul?

Alla starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur þarf að taka til gagngerðrar endurskoðunar. Leitun mun á fyrirtæki á Íslandi sem hefur eins tryggan rekstrargrundvöll, hefur nánast einkarétt á að reka hitaveitur á Suð-vesturlandi nema á Reykjanesi.

Um langan aldur mun skrímslið við Bæjarháls verða minnismerki um hvernig kjörnum fulltrúum, sem áttu að gæta hagsmuna almennings, tókst að klúðra málum gersamlega með bruðli og gífurlegri skuldsetningu.

Megi "Skrímslið" verða öllum viðvörun um aldur og ævi.


Stundum nær bullið nýjum hæðum

Ég ætla að birta hér á mínu bloggi pistil eftir konu eina (ætla ég) sem nefnir sig "Benedikta". Mér finnst ekki úr vegi að sýna hverskonar bull kemur frá þeim sem hæst láta í djöfulgangi gegn núverandi Ríkisstjórn. Hvort þessi "Benedikta" gefur mávum við Stjórnarráðið eða lemur pottlok við Seðlabankann veit ég ekki, en mér finnst hún smellpassa inn í  rugluliðið sem þar emjar, veinar og æpir.

Pistillinn er svar hennar við athugasemd sem ég setti inn á hennar blogg. Ég mun láta það vera framvegis enda vesalings manneskjan ekki viðræðuhæf.

Og hefst þá lesturinn:

Benedikta E: Sæll Sigurður. Svo þú ert ánægður með svikráð ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms. Þeim fækkar óðfluga kjósendum þeirra sem þakka þeim sviknu kosningaloforðin. Hefur þú orðið var við - Skjaldborg heimilanna - NEI - svikið kosningaloforð Jóhönnu -  en aðeins eitt af mörgum. Skjaldborg Jóhönnu fór yfir nýríka einkavini Jóhönnu úr útrásinni - banka og fjármögnunarfyrirtæki. Slagorðapólitíkusinn Jóhanna efnir engin loforð - það hefur hún víst aldrei gert á sínum 30 ára stjórnmálaferli. - Fólk flýr land í þúsunda vís - ekki er það vegna velsældar ........... - Síðustu tölur atvinnulausra 16 þúsund - burt flúnir atvinnulausir eru ekki inni í þeirri tölu - Holskefla uppboða á heimilum fólks - Eignaupptaka í stórum stíl á bílum - atvinnutækjum og  vélabúnaði - smá fyrirtæki og meðalstór keyrð í þrot Höfuðstóll lána myntkörfu og verðtryggða lána stökkbreyttir ekkert aðhafst frá stjórnvöldum í því. Lýðurinn á - "Bara borga". Aðför stjórnvalda að öldruðum og öryrkjum - lögbundnar tengingar  lífeyris við launa og verðhækkanir afnuminn með einu pennastriki fyrir 2009 og 2010 af ríkisstjórn Jóhönnu. Atvinnu uppbygging engin - Vaxta og verðhækkanir stjórnlausar. Fátækt fer ört vaxandi - stækkandi hópur fólks sem ekki hefur í sig né á. Enginn niðurskurður hjá stjórnsýslunni en stöðugt hert að lýðnum. Forgangsröðun verkefna hjá Jóhönnu stjórninni  er vægt sagt mjög óábyrg og skrítin - ESB - Æsseif - AGS Það eru til peningar fyrir öllum hugðarefnum Jóhönnu  - ef ekki þá bara að taka lán - skuldsetja þjóðina upp í rjáfur fleiri kynslóðir til framtíðar. Lygina - blekkingarnarog hræðsluáróðurinn sem sífellt  er steypt yfir fólk sýna best vanhæfni stjórnvada sem valda ekki verkefninu og eiga að víkja - STRAX - Þetta eru staðreyndir Sigurður - þú getur varla mótmælt því þar sem þú lifir í þessu landi. 

Nei Benedikta, ég mun ekki mótmæla þessu bulli þínu, þú mátt eiga það óskert fyrir mér.   


Jón kemur ekki á óvart en Svandís svo sannarlega

Fjölmargir kalla núverandi Ríkisstjórn "vinstri stjórn" og eftir gömlum viðmiðunarreglum er þetta satt og rétt, eða hvað? Það er því lyginni líkast að einn ráðherra þessarar vinstri stjórnar er eitthvert rammasta afturhald sem sest hefur í ráðherrastól og er þó við marga að etja í þeirri samkeppni.

Maðurinn heitir að sjálfsögðu Jón Bjarnason, fyrrum skólastjóri Bændaskólans á Hólum og þótti standa sig vel í því starfi. En hugur Jóns stóð til frama í pólitík og hann valdi að starfa í Samfylkingunni. Ekki minna en þingsæti kom til greina í framapoti Jóns og hann hellti sér út í prófkjör en varð að lúta í lægra haldi fyrir öðrum núverandi ráðherra, Kristjáni Möller.

En Jón dó ekki ráðalaus, hann snaraði sér yfir landamæri flokka og dúkkaði upp í prófkjöri Vinstri grænna fyrir þá komandi  Alþingiskosningar. Hvað fleyið hét sem Jón sigldi á skipti ekki máli, aðalatriðið var að ná landi við Austurvöll.

Og það tókst, síðan hefur Jón verið þingmaður Vinstri grænna og ekki nóg með það; sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í núverandi Ríkisstjórn. Ekki geri ég mér grein fyrir á hvað vegferð Jón er sem sjávarútvegsráðherra en sem landbúnaðarráðherra er hann líklega að slá met í íhaldssemi og varðhundastöðu. Hann lýsir yfir af tröppum stjórnarráðins að hann standi vörð um Bændasamtökin og alla þá innmúruðu íhaldssemi sem þar þrífst og hefur lifað á miklum styrkjum frá landsmönum öllum, telur alla gagnrýni á eigin íhaldsmennsku árás á íslenska bændastétt.

Íslenskur landbúnaður getur átt góða framtíð, ekki síður innan ESB en utan, og öll viljum við halda landinu sem mest í byggð. En til að svo geti orðið verður að losa bændastéttina við það helsi sem afturhald allra tíma hefur hengt á hana. Margskonar nýjungar hafa sprottið upp hjá sumum bændur í úrvinnslu eigin afurða, er það ekki leiðin ásamt mikilli fjölbreytni í ferðaþjónustu bænda?

En er ekki hinn íhaldssami ráðherra Jón Bjarnason svo upptekinn af verndum gamalla þröngra sjónarmiða að hann er jafnvel tilbúinn til að bregða fæti fyrir vaxtarsprotana?

Konur hafa prýtt sæti Umhverfisráðherra í síðustu Ríkisstjórnum. Allir muna framgöngu Þórunnar Sveinbjarnardóttur í ísbjarnamálunum og sem betur fer sat Kolbrún Halldórsdóttir ekki lengi á stóli. Þá kom til skjalanna hin skelegga Svandís Svavarsdóttir sem hafði staðið vel vaktina sem borgarfulltrúi Vinstri grænna í Reykjavík.

En nú nýverið bárust hrikalegar fréttir frá valdstofnunum sem undir Svandísi heyra svo sem Umhverfisstofnun og Landgræðslu ríkisins. 

Sú óheyrilega gjörð að útrýma lúpínu í Þórsmörk með EITRI hefur tæplega verið gerð án samþykkis þess sem æðstur er í valdapíramídanum, Svandísar Svavarsdóttur ráðherra.

Í hvað veröld lifum við? Á hvaða landi lifum við? Er það ekki á Íslandi þar sem við þurfum lífnauðsynlega á öflugustu landgræðslujurt sem fyrirfinnst, lúpínunni, að halda?

Eitt er að hefta útbreiðslu þessarar þörfu jurtar en að fara út í íslenska náttúru og hefja eyðingu gróðurs með EITRI er ekkert annað en glæpsamlegt athæfi.

Þeir sem bera ábyrgð á slíku  eiga að svara til saka að fullu. 


Íslensku þjóðinni er engin vorkunn, það er verið að hífa hana upp úr kviksyndinu sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sökktu henni í

Það styttist í það að ég haldi upp á mitt 76 ára afmæli. Sá sem hefur lifað svo langa ævi hefur séð margt, upplifað margt og reynt margt. Stundum voru lífskjör alþýðu manna ömurleg, lífsbaráttan hörð.

Í dag er emjað og veinað yfir lífskjörum á landi hér eftir hið skelfilega klúður sem hægri stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks kom þjóðinni í. Núverandi Ríkisstjórn, sem enn heldur saman þrátt fyrir Ögmund og últraliðið í Vinstri grænum, hefur lyft Grettistaki undir forystu Jóhönnu og Steingríms þrátt fyrir hælbítahjörðina sem um þau og Ríkisstjórnina situr:

Gott og vel hvernig er þá ástandið í dag?

   Gengi íslensku krónunnar hefur ekki verið styrkara í lengri tíma.
-       Verðbólgan ekki verið minni í tæp 3 ár - komin niður í 4,7%.
-       Hagvöxtur hefur mælist tvo ársfjórðunga í röð.
-       Kaupmáttur hefur aukist í fyrsta sinn á ársgrundvelli frá því eftir hrun.
-       Atvinnuleysi er mun minna en spáð var og hefur atvinnulausum fækkað frá því á sama tíma í fyrra. 7.5% atvinnuleysi mældist í júlí en það var 8% í júlí 2009
.

Getur hælbítahjörðin mótmælt þessu með rökum? 


Hundarnir í Riga (og Reykjavík)

Henning Mankell sænski krimmahöfundurinn getur verið fjári góður stundum en á það til að verða nokkuð langorður. Ég var að enda við sögu hans "Hundarnir í Riga" þar sem sögusviðið er í Ystað á Skáni en ekki síður í Riga höfuðborg Lettlands þegar alræði kommúnistaríkjanna er að falla. Söguþráðurinn þegar kemur yfir til Riga er með ólíkindum en gæti hann ekki hafa verið það eins og mál voru þar að þróast?

En það er víðar en í Riga sem hælbítahjörðin fer af stað og ekki er furða að menn eins og Jón Valur, Jón Magnússon og Páll Vilhjálmsson fari þar fremstir ef þeir telja sig finna blóðbragð. Það eru starfshættir þessara hælbíta að velja sér einhverja opinbera persónu sem hafi farið inn á grátt svæði, sú persóna skal að velli lögð hvað sem það kostar.

Ekki er langt síðan úlfahjörðin fór vælandi af stað gegn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra vegna einhverra óskilgreindra afskipta hennar af launamálum Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Þar voru ekki aðeins á ferð lítilsigldir bloggarar heldur peð á Alþingi einnig. Þar fór fremstur í flokki baróninn í Sjálfstæðisflokknum, Sigurður Kári Kristjánsson. En hvar endaði gjammið? Það hjaðnaði all skyndilega og Jóhanna stóð jafn keik á eftir.

Nú er hjörð hælbítanna heldur betur búin að finna blóðbragð og sá "seki" er Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra. Honum er gefið að sök að hafa sagt Alþingi ósatt, sumir tala um lygi. Ég hef reynt að átta mig á þessu máli og get engan veginn séð að Gylfi hafi sagt ósatt. Hann taldi að lán í erlendri mynt væru þá lögleg og líklega eru þau það ennþá, en tók fram að um álitamálin að greiða af þeim eftir gengi krónunnar yrðu dómstólar að fjalla um sem síðan var gert og hefur Hæstiréttur nú kveðið upp endanlegan dóm. Ekki er ólöglegt að lána í erlendri mynt en ólöglegt að greiða af þeim í íslenskum krónum eftir gengi á hverjum tíma. Hæstiréttur fjallaði  ekki um hvaða vexti skyldi greiða af þessum lánum eftir dóminn en þar hefur Héraðsdómur Reykjavíkur fellt dóm, ekki ólíklegt að það fari fyrir Hæstarétt.

Ég spái því að þessi "herferð" gegn Gylfa Magnússyni endi á svipaðan hátt og herferðin gegn Jóhönnu um laun Seðlabankstjóra, herferðin koðni niður og verði að engu. 

Ég er ekki í nokkrum vafa um að ég verði vændur um að verja allt sem núverandi Ríkisstjórn og ráðherrar hennar gera. Því ætla ég að svara fyrirfram og benda á að mér finnst sjálfsagt að gagnrýna einstaka ráðherra þegar sönn átæða er til að mati þess sem málefnalega gagnrýnini setur fram. Ég hef verið ómyrkur í máli um einstakar stjórnarathafnir tveggja flokksbræðra minna í Ríkisstjórn, þeirra Árna Páls Árnasonar félagsmálaráðherra og Kristjáns Möller samgönguráðherra. Ekki þarf að fara langt niður eftir mínu bloggi til að lesa gagnrýni á þessa tvo ráðherra. Mér finnst efni standa til þeirrar gagnrýni, hún er ekki til komin af því að reyna að koma höggi á viðkomandi.

Ég ætla að geyma mér frekari gagnrýni á tvo ráðherra aðra í Ríkisstjórninni, en þeir hafa með starfsháttum sínum gengið fram af mér með fráleitum vinnubrögðum.. 


Guðlaugur Þór vaknar eftir dúk og disk á miðjum Suðurlandsvegi

Guðlaugur Þór alþingismaður virðist eiga greiðan aðgang að Ríkisútvarpinu. Viðtal við hann um Suðurlandsveginn í hádegisfréttum  Útvarpsins í dag og síðan viðtal um sama efni í Sjónvarpinu um kvöldið. Það sem hann sagði um þetta verkefni var vissulega rétt svo langt sem það náði. Hann spurði réttilega af hverju Suðurlandvegurinn væri byggður 2+2 en ekki 2+1 sem er mun ódýrara, skapar ekki minna umferðaröryggi.

En hvar hefur Guðlaugur Þór verið undanfarin tvö ár?

Átökin um val á gerð Suðurlandsvegar fór fram á öndverðu ári 2008. Þá var mikil móðursýki í pólitíkusum og fleirum austan Hellisheiðar og þá var barið í gegn að Suðurlandvegurinn skyldi verða 2+2. Ég beitti mér nokkuð fyrir því að vegurinn yrði 2+1 þar sem þar var um góða lausn að ræða, 2+2 yrði þrefalt dýrari en 2+1.

Í byrjun febrúar árið 2008 hélt Lýðheilsustöð fund um Suðurlandsveginn á Grand Hótel í Reykjavík. Við sem komum frá Selfossi og Þorlákshöfn urðum nokkuð sein á fundinn vegna ófærðar en ef mig minnir rétt þá var það þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór, sem setti fundinn en hvarf síðan strax af vettvangi. 

Haraldur Sigþórsson verkfræðingur á Línuhönnun flutti ítarlegt erindi um þessar tvær vegagerðir, 2+2 og 2+1.  Í máli hans kom fram að reikna mætti með að 2+2 væri þrefalt dýrari framkvæmd en 2+1 sem væri fyllilega jafn öruggur vegur samt. Gerð 2+1 vegar eykst víðast hvar á kostnað 2+2, sérstaklega væru Svíar þar í farabroddi og Bandríkjamenn væru farnir að kynna sér ítarlega rök Svíanna og taka upp þeirra stefnu í vegamálum.

Ég var fyrstur upp á eftir frummælendum og hélt fram rökunum fyrir 2+1, það sama gerðu Brynjólfur Mogensen slysavarnarlæknir og Sigurður Guðmundsson landlæknir. En ýmsar háværar raddir frá Suðurlandi heimtuðu 2+2, ekki kæmi annað til greina.

Og það varð ofaná, stefnan var tekin á 2+2 veg milli Reykjavíkur of Selfoss þrátt fyrir að Vegagerðin vildi taka stefnuna á 2+1, fá öruggan veg á 1/3 kostnaðar.

En takið eftir: Þessi umræða fór fram árla árs 2008 áður en hrunið mikla skall á. 

Núna er verið að ganga til samninga við verktaka um fyrsta kaflann, frá Lögbergi að Litlu kaffistofunni, vegurinn skal vera 2+2.

Hefur ekkert breyst eftir hrunið? Datt engum í hug að ef til vill væri rétt í fjárhagslegri stöðu þjóðfélagsins að horfa svolítið í kostnaðinn? Klingdu engar bjöllur hjá ráðamönnum? Hvernig stendur á því að þingmaður kemur nú af fjöllum eins og jólasveinn í desember og veit greinilega ekkert hvað hefur verið að gerast síðustu 2 árin? Af hverju hljóp hann burtu af fundinum forðum og gleymdi málinu síðan gersamlega þar til hann virðist vakna nú þegar verið er að undirskrifa verksamning um fyrsta áfangann. Hann er tæknilega 2+2 svo þeir sem tóku ávörðun um að láta þá sóun standa virðast ekki vera í tengslum við ástandið í þjóðfélaginu.

Sá sem ber mesta og þyngsta ábyrgð á því að vegagerðinni var ekki breytt í  2+1 og 1/3 hluti kostnaðar er Kristján Möller samgönguráðherra. Hann tók snemma þá ákvörðun að fylgja flottræfilshætti ákveðinna Sunnlendinga sem með því reyndu að slá sig til riddara í pólitískum tilgangi. Það er vart hægt að segja annað en það eru embættisafglöp Kristjáns Möllers að hafa ekki tekið í taumana og stöðvað þessa óheyrilegu sóun sem lögn 2+2 vegar milli Reykjavíkur og Selfoss er.

Guðlaugur Þór, ætti bara að sofna aftur og umfram allt: láta sig hverfa fyrir fullt og allt af Alþingi. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband